Þröskuldur Þolsins

 

Ljóst er út frá atburðum undanfarna daga að hagsmunadans peningaelítu og pólitíkusa er orðinn svo hraður og villtur að svimi í stað skynsemi er tekinn við hjá dönsurunum. Þeir sem hann þreyja eru hættir að halda áttum því rythminn hefur rænt þá rökréttri hugsun.

Almenningi hefur margt blöskrað en nú var farið yfir þröskuld þolsins. Allir "ismar" sem byggja á órökréttum falstrúarbrögðum, í stað heiðarleika og einlægni gagnvart samborgurm, eins og kommúnismi, nasismi, fasismi eða kapitalismi, eru dæmdir til að bresta fyrr eða síðar. Bresturinn verður þegar "-isminn" stígur yfir ákveðin þanmörk sem nefna má "þröskuld þolsins".


mbl.is Minnist þess ekki að hafa séð minnisblaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

104 Drumbur í drifi

Rigning á stýrimann Grendjandi rigning í slussuenda 

ið fórum frá Konz kl. 0900 laugardaginn 11. ágúst og var nú stefnan sett á Schwebsange í Luxemburg. Eftir skamma stund fórum við framhjá mótum Mosel og Saar fljótsins og var haldið rakleiðis áfram upp Mosel á um 10 hnúta hraða. Umferðin fór nú jafnt og þétt minkandi, flutningalegtur orðnar strjálli og ekki mikið af skemmtibátum á ferð, aðeins einn og einn á stangli. Eftir um 6 km. siglingu kom Sauer kanallinn í ljós á stb., við bæinn Wasserbillig og vorum við nú komin með Luxemburg á stb. og Þýskaland á bb. Áfram var haldið framhjá bæunum Mertert og Gravenmacher, en þegar hann var að baki var komið að fyrstu slússunni þar sem framundan var að lyfta okkur um 4 m. Á leiðinni var búið að bera nokkuð á trjádrumbum og gróðurhríslum á reki á fljótinu, leyfar flóðanna í Evrópu fyrr um sumarið, okkur til nokkurra ama. Við vorum samferða öðrum skemmtibát í slússuna, sem er 170 m. löng, og var samferðabátur okkar fyrir framan. Tókum við eftir því þegar við komum okkur fyrir inni í slússunni að nokkrir trjádrumbar voru við lokuna fyrir framan, ásamt öðru drasli sem ekki hafði verið reynt að hreinsa burt. Var nú lokunni lokað fyrir aftan okkur og fljótlega byrjaði vatnið að flæða inn í slússuna og við að lyftast. Allt gekk þetta eftir venju og þegar slússan var orðin full var fremri lokan opnuð og báturinn fyrir framan okkur fikraði sig út.  Hann fór í gegnum draslið sem var dreift um endann á slússunni og í kjölfar hans virtist opin renna myndast í gegnum það sem ég fór nú í gegnum á hægustu ferð. Frú Lilja reyndi hvað hún gat að stjaka stærstu drumbunum frá meðan við fikruðum okkur áfram en hinir í áhöfninni voru með vakandi auga með hvort eitthvað gæti ógnað skrúfunum. Virtist allt hafa sloppið vel og þegar við vorum komin um km. út úr slússunni gaf ég vélunum aukið afl til að ná upp hraðanum. Um leið kom í ljós að vandi var á ferðum. Báturinn snerist til stb. án þeirrar hröðunar sem vænta mátti. Tókst að halda stefnunni með því að gefa stýrið um 15 - 20° í bb. en hraðinn kom ekki upp. Bót var þó í máli að ekki var að heyra eða finna að skrúfa eða drif stb. megin væru eitthvað heft eða skemmt því að vélarnar snerust báðar jafn hratt, samkvæmt RPM mælunum og engin óeðlileg hljóð eða titringur fannst. Því var eina ályktunin sem af þessu mátti draga að trjádrumbur hefði náð að fara undir bátinn og skorðast á milli báts og hældrifs framan við skrúfuna og mynda meiriháttar "drag" stb. megin. Eftir að hafa farið hratt yfir möguleikana í stöðunni ákvað ég að snúa stýrinu hratt fram og aftur til stb. og bb. og viti menn allt í einu var eins og losnaði um alla þvingun og sást þá lítill trjádrumbur koma upp í kjölrákinni. Var nú ferðin aukin og förinni haldið áfram eins og ekkert hafði í skorist og létti öllum.

Um 24 km. lengra upp í Mosel komum við svo í næstu slússu við bæinn Stadtbredimus þar sem okkur var enn lyft um 3.80 m. og kl. 1310 komum við svo til Schwebsange þar sem ákveðið var að hafa helgarviðdvöl og skoða sig um í Luxemburg. Höfnin í Schwebsange er glæsileg, grafin út úr vestur bakka árinnar og þéttsetin af skemmtibátum af ýmsum stærðum og gerðum. Umverfið er mjög fallegt og fyrir þeim enda hafnarinnar sem hafnarmynnið er, er eldsneytistaka, glæsilegur veitingastaður og klúbbhús auk þjónustumiðstöðva með salernum, böðum og þvottavélum. Norðan við höfnina er stórt hjólhýsa- og húsbílasvæði en sunnan í henni siglingaskóli fyrir kappróðrabáta, kæjaka og smáskútur. Við hafnarmynnið, fljótsmegin, er bryggja til að leggjast að þegar taka á eldsneyti og er þar jafnframt skilti sem á stendur að gestir eigi að leggjast þar og bíða eftir að Hafni úthluti leguplássi. Við bryggjuna var kominn báturinn sem var samferða okkur í gegnum slússurnar og lögðumst við að sömu bryggju til að bíða eftir að Hafni kæmi. Svolítið var skrítið að leggjast að bryggjunni því að stór hluti hennar var á kafi í vatni og stóðu aðeins pollarnir sem binda á í uppúr. Þar sem við lögðumst var reyndar bryggjan aðeins fyrir ofan vatnsborðið en vaða þurfti út að pollunum sem framendinn var bundinn í. Þessi staða var vegna þess að yfirborð fljótsins var mun hærra en eðlilegt er vegna flóðanna sem enn voru að skila sér niður fljótin.

Eins og áður sagði var báturinn sem við höfðum verið samferða í gegnum slússurnar lagstur á undan okkur og hét hann því skemmtilega nafni "New life". Nú er það svo að þegar maður fer að skoða nöfnin á bátum sem maður á leið með hvort sem er í höfn eða á siglingu þá finnur maður á sér ef einhver draumur eða saga er á bakvið nöfnin. Oft á tíðum eru nöfnin ósköp hversdagsleg eða dæmigerð eins og "Posedon", "Neptunus", "Albatros" o.s.frv., sem segja manni ekki nokkurn skapaðan hlut. Um borð í "New life"  var hins vegar miðaldra maður og kona hans á svipuðum aldri sem var að dunda sér við þrif úti á dekki þegar við lögðumst. Maðurinn var á bryggjunni að snuddast eitthvað við bátinn og fóru Örn og Lonnie að tala við hann. Kom í ljós að þarna voru þýsk hjón á ferð, sem eyða frítíma sínum í að sigla um "sjó og sund" eins og við, hann grunnskólakennari en ekki vissi ég hvað hún gerði. Hann hafði misst fyrri konu sína fyrir mörgum árum úr krabbameini. Nokkru eftir andlát hennar keypti hann sér svo bátinn með syni sínum með þeim ásetningi að byrja nýtt líf og nefndi hann "New life" til að undirstrika að minning liðins tíma og sorgin yrði að vera að baki og nýtt líf verða framundan. Síðar kynntist hann núverandi konu sem varð hluti af hans nýja lífi og gerðist þátttakandi í tilverunni á New life.

 

Schebsange Höfundur undirbýr sig til langöngu með Entrance Document

Hafni, snaggaralegur  og ræðinn kall, kom svo kl. 1400 og bað ég hann nú um legupláss yfir helgina. Var ég áður búinn að fá mér göngu um höfnina til að sjá út lausa bása því frá okkur var að sjá að hver "hola" væri legin. Við nánari athugun voru þó auðir básar innanum. Tók Hafni vel í það að við gætum legið þarna eins og við vildum og benti mér inn efir hafnargarðinum, sem var að sjá þéttsetinn af æfingabátum og sagði "farðu þarna inn með garðinum og þegar þú kemur að hvítmáluðum kanti legstu þar. Ef æfingabátarnir eru eitthvað að flækjast fyrir á svæðinu segðu þeim þá bara að hypja sig, en annars reyni ég að vera kominn þangað á undan þér og reka þá í burtu". Var nú farið í að gangsetja vélar og leysa landfestar og sigum við af stað inn í höfnina og inn með garðinum sem hann hafði bent okkur á. Varð ég tvívegis að flauta á kappróðrarbáta sem voru að æfingum inn með garðinum, þar sem ræðararnir sneru baki í okkur og sáu okkur því ekki. Var ég mjög feginn þegar inn var komið að sjá að Hafni var mættur á svæðið og var fólk í óðaönn að rýma til fyrir okkur með því að færa æfingabátana til. Var nú bundið í Schwebsange, rafmagnið tengt og búist til landgöngu til að afhenda "entrance document" og ganga frá öllum formlegheitum.


Konz og Trier

 

Kastalinn í Moselle  Falleg bygging við Mosel 

 Eins og fram kemur í síðasta pistli þá lágum við í Konz föstudaginn 10. ágúst því nú var meiningin að skoða borgina Trier, sem margir Íslendingar þekkja vel. Framundan voru tveir valkostir í siglingunni. Annar að halda áfram upp Mosel eins langt og hún er skipgeng, síðan inn í vesturhluta Rínar Marne Kanalinn og þá inn í Canal des Vosges sem er sérstaklega grafinn að hluta meðfram Mosel og tengir síðan leiðina frá Mosel og yfir í Saône fljótið í Frakklandi. Hinn kosturinn var að beygja við Konz inn í Saar fljótið, í gegnum borgina Saarbrücken þaðan inn í Saarkanalinn sem leiðir inn í austur hluta Rínar Marne Kanalinn og eftir honum í Canal des Vosges sunnan við borgina Nancy í Frakklandi. Við völdum að fara Mosel áfram, áætluðum að fara inn í Nancy og þaðan tengikanal frá Nancy inn í Canal des Vosges, en það átti eftir að breytast nokkuð síðar.

Í raun var mig svolítið farið að kvíða fyrir að farið yrði inn í Frakkland og þá aðallega vegna þess hvernig viðmóti Frakka er lýst á Breskum heimasíðum sem fjalla um siglingar þangað. Er þar sagt sumstaðar að þeir séu sérstaklega smámunasamir og erfiðir í samsikptum því að þeir neiti að tala annað en frönsku. Þar sem ég tala enga frönsku gerði ég því ráð fyrir að framundan væru tómir samskiptaörðuleikar og vandræði. Það kom hins vegar á daginn að sá kvíði var óþarfur. Við höfum ekki mætt öðru en hinu besta viðmóti hjá frökkum og ekkert mál er að komast áfram á enskunni sem okkur er tamast auk íslenskunnar. Því ættu engir sem hafa áhuga á að heimsækja Frakkland að láta svona draugasögur aftra sér. En meira um það þegar fram vindur sögunni.

Haust 2007 190 Rómverskar rústir í Trier

En nú var komið að því að skoða Trier og fórum við snemma dagsins í leigubíl frá Konz til Trier, enda stutt, aðeins 12 km. eins og sagði í fyrra pistli. Besta ráðið þegar skoða á borgir sem maður þekkir lítið er að fara í skipulagða skoðunarferð með leiðsögn og völdum við þann kostinn. Farinn var hringur um helstu sögustaði borgarinnar í hinni ágætustu rútu og hlustað á leiðsögnina á ensku. Það sem einkennir þessar borgir og bæi meðfram Mosel er hin mikla arfleið sem liggur eftir Rómverja frá því er Germania var hluti af Rómverska heimsveldinu. Þessi arfleið birtist helst í rústum eða heilum byggingum sem byggðar eru bæði sem hernaðarmannvirki (varnarveggir, borgarhlið og kastalar) og leikvangar. Jafnvel má sjá leyfar veitukerfa og brúa sem af verkfræðiþekkingu og hagleik þess tíma voru það rammgerð að tímans tönn og sprengjuregn vanþroskaðs mannkyns í styrjöldum hefur ekki tekist að afmá af yfirborði jarðar. Gleður það ekki síst að skilningur er vaxandi á þýðingu þess að sögunni má halda lifandi með varveislu þessara minja.

Eftir skoðunarferðina með rútunni var land lagt undir fót og gengið um helstu götur Trier og heimsóttu konurnar einhverjar búðir meira til skoðunar en innkaupa enda engu vant. Þegar langt var liðið á dag var aftur farið um borð og kvöldið tekið snemma eftir langan dag. Næsta dag yrði Þýskaland kvatt og Luxenburg heimsótt áður en haldið yrði inn í fljót og skurði Frakklands.


Skemmtibátamenning og pungaprófið.

Farið úr slússunni  Höfundur siglir skemmtibát sínum úr slússu í Frakklandi

Eins og fram kemur í fréttinni er "pungaprófið", sem er til atvinnuréttinda á skipum 30 brt. eða minni að líða undir lok. Í staðin koma um næstu áramót lög um nám og próf til að stjórna skemmtibátum allt að 12 m. lengd. Tel ég að þessi stærðarmörk séu í minnsta kantinum þar sem 12 m. skemmtibátur er frekar í minna meðallagi. Hefði átt að miða við allt að 20 m. skemmtibát í staðinn og gera meiri kröfur til námsins t.d. sömu kröfur og nú eru gerðar við 30 tonna pungaprófið. Skemmtibátasigling er mjög vaxandi frístundaiðja Íslendinga og því mikilsvert að vanda til náms og þekkingar þeirra sem stjórna svoleiðis bátum. Er t.d. mjög mikið um það að fólk fari erlendis og leigi báta til styttri eða lengri dvalar og siglinga um áhugaverðar slóðir. Góður og vel búinn skemmtibátur getur verið vænlegur kostur að eiga erlendis, allt eins og íbúð. Skemmtibáturinn gefur möguleika á að dvelja lengi á áhugaverðu svæði, flytja sig til á nýja staði til dvalar eða fara í ferðir út frá sínum dvalastað. Því er vel að sérstakt nám er í uppsiglingu fyrir þá sem hafa áhuga á slíku.

Taka má fram að ég er núna að byrja námskeið til pungaprófs á 30 tonna skip, (fyrsti tíminn er búinn) þannig að enn ér smá séns að komast að.


mbl.is Sexfalt fleiri taka pungapróf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

102 Áfram upp Mosel til Konz við Trier

Beðið eftir slússu Þær geta allt til sjós þessar. 

Vínekran I love hvítvínið í Neumagen 

Fimmtudaginn 9. ágúst var komið að því að kveðja Neumagen, þessa ágætu höfn, sem gætt hafði LILJU BEN um sumarið. Fyrsta skref var að færa að olíubryggjunni og fylla af eldsneyti til að vera sem best í stakk búin fyrir eldsneytisóvissuna framundan.

Landfestar voru svo leystar kl. 0917 og stefnan sett upp Moselánna. Siglt var á 9 sjóm. ferð móti 1.5 sjóm straumi og áætlunin að fara til yachthafnarinnar í Konz, sem er bær um 12 km. sunnan við Trier. Var meiningin að skoða okkur aðeins um í Trier, en þau okkar sem höfðu komið þangað áður höfðu verið þar fyrir svo mörgum árum að verulega var farið að fyrnast yfir það. Það var þrútið loft en lyngt og tiltölulega hlýtt á þessum upphafsáfanga síðsumarssiglingarinnar. Komið var að fyrstu slússu áfangans kl. 1030 og gekk vel að komast inn en þar sem við vorum einskipa á ferð þurftum við að greiða 4 og hálfa € fyrir að láta lyfta okkur um heila 9 m. í þessari slússu. Var siglingin að öllu leiti tíðindalaus að öðru leiti en því að eftir því sem ofar dró í Mosel fór maður að sjá afleiðingar rigninganna í Þýskalandi fyrr um sumarið þar sem bera fór á drasli, aðallega spýtum og trjástubbum, sem flaut niður fljótið. Þurfti því að hafa sérstaka aðgát vegna þessa því ekkert grín er að keyra á stóran trjádrumb á svona bát. Fengum við tvívegis að kenna á svona reka og öðru drasli síðar í túrnum.

Við fórum svo í gegnum síðari slússu þessa áfanga um kl. 1230 og var okkur þar lyft um 7.25 m. fyrir samskonar greiðslu og vorum þá komin inn í borgina Trier. Siglt var í gegnum borgina og komið að yachthöfninni í Konz kl. 1350 en ég var búinn að fá uppgefið hjá hafnarstjóranum að ég ætti að leggjast í bás nr. 17. Þegar við sigldum inn í höfnina kom í ljós að hún var mjög þröng og lágu bátar þétt beggja vegna í s.k. boxum, með skut að bryggju en stafn fram á milli tveggja staura. Var orðið svo langt síðan við höfðum lagst við svona aðstæður að í gegnum hugann flugu nú helstu atriði þeirrar "tækni" sem þarf að beita við svona lendingar. Þokuðum við okkur áfram inn í höfnina og sá ég fljótlega box nr. 117, sem var tómt, en ekki nr. 17 svo ég ákvað að lóna inn eftir höfninni og leita enn betur. Þegar innar var komið voru boxin sem bátarnir lágu við orðin nýrri, með brygjur í stað staura, og bátarnir sem þar lágu stærri og myndarlegri, en ekki fann ég nr. 17. Ákvað ég því að snúa við og fara í box nr. 117 þótt hrörlegra væri.

Þegar farið er inn í svona box er bakkað inn á milli stauranna sem eru kippkorn frá bryggjunni (10 - 20 m. eftir atvikum) og oftast þarf um leið að smokra sér á milli tveggja báta sem liggja í næstu boxum við. Þegar bakkað er inn á milli stauranna er nauðsynlegt að hafa mann framan á bátnum sem húkkar framenda á þann stólpann sem er vindmegin og gefur svo slaka með, eða tekur inn slaka ef staurarnir eru innar en sem nemur lengd bátsins, eftir því sem bakkað er lengra inn, en setur svo fast rétt áður en skuturinn nemur við bryggju. Þá er flýtt sér að koma upp afturenda frá því horni bátsins sem líka snýr upp í vindinn og festa bátinn þannig, en ekki mátti gleyma að setja fendara á skutinn áður en bakkað var inn. Þegar þannig er búið að tryggja að báturinn er undir "control" er byrjað á að koma öðrum enda upp að aftan, frá hinu horninu og á ská í bryggjuna. Síðan er slakað á framendanum sem húkkað var á staurinn vindmegin og stefnið látið fjúka yfir að hinum staurnum sem er hlémagin og húkkað á hann. Þegar því er lokið er stefnið togað aftur upp í vindinn þar til það er miðja vegu milli stauranna og þannig sett fast. Að lokum er svo afturendinn stilltur þannig að að hann sé í beinni línu frá stefni og að bryggju.

 

Nú brá svo við að það var alveg logn og því ekki hægt að nota vindinn þannig að bógskrúfunni var óspart beitt til að klára dæmið í þessari lendingu í Konz. Gekk vel fyrir hr. Örn að húkka á stjórnborðsstaurinn, sem ég lét stefnið skríða með þegar ég bakkaði inn, en þegar kom að bryggjunni, sem var æði hrörleg eins og áður segir, fundu frú Lilja og Lonnie enga polla eða lykkjur til að setja afturendann fastan og enduðu þær æfingar með því að endanum var brugðið á milli spýtna í dekkinu og utanum bryggjukantinn og þannig um borð aftur og settur fastur. Verður að segjast að þessar konur eru orðnar svo miklir afburða sjómenn að þær láta ekkert koma sér á óvart. Ef það þarf að setja fast einhversstaðar, þá setja þær fast, hvernig sem aðstæður eru.

Jæja, allt gekk þetta og var nú farið í að ganga frá formlegheitunum við Hafna, sem var hvergi sjáanlegur. Var nú arkað upp að skrifstofu- og klúbbhúsinu í höfninni og stóð það á endum að þegar við komum þangað var Hafni að opna eftir hádegishléið. Benti ég henni (margir hafnarstjóranna eru konur) á MY LILJU BEN og sagðist ekki hafa fundið box 17 eins og mér hafði verið vísað á og því lagst í 117, sem var skammt frá klúbbhúsinu.  Ekki leist henni á það og sagði að ég yrði endilega að flytja mig innst í höfnina á nýja svæðið, LILJA BEN væri allt of stór til að liggja þarna og gaf hún mér upp nýtt boxnúmer þar innfrá. Þrátt fyrir spælinginn yfir því að allt brasið við að troða okkur inn í þetta þrönga box hafi verið unnið fyrir bí vorum við þó fegin því að leguplássið var miklu fínna í nýja hluta hafnarinnar og færðum því LILJU BEN án þess að fara í nokkra fýlu. Ákváðum við nú að stoppa þarna í tvær nætur og skoða okkur vel um í Trier daginn eftir. En það sem eftir lifði af þessum degi var notað til að fara í búðir og kíkja aðeins á Konz, þennan litla en snyrtilega bæ sem liggur á mótum Mosel og Saar fljótsins. Konz og Trier voru síðustu bæirnir sem við myndum heimsækja í Þýskalandi, framundan var Luxemburg og síðan Frakkland.


101 Síðsumarssiglingin upp Mosel, gegnum Canal des Vosges og niður Saone.

Brautryðjandinn Fyrstur gegnum Evrópu? 

Þá erum við komin aftur og byrjuð að blogga ferðasöguna á MY LILJU BEN á leið í gegnum Evrópu og niður í Miðjarðarhaf. Af samtölum sem við áttum við fólk á leiðinni erum við orðin næsta viss um að þessi ferð okkar er nokkurs konar "brautryðjandaferð" þ.e. fyrsta ferð Íslensks báts þvert í gegnum Evrópu frá Eystrarsalti til Miðjarðarhafs. Alla vega var það óbrigðul athugasemd allra hafnarstjóra og samsiglingafólks á leiðinni að "þarna hafi aldrei fyrr sést Íslenskur bátur". Í enda ferðarinnar urðum við óttaslegin um að við fengjum ekki vetrarlægi fyrir LILJU BEN þar sem öll pláss voru orðin upppöntuð en Íslenski fáninn bjargaði okkur. "Íslendingar" sagði hafnavörðurinn, "bossin myndi aldrei fyrgefa mér ef ég úthýsti Íslendingum", en nánar um það þegar þar að kemur í lokakafla þessarar ferðasögu.

Við lentum á Frankfurt Han flugvelli upp úr hádeginu þriðjudaginn 7. ágúst, á 101 árs afmælisdegi föður míns heitins. Með okkur voru gestirnir Örn og Lonnie Egilsson að koma sína aðra ferð "um sjó og sund með LILJU BEN". Það var þokusuddi á Frankfurt Han flugvellinum þegar við lentum með Iceland Express flugvélinni og sást ekki til jarðar fyrr en nokkrum sekundum áður en lendingarhjólin snertu flugbrautina. Eins og um hafði verið talað var eiginmaður hafnarstjórans í Neumagen mættur til að keyra okkur til skips og var haldið rakleiðis áfram í grámyglu suddans þannig að lítið var til að gleðja augað á þessari annars fallegu leið. Um borð var allt eins og við höfðum skilið við það fyrir rúmum tveim mánuðum og fór nú það sem eftir lifði dags í að taka úr töskum, koma sér fyrir og kaupa inn fyrir daglegar þarfir. Ekki þurfti að segja gestunum til við að koma sér fyrir þar sem þeir þekkja orðið hvern krók og kima og hefur nafnið "Lonniarherbergi" einhvernvegin festst við gestakáetuna þar sem þau hjónin voru fyrst til að gista hana í jómfrúartúrnum. Daginn eftir var haldið áfram að kaupa inn, fara yfir tæki og tól og þrífa aðeins eftir sumarleguna og gera að öðru leiti klárt fyrir áframhaldandi siglingu.

Hugmynd okkar var að ná til Lyon í Suður Frakklandi í þessum síðsumarsáfanga þótt við vissum að hann yrði strembinn í gegnum allan skipastigann yfir hálendi Mið Frakklands, en hann er með um 100 slússur. Ekki var eingöngu fjölda slússa að kvíða heldur vissum við að í raun vorumum við að "troða" okkur í gegnum Evrópu þessa leið þar sem lægstu brýr sem við þurftum að komast undir eru ekki nema 3.50 m. á hæð, við meðalvatnshæð í fljótunum en hæðin á LILJU BEN er 4.20 m. Var ljóst að fella þurfti mastursgrindina alveg flata til að skríða undir lægstu punkta og þó yrði það tæpt því þá mátti ekki muna meira en 10 cm, en búast mátti við að svigrúmið væri enn minna vegna hárrar vatnsstöðu eftir rigningarnar í júní og júli, í Mið Evrópu. Því var ekki laust við að glímuskjálfti væri í manni og mikið pælt "kæmist maður og hvað langt?".


100. Uppgjör vorsiglingar og áætlun síðsumarssiglingar

030506 092  MY LILJA BEN bíður 

Í vor sigldum við frá Brussel í Belgíu til Neumagen Dhorn í Mosledalnum í Þyskalandi. Ferðin stóð í 35 daga og var haldin siglingavegalengd um 660 km. Vélar voru í gangi í 58 klst. og 20 mín. Stansað var í lengri eða skemmri tíma í Brussel og Antwerpen í Belgíu, Willemstad, Gorinchem og Tiel í Hollandi og Emmerich, Duisburg, Dusseldorf, Köln, Bad Honef, Koblenz, Brodenbach, Senheim, Trarbach og Neumagen Dhorn í Þýskalandi, samtals 15 stöðum.

Við förum út aftur til móts við MY LILJU BEN í fyrramálið 7. ágúst og hefjum síðsumarssiglinguna. Með okkur verða gestirnir Örn Egilsson og frú Lonnie Egilsson, fram til 24. ágúst, en þau eru að fara í annað sinn með okkur. Þá koma aðrir gestir, Margrét systir mín Petersen og hennar maður Sigurður Eyjólfsson sem ætla að vera eitthvað fram í byrjun september. Áætlum við svo að koma heim 13. september þar sem ég byrja með 30 tonna siglinganámskeið 28. september n.k.

Síðsumarssiglingin er áætluð um 700 km., en vegna mikilla hraðatakmarkana og fjölda skipastiga ("slússa") í þeim "kanölum" sem við munum sigla eftir er ekki víst að það takist.

Ferðaáætlunin er nánar sem hér segir: Frá Neumagen ætlum við að halda áfram upp Mosel til Konz við Trier og er það síðasta höfn í Þýskalandi. Enn verður haldið áfram upp Mosel inn í Frakkland til Thionville, Metz og Nancy. Þá verður Moseláin yfirgefin og farið inn í tengiskurð frá Nancy inn í skipaskurðinn Des Vosges og farið eftir honum þar til við komum í fljótið Saône. Á leiðinni gegnum skipaskurðinn er áætlunin að stoppa í bæjum sem heita Neuves-Maisons, Charmes, Thaon les Vosges, Epinal, Fontenoy le Chateu, Bains les Bains og Corre þar sem komið verður í Saône fljótið. Fara á síðan niður eftir því og komið við í Scey, Gray, Auxonne, Seurre, Verdun Sur le Doubs, Tournus, Macon og að lokum Lyon.

Eins og áður fer blogfærsla næstu daga og vikur eftir því hversu auðvelt verður með internetsamband á leiðinni, en reynt verður að færa ferðadagbók til birtingar eftir föngum.


99 Lokaleggur til Neumagen Dhorn

  Dyttað að káetuglugga í NeymagenNeumagen 015

Jæja þá var komið að lokaleggnum í þessari vorsiglingu, tími til kominn að koma sér heim í sumarið en ég var farinn að finna að frú Lija Ben var farin að þrá rúmið sitt og komin með heimþrá. Við leystum því landfestar í Trarbach kl. 0830 og færðum okkur að olíubryggjunni til að taka eldsneyti. Þurftum við að bíða aðeins eftir afgreiðslu en þegar henni var lokið héldum við enn af stað upp Mosel kl. 0930, þriðudaginn 28 maí. Að venju voru tvær slússur á leiðinni, hvor fyrir sig með 7 m. hækkun. Dagurinn var þungbúinn en fallegur, hlýtt í lofti og lygnt. Haldið var eftir fljótinu sem bugðast svo mikið að fyrst sigldum við í vestur, svo í norður, aftur í vestur og þá í suður o.s.frv., en með hverri mílunni sem sigld var þokuðumst við samt í heildina áfram til suð- vesturs, en eins og áður hefur verið sagt, enginn er að flýta sér eitt eða neitt. Eftir 20 km. vegalengd fórum við framhjá hinum fæga Bernkastel en stoppuðum ekki þar þótt freistandi væri, enda hægt að fara frá Neumagen þangað í skoðunarferð ef okkur lysti. Eftir að hafa siglt framhjá 25 bæjum og þorpum komum við til Neumagen Dhorn. Var nú farið með ýtrustu gætni inn um hafnarmynnið sem er frekar þröngt og mjög blint þannig hætta var á að maður sæi ekki smærri báta sem væru að koma út og því eins gott að vera viðbúinn að stoppa. Allt gekk þetta eins og í sögu og lögðumst við nú miðsvæðis í höfninni innan um fjöldan allan af bátum. Strax kom í ljós að hér er um glæsilega yachthöfn að ræða og aðstaða öll til mestu fyrirmyndar. Framundan var nú vikustopp því flugið heim frá Frankfurt Han var fyrirhugað þriðudaginn 5. júní.

 

Skemmtibátahöfnin í Neumagen Dhorn er í mjög fallegu umhverfi inn í lítilli vík sem grafin er í austurbakka fljótsins. Bryggur eru hvítskúraðar með stífmáluðum tengikössum fyrir rafmagnstengin, upprúlluðum slöngum fyrir drykkjarvatnstöku og eru stýristólpar bryggjanna skrautmálaðir með listrænu ívafi. Hreinlætisaðstaðan í landi er með þeirri glæsilegustu sem við höfum komið í, allt nýtt, fágað og fínt. Við hafnarbakkann er svo fallega rómantískur veitingastaður þar sem tveir hommar ráða ríkjum og annar þeirra er svo fínn í dömulhutvekinu að þrátt fyrir að hann gangi á venjuegum skóm ber hann sig eins og prímadonna á pinnaháhæluðum skóm og sveiflast hann um sali með húlahreyfingum Pólienskra yndismeyja.

Eins og ég hef sagt áður þá myndast strax kunningjasambönd á milli bátafólksins meðan það dvelur í sömu höfn. Aldrei er gengið framhjá bát nema fólk heilsist, fólk býður hvert öðru góðan dag að morgni, stoppar og spjallar saman og svo fram eftir götunum. En eitt virðist vera megin regla, báturinn er "þinn kastali", enginn myndi ganga um borð óboðinn auk þess sem boð um borð, á milli báta, er ekki venja þótt það gerist í undantekningatilfellum. "Kunningjarnir" tala við þig frá bryggjunni þegar þú ert um borð og þú talar við þá af bryggjunni. Undantekning er auðvitað að sjái nágranni í höfninni eitthað vera að í þínum bát og þú ekki viðstaddur fer hann um borð og reddar málinu til bráðabirgða a.m.k. Það var þó nokkur umferð báta til og frá höfninni þessa viku sem við vorum um borð og því nýtt fólk að koma og fara alla daga. Einn daginn sem oftar kom bátur inn í höfnina og á honum voru tveir karlar. Lögðust þeir fyrir utan okkur svo þeir fóru alltaf framhjá okkur þegar þeir áttu leið í og frá landi. Annar þeirra var alltaf glaðlegur, heilsaði og brosti þegar hann gekk framhjá, en hinn sem var auðsjáanleg eldri var fekar fúllyndur og tók helst ekki undir kveðjur og hafði alls ekki frumkvæði að kveðjum fyrstu dagana. Svo gerðist það einn daginn að ég var á afturdekkinu þegar hann átti leið framhjá og heilsaði ég honum þrátt fyrir fýlusvipinn á honum. Alrei þessu vant stoppaði karl og leit á mig þungbrýnn og sagði. "Þegar við siglum til Bretlands er gerð sú krafa að við höfum Breska fánann í framstafni en ég sé ekki Þýska fánann í framstafni hjá þér". Kom þetta mér svolítið á óvart og sagði ég honum eins og var að byggingalag bátsins gerði ekki ráð fyrir flaggstöng á framstafninum, en svo rann allt í einu upp ljós fyrir mér. Breiddi ég úr Íslenska fánanum sem hékk niður frá afturstönginni og sagði "annars er þetta ekki Breski fáninn heldur Íslenski fáninn. Í báðum eru sömu litir en í þeim Breska eru skárenndur líka, ekki bara kross". Fyrst varð hann eins og spurningamerki í framan en síðan breiddist bros yfir andlitið og hann sagði "já Íslenski?". Eftir það heilsaði hann alltaf með brosi á vör þegar hann gekk framhjá. Datt mér í hug að þarna væri á feðinni gamall ungliði Nasista sem enn væri fúll út í Bretana, en hann hafði aldur til að geta verið það.

Við nutum verunnar í Neumagen Dhorn og unnum, milli þess að við rápuðum um bæinn, við að hreinsa, snurfusa, þvo þvotta og dytta að ýmsu áður en haldið yrði heim. Eiginmaður hafnastjórans bauðst til að keyra okkur á flugvöllinn í Frankfurt Han, sem við þáðum með þökkum og er um það talað að hann sæki okkur aftur út á völl við bakakomuna 7. ágúst n.k. Skömmu eftir að við fórum út á flugvöll varð svo sú tilviljun að fyrrverandi nemandi minn úr siglinganámskeiðinu síðasta vetur, Davíð Þór Valdimarsson, sonur vina okkar Valdimars Jónssonar og Jónu Margrétar Guðmundsdóttur, hjólað ásamt konu sinni niður að höfninni í Neumagen og sá hvar báturinn okkar MY LILJA BEN lá bundinn og yfirgefinn, og sendi hann mér þessa mynd af sér, sem kona hans tók. Hefðum við viljað vera um borð til að taka á móti þeim, en svona gerast tilviljarnar.

IMG_2620bValdimar Þór rekst á LILJU BEN


98. Vitlaus kort og vitlaust leiðarforrit

 

Groninchem 163 Senheim, LILJA BEN 3. bátur fyrir miðri mynd 

Eins og sagði í fyrra pistli er Senheim yndislegur staður. Eins og í Brodenbach liggur höfnin á bak við rif sem myndar aflanga vík með opið undan straumi fljótsins. Þegar inn er komið eru bryggjur bæði innan á rifinu og með ströndinni landmegin auk þess sem út frá botni víkurinnar liggur bátabryggja fyrir gestasiglara. Beint upp af þeirri bryggju er svo þjónustubyggingin með fínni aðstöðu, hafnar- og ferðamannaskrifstofu, lítilli kjörbúð sem var opin milli kl. 1600 og 1800 daglega og veitingastaður er skammt þar við hliðina. Völdum við okkur hið ágætasta lægi innarlega við gestagarðinn og bundum þar eftir spennandi ferð.

Groninchem 150Á slússuspottanum

Það var mikið um að vera við höfnina í Senheim. Siglingaklúbbur var á fullu að fara með nema í siglingar út á fljótið á smábátum, kanóum og kæjökum og mikið líf var í kringum skemmtibátana sem þarna lágu fyrir, auk þess sem fleiri bættust í hópinn eftir því sem á daginn leið. Veður var yndislegt, sól í heiði og hiti, en þó ósköp þægilegur. Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir og rannsaka LILJU BEN, sem reyndist í lagi eftir skellinn við slússuna, ákváðum við að taka lífinu með ró og njóta veðurblíðunnar. Þegar kjörbúðin opnaði var verslað inn að venju, síðan farið í sturtu og svo setið í sólinni yfir hvítvínsglasi þar til við fórum í land að borða á veitingastaðnum við höfnina, en nú var jú laugardagur til dagamunar.

Sunnudagurinn 27. maí rann upp ágætlega bjartur en þó aðeins kaldari 14 til 15 stig og nokkur vindur var kominn á. Tókum við lífinu rólega en að venju er alltaf eitthvað gert um borð í svona bátum og það algengasta er að þrífa og snurfusa stanslaust þegar aðstæður bjóða og ekkert brýnna kallar á. Höfum við gantast með það okkar á milli að ef vélarúmið er ekki opnað, eða verkfærataskan úti á gólfi, þá er ryksugan á fullu, þvottatuskan að strjúka eða bóntuskan á þeytingi. Hvítur (drapplitaður) bátur á að halda áfram að vera hvítur þrátt fyrir útblásturssót frá vélum, slýlit frá vatninu, skordýrakúk og kongulóavef sem alltaf þarf að vera að þrífa.

Eftir hádegið ákváðum við að fá okkur gönguferð í bæinn sem er ekki stór, dæmigerður fallegur og hreinn þýskur bær með gömlum húsum. Hann er byggður í skeifu utan í hlíðum lítills dalverpis sem gengur inn úr Moseldalnum og trónir kirkja staðarins fyrir miðju og efst. Þegar við komum inn að bænum komum við fyrst að sparkvelli þar sem iðkaður var fótbolti af miklu kappi og voru augsýnilega nokkur lið að keppa, tvö á velli og önnur biðu á hliðarlínu. Síðan komum við á aðalgötu bæjarins sem lét ekki mikið yfir sér e.t.v. 500 m. löng og upp frá henni lögðum við á brattann upp að kirkjunni sem nú ber við himinn. Við vorum fyrirfram ekkert búin að ákveða að ganga endilega þangað en beygðum ósjálfrátt þarna upp. Brattinn upp er þó nokkur og var frú Lilja Ben ekkert óskaplega hrifin af þessu klifri en sá ekki eftir því þegar upp var komið. Kirkan var opin og gengum við inn í hana með þeirri lotningu sem slíkur staður fyllir mann. Gullfalleg kirkja og eftir að hafa skoðað hana kveiktum við á kerti við altarið með þöglum bænum sem ekki var flíkað. Að því loknu reikuðum við aðeins um kirkjugarðinn sem alltaf segja manni einhverja sögu, leiti maður eftir að lesa þar úr. Eftir að hafa skoðað okkur um þarna efst í bænum gengum við aftur niður að aðalgötunni og settumst inn á fallegt veitingahús til að fá okkur hressingu. Var síðan haldið um borð.

Kl. 0950, mánudaginn 28. leystum við svo landfestar eftir þægilega veru og sigldum áleiðis áfram upp Moselánna og stefndum á Trarbach - Traben, en þar vorum við búin að ákveða að hafa næsta viðkomustað. Veður var skýjað en þokkalega milt og lygnt. Við vorum búin að gera okkur grein fyrir að næsta lega yrði við bryggjur sem lægju við fljótsbakkann og samkvæmt bæði korti í leiðsögubókinni og leiðarforritinu í tölvunni áttu þær að vera u.þ.b. 200 m. frá hinni frægu og fallegu brú yfir fljótið á milli Trarbach og Traben, sem var byggð 1898. Þegar til kom var mikil skekkja bæði í leiðsögukortum og tölvuforritinu því leguplássin eru rúml. 2 km. frá brúnni. Eftir að hafa fullvissað okkur um að við vorum á réttum stað ákváðum við að leggjast að einni bryggjunni sem þarna var laus við fljótsbakkann og fanst okkur við vera lögst einhverstaðar úti í "nowhere". Þessar litlu flotbryggjur þarna eru óttaleg hrófatildur sem skjálfa og nötra þegar stigið er upp á þær og eru aðeins um 5 til 6 m. breiðar svo þær náðu aðeins yfri miðpartinn á LILJU BEN. Þurftum við því að binda bæði fram- og afturendana upp í landi. Var ég búinn að panta bryggjupláss í síma áður, en enginn maður var sjáanlegur og siglingaklúbbhúsið sem tilheyrir svæðinu var harðlokað og ekki sálu að sjá. Hálftíma eftir að við komum, kom svo umsjónarkona hafnarinnar og gátum við þá fengið lykla að aðstöðu svæðisins, sem var frekar bágborin miðað við það sem við áttum að venjast, en allt var í lagi með það. Sagði ég nú umsjónarkonunni að við hefðum hug á að komast í bæinn að skoða okkur um og hvort ekki væri hægt að finna almenningssamgöngur þangað, þar sem þetta langt væti að labba. Ekki kvað hún það vera en velkomið væri að keyra okkur í bæinn svo við þyrftum þá ekki að ganga nema aðra leiðina og þáðum við það.

Groninchem 167Legan í Trarbach

Það var svolítið af fólki á ferli við brúnna en að örðu leiti var allt steidautt og allar búðir lokaðar svo að eftir smá ráp, bæði um Trarbach og Traben ákváðum við að fá okkur hressingu á hótelbar við brúarsporðinn Trarbach megin áður en við færum um borð. Spurðum við þjóninn sem færði okkur hressinguna hvers vegna allt væri lokað og svona mikil deyfð yfir svæðinu og svaraði hún því þá til að það væri helgidagur. Rann þá upp fyrir frú Lilju Ben að auðvitað var annar í Hvítasunnu og segir það nokkuð um hversu maður aftengist við allan venjulegan rythma í tilverunni í svona flakki og býr sér til sinn eigin rythma. Eftir hressandi hvíld þarna á barnum héldum við svo gangandi heim í bát og stoppuðum við þarna aðeins eina nótt. Framundan var sigling til Neumagen þar sem í ráði var að skilja MY LILJU BEN eftir til sumarlegu fram í ágúst.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband