Færsluflokkur: Lífstíll

Lokaleggur 2006 til Brussel.

Klúbbhús BRYCÞað er orðið langt síðan ég blogaði ferðasöguna inn síðast. Búið að vera mikið að gera. Er að kenna 9 klst. í viku auk þess að ég lét véla mig til að taka þátt í að undirbúa framboð eldri borgara en dró mig snarlega í hlé frá því þegar ég sá hvernig allt var í pottinn búið. Held því áfram að segja ykkur frá siglingunni.

 

Við fórum frá Antwerpen kl. 0945, mánudaginn 4. september og nú áleiðis til vetrarlegu fyrir Lilju Ben í Brussel. Fórum við samferða 5 báta flota út um brúarlokurnar sem þurfti að opna fyrir okkur áður en við komumst út í Antwerpenhöfnina sjálfa og stefndum nú í fyrstu slússuna, sem var sú sama og við fengum ekki að fara í fyrir nokkrum dögum nema hafa FD númerið, en nú höfðum við það. Sigldum við í fögru veðri norður eftir höfninni framhjá stórskipum veraldarinnar á bæði borð. Þegar við komum svo að slússunni þar, sem hleypa átti okkur niður á Zeechelde fljótið sem liggur svo áfram niður til Rupel fljótsins, voru viðskipti okkar við “Boudewijnsluis mun eðlilegri en þegar við ætluðum þar um áður. “Boudewijnsluis this is mororyacht Lilja Ben, I repeet Lima India Lima Juliett Alfa, space, Bravo Echo November, FD number 93150, asking for permission to enter the sluis from SE”. Nú kom svarið næstum um hæl “Lilja Ben, please enter the North sluis after the ship now proceeding and moore at the port side” Eftir að hafa kvittað fyrir fyrirmælin sigldum við nú inn í slússuna og gekk auðveldlega að koma okkur fyrir við bb. vegginn, fram með mjög stórri flutningalegtu sem lá við stb. kantinn. Fyrir aftan okkur kom nú annað skip og lagðist líka við bb. kantinn og síðan fóru slússulokurnar að lokast. Meðan við biðum eftir að yfirborðið lækkaði í það sama og á fljótinu fyrir framnan, kom kona úr áhöfn legtunnar sem var við hliðina á okkur og bað okkur að fara fyrst út þegar opnað verður. Var ég ósköp ánægður með það því þá losnaði ég við skrúfukastið frá honum. Þegar lokurnar í slússunni voru svo opnaðar tókum við stefnuna sem leið liggur suður eftir Zeechelde og var nú siglt meðfram miðborg Antwerpen á bb. en framhjá Yachthöfninni Marina á stb. hönd og sáum við ekki eftir að hafa fyrir misskilning lent í Willemdoc í stað Marina vegna þess hvað við hefðum þá orðið meira útúr.

 

Eftir um klukkustundar siglingu komum við á Rupel og sigldum smá spotta upp hana þar til komið var að slússunni sem leiðir inn í Kaanal van Willeroek og áfram í Zeekanaal Brussel- Schelde. Aðeins þurftum við að bíða eftir að komast í slússuna en síðan var siglt inn. Þegar við vorum lögst við stb. vegg slússunnar var ég spurður að því hvort ég hefði s.k. “yeelow card” og kom alveg af fjöllum, en þar sem ég var ekki með það var ég beðinn um að koma upp í stjórstöðuna. Þurfti ég nú að klifra upp allan slússuvegginn og arka upp í stjórnstöðina. Þegar þangað kom kom í ljós að ég þurfti að greiða 6 mánaða aðgangsgjald fyrir kanala slússur og brýr í Belgíu og fá þetta “yellow card” sem staðfestingu þess. Var snarlega gengið frá því, greiddar 25 Evrur og þar með fenginn ótakmarkaður aðgangur að allri þessari þjónustu. Eftir þessa slússu héldum við áfram ferð okkar til suðvestur eftir kanalnum og var nú Brussel framundan. Eftir því sem við nálguðumst borgina fór það ekki framhjá neinum að þéttbýli jókst meðfram bökkum kanalsins og stærri og stærri hluti af bökkum hans fór undir legukanta fyrir flutningalegtur, vörugeymslur, gámavelli og verksmiðjur. Við þurftum að fara í gegnum aðra slússu sem er í úthverfi Brussel og heitir Zemst og mikill fjöldi var af brúm sem opna þurfti fyrir okkur á leiðinni. Var því farið að tegjast úr deginum eftir því sem við þokuðumst sunnar. Við áttum að fara framhjá yachthöfn í Vilvoorde sem rétt norðan við Brussel en þegar við sigldum þar framhjá henni þótti okkur ekki það mikið til hennar koma að það borgaði sig að stoppa þar. Þegar hér var komið sögu vorum við ekki farin að skoða hafnir sem við ætlum að nota, á Google Earth, en það gerum við núna til að kanna hvort þær séu þess virði að leggjast þar inn. Fórum við því að byrja að hafa áhyggjur yfir að nú gæti verið að yachthöfnin í Brussel sé kvorki fugl né fiskur og við orðin þreytt eftir langan dag og viljum fara að finna gott legupláss.  Svo kom höfnin loksins í ljós og mikið lifandis ósköp vorum við fegin að sjá að þetta er alveg sómastaður og renndum við beint upp að gestabryggjunni og bundum vel. Var kl. þá orðin 1805 svo við vorum búin að vera á ferðinnni í tæpa 9 klst. Eftir að búið var að átta sig á alllri þjónustu og umhverfi snæddum góðan kvldverð og létum líða úr okkur í hlýju kvöldloftinu í Brussel, áður en við lögðumst til náða.


Antwerpen

Dómkirkjan í Antwerpen

Myndin er samkvæmt gömlu málverki af dómkirkjunni í Antwerpen.

Í Antwerpen lágum við frá föstudeginum 1. til mánudagsins 4. september, enda frábær staður fallegt, þrifalegt og rólegt. Öll aðstaða fyrir bátafólk er þar eins og best verður á kosið. Eins og áður segir var aðeins 10 til 15 mín. gangur í miðbæinn. Gengið er fyrst í gegnum innflytjendahverfi sem virðist aðallega byggt austurlensku fólki, framhjá “rauðri” vændiskvennagötu og rétt á eftir er komið í iðandi mannlíf göngugatna og torga með verslunum, veitingastöðum og götulistamönnum við hvert fótmál. Notuðum við  allan laugardaginn til að skoða okkur um í borginni og rápa á milli veitingahúsa, sem teygja borð sín og stóla út á gangstéttir og stræti, og njót þess sem fyrir augu bar, en af nógu var að taka. Allstaðar var mikið mannlíf, gjörningar í gangi og götusýningar sem misgaman var að fylgjast með. Deginum lukum við svo með góðum kvöldverði á veitingastað við aðaltorg borgarinnar ,Grote Markt, fyrir framan eina af stærstu dómkirkjum Evrópu. Við vorum fyrr um daginn búin að fara upp í smávöruverslun í innflytjendahverfinu, rétt ofan hafnarinnar og kaupa í matinn svo við þurftum ekki á því að halda fyrir lokun verslanna. Þarna er nefnilega ekki búið að taka upp þann Bandarísk- Íslenska ósið að hafa verslanir opnar fram eftir kvöldi heldur loka allir kl. 1800.

 

Það var byrjað að skyggja þegar við gengum heim um kvöldið og það merkilega var að ekki varð vart neinna óþæginda hjá okkur þótt við þyrftum að ganga um þröngar og síður þrifalegar götur innflytjendahverfisins, með verslunargötur lifandi holds á aðra hönd, því einhvernveginn var allt yfirbragð fólksins og umhverfisins elskulegt og afslappað.

 

Sunnudaginn 3. notuðum við svo til að þvo og þurrka “stórþvott” í vélum hafnarinnar og eitthavð finnur maður sér alltaf til dundurs um borð á meðan. Á bakkanum fyrir ofan höfnina er yachtverslun, sem ég var búinn að athuga að er opin á sunnudögum milli kl. 1000 og 1400 og notaði ég tækifærið til að kaupa þar einn fendara til viðbótar og kort fyrir áframhald siglingarinnar. Fórum við svo aftur í borgarrölt seinnipart dagsins. Var ákveðið að taka næsta legg daginn eftir og sigla þá niður til Brussel og var siglingaáætlunin því unnin um kvöldið. Ræddi ég við Hafna um brottför að morgni og komum við okkur saman um að við færum út úr Willemdoc þegar brúnni verður lyft kl. 0930. Mánudagurinn beið með sínar væntingar og vissum við að sú leið sem framundan var er flókin og erfið vegna brúnna sem verður að fá opnaðar fyrir sig, slússunnar út úr aðalhöfninni í Antwerpen og tveggja slússa til viðbótar á leiðinni til Brussel. Varð sú ferð jafnvel lengri og erfiðari en ætlað var í byrjun, en endaði vel.


Lilja Ben, ársyfirlit 2006.

Farkosturinn

Við óskum lesenduum blogsíðunnar gleðilegs árs og þökkum hlýjar kveðjur nú um jólin og fyrr og síðar.

 

Þar sem á þessari síðu má lesa um siglingu okkar um “sjó og sund með Lilju Ben” og nokkrar gamalr sögur frá fyrri tíma ætla ég að draga upp annál þessarra skrifa og atburða í siglingum ársins.

 

Pistlarnir hér á síðunni eru orðnir alls 73 og spanna 78 síður af A-4 með 12 pt. letri. Við vorum á ferðinni í 91 dag og sigldum allt í allt 158 klst. eða í 7% af tímanum, hinn tíminn fór í veru og skoðun borga, bæja og þorpa. Samtals sigldum við 1086 sjóm, lengst af á könulum og fljótum.

 

Við heimsóttum á siglingunni 34 staði. Í Danmörku 6, þ.e. Öer Havn, Ebeltoft, Hundested, Kaupmannahöfn, Dragör og Gedser. Í Þýskalandi 16, þ.e. Travemunda, Holtenau, Brunsbuttel, Hamborg, Geesthacht, Uelzen, Wittingen, Brunschweig, Sehude, Hannover, Mindener, Bad Essen, Recke, Fuestrup, Olfen og Dorsten. Í Hollandi 10, þ.e. Nijuegen, Ridderkerk, Rotterdam, Alphen, Vlietopper, Amsterdam, Zilzicht, Bruggehof, Willemstad og Tholen. Í Belgíu Antwerpen og Brussel.

 

Við áætlun að hefja siglingu vorsis með brotför frá Íslandi þriðjudaginn 13. mars n.k. Við ætlum að nota fyrstu vikuna til að botnhreinsa, fara yfir drif og annan tæknibúnað sem er undir vatnslínu gegnumfara vélbúnað, rafeindatæki og búnað. Áfanginn sem stefnt er að er Albufeira í Portúgal og er meiningin að skipta honum þannig, ef annað setur það ekki úr skorðum:

 

Brussel – Oostende – Bologne sur Mer – Fécamp – Ceerburg – Jersey – Roscoft – Brest – Quimper  Quiperon – Les Sables d´Olonne – Bordeaux – Archachon – San Sebastian – Sautander – Gijon – Viveiro – La Coruna – Muros – Viana do Castelo – Aveiro –Nazare –Lisboa –Sines – Lagos - Albufeira.


FD 93150 og þar með lögleg í Antwerpen.

Mannlíf á aðaltorgi Antwerpen

Myndin er frá Grote Markt (aðaltorgi Antwerpen)

Við lentum í Antwerpen kl. 1530 og það er alltaf í ýmsu að snúast eftir að lagst er í nýja höfn. Fyrst er að stöðva vélarnar. Síðan er gengið frá landfestum þannig að tryggilega sé bundið og fendarar settir þar sem hætt er við snertingu við bryggju eða aðra báta. Þá er slökkt á öllum rafeindatækjum, siglingaljósum, skráð í dagbókina og gengið frá kortum, útsetningaráhöldum og leiðsögugögnum á sínum stað. Samhliða eru vasar og skrautmunir teknir úr skorðum sínum, þar sem þeir eru á meðan á siglingu stendur, og settir þar sem þeir þjóna tilgangi sínum. Sama er gert í eldhúsi, baði og svefnkáetum þar er það tekið fram sem sett var í skorður. Sólstólar, sessur og pullur frá útidekki eru teknar upp og komið fyrir á dekkinu svo hægt sé að láta fara vel um sig þar. Einnig er rafmagnskapallinn tekinn og tengdur í næsta raftengil á bryggjunni og athugað hvort landrafmagn skili sér ekki til hleðslu rafgeyma og til notkunnar á 220V tækjum.

 

Næst er farið á hafnarskrifstofuna og Hafni heimsóttur. Við hann er gengið frá legutíma og hafnargjöldum og fengnar leiðbeiningar um salerni, böð og þvottavélar sem og lyklar að hafnarhliðum, en þær eru mjög vel girtar af. Þarna er þetta með glæsilegasta móti og skipulagið svo gott að Hafni vissi að við höfðum ekki s.k. FD númer, eins og fram kemur í fyrri pistlum,og fékk ég það nú skráð FD 93150. Engir lyklar voru þarna að hafnarsvæðinu heldur aðgangskodi sem ég fékk skrifaðann með FD númerinu. Að lokum afhenti Hafni mér kort af miðborginni og bað mig endilega að láta sig vita ef við þyrftum á einhverju halda, þeir væru jú til þjónustu við okkur. Að þessu loknu er farið aftur um borð og gengið frá öllup pappírum og greiðsluborði settur á bátinn á áberandi stað, þegar til slíks er ætlast. Rétt er að geta þess að hafnargjöldin rokka þetta frá 10 til 15 Evrur fyrir okkar bát á einstakar nætur, ef lyggja á viku lækkar það um 20%, um 50% ef liggja á mánuð og um 70% ef liggja á lengur, t.d. 6 mánuði. Þjónusta við slússur og brýr, sem þarf að opna er alltaf ókeypis.

 

Þegar þessu öllu er lokið er hægt að pústa fyrir landgöngu og fá sér kaffibolla, bjór eða vínglas eftir atvikum. Þennan fyrsta legudag í Antwerpen, föstudaginn 1. september, ákváðum við að leggja áherslu á að ná í matvöruverslun til að “provantiera upp” og lögðum við því fljótt af stað upp í borgina. Með kortið að vopni var auðvelt að rata og eftir aðeins 10 mín. göngu vorum við í miðborginni, á aðaltorgi hennar þar sem verið var að stilla upp áhorfendapöllum fyrir NATO TAPTOE sýningu daginn eftir. Eftir smá rölt og hvíld á götuveitingastað keyptum við inn fyrir kvöldverð um borð því liðið var að kvöldi og erfiður dagur að baki. Við ætluðum hvort er eð að eyða allri helginni þarna í rólegheitunum áður en við leggðum í lokaáfangann til Brussel, en þaðan ætluðum við heim til Íslands. Eftir kvöldverðinn tók ég me´r gönguferð um yachthöfnina eftir að skyggja tók en í hverjum króki og kima lágu yachtir af öllum stærðum og gerðum og ljós og líf í mestum hluta þeirra. Sat fólk um borð við spil, bóklestur, sjónvarpsgláp eða hvað eina annað sem fylgir venjulegu kvöldlífi á heimilum. Í yfirgnæfandi tilfellum samanstendur áhöfnin að hjónum eða pörum ýmist einum eða tveim, stundum með börn en oftar með hunda. Miðað við aldurssamsetningu þeirra sem virðast stunda svona yachtlíf má ætla að flestir séu komnir úr barneign og búnir að ljúka þeim kapítula lífshlaupsins og farnir að njóta þeirra ævintýra sem þetta líf býður uppá.

 

Eftir að við komum kl. 1530 var opnað þrisvar sinnum um kvöldið fyrir umferð í höfnina, og var töluverð um umferð nýrra báta inn. Jafnvel kom inn í docina stórt farþegaskip og lagðist öndvert við okkur, mikið skreytt ljósum.


Hvernig í ósköpunum lentir þú hér?

Willemdoc

Eins og ég sagði í fyrri pistli fór ég í skoðunarferð meðan frú Lilja Ben var að hrekkja Bretana. Gekk ég yfir umferðargötuna sem liggur yfir brúnna sem við vorum að bíða eftir til að komast inn í Wllemdoc, til að skoða og líta eftir góðri bryggju til að lenda við. Allstaðar var að sjá legupláss í boxum en þó með verklegum bryggjum á annað borðið. Undantekning var að hægra megin við hafnarskrifstofuna, sem er glæsileg bygging við enda hafnarinnar, er löng bryggja sem var í mínum augum spennandi kostur. Þar sem ég geng í átt að hafnarskrifstofunni sé ég einkennisklæddann mann sem ég ákvað strax að væri Hafni. Gekk ég að honum og sagðist vera í biðstöðu utan við brú á m/y Lilju Ben og spurði hvort ég gæti ekki lagst þarna að, og benti um leið á bryggjuna sem ég hafði augastað á. No, no sagði þá gaurinn og brosti sínu blíðasta, þessi bryggja er fyrir stærri skip, ég mun vísa ykkur á pláss þegar þið komið inn. Rölti ég með það til baka um borð í biðstöðina. Skömmu síðar kom Hafni brunandi á Zodiac bát og heilsaði upp á okkur og sagði að þegar brúin opni verði við að bíða meðan fimm bátar sem ætli út komi sér í gegnum brúarhaftið en að svo eigum við að koma inn, en hann vildi fá legtuna á undan því hún væri stærri og þyrfti að fara innar. Sagðist hann taka á móti okkur á Zodiacbátnum fyrir innan og vísa okkur á plássin.

 

Skömmu eftir að Hafni var farinn byrjaði bjölluhljómurinn að klingja og slárnar fyrir umferðargötuna, sem liggur yfir brúnna, að síga þannig að við settum strax í gang, leystum og komum okkur í bið utan við hana, en hún lyftist nú tígulega upp í loftið. Týndust nú bátarnir fimm hver af öðrum út og þegar sá síðasti var kominn framhjá skreið legtan inn um haftið, sem var um 200 m. langt sund, og við á eftir. Opnaðist þá Willemdocin fyrir innan svo til í hjarta borgarinnar. Þegar inn var komið kom Hafni brunandi á sínum Zodiac, veifaði okkur og sigldi síðan að einu boxinu og bennti okkur inn í það. Síðan fór hann og fylgdi legtunni á pláss til að taka við endum frá henni.

 

Við komum okkur saman um að bakka inn í boxið og tók ég því sveig út í höfnina og stillti af fyrir bakkið. Nokkur vindgustur var á bb. bóginn og varð ég að bakka inn í boxið með stórann bát á bb. og bryggjuna sem ég átti að liggja við á stb. Seig nú Lilja Ben afturábak en þegar ég er kominn á móts við framendann á stóra bátnum kemur skyndilegur vindsveipur og snýr okkur þannig að ég verð hræddur um að rekast á bláhornið á bryggjunni, sem mér sýndist vera nokkuð hvasst. Gaf ég því bb. skrúfunni meira afl afturábak en stb. skrúfunni aðeins áfram og náði þannig að renna inn í boxið með afturendann á undan. Um leið og við komum upp með bryggjunni hoppaði frú Lilja í land til að setja fast en það er hins vegar af mér að segja að skriðið á bátnum var það mikið að ég var hræddur um að rekast með skrúfurnar undir bryggjuna fyrir aftan svo ég gef hraustlega áfram til að stoppa bátinn af. Við það snýst hann og bryggjuhornið kemur æðandi að síðunni svo ég gef meira í og slepp út og veit ekki fyrr en ég er komin út í miðja doc og frú Lilja Ben stendur eftir á bryggjunni. Gerð ég nú aðra atrennu og stefndi nú enn nær bátnum sem við áttum að fara upp með, til að vega á móti vindinum, en allt fór á sama veg, báturinn snýst á síðustu metrunum og hornið á bryggjunni lætur mig forða mér aftur. Enn er ég að koma mér í stöðu og þegar ég er að byrja að bakka inn sé ég að Hafni er kominn á bryggjuna við hlið frú Lilju og er tilbúinn að taka á móti. Gekk það nú eftir að mér tókst að bakka inn í boxið með því að Hafni stóð á bryggjuhorninu og tók á móti bátnum þegar hann snerist þar og hélt honum frá því meðan ég seig inn. Var Hafni búinn að sjá ítrekaðar atrennur mínar til að bakka inn í boxið og hljóp út á bryggju til að liðka fyrir. Sagði frú Lilja að það fyrsta sem hann hefði sagt þegar hann sá hana standandi á bryggjunni, viðbúna að taka við enda “hæ hvernig í ósköpunum komst þú hér”? Var ekki laust við svolítinn munnþurrk og svita í lófum í lokin en allt gekk þó upp og við komin á finasta pláss beint fram að hafnarskrifstofunni.


Til Willemdoc í Antwerpen.

Beðið við garð

Við héldum nú samkvæmt leiðsögn slússustjórnarinnar suður eftir stórskipahöfninni í Antwerpen, um hálftíma siglingu og komum að Londonbrú sem lokaði fyrir leiðina inn í síki sem leiðir inn í Willemdoc. Var brúin kölluð upp og tilkynnt um komu m/y Lilju Ben, en opnunartímar brúarinnar voru skráðir á skilti við hana og þurftum við að bíða á reki fyrir framan brúnna í um 20 mínútur. Kannaðist brúarvörðurinn strax við nafnið enda slússustjórnin búin að tilkynna okkur og panta pláss í Willemdoc. Meðan við biðum þarna kom legta siglandi, sem búið var að breyta í skemmtisnekkju, og kallaði upp brúnna og spurði brúarvörðurinn strax um FD númer hennar. Var legtan undir breskum fána. Hún svaraði og sagðist ekki hafa neitt FD númer og var þá beðin að leita eftir því við hafnarstjórann, þegar hún legðist í Willemdoc, þannig að það voru fleiri en við sem vissum ekkert um þessi FD númer. Meðan við biðum þarna framan við brúnna gerðust legtumenn ýtnir og sigldu fast aftur undir okkur til að hrekja okkur aftar svo þeir kæmust á undan inn. Urðum við neydd til að víkja okkur undan þótt það væri andstætt öllum siglingareglum og hugsuðum því Bretunum þegjandi þörfina. Þegar brúin opnaði vorum við beðin um að bíða meðan þrír bátar, sem biðu innan við, kæmu út og fórum við svo rakleiðis í gegn á eftir legtunni, þegar grænt ljós var sett á okkur.

 

Þegar inn var komið var framundan um 2 km. langur og ca. 300 m. breiður kanall með hafnarbökkum á báðar hliðar. Á bakborða voru legusvæði fyrir flutningalegtur en á stjórnborða voru myndarlegar farþegaferjur til skemmtisiglinga um fljótin. Fyrir hinum enda kanalsins var svo önnur brú sem varð að opna svo við kæmumst inn í Willemdoc og átti ekki að opna hana fyrr en eftir eina og hálfa klukkustund. Þarna var álitlegt legupláss laust, reyndar var þar landgöngurani fyrir eina farþegaferju, en mér reiknaðist til að ef við legðumst eins nærri brúnni og unnt væri ættum við ekki að fara inn á svæði hennar. Legtan sem var fyrir framan okkur hikaði en ég ekki og sigldum við nú frammúr henni og stefndum rakleiðis í lausa plássið. Þegar við nálguðumst forum við upp með einni farþegaferjunni sem lá hornrétt á garðinn, sem við stefndum á, svo út með garðinum og ætluðum eins nærri brúnni og hann náði en þegar við nálguðumst endann kom í ljós stórt járnstykki sem stóð út úr hafnarbakkanum þannig að við ákváðum að leggjast þar sem við vorum komin. En nú kom upp annað vandamál. Legugarðurinn var mjög hár, enda ætlaður fyrir stærri skip en okkar. Nam efri brún hans við “fly bridgið” hjá okkur og festingarpollar þar innan við svo ekki var viðlit fyrir frú Lilju Ben að koma sjálf upp enda til að setja fast. En nú bar vel í veiði. Innan við bryggjugarðinn var mikil umferðargata, enda við komin langleiðina inn í hjarta borgarinnar og nokkuð af fólki þar á gangi. Nú kom maður gangandi eftir garðinum og kallað Lilja til hans og veifaði framan í hann spottanum og hann tók við. Augsýnilega var hann  allsendis óvanur að taka við enda frá skipi en með handapati, bendingum og leiðbeinungum á einhverskonar tungumálahrærigraut sem ég kann ekki að skýra tóks honum að setja endann utanum polla sem hún bennti honum á svo við gátum bundið. Vorum við nú lögst þarna og gátum beðið þar í ró eftir að brúin myndi opna.

 

Eftir að við vorum lögst fór ég í land í smá könnunarleiðangur en þá kom legtan og tróð sér fyrir aftan okkur. Höfðu þeir beðið frá Lilju um að færa okkur svolítið framar svo þeir ættu hægara með að leggjast en hún harðneitað án þess á láta þá vita af járnstykkinu sem hamlaði færslu hjá okkur. Þeir áttu engan greiaða skilið hjá okkur.


FD númer hvað? Vitleysa leiðir í Willemdoc í Antwerpen.

Antwerpen

Við yfirgáfum Tholen kl. 0900 laugardaginn 1. september og stefndum til Jachthaven Marina sem er í Boven – Zeeschelde, einni af fljótakvílslunum sem siglt er inn til hafnarinnar í Antwerpen. Var ég búinn að grandskoða leiðarforritið og kort af svæðinu og vorum við sátt við að leggjast þar þótt spotti væri inn til borgarinnar. Var þetta eini staðurinn sem leiðarforritið gaf upp fyrir yachtir og þýddi að við þurftum að fara í gegnum stórskipahöfnina og þaðan í gegnum Boudewijnsluis “niður” í Boven – Zeeschelde. Allt í lagi með það, en það átti eftir að breytast og það til óvæntrar ánægju. Við héldum nú niður Tholensgat sem er vatnasvæði og er leiðin vörðuð görðum á báða bóga með fjölda af vindmyllum. Af og til komu kjarri vaxnir hólmar sem gáfu umhverfinu skemmtilaga tilbreytingu. Eftir 10 km. siglingu komum við að Kreerakslússu þar sem við fórum inn með nokkrum skipum og bátum og var lyft þar upp um 1.80 m., inn í áframhaldið á Schelde Rijnbinding kanallin, en hann leiðir okkur í réttri hæð alla leið inn í Antwerpen höfn. Eftir 9 km. í viðbót fórum við yfir Belgísku landamærin og vorum rétt á eftir komin inn í Antwerpen höfn. Var nú siglt á milli stórra hafskipahafna og gámasvæða innan um stórskip, dráttarbáta og allskonar fley á þönum fram, aftur, út og suður. Eftir 12 km. siglingu innan hafnarinnar kom Boudewijnslúsan í ljós á stb., feikna mannvirki með tveim slússuhólfum fyrir stór gámaskip, og var vestari slússan að hleypa skipum inn sem biðu. Hófust nú viðskipti sem eru þess eðlis að ég ætla að reyna að endursegja þau eins og ég man þau, en það ætti að vera óhætt þar sem í rituðu máli kemur ekki fram framburður minn á hinni frönsku Belgísgu né framburður slússustjórnarinnar á Íslensku orðunum Lilja Ben. Byrjaði ég nú þannig, en á meðan létum við reka fyrir framan slússuna og horfðum á skipin sigla inn:

 

“Boudewijnsluis this is mororyacht Lilja Ben, I repeet Lima India Lima Juliett Alfa, space, Bravo Echo November”. Eftir smá stund kom svarið “Lilja Ben this is Boudewijnsluis”. Var ég nú fljótur og sendi “Boudewijnsluis Lilja Ben, asking for permission to enter the sluis from SE”. Nú kom smá þögn en svo kom “Lilja Ben, what is your FD number”. Nú var komið að mér að hafa þögn meðan ég hugsaði “hvað í fjáranum er það” en sagði svo “Boudewijnsluis Lilja Ben, I have no number at all”. Nú var komið að þeim að þegja en svo kom “Lilja Ben you can’t enter the sluis without a FD number, where are you coming from and what is your destination?”. “Boudewijnsluis I am coming from Tholen, Holland and heading for Jachthaven in Antwerpen, where can I have a FD number?”. Hér sagði ég vitleysuna sem kom okkur heldur betur til góða. Næst kom það besta. “Lilja Ben you should have contacted the Antwerpen Harbour Authorities at Ch 74 to get FD number but you do not need to go through the sluis for jachthaven in Willemdoc Antwerpen, just proceed sout through the harbour until you reach the London bridge and give them a call when you are there. Ask the harbourmaster at the jachthaven to have a FD number when you are there”.  Eftir smá umhugsun svaraði ég “Boudewijnsluis, thank you very much this is Lilja Ben and out”. Málið var það að af því að ég sagðist vera á leið í yachthöfnina Antwerpen í stað Yachthaven Marina þá leiðbeindi hann mér í þessa líka glæsilegu yachthöfn í hjarta Antwerpen sem ég segi nánar frá í næsta pistli. Þessi höfn var ekki skráð í leiðarforritið okkar því vissum við ekki af henni og hún er ekki heldur merkt sem slík á korti, heldur einungis Willemdoc.


Áfram suður og nú til Tholen.

Inn í slússu Volkerak
 

Við ákváðum að hafa næsta áfanga tveggja tíma siglingu til annars virkisbæjar, Tholen, þar sem gamli hlutinn er í raun nákvæm “eftirmynd” Willemstad, en munurinn sá að bærinn hefur teygt sig yfir stórt svæði utan virkisveggjanna. Við yfirgáfum Willemstad kl. 0900 fimmtudaginn 31. ágúst, stefndum út á Hollandsche Diep og tókum stefnuna í VSV eftir því. Eftir skamma siglingu sáum við á bakborða hið mikla slússuvirki sem er á milli Hollandsche Diep og Volkerak og tókum nú stefnuna á það. Ekki þurftum við að bíða neitt eftir að komast inn því í sama mund og við komum voru græn ljós logandi og fengum við heimild til að sigla viðstöðulaust inn. Þessi slússa, sem er mjög stór, þ.e. tekur mörg skip og báta, er eingöngu til jöfnunar á flóðhæðarmun milli fljótanna, sem getur verið í báðar áttir eftir því hvernig stendur á falli, en það leiðir misjafnlega inn fljótin.

 

Þegar slússuveseninu sleppti var byrjað að hvessa á SV, en næstum logn hafði verið þegar við fórum frá Willemstad. Framundan var góður spotti eftir Volkerak, allt að þar til Schelde Rijnverbinding kanallinn gengur úr því til Suðurs, en hann leiðir mann niður til Tholen. Með hvassviðrinu minnkað skyggnið svo að radarinn var settur á og hnitin á kanalmunnanum sett inn í GPS tækið og vegmælirinn skráður til að missa ekki af því ef skyggnið yrði það slæmt, en Volkerak er það breytt að illa sást milli bakka. Var nú siglt á 15 sjóm. hraða SV eftir Vokerak og beðið eftir að GPS ið sýndi réttar tölur. En þegar um 3 sjóm. voru að mynni kanalsins komu í ljós ljósmiðin sem leiða inn í kanalmynið svo ekki þurfti að reiða sig lengur á GPS eða radar, enda batnaði nú skyggnið til muna þegar við nálguðumst kanalinn, og við beint inn í hann. Schelde Rijnbinding kanallin er mjög fallegur, liggur í bugðum og með skógi vöxnum bökkum á báðar hliðar sem stundum var rofinn með litlum sveitaþorpum sem við liðum framhjá, en harðann minnkuðum við í 12 sjóm eftir að við komum í hann.

 

Eftir um 45 mín. siglingu Suður kanalinn komum við að Tholen og var þá aftur kominn svolítill vindur. Byrjaði ég á að fara inn í aðalhöfnia þar sem leiðarforritið mátta skilja þannig að þar ætti að fara inn, en strax eftir að hafa beygt inn í hana sá ég hvers kyns var og sveigði til baka og inn í örmjóa rennu sem leiðir upp í yachthöfnina. Aðalhöfnin var eingöngu fyrir stærri flutningalegtur. Leiðin liggur í sveig innan við langann tanga sem skilur að kanalinn og hafnarsvæðið og þegar við komum inn í fremri hluta yachthafnarinnar reyndist hafnarbryggjan þéttsetin bátum og þ.á.m. var legta sem búið var að breyta í skemmtiskip eða fljótandi frístundahús. Þessi legta hafði farið löturhægt inn rennuna á undan okkur þegar við fórum inn í aðalhöfnina fyrst. Þar sem hún lá þarna og tók mikið bryggjupláss fannst okkur fýsilegt að leggjast utan á hana sem við og gerðum. Tók áhöfnin á móti okkur með því að taka við endum og setja fast. Eftir að við vorum búin að binda og setja fast komumst við að því, eftir að hafa talað við skipperinn, að þau höfðu leitað inn vegna vélarbilunar og myndu fara strax og búið væri að gera við. Það þýddi að við gætum ekki farið langt frá okkar snekkju því við þyrftum að gefa þeim rúm til að fara þegar það næðist. Fyrir framan okkur lá stór skemmtibátur með fjögurra manna áhöfn, sem var að snæðingi á afturdekkinu. Um tveim klst. eftir að við bundum utan á legtuna fór sá bátur þannig að við vorum ekki sein á okkur að leysa aftur og færa okkur að bryggju, í það pláss sem þarna losnaði. Komum við okkur nú fyrir þar. Vorum við nú frjáls okkar ferða, þar sem við þurftum ekki að vakta legtuna og réðumst því til landgöngu. Þótt gamli bærinn í Tholen væri byggður umhverfis virki og síki á nákvæmlega sama hátt og Willemstad þá var hafnarsvæðið ekki eins sjarmerandi og í Willemstad. Við tókum okkur góða gönguferð um bæinn og komumst að því að langt var í “supermarkað” og var svolítill handleggur að draga vistir í bátinn, en erfiði er aðeins til herslu og eykur vellíðan þegar það er að baki. Tókum við okkur góða hvíld á bjórkrá við hafnarbakkann eftir að “allt var komið í höfn”. Eftir góðan kvöldverð í yndislegu veðri um borð fengum við okkur kvöldgöngu um hafnarsvæðið og settumst niður með glas af “Irish Coffee” á fallegum veitingastað með “panorama” útsýni yfir hundruðir snekkja sem lágu þarna við bryggjurnar. Framundan var spennandi dagur, ferðin til Antwerpen, sem varð skemmtilega söguleg.


Þegar vandræði leiða til góðs.

Willemstad úr lofti

Virkisbærinn Willemstad í Holland

Áætlun okkar var að fara frá Bruggehof til Tholen, sem yrði þá síðasti viðkomustaður okkar í Holland áður en náð væri til Belgíu. En sú áætlun átti eftir að breytast og það til góðs. Ekki var hægt að leggja í hann án þess að taka olíu og ver engin olíustöð sjánleg á leiðinni, samkvæmt leiðarforritinu sem við studdumst við, og enga olíu var að fá í Bruggehof. Því ákváðum við að sigla upp til Dordrecht og taka olíu þar sem var u.þ.b. 23 km. krókur, fram og til baka. Kostaði þetta þriggja tíma töf þannig að við lögðum ekki af stað frá Dordrecht fyrr en kl. 1150 þann 29. ágúst. og ákváðum því að fara ekki lengra en í yachthöfn Numensgorg sem liggur á mótum fljótanna Hollandsche Diep og Volkerak, en þar er slússa sem við ætluðum að geyma að fara í gegnum þar til að morgni dags.

 

Gekk nú allt eins og í sögu, upp og niður Dordtsche Kil kanalinn, og þegar við komum út í fljótið Hollandsche Diep fannst okkur við vera komin út á haf, svo rúmt var allt í einu um okkur, enda fljótið breitt. Brunuðum við nú vestur þetta mikla fljót í samfloti við mikinn fjölda skipa og báta. Var fljótið frekar úfið og ókyrrð því nokkur auk þess sem hafa þurfti nokkra aðgæslu vegna mikils fjölda af skútum um allar trissur. Þegar vestur eftir fljótinu dró kom hin mikla brú í ljós sem liggur yfir Hollandsche Diep fljótið og átti höfnin inn til Numansgors að vera skammt frá nyrðri brúrasporðinum. Þega nær dró, kom hins vegar í ljós á bb. bærinn Willemstad og sáum við strax að þar var glæsileg yachthöfn undir háum virkisvegg sem umlykur bæinn. Numansgors reyndist hins vegar vera ágætis yachthöfn en á frekar eyðilegum stað. Því ákváðum við að venda okkar kvæði í kross og skella okkur inn í Willemstad sem við sáum ekki eftir. Var okkur vísað í legu innarlega í höfninni undir virkisveggnum og stórri Hollenskri vindmyllu. Willemstad er einn af fallegustu bæjum sem við komum til á þessu mikla ferðalagi okkar. Er bærinn lítill en einstaklega vinalegur, umgirtur áðurnefndu virki sem er eins og stjarna í lögun þegar litið er á bæinn úr lofti. Þar sem við lágum var örstutt í miðbæinn með lágreistum gömlum húsum sem eru dæmigerð fyrir Holland, vel við haldið og allt einstaklega þrifalegt. Meðfram aðalgötu hafnarinnar var fjöldi veitngahúsa og var mjög notalegt að sitja þar og horfa yfir lífið um borð í bátunum sem lágu beinlínis við götuna. Vegna þess hvað bærinn var fallegur og hreinlega rómantískur ákváðum við að fara hvergi næstu tvo daga og nutum vel verunnar á þessum dásamlega stað. Þótt bærinn væri ekki stór, aðeins um 2000 íbúar bauð hann upp á alla þjónustu þ.á.m. eina bestu yachtverslun sem við höfðum komið í og var nú verslað það sem þurfti til bátsins. Willemstad er þekktur fyrir að hafa staðist vel árásir stríðandi þjóða t.d. innrás Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og bera virkisveggirnir menja fyrri átaka auk þess sem minningarskyldir voru hér og þar með nöfnum manna sem höfðu látið lífið á viðkomandi stöðum í baráttu fyrir frelsi síns lands. Það leyndi sér ekki að þetta var vinsæll áfangastaður skemmtibátafólks því það var stöðugur straumur báta inn og út kvölds og morgna. Urðu olíuvandræðin fyrr um daginn til þess að við mistum ekki af þessum stað því ella hefðum við farið framhjá honum, en okkur lá ekkert á og gátum því slórað þegar svo bauð að horfa,

  

Lá við stórslysi um borð í skútu.

Dordrecht

Þegar við vorum að sigla inn í höfnina í Bruggehof hafði ég samband við “Hafna” og spurði um legupláss og sagði hann mér hvar ég ætti að leggja, u.þ.b. miðsvæðis í höfninni (sjá loftmynd af Bruggehof höfn). Eins og ég sagði í fyrra pistli var farið að hvessa og því nokkurrar aðgæslu þörf vegna driftar þegar við sigldum inn á milli þess mikla fjölda báta sem þar lágu. Fundum við fljótt bryggjuna sem við töldum okkur eiga að liggja við, en eftir að hafa meldað okkur við bryggju, til Hafna, kom í ljós að við vorum röngu megin við hana, en þeim megin sem við lögðumst mátti búast við bát á hverri stundu, sem var í ferð. Fluttum við okkur því á hina hlið bryggjunnar og bundum nú tryggilega. Þrátt fyrir hvassann vind var hlýtt og ekkert til ama. En nú var leiðinda puð framundan. Við keyrsluna, þegar við gáfum inn eftir Veerhaven í Rotterdam, hafði pústið frá vélunum skilið eftir slikju af sóti um allan afturenda bátsins þ.á.m. á sessum sófanna á afturdekkinu. Varð nú að taka fram kröftugustu hreinsiefnin um borð og þvo allann bátinn aftan við miðju og taka allar sessur upp á bryggju og skrúbba þær þar. Pústsótið er bölvaður óþverri sem erfitt er að ná af og því forðast maður í lengstu lög að keyra vélarnar þannig að þær sóti. Vorum við nú upptekin bæði næstu klukkutímana við þrif, ég á bátnum sjálfum en frú Lilja á sessum sófanna. Þar sem við vorum að vinna í þessu kom motoryacht að bryggjunni við hlið okkar, þar sem við máttum ekki liggja, og spurði skipperinn mig hvort hann mætti ekki leggjast þar stutta stund. Sagði ég honum frá skilaboðunum sem ég hafði fengið um að plássið væri upptekið. Fór báturinn svo skömmu síðar, en rétt að eftir kom í plássið u.þ.b. 30 feta skúta og lagðist í það. Var par á skútunni og sögðust þau ætla að stoppa aðeins til að fella mastrið, sem er engin smásmíði á svona skútum, til að geta farið undir brú sem var á leið þeirra og ætluðu því að halda áfram för, fyrir vélarafli einu.

 

Við héldum áfram okkar vinnu við þrifin og var ég staddur upp á bryggjunni að þvo stb. hliðina þegar feikna skruðningu og dynkur kvað við frá skútunni og frú Lilja hljóðaði upp fyrir sig. Þegar ég leit við sá ég hvar karlmaðurinn á skútunni stóð á framdekkinu með skelfingarsvip á andlitinu en mastrið var fallið aftur eftir skútunni og stög og vantar í bendu um allt. Þegar ég leit aftur eftir skútunni bjóst ég við að sjá konuna, sem hafði verið afturá til að taka við mastrinu, stórslasaða ef ekki þaðan af verra. En Guði sé lof, hún hafði sloppið, mastrið hafði strokist framhjá henni þegar það féll. Það að sjá konuna óhulta var svo mikill léttir að það tók nokkra stund að átta sig á hvaða skaða mastrið hafði gert á skútunni við fallið. Það hafði fallið á lágreista yfirbygginguna og rekkverkið á afturdekkinu og kengbeygt það og beyglað allt sem fyrir varð. Maðurinn hafði rétt verið byrjaður að láta það síga niður að sögn frú Lilju, þegar hann missti tökin á því svo það féll óhindrað niður. Það sem merkilegt var þó að ekki var hægt að sjá að mastrið hafi bognað við þennan mikla skell. Það besta var þó í öllu þessu að heyra konuna hella sér yfir manninn sem var alveg miður sín, en hún var þá í lagi og með kjaftinn fyrir neðan nefið. Skömmu síðar sigldu þau út, en undir kvöldið kom svo í plássið báturinn sem “átti” það, tvenn hjón, að því að virtist systur með karlnana sína og einn hundur, en það er mikið um hundalíf á skemmtibátum í Evrópu.

 

Við stoppuðum í tvær nætur í Bruggehof og fórum annan daginn í skoðunarferð upp í borgina Dordrecht, sem vinalegur bær. Eitt var nýtt sem við sáum í þeirri skoðunarferð. Við tókum leigubíl í bæinn, en höfnin er um 10 km. frá bænum. Báðum við bílstjórann að fara með okkur í “City Center”, sem að venju er í elsta hluta svona bæja. Þegar að miðbænum var komið var farið yfir gamlar steinbrýr sem liggja yfir síki sem liggja um bæinn og inn að göngugötum bæjarins. Þegar að þeim kom sáust framundan stólpar upp úr götunni sem lokuðu fyrir akstur inn á svæðið, en viti menn. Þegar við nálguðumst stólpana tók leigubílstjórinn upp fjarstýringu og ýtti á hnapp. Um leið sigu stólparnir niður í götuna og bíllinn keyrði áfram. Risu þeir svo aftur úr götunni fyrir aftan. Þarna máttu sem sé leigubílar koma farþegum sínum inn á göngusvæði bæjarins og er þetta snjöll aðferð til þess.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband