8.7.2007 | 23:11
97. Með hland fyrir hjartað
Glæsilegi virkiskastalinn í Cochem
Maður nennir ekki að dveljast lengur en þörf krefur á stöðum eins og Brodenbach, þar sem aðstaða og öll þjónusta er léleg. Eins og fram kom í fyrra pistli var ekki hægt að tengjast rafmagni og ganga þurfti um 1.5 km. á salerni og í böð. Af þessum sökum dvöldum við aðeins eina nótt og fórum snemma, eða kl. 0825, laugardagsmorguninn 26. maí og var nú ákveðið að sigla til bæjar sem heitir Senheim. Á þessari leið eru tvær slússur með samanlagðri heildarhækkun upp á 13.5 m., sú fyrri 6.5 m. og sú seinni 7 m. Siglingin upp Mosel var notaleg að venju, margt að skoða og fylgjast með og myndavélinni brugðið upp af og til, til að fanga lítil augnablik. Eftir um 10 km. siglingu komum við að fyrri slússunni sem kennd er við bæinn Munden og varð ferðin upp það þrep tíðindalaus þar sem við hittum á flutningalegtu sem við gátum orðið samferða. Eftir að við vorum laus við þessa slússu héldum við áfram framhjá bænumTreis-Karden, sem stendur við fallega skógivaxna eyju úti í fjótinu og síðan Klotten og Cochem með sitt fræga borgarvirki og kastala, sem sést á myndinni í upphafi pistilsins. Þegar leið að hádegi nálguðumst við seinni slússuna sem er kennd við bæinn "Bruttig-Fankel og stóð á endum að þegar við komum var verið að loka á eftir legtu og farþegaskipi sem bæði voru á "uppleið". Var ljóst að við yrðum að bíða meðan þessum skipum væri lyft og önnur látin síga. Áætlaði ég því a.m.k. 30 til 45 mín. bið. Þannig háttar til við slússurnar að frá slússuopunum liggur fljótsbakkinn annars vegar en leiðigarður að utanverðu hins vegar og eru bæði garðurinn og bakkinn yfirleitt klædd með stálþilum sem hægt er að leggjast að ef bíða þarf lengi og er þetta oft notað af legtum þegar margar eru að komast að samtímis, því að slússan tekur ekki nema eina legtu í einu, og oftast nokkra skemmtibáta. Til þess að skýra þetta betur fylgir hér mynd af þessari slússu sem nú um ræðir, tekin af "Google Earth" og ef þið stækkið hana með því að "klikka" á myndina, sjáið þið að þegar myndin var tekin var í henni ein legta og skemmtibátur, aftan við stb. megin, á "uppleið".
Nú ákvað ég, þar sem þetta löng bið var framundan, að fara að stálþilinu stb. megin og binda þar. Frú Lilja Ben fór að taka til hádegissnarl til að snæða meðan við biðum. Setti ég upp einn "miðju enda" eins og oft er gert í svona skammtímalegu og var pollinn sem við bundum við í beina lárétta stöðu út frá festingunni á bátnum. Sagði frú Lilja að sér þætti þetta svolítið tæpt og að spottinn gæti húkkast upp af pollanum en ekki var ég sammála því, því engin hreyfing var til að kippa spottanum upp að mínu mati. Annað átti eftir að koma í ljós og hefði ég betur hlustað á frú Lilju. Slökkt var á vélum og bógskrúfu, stjórntækin aftengd og settumst við nú að snæðingi í rólegheitunum. Lítill skemmtibátur með fjórum eða fimm ungmennum hafði verið að reyna að komast í bátaslússuna sem er hægra megin við leiðigarðinn á myndinni, við stífluna, en þurft frá að hverfa út af einhverjum vandræðum sem ég vissi aldrei hver voru. Lagðist hann því um 50 m. fyrir aftan okkur við garðinn. Annar stór skemmtibátur kom nú líka og lét reka aðeins fjær. Framundan blasti lokað hliðið á slússunni og sáum við hvar skipin sem voru á leiðinni upp hækkuðu ört eftir því sem látið var renna í hólfið. Nokkru síðar hurfu þau út úr slússunni og ekki leið á löngu þar til við sáum að önnur tvö komu inn, 7 m. hærra en við vorum. Færi nú að styttast í að látið yrði renna úr hólfinu þannig að skipin kæmu niður og slússan síðan opnuð okkar megin til að hleypa þeim út. Þá fyrst kæmumst við inn og leikurinn myndi endurtaka sig, nú með okkur sem þátttakendur. Í okkar augum var þessi atburðarrás orðin hversdagsleg og eitthvað sem við fylgdumst með eingöngu til að vera viðbúin að fylgja okkar röð í þjónustunni. En svo gerast afbrigðin sem setja allt á annan endann með brjáluðu adrealinflæði.
Skyndilega sjáum við, þar sem við sitjum við hádegisverðarborðið, að undan slússuopinu kemur strókur af hvítfryssandi vatni og frá stróknum myndast 20 til 50 cm. há flóðbylgja sem æðir út með þilinu í átt að okkur. Þarna var verið að hleypa út vatnsmassa úr 170 m. löngu, 12 m. breiðu og 7 m. djúpu hólfi eða 14.280 m³ af vatni á ca. 10 mínútum, u.þ.b. 1.430 m ³ á mín. Það hlaut að ylgja frá því sem minna væri. (Auðvitað dregst særými skipanna sem voru í hólfinu frá vatnsmagninu, en í staðinn kemur samsvarandi þungi skipanna þannig að þrýstingurinn er sá sami). Um leið og við sjáum þetta hentist ég að stjórntækjunum og skipti engum togum að um leið og ég er að setjast í sætið skellur bylgjan og allur straumþunginn á okkur, báturinn tekur kipp og hvellur heyrist sem ég túlkaði þannig að spottin sem við lágum við hefði slitnað, en reyndin var hins vegar að hann húkkaðist uppaf pollanum. Báturinn var nú laus og rak beint afturábak í átt að litla bátnum sem lá fyrir aftan okkur með ungmennin um borð. Nú var beitt ýtrasta hraða við að ná stjórn á LILJU BEN. Tengitakkarnir fyrir stjórntækin flugu fram, viðvörunarflautið vældi, rauð ljós blikkuðu á báðum "throttlum", valtakkanum fyrir stjórntæki í brú var þrýst niður, vælið hætti og rauðu ljósin á "throttlunum" urðu stöðug, ræsilyklinum fyrir bb. vél snúið, hún í gang, ræsilykli stb. vél snúið, hún í gang, sleppt að tékka mælana en litið í skyndi á stýrisvísinn, stýrinu snúið hart í bak og stb. vél gefið 1500 rpm. afturábak, en enginn tími vanst til að ræsa bógskrúfuna.. Meiningin var að ná bátnum það vel frá kantinum að við færum fyrir utan litla bátinn og slyppum þannig við hann. Straumurinn var hins vegar sterkari og þrýsti LILJU BEN áfram að kantinum. Sá ég rétt í sviphendingu skelfingarsvipinn á krökkunum, þegar þau sáu hvert stefndi, áður en ég gaf hressilega áfram á stb. vél til að yfirvinna strauminn vitandi að ég átti á hættu að rekast harkalega á kantinn í stað þess að "rúlla yfir" litla bátinn. Þetta tókst og smá skellur varð þegar við lentum á ská utan í kantinn en með þeim hnykk náði ég að fá strauminn milli bógs og kants og ýta bógnum frá og gat nú stefnt út á fljótið. Litla bátnum var borgið og um borð hjá okkur var sviti í lófum, skjálfti í hnjám og góðum slurk af vatni rennt niður til að eyða munnþurrki. Þetta heitir víst "að fá hland fyrir hjartað". Skömmu síðar fórum við inn í slússuna með hinum skipunum og héldum síðan áfram upp Mosel og komum til Senheim kl. 13:55. Senheim er yndislegur staður og leist okkur svo vel á allt þar að við ákváðum að liggja yfir helgina.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 21:51
96. Brodenbach, tvírukkun og tertusneið
Við lögðum í hann frá Koblenz og inn Mozel í áttina að Brodenbach kl. 0935. Hér var ekki mikið mál að fara úr höfn, leysa bara og byrja að sigla þar sem við vorum við fljótsbakkann sjálfan. Mosel er mjög bugðótt fljót svo að oft er maður að sigla svo til samhliða og öndvert við þá leið sem maður er ný búinn að sigla. Eftir um 20 km. siglingu var komið að Lehmen slússunni þar sem okkur var lyft og nú um 12 m. Á leiðinni tókum við frammúr legtu sem ég reiknaði með að þurfa að bíða eftir við slússuna til að fara inn með, sem stóð heima. Þegar við komum reyndar að slússunni var þar fyrir stór legta í bið, en tvær voru að koma "niður þrepið" og var búið að opna fyrir þær út þegar við komum. Var ég búinn að tilkynna komu mína og beið nú rólegur eftir að stóra legtan færi inn svo ég kæmist á eftir. Nú komu grænu ljósin og legtan fór að skríða inn í slússuna og við í hæfilegri fjarlægð á eftir. Gekk henni mjög hægt að koma sér inn og var afturendinn lengi að komast inn um hliðið og þegar mér sýndist vera orðið pláss fyrir okkur hélt ég áfram með stefnuna á slússuna. En skyndilega sagði frú Lilja "hey rauðu ljósin eru komin á". Snéri ég þá strax frá enda var legtan það stór að ekki var pláss fyrir okkur líka. Tók nú við bið eftir að þessi legta var tekin upp og að skipin sem væru fyrir ofan kæmu niður. Stóð það nokkuð á jöfnu að skömmu áður en slússan opnaði aftur okkar megin til að hleypa út skipunum á "niðurleið" þá kom legtan sem við höfðum tekið frammúr og fór í biðstöðuna með okkur. Meðan við létum reka fyrir framan slússuna fylgdumst við með listæfingum þyrluflugmans sem var að úða skordýraeitri á vínekrurnar í fjallshlíðinni við slússuna. Þarna voru ekrurnar í snarbrattri hlíð og teygðu sig langleiðina upp á topp. Lenti þyrlan á litlum grasbala á bakka Mosel, rétt hjá okkur og fyllti á tankinn. Síðan fór hún á loft og flaug upp og niður sitt á hvað eftir vínekrunum, með úðastrókinn niður undan sér og var það þó nokkur "akrobatik" hjá flugmanninum í þessum líka bratta.
Nú kom að því að okkur var hleypt inn í slússuna og að því loknu var haldið áfram upp fljótið, nú á vatnsyfirborði 12 m. hærra en áður, eða í 77.5 m. y.s. Þetta var eina slússan sem við þurftum að fara í gegnum á þessum legg og komum við til Brodenbach kl. 1340. Höfnin liggur innan við garð sem liggur samhliða fljótinu og er farið inn fyrir garðinn neðan straums. Myndar garðurinn um 800 m. ílanga vík meðfram fljótsbakkanum. Eru bryggjur beggja megin þ.e. með ströndinni innan við garðinn og með innri hlið garðsins sjálfs.Var ég búinn að hringja í uppgefið símanúmer hafnarinnar og fá þá leiðbeiningu að vegna stærðar LILJU BEN ætti ég að leggjast að einhverri lausri bryggju innan á garðinum en ekki við ströndina, þar væri aðeins fært fyrir smærri báta.
Sigldum við nú inn með garðinum framhjá bátum og lausum bryggjum og ætlaði ég að finna lausa bryggju sem innst við gaðinn til að stytta okkur sporin á snyrtingu og böð, því að þeir sem liggja við garðinn þurfa auðvitað að ganga inn hann fyrst til að komast inn fyrir víkina en þjónustubyggingin hlyti að vera á eða við ströndina. Legið var við innstu þrjár bryggjurnar þannig að við snérum við og þegar við komum að fjórðu bryggju, sem var laus, kom fólk sem var á bát við fimmtu bryggju og veifaði okkur að leggjast við lausu bryggjuna og gerði sig klárt að taka við enda. Settum við nú stefnuna á hana, þótt okkur þætti nokkuð þröngt á milli bátanna og bryggjan frekar hrörleg. Gekk eins og í sögu að leggjast að og tók fólkið á móti enda hjá frú Lilju. Bryggjan var nokkuð stutt, en aðeins var hægt að lggjast við enda hennar, þannig að fram- og afturendi okkar skagaði þó nokkuð út fyrir og varð því að taka landfestar að framan og aftan alla leið upp í garðinn sjálfan og binda í þar til gerða hringi sem finna mátti í grasinu. Þegar við vorum búin að binda spurði ég fólkið sem tók svo vel á móti okkur hvar hafnarskrifstofan væri og svöruðu þau til að þau hefðu ekki hugmynd, væru sjálf ný komin. Fór ég nú að kanna aðstæður þarna á garðinum og sá fljótlega að engin aðgengileg rafmagnstengi væru í boði, þannig að ég ákvað að ganga í land og reyna að finna hafnarskrifstofuna. Gekk ég nú upp garðinn og við enda hans, í botni víkurinnar var komið að viðgerðarstöð og slipp sem var afgirt og harðlokuð á alla kanta. Fylgdi ég göngustíg aftur fyrir hana og kom þá að aðalgötu bæjarins. Beint á móti mér, hinu meginn götunnar sá ég að var skrifstofubygging og fyrir utan hana fánar á flaggstöng í masturslíki auk þess sem á plani ofan við bygginguna mátti sjá nokkrar nýmálaðar baujur. Taldi ég víst að ef þetta væri ekki hafnarskrifstofan hlytu þeir sem þarna væru a.m.k. vita hvar hún væri, svo ég setti strikið beint á bygginuna. Eftir að hafa gengið upp nokkrar tröppur kom ég í opið andyri og skrifstofu þar sem ekki var nokkurn mann að sjá. Fikraði ég mig inn eftir gangi sem var framundan og kallaði hallo af og til og skyndilega kom maður fram á ganginn og svaraði köllum mínum. Spurði ég hann hvort þetta væri hafnarskrifstofan og þegar hann svaraði því neitandi og sagði þetta vera skrifstofu fljótaeftirlitisins spurði ég hann hvort hann viss hvar hafnarskrifstofan væri. "Já hann hélt að hann vissi hvar það væri" og benti mér að ganga um 300 m. lengra inn eftir götunni, en hann hefði bara grun um að höfnin væri farin á hausinn og að húsið væri til sölu. Jæja ekki var um annað að ræða en að ganga þangað og kanna hver staðan væri og þegar þangað var komið stóð það heima, söluskilti í öllum gluggum og enginn maður á svæðinu. Ekki var um annað að ræða en að fara aftur um borð og hringja í símanúmer hafnarinnar til að finna út hvernig ganga ætti frá málum. Þegar þangað var komið eftir 45 mín. labb hringdi ég í númerið og tjáði þeim sem svaraði að við værum lent við bryggju við garðinn eins og mér hafi verið sagt að gera og að við fynndum engan rafmagnstengil á garðinum. Sagði sá sem svaraði að aðeins einn rafmagnstengill væri á garðinum, sem væri opinn fyrir gesti og einnig að ég ætti að fara á Jacobsbar en þar gæti ég gengið frá hafnargjaldinu og fengið lykla að salernum og böðum.
Var nú farið að leita að rafmagnstenglinum og fanst hann um 200 m. utar á garðinum sem var of langt fyrir minn kapal, þótt langur væri. Ákvað ég því að gefa frat í rafmagnstenginguna og "lifa" bara á rafmagni bátsins. Eftir þetta umstang ákváðum við að fara bæði í göngu og finna þennan Jacobsbar, koma okkar málum á hreint og fá lykla af böðunum. Gengum við nú inn aðalgötu Brodenbach bæjar og fundumm Jacobsbarog settumst þar utandyra yfir glas af hvítvíni. Sögðum við vertinum hvar við lægjum og að við myndum bara stoppa eina nótt, en við vorum búin að fá nóg af aðstöðleysinu og vandræðaganginum í kringum þessa höfn. Vertinn var hins vegar hinn elskulegasti og lét okkur nú hafa lykla að böðunum og kvittun fyrir legugjaldinu, sem var eins gott.
Þegar við komum um borð aftur var orðið sigið á eftirmiðdaginn og fólk komið um borð í bátana fyrir framan okkur og var það búið að slá upp borðum á bryggjunni þar sem setið var yfir drykkjarföngum. Var okkur heilsað með virktum og spurð almennra tíðinda um ferðina og ferðatilhögun. Á bátnum fyrir aftan okkur voru hins vegar roskin hjón og önnur yngri með tvö börn, um 10 ára stelpu og 8 ára strák. Settumst við nú í makindum í góða veðrinu, á afturdekkinu, og létum fara vel um okkur áður en við myndum ganga einu sinni enn í land og nú í sturtu. Þegar við vorum búin að sitja nokkra stund kom "skipperinn" á bátnum sem var fyrir framan okkur, með kvittanahefti í hendinni og spurði hvað báturinn væri langur og hvað við ætluðum að stoppa lengi. Sagði ég honum það og sagði hann þá "12 Evrur takk". Ekki var ég nú ánægður með að rukka ætti mig tvisvar fyrir sama hafnargjaldið og sagði honum að mér hefði verið sagt að greiða gjaldið á Jacobsbar og rétti nú fram kvittunina. Rak vinurinn þá upp stór augu og sagði að þetta svæði heyrði undir Klúbbinn þeirra en að Jacobsbar sæi eingöngu um svæðið með ströndinni, en bætti við að hann myndi tala við þá um endurgreiðslu, við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af því.
Eftir að við vorum búin að fara í sturtu og borða kvöldverð kom fyrir skemmtilegt atvik. Við sátum eins og oft áður á afturfekkinu og nutum síðdegisblíðunnar en veður var hlýtt og sólskin frá ört lækkandi sól. Börnin á bátnum fyrir aftan okkur höfðu fengið að fara út á lítinn gúmmíbát sem þau voru með og róa umhverfis snekkjuna sem þau voru á. Eitt skiptið komu þau róandi alveg upp að afturendanum hjá okkur og sú lítla, sem hafði orð fyrir þeim, sagði við frú Lilju á þessari fínu ensku "ég heiti Marianne, hvað heitir þú"? Lilja sagði henni eins og var að hún hétil Lilja og var sú stutta ánægð með það. Réru þau nú til baka að sínum bát og skömmu síðar komu þau róandi aftur með þessar líka tvær stóru og fallegu tertusneiðar á diski sem þau réttu fram til frú Lilju. Tók frú Llja við sneiðunum og bað þau, um leið og við þökkuðum fyrir, að doka við meðan hán sækti disk til að flytja sneiðarnar yfir á svo þau gætu tekið diskinn sinn til baka. Var gaman að sjá hvað þau voru glöð yfir að hafa fengið að gefa okkur kökusneiðarnar og vinkuðum við forleldrunum líka í þakklætisskyni. Kakan reyndist líka hið mesta lostæti og renna seint úr minni gefendur og kakan.
Um kvöldið settum við aðra vélina í gang og létum hana mala í hálftíma til að topphlaða geymana áður en við fórum að sofa.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2007 | 16:54
95 Inn í Mosel til Koblenz,
Við héldum frá Bad Honnef miðvikudaginn 23. maí kl. 0940 og héldum áfram upp Rín, nú síðasta áfangann í því fljóti því nú var áin Mosel framundan. Þar sem Mosel rennur inn í Rín er borgin Koblenz og segjast borgarbúar vera á fegursta horni Þýskalands, enda talar meðfylgjandi mynd sínu máli og getur hver metið fyrir sig hvort það er sannmæli. Enn var sól í heiði og nutum við ferðarinnar upp Rín þótt mótstraumurinn væri orðinn harður um 5 km. á klst. Sveið manni helst olíueyðslan fyrir ekkert, sem straumurinn tók til sín, en von var á betra, lítill sem enginn straumur í Mosel aðeins 1-2 km. á klst. En nú tók annað við sem við þekktum svo sem ágætlega af fyrri kynnum en það voru slússurnar. Við vorum búin að sigla frá Willemstad í Hollandi 428 km. leið eftir Rín og kvíslum hennar mót straumi jafnhallandi landslags, án nokkurra slússa, en inn eftir Mosel eru slússur með 10 til 15 km. millibili.
Það voru mikil viðbrigði að beygja inn í Mosel á fegursta horni Þýskalands, í kyrrðina og lygnuna þar úr ölduróti og straumi Rínar með allri sinni traffik. Þegar við nálguðumst Mosel-mynnið sáum við annan bát koma á móti okkur, niður Rín sem fór mikinn en þar sem við vorum komin í mynnið á undan honum sló hann af og hélt sig í humátt eftir okkur inn í ánna. Miðborg Koblenz leið framhjá á bb. en úthverfi og háskólabærinn á stb. og framundan var fyrsta slússan sem taka átti okkur upp um 3 m. Var ég búinn að kalla í slúsunna og tilynna komu mína, en slússurnar eru tvær, ein fyrir skemmtibáta og önnur fyrir stærri skip, legtur og farþegaskip. Sagði ég slússustjórninni að við værum of breið til að komast í bátaslússuna og þyrftum því að fara í þá stóru. Þannig er að bátaslússurnar eru sjálfvirkar og stórna bátamenn þeim sjálfir en hinum er stjórnað úr turni þar sem stjórnandinn sér yfir aðsiglinguna báðum megin auk slússunnar sjálfrar. Þegar við nú komum inn sáum við að annar skemmtibátur var kominn á biðsvæði þannig að við vorum orðnir þrír sem biðum eftir stóru slússunni. Reglan er sú að skemmtibátarnir eru látnir bíða þar til stærri skip þurfa á slússunni að halda og fá þá að fljóta með frítt svo lengi sem pláss leyfir, en stóru slússurnar í Mosel eru 170 m. langar og 12 m. breiðar. Lögðumst við nú í biðröðina með hinum bátunum og vorum nr. 2 í bið. Eftir skamma stund opnaðist svo slússan og út kom stór legta sem var að koma niður "tröppuna" en ekkert skip var nú sjáanlegt á uppleið eins og við sem þarna biðum. Þá gerðist nokkuð nýtt fyrir okkur. Slússustjórinn kallaði í okkur bátana og bauðst til að taka okkur alla upp fyrir 4.50 hvern og vorum við ekki seinir á okkur allir að þiggja boðið og fórum við hver á eftir öðrum inn og gekk nú eins og í sögu að láta lyfta okkur þessa 3 m. Á meðan slússan var að fyllast og bátarnir á uppleið fórum við upp í turninn og greiddum fyrir lyftinguna.
Þegar komið var inn fyrir slússuna var ekki laust við að maður fylltist lotningu og fyndist maður kominn í annan heim. Lygnt vatnsyfirborðið er algjör andstaða við Rín, bryggjur og bátar með öllum bökkum, fólk að róa kappróðrarbátum, kæjökum og skútur að dóla fram og aftur, sem var algjörlega óþekkt á efri part Rínar vegna straumsins.
Við dóluðum nú þarna inn ána og fundum skammt innan við slússuna höfn Sejler og Motoryacht Club Koblenz og lögðumst beint að bryggju sem lá út í fljótið og var merkt sem gestabryggja og var kl. þá ekki nema 1300. Enginn var við á hafnarskrifstofunni þegar við komum en okkur tjáð að Hafni væri væntanlegur innan tíðar sem stóðst að því leiti að hann kom ekki fyrr en um kl. 1500. Gengum við frá öllum formlegheitum, spurðum um leið hvar við fyndum næstu matvörubúð og ákváðum að heimsækja hana eftir leiðsögn hans, en hann lét mig fá ljósrit af borgarkorti þar sem hann merkti inn hvar við fyndum matarbúðir. Lögðum við nú í langa göngu upp í háskólahverfi Koblenz, en höfnin er við norðurbakka Mosel beint neðan við háskólann, og tókum stefnu á matarbúðirnar. Þrátt fyrir langa leit um allt svæðið þar sem matarbúðir átti að finna var ekkert slíkt sjáanlegt og snerum við um borð aftur, ekkert voðalega vonsvikin þrátt fyrir langan göngutúr, því nógur matur og drykkur var um borð svo við þurftum ekki að hafa áhyggjur. Heimsóttum við Klúbbhúsið á bakaleiðinni og settumst þar með öðrum gestum yfir glasi af hvítvíni og slöppuðum af. Þegar við vorum komin um borð aftur og sest í makindum í sófann á afturdekkinu við smá spjall og annað hvítvínsglas kom hins vegar Hafni niður að bát og sagði að 15 m. bátur hafi verið að tilkynna komu sína og til að hann gæti fengið nóg pláss bað hann okkur að snúa bátnum með hina síðuna að og fara eins langt og við gætum með framendann þannig að "spjótið" sem stendur frammúr bátnum okkar skagaði fram fyrir bryggjunna. Sagðist hann verða á bryggjunni og leysa, og taka aftur við enda eftir að við værum búin að snúa bátnm. Nú voru góð ráð dýr, ég á öðru hvítvínsglasi og "prinsipreglan" að hreyfa ekki bátinn ef glasi er lyft. Þar sem ég vissi að Þjóðverjinn myndi ekki taka þessa "prinsipreglu" gilda miðaða við eitt og hálft hvítvínsglas var sett í gang, leyst og sigldi ég út á ána, sneri og lagðist að með öndverða síðu og var nú bundið aftur.
Skömmu eftir að við vorum búin að leggjast aftur að kom Þýskur bátur og lagðist fyrir aftan okkur en hann var rekinn frá og fékk legupláss á öðrum stað. Voru hjónin á honum hundfúl að fá ekki að liggja kyrr, en eins og áður sagði, búið var að panta pássið. Síðan kom Norskur bátur sem lagðist á sama stað og var honum vísað á legupláss undir slippkrana hafnarinnar enda öll önnur pláss fullsetin. Voru Norsku hjónin ekki með neitt múður yfir þessu og þegar ég hitti þau síðar heilsuðu þau fagnandi því við höfðum hist í fyrra í Bad Essen (pistill Bad Essen 28.09.06) og átt þá tal saman. Þau voru að koma frá siglingu um mið Evrópu, höfðu farið upp til Basel í Sviss og voru nú á heimleið til Noregs. Var það fyrsta sem þau sögðu þegar þau hittu mig "voru það ekki þið sem voruð á leiðinni í Miðjarðarhafið, og eruð þið ekki kominn lengra"?. Þegar ég útskýrði fyrir þeim að við höfðum notað langan tíma í að flakka um Holland og Belgíu, og svo sett bátinn í vetrargeymslu í Brussel voru þau ekki hissa á hvar við vorum, enda bætti ég við "við erum ekkert að flýta okkur". Tóku þau i sama streng, þau voru ekkert að flýta sér heldur. Loks kom svo "réttur bátur" og lagðist fyrir aftan okkur.
Daginn eftir notuðum við til að skoða okkur um í Koblenz, þeirri fallegu borg. Koblenz á sér merkilega sögu allt frá því 8 BC en var frá þeim tíma og fram til 1890 mikilsverð virkisborg. Byggðist hún í þríhyrning sem myndast milli Rín og Mosel á tvo vegu og virkisveggjar sem byggður var milli þessara fljóta SA við gömlu borgina. 1890 fékk borgin leyfi til að vaxa út fyrir virkisvegginn og stendur aðaljárnbrautarstöðin nú á þeim mörkum m.a. Íbúar Koblenz eru 107.000 og spannar borgin 105 km².
Eins og ég sagði í upphafi eru bakkar Mosel þar sem hún liggur í gegnum Koblenz mjög líflegir sem og áin sjálf. Á bakkanum gegnt okkur var siglingaskóli og stöðugur straumur af unglingum og krökkum í róðraræfingum á fljótinu sem höfðu gaman af að róa upp að okkur og vinka til þessara óþekktu útlendinga, en rétt er að geta þess að Íslenski fáninn er langt í frá að vera þekktur í Þýskalandi og var alltaf fyrsta uppástunga heimamanna að við værum frá Noregi. Skútur sigldu líka fram og aftur og voru heimsóknir þeirra ekki færri. Sömu megin og við lágum var baðströnd, aðeins nær slússunni sem við höfðum farið í gegnum, með sölutjöldum þar sem seldar voru veitingar af öllu tagi, og allskyns drasl. Leiktæki voru þar líka fyrir börn. Á þessu svæði var mikill erill og margmenni, og var svæðið fagurlega skreytt með ljósum þegar kvöldaði. Gengum við þangað og heimsóttum stuttlega, annað kvöldið okkar í Koblenz. Þegar við komum inn á svæðið völdum við okkur að setjast við borð hjá einu veitingatjaldinu og fór ég að barborði tjaldsins og bað um tvo bjóra. Ekki stóð á því en þegar barstúlkan lét bjóglösin fyrir framan mig sagði hún "give me the tickets". Ekki sagðist ég hafa ticket en sagðist vilja borga minn bjór, enda svæðið opið og enginn inngangur með miðasölu. Það gekk ekki og sagði hún mér að ég yrði að fara að sölutjaldi, sem hún benti á og kaupa tvo miða á 10 hvorn, að lágmarki, og koma með til sín, þá fengi ég bjórinn afgreiddan, en hún myndi krota á miðann magn þeirra veitinga sem við neyttum, meðan við stæðum við. Að því loknu fengjum við mismuninn endurgreiddann í miðasölunni gegn því að við framvísuðum miðanum og skiluðum glösunum þangað. Hér var skipulagsgáfu Þjóðverja rétt lýst, enda engin glös skilin eftir í reiðileysi á svæðinu, fólk skilaði þeim til að fá endurgreitt.
Annað skemmtilegt atvik átti sér stað seinna um kvöldið þegar við vorum komin um borð. Farið var að rökkva þegar lítll bátur með stromp upp úr miðjunni kom skríðandi alveg hljóðlaust og lagðist fyrir aftan okkur, en báturinn sem lá þar fyrir var farinn. Tveir menn voru um borð annar frekar fullorðinn og hinn yngri og fengum við að vita að þar færu feðgar. Þegar þeir voru búnir að binda fóru þeir beint í land til að fá sér að borða. Báturinn var hreint listaverk, ekki stærri en sexæringur, allur póleraður með skínandi kopargyllingu á slíkum málmflötum. Annar málmur var stíflakkaður svo stirndi á. Fyrir miðjum bát var lítill gufuketill með eldholi fyrir brennið sem notað var til að kynda hann. Um 30 cm. fyrir aftan ketilinn var svo gufuvélin, hreint undursamlega falleg, opinn svo að skoða mátti stimplana, sveifarásinn og gliderinn sem og annað kram, og allt gljáfægt.
Tók ég nokkrar myndir af bátnum en þar sem ég er ekki sá besti í þeirri grein tókust þær kannske ekki nógu vel, en læt ég þær samt fylgja.
Þegar þeir feðgar komu aftur um borð til brottferðar mátti ég til með að hæla þeim fyrir listaverkið. Sagði sá yngri þá að hann hafi alltaf haft gaman af bátum og þar sem hann stæði í barnauppeldi og tilheyrandi lífsbaráttu hefði hann ekki efni á að kaupa olíu á mótorbát og þvi valið að brenna bara spýtum til að komast áfram. Hvert sem sannleiksgildi þeirrar sögu var þá var hér á ferðinni eitt fallegasta handverk sem ég hef séð fyrr og síðar.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 20:52
94. Köln til Bad Honnef, þrumur og eldingar
Drekafjalli séð frá Bad Honnef
Við byrjuðum morguninn 21. maí að fara að olíubryggjuni í Köln og fylla upp af olíu. Ekki það að okkur væri olíu vant heldur hitt að samkvæmt leiðarforritinu og leiðarbókum munu olíustöðvar gerast strjálli, þegar komið er inn í Mosel auk þess sem ekki er alltaf gefið að olíu sé að fá þar sem það er gefið upp. Því erum við komin með þá stefnu að fylla alltaf upp þegar aðgengi að olíu er gott. Eftir olíutökuna var haldið af stað kl. 0940 og haldið út á Rín til frekari ferðar upp fljótið. Farið var löturhægt út innsiglinguna því farið er fyrir algjörlega blint horn út á fljótið til stb. og því ómögulegt að sjá hvort legta eða annað skip væri að koma niður fljótið þeim meginn. Tók ég það ráð að beygja ekki strax við hornið heldur fara undan straumi þar til útsýni var orðið nóg til að geta með öryggi beygt upp á við aftur og vorum við þá á fríum sjó. Þetta var hinn fegursti morgunn, sólskin, hlýtt og svo til logn og nutum við nú ferðarinnar sem gekk í alla staði eins og í sögu. Áfangastaðurinn var Bad Honnef og brátt fór landslagið heldur betur að breyta um svip þar sem Rínarfljót bugðast milli Westerwald og Eifel fjallgarðanna, stórfallegt svæði. Nú fóru vínekrur að sjást teygja sig upp hlíðarnar á bæði borð, glæsilegar byggingar, hótel, veitngastaðir, kirkjur og kastalar skreyttu bakka árinnar, hlíðarnar og klettastrítur svo unun var á að horfa. Að venju var mikil skipaumferð á fljótinu en við vorum orðin svo vön henni að hún truflaði okkur ekki við að njóta útsýnisins.
Þetta var stutt sigling eins og við viljum hafa þær, engann asa eða hraða. Komum við til Bad Honnef kl. 1200 og fikruðum okkur inn í höfnina og lögðumst að. Ekki var nokkurn mann að sjá þar sem við lögðumst og fór ég í land að kanna málið. Skammt innan við þar sem við lögðumst var sólbaðs- og sundpallur og voru þar tvær unglingsstelpur í sólbaði. Við nánari athugun kom í ljós lokað hlið að bryggjunni svo að ég komst ekki í land til að gera vart við okkur og ákváðum við þá að flytja okkur að öðrum bryggjum innar þar sem fleiri bátar lágu og gerðum það. Við landgöngu kom sama í ljós, læst hlið og engin leið að komast í land. Við nánari athugun kom í ljós tilkynningarkassi með glerhurð við hliðið og voru þar símanúmer umráðamanna hafnarinnar og byrjaði ég nú að hringja í fyrsta númerið og ekkert svar. Í þriðja númerinu sem ég hringdi í var svarað og sagði ég nú viðkomandi að við hefðum verið að lenda og vildum ná í einhvern til að geta gengið frá legu, rafmagnstengingu og lykli til að geta farið um hliðið. Sá sem svaraði sagði að enginn væri við sem stæði en að ef ég opnaði tilkynningarkassann (og leiðbeindi hann mér um hvernig skyldi gera það), þá myndi ég finna lykil að hliðinu þar og stóð það heima, þannig að við vorum þó orðin frjáls. Sagðist hann svo senda mann niður eftir til okkar til að ganga frá öðrum hlutum innan tíðar. Biðum við nú róleg þar til hafnarstjórinn kom og var þá gengið frá tveggja nátta legu, tengingum og aðgangi að snyrtingum og böðum. Í spjalli við Hafna um áhugaverða skoðun og leið í bæinn benti hann okkur á að við gætum tekið "tram" upp á Drekafjall (Drachenfels) og að þaðan væri æðislegt útsýni yfir þann hluta Rínardalsins sem við værum í og vorum við ákveðin í að gera það daginn eftir, en fara þurfti með lest til næsta bæjar Rhöndorf til þess að komast í "tramminn". Þennan eftir miðdag ætluðum við að nota til að skoða okkur um í Bad Honnef sem er virkilega fallegur og notalegur bær með um 25.000 íbúa. Bærinn er frægur fyrir "heilsuuppsprettu" sem bæði er notuð til heilsubaða og heilsudrykkjar, en uppsprettan og "lækningamáttur" hennar var uppgötvaður árið 1897. Bærinn er þar að auki þekktur fyrir það að Konrad Adenauer kanslari Þýskalands bjó þar á Kanslaraárum sínum en stutt er frá bænum til Bonn.
Þriðjudaginn 22. maí var ferð okkar heitið til Drekafjallsins. Vorum við orðin málkunnug fólki sem átti leið í báta sína eins og gerist og gengur og var m.a. búið að segja mér hvenær við ættum að fara út úr lestinni í Rhöndorf. Var mér sagt að fara úr á þriðju stöð og ganga þaðan að Maritime Hotel því að þaðan færi "tramminn" upp á fjallið. Vegna þess hversu veðrið var fallegt, sólskin og hlýindi ákváðum við að skilja bátinn eftir með Kalaciið uppi og lúguna yfir svefnkáetunni opna upp á gátt. Fórum við nú eftir hádegið á lestarstöðina og lestin tekin til Rnöndorf til að fara á fjallið, en eitthvað hef ég miskilið það sem sagt var um hvenær við áttun að fara úr lestinni því þegar við fórum út á þriðju stöð var ekkert Maritime Hótel sjáanlegt. Lögðum við af stað fótgangandi í þá átt sem við töldum líklegast að hitta á "tramminn". Eftir nokkurt labb hittum við á menn við gatnagerðarvinnu og spurðumst til vegar og sögðu þeir okkur að halda áfram að hraðbraut sem var nærri og undir hana um undirgöng, þá kæmum við að leiðinni upp á fjallið. Enn héldum við áfram og komum að undirgöngunum og kom þá í ljós að þar var bara göngustígur upp fjallið og vorum við klár á því að við hefðum engann tíma né möguleika á að ganga á fjallið og snerum nú frá til að leita að "tramminum". Eftir skamma göngu hittum við á heimamann sem var á göngu í hverfinu sem við vorum stödd í og spurðum hann um Maritime Hótelið og vísaði hann okkur veginn og fylgdist meira að segja með að við færum nú enga vitleysu. Nú skipti himinnin hins vegar um svip og fór nú að fara um okkur. Kolsvört ský hrönnuðust skyndilega upp á himinninn og þrumur fóru að hljóma úr þeirri átt sem báturinn lá. Við vorum komin í aðlalgötu Rhöndorf og búin að finna Maritime Hótelið en ljóst var að þrumuveður með úrhelli væri í aðsigi svo við sáum að ferð á Drekafjallið yrðum við að afskrifa og koma okkur í skjól. Verslunarmenn voru í óða önn að taka vörur sem höfðu verið til sýnis utandyra í skjól og fólk streymdi undir Kalaci götuvetingahúsa til að forðast yfirvofandi úrfelli. Sama gerðum við og komum okkur fyrir við borð undir veglegu tjaldi eins veitingahússins og biðum þess sem koma vildi. Ástæðan fyrir því að okkur varð ekki um sel var ekki ótti við þrumuveðrið sem slíkt heldur hitt að við skildum allt eftir upp á gátt í bátnum og greið leið fyrir úrhellið beint ofan í hjónarúmið og í sófana á afturdekkinu. Sófana myndi vera auðvelt að þurrka en rigning ofan í hjónarúmið og teppin á gólfunum niður í káetunni yrði ekkert grín.
Augljóst var að þrumuveðrið og úrfellið kæmi frá Bad Honnef og væri komið í algleyming þar svo við sáum að okkur voru allar bjargir bannaðar að redda málum þar í tíma og nú helltist veðrið yfir í Rhöndorf. Eldingar lýstu upp himininn og þrumurnar og úrhellið skapaði tilheyrandi hávaða og læti og skyndilega byrjuðu sírenur að væla um allann bæinn með sínum sveifluraddaða hávaða. Upp götuna sjáum við koma lögreglubíl og lögreglumann á hlaupum sem smeygði sér inn í bílinn. Varð mér að orði við frú Lilju að eitthvað alvarlegt væri að gerast fyrst þeir settu almannavarnaflauturnar á fullt en veitti athygli um leið að fólkið sem sat eins og við undir tjöldum götuveitingahúsanna tók öllu með hinni mestu ró svo engin katastoffa var í vændum. Þá rann allt í einu upp fyrir mér ljós. Sírenuvælið í bænum var til að kalla slökkviliðið saman sem trúlega væri eins og víðast í smábæjum erlendis sjálboðaslökkvilið. Er þetta aðlgeng aðferð í flestum smábæjum Evrópu og var þessi aðferð víðast notuð á Íslandi um áratuga skeið og hugsanlega einhversstaðar ennþá þótt mer sé ekki kunnugt um það nú.
Öll þrumuveður ganga yfir um síðir og þetta stóð ekki yfir nema u.þ.b. í hálftíma en þá var komið besta veður aftur, sólin skein í heiði og allt orðið yndislegt um leið. Ferð okkar á Drekafjallið var hins vegar úr sögunni og fórum við að finna lestarstöðina til að fara heim og kveið okkur fyrir aðkomunni þar eftir lætin. Lestarstöðina fundum við á Rínarbakka beint neðan við Maritime Hótelið og var nú ljóst að við höfðum farið úr einni lestarstöð of fljótt og því allt farið í vitleysu. Í stað þess að fara út á þriðju stöð áttum við að fara út eftir þrjár stöðvar. Eftir um 15 mín. bið kom lestin og brunaði svo áfram upp í Bad Honnef þar sem við fórum út og gengum niður að höfninni. Þegar þangað kom ætluðum við ekki að trúa eigin augum. Kalaciið var niðurrennt og lokað sem og lúgan yfir svefnkáetunni okkar. Einhver hafði farið um borð og lokað öllu fyrir okkur, en nú var spurningin, hversu fljótt, hafði náð að rigna inn? Eftir að vera komin um borð sáum við að allt var skraufaþurrt, ekki dropi komið inn á urðum við óumræðilega fegin við þessa sjón. Vorum við viss um að maður nokkur sem hafði fyrr um daginn verið að snuddast í kringum bátinn sinn, rétt innan við okkur og sagst ætla að koma í eftirmiðdag og þá spjalla meira við mig, hafi komið áður en rigningin byrjaði og lokað öllu fyrir okkur. Það reyndist hins vegar ekki því að skömmu eftir að við vorum komin um borð og búin að pústa eftir allt þetta kom maður niður bryggjuna, sem við höfðum ekki séð áður, og sagði um leið og gekk framhjá okkur í átt að sínum bát "I saved your ship". Kunnum við honum bestu þakkir en hann sagði bara, í stuttri þýðingu, eins og aðrir sem greiða götu manns í yachtsiglingunum "við lítum öll til með hvert öðru". Við vorum svo glöð yfir góðum endi á deginum að við gerðum undantekningu frá reglunni og snæddum kvöldverðinn á glæsilegum veitingastað á Rínarbakkanum rétt hjá höfninni þótt ekki væri laugardagur.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2007 | 19:58
93. Frá Duisburg til Kölnar um Dusseldorf
Eftir að hafa fyllt af olíu í Duisburg og hlustað á aðvörun hafnarstjórans að fara ekki um Dóná niður í Svartahaf vegna mafíunnar í Búlgaríu og Rúmeníu, lögðum við af stað til Dusseldorf kl. 0920 þriðjudaginn 15. maí. Var veður hið fegursta og siglingin tíðindalaus upp til Dusseldorf og komum við þangað eftir rúmlega 3. klst siglingu og bundum í "Yachthafen Dusseldorf" kl. 1325. Ákváðum við strax að liggja þar í tvær nætur og skoða okkur um. Þegar við ákváðum skömmu eftir komu að ganga til borgarinnar var okkur bent á að best væri að ganga með fljótsbakkanum meðfram feikna miklum garði og inn í borgina, en að það væri nokkuð langt eða um 4 km. Ekki settum við það fyrir okkur, enda álíka langt og göngutúrarnir sem við tökum reglulega heima, en hitinn og sólskinið var meira en við áttum að venjast þar. Var nú lagt í´ann og gengið sem leið liggur upp með Rínarbakkanum með hið fegursta útsýni yfir fljótið og nutum við gönguferðarinnar vel. Þegar komið var inn í borgina eftir tæplega klst. göngu vorum við orðin svolítið dösuð af hita og sól svo við vorum fljót að setjast við glæsilegan veitingastað á bakkanum og kasta mæðinni í smá skugga yfir hvítvínsglasi. Eyddum við síðan því sem eftir lifði af deginum við að rápa um götur Dusseldorf og átta okkur á borginni sem er mjög skemmtileg og lífleg. Ekki nenntum við að ganga til baka og tókum leigubíl því heim í bát.
Deginum eftir eyddum við svo í að skoða borgina betur, en nokkuð snarpar rigningaskúrir gerðu það að verkum að oft þurfti að leita skjóls þegar "hellt var úr fötunum".
Fimmtudaginn 17 maí yfirgáfum við svo Dusseldorf og héldum áfram upp til Kölnar sem var næsti áfangastaður, 3. klst. sigling og komum þangað kl.1215. Var ég búinn að hringja á undan okkur og panta pláss í Rheinau Sporthafen Köln og var mér þá sagt að ég yrði að hafa samband við göngubrú sem liggur yfir hafnarmynnið að Lindt súkkulaðisafninu í Köln, um 20 mín. fyrir komu, til að fá hana opnaða fyrir mig. Reyndi ég að hringja í uppgefið númer en án árangurs svo ég hringdi í höfnina og bað þá að hringja í brúnna og tilkynna komu okkar, sem þeir lofuðu að gera. Ekkert var spurt um hæðina á bátnum svo ég hélt að brúin hlyti að vera alveg niður undir vatnsborðinu. Nú nálguðumst við sundið sem liggur inn í höfnina, þar sem þetta fræga súkkulaðisafn stendur og gat ég ekki betur séð en að brúin væri a.m.k. 4 m. há svo að við myndum auðveldlega sleppa undir hana. Héldum við því áfram inn í þetta "trikky" hafnarmynni, undir brúnna og inn að langri bryggju með boxum á bæði borð. Ekki leist okkur allt of vel á því bryggjuboxin voru auðsýnilega mjög gömul, ryðguð og illa við haldið, en í Köln vildum við stoppa þannig að eitt box var valið og bakkað inn í það. Eftir að hafa bundið og athugað aðstæður vel kom í ljós að hlífðarbiti sem liggja átti með bryggjustubbnum í boxinu var farinn af helmingi bryggjunnar og stóðu festingarjárnin frá honum út til stór hættu fyrir bátinn og bættum við nú fendurum á bb. síðuna til að varna því að nokkur snerting gæti átt sér stað við þessi járn. Í Köln áttum við svo skemmtilega heimsókn og lágum þar til mánudagsins 21. maí.
Köln er fjórða stærsta borg Þýska sambandslýðveldisins eftir Berlín, Hamborg og Munich. Saga borgarmyndunarinnar byrjar á Rómartímanum 30 fyrir Krist og er borgin viðurkennd innan Rómverska heimsveldisins 50 eftir krist. Yfir 30 áhugaverð söfn eru í borginni þ.á.m. hið fræga Lindt súkkulaðisafn, sem okkur fannst lítið til koma eftir að hafa skoðað það. Íbúar Kölnar eru um síðustu áramót 986.168 auk þess sem mikill ferðamannastraumur er til borgarinnar. Í fyrstu gönguferð okkar var ekki laust við að við yrðum fyrir hálfgerðu menningasjokki yfir mannfjöldanum á götum borgarinnar en miðborgin minnti á mannfjöldann sem maður upplifir á mótum Brodway og 42. strætis New York borgar eða Picadilly í London á háannatíma ferðamennskunnar. Föstudaginn 18. maí var einhverskonar vínsmökkunarhátíð í borginni og mikill manngrúi í öllum götuveitingahúsum auk þess sem tjöldum var komið fyrir um torg og götur þar sem kneyfað var hvítvín í hverju horni. Hljómsveitir með ýmsum gleðilátum skemmtu svo fólki og var mikið fjör í bænum. Á laugardeginum og sunnudeginum völdum við að ganga í miðborgina eftir Rínarbökkum og ekki var minna um að vera þar, allstaðar manngrúi að skemmta sér og eiga náðuga stund og allt að sjá með gleði og góðum anda, enginn vitlaus eða með áreiti, annað en maður á að venjast á gleðistundum á Íslandi, sem því miður fara fyrir lítið oft á tíðum fyrir asnaskap þátttakenda.
Við heimsóttum hina miklu Kölnardómkirkju laugardaginn 19. maí og var það hátíðleg stund. Við fréttum í ferðinni að Anna Bjarnadóttir, samstarfsmaður og vinkona frú Lilju til margra ára væri látin eftir áralanga baráttu við krabbamein og tendraði frú Lilja kerti til minningar um hana í Kölnardómkirkjunni og bað fyrir sálu hennar. Kirkjan er stórfenglegt listaverk, enda var hún 600 ár í smíðum og var byggingunni ekki lokið fyrr en um miðja 19. öld. Eins og gerðist með mörg fleiri byggingarlistaverk varð kirkjan fyrir sprengjuárásum í seinni heimstyrjöldinni, en endurbyggingu er lokið. Í heildinni má sjá á byggingastíl og framkvæmdum í borginni að hún varð fyrir miklum skemmdum í loftárásum styrjaldarinnar, en eina sem þær skila til langs tíma er dauði, örkuml og eyðilegging mannanna verka. Þessi sár og það sem á eftir hefur gengið lýsir berlega hversu langt mannkynið á í land með þroskast.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2007 | 17:35
92. Viðhald í Duisburg og Mafía
Háhýsin við höfnina í Duisburg
Við ákváðum að liggja í Duisburg yfir helgina 11. til 13. maí, en halda áfram mánudaginn 14., sem átti eftir að breytast. Byrjuðum við morguninn á að fara í ágætis yachtbúð sem er í nágrenni hafnarinnar og fengum þar keypt auka slökkvitæki sem okkur vantaði til að standast íslenskar kröfur. Einnig keyptum við inn annað smálegt fyrir bátinn, en um hádegið kom vélvirki sem við höfðum pantað og fór að skipta um loftsíur, olíu og smurolíusíur á vélunum. Var það meira og seinlegra verk en við áttum von á og lauk hann því ekki fyrr en kl. að verða 1600. Verð ég að segja að það var ódýrari þjónusta en vænta hefði mátt í okurlandinu heima því að vinnan, nýjar olíusíur og 18 lítrar af smurolíu kostuðu ekki samanlagt meira en 255 sem jafngildir tæplega 22.000 kr. Hefði vinnan ein heima kostað mun meira. Gauji-Hafni var ógurlega stoltur af sinni fallegu höfn og var óþreytandi við að hjóla um allar bryggjur og fylgjast með að allt væri í röð og reglu á svæðinu og til marks um passasemi hans er að viðgerðarmanninum okkar varð á að missa þrjá eða fjóra olídropa á dekkið þegar hann var að fara með "sump oíluna" í land og varð hann að koma með sérstakt hreinsiefni og þrífa hvern dropa þannig að ekki sæist á hvítskúruðu dekki bryggjanna.
Það var spænu hvasst þennan dag í Duisburg þótt hlýtt væri og síðdegis kom í höfnina danskur skemmtibátur og lagðist að olíubryggjunni til að taka eldsneyti og átti hann í erfiðleikum með að leggjast að vegna veðursins. Fékk hann því leyfi til að liggja áfram við olíubryggjuna eftir að eldsneytistöku var lokið og bíða með að leggjast við bryggju í höfninni þar til lægði. Seint um eftirmiðdaginn lægði svo vind, svo að Daninn leysti landfestar og flutti sig, samkvæmt ábendingu Gauja-Hafna, að bryggju fyrir aftan okkur og kom sér vel fyrir þar. Þar sem veðrið var að dúra svona mikið spurði ég Gauja-Hafna hvernig spáin væri framundan og gaf hann ekki gott í skyn. Vegna takmarkaðrar enskukunnáttu sinnar (en hann er Franskur) lýsti hann veðrinu framundan meira með handapati og látbragði en orðum og gaf til kynna að framundan væri grenjandi rigning og þrumuveður, sem stóðst heldur betur. Eftir að við höfðum borðað kvöldverðinn í besta veðri sáum við að mikil og dökk ský hrönnuðust upp á vesturhimininn og skipti skömmum toga að yfir heltist sú svakalegasta rigningarskúr sem ég hef fyrr og síðar séð með logandi eldingum um allt, nærri og í fjarlægð. Hef ég oft upplifað djöflagang líkan þessum í hitabeltislöndum og í öskuskýjum eldgosa en þessi læti toppuðu það allt. Var rigningarskúrin svo þétt að um skamman tíma sáust ekki bátar sem lágu öndvert við næstu bryggju. Jafnhliða þessu byrjuðu sírenur að væla allt um kring og fréttum við síðar að eldar hafi kviknað vegna eldinganna. Ekki var ástæða fyrir okkur að hafa áhyggjur af eldingagangnum þar sem við lágum skammt undan þrem stórum skrifstofubyggingum sem voru mun líklegri til að draga eldingar til sín en að þeim myndi slá niður til okkar. En allt gekk þetta yfir á skömmum tíma, ekki meira en hálftíma og skyndilega var komið hið besta veður.
Laugardaginn 11. maí sáum við að mikið stóð til á þeim bakka hafnarinnar sem fjær var okkur, en þar var verið að setja upp feikna mikinn útimarkað og streymdi fólk að úr öllum áttum. Góð göngubrú er yfir á hinn bakkann og fórum við nú yfir hana og heimsóttum þennan mikla útimarkað og höfðum gaman af. Fórum við svo áfram í bæinn, en það er mjög stutt, og eyddum við tímanum við að skoða okkur um í Duisbourg, sem er mjög skemmtilegur bær og fallegur. Við höfum þann hátt á að borða um borð allflesta daga en gera okkur dagamun á laugardögum með því að borða úti og velja til þess þokkalega resturanta. Þegar við gengum frá legunni lét Gauji-Hafni okkur fá kort og bæklinga yfir það helsta sem hægt er að skoða í Duisburg og ákváðum við að borða á fínum veitingastað skammt frá þar sem við lágum. Þegar við komum þangað um kvöldið var allt fullt, en okkur lofað borði kl. 2000 og mættum við þá. Var okkur vísað til borðs og svo skemmtilega vildi til að við lentum við borð við hliðina á dönunum frá bátnum sem lá fyrir aftan okkur og hófust nú samræður okkar á milli um hvaðan menn kæmu og hvert ferðum væri háttað. Kom í ljós að þau voru að koma frá Lyon í Frakklandi, en þetta voru tvenn hjón, og á leið heim til Danmerkur. Þegar við sögðum þeim að við værum á öndverðri leið og ætluðum að fara upp í Mosel og í Saar kanalinn yfir í Rín aftur og þaðan inn í Rínar-Rhon kanalinn og eftir Rhon niður í Miðjarðarhaf sögðu þeir að ég gæti farið miklu auðveldari leið. Það er upp Mosel og úr Mosel inn í Saône kanal við Nancy í Frakkland og eftir honum til Lyon og þá værum við komin í Rhon. Spurði ég hann þá um hæðartakmarkanir á þeirri leið og sagðist hann hafa þurft að fella mastursgrindina eins og ég hafði ætlað mér líka að gera og þá væri þetta ekkert mál. Bauðst hann nú að lána mér allar leiðsögubækur yfir þessa ferð sem hann og gerði þegar við komum um borð síðar um kvöldið, enda hættur að nota þær í bili a.m.k.
Eins og ég var búinn að segja frá í fyrri pistlum vorum við búin að gefast upp á að fara í gegnum Þýskaland og Frakkland og ætluðum því að fara sjóleiðina suður með Frakklandi, til Spánar og suður um Portúgal en sem betur fer létum við okkur hafa vatnaleiðina eftir að við sáum að við gætum "troðið" okkur þar í gegn, því annars hefðum við lent í miklum töfum því vestanáttir eru búnar að vera ríkjandi í mislangann tima við vesturströnd Frakklands og á Biscayaflóa allt vorið. Leiðna um Dóná niður í Svartahaf, sem var í myndinni um tíma, vorum við búin að slá af vegna varnaðarorða frá áhöfnum báta sem við hittum, um mafíuna í Búlgaríu og Rúmeníu sem notfærði sér skemmtibátafólk með allskonar kúgunum. Höfðum við gaman af því þegar við vorum að spjalla við Gauja-Hafna einu sinni og þessar leiðir komu til tals, en eins og áður sagði átti hann erfitt með að tjá sig á Ensku. Sagði hann því þegar hann heyrði þessar vangaveltur hjá okkur "no, no, no, mafía mafía, first ask for your money then bom, bom bom" og mundaði ímyndaða byssu um leið.
Sunnudaginn 13. maí byrjuðum við á að komast þí þvottavélar og þurrkara hafnarinnar og var nú allt óhreint tau þvegið og gengið frá því. Var svo tekinn einn göngutúrinn enn um bæinn til að skoða það sem okkur fannst útaf standa. Fyrir kvöldverðinn fór ég svo að undirbúa brottför daginn eftir með því m.a. mæla olíu á vélum og starta upp, yfirlíta og reyna stjórntæki. Nú brá svo við að í ljós kom að kælivatn lak út um lítið rör ofan á stb. vélinni og var auðsynilegt að það hafði brotnað við að vélamaðurinn sem skipti um olíu og síur daginn áður hafði stigið á það og brotið óvart. Því varð það að við fórum ekki á mánudeginum því að fá þurfti viðgerðarmann aftur til að skipta um rör, sem þeir gerðu okkur að kostnaðarlausu, sögðu það vera innan ábyrgðar á síðustu þjónustu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2007 | 20:01
Emmerich til Duisborgar
Vatnalöggan og Gauji í Duisborg
Enn var haldið úr höfn, fimmtudaginn 10 maí kl. 0840 og þrætt sundið út á Rín. Þegar í fljótið kom gerði ég eins og lög gera ráð fyrir og hélt þvert yfir að hægri bakkanum (miðað við þá sem eru að fara upp fljótið) áður en ég beygði upp og jók ferðina. Nokkur umferð var af flutningalegtum og farþegaskipum og aðeins ofar var lögreglubátur frá Wasser Polizei að dóla úti á fljótinu. Þegar við fórum framhjá honum skömmu síðar kom einn lögreglumaðurinn út á dekkið og bandaði höndunum þannig að við skildum það bæði að hann vildi að við færum nær bakkanum og frá umferðinni, sem strax var hlýtt. Skömmu síðar skipti engum togum að löggubáturinn setur á fulla ferð á eftir okkur og rennir fram með og löggan á dekkinu myndar sig við að kalla yfir svo við drógum strax úr ferð og stöðvuðum næstum til að heyra hvað hann væri að segja. Heyrðist hann kalla að við ættum að fylgja sér og gaf ég honum merki um að það yrði gert. Setti löggubáturinn nú stefnuna á litlu höfnina í Emmerich, sem frá er sagt í síðasta pistli, og renndi þar að bryggju, og við í humátt eftir. Komu tvær löggur upp á bryggju og bentu okkur að leggja fyrir aftan löggubátinn og tóku þeir við enda og hjálpuðu frú Lilju að binda. Þegar því var lokið og búið að drepa á vélum fór ég upp á bryggjuna og heilsaði þeim. Eftir kveðjur spurði löggan sem hafði orð fyrir þeim hvort við værum með talstöð í bátnum og hvort við hefðum réttindi til að nota hana. Svaraði ég honum því að við værum með VHF talstöð og ég með alþjóðleg STCW skipstjórnarrétindi AII/1 og AII/2 og að talstöðvarréttindi væru þar innifalin. Kom á óvart að hann virtist ekkert þekkja til STCW alþjóða skipstjórnarskírteinisins, sem er þó orðin krafa fyrir stjórn á farþega- og flutningaskipum á alþjóðasiglingaleiðum um allann heim frá árinu 2001. Þessi krafa nær þó ekki til skemmtibáta og fiskiskipa, en hafi maður STCW skírteini nær það yfir þau einnig þar sem þau eru mun hærri. Bað hann mig að framvísa skírteininu og öðrum skipspappírum og fór ég sótti það sem beðið var um og báðu þeir mig að koma með gögnin um borð í löggubátinn. Þegar þangað var komið hitti ég yfirmanninn, sem sat við skrifborð með tölvu fyrir framan sig og heilsaði þegar ég kom inn. Var mér nú boðið sæti og skírteinið og skipspappírarnir tekinir og byrjaði yfirmaðurinn að skrá upplýsingar úr þeim í tölvuna. Meðan á því stóð spjallaði hin löggan við mig um hvaðan við kæmum og hvert ætti að halda, hvort að við kæmum alla leið frá Íslandi o.s.frv. Svaraði ég honum öllu sem hann spurði og skyndilega var mér rétt mappan með skipspappírunum ásamt STCW skírteininu og sagt með brosi á vör að þar með væri þetta búið, við gætum haldið áfram. Reyndar sagði löggan þegar ég ætlaði að standa upp og benti um leið á LILJU BEN ".Sigluljósið á bátnum þínum er of lágt og lendir á bakvið radarloftentið hjá þér svo við sjáum það ekki héðan". Sá ég strax hvað hann meinti en tók ekki sénsinn á að móðga hann með því að segja að hann þyrfti ekki annað en að standa upp, þá sæist það yfir radarloftnetið. Málið er að við vorum svo nærri löggubátnum, fyrir aftan hann, að í sitjandi stöðu var sjónarhornið hjá löggunni beint upp undir radarloftnetið og hefði hann séð ljósið ef hann hefði staðið upp og er ljósgeirinn niður að haffleti framan við bátinn alveg löglegur. En síðan kom rúsínan í pylsuendanum frá þeim þegar ég kvaddi þá því þá sagði hann í hálfgerðum afsökunartón. "Nú er sumarumferð skemmtibátanna ("the summer season") að hefjast fyrir alvöru á fljótunum og þá þyrpist hér inn allskonar fólk í mismunandi ástandi og sumt með engin eða vafasöm réttindi, á fjölda báta og þegar við sáum þennan ókunna fána vakti það forvitni okkar svo við máttum til að athuga ykkur frekar". Voru nú þessir heiðursmenn kvaddir og komu þeir og hjálpuðu til við að leysa og héldum við áfram för, en þeir höfðu tafið okkur um 50 mínútur. Var nú siglt áfram upp Rín í hinu yndislegasta veðri og ræddum við nokkuð á leiðinni um þetta skemmtilega tilvik. Vorum við sammála um að þetta hefði verið hið besta mál, með þessu værum við ábyggilega komin á skrá í tölvukerfi þýsku Wasser Polizei þannig að aðrir löggubátar sem á vegi okkar yrðu myndu geta flett okkur upp og séð að við værum OK. Hvort sem það er rétt eða ekki þá fengum við bara vinsamlegt vink frá þeim löggu bátum sem við sigldum frammá eftir þetta.
Á leiðinni upp í Duisburg fórum við framhjá bæunum Rees og Wesel, sem helst ber að nefna og komum að innsiglingunni í Duisburg um kl. 1500. Var nú gott að hafa leiðsögubókina með kortunum því að höfnin er langt inni í bæ. Var beygt inn í þrönga innsiglingu á bb. út úr fljótnu og siglt 2.5 km. langt sund inn í bæinn framhjá iðnaðarsvæði fyrst og síðan íbúðahúsum, görðum, markaðstorgi og beint inn í hjarta borgarinnar. Þar tók við hin glæsilegasta yachthöfn, nýbyggð og snyrtileg og kom Hafni til móts við okkur á bryggjunni og leiðbeindi okkur á legupláss og hjálpaði til við að binda. Þegar því var lokið benti hann á yachtina sem lá við hliðina á okkur og sagði með stolti á svipinn, "this is my ship". Strax fannst mér að ég kannaðist við svipinn á kalli og skyndilega rann upp fyrir mér að hann væri nauðalíkur manni sem er kallaður Gauji (heitir Guðjón) og er vinur sonar okkar. Eftir það kölluðum við hann alltaf okkar á milli Gauja og reyndist hinn almennilegasti og skemmtilegasti kall sem síðar verður sagt frá.
Í Duisburg ákváðum við að liggja fram á mánudaginn 14 maí og fá tæknimann til að skipta um loftsíur, olíu og olíusíur á vélunum og pöntuðum við hjá Gauja að fá þá þjónustu daginn eftir, á föstudegi.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2007 | 22:24
Gorinchem til Emmerich um Tiel
Höfundur kann enn að splæsa spotta.
Ágætu lesendur. Langt er síðan síðast var skrifað og veldur að erfitt er að komast í netsamband þar sem við siglum. En þar sem við erum komin heim og förum ekki aftur á stað fyrr en í ágúst ættu pistlar að koma núna reglulega með ferðasöguinni og fleiru sem áhugavert gæti verið að skrifa um.
Mánudaginn 7. maí leystum við landfestar í Gorinchem kl. 0815 og héldum út á Bowen Merwede kvísl Rínar og settum stefnuna upp hana á bæinn Tiel og komum þangað kl. 1135. Var vindur af vestan 8 m/sek. og hauga rigning. Á leiðinni skiptir þessi Rínarkvísl um nafn og heitir nú Waal fljót. Í Tiel er góð aðkoma og aðstaða ágæt og eftir að hafa talað við Hafna í síma kom hann og leiðbeindi okkur á ágæta legu við bryggju beint neðan við þjónustumiðstöð hafnarinnar. Enn haugringdi og gölluðum við okkur upp í regngalla til landgöngu. Eyddum við lungan af deginum við að skoða þennan litla bæ sem er snyrtilegur á Hollenska vísu og fórum meðal annars í gegnum mikinn útimarkað við göngugötu bæjarins. Rigninginn setti hins vegar nokkurn svip á mannlífið, allir á hraðferð með regnhlífar yfir sér og skemmtum við okkur ágætlega við að horfa á hve margbreytilegar þær geta verið að lit og lögun sumar spenntar beint út en aðrar beyglaðar og skældar, sennilega eftir mörg "uppfok". Ekki eru frekari tíðindi frá þessari ferð eða stað þar sem við héldum okkur aðallega um borð vegna veðursins.
Tiel til Emmerich
Þriðjudaginn 8. maí fórum við frá Tiel kl. 0800 og enn var stefnt upp Waal kvíslina og var nú ákveðið að sigla upp til borgarinnar Emmerich og þar með að yfirgefa Holland og fara inn í meginfljót Rínar og inn í Þýskaland. Á svona leiðum er fljótunum skipt á milli siglingastjórnstöðva sem eru hver með sína hlustunarrás á talstöðinni og verður maður að gæta að því að stilla á réttar rásir eftir því sem siglingunni miðar áfram. Í raun er landslagið á þessum hluta Rínarkvísla mjög flatt og tilbreytingarsnautt og eina sem gleður augað með fjölbreytileika sínum er hinir ýmsu bæir, borgir og þorp sem farið er hjá og hver hafa sinn svip. Á leiðinni upp Waal fórum við framhjá bæjunum Benden Leeuwen, Druten, Nijmegen og Lent, og að Hulhuizen. Þá var komið í Rín sjálfa og farið hjá Millingen á stb. og Lobith á bb. en þar skiptir yfir í Þýskaland. Í Lobith er "Tollkammer" en enginn var tollurinn að skipta sér af okkur. Samkvæmt leiðarforritinu sem ég er með í tölvunni eiga skemmtibátahafnirnar í Emmerich að vera við 854 km. markið sem kallað er, u.þ.b. 500 m. áður en komið er undir Emmerich brúnna sem liggur yfir fljótið. Kl. 1300 var þeim áfanga náð en engin var höfnin sýnileg, en hún á að vera á bb. þegar farið er upp fljótið. Þegar betur var að gáð var þó þröngt sund sýnilegt á bb. inn á milli þéttra og hávaxinna trjáa, rétt neðan við brúnna og var nú stefnan sett á það á minnsta hraða sem hægt var að stjórna bátnum á. Ekki sást í gegnum sundið þar sem það bugðast í gegnum skóginn og engin skilti eða leiðarmerki eru til að leiðbeina inn í það. Um leið og við komum inn í sundmynnið grynnkaði skyndilega mjóg ört undir okkur svo dýptarmælirinn sýndi 1 m. undir bátnum. Um leið heyrðist undarlegt urr frá skrúfunum þannig að nú gerðust hlutirnir hratt. Sett var hart í stjór, stb. vél sett á afturábak en bb. vél látinn vinna áfram og skrúfudrifunum lyft með ýtrasta hraða þar til rauð ljós loguðu við bæði drifin. Tókst að snúa bátnum þrátt fyrir erfið straummót fljótsins og sundsins en miklar straumiður eru þar sem fljótið mætir sundinu. Út fórum við á fljótið aftur og voru drifin sett snarlega niður aftur og enginn skaði skeði, en að reka skrúfurnar í botn þýðir mölbrotin drif með tilheyrand stjórnleysi og strandi á svona stað, og þar með stórskaða. Nú voru góð ráð dýr og dóluðum við upp fljótið með Emmerich á bb. en með bænum er hlaðinn steinveggur með fljótsbakkanum með einstaka bryggjum fyrir Rivercrusera, farþegabáta, sem við yachtararnir megum ekki leggjast að nema neyðarástand sé um borð, en þá má hvergi reka bát frá. Þegar við komum fyrir endann á bænum sáum við aftur opnast sund á bb. inn í litla vík og þar inni nokkra báta við bryggjur og var nú rennt þar inn. Þegar inn var komið kom í ljós að hér var um höfn að ræða fyrir vinnubáta og skip þ.e.a.s. báta og skip sem annast viðhald á baujum og öðrum siglingamerkjum, eftirlits- og löggæslubáta o.s.frv. og var ákveðið að fara þar að bryggju og spyrjast til vegar. Þegar við vorum að síga að einni bryggjunni kom maður gangandi fram á hana og spurði hvort eitthvað amaði að, þetta væri lokuð bryggja. Sagði ég honum eins og var að við værum að leita að skemmtibátahöfnunum en findum þær ekki. Þá svaraði hann því til að þær væru innan við sundið um 500 m. fyrir neðan brúnna og sagðist ég hafa farið inn í það en fundist það allt of grunnt og því snúið frá. Sagði hann þá að það væri rétt að það væri grunnt fremst en dýpkaði svo þegar innar væri komið og að við yrðum að gæta okkur á að halda okkur í miðju sundinu. Var manninum þakkað fyrir og haldið út aftur og niður að sundinu sem fyrr var snúið frá, en þessi litla höfn átti eftir að koma við sögu aftur þegar við fórum frá Emmerich. Var ég nú óhræddur að leggja í það þótt grunnið sýndi sig en mikill vandi er að taka svona þröng sund eða innsiglingar úr straumhörðum fljótum eins og Rín er þarna (5 km/klst. straumur). Beita þarf alveg 20 til 30° upp í strauminn meðan stefnt er inn og síðan að breyta snarlega á rétta stefnu þegar straumnum sleppir en á þeim mótum geta verið villandi straumiður í hvora áttina sem er. Inn sigldum við þetta km. langa sund í gegnum þéttann skóg og þegar inn var komið opnaðist þessi líka fallega vík með þrem skemmtibátahöfnum og lögðumst við að bryggju við Yachthafen Emmerich kl. 1345 eftir þetta auka ævintýri.
Lágum við nú í Emmerich fram til fimmtudagsmorguns. Við höfnina er ágætis yachtbúð og í heimsókn þangað sá ég leiðsögubók fyrir fljótakerfi Rínar allt frá Norðursjó og upp til Basel í Sviss, eða eins og áin sjálf er skipgeng. Er bókin með nákvæm kort af ánum og könulum henni tengdum auk lýsinga á öllum mögulegum höfnum, innsiglingum, viðgerðarstöðum, eldsneytistönkum og sögulegum stöðum og mikill fengur af henni, en ljóst var orðið að tölvuforritið eitt og sér er ófullnægjandi á svona ferðum. Frá höfninni og í bæinn var um 2.5 km. ganga og helmingur hennar eftir dimmum skógarstíg sem lág umhverfis víkina en tréin uxu saman yfir stígnum. Frá bænum er lítið að segja, þetta er fallegur lítill bær sem liggur austan megin Rínar en alveg steindauður, enda auðsýnilega svefnbær. Ein aðalgata liggur í gegnum bæinn endilangann og mjög fáir þar á ferli. Reyndar var frekar hvasst meðan við vorum þarna, en hlýtt með lítilsháttar skúrum af og til. Þar sem við erum að vinna í því að fá MY LILJU BEN skráða undir Íslenskan fána og erum reyndar búin að fá íslenskt skipaskrárnúmer, ákvað ég að kaupa auka slökkvitæki í yachtbúðinni í Emmerich, til að uppfylla allar kröfur vegna íslenskra skipa en viti menn þeir áttu allt sem prýða má skemmtibáta en slökkvitæki áttu þeir ekki.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 09:45
Brussel til Gorinchem
Það er sunnudagshvíld í Gorinchem í Hollandi gullfallegum bæ þar sem gamli miðbærinn er girtur háum virkisvegg allt um kring. Þegar við vöknuðum í morgun var ekki nema 12 stiga hiti og skýjað sem er viðbrigði frá því sem dagarnir á undan hafa verið en þá hefur verið mun hlýrra. Hitinn hefur daglega farið í 24 til 28 stig heitast.
Við flugum út til móts við LB föstudaginn 27. og gekk ferðin í alla staði vel og komum við um borð um kl. 20:00 um kvöldið. Var notalega hlýtt að koma sér fyrir í LB og allt í fínasta standi. Reyndar var LB skítug að utan eftir stórborgarmengunina og ekki vanþörf á að þvo hana rækilega. Þar sem við lágum var þó óhægt um vik þar sem ekki var legið við bryggju heldur í skáp sem ég hef lýst áður.
Við lágum um kyrrt laugardag, sunnudag og mánudag sem við notuðum til að kaupa inn (provientara inn) en lögðum svo af stað þriðjudaginn 1. maí og var haldið til Antwerpen, en þangað komum við um kl. 15:30. Var búið að vara okkur við að tafir gætu orðið við brýr og slússur sem fara þurfti í gegnum, út af 1. maí, en reyndumst við mjög heppin því á leiðinni þurfti að opna fyrir okkur þrjár brýr og fara þurfti í gegnum þrjár slússur og lentum við hvergi í neinni bið. Ástæðan var við lentum í samfloti við flutningalegtur sem allstaðar nutu forgangs og flutum við með. Þegar við komum upp að Antwerpen tók ég sjensinn að reyna að komast í Rogier slússu sem stytti leiðina fyrir okkur um rúmlega klukkutíma og kom sér nú vel að hafa FD númer á bátnum, sem ég sagði frá í fyrri pistli og fengum við strax heimild til að fara inn, eftir smá bið. Var svoleiðis troðið í slússuna að við vorum sett á milli tveggja skúta og þegar við vorum að koma okkur þar inn á milli var snar taugaveikluð kerling á annari skútunni sem var viss um að myndum keyra á sig. En allt gekk þetta ljómandi vel og áhyggjur kerlingarinnar ásæðulausar.
Í Antwerpen lágum við svo miðvikudaginn 2. maí og þar gátum við loksins fengið dieselolíu á bátinn og notuðum tækifærið til að fylla upp. Vandræðagangur er með eldsneyti á skemmtibáta í Belgíu því að 1. janúar s.l. gengu í gildi ný lög sem kveða á um að óheimilt sé að selja s.k. red diesel á báta, heldur megi eingöngu selja hana til húshitunar en hún er mun ódýrari. Skemmtibátahafnirnar voru hins vegar með alla tanka fulla af red diesel um áramót og þora fæstar að selja hana á bátana, nema þarna í Antwerpen þá sögðu þeir að ég yrði bara að kvitta fyrir að ég ætlaði að nota olíuna til húshitunar, þeim kæmi svo ekkert við til hvers ég notaði hana. Var nokkur traffik hjá þeim að fá olíu á stóra sem smáa báta.
Fimmtudaginn 3. maí lögðum við í hann frá Antwerpen kl.09:20 og héldum til Willemstad í Hollandi, sem áður var komið í og komum þangað kl. 14:30 og lögðumst á nákvæmlega sama stað og áður. Veður var hið besta NA strekkingur en 27 hiti. og sólskin. Skömmu eftir að við vorum lent bilaði ferskvatnsdæla LB og reyndist ónýt, hennar líftími var búinn. Vorum við svo heppin að í höfninni er yachtbúð og gat ég fengið nýja dælu þar og fór hluti af föstudeginum 4. maí í að skipta um dælu, en hún er í tækjahólfi þar sem mikið er af græjum, leiðslum og slöngum, þar sem erfitt var að athafna sig, en allt tókst þó vel og ferskvatn komið á fyrir kvöldið. Er mikill munur af nýju dælunni því hún er margfalt hljóðlátari en sú gamla sem var frekar hávær svo fólk í næstu bátum heyrði ef skrúfaðvar frá krana um borð í LB.
Þegar leið að kvöldi komu svo margir bátar inn í Willemstad að leggja varð hver utaná öðrum og fengum við skemmtibát utan á okkur sem heitir hvorki meira né minna en Sean Connery og er frú Lilja Ben mjög upp með sér núna að hafa legið heila nótt við hlið Sean Connery. Er yfirleitt kappsmál hjá okkur að vera snemma á ferðinni til að lenda ekki í þrengslum við komur í hafnir, sem gerist oftast undir kvöld og þurfti t.d. einn að snúa frá þarna um kvöldið vegna plássleysis.
Morguninn 5. maí fórum við svo úr höfn kl. 09:30 og héldum beina leið til Groinchem þar sem viðliggjum nú þegar þessi pistill er skrifaður. Notum við síðdegið í gær til að skoða okkur um á þessum fallega bæ með skemmitelgum göngugötum iðandi af lífi. Þar sem komið var laugardagskvöld ákváðum við að gera okkur dagamun og fara út að borða og fórum á fallegann veitingastað niður við fljótsbakkann með útsýni yfir fljótið. Þegar til kastanna kom var þetta svo fínn og snobbaður staður að við vorum eins og fjandinn úr sauðarleggnum innanum allt snobbliðið sem þarna snæddi kvöldverð, verðurbarin af útiveru, klædd sem venjugegu bátafólki sæmir.
Meðan þessi pistill var skrifaður hafa bátarnir verið að streyma út, komið er glampandi sólskin og fallegasta veður. Við förum í fyrramálið áfram upp Waal fljótið og inn í Þýskaland.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2007 | 15:42
Siglingin og þú, önnur hindrun
Flestir sem hugsa til siglinga líta með hryllingi til sjóveiki sem þeir hafa upplifað í Akraborginni, Herjólfi eða ferðum með flutninga- eða fiskiskipum yfir hafið. Þeir sem ekki hafa upplifað sjóveiki, því þeir hafa aldrei farið á sjó, ákveða með sjálfum sér að þeir verði sjóveikir og því eigi þeir ekkert erindi til sjós. Þetta er rétt allir verða sjóveikir í fyrstu og harðsvíruðustu sjómenn sem hafa atvinnu af að sigla hafa orðið sjóveikir. Ef þeir neita því er það tómt raup. Sjóveiki er eðlilegur hluti líkamlegra viðbragða gegn stöðugu áreiti á jafnvægiskerfið þegar ekkert er fast undir fæti. Sjóveikin herjar harðast á þeim sem ekkert hafa fyrir stafni og er verri á stærri skipum en skemmtibátum vegna þess að í skemmtibátum er hreyfingin mun léttari og kvikari en í stærri skipum þar sem hún er þung og silaleg með mun lengri sveiflutíðni. Hreyfingu skemmtibáta má frekar líkja við hreyfingu flugvélar í ókyrrð eða bíls á ósléttum vegi.
Þeir sem siglt hafa með ferjum, flutningaskipum eða fiskiskipum vita að þar er sjaldnast veður látið ráða för. Þetta eru atvinnutæki sem eru bundin af áætlunum, sókn til veiða eða ferð til löndunar, hvernig í fjáranum sem veður og sjólag er. Á skemmtibátum er allt annað sjónarmið uppi á teningnum, þá má láta veður ráða för og minnka til muna líkur á sjóveiki þannig. Þriggja daga veðurspá á sjó er orðin það áreiðanleg að óháð árstíma á að vera óhætt að teysta henni til siglinga um úthaf sem ekki tekur lengri tíma. Jafnvel er fimm daga spá, á þeim árstíma sem helst er siglt á Norðurhveli jarðar, þ.e. frá maí til og með ágúst, nokkuð örugg ef ekki er verið að þvælast í fellibyljabeltinu á síðasta hluta þess tímabils. Flestir sem sigla á skemmtibátum láta nokkura klukkutíma á dag nægja til að fara á milli staða og ættu því ekki að lenda í vondum veðrum nema vita það fyrirfram og þá gera þeir það með ásettu ráði.
Sjóveiki er bölvaður óþverri og þó nokkur vanlíðan að upplifa. Hins vegar læknast hún í yfirgnæfandi tilfellum ekki síðar en á þriðja degi. Þótt þetta þriggja daga tímabil sé slitið í sundur með kyrrlátri legu í höfn inn á milli býr líkaminn að reynslu siglingadaganna þannig að sjóveikin hverfur á þriðja siglingadegi, ef hún yfir höfuð gerir vart við sig.
Athafnaleysi og sjálfsvorkun er besti vinur sjóveikinnar. Hún verður eins og Karíus og Bakktus í sælgætiskjafti, það verður aldrei meira gaman. Því er um að gera að taka fullan þátt í siglingunni og taka til hendi við það sem gera þarf. Þegar ég fór með nemendur mína í siglingaþjálfun á sjómælingabátnum var óþverra sjólag svo sumir kenndu sjóveiki. Allir voru þeir hins vegar sammála um að um leið og komið var að þeim að stýra, taka staðarákvarðanir eða huga að siglingunni með öðrum hætti hvarf sjóveikin eins og dögg fyrir sólu.
Fyrir þá sem treysta sér alls ekki til að takast á við tímabundna sjóveiki er til ágætis hjálparmeðal sem er sjóveikisplástur. Þetta er lítil plásturspjatla sem sett er bakvið annað eyrað og svínvirkar að því er mér er sagt. Plástrinum fylgja ekki þær aukaverkanir sem fylgdu sjóveikispillunum en þeim fylgdi syfja, almennt slen og slappleiki. En ekki gleyma að taka plásturinn af þegar í land er komið, mér skilst að með fast land undir fórum verði maður sjóveikur með plásturinn, trúi hver sem vill.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar