Er kerfishrun orðin staðreynd.

Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að kerfishrun sem sumir óttuðust er orðið. Alþingi er í algjöru uppnámi og veit ekki sitt rjúkandi ráð, ríkisstjórnin er löngu flúin raunveruleikann og glundroði ríkir í öllu fjármálakerfinu,glundroði sem hefur ríkt í 10 ár hið minnsta. Því miður er hrunið núna fyrst að verða að hinum koldimma veruleika.
mbl.is Almenningur fengi reikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólahringurinn

Sólahringurinn er ekki 24 tímar heldur 24 tímar 03 mín. 56,55536 sek. miðað við stöðu sólar.

Einn hringsnúningur jarðar (360°) er hins vegar 23 tímar 56 mín. 04,09054 sek.

Hvortveggja eru meðaltöl.


mbl.is Breytti möndli jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki frétt

Það hefur ekki þótt fréttnæmt að verðbólga á Íslandi sé miklu hærri en í viðmiðunarlöndum. Þá fyrst þætti það frétt ef við gætum verið í líkingu við aðrar þjóðir hvað varðar fjármál almennt, þ.m.t. verðlag.
mbl.is Langmest verðbólga á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þekkja hlutverk sitt.

Ég "datt" inn í umræðuna á alþingi um vanda dómstólanna. Í þeirri umræðu komu tveir þingmenn Vigdís Hauksdóttir og Höskuldur Þórhallsson sem bæði orðuðu svo að Framkvæmdavaldið hafi ákveðið að skera niður um 10% í málaflokknum. Því finnst mér ég verða að upplýsa háttvirta alþingismenn um, fyrst þeir vita það ekki, að framkvæmdavaldið ákveður hvorki eitt né neitt um fjárveitingar. Sé skoðun þingsins sú að fjárveitingarvaldið sé í höndum framkvæmdavaldsins þá þurfa þingmenn betri fræðslu við. Reyndar er ekki von á góðu, né trausti ef þeir vita ekki betur.
mbl.is Verður að leysa vanda dómstóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óður til Hornstranda

thor.jpg Varðskipið Þór (eldri)

Í minnisbók frá varðskipinu Þór, frá árinu 1963, rakst ég á eftirfarandi vísur eftir Bjarna Ó. Helgason þá yfirstýrimann, sem hann kallar "Óður til Hornstranda".

 Óbyggðar víkur, vogar og sker,

veiðilönd afbragðs góðu.

Selur í fjöru, safarík ber,

silungur vakir í móðu.

 

Kveður í eyrum kvak og garg,

kvikan fellur að sandi.

Fiskur á öngli og fugl við bjarg,

fegurðin óþrjótandi.


Blog hinna neikvæðu

Það er mikið skrifað, fyrir marga að lesa, svo mér datt í hug að birta þetta:

Ef lesarann líkar ekki neitt,

lætur hann ganga róginn

og finni hann laufblað fölnað eitt

fordæmir hann allann skóginn.

Höf. ókunnur

Þessi mynd er úr nýju vél Landhelgisgæslunnar TF SIF

brunavegur_043.jpg


Ungmeyjardraumur

img_9259.jpgÉg er að safna gögnum úr siglingasögu varðskipsins Óðins. Í minnisbókum Óðins rakst ég á þessa vísu sem stúlka að nafni Ingibjörg Jónasdóttir skrifaði inn í hana þegar hún sigldi með Óðni 13. júní 1966, frá Súgandafirði til Skagastrandar ásamt 22 öðrum skólafélögum og kennurum.

Á Óðni er svo yndislegt að vera.

Ég aldrei vildi annað þurfa að gera,

en sigla hér með svaka ferð um sæinn

og horfa á sæta gæja allan daginn.

Ef Ingibjörg Jónasdóttir, sem orti, sér þetta má hún láta mig vita af sér á klossi@simnet.is því ég myndi vilja heyra frá henni um ferðina.


Óðnn til varðveislu

img_9265.jpgÓðnn kominn til varðveislu við Sjóminjasafnið Víkina, opinn almenningi til sýnis.

 

16. janúar n.k. er hálf öld síðan íslenski fáninn var dregin að húni á varðskipinu Óðni þar sem hann var afhentur nýr frá skipasmíðastöðinni í Ålborg, Danmörku. Átta dögum síðar, eftir tilraunir og æfingar, sigldu stoltir menn Óðni "yfir hafið og heim", reiðubúnir til átaka um yfirráðin yfir 12 sjómílna fiskveiðilögsögunni, sem þá stóðu sem hæst. Fyrir voru í baráttunni fjórir litlir varðbátar og tvö varðskip Ægir "gamli" sem var orðinn  31 árs og Þór, gallagripur frá upphafi 10 ára sögu sinnar. Nöfn þessara skipa voru greipt í hugi landsmanna þegar þeim var beitt í þeirri sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að ráða sínum auðlindum sjálf. Þessi skip eru nú horfin að undanskyldum Óðni. Reyndar má enn sjá Þór, ryðgaða hryggðarmynd við bryggjuna í Gufunesi eftir áratuga reiðaleysi sem draugaskip í Reykjavíkurhöfn. Ævintýramenn ætluðu með hann í "útrás" sem veitingastað í London en enduðu það ævintýri jafn snautlega og farið hefur fyrir fleirum á þeirri braut.

Óðinn kom heim fyrir 50 árum og snéri þá stafni mót breskum herskipum, dráttarbátum og veiðþjófum annarra Evrópuþjóða. Baráttan snerist um 12 sjómílna, 50 sjómílna og að lokum 200 sjómílna lögsögu og alltaf var Óðni beitt. Oft kom hann skemmdur, skældur og skakkur úr þeim átökum en alltaf var honum beitt aftur og aftur eftir að hafa verið "tjaslað saman". Ekki bara í s.k. þorskastríðum heldur sleitulaust í 46 ár til varnar landhelginni, björgunar mannslífa og skipa, sjúkraflutninga og fólks- og vöruflutninga í afskekktar byggðir, sem voru margar með ströndum fram upp úr miðri síðustu öld. Í lok 7. áratugarins og í upphafi þess 8. var Óðinn notaður ítrekað til að ryðja braut í gegnum hafís fyrir flutningaskip sem fluttu lífsnauðsynjar til einangraðra staða og ef þau þraut aflið voru nauðsynjarnar settar um borð í hann til að brjótast með síðasta spölinn til hafna þar sem mest skorti. Hann fylgdi síldarskipum síðsumarlangt norður í Íshaf þar sem áhöfnin þjónustaði sjúka og slasaða eða gerði við flókin rafeindatæki og vélbúnað skipanna, en sú þjónusta skipti sköpum um að veiðarnar væru framkvæmanlegar á svo fjarlægum slóðum. Til sömu þjónustustarfa, sem og til að vernda hagsmuni íslenskra veiðiskipa, var honum ennfremur beitt í "Smuguna, norðan við hjara veraldar". Hann var meira að segja fenginn til að draga nokkra af síðustu síðutogurum landsins í brotajárn í útlöndum. Væri saga Óðins skráð frá fyrsta degi til hins síðasta í þjónustu lands og þjóðar væri það bæði æsispennandi og merkilegri "æfisaga" en margar af þeim sem hylli hafa notið frá því að honum var hleypt af stokkunum.

Skip væru lítils virði ef ekki væri fyrir þann mannauð sem þeim sigla. Óðni stýrðu 27 skipherrar hverra nöfn voru þá þekkt meðal landsmanna fyrir festu og færni á miðunum umhverfis landið, studdir af þeim 1430 skipverjum sem þjónuðu um lengri eða skemmri tíma á þessu varðskipi. Rúmlega 800 sinnum rataði nafn þessa mest notaða varðskips sögunnar á spjöld dagblaða og tímarita. Þessar 800 fréttir og greinar sem skrifaðar hafa verið um Óðinn eru þó örlítið brotabrot af þeirri sögu sem skipið geymir og sú saga lifir áfram með skipinu og talar til þeirra sem leggja leið sína um borð og skoða skipið.

Þegar Óðinn hafði lokið hlutverki sínu sem varðskip sáu menn fyrir sér að hann yrði höggvinn upp í brotajárn ef ekkert yrði að gert. En það yrði þó ekki fyrr en hann væri orðinn að samsvarandi lýti á Reykjavíkurhöfn og Þór er, ásamt handónýtum hvalbátum og öðrum "hræjum" sem liggja við Ægisgarð. Því tók hópur manna sig saman og stofnaði "Hollvinasamtök Óðins" sem hefur það eina markmið, að bjarga Óðni frá "klippum, sleggjum og logsuðutækjum". Félagar í þessum samtökum eru nú um 130 talsins. Það tókst að bjarga Óðni fyrir stuðning góðra stjórnmálamanna þ.m.t. þáverandi dómsmálaráðherra (sem reyndar var skráður sem viðvaningur og háseti á Óðni í 248 daga, á árunum 1960 til 1962). Því hefur skipinu verið búið leg við Sjóminjasafnið Víkina, við Grandagarð, þar sem það er orðið hluti af safninu og almenningi til sýnis. Þar var gimstein úr sögu þjóðarinnar bjargað frá glötun.

 

Guðjón Petersen

frv. stýrimaður á Óðni.


Morgunblaðið frá Austurstræti í Hádegismóa

309_austurstr.jpg

Rétt fyrir miðja síðustu öld gerðist ég bísnessmaður með "nætursölu" á Morgunblaðinu sem "viðskiptasnilld". Þá var Morgunblaðið til húsa í timburhúsum við Austurstræti 8, ásamt Ísafoldarprentsmiðju. Snilldin fólst í því að ég gat, í gegnum klíku, gengið að nýprentuðum og ferskum Morgunblöðum kl. sex á morgnana, áður en aðrir blaðasalar fengu afgreitt, og gengið upp Laugaveg á móti straumi þeirra daglaunamanna sem áttu að vera mættir kl. sjö á morgnana og selt þeim Moggann í lausasölu. Daglaunamenn áttu þá ekki bíl almennt og gengu því til vinnu mjög margir. Mig minnir að ég hafi aldrei komist nema upp að Barónsstíg þegar öll blöðin voru farin. Þegar þetta var, var Morgunblaðið merkilegasta blað landsins, fanst mér, með miklu og fjölbreyttu lesefni og Lesbókinni á helgum sem meira að segja polli eins og ég las spjalda á milli, enda var hún þá fjölfræðilegt rit, nokkurs konar "Lifandi Vísindi" þess tíma. Við Styrmir Gunnarsson vorum reyndar skólafélagar í Laugarnesskólanum þegar þetta var.

Svo flutti Morgunblaðið í ljótasta hallarskrípi Reykjavíkur og var ég þá löngu hættur að reyna að vera bísnessmaður. Ekki varð ég var við að Morgunblaðið elfdist eða batnaði við það að ryðja brautina fyrir eyðileggingu Kvosarinnar, þótt í "höll" væri komið. Lesbókin var enn í líkingu Lifandi Vísinda og tæpti stundum á þjóðlegum fróðleik sem nú er löngu liðin tíð. Þá var ekki búið að eyðileggja Útvegsbankahúsið sem nú hýsir héraðsdóm Reykjavíkur. En viti menn, fyrir um 40 árum átti ég erindi í "Höllina" í leit að "kjarnorkubyrgjum" fyrir Reykvíkinga. Kom í ljós að "pappírskjallarinn" í Morgunblaðshöllinni var með hæsta s.k." Protection Factor" sem fundist hafði í Reykjavík eða um 240.000. Ekki á ég von á að þáverandi eða núverandi starfsmenn blaðsins haf haft hugmynd um það.

Enn flutti Morgunblaðið og nú í nýbyggingu í Kringlunni. Enn gat ég ekki séð að Morgunblaðið tæki neina stökkbreytingu í gæðum nema ef vera skyldi að um svipað leiti fór það að verða opnara fyrir fjölbreytilegri straumum en strangtrúnaður í pólitík varð að sama skapi víkjandi. Hins vegar yfirgaf Lesbókin fjölfæðileikann og varð að einsleitu riti "menningar" og lista með allri þeirri hátimbruðu sjálhverfu sem þar ríkir. Undantekning er nöldurdálkar á 2. síðu og krossgátan aftast, sem öllu heilli lifði breytinguna af.

Einu erindi mín í Kingluhúsið voru með barnabarni á síðkvöldum, þegar ég var að passa, til að sækja blöð í afgreiðslu prentsmiðjunnar, en ungi maðurinn stundaði blaðburð af kappi til að hafa vasapening.

b985898b802de.jpgMorgunblaðið þurfti enn stærra og glæsilegra hús og nú var ekki um annað að gera en að flytja út í móa, Hádegismóa. Þar með fór blaðið á hausinn. Mogginn er ekki orðin svipur hjá sjón. Skelþunnur eftir fasteignafyllerí og þjáður af ESB ofvirkni og athyglisbresti. Ég hef einu sinni átt leið í "Móahöllina" og hafði á tilfinningunni að þar kæmi ég í tómasta hús í heimi. Ég sá stóra sali og mörg skrifborð en ekkert af fólki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband