22.9.2010 | 22:30
Búið um op á maga
Mynd: Fáskrúðsfjörður um vetur.
Framhald frá Beechcraft vélin TF AIS....
Um kvöldið var Óðinn staddur við bryggju á Fáskrúðsfirði og dokaði þar við eftir björgunarsveitarmönnum sem flytja átti milli fjarða vegna leitarinnar. Þegar ég var að koma af vaktinni kl. um 2000, til að fá mér kaffisopa í messanum áður en ég færi að hvíla mig eftir amstur dagsins, mætti mér ókunnur maður sem hafði komið inn um dyrnar stjórnborðsmegin á ganginn þar sem íbúðir skipherra, yfirvélstjóra og yfirstýrimanns eru. Bauð maðurinn gott kvöld og tók ég eftir því að út úr vinstri nös mannsins lá bandspotti sem plástraður var á vinstri kinn mannsins. Gott kvöld ansaði ég, með spurnarsvip á andlitinu. Ég kem nú í óvenjulegum erindagerðum sagði maðurinn. Þannig er að fyrir nokkru varð mér á að drekka lút sem brenndi vélindað og magaveggi alvarlega þannig að flytja þurfti mig nærri dauða en lífi með flugvél til Reykjavíkur. Þeim tókst að bjarga lífi mínu á Landsspítalanum, en ég verð að vera með kera niður í magann og op á sjálfum maganum sem ekki er enn gróið. Það er nauðsynlegt að skipta um umbúðir á þessu opi daglega, því það vessar úr maganum sem brennir holdið í kring. Hefur hjúkrunarkonan í þorpinu séð um það. Hún þurfti hins vegar að fara upp á Egilsstaði í fyrradag og hefur ekki komist til baka vegna snjóþyngslanna þannig að mér datt í hug að koma um borð og biðja ykkur um að skipta um umbúðir á opinu því sömu umbúðir eru búnar að vera allt of lengi. Þið eigið að kunna slíkt eftir námið í Stýrimannaskólanum er það ekki?. Mér varð fyrst fyrir að stara á þennan gest og hugsa með sér. Það er annað að takast á við aðgerðir vegna slyss sem verður um borð í skipi út á sjó, þar sem áhöfnin verður að vera sjálfri sér nóg um allt, en að taka að sér hlutverk hjúkrunarkonu eða læknis í landi er allt annað. Ég var svo sem búinn að sauma saman höfuðleður á einum háseta, eftir slys um borð í varðskipi og ganga frá opnu handarbroti á bátsmanni um borð í öðru. En þar var ekki um að ræða einhvern sem kom bara af götunni svo hér gat verið á ferðinni spurning um ábyrgð. Hvað ef eitthvað yrði gert rangt? Var hægt að baka Landhelgisgæslunni skaðabótaábyrgð? Bað ég því mannin um að bíða augnablik og tók þá ákvörðun að bera málið undir skipherrann. Niðurstaðan úr því samtali varð að við skyldum sinna beiðninni og sagði ég manninum að ylgja mér niður í sjúkraklefann og leggjast á aðgerðarbekkinn. Náði ég svo í III. stýrimann mér til fulltingis við umbúðaskiptin eftir að hafa skoðað magaop mannsins og þær umbúðir sem fyrir voru, eins og þær voru orðnar kræsilegar eftir tveggja daga veru. Sem betur fer var yfirdrifið nóg af öllu og þ.m.t. umbúðum í sjúkraskáp Óðins til að þrífa, sótthreinsa og búa aftur um opið, auk þess sem okkur tókst að halda okkar verklagi og einbeitingu við það, þrátt fyrir mikinn fnyk sem lagði frá sárinu meðan það stóð opið. Fór maðurinn ánægður og hress í land eftir hjálpina. Óðinn yfirgaf svo Fáskrúðsfjörð skömmu seinna með björgunarsveitarmenn frá Fáskrúðsfirði sem áttu að leita svæði norðan Loðmundarfjarðar daginn eftir.
Framhald bráðlega
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2010 | 20:39
Beechcraftvélin TF AIS týnist út af Norðfirði.
Framhald af Wire Conquerer strandar:
Mynd fengin af www.beechcraftheritagemuseum.org
En ró næturinnar var skyndilega rofin þegar áríðandi skeyti barst frá höfuðstöðvum Landhelgisgæslunnar kl. 0325 þessa aðfararnótt miðvikudagsins 19. janúar. Beechcraft flugvélin TF AIS, sem var á leið til Norðfjarðar, frá Egilsstöðum eftir eldsneytistöku, og átti að lenda kl. um 2200 var ekki komin fram, en síðast var haft samband við vélina kl. 2212. Var hún þá að lækka flugið yfir sjó, eftir að hafa flogið yfir radiovitann á Norðfirði, og taldi flugstjórinn að þeir sæju niður á sjóinn. Vélin hafði verið kölluð út til sjúkraflutnings og voru tveir menn um borð, flugstjóri og aðstoðarflugmaður. Dimm él gengu yfir Austfirði þetta kvöld og var þetta það síðasta sem heyrðist til vélarinnar. Farið tafarlaust til leitar út af Norðfirði hljóðuðu fyrirmælin sem nú bárust um borð í Óðinn.
Enn fór allt á fullt. Akkerið var híft upp með hraði og vélarnar settar á ýtrustu ferð eftir að vinnsluhita var náð. Var stefnan sett áfram austur með Suð- Austurlandi og svo áfram norður með Austfjörðum. Óðinn rótaðist gegn vindi og sjó og ísing byrjaði að setjast á skipið fyrst í stað meðan særokið frussaðist yfir, en þegar líða tók að morgni lægði vind og sjó þannig að ísingin náði ekki að verða vandamál. Nú brá svo við hins vegar að snjókoma var orðin svo til sleitulaus og skyggni því lítið, þannig að treyst var á blindsiglingu eftir radar.
Óðinn kom á leitarsvæðið út af Norðfirði um kl. 1500 og hóf þá skipulagða leit að flugvélinni ásamt fleiri skipum, en leit þeirra var samræmd frá Óðni. Mikil snjókoma var búin að spilla færð á landi um alla Austfirði svo að Óðinn var líka notaður til að flytja björgunarsveitarmenn milli fjarða og á eyðistrendur til leitar á landi. Leið 19. janúar við stanslausan eril við leit og flutninga með björgunarsveitarmenn milli leitarsvæða. Leit úr lofti var útilokuð vegna snjókomunnar.
Framhald á morgun
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2010 | 20:30
Trúverðugleiki?
Trúverðugleiki Alþingis í húfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2010 | 13:25
Allt var þetta vitað og sjálfsvorkun til vansa.
Alþingi skipaði níu manna nefndina. Alþingi gerði sér fyllilega grein fyrir að svona gæti farið, að beitt yrði lögum um ráherraábyrgð og landsdóm. En þegar til alvörunnar kemur hrópar þingheimur um hversu erfiðar ákvarðanir þurfi að taka til afstöðu í málum samstarfsmanna og félaga.
Hugsa sér vesælddóminn. Hversu oft haldið þið að lögreglumenn þurfi að rannsaka sekt félaga, vinar, fjölskyldumeðlims eða skólasystkyna svo dæmi séu nefnd? Hversu oft skyldi það henda sjúkraflutningamenn að koma að fársjúkum eða limlestum fjölskyldumeðlim, vini, kærustu eða samstarfsmanni, veita honum aðhlynningu, endurlífgun eða nábjargir? Eða fólkið í heilbrigðisstéttunum. Hversu oft þurfa slökkviliðsmenn að berjast við elda í eignum vina og vandamanna?
Ég veit að þingmenn í sínum sjálfhverfa hroka munu hugsa "þessi veit ekki hvað hann segir því þetta er allt annað". En það er ekki svo, eini munurinn er að það brennur ekki á ykkar eigin skinni.
Ekki sammála Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.9.2010 | 23:24
Wire Conquerer strandar í janúar 1966
Mynd af togurum við Vestmannaeyjar fengin af www.togarar.is
Það gekk mikið á um borð í Óðni fyrri hluta ársins 1966, eins og reyndar öll árin sem hann var í þjónustu lands og þjóðar. Verður hér fjallað um atburði á fyrstu mánuðum þess árs, atburði sem gefa dæmigerðan þverskurð af þeim hversdagslegu verkefnum sem glíma þurfti við á Óðni sem og öðrum varðskipum á sjöunda áratugnum, milli þorskastríða.
Wire Conquerer strandar.
Óðinn lagðist við akkeri undir Eiðinu í Vestmannaeyjum að kvöldi mánudagsins 17. janúar eftir að hafa dregið nótabátinn Þorgeir GK þangað með nótina í skrúfunni. Var báturinn sóttur fyrr um daginn 14 sml. suður af Ingólfshöfða. Kafari Óðins, sem var III. stýrimaður í þessari ferð, kafaði við bátinn og skar úr skrúfunni og var ekki öfundsverður af, því við lá að froskbúningurinn frysi utan á honum í frostinu. Næstum daglegt brauð á veiðislóðum bátaflotans á þessum tímum, sem sést m.a. á því að þrem dögum áður hafði verið skorið úr skrúfunni á Guðjóni Sigurðssyni VE 120, þar sem hann var staddur 21 sml. suður af Ingólfshöfða. Nú hafði veður versnað svo að draga þurfti Þorgeir GK í var áður en hægt var að skera úr skrúfunni. Það var búist við rólegheitum þarna um nóttina því veður átti frekar að ganga niður þar sem öflugur hæðarhryggur var að teygja sig frá Grænlandi og yfir landið með vaxandi frosti og éljagangi norðan- og austanlands.
Nóttin leið án tíðinda um borð í Óðni, en rétt fyrir kl. 0900 um morguninn kom kall frá breska togaranum Huddersfield Town sem tilkynnti að togarinn Wire Conquerer FD 187 hefði strandað um nóttina 1/2 N frá Portlandsvita (vitanum á Dyrhólaey) hvað sem það þýddi nú. Hafði Wire Conquerer strandað um kl. 0100 og þá kallað í breska togarann Dillingham, sem var skammt frá, til að athuga hvort þeir gætu komið til aðstoðar við að ná togaranum út, sem hann taldi sig ekki geta. Sendir Wire Conquerer var svo veikur að ekki náðist í nema næstu stöðvar. Skipstjórinn taldi litla hættu á ferðum enda Wire Conquerer á réttum kili og aðeins um 20 m. frá landi. Það var því ekki fyrr en kl. 0850, þegar Hudderfield Town kallaði í Óðinn, sem tilkynning um strandið barst til íslenskra björgunaraðila. Við boðin breyttist andrúmsloftið um borð í Óðni. Akkerið var híft í skyndi og stefnan sett grunnt austur með landinu til leitar að strandinu. Staðarákvörðunin sem gefin hafði verið var enganvegin marktæk. Var keyrt á fullri ferð móti austan 6-7 vindstigum. Haft var tafarlaust samband við Landhelgisgæsluna sem kom boðunum áfram til Slysavarnafélagsins. Kom Slysavarnafélagið boðunum áfram til björgunarsveitarinnar undir Eyjafjöllum um að togari væri sennilega strandaður vestan við Dyrhólaey. Byggði það mat á þeirri óljósu staðarákvörðun sem gefin hafði verið. Björgunarsveitin Von fór því niður á Sólheimafjörur og greip þar í tómt, ekkert skip sást þar strandað. Var nú ákveðið að björgunarsveitir biðu átektar meðan Óðinn leitaði betur að strandinu. Um kl. 1030 var orðið ljóst af miðunum, sem framkvæmdar voru á Óðni, á senditæki Wire Conquerer, sem búið var að ná sambandi við, að hann væri orðinn nálægur og trúlega strandaður einhversstaðar í námunda við ósa Múlakvíslar, austan við Vík í Mýrdal, enda var ekki að sjá neitt strandað skip frá Óðni séð, sem búinn var að sigla grunnt með ströndinni austur undir Dyrhólaey. Var því kallað í Loranstöðina á Reynisfjalli og hún beðin að koma þessum upplýsingum til björgunarsveitarinnar í Vík. Eftir því sem Óðinn nálgaðist strandstaðinn varð miðunin nákvæmari og rétt fyrir kl. 1100 var komin nákvæm staðsetning á Wire Conquerer milli Múlakvíslar og Miðkvíslar á Mýrdalssandi. Þá var björgunarsveitinni beint á þann stað, en tíður éljagangur var búinn að hamla skyggni austur með Mýrdalssandi, frá bæjunum austan Víkur.
Þegar Óðinn lagði af stað frá akkerislæginu undir Eiðinu var strx farið að gera báta varðskipsins klára, línubyssu, björgunarvesti, tildráttartaugar og dráttarvíra ef á þyrfti að halda. Í brúnni stóð yfirstýrimaðurinn vaktina og skipherra var mættur til að hafa yfirumsjón með aðgerðum. Loftskeytamaðurinn var á sínum stað og annaðist öll talstöðvaviðskipti við land og önnur skip sem málið varðaði. Þegar komið var austur á strandstaðinn kl. um 1155 kom hins vegar í ljós að ógjörningur var að komast að togaranum frá sjó til að bjarga áhöfninni. Miklir brimskaflar voru svo til sleitulaust milli Óðins og strandaða skipsins, enda braut á tveim sandrifum sem togarinn hafði skrönglast yfir og beint upp í fjöruna. Var nú lagst við akkeri undan strandstaðnum enda kom í ljós að björgunarsveit Slysavarnafélagsins í Vík Víkverji var komin í fjöruna ofan við togarann og voru togaramenn að fleyta línu í land fyrir björgunarmenn að koma fyrir björgunarstól með tildráttarlínum. Ekki kunnu togaramenn að festa blökkina um borð í togaranum með s.k. tildráttartaug og endaði það bras með því að einn björgunarmannana í landi, Reynir Ragnarsson, las sig eftir líflínunni sem komin var um borð og gekk frá björgunarstólnum þannig að björgun gat hafist. Gekk nú greiðlega að ná öllum 18 áhafnarmeðlimunum í land, auk Reynis þannig að kl. 1338 tilkynnti björgunarsveitin Óðni að björgun áhafnar væri lokið og farið yrði með hana til Víkur.
Því má bæta hér inn í að skipstjóri Wire Conquerer, Matthew Mecklenburgh og áhöfn hans voru að fara þessa einu ferð á Wire Conquerer, til veiða hér við land, en voru annars venjulegast á togaranum Imperialist við veiðar hérna. Hafði Matthew skipstjóri og áhöfn hans á Imperialist sýnt mikla hugdirfsku og áræðni við að bjarga níu manna áhöfn vélbátsins Stráks frá Grindavík, þegar hann var að reka upp í Krísuvíkurbjargið nákvæmlega þrem mánuðum fyrir þennan atburð. Var Matthews og áhöfn hans heiðruð sérstaklega af Slysavarnafélagi Íslands fyrir þetta afrek.
Um borð í Óðni var nú hafist handa við að undirbúa björgun togarans úr strandinu, en hann var óskemmdur. 5 tommu dráttarvír var tekinn úr vírageymslu undir skutþiljum og komið fyrir á 20 tonna dráttarspilinu. Sjósettur var vélbátur og handlóðað dýpið aftan við togarann og út frá honum, það teiknað upp og kortlagt með nýju byltingarkenndu tæki sem nýlega var búið að koma fyrir um borð í Óðni, s.k. photo plot, sem var samtengt Kelvin Huges ratsjánni. Þetta tæki, sem var sett í Óðinn 22. febrúar 1965, var í raun mjög hraðvirk myndavél, sem tók myndir af radarskjánum í sífellu, framkallaði og varpaði síðan upp á stóra borðplötu úr gleri. Rann filman af 16 mm. spólu í töku, þaðan í framköllun, síðan í sýningu og að því lokum á aðra spólu. Hægt var að strekkja gegnsæjan pappír á plötuna og skrifa inn á myndirnar athuganir og minnisatriði. Frá því að myndin var tekin, hún framkölluð og henni síðan varpað upp til skoðunar, liðu ekki nema 3 og ¾ úr sekúndu þannig að með því millibili mátti alltaf fá nýja mynd af radarskjánum til skoðunar. Þannig mátti skrá jafnóðum þær hreyfingar, sem komu fram á milli mynda, á pappírinn sem strengdur var á glerborðið. Myndirnar voru dag- og tímasettar svo auðvelt var að rekja atburðarásina síðar, eins og hún birtist á radarskjánum, t.d. fyrir dómstólum ef þurfa þótti. Þetta þótti mikil tækniframför, áður en stafræna myndbands- og tölvutæknin sem nú er notuð, við upptöku og varðveislu á gögnum, kom til sögunnar. Þótti tækið svo merkileg nýjung í siglingatækni að hálfu öðru ári eftir að þessi atburður átti sér stað, sem hér greinir, (12. ágúst 1967) var Haraldur krónprins Noregs (núverandi konungur) á ferð með Óðni, í opinberri heimsókn til Íslands. Varð hann svo uppnuminn af tækinu og innviðum þess að íslenskir ráðherrar, sem ólmir vildu bjóða krónprinsinum upp á veitingar í forsetastofu skipsins, fóru bónleiðir til búðar, krónprinsinn var hálfur inni í photo plottinu þegar boðið kom og fékkst ekki til að víkja frá því. Haraldur krónprins var þá þegar orðinn siglingafræðingur og búinn að ljúka foringjaþjálfun í Norska flotanum. Hefur hann alla tíð verið mikill siglingakappi sjálfur. Nú var photoplottið notað til að gera nákvæmt kort af ströndinni, staðsetningu togarans á henni og dýpistölum aftur af togaranum, eins og sandrifin leyfðu.
Um kvöldið var öllum undirbúningi að björgun Wire Conquerer lokið um borð í Óðni. Samkomulag var að Landhelgisgæslan sendi menn austur til að undirbúa skipið undir að vera dregið út og setja dráttarvíra fasta um borð, daginn eftir. Viðbúið var að bíða þyrfti einhverja daga eftir stærri straumi og var nú vonað að veður spilltist ekki, enda spáð norðlægum áttum með snjókomu norðan- og austanlands, en björtu sunnanlands. Reyndar var aust- norðaustan 6 - 7 vindstig og snjókoma á strandstaðnum þetta kvöld. Var Óðinn því áfram við akkeri undan Kötlutanga þegar þreyttir menn gengu til hvílu um kvöldið eftir erfið undirbúningsverk. Aðeins vaktin hélt verði sínum á stjórnpalli og í vélarúmi að venju þetta þriðjudagskvöld 18. janúar 1966.
Áframhald innan tíðar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2010 | 20:53
Menntun mannauðs
Þær bólur sem oflátungsgangur og agaleysi græðginnar blésu út springa nú framan í þjóðina hver af annarri. Fyrst sprakk bankabólan, í kjölfarið brjálæðisleg byggingabóla ásamt hégómlegri bílabólu og nú er menntabóla við það að springa með tilheyrandi ósköpum. Þjóð sem telur rúmlega 300 þús. manns í 103.000 km² landi rekur 7 háskóla vítt og breytt um eyjuna. Þessir oflátungar sem hér hafa búið hafa aldrei litið til gæða heldur magns í öllu sem þeir gera.
Orðtæki segir að mennt sé máttur. Þeim mætti er oft misbeitt með hrikalegum afleiðingum. Það gleymist líka að með mikilli menntun fólks kemur ekki endilega vel menntað fólk, menntakerfi getur allt eins framleitt illa menntað fólk. Því eru það gæði menntunar sem nota á við flokkun fólks eftir menntunarstigi. Í hinum lítið menntaða getur búið mikil viska sem er virkjanleg til góðs ef heiðarleiki og mannkærleikur fylgir. Heimska getur á sama hátt tröllriðið huga þess mikið menntaða. Efnahagsundrið á Íslandi var leitt að mestu af mikið menntuðum heimskingjum sem voru þjáðir af viskuskorti. Það voru ekki hinir vísu sem leiddu þjóðina til glötunar heldur hinir heimsku. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr menntun heldur til að minna á að menntaður heimskingi er hættulegri en ómenntaður en þeim síðarnefnda má frekar fyrirgefa. Vitur menntamaður er hverri þjóð gulls í gildi, sem vegna visku sinnar léti sér aldrei detta í hug að éta gull þótt ríkur væri, líkt og mikið menntuðum en hégómafullum heimskingjum fannst sæma.
Nú er tíðrætt um þann mannauð sem leiða á Ísland til þeirrar endurreisnar sem þjóðin þráir og því má spyrja spurninga um menntun þess mannauðs? Getum við treyst þessum mannauð? Er menntakefið kannski búið að þrengja fróðleiksmiðlunina inn á svo mjótt einstigi sjálfhverfu og hroka að þau sem það einstigi feta telji sig ekki þurfa að líta upp á vegferð sinni til að skynja og taka tillit til samferðamanna sinna og þess umhverfis sem þau fara um. Alla vega er ljóst að það er sjálfhverfa, fals, hroki og þröngsýni þess mannauðs sem á sviði stjórnmála, embætta, atvinnulífs, verkalýðsbaráttu og fjölmiðla sem leiddi þjóðina fram af hengiflugi. Til eru undantekningar sem eru beðnar að afsaka orðbragðið.
Klisjur fljúga um fjölmiðla sem fyrr, falskenningum er haldið óbreyttum á lofti og líkönin sem eiga að leiðbeina til farsællar niðurstöðu hafa enn ekki verið endursmíðuð. Ekkert hefur í raun lærst. Hið mjóa einstigi Hólmsteins-heilkennisins, þ.e. að græða á daginn en grilla á kvöldin, situr enn í hjörtum hinna sanntrúuðu. Og enn leiðir örvænting hins getulausa inn á annað einstigi þar sem þeir sem það vilja feta sjá aðeins eitt hjálpræði við hinn enda stígsins, bláann fána með gylltum stjörnuhring. Við fetum nú einstigi hins uppgefna og bugaða sem misst hefur allt sjálfstraust og lætur kúga sig til hlýðni. Mannauðsins sem laug svo hrikalega að sjálfum sér og þjóð sinni að hætt er við að hún verði fórnarlamb þeirrar örvæntingar sem rústar samfélagsmynd hennar innanfrá. Mannauðsins sem trúði að framleiðsla á væntingum í stað verðmætasköpunar væri vegurinn til velsældar. Mannauðsins sem í hroka sínum sagðist vita öðrum betur og þorði svo ekki að horfast í augu við sannleikann og takast á við hann af reisn, þegar vísir menn vöruðu við. Mannauðsins sem telur bestu leiðsögnina inn í framtíðina vera að setja ESB gulrótina á stöng fyrir framan augun á asnanum svo hann gleymi hve þungt eykið er sem hann dregur.
Keilir gagnrýnir skýrslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.7.2010 | 10:33
Við gefumst upp
Mynd af Tý, fengin af mbl.is.
Það er til góð saga um Mogens Glistrup, sem stofnaði Framfaraflokkinn í Danmörku, um stefnu hans í varnar- og öryggismálum. Almennt var þó gert grín að pólitískri sýn hans á framtíðina, en nýjustu fréttir sem berast vekja spurningar um hvort hann hafi e.t.v verið á undan sinni samtíð. Þegar hann var beðinn að gera grein fyrir stefnu sinni í varnar- og öryggismálum sagðist hann vilja spara með því að leggja herinn niður, loka varnarmálaráðuneytinu og stilla símanúmer þess í símaklefa á Strikinu þar sem fyrir væri komið símsvara. Ef hringt yrði í númer ráðuneytisins yrði svarað, "varnarmálaráðuneytið góðan dag. Við gefumst upp, vinsamlegast hafið samband við NATO ef frekari upplýsinga er óskað". Rökstuddi hann þessa skoðun sína með því að herinn gæti hvort sem er ekki neitt og að valtað yrði yfir hann á fyrstu mínútum stríðs.
Nú hefur það gerst hér á landi að ríkisstjórnin í umboði alþingis hefur tekið upp uppgjafastefnu Glistrups með því að hætta órofinni landhelgisgæslu við landið. Ástæðan er að sú þjóð sem á fátæktarárum sínum hafði þann metnað til að bera að verja lögsögu sína í landhelginni hefur ekki efni á að verja hana á mestu velmegtardögum sínum. Alþingi hefur boðað að við eigum að gefast upp. Reyndar verður alþingi að njóta þess sannmælis að það ætlar ekki að stíga skrefið til fulls. Enn verður svarað í síma Landhelgisgæslunnar og skrifstofurekstrinum haldið með fullum dampi. Uppgjöfin nær eingöngu til landhelgisgæslu.
Pistlahöfundur varð þeirrar gæfu njótandi að starfa um 10 ára skeið við Landhelgisgæsluna, þegar hún var virk í vörn lögsögunnar og einn mikilvægasti hlekkurinn í öryggisgæslu á hafinu kringum landið og við strandbyggðir þess. Þá var nýbúið að ná áfangasigri í útfæslu landhelginnar í 12 mílur og mikil áhersla lögð á að verja þann sigur. Við stjórnsýsluna í landi starfaði forstjórinn, einn ritari, einn skipstjóri eða stýrimaður eftir atvikum, tveir loftskeytamenn, eftrilitsmaður og birgðaðvörður, samtals 7 menn. Til að verja landhelgiuna voru þá rekin 7 skip og tvær flugvélar, með fullum áhöfnum til að mæta fríum og öðrun frátöfum.
Sú þurrð sem nú er orðin í íslenskri landhelgisgæslu hefur víðtæk áhrif á sjálfstæði þjóðarinnar. Hún hefur nú þegar lamað möguleika okkar til að verja þá auðlind sem við börðumt fyrir í endurtekinum þorskastríðum. Íslendingar eru því smám saman að tapa yfirráðum yfir landhelginni vegna skorts á skipum og flugvélum til að hafa eftirlit með henni og verja. Við erum sem sagt að missa þau tök á verndun landhelginnar sem við náðum úr höndum dana fyrir um 85 árum. Því vek ég athygli á þessu að við erum byrjuð á að biðja Dani að taka við aftur? E.t.v. væri það happadrýgst fyrir veslinga sem geta ekki séð um sig sjálf.
Eitt varðskip við Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.7.2010 | 17:10
Er sannleikur hættulegur þjóðaröryggi?
Bandaríkin fordæma birtingu leyniskjala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2010 | 16:57
Flott mál eða hvað?
Matvörur hafa lækkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.7.2010 | 17:30
Dvergurinn í kassanum.
Saga sem sögð er úr fortíð er sambland af þeim sannleik og skáldskap sem minningar vefa.
"Hundavaktin", frá miðnætti til 0400 á síðnóttu, var oftast rólegt um borð í MS. Gullfossi. "Brandvaktarmaðurinn", sem var í raun öryggisvörður um borð, var þriðji hásetinn á vaktinni, við hinir tveir stóðum vaktina á stjórnpalli ásamt 3. stýrimanni. Hlutverk brandvaktarmannsins var að fara í reglulegar eftirlitsferðir um vistarverur skipsins og gæta að öryggi farþega og áhafnar sem og að taka sig af þeim sem voru á ónæðissömu fylleríi á göngum eða í klefum eftir lokun á börunum. Því vorum við sem stóðum vaktina á stjórnpalli blessunarlega lausir við að annast, það sem nú kallast áfallahjálp, fyrir þá sem töldu sig drekkja sorgum svikinna ásta eða þagga niður í söngþörf ölvaðra hetjutenóra. Það sem þó gat truflað hug okkar, sem vorum á vakt í brúni, frá skyldustörfum við stjórn skipsins, var ef við sáum par paufast eftir myrkvuðu fordekkinu til ástarleikja. Slíkir leikir voru stundum iðkaðir milli bíla sem voru keðjaðir fastir á tvölúgunni framan við brúnna. Þar var myrkur og fólk gerði sér ekki grein fyrir að menn voru á bak við myrkvaða glugga brúarinnar, sem voru búnir að venjast myrkrinu og sáu allt sem fram fór. Ef fólk valdi sér staði þar sem það var í hvarfi frá brúnni séð, sem var sjaldnast, urðum við að ímynda okkur framgang leiksins eftir tímalengd viðdvalarinnar. Ímyndun jafnast þó hvergi á við raunverulega sýningu í þessum efnum. Fólk sem hafði ekki aðstöðu í eigin klefa varð að láta fara nógu notalega um sig á lestarlúgu á Gullfossi til að losa út þann losta sem kallaði, enda ekki alltaf mulið undir þegar girndin tekur völd á heitum sumarnóttum. Stundum gerðist það, að drukknir farþegar slöngruðu upp á fordekkið meðan ástarleikur var í algleymi, og var þá skellt örstuttum geisla frá morsekastaranum á parið með tilheyrandi flemtri, buxum upp og pilsi niður. Töldum við það mannúðlegra en að láta samfarþega standa þau að verki með tilheyrandi niðurlægingu og vandræðum það sem eftir lifði ferðarinnar, sérstaklega ef leikurinn skyldi vera í meinum.
Við vorum á leið frá Leith til Kaupmannahafnar eina aðfararnótt miðvikudags eins og svo oft áður. Gullfoss rásaði lítilsháttar með hægum hliðarveltum sem kölluðu ekki á sjóveiki hjá farþegum. Þetta var hlý ágústnótt, skýjað svo tungl óð í skýjum og stjörnur blikuðu á milli svo skíma var af. Það var búið að vera mikið fjör um kvöldið og spilað á píanóið í "musiksalnum", enda hluti farþeganna ný stignn á skipsfjöl, Bretar á leið til Danmerkur í frí eða Danir á leið heim eftir frí. Íslensku farþegarnir voru hins vegar á fjórða degi ferðarinnar og því orðnir heimavanir um borð. Það var búið að loka fyrir veitingar svo farþegarnir voru flestir komnir í ró og kyrrð komin á í farrýmum og vistarverum áhafnar. Þögull erill var eingöngu hjá þeim sem stóðu sínar vaktir.
Klukkan var rétt að ganga tvö þegar hásetinn sem var með mér á vaktinni sagði allt í einu lágum rómi. "Það er par að koma upp á fordekkið". Var nú eitthvað spennandi í aðsigi? Við fylgstum með parinu þar sem það gekk nokkuð óhikað fram eftir fordekkinu, enda skíma frá tungli eins og áður sagði. Námu þau ekki staðar fyrr en fremst í stafni og stóðu þar kyrr arm í arm og horfðu fram á sjóinn. Það var ljóst að þarna var á ferðinni hrífandi rómantík, í ætt við þá "senu" sem sló í gegn í myndinni Titanic, undir laginu "My heart will go on". Fólk fyllist nefnilega rómantískri frelsistilfinningu þegar það stendur í stafni skips og horfir út á hafið og finnur hvernig skipið klýfur það á ferð sinni. Í stafninu er yfirleitt kyrrð nema sá niður sem heyrist frá frussinu sem myndast þegar stefnið klýfur ölduna. Aðrir hlutar skipsins, véladynurinn, fólkið og erillinn er oftast fyrir aftan og áreitir ekki hugann.
Þannig háttaði til í blástefni Gullfoss að fremst var þríhyrningslaga pallur eða sylla ofan á lunningunum þar sem þær mættust. Upp úr pallinum, í blástafninu, var lítil flaggstöng og freistuðust sumir til að klifra upp á sylluna og halda sér í flaggstöngina, en við vorum fljótir að bægja því niður ef svo var. Undir þessari syllu var svo lítill stálskápur lokaður með tessum, sem hýsti taltækið, þ.e. hátalara og hljóðnema, til sambands við mennina sem voru frammá við komu og brottför úr höfn.
En nú hljóp púki í 3. stýrimann, enda annálaður hrekkjalómur. Sáum við hvar hann gekk að taltækinu og kveikti á því. Því næst gekk hann með hljónemann fram að brúarglugga og gerði röddina mjóróma þegar hann sagði á ensku "halló er einhver þarna?". Það leyndi sér ekki að fólkinu krossbrá. Þau hörfuðu afturábak, litu hvort á annað og áttu einhver orðaskipti, en virtust svo ætla að leiða þetta hjá sér og hölluðu sér hvort að öðru. Þau ætluðu sér auðsjáanlega ekki að láta einhverja ímyndun um torkennilegar raddir trufla rómantík augnabliksins. En stýrimaður var ekki af baki dottinn, heldur færðist allur í aukana og hóf upp sömu mjóróma röddina. "Ég heyri í ykkur, ég er nefnilega lítill dvergur og ég var lokaður inni í skápnum fyrir framan ykkur". Getið þið hleypt mér út"? Viðbrögðin voru ævintýraleg. Fyrst hrukku þau afturábak, litu flemtruð hvort á annað og svo hljóp konan aftur fyrir akkerisspilið. Maðurinn virtist nú átta sig á hvaðan hljóðið kom og starði á skápinn undir syllunni, ekki nema í mesta lagi 50X50 cm. Ekki sáum við svipinn því bæði var hann of langt frá og svo snéri hann baki í okkur. "Gerðu það", bætti stýrimaður við og nú gerði hann röddina líka örvæntingarfulla. Maðurinn starði á kassann en konan hrópaði á hann að koma strax í burtu frá þessum óskapnaði. Þau voru orðin svo hávær að við gátum heyrt í þeim úr taltækinu þótt það væri lokað inní skápnum. "Ég verð að komast út", bætti stýrimaður við, "því mér er svo mál að pissa". Maðurinn, þótt ráðvilltur væri og rómantíkin rokin út í veður og vind, tók nú rögg á sig og gekk að skápnum, undir hrópum konunnar, "í Guðanna bænum komdu og snertu ekki neitt". Þegar maðurinn kom að skápnum losaði hann um tessana og svipti skápnum upp. Við honum blasti tækið, sambyggður hátalari og hljóðnemi, og úr hátalaranum hljómaði skellihlátur stýrimannsins.
Við vorum búnir að opna þá brúarglugga sem við vorum við þegar maðurinn snéri sér sótbölvandi við og starði upp til okkar, steytandi hnefann. Hlátur konunnar hljómaði undir því henni varð um leið grínið ljóst og sljákkaði því fljótt reiðin úr manninum svo hlátur leysti reiði af. Stýrimaðurinn sem var jafn góðlyndur og hann var hrekkjóttur talaði nú til fólksins í gegnum taltækið, þar sem það virtist enn í uppnámi og bað það margfaldrar afsökunar á hrekknum og bauð þeim með það sama að koma upp í brú, en þangað var farþegum að jafnaði ekki boðið að koma. Skömmu seinna komu svo hjónin (sem við fréttum þá að voru) á stjórnpall og undu vel við þá sárabót að kynnast tækjum og siglingu skipsins.
Líkan af Gullfossi má sjá í Sjóminjasafninu Víkinni við Grandagarð.
Guðjón Petersen frv. háseti á MS: Gullfossi.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar