Færsluflokkur: Lífstíll

Lífvörður forsetans og njósnir frá Kjarvalstöðum.

Kjarvalsstaðir
Það var komið að öðrum degi leiðtogafundar Nixons og Pombidou á Kjarvalsstöðum í Reykjavík. Forsetarnir funduðu í NA herberginu þar sem búið var að styrkja þá glugga byggingarinnar sem snúa út að Flókagötu, með skotheldu gleri, sem fest var utan á. Í bláhorni NA endanns var afstúkað lítið herbergi þar sem Sigurjón Sigurðsson heitinn, hinn virti lögreglustjóri í Reykjavík, hægri hönd hans Árni Sigurjónsson og æðstu yfirmenn lífvarðasveita forsetanna höfðu aðsetur. Í aðalsal austur álmu Kjarvalsstaða var stórt fundarborð, en þar funduðu utanríkisráðherrar landanna og ráðgjafar þeirra. Í skrifstofunni vinstra megin við innganginn var miðstöð öryggissveita forsetanna en í vesturálmunni var aðstaða fyrir mikinn fjölda blaðamanna, en þar fór Hannes Jónsson blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar m.a. einn daginn mikinn og lýsti á dramantískan hátt fyrir fréttamönnum árekstri Árvakurs við einn af dráttarbátum hennar hátignar í 50 sjóm. landhelgisstríðinu, sem þá stóð yfir. Við mættum snemma þennan síðari dag fundarins og fylgdumst með rannsóknarsveitum öryggissveita forsetanna fínkemba svæðið í leit að sprengjum eða eiturefnum sem valdið gætu hættu. Við vorum þrír sem höfðum þá skyldu að vakta “innsta svæðið” þ.e. ganginn í austurálmu Kjarvalsstaða, aðrir höfðu ekki aðgang þar eftir að forsetarnir og fylgdarlið þeirra var mætt á staðinn. Aðrir lífverðir, öryggisfulltrúar og sérsveitarmenn íslenskir, franskir og bandarískir vöktuðu ytri hringinn þ.e. tengibygginguna, vesturálmuna, Miklatúnið og Flókagötuna. Meðan á rannsókninni stóð kom franski lífvörðurinn til mín og bennti á slökkvitæki sem var nærri dyrunum inn í fundarherbergi forsetanna og sagði “burt með þetta”, en búið var að rjúfa innsigli af tækinu sem þýddi að hugsanlega væri búið að koma einhverju fyrir inni í því. Gerði ég ráðstafanir til að tækið yrði fjarlægt og var það eina athugasemdin sem gerð var.  Forsetarnir komu kl. 1000 undir stífri öryggisgæslu, sem og annað fylgdarlið og þegar dyrum fundarherbergjanna var lokað vorum við þrír eftir í gangi austurálmunnar undirritaður, bandaríkjamaðurinn og frakkinn. Frakkinn var frekar fáskiptinn í fyrstu en eins og Bandaríkjamönnum er tamt var hann ræðinn þannig að einmannaleg vaktin fyrir framan dyr forsetanna varð líflegri fyrir vikið. Af og til komu fylgdarmenn forsetanna út úr stóra salnum til að reykja og fóru þá oftast út í suðurhorn álmunnar og stóðu þar á meðan. Í flest skiptin sem Henry Kissinger kom út í “smókinn” kallaði hann mig með sér í suðurhornið til að reykja og spyrja um ýmislegt varðandi land og þjóð. Ekki það að hann vissi svo lítið heldur fannst mér hann frekar vilja kynnast viðhorfi “venjulegs borgara”, alla vega spurði hann mikið um þau.  Eins og áður sagði var bandaríski lífvörðurinn ræðinn og sagði okkur meðal annars að þetta verkefni væri það skemmtilegasta sem hann hefði lent í til þessa. Þetta var ungur maður, klæddur í grá jakkaföt, báða dagana, og alltaf með fráhneppt að framan svo minna bæri á hlupstuttu vélbyssunni sem hann bar í sérstöku belti á bakinu. Gormlöguð snúra kom undan hálsmálinu á  jakkanum, sem lá í heyrnartæki í hægra eyra og undan jakkaboðungnum á vinstri hendi gægðist hljóðnemi sem hann talaði í af og til. Ástæða þess að þetta var skemmtilegasta verkefni hans til þessa var að eftir að hann lauk þjálfun sem forsetalífvörður var honum falið að gæta ekkju Trúmans heitins forseta, sem enn lifði, en ekkjur forsetanna njóta lífvörslu til æfiloka sagði hann. Hún bjó í litlum bæ, sem ég man ekki lengur hvað heitir, og hélt sig alltaf heima, svo lífið var heldur tilbreytingarsnautt hjá lífverðinum, sem bjó með fjölskyldu sinni í næsta húsi við ekkjuna. Sagði hann að þegar forsetinn færi í svona ferðir þar sem þörf væri á fleiri lífvörðum væru þeir kallaðir til sem væru í “jaðarþjónustunni” en nýliðar fengnir til að sinna ekkjum og öðrum slíkum sem heima sætu. Var þetta í fyrsta sinn sem hann væri slíkrar upphefðar aðnjótandi og fanst mjög gaman.  Þennan lokadag leitogafundarins var efnt til mikillar mótmælagöngu gegn veru Íslands í NATO og Bandaríkjahers á Íslandi og óttuðust margir að landhelgisdeilan við Breta, sem þá var í hámarki, myndi kynda undir mótmælin svo að upp úr syði. Fór gangan m.a. í kringum Kjarvalsstaði inn Rauðarárstíg, inn Miklubraut, norður Nóatún og upp í port Sjómannaskólans þar sem haldinn var útifundur. Voru fundarmenn síðan hvattir til að fara niður í Flókagötu í mótmælastöðu fyrir framan Kjarvalstaði í þann mund sem fundunum átti að ljúka. Þegar göngumenn voru að fara inn Rauðarárstíginn fórum við þremenningarnir að ræða um mótmælin og sagðist Bandaríkjamaðurinn þá skyldi veita okkur allar upplýsingar um andrúmsloftið meðal göngumanna og á útifundinum því að þeir væru með þrjá “flugumenn” innan göngunnar sem myndu fylgja henni alla leið sem og að vera á útifundinum. Fengi hann “beint í eyrað” stöðuga “monitoringu” á mótmælendum. Stóð hann við það og mataði okkur á öllum upplýsingum um hvernig þeir mátu andrúmsloft göngumanna og útifundarins og var það hin fróðlegasta frásögn “í beinni útsendingu”. Þegar fundum leiðtoganna var að ljúka fannst mér nokkurs taugatitrings verða vart hjá Bandarísku öryggissveitinni. Mannfjöldinn frá útifundinum var kominn í austur hluta Flókagötunnar allt að Kjarvalsstöðum en vestur hlutanum var haldið auðum fyrir bílalestirnar að bruna eftir þegar fundum lyki. Skömmu áður en fndunum lauk var ég kallaður inn á skrifstofu yfirmanna öryggissveitanna þar sem bennt var á mann sem stóð fremst meðal mótmælenda og blasti við gluggunum. Var ég  spurður hvort ég þekkti hann sem ég sagðist ekki gera. Um leið og ég var að far til baka inn í austurálmuna heyrði ég Bandaríska yfirmanninn segja við öryggisverði sem voru nærri, um leið og þeir benntu á manninn, “burt með hann” og skömmu síðar var hann horfinn úr röðum mótmælenda. Þessi maður var mjög dökkur yfirlitum og ekki Íslendingur að mínu mati. Dáðist ég að því í raun og veru hvað þarna var unnið skipulega og fumlaust og ýmislegt gert þannig að enginn varð var við. Skömmu síðar lauk fundum leiðtoganna og vorum við látnir raða okkur upp þar sem þeir kvöddu okkur með hlýlegu handabandi og voru farnir.

Þar sem lipurleikinn leikur við lífið

Frísundasvæðið í Bruggehof

Mynd: Höfnin í Bruggehof 

Þótt kominn væri sunnudagur (27. ágúst) var okkur efst í huga að halda áfram för og þoka okkur í áttina að Oostende í Belgíu. Kvöldið áður hafði ég rætt málið við skipperinn á bátnum sem við lágum utaná og var hann ákveðinn að fara líka ekki seinna en kl. 0900 þannig að ég talaði einnig við skipperinn á bátnum utaná okkur og sagði hann það ekkert mál sín vegna, hann myndi bara fara frá svo við kæmumst. Til að ekki stæði á okkur fórum við á fætur kl. 0700 þennan fallega sunnudagsmorgun og fórum að undirbúa brottför, en siglingaáætlun hafði ég gert kvöldið áður, eftir tónleikana. Þegar til kom að fara kom hins vegar í ljós að “kaosin” í höfninni var slík að við sem lágum í innri hluta hennar áttum ekki möguleika á að hreyfa okkur. Fyrir framan lágu fjórar skútur af stærri gerðinni hver utaná annarri og lokuðu fyrir alla undankomu. En nú kom í ljós að lipurleikinn leikur við líf þeirra sem gista skemmtibátahafnir, þar sem hver er annars félagi ef á þarf að halda. Eftir smá spjall, skilaboð og meldingar sáum við hvar farið var um borð í skútuna sem lá yst í röðinni fyrir framan og liðið ræst út. Vorkendum við inn við beinið áhöfninni því að þar hafði verið nokkur gleðskapur kvöldið áður og fólk farið síðan í land og skemmt sér fram á nóttina, en án alls baga fyrir aðra í flotanum. Leið ekki nema örskömm stund þar til vél skútunnar var ræst og áhöfnin komin á dekk, landfestar leystar og hún flutti sig á annan stað í höfninni, sem hafði losnað eftir að tónleikum kvöldsins lauk. Drifum við nú í að kveikja á öllum tækjum og ræsa vélarnar því svo til samtímis var leyst á bátnum utaná okkur og hann bakkaði frá til að gefa okkur pláss til að fara. Reyndi nú á stjórnhæfni okkar þegar farið var frá bryggju því örstutt var í stefnið á stórum bát aftan við okkur og í skutinn á næstu skútu fyrir framan okkur. Með mjúkum og yfirveguðum stjórntökum og hnitmiðuðum handtökum frú Lilju Ben snerum við M.Y. LILJU BEN á vélum og endum og skriðum út úr þessari ætluðu kaos og út á Nieuwe Mas fljótið, einu sinni enn og nú á fulla ferð í átt að Belgíu.

 

Enn vorum við frjáls á fljótinu og var nú báðum vélum gefið hressilega inn en ekki nóg. Á 2500 snúningum byrjuðu báðar vélar að spúa út kolmórauðum pútstreyk svo dregið var úr ferð og siglt á 18 sjóm. hraða. Til að losna við reykinn þarf að keyra á yfir 3000 snúningum sem var of hratt á þessu svæði. Eftir um 20 mín siglingu beygðum við inn á Noord kanalinn og nú fórum við framhjá Ridderkerk (sjá pistlana “Barnalán í bátnum 18. okt., Framtíðarkafteinn og .....15. okt. og Gestrisni og greiðasemi...... 14. okt.). Næst kom svo Jachthaven Papendrecht sem getið er í pistlunum “Stundum smár en stundum of stór” frá 11. okt. og “Ekki hér heldu þar...”, frá 12.okt. Þegar við komum niður til borgarinnar  Dordrecht beygðum við nú til stb. inn í Ode Maas fljótið og héldum stuttann spotta niður það. Við kanalmótin Dordtsche Kil beygðum við í það og sigldum það til enda og leituðum nú næstu hafnar í Bruggehof. Það var farið að hvessa og framundan var “mikið haf” Hollandsche Diep svo við ákváðum að lenda í Bruggehof.


Loftfimleikar á torgi og Óperutónleikar við bátshlið.

Tónleikar
Mynd: Hljómsveitin 

Það hefur verið töf hjá mér að halda ferasögunni áfram vegna mikilla anna en nú verður vonandi bót á. Laugardaginn 26. ágúst stóð mikið til í Veerhöfninni í Rotterdam. “Rótarar” voru á miklum þönum í kringum hið mikla svið, sem komið var að bryggju, við að setja upp stóla, magnara, skrautlýsingar o.fl. Á torginu ofan við höfnina voru komnir staflar af stólum til að dreifa um hafnarbakkann og auðséð á öllu að von var á fjölmenni við tónleikana um kvöldið. Eitthvað hafði skúrað um nóttina auk þess að um kvöldið áður höfðu fleiri bátar komið inn þar sem við lágum og þ.á.m. einn utan á okkur. Var þröngin orðin svo mikil að ljóst var að við færum ekki út nema með miklum tilfærslum báta. Undir hádegið fórum við í göngu upp i borgina til að skoða okkur um eina ferðina enn. Mikið var allstaðar um að vera stór og mikill útimarkaður hjá Kínverska hluta borgarinnar með matar-, sýningar- og sölutjöldum sem röðuðu sér á fallegum grasbala meðfram einu af síkjum borgarinnar. Týpiskir Kínadrekar léku listir og síkið var skreytt allskonar gerfiblómum. Á göngu okkar upp á torgið fyrir framan aðaljárnbrautarstöðina komum við að loftfimleikaflokki sem lék listir sýnar hátt yfir torginu bæði á línu, sem strengd var frá 40 m. hárri klranabómu í háhýsi öndvert að torginu, sem og á hárri stöng ofan á kranabómunni. Engin öryggisnet voru undir loftfimleikafólkinu að var heillani að horfa á listirnar. Á götunum voru hvarvetna í gangi listsýningar og tónlistauppákomur. Miðborg Rotterdamborgar minni á menningarnótt í Reykjavík, svo mikið var allstaðar um að vera. Um síðari hluta dags vorum við orðin þreytt á rápinu og gengu um borð. Þá fengum við forskot á sæluna því simfóníuhljómsveitin ásam söngvurum kvöldsins voru komin til æfinga og máttum við hlusta á mörg af fallegustu verkum óperubókmenntanna flutt  þarna innan um allar yachtirnar sem sköpuðu skemmtilega umgjörð um sviðið. Hin skemmtilegasta stemming var að myndast meðal áhafna yachtanna og voru fjölskylduvinir og aðrir byrjaðir að streyma um borð í bátana sem höfðu þarna heimahöfn eða höfðu komið stutt að. Á bátnum sem lá utan á okkur var einn fullorðinn maður og sagði hann okkur að hann væri búinn að bjóða vinkonu sinni í kvöldverð til sín um borð og var í raun að aðvara okkur um að hann þyrfti að hjálpa henni yfir okkar bát bæði þegar hún kæmi og einnig þegar tónleikarnir byrjuðu því að við lágum þannig að til að sjá á sviðið þurftum við að fara upp á bryggju. Í svona nánu sambýli, bátur utaná bát, verða bátsverjar að sýna ákveðinn samhug og kemst maður ekki hjá að verða var við hvað fer fram á bátunum við hlið mans. Var gaman að sjá hvað gamli maðurinn á bátnum nostrað við að elda og gera kvöldverðarborðið sem girnilegast fyrir þessa vinkonu sína sem var ókomin og stóð á endum þegar allt var dúkað og klárt í setukáetunni birtist sú gamla á bryggjunni. Fór sá gamli þá upp á bryggju og leiddi sína vinkonu yfir báða bátana og fór sú gamla létt með að feta sig þann óslétta og ruggandi stíg.

 

Tónleikar simfóníunnar hófust svo kl. 2000 um kvöldið og verður ekki með orðum lýst fegurð tóna og flutnings í þessu rómantíska umhverfi Veerhafnarinnar, þetta fallega laugardagskvöld. Fengum við hið besta sæti á bryggjunni við hlið hinna fullorðnu vina af bátnum við hliðina, en hvert sæti á bryggjunum, áhorfendapöllunum, sem komið hafði verið upp, og á torginu var þéttskipað og krökkt af fólki í þeim bátum sem lágu þannig að útsýni á sviðið var gott. Ógleymanlegur hátíðisdagur sem allir nutu nema einn sem við vissum, það var kallinn á bátnum innan við okkur sem sagðist engan áhuga hafa á svona musik og sat því einn um borð.

 

Rýmt fyrir Simfóníuhljómsveit Rotterdam.

Veerhafen Rotterdam

Við stoppuðum í Zijlzicht fram á föstudaginn 25. ágúst og héldum þá til Rotterdam. Auk þess sem getið er í síðasta pistli þá notuðum við tækifærið þar sem við lágum við bátasmíðastöðinni í Zijlzicht, að kaupa okkur viðbótarfendara til að hafa sitt hvoru megin á bógnum á bátnum. Þessir fendarar (stuðpúðar fyrir þá sem ekki þekkja) eru belgmeiri en þeir sem notaðir eru á síðunum, eða eins og lóðabelgir í laginu. Eru þeir mjög hentugir á bógnum þar sem lag bátsins fer að verða innskorið, þar sem þeir taka þá fyrr við því sem leggja á upp að.

 

Við fórum frá Zijlzicht kl. 0935 og héldum nú einu sinni enn að Spanjaardsbrúnni og var hún nú opnuð fyrir okkur í fjórða sinn ef með er talin ferð okkar til Amsterdam rúmri viku áður. Allt gekk eins og í sögu og við nutum veðurblíðunnar meðan við liðum suður og austur eftir könulunum, gegnum Alphen sem áður er nefnd, og í Júlíaneslússuna í Gouda, sem var eina slússan á leiðinni. Þegar við komum á biðsvæðið ákváðum við að leggjast við stauravirki, enda nokkur skipatrafikk að bíða eftir að slússan yrði opnuð. Voru í hópnum bæði flutningalegtur og yachtir af öllum gerðum, skútur og mótorbátar. Þegar slússan opnaði streymdu skip og bátar út og svo kom röðin að okkur sem biðum að fara inn. Fyrst fóru stóru flutningalegturnar og svo við yachtararnir. Fengum við fyrirmæli um að fara þriðji innsti vinstra megin og leggjast þar við slússuvegginn, en það var upp með legtum sem lágu við hægri kantinn. Þar sem við sigum snyrtilega upp að vinstri kanti slússunnar og hægt inn með honum, voða montin með nýja fendarann á bógnum, heyrðist allt í einu feikna hvellur og nýji fallegi fendarinn kom fljúgandi eins og fallbyssukúla beint upp í loft og slengdist síðan inn á dekk bátsins með öðrum smelli. Frú Lilja Ben var klár að setja upp enda á bb. síðunni þegar ósköpin gerðust og krossbrá auðvitað. Varð henni svo mikið um að hún hentist yfir á stjb. síðuna með spottann og vingsaði honum þar framaní furðu lostinn legtukall og sagðist vilja binda utan á hana, en örstutt var yfir í legtuna. Var það auðsótt og niðurstaðan sú að við bundum við legtuna. Af hamaganginum í fendaranum er það að segja að þegar við vorum að síga meðfram slússukantinum var hann á milli eins og lög gera ráð fyrir. Hins vegar lenti hann inn í “skáp” eða hólfi í steinkantinum og festist þar til átakið á hann varð það mikið að hann losnaði skyndilega með þessum líka látum.

 

Þegar við vorum laus við slússuna héldum við áfram sem leið liggur til Veerhafnarinnar í Rotterdam og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að leggjast aftur á þeim sómastað. Nú mátti auka hraðann verulega og notuðum við okkur það og sigldum greitt suður Hollandse Ijsel og síðan niður Nieuwe Maas, þrátt fyrir mikla skipaumferð. Nú kom Erasmusbrúin í ljós og síðan Veerhöfnin og sveigðum við inn í hana. Þegar komið er inn í höfnina skiptist hún í tvennt, sitt hvoru megin við langa bryggju sem gengur út í hana beint á móti innsiglingunni. Lágum við í syðri (hægri) hlutanum þegar við vorum þar fyrir ellefu dögum síðan (sjá pistlana KR strákar, þrumur og eldingar, og umferðarkaos og Rotturnar í Rotterdam). Þegar við komum inn núna sáum við að eystri hluti hafnarinnar var galtómur, ekki bát að sjá þar inni, svo við sveigðum beint í stjór og ætluðum að leggjast á okkar gamla stað. Þegar við hins vegar erum að síga inn með bryggjunni sem skilur höfnina í sundur kemur fulltrúi Hafna út úr legtu sem lá við hana og bandar okkur frá að fara þarna inn. Hættum við þá við en ég kallaði í hann og minnti hann á að við hefðum verið þarna fyrir ellefu dögum og líkað vel auk þess sem allt væri laust við bryggjurnar þarna megin. Mundi kall vel eftir okkur og sagði að við værum velkomin en við yrðum þá að leggjast í vestari hluta hafnarinnar. “Hvar” spurði ég þá því þar var hver blettur leginn. “Þarna utan á bláa bátnum” sagði hann og benti mér á bát sem lá við bryggju fyrir aftan tvær skútur sem lágu hver utan á annari. Var báturinn svo ný kominn að áhöfnin á honum voru enn að vinna við að binda. Með þetta á hreinu var nú siglt inn í höfnina og rennt upp að síðunni á bláa bátnum. Tók áhöfnin þar vel á móti okkur og var nú gengið frá öllu og slökkt á vélum kl. 1543.

 

Þegar hér var komið sögu var orðin þröng af bátum og svolítið bras að fá tengingu fyrir rafmagn auk þess sem við þurftum að reyna að færa bátana til svo þeir lægju eins þétt og mögulegt væri. Kom Hafni nú í eigin persónu til að sjá til að allt gengi upp og rukka hafnargjaldið, en þarna er Hafninn svaka skutla, gullfalleg kona, en stjórnsöm vel. Spurði ég hana hvernig í ósköpunum stæði á því að verið væri að troða öllum bátum í þennan helming hafnarinnar þegar hinn hlutinn væri alveg laus, ekkert skip þar. “Jú” sagði hún þá “í kvöld verður komið með tvo stóra pramma og verður öðrum lagt við bryggjuna sem skilur höfnina í tvennt og hinum við bryggjuna öndvert, þar sem þið láguð um daginn. Á prammanum sem legst að bryggjunni hérna megin verður stórt leik- og hljómsveitarsvið en við öndverðu bryggjuna verður prammi með áhorfendapöllum fyrir nokkur hundruð manns. Málið er að simfóníuhljómsveit Rotterdamborgar verður með óperutónleika hér í höfninni annað kvöld, en þeir eru árlegir styrktartónleikar hljómsveitarinnar, svo þið fáið ókeypis stórtónleika við bátshlið annað kvöld”.


Laus úr öngstrætinu.

Vir-Jon bátalínan

Ég verð að játa að smá stund vissum við ekki baun hvað við ættum að gera. Við vorum innilokuð í síki milli tveggja brúa. Við snerum samt við og sigldum löturhægt sömu leið til baka og þegar við nálguðumst Sumatrabrúnna aftur gat ég ekki hugsað mér strax að kalla hana upp og óska eftir opnun, ný kominn í gegn hina leiðina. Við hægri bakkann - núna á leiðinni út - lá nokkuð snyrtilegur húsbátur og ákváðum við að leggjast utan á hann til að byrja með. Þegar við erum að renna að honum kemur maður, sem augsýnilega bjó í bátnum, og lítur til okkar með spurnarsvip. Spyr ég hann hvort við megum ekki leggjast að honum en þá brosir gæinn sínu blíðasta og bendir okkur í átt að brúnni. Viti menn, er ekki allt komið í klingjandi bjölluhljóm þar og slárnar að fara niður til að stöðva umferðina yfir. Var manninum á húsbátnum bara vinkað og stefnan sett undir brúnna og við í gegn um leið og búið var að lyfta, og það einskipa. Var okkur mikið létt að vera komin út í kanalmótin eina ferðina enn og furðu lostin að Sumatrabrúin skyldi vera opnuð fyrir okkur einskipa og án þess að við bæðum um. Ekki minnkaði undrun okkar því að um leið og við sveigðum í átt að Spanjaardsbrúnni skipti engum togum, þar fór allt í gang strax, brúin var opnuð samstundis og við í gegn. Héldum við nú stutta siglingu til Yachthafnarinnar í Zijlzicht, sem var rétt hjá, og lögðumst þar. Lágum við þar næstu tvær nætur í besta yfirlæti og notaði ég tímann m.a. til að yfirfara reimar og hosur í vélarúminu og herða uppá þar sem þörf var. Í þessari höfn er fræg Hollensk bátasmíðastöð sem hefur raðsmíðað sérstaka línur af skemmtibátum og er meðfylgjandi mynd af einni af vinsælustu línunum hjá þeim. Er maður alltaf að rekast á þessa báta á könulum, fljótum og í höfnum Evrópu. Í stærsta skýlinu við höfnina var verið að smíða einn nýjan Zijlzicht Cruiser, langt kominn. Var mjög gaman að því að hjónin sem reka stöðina og höfnina voru mjög um það að spyrja hvernig okkur litist á þetta og hitt varðandi nýsmíðina og fóru með okkur í gegnum allan hönnunarferilinn. Fyrir þá sem eru með bátadellu eins og ég er hægt að skoða myndir af þessum bát á slóðinni www.zijlzichtvlet.nl/cruiser/cruiserindex.htm.

 

Þegar við vorum lögst fórum við að furða okkur frekar á þessari þjónustu við brýrnar og varð niðurstaða okkar sú að þau í stjórnturninum fyrir brýrnar hafi verið búin að sjá að við vorum komin í algjöra sjálfheldu og þvælu og viljað losna sem fyrst við okkur út úr þessum kanalmótum. Þegar upp var staðið vorum við búin að fara tvisvar undir hverja þessara þriggja brúa alltaf í sitt hvora áttina.


Börnin á burt og við beint í öngstræti

Kanlamótin í Leiden
Þessi pistill er svo þvælinn að gott er að hafa loftmyndina til viðmiðunar. 

Þá voru blessuð börnin farin og við aftur orðin ein. Við vorum búin að taka það rólega í Amsterdam, njóta þess að vera um kyrrt og skoða okkur um. Grenjandi rigningardagar inn á milli gerðu þó strik í reikninginn og héldum við okkur um borð í rólegheitunum í þeim ósköpum. Við ákváðum að fara frá Amsterdam þriðjudaginn 23. ágúst og fara sömu leið til baka suður til Rotterdam, en svo áfram þaðan niður til Oostende í Belgíu. Ákváðum við að skipta ferðinni til Rotterdam í tvennt og koma fyrst við, og liggja eina nótt í “Yachthaven Leiden”, en við fórum í gegnum Leiden á leiðinni til Amsterdam, án þess að stoppa þar þá. Gerði ég áætlun í tölvunni fyrir siglingu þangað en leitaði engra frekari upplýsinga sem voru mistök. Taldi ég að ekki yrði vandamál að finna höfnina þrátt fyrir að hún sé inn af krossgötum fjögurra kanala, með kraðaki af brúm á alla kanta, enda vorum við búin að fara um þessi kanalmót á leiðinni til Amsterdam.

 

Við leystum landfestar kl. 0830 þennan þriðjudag 23. ágúst í fallegu sólskinsveðri og tókum stefnuna beint vestur eftir Nieuwe Meer vatninu og inní kanalinn með langa nafninu sem ég nenni ekki að skrifa, sjá næst síðasta pistil. Þegar við komum svo í Kagermeer vatnið NA-vert lentum við í mikilli umferð af skútum sem komu úr öllum áttum og varð ég að fara svo hægt í gegnum þann flota að stundum varð að stoppa. Þegar betur var að gáð kom í ljós að hér var um að ræða enhverskonar siglingaskóla sem setti hóp af unglingum án leiðbeinanda út á vatnið á skútum. Allavega gat ég ekki séð að þau hefðu hundsvit á siglingum eða siglingareglum enda var um algjöran glundroða að ræða á vatninu. Með því að við fikruðum okkur áfram af mikilli varúð tókst okkur um síðir að komast langs eftir vatninu og inn í Zijl-kanalinn sem liggur með bænum Leidendorp og áfram eftir Rijn-Schiekanaal (komum niður efst fyrir miðri mynd) þar til komið var að Spanjaardsbrúnni í Leiden, sem opna þurfti fyrir okkur (hvít brú ofarlega fyrir miðri mynd). Var nú brúin kölluð upp og síðan farið undir, ásamt fleiri bátum, þegar búið var að lyfta henni. Tekið skal fram að þarna erum við inni í austur hluta Leiden bæjar og á mótum fjögurra kanala, þess sem við komum eftir, kanals t.v. sem við komum eftir þegar við komum frá Alphent til Vlietopper, beint áfram, niður til Vlietopper og t.h. inn í gamla bæinn í Leiden. Nú verð ég að játa á mig kæruleysi sem maður myndi aldrei leyfa sér úti á sjó. Ég sigldi “eftir minni” raleitt áfram inn í kanalinn beint framundan, sem var tóm þvæla, því minnið er brygðulla en fræðin.  Samkvæmt vegalengdarmælingu á GPS áttum við að vera komin á staðinn, en krókasiglingin á vatninu kringum skúturnar höfðu lengt svo í siglingunni að verulegur munur var komin á milli sigldrar vegalengdar og þá sem átti að halda, en GPSið var ekki tengt við kanalsiglingaforritið auk þess sem ég var ekki einu sinni með tölvuna í gangi. Þennan vegalengdarmun hefði ég getað stillt út þegar ég fór undir Spanjaardsbrúnna en lét það undir höfuð leggjast því ég var svo viss í minni sök. Þar sem við förum þarna beint áfram yfir kanalmótin (beint niður samkvæmt myndinni) sé ég brú framarlega í kanalnum t.h. en veiti henni enga frekari athygli. Eftir skamma siglingu komum við að annari brú (sjá neðst fyrir miðri mynd). Þar sem við og aðrir bátar vorum ný búnir að fara undir Spanjaardsbrúnna var þessi brú opnuð viðstöðulaust enda öllum brúnum á þessu svæði stjórnað frá einni stjórnstöð og stuðst við myndavélar. Um leið og við komum undir brúnna fæ ég bakþanka og lít aftur. Þar sem brúardekkið er að síga niður horfi ég beint á skiltið Wilhelminabrú, en ekki Sumatrabrú, sem átti að koma næst, og segi um leið og ég slæ af og sný hart í bak “við erum á vitlausri leið”. Renndi ég nú bátnum upp að legukanti við bakkann og tyllti upp spotta meðan ég kveikti á tölvunni og skoðaði siglingaáætlunina. Wilhelminabrúnna þekkti ég frá því að fórum N-úr frá Vliertopper, fyrir viku síðan, og sá nú að sammkvæmt forritinu höfðum við átt að beygja strax inn í kanalinn t.h. eftir að við komum undan Spanjaardsbrúnni og að Sumatrabrúin sem var sú sem ég sá hægra megin þegar við fórum yfir kanalmótin.

 

Það var svolítið sneyptur yachtkafteinn sem kallaði upp Wilhelminabrú og bað um opnun “coming from South”, og ný búinn að fara undir “coming from North”. Nokkrir fleiri bátar voru nú komnir svo brúin var fljótlega opnuð og við í gegn og viðstöðulaust upp í kanalmótin aftur og þar beygðum við til vinstri inn í kanalinn sem liggur inn í gamla bæinn í Leiden og stoppuðum í kanalmótunum skammt frá Sumatrabrú. Bátarnir sem voru samferða okkur voru nú búnir að fá Spanjaardsbrúnna opnaða fyrir sig en við köllum upp Sumatrabúnna (ofarlega t.v. við miðja mynd) til að fá hana opnaða, en ekkert svar. Létum við nú reka þarna á kanalmótunum og kölluðum Súmatrabrúnna af og til upp, en án árangurs. Þegar ekkert gerðist drykklanga stund segi ég við frú Lilju “þetta er eitthvað helv.... rugl við skulum bara hætta við og leggjast inn í yachthöfnina hérna” en lítil og pen yachthöfn var við kanalmótin (sést vel á myndinni). Renndum við síðan löturhægt inn í höfnina og frú Lilja gerði sig klára til að setja upp spotta þegar maður nokkur kallaði í hana frá einum bátnum þar inni og sagði að þetta væri lokuð einkahöfn og því engin aðstaða fyrir gestasiglara. Snérum við nú stefni út aftur og héldum út á kanalmótin og var nú pirringur byrjaður að ná yfirhöndinni. Eftir smá vangaveltur komum við okkur saman um að hætta við að reyna að komast til hafnarinnar í Leiden þar sem ómögulegt virtist að ná sambandi við Sumatrabrúnna, sem stóð í veginum. Ákváðum við að koma okkur upp í yachthöfnina í Zijlzicht, sem var aðeins 5 mín. sigling til baka en við höfðum farið framhjá henni á leið okkar fyrr um daginn. Til þess þurftum við þó að komast aftur undir Spanjaardsbrúnna, nú til N, og fórum við því í bið hjá henni með fleiri bátum. Þar sem við biðum þarna á reki á kanalmótunum sjáum við hvar kemur stór flutningalegta eftir kanalnum sunnan frá Wilhelminabrú og hugsum með okkur OK nú verður brúin opnuð strax, því þær fá fljóta þjónustu ef hægt er. En viti menn. Þegar legtan kemur inn á kanalmótin beygir hún á bakborða og tekur stefnuna beint á Sumatrabrúnna og um leið sjáum við að allt er að fara í gang þar að opna svo ég segi við frú Lilju, “við eltum og förum til Leiden hafnarinnar eins og við ætluðum”. Þar með létum við ekki sitja við orðin tóm og eltum legtuna undir brúnna og hún lokaðist nú hægt og rólega að baki okkur. En nú gat á að líta. Kanallinn sem við vorum nú komin inn í var frekar þröngur og lá í gegnum sambland af afdönkuðu iðnaðarhverfi á vinstri hönd og draslaralegu íbúðahverfi á hægri hönd. Með vinstri bakkanum lágu slímugir og ryðgaðir húsbátar og legtur en með hægri bakkanum voru bryggjukantar úr tré, fyrir framan lítil og sóðaleg íbúðahús, skakkar skældar og fúnar. Við flesta bryggjukantana lágu skekturæflar eða bátar sem máttu muna sinn fífil fegurri. Við fylgdum legtunni eftir á mjög hægri ferð og skyndilega birtist brú framundan (sjá ofarlega lengst t.v. á myndinni), en samkvæmt tölvuforritinu okkar áttu ekki fleiri brýr að vera á okkar leið að höfninni. Hlaut hún því að vera “hérna megin” við brúnna. Opnaðist brúin og legtan fór áfram í gegn en ég stoppaði. Inn úr hægri bakkanum kom smá vik og tvær órhjálegar bryggjur með nokkur bárskrifli og var það fljótséð. Hér förum við ekki inn á okkar bát. Aumingja brúarstjórnin beið drjúga stund með að setja brúnna niður á meðan við dóluðum fyrir framan hana en síðan byrjaði hún að síga á sitt pláss. Við vorum nú lokuð í öngstræti í skítakanal á milli tveggja lokaðra brúa.


Rauða hverfið hvað?

Áhöfn Lilju Ben á Dam torgi

Þegar minnst er á Amsterdam berst talið æði oft að “rauða hverfinu”, sem er jú fyrirferðarmeira þar en víðast annarsstaðar. Allar borgir eiga samt sín rauðu hverfi annað hvort skammlaust eða vel til hlés, og allt þar á milli. Amsterdam á hins vegar margar merkilegri perlur en það vegna sögu sinnar, fegurðar og menningar. Mér hefur alltaf fundist hún  vera eins og samanþjappaður gimsteinn, en margir gimsteinar eru þar geymdir í orðsins fyllstu merkingu. Það eru svo margar mótsagnir í Amsterdam. Þar er skemmtilegur arkitektúr nýr og gamall sem sést annars vegar í gömlu húsunum frá tímum Indiafaranna og annarar heimsverslunar Hollendinga og hins vegar í nýjum framúrstefnuhúsum eins og IMPG bankanum, sem er mikil bygging úr stáli og gleri, í lögun eins og stórt skemmtiferðaskip. Þarna eru leiftrandi listasöfn eins og Rijksmuseumet þar sem t.d. Rembrant skrýðir veggi eða Van Gogh safnið. Önnu Frank húsið ættu allir þeir að heimsækja sem fordæma Nazistmann og þann hroka sem felst í því að telja einn kynþátt öðrum fremri til að drottna. Það hafði djúp áhrif á mig koma þar fyrir mörgum árum.  Götulífið í Amsterdam er líka heillandi, iðandi af mannlífi og þeim fjölbreytileika sem bogadregin lögun borgarinnar býður uppá meðfram síkjum og brúm af öllum stærðum og gerðum. Síkin, göturnar, garðarnir, byggingarnar og fólkið gefur manni alltaf færi á að undrast þótt maður sé búinn að koma oft áður á sama staðinn, það getur verið alveg nóg að koma úr nýrri átt.

 

En það er ekki ástæða til að mæra Amsterdam út í eitt. Sennilega er borgin svona lifandi og heillandi vegna þess hvað hún er frjáls undan öllum viðjum. En það er einmitt þetta frelsi sem er hennar stóri veikleiki og gæti leitt hana til þeirrar glötunar sem Sódóma og Gómorra þurftu að þola. Hvergi sem þarna er dauði dópsins eins nálægur í vestrænum borgum. Þar er svifryk gatnanna kókain og heróin og mulningurinn undir fótum þér anfetamin, E-pillur eða LSD. Hið skemmtilega mannlíf miðborgarinnar er götulíf dags- og neonljósa kvöldsins sem hverfur þegar náttar og þá er engum hollt að vera á ferli. Þá skríða dóprotturnar úr ræsunum og eiga strætin.

 

Fyrir mörgum árum vorum við frú Lilja stödd í Amsterdam vegna vinnu minnar. Datt okkur í hug að borða á kínverskum veitingastað í jaðri rauða hverfisins, sem stóð á síkisbakka rétt við sporð einnar af hinum óteljandi síkisbrúm. Fórum við rakleitt í matsal á efri hæð, en þeir voru á báðum hæðum, og völdum okkur borð úti við glugga þar sem sá yfir síkið og göturnar í kring. Skammt aftan við borðið var þykk gluggagardina og tókum við eftir því, skömu eftir að við vorum sest að þar sat í felum á bakvið gardínuna maður með talstöð og sjónauka. Fylgdist maðurinn grannt með götulífinu og af og til tók hann upp talstöðina og talaði í hana. Þarna var um að ræða leynilögreglumann sem var að fylgjast með dópsölum og sendi hann boð til félaga síns sem var niðri á götunni þegar hann varð var við viðskipti. Við létum þetta ekki spilla fyrir okkur matnum en höfðum gaman af.


Vespuárás og vikustopp í Amsterdam

Áhöfnin á Lilju Ben í byrjun ágúst

Áhöfnin komin til Amsterdam 

Kl. 0920. fimmtudaginn 17 ágúst var lagt frá og stefnan tekin til Amsterdam. Siglt var N og NA með bænum Linden og inn í Kagermeer (vatnið) sem er um 4 km. langt og er farið framhjá þrem stórum eyjum. Á vatninu var nokkur umferð af vél- og seglbátum og var ekki laust við að maður fengi víðáttubrjálaði eftir margra vikna siglingu á kanölum og fljótum. Nú komu ekki aðrir bátar bara á móti eða á eftir heldur líka frá hlið og allt þar á milli. Það þurfti jafnvel að spá í að setja stefnur. Allt í einu þurfti “navigatörinn” að fara að hugsa um eitthvað meira en bara bakkana sitt hvoru megin og vegalengdir. Eftir Kagermeer fórum við inn í kanal sem heitir því svakalega nafni “Ringvaart Haarlemmermeer-zuidelijk deel” (ég ætla ekki að reyna að bera þetta fram) og héldum NA eftir honum að vötnunum við Westeinderplassen, gullfallegt svæði. Þar sem við vorum á siglingu þarna eftir kanalnum í bongoblíðu kom fyrir svolítið merkilegt atvik sem rifjaði upp gott húsráð og dugði það vel.

 

Við vorum úti á dekki að spóka okkur Sigrún, Lilja og ég. Lárus var inni við stjórnvölinn og Ólafur hjá honum. Sátu þær konur á bekknum á afturdekkinu og hvíldi Sigrún handlegginn á afturlunningunni. Ég stóð við lunninguna stjb. megin. Skyndilega kom Vespa (Geitungur) fljúgandi og byrjaði að djöflast við andlitið á mér, mér til mikillar armæðu. Minnugur fyrri viðskipta við þessi kvikindi fór ég varlega í að bægja henni frá en með því að hrista hausinn og veifa að henni flaug hún út á kanalinn og fram með bátnum. Skyndilega snýr hún við og flýgur beint strik á handlegginn á Sigrúnu, þar sem hann hvílir, og stingur. Sigrún öskrar upp af sársauka og voru fyrstu viðbrögð mín að svipta kvikindinu af og fauk hún út í kanal. Sigrúnu logsveið í stunguna en þá mundi frú Lilja skyndilega eftir góðu húsráði sem Hjálmar Jónsson, tengdasonur okkar, sagði okkur fyrir all löngu. Leggja sígarettuglóð eins nærri stungusárinu og viðkomandi þolir og halda henni þar góða stund. Var það nú gert og viti menn engin bólga kom eftir stunguna og allur sviði hvarf. Vissi Sigrún ekki af stungunni eftir það.

 

Kanallinn liggur nú með bakkanum á vatninu við Westeinderplassen og áfram til NA fyrir SA Schipol flugvöll sem er SV af Amsterdam. Var ekki laust við að manni finndist fyndið að sjá flugvélarnar lenda og taka sig á loft af brautum fyrir neðan okkur þrátt fyrir að við værum að sigla í vatnshæð sem er 60 cm. fyrir neðan sjávarmál. Horfðum við um tíma niður á flughlöðin við vöruflutningaskýlin á flugvellinum. Þegar komið var N fyrir Schipol komum við í Nieuwe Meer (vatnið) og sigldum A eftir því í átt til borgarinnar. Glæsilegt útsýni var yfir skógi vaxna bakkana, snekkjur, flestar fyrir seglum, á ferð og flugi um allar trissur, háhýsi framundan og mikið brúarmannvirki þar sem yachthafnirnar voru, en þær eru sjö talsins í þessum enda vatnsins. Fórum við rakleiðis í innstu höfnina, WSV Amsterdam og lögðumst við bryggju kl.1400, eftir frábæra ferð.

 

Reynslusaga úr fortíðinni: Njósnarinn 00X

Innskotspistill Ég sat í makindum við skrifborðið mitt á 4. hæð í lögreglustöðinni við Hlemm og var að sýsla við einhverja neyðaráætlun og athuganir því tengt. Þetta var snemma árs 1974 og því fyrir umtalaða olíutunnubruna 1976. Skyndilega var ég hrifinn upp úr verkinu við að barið var bylmingshögg á skrifstofuhurðina og henni síðan svipt upp. Í dyrunum stóð Árni heitinn Sigurjónsson, “njósnari 00X?”, og sagði formálalaust: “Þú mátt ekki vera hér, þú mátt ekki vera í þessu embætti, þú verður að hætta, þú ert danskur ríkisborgari”. Aðeins vinstra megin við miðjan munn hékk filterlaus sígarettan, sem einkenndi Árna þessa tíð. Árni var nefnilega listamaður í að hafa sígarettuna lafandi milli varanna meðan hann talaði, án þess að askan dytti af. Árni var vörpulegur ásýndum, hár og þéttur, hárlítill á höfði og það sem meira var vænsti maður svo langt sem ég þekkti. Árni var heldur ekki margmáll og talaði alltaf beint út. Ekki var heldur laust við að finna mætti vott af háði í röddinni þegar hann talaði, en trúlega var það honum ómeðvitað því að í mörgu samtali sem við áttum á skrifstofu hans, fyrr og síðar, fannst mér hann alltaf viðræðugóður maður. Áður en ég gæti nokkru svarað hélt Árni áfram. “Þú heitir Peter Guðjón Petersen, þú verður að sækja um ríkisborgararétt og skipta um nafn, fá þér íslenskt nafn”. Mér fannst kallinn vera farinn að kíma þegar hér var komið ræðunni, en þá komst ég að. “Nei bíddu nú við” sagði ég,” líttu niður í dómsmálaráðuneytið maður, erum við ekki oftast þar í sambandi við Baldur Möller og Ólaf Walter Stefánsson, menn með erlendum nöfnum”. “Annars er ég fæddur á Íslandi fyrir lýðveldistökuna 1944 af íslenskri móður en faðir minn var reyndar danskur. Hér á Íslandi hef ég alið allan minn aldur og er ekkert annað en íslenskur”. “Dugar ekki, dugar ekki” sagði Árni þá, “pabbi þinn átti að sækja um íslenskan ríkisborgararétt eftir lýðveldistökuna ef hann vildi að þið yrðuð með íslenskt ríkisfang”. “Veit ég vel” sagði ég þá, “en pabbi neitaði því alltaf því hann væri miklu meiri íslendingur en nokkur af þeim s.k. íslendingum sem hann þekkti og við það sat”. “ Annars er annað og það alvarlegt” bætti ég við. “1954 þurfti ég á vegabréfi að halda til að komast til útlanda, m.a. Danmerkur, en þess þurfti þá. Fékk ég þá útgefið Íslenskt vegabréf og gettu hver gaf það út og undirritaði fyrir hönd lögreglustjórans í Reykjavík. Hann heitir Árni Sigurjónsson”. “Hann Árni Sigurjónsson er nú nákvæmari en svo að hafa gefið út Íslenskt vegabréf fyrir erlendan ríkisborgara”. “Nú svo er eitt enn Árni”. “Þú skipaðir mig eina íslenska öryggisfulltrúann sem mátti vera fyrir framan fundarherbergi Nixons og Pombidou þegar þeir funduð hér í fyrra. Við vorum bara þrír, bandaríski lífvörðurinn, sá franski og svo ég. Þú hefðir aldrei sett dana í það Árni”. Árni horfði smá stund á mig og sagði svo snöggt áður en hann snerist skyndilega á hæli og var farinn niður á 2. hæð. “Það er fylgst með þér”. Á þetta var aldrei minnst framar, en mikið fannst mér alltaf notalegt að vita að einhver nennti að fylgjast með mér.

Ekki fiskað á spún, en ullabjakki og skordýralirfum.

Veiðafæri og afli

Meðan ég var að grilla gerði Lárus veiðigræjurnar klárar fyrir soninn og setti vænlegan spún fyrir og byrjuðu þeir að reyna fyrir sér. Ekki lofaði það góðu þrátt fyrir að fiskar “vökuðu” allt um kring svo hvíld var tekin meðan snæddur var kvöldmatur. Þegar strákurinn fór að reyna áfram eftir kvöldmatinn fóru yachtarar á nágrannabátum að fylgjast með þegar þeir áttu leið framhjá og þegar einn þeirra sá að notaður var spúnn sagði hann að þetta væri alveg vonlaust. Það þyrfti að nota mun minni öngul og grind með einhverjum graut sem blanda þyrfti til að draga fiskinn að. Í öllum þessum spekulasjonum kom nú “Hafni”, sem bjó í bát rétt hjá okkur, og vildi endilega gefa þeim feðgum það sem til þurfti, grind á tauminn, blöndu í hana, sem ég kalla ullabjakk því ég veit ekkert hvað það er, og gerfibeitu. Þegar þetta allt var fengið fékkst fiskur hjá stráksa og það í svarta myrkri í þokkabót.

 

Morguninn eftir, 16. ágúst, byrjaði á því að Hafni kom í heimsókn og nú með fullt box af iðandi skordýralifrum, þið vitið þessum hvítu ógeðslegu ormum sem skríða um öll hræ, og gaf þeim feðgum Lárusi og Ólafi. Sagði Hafni að þetta væri langsamlega besta beitan sem völ væri á. Ekki gáfum við okkur tíma til að reyna veiði þá en fórum öll með lest inn til Haag og eyddum deginum þar í skoðunarferð auk þess sem eitthvað var verslað. Þekki ég nokkuð til í borginni frá því að ég sótti fundi þar. Einn á vegum NATO, nokkra fundi þegar ég var í nefnd SÞ um gerð fræðsluefnis um náttúruhamfarir til, að nota í þriðja heiminum, og að lokum þegar ég ásamt nokkrum öðrum sótti björgunarskip SVFÍ í Scheveningen. Flestir sjómenn sem hafa hlustað á alþjóðaneyðarbylgjuna 2182 KHZ kannast við nafnið Scheveningen en þar er staðsett loftskeytastöðin Sceveningen Radio sem heyrist mjög vel á Íslandsmiðum þegar hún er að senda út viðvaranir allskonar eða framsenda neyðarköll til skipa. Þegar við komum aftur til Voorschoten var farið í búðina þar sem veiðistöngin var keypt daginn áður og keypt þessi grind sem öllu bjargar, efni til að búa til ullabjakkið í hana og rétt stærð af önglum til að nota við veiðar þarna í kanölunum.

 

Til þess að lýsa þessu nánar þá er þessi grind kassalaga vírnetsbox u.þ.b. 5 cm. á hvern kant og er henni komið fyrir um 15 til 20 cm. fyrir ofan öngulinn. Í þetta vírnetsbox er sett ullabjakkið, sem er lagað með því að hræra út í vatni einhverju dufti sem verður að þykkri leðju. Hef ég helst grun um að það sé eitthvað lyktsterkt efni sem dregur fiskinn að. Síðan er bara öngullinn á taumnum um 15 til 20 cm. neðan við, með iðandi lirfuormana, sem gera gæfumuninn og afli verður þokkalegur, en hann er ekki borðaður á okkar bát. En allt þetta stjan Hafnarstjórans í kringum veiðiskapinn hjá feðgunum varð til þess að það varð einróma samþykkt að þessum yachklúbi verð færður íslenskur borðfáni að gjöf og afhenti Lárus hann fyrir hönd áhafnarinnar á m/y Lilju Ben

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 53471

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband