102 Áfram upp Mosel til Konz við Trier

Beðið eftir slússu Þær geta allt til sjós þessar. 

Vínekran I love hvítvínið í Neumagen 

Fimmtudaginn 9. ágúst var komið að því að kveðja Neumagen, þessa ágætu höfn, sem gætt hafði LILJU BEN um sumarið. Fyrsta skref var að færa að olíubryggjunni og fylla af eldsneyti til að vera sem best í stakk búin fyrir eldsneytisóvissuna framundan.

Landfestar voru svo leystar kl. 0917 og stefnan sett upp Moselánna. Siglt var á 9 sjóm. ferð móti 1.5 sjóm straumi og áætlunin að fara til yachthafnarinnar í Konz, sem er bær um 12 km. sunnan við Trier. Var meiningin að skoða okkur aðeins um í Trier, en þau okkar sem höfðu komið þangað áður höfðu verið þar fyrir svo mörgum árum að verulega var farið að fyrnast yfir það. Það var þrútið loft en lyngt og tiltölulega hlýtt á þessum upphafsáfanga síðsumarssiglingarinnar. Komið var að fyrstu slússu áfangans kl. 1030 og gekk vel að komast inn en þar sem við vorum einskipa á ferð þurftum við að greiða 4 og hálfa € fyrir að láta lyfta okkur um heila 9 m. í þessari slússu. Var siglingin að öllu leiti tíðindalaus að öðru leiti en því að eftir því sem ofar dró í Mosel fór maður að sjá afleiðingar rigninganna í Þýskalandi fyrr um sumarið þar sem bera fór á drasli, aðallega spýtum og trjástubbum, sem flaut niður fljótið. Þurfti því að hafa sérstaka aðgát vegna þessa því ekkert grín er að keyra á stóran trjádrumb á svona bát. Fengum við tvívegis að kenna á svona reka og öðru drasli síðar í túrnum.

Við fórum svo í gegnum síðari slússu þessa áfanga um kl. 1230 og var okkur þar lyft um 7.25 m. fyrir samskonar greiðslu og vorum þá komin inn í borgina Trier. Siglt var í gegnum borgina og komið að yachthöfninni í Konz kl. 1350 en ég var búinn að fá uppgefið hjá hafnarstjóranum að ég ætti að leggjast í bás nr. 17. Þegar við sigldum inn í höfnina kom í ljós að hún var mjög þröng og lágu bátar þétt beggja vegna í s.k. boxum, með skut að bryggju en stafn fram á milli tveggja staura. Var orðið svo langt síðan við höfðum lagst við svona aðstæður að í gegnum hugann flugu nú helstu atriði þeirrar "tækni" sem þarf að beita við svona lendingar. Þokuðum við okkur áfram inn í höfnina og sá ég fljótlega box nr. 117, sem var tómt, en ekki nr. 17 svo ég ákvað að lóna inn eftir höfninni og leita enn betur. Þegar innar var komið voru boxin sem bátarnir lágu við orðin nýrri, með brygjur í stað staura, og bátarnir sem þar lágu stærri og myndarlegri, en ekki fann ég nr. 17. Ákvað ég því að snúa við og fara í box nr. 117 þótt hrörlegra væri.

Þegar farið er inn í svona box er bakkað inn á milli stauranna sem eru kippkorn frá bryggjunni (10 - 20 m. eftir atvikum) og oftast þarf um leið að smokra sér á milli tveggja báta sem liggja í næstu boxum við. Þegar bakkað er inn á milli stauranna er nauðsynlegt að hafa mann framan á bátnum sem húkkar framenda á þann stólpann sem er vindmegin og gefur svo slaka með, eða tekur inn slaka ef staurarnir eru innar en sem nemur lengd bátsins, eftir því sem bakkað er lengra inn, en setur svo fast rétt áður en skuturinn nemur við bryggju. Þá er flýtt sér að koma upp afturenda frá því horni bátsins sem líka snýr upp í vindinn og festa bátinn þannig, en ekki mátti gleyma að setja fendara á skutinn áður en bakkað var inn. Þegar þannig er búið að tryggja að báturinn er undir "control" er byrjað á að koma öðrum enda upp að aftan, frá hinu horninu og á ská í bryggjuna. Síðan er slakað á framendanum sem húkkað var á staurinn vindmegin og stefnið látið fjúka yfir að hinum staurnum sem er hlémagin og húkkað á hann. Þegar því er lokið er stefnið togað aftur upp í vindinn þar til það er miðja vegu milli stauranna og þannig sett fast. Að lokum er svo afturendinn stilltur þannig að að hann sé í beinni línu frá stefni og að bryggju.

 

Nú brá svo við að það var alveg logn og því ekki hægt að nota vindinn þannig að bógskrúfunni var óspart beitt til að klára dæmið í þessari lendingu í Konz. Gekk vel fyrir hr. Örn að húkka á stjórnborðsstaurinn, sem ég lét stefnið skríða með þegar ég bakkaði inn, en þegar kom að bryggjunni, sem var æði hrörleg eins og áður segir, fundu frú Lilja og Lonnie enga polla eða lykkjur til að setja afturendann fastan og enduðu þær æfingar með því að endanum var brugðið á milli spýtna í dekkinu og utanum bryggjukantinn og þannig um borð aftur og settur fastur. Verður að segjast að þessar konur eru orðnar svo miklir afburða sjómenn að þær láta ekkert koma sér á óvart. Ef það þarf að setja fast einhversstaðar, þá setja þær fast, hvernig sem aðstæður eru.

Jæja, allt gekk þetta og var nú farið í að ganga frá formlegheitunum við Hafna, sem var hvergi sjáanlegur. Var nú arkað upp að skrifstofu- og klúbbhúsinu í höfninni og stóð það á endum að þegar við komum þangað var Hafni að opna eftir hádegishléið. Benti ég henni (margir hafnarstjóranna eru konur) á MY LILJU BEN og sagðist ekki hafa fundið box 17 eins og mér hafði verið vísað á og því lagst í 117, sem var skammt frá klúbbhúsinu.  Ekki leist henni á það og sagði að ég yrði endilega að flytja mig innst í höfnina á nýja svæðið, LILJA BEN væri allt of stór til að liggja þarna og gaf hún mér upp nýtt boxnúmer þar innfrá. Þrátt fyrir spælinginn yfir því að allt brasið við að troða okkur inn í þetta þrönga box hafi verið unnið fyrir bí vorum við þó fegin því að leguplássið var miklu fínna í nýja hluta hafnarinnar og færðum því LILJU BEN án þess að fara í nokkra fýlu. Ákváðum við nú að stoppa þarna í tvær nætur og skoða okkur vel um í Trier daginn eftir. En það sem eftir lifði af þessum degi var notað til að fara í búðir og kíkja aðeins á Konz, þennan litla en snyrtilega bæ sem liggur á mótum Mosel og Saar fljótsins. Konz og Trier voru síðustu bæirnir sem við myndum heimsækja í Þýskalandi, framundan var Luxemburg og síðan Frakkland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband