24.11.2007 | 15:26
Undarlega lítið
Íranar segjast hafa framleitt kjarnorkueldsneyti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.11.2007 | 17:12
111. Fólk að "gera hitt" og gúrukarl í Pompey
Eftir gott stopp í Metz og mastursæfinguna þar var kominn tími til að halda áfram för og leystum við landfestar kl. 08:10 þann 17. ágúst og héldum af stað áfram upp Moselle til bæjarins Pompey. Þar eru mót tveggja leiða. Önnur liggur í sérstakan Canal til borgarinnar Nancy og þaðan eftir vestur hluta Rínarcanalnum inn í Canal des Vosges, til bæjar sem heitir Richardmenil, en segja má að við þann bæ byrji Canal des Vosges. Hin leiðin liggur áfram upp Moselle og þaðan inn í Canal des Vosges við iðnaðarborgina Neuves Maisons. Þegar komið er um 15 km. upp eftir fljótinu á leið til Pompey breytir um því að þá verður siglingin að mestu eftir hliðarcanal meðfram Moselle og eru fimm slússur á þessari leið.
Samkvæmt upplýsingum sem hafa mátti úr leiðsögubókunum var enga eldsneytisstöð að sjá á næstunni, nema hér í Longeville - lés - Metz, sem er í útborg Metz og ákvað ég því að fylla þar upp. Við fikruðum okkur út sundið og nú með rauðar baujur á bakborða en grænar á stjór og þegar við komum inn í fljótið var beygt áfram upp Moselle. Höfnina þar sem eldsneytisstöðin er sáum við fljótlega á stjórnborða, en í ljós kom að til að komast inn þurfti að skríða undir brú sem er aðeins í 2.5 m. hæð yfir vatnstborðinu þannig að við gátum afskrifað strax að við kæmumst þar undir. Var því borin von að við fengjum olíu þar og því haldið rakleiðis áfram. Um km. lengra er önnur skemmtibátahöfn sem mér fannst lofa góðu með eldsneytistöku, þótt það væri ekki merkt í leiðsögubækur og sigldum við því þar inn til að athuga málið. Enga olíustöð var að sjá svo við beygðum frá og héldum áfram förinni. Rétt ofan við höfnina kvíslast áin og á nesrana sem liggur á milli kvíslanna er útivistargarður með bekkjum meðfram fjlótinu. Á einum bekknum var par og þegar nær var komið sást að þau voru að "gera hitt", eins og Þórbergur Þórðarson kallar það, og voru þar mikil tilþrif og hið besta "life show" fyrir áhöfnina, en ég missti af þessum leik að mestu því að sinna þurfti stjórninni meira en sexsýningu í landi.
Á leiðinni var að venju farið framhjá fjölmörgum sveitaþorpum, hverju með sinn sjarma, og einnig fórum við í gegnum borgina Pont - á - Mousson. Eftir um sjö tíma siglingu og fimm slússur komum við svo til borgarinnar Pompey. Samkvæmt leiðsögubókinni er ein bryggja við fljótsbakkann í Pompey og nokkuð góð að sjá á myndum sem bókinni fylgja. Kom hún fljótlega í ljós á stjórnborða þegar komið var inn í borgina, en hálf fannst okkur hún lítilfjörleg. Var nú lagst þarna og byrjuðum við á að leita að rafmagnstengi sem hvergi var sjáanlegt. Ekki var heldur að sjá neina hafnarskrifstofu eða þjónustubyggingu, en samkvæmt upplýsingum í leiðsögubókinni er öll þjónusta til staðar, rafmagn, vatn, sturtur og salerni.
Eftir að við vorum búnir að binda fórum við Örn að kanna aðstæður og gengum í land. Um 20 til 30 m. ofan við bryggjuna var lítið hús eða skúr á bakkanum og á honum tvær dyr sem báðar voru læstar. Aðalgata bæjarins lá svo þar fyrir ofan, en ofan við hana tók bærinn við upp eftir brattri hlíð. Skammt innar með aðalgötunni sáum við lágreista og nýlega byggingu sem úr fjarlægð virtist vera einhverskonar skrifstofubygging með afgreiðslu þar sem nokkur umferð var af fólki og tókum við nú stefnu þangað. Þegar þangað var komið kom í ljós að þetta var afgreiðsla fyrir nýtískulega sundlaug svo við undum okkur þar inn til að spyrjast fyrir um aðsetur hafnarvarðarins. Ekki talaði afgreiðslukonan ensku en við vorum svo heppnir að kona sem var að fara í sund með tvær telpur gat túlkað fyrir okkur og vissu þær ekkert um hver sæi um höfnina en leiðbeindu okkur að fara á bæjarskrifstofuna og spyrjast fyrir þar. Lýsu þær leiðinni en húsið var aðeins ofar í bænum. Eftir skamma göngu komum við að "Hotel de Ville" og fórum þar inn í afgreiðslu þar sem falleg kona tók á móti okkur og tjáðum við henni frá komu okkar í höfnina og að við vildum ná tali af hafnarverði. Ekki vissi hún neitt um hann en fór inn í fundarherbergi þar sem lögregla bæjarins sat á fundi og þar fékk hún á miða heimilsfang hafnarvarðarins, sem var við aðalgötuna skammt frá þar sem við lágum. Þegar við Örn komum svo að reisulegu húsi við aðalgötuna tók á móti okkur hundur með miklu gelti en eftir að við höfðum hringt dyrabjöllu kom gömul kona út í glugga og bað okkur að doka við þegar hún heyrði erindið. Skömmu síðar kom eldri maður (fæddur 1930 kom síðar í ljós) út um aðaldyrnar og leiðbeindi okkur að ganga með sér inn í kjallara hússins og þar gat heldur betur á að líta grúskverkstæði.
Fyrst var komið inn í bílageymslu þar sem stóð gamall Citroen bíll, algjör forngripur og nokkrar Vespur. Vélarhlutar og bílapartar voru þar út um allt. Síðan komum við inn í tvö stór herbergi og er ill mögulegt að lýsa því sem þar bar fyrir augu af gömlum útvarpstækjum, sjónvörpum, grammifónum, talstöðvum, mælitækjum allskonar og rafeindatækjum sem maður vissi hvorki haus né sporð á. Það sem var þó mest gaman var að allt var þetta 30, 40 eða 50 ára og eldra. Allt voru þetta "analogisk" tæki og er ég klár á að þarna fyrirfannst ekki eitt einasta digital tæki. Hver lófastór blettur í hillum, á borðum og bekkjum var svo fullnýttur undir hluta úr allskonar tækjum, verkfærum og guð má vita hverju, auk þess sem allir veggir voru þaktir ljósmyndum af gestgjafa okkar, frá fyrri tíð, þar sem hann var að störfum í einhverskonar rannsóknarstofum og skildist mér helst að hann hafi unnið við geimferðaáætlun Frakka á sínum yngri árum. Þarna hafði karlinn komið sér upp þessu margbrotna rannsóknarverkstæði, til tómstundagamans á efri árum. Þess ber líka að geta að þrátt fyrir að svona dót og verkfæri eru oftast ekki tengd miklu hreinlæti bar allt þarna vitni um einskæra snyrtimensku auk þess sem karlinn sjálfur var tandur hreinn með sitt silfurgráa hár og mikið í mun að sýna okkur myndirnar af sér þar sem hann var að störfum í hvítum sloppi í rannsóknarstofum einhversstaðar í Frakklandi.
Nú voru hafnargjöldin 8 gerð upp og minntum við karlinn á að við vildum geta tengst landrafmagni og komist í tæri við sturtur og salerni. Ekki var það mikið mál og gekk nú karl með okkur að gula skúrnum sem áður er nefndur á fljótsbakkanum og lauk upp annari hurðinni með lykli sem hann fékk okkur svo. Þar inni voru klósett og sturtur en ekki leist okkur beint vel á það enda stakk það í stúf við snyrtimenskuna í kjallara karlsins, allt í kongulófavef, kuski og rakablettum. Hvað rafmagnið áhrærði benti karlinn á rafmagnstengil við hliðina á vaskspegli og sagði mér að tengja bara bátinn við hann, snúran gæti svo legið undir hurðina.
Eftir að við vorum búnir að ljúka þessum formlegheitum fórum við að koma rafmagnskaplinum fyrir og sem betur fer er ég með um 70 m. langann kapal svo að hann náði að speglinum við vaskinn.
Deginum lukum við svo með bæjargöngu og um kvöldið höfðum við ekki undan að taka við og síðar að afþakka drullukökur sem stelpukrakkar voru að framleiða í stórum stíl við fjótsbakkann. Báru þær drullukökurnar fram í skeljum sem þær týndu í flæðamálinu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2007 | 15:59
110. Mastursæfing í Metz
Nú fór að líða að því að við myndum yfirgefa Moselle því bráðlega yrði hún ekki skipgeng lengra. Því yrði að fara inn í Canal des Vosges, sem liggur góðan spotta með Moselle og síðan inn í Saône fljótið sem rennur til suðurs. Saône sameinast svo Rhon við borgina Lyon í Frakklandi og rennur til sjávar í Miðjarðarhafinu um 50 km. fyrir vestan Marseille. Ens og áður hefur verið sagt er MY LILJA BEN of há til að komast undir lægstu hindranir á þessari leið sem eru 3.50 m undir göngubrýr sem eru við slússur á leiðinni. Því var kominn tími til að æfa hvernig ætti að "lækka" hana til að komast undir og var ég búinn að mæla út að hún myndi "skríða" undir með því að fella mastursgrindina. Efst á þessari mastursgrind eru loftnetin fyrir talstöðina, tvö GPS tæki og radarinn sem og flautan og sigluljósið, en sitt hvoru megin á grindinni eru svo hliðarsiglingaljósin, græna og rauða.
Mastursgrindin rís upp úr yfirbyggingunni og liggur í boga yfir bátinn. Á þaki yfirbyggingarinnar er annars setbekkur við stjórntæki til að stjórna bátnum úti (kallað "Fly Bridge") og þar fyrir aftan er lítið opið svæði fyrir fólk að liggja í sólbaði. Þar sem gert er ráð fyrir að fólk geti verið þarna uppi er auðvitað rekkverk sem mastursgrindin er áföst við og varð að losa það fyrst til að fella grindina. Var nú ákveðið að fresta siglingu um einn dag og fella mastrið í æfingaskyni til að læra bestu og fljótlegustu handtökin við það. Eiginkonurnar frú Lilja Ben og Lonnie Egilson tóku hins vegar þá staðföstu ákvörðun að vera ekki um borð, heldur fara í bæinn og skoða í búðir. Þær lýstu því yfir að ekki kæmi til greina að hlusta á þann munnsöfnuð sem hugsanlega gæti hrokkið upp úr okkur ef eitthvað gengi ekki eins og til væri ætlast.
Þegar þær höfðu yfirgefið skipið réðumst við Örn til atlögu við rekkverk og mastur vopnaðir skrúfjárnum, lyklum, töngum og borvél. Vel gekk að losa rekkverkið og taka það til hliðar, enda létt í meðförum. Var nú komið að mastrinu og þurfti vel að gæta að þeim leiðslum sem liggja upp í loftnet, flautu og sigluljós, að nægur slaki væri á þeim til að þær slitnuðu ekki. Þar sem mastrið er æði þungt var komið böndum á það svo hægt væri að láta það síga beint aftur með stjórn á öllu og gekk það ágætlega fyrir sig.
Þar sem ljóst var að einhverjir dagar myndu líða þar til að komið yrði í þrengslin ákváðum við að reisa allt aftur eftir æfinguna og varð það þrautinni þyngra vegna þungans. Jafnhliða því að mastursgrindin var hífð upp þurfti að gæta að því að allar leiðslur færu niður í sinn stað og klemmdust ekki á milli auk þess sem erfitt reyndist að stýra mastrinu í réttar skorður. Í þessu brambolti gerðist það svo að bakborðs hliðarljósið rakst í og losnaði hlífin með rauða glerinu af og auðvitað féll það beint í "sjóinn" og hvarf undir yfirborðið. Ljóst var að hér hafði orðið mikill skaði því ekki væri hægt að sigla áfram án siglingaljósa. Sáum við fram á að tafsamt gæti orðið að fá ný ljós fyrir bátinn sem pössuðu þannig að ljósgeirinn yrði örugglega beint fram og 112 og 1/2° á hvort borð. Nú vildi svo til að Örn karlinn var að stýra mastrinu þeim megin sem ljósið datt og varð hann nú alveg eyðilagður, enda maður sem ekki má vamm sitt vita í neinu. Auðvitað var missir ljóssins alls ekki honum að kenna því að átökin við mastrið og það að það skrallaði til var allt eins mér að kenna þar sem ég var að hífa það upp, e.t.v. hraðar en hægt var að hafa hönd á. Upp komst nú mastrið og var öllu fest aftur á sinn stað.
Um borð er lítill háfur með um 1.5 m. löngu skafti og fór ég nú að freista þess að slæða ljósið upp. Ljóst var að það hefði getað farið þó nokkuð út eða suður á leið sinni á botninn svo nokkuð þurfti að fara skipulega að slæðingunni. Fyrst kom í ljós að háfurinn náði ekki í botn svo að brugðið var á það ráð að "teipa" kústskaft við og var þá hægt að ná til botnsins. Byrjaði ég nú að renna háfnum eftir botninum hægt og rólega meðfram bakborðssíðu bátsins en ítrekað án árangurs. Upp kom botngróður, drulla, skeljar, full kókdós og ýmislegt annað drasl en ekki kom ljósið. Var ég orðinn úrkula vonar um að ná ljósinu upp og var Örn orðinn svo vondaufur að hann gekk afsíðis til að létta á sér spennunni eftir öll vornbrigðin. Áður en ég hætti ákvað ég að færa mig aðeins aftar með bátnum og reyna fyrir mér þar og allt í einu fann ég eitthvað koma í háfinn þegar ég renndi honum eftir botninum, eins og reyndar var búið að gerast áður. Upp kom háfurinn og innan um möl, drullu og drasl glitti í hvíta hlífina af ljósinu og rautt glerið. Ekki ætla ég að lýsa hversu ánægðir við vorum þegar búið var að þrífa hlífina og hún var komin á sinn stað.
Þegar þessu ævintýri var lokið var haft fataskipti og hringt í konurnar sem enn voru á bæjarröltion og mæltum við okkur mót við þær a aðlatorgi bæjarins.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2007 | 15:11
Er nokkur skelfing að myndast?
Úrvalsvísitalan lækkar um 2,67% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2007 | 15:01
109. Einmana Norðmaður, fyrsta hjálp um borð og hljómlistaverk í Metz
Komudaginn í Metz notuðum við til að kynnast borginni og rata um hjarta hennar. Var því um góða göngu að ræða um götur og torg, en Metz er mjög dæmigerð frönsk borg með miklu götulífi og skemmtilegu andrúmslofti. Eftir rannsóknarferðina var lífinu tekið með ró um borð og fóru konurnar í að undirbúa þvottadag því nú var meiningin að byrja morgundaginn á stórþvotti. Það var jú komin vikausigling svo óhreint tau var farið að safnast fyrir. Var spurst fyrir um nærliggjandi þvottahús með vélum til sjálfsþvottar og reyndist það í um ½ km. fjarlægð.
Aðeins fórum við að spjalla við Norðmanninn sem lagðist fyrr um daginn við hlið okkar og kom í ljós að hann var einn á ferð og búinn að sigla heiman frá Noregi, nákvæmlega sömu leið og við í gegnum Þýskaland upp Elbu, eftir Elbu sidekanal yfir í Rín og þaðan upp Mosel. Hann var hins vegar aleinn á ferð og útlistaði með mörgum orðum erfiðleikann við að vera einn á siglingu, sérstaklega á svæðum eins og á Rín þar sem langt getur verið á milli hafna og umferð svo mikil að aldrei má vikja frá stjórnvelinum. Sagðist hann ekki hafa komist á klósett eða lagað sér svo mikið sem kaffisopa tímunum saman, enda ganghraði bátsins lítill svo að oft skilaði hann ekki nema 2 til 3 hnútum upp í strauminn þótt vélin væri keyrð á fullu. Slússurnar voru svo kapítuli út af fyrir sig þar sem hann þurfti að vera einn í öllu, skipstjóri sem sigldi inn, lagði að og kom enda upp, sem hann varð svo að hanga í meðan fyllt var í og báturinn hækkaði upp í skipastiganum. Var hann á sömu leið og við niður í Miðjarðarhafið þar sem framtíðarsiglingin átti að vera.
Þar sem við sátum svo í rólegheitunum á afturdekkinu og létum sólina verma okkur bar að þrjár franskar unglingsstúlkur sem höfðu verið á göngu meðfram höfninni. Hafði ein þeirra dottið illilega við gryfju í gangstéttinni þar sem einhver viðhaldsvinna átti sér stað og hruflað sig þó nokkuð á öðrum fæti. Bentu þær á sárin og var auðskilið að þær voru að leita ásjár við að búa um þau svo að sjúkraliðinn Lonnie Egilson tók til óspilltrar fagvinnu við það, eftir að undirritaður var búinn að sækja sjúkrakassa bátsins. Voru stelpurnar þakklátar fyrir aðhlynninguna, en við það að rifja þetta upp man ég að endurnýja þarf birgðir sjúkrakassans eftir þessa aðgerð. Einhvern vegin hef ég á tilfinningunni að andúmsloft öryggis og hjálpsemi sé meira einkennandi þarna heldur en sú tortryggni og ótti gagnvart ókunnugum sem hér virðist vera vaxandi. Alla vega virtist þessum ungu stúlkum vera það eðlislægt og sjálsagt að leita aðstoðar útlendinga um borð í skemmtibát við að búa um sár sín og áttum við eftir að reyna síðar í túrnum að stelpukrakkar í drullukökubaxtri vildu endilega gæða okkur á afurð sinni þegar þær voru eftirlitslausar að leik við fljótsbakkann þar sem við lágum. Fannst mér þetta minna á það uppeldisumhverfi sem við áttum á 5. og fyrri hluta 6. áratugarins þegar maður sem barn taldi sig ekki þurfa að óttast saferðafólk sitt innlent eða útlent. Hvað hefur breyst hér hjá okkur?
Um kvöldið var setið við kertaljós á afturdekkinu og sötrað úr hvítvínsglasi áður en fara átti í háttinn þegar allt í einu kvað við hljómlist í létt klassiskum dúr sem hljómaði um alla höfnina og virtist koma úr skrúðgarði sem er ofan við hana, með fallegu vatni, síkjum og gömlum rústum utan í klettavegg sem girðir af gagnstæðan bakka vatnsins. Fyrsta hugsunin sem flaug í gegnum hugann var dæmigerð fyrir Íslendinga, "nú eru einhverjar fyllibyttur komnar með glymskrattann í botn. Það verður ekki mikill svefnfriður ef svona heldur áfram". Þar sem við vorum ekki búin að upplifa drykkjulæti af neinum toga frá því að við byrjuðum að sigla fannst okkur það ekki sennileg skýring en höfðum samt enga aðra á takteinunum. Ég hef alltaf verið haldinn forvitni og viljað reyna að finna eðlilega skýringu á hlutunum svo að ég ákvað að ganga í land og renna á hljóðið, enda hljómlistin af þeim toga sem frekar laðar til sín en fælir frá. Gekk ég því upp í garðinn, því þaðan kom hljóðið og þegar komið var í gegnum trjárunna sem skýldi garðinum frá okkur séð blasti við óvænt sjón. Með vatnsbakkanum framundan var fjöldi fólks samankominn og upp úr vatnsyfirborðinu gusu vatnsstrókar úr óteljandi gosbrunnum, upplýstir með marglitum ljósum. Risu þessir vatnsstrókar og hnigu, breyttu stefnu og sveifluðust í takt við hljómfallið og litadýrðin flökkti og breyttist eftir laglínunni auk þess sem upp úr vatninu stigu hinar ýmsu kynjaverur og dönsuðu á yfirborðinu, allt framleitt með samspili vatns, lita og ljósa. Ógleymanleg sjón. Flýtti ég mér til baka og sótti samferðarfólkið svo það missti ekki af þessum hljómleikum og sjónarspili. Bæði kvöldin sem við áttum eftir að liggja þarna var svona tóna- og sjónarspil í garðinum.
Miðvikudaginn 15. ágúst var farið með þvottinn í land og stefnan tekin á þvottahúsið. Fundum við það eftir smá leit og voru nú vélarnar hlaðnar og beðið meðan þær og þurrkararnir voru að vinna sín verk. Eitthvað rápuðum við um nágrennið á meðan og settumst yfir bjórglas til að drepa tímann. Þegar þessu var lokið var gengið frá þvottinum um borð og lagt til landgöngu og nú var borgin skoðuð almennilega. Einhver dýrlingahátíð var í gangi þennan fallega miðvikudag og því lítið af búðum opnar en ýmislegt að sjá og við að vera. Villtumst við jafnvel inn í hátíðarmessu í dómkirkjunni sem var merkilegur viðburður út af fyrir sig. Um kvöldið var svo tekin ganga um garðana sem prýða svæðið þar sem við lágum og endað með að hlusta og horfa á hljómlistaverkið í garðinum áður en farið var að sofa.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 23:41
108. Til Metz og næstum í strand
Ég hef verið skammaður fyrir að vera latur að skrifa ferðapistlana. Annir hafa hins vegar tafið skriftir og lofa ég að bæta nú úr.
Við leystum landfestar í Thionville kl. 0855, eftir einnar nætur stopp og héldum áfram upp Moselle til borgarinnar Metz. Þegar svona langt er komið upp eftir fljótinu fer það að kvíslast nokkuð og vegna þess hversu það er á köflum grunnt hafa verið grafnir skurðir meðfram því til að auka skipgengi upp fljótið. Er maður því ýmist að sigla á fljótinu sjálfu eða meðfram því í skurðum (kanölum). Á leiðinni til Metz eru þrjár slússur sem fara þurfti í gegnum og gekk það tíðindalaust fyrir sig. Við byrjuðum á því að fara framhjá höfninni, þar sem við prófuðum að leggjast í fyrst, þegar við komum til Thionville, og misstum krókstjakann út af straumnum sem hrifsaði okkur út og suður. Þökkuðum við nú fyrir að hafa haft vit á að koma okkur burt úr því ömurlega straumbæli og velja okkur aðra legu.
Leiðin suður til Metz er mjög falleg auk þess sem veðrið lék við okkur á leiðinni. Meðfram bökkunum skiptust á akrar, skógar og vinaleg frönsk sveitaþorp. Þótt megin leiðin sé eftir skurðum, við hlið Moselle, þá er maður í fljótinu sjálfu þegar siglt er inn í Metz. Á vinstri hönd er borgin sjálf en útborgirnar Le Ban - Saint - Martin og Longeville - lés - Metz dreifa úr sér á hægri hönd. Við vorum búin að velja okkur höfn " Marina Societé des Régates" sem er við miðborgina, en fjórar aðrar yachthafnir eru í borginni, þar af þrjár of litlar eða þröngar fyrir okkar bát. Megin áll Moselle rennur á mótum Metz og útborganna og skilja þær að, en að auki liggja álar og síki í gegnum Metz sjálfa, sem mynda fimm eyjar sem hlutar af Metz standa á. Þegar komið var til borganna var farið í gegnum síðustu slússuna og síðan SV með ónefndri eyju á vinstri hönd. Við enda hennar beygðum við til SA og stefndum í sund á milli eyjanna Ille du Saucy og Ille St - Symphorien. Á Ille St - Symphorien er mikið útivistarsvæði með görðum og opnum svæðum, en þéttur trjágróður birgði alla sýn inn á Ille du Saucy. Þar eru hvort eð er óspennandi byggingar að sjá. Þegar komið er inn úr sundinu opnast stórt vik á milli eyjanna sem nær að meginlandinu framundan sem miðborg Metz stendur á og er skemmtibátahöfnin þar beint framundan við steinbakka sem er "Metz Promenade".
Þegar við komum inn úr sundinu og á opna svæðið sá ég strax rauðar baujur í röð sem lá að hafnarsvæðinu og leiðrétti ég strax stefnuna til að hafa þær á bakborða eins og lög gera ráð fyrir þegar um innsiglingu er að ræða. Um leið og við vorum að komast upp með fyrstu rauðu baujunni rak ég augun í aðra röð af grænum baujum, svo nærri landi að þær féllu inn í grænan trjágróðurinn og um leið tók ég eftir að dýpið minnkaði óðfluga. Í snarhasti leit ég í kortið og sá að mér hafði sést yfir að hér var öllu snúið á haus, grænar baujur áttu að vera á bak en rauðar á stjór. Fyrir vkið var ég næstum búinn að stranda MY LILJU BEN. Var ég því fljótur að breyta stefnu á fyrstu grænu baujuna og setja þá rauðu á stjór. Ekki kynnti ég mér hvers vegna röðunin á baujunum þarna er öfug miðað við alþjóðlega kerfið, en eftir að inn með þessari afmörkuðu leið var komið fundum við fljótlega gott legupláss við bryggurnar og lögðumst þar kl. 14:55, beint niður undan hafnarbarnum og skrifstofunum.
Loftmynd af Metz. T.v. er sundið sem siglt er inn, undir hraðbrautarbrú og bátahöfnin er kægra megin í opna svæðinu.
Þar sem við lágum, skammt frá miðborginni var mikil umferð af gangandi fólki. Steinbakkinn meðfram síkinu sem höfnin er við er augsýnilega ein helsta skemmtigönguleið fólks í Metz og því mikið mannlíf sem ber við augu. Beint á móti okkur, hinu megin við bryggjuna var Þýskur bátur og á honum hjón sem við urðum brátt málkunnug og kom í ljós að þau voru ekki að koma til Metz í fyrsta sinni. Annars virtust þau vera mjög heimakær og fara lítið upp úr bátnum.
Nokkru eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir tók ég eftir bláum bát sem kom inn um sundið og stefndi hann eins og við höfðum gert með rauðu baujurnar á bak, en snarbeygði svo til bakborða og inn á rétta leið áður en hann strandaði. Sá hann líka grænu baujurnar sem betur fer í tíma. Þegar báturinn kom að bryggjunum kom í ljós að þarna var um að ræða norskan bát sem lagðist í næsta pláss fyrir innan okkur. Var Norðmaðurinn einn á ferð og áttum við eftir að kynnast honum frekar í ferðinni. Hérna var gott að leggjast og að vera svo við ákváðum strax að liggja í Metz í tvær nætur, sem síðar lengdust í þrjár vegna undirbúnings okkar við að "troða okkur í gegnum Frakkland".
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2007 | 19:51
Tekið á Trosa
Mér fannst hún ljót þar sem hún stóð fyrir framan mig í síðdegissólinni. Ekki aðeins ljót heldur líka þreytuleg, eins og það væri einhver depurð og umkomuleysi yfir henni þrátt fyrir þetta fallega vorveður. Hún var belgmikil, klunnaleg og brún á skrokkinn, en öll meira og minna hrukkót auk þess sem hún hallaði "undir flatt" til vinstri. Dökkur pollur var að breiðast hægt út á hlaðinu frá óþverranum sem lak niður úr henni. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna ég staldraði við og leit til baka þegar ég gekk frá henni. Ég vissi að hún væri drusla, kraftlaus og óáreiðanleg enda orðlögð manna á milli fyrir að vera útjaskaður vesalingur og slitin. Hún léti ekki almennilega að stjórn, og næði illa fluginu. Hugsanlega sneri ég mér við vegna þess að bráðlega kæmi að því kveðja hana og þótt fuðulegt megi teljast með blöndu af söknuði og feginleika. Aðeins var eftir að koma henni heim, vonandi áður en henni tækist að drepa mig. Það var loksins búið að ganga nær henni en hún þoldi, hún myndi aldrei bera sitt barr framar.
Hún var önnur af tveim "Grumman Albatros" vélum sem fengnar voru frá Bandaríkjunum fyrr um árið til að prófa við gæsluflug við strendur Íslands, þar sem TF SIF Skymastervél Landhelgisgæslunnar þótti orðin of dýr og óhagkvæm í rekstri. Þær höfðu verið hirtar í flugvélakirkjugarði fyrir aflóga flugvélar sem búið var að leggja. Eftir að hingað kom tók við stanslaust stríð flugvirkja við að halda annarri í flughæfu ástandi m.a. með því að hirða varahluti úr hinni. Sem dæmi má nefna að upphengjurnar fyrir hliðarsýrið voru orðnar svo eyddar að stýrið skrölti laust og einhverntíma þegar farið var inn í stélið til að hirða eitthvað í varahlut kom í ljós að þar var fuglshreiður sem orðið hafði viðskila við búendur sína, eggin komin til Íslands en foreldrarnir í Arizona.
Strax frá upphafi bannaði Flugmálstjórn að vélarnar færu fullhlaðnar í loftið frá Reykjavík, nema á braut 310 en á þeirri stefnu er svo til strax komið yfir sjó og engin byggð í hættu. Flugmálastjórn vildi ekki sjá fulla bensíntanka koma fljúgandi niður í bæinn ef mótor myndi hiksta í flugtaki. Vélarnar voru nefnilega búnar auka bensíntönkum undir vængjunum sem átti að sleppa ef mótor bilaði eftir flugtak, áður en búið væri að ná hjólastellinu inn, en fullar fimmtán sekundur tók að hífa það ál- og járnarusl á sinn stað þannig að loftmóstaðan frá því hyrfi. Með alla tanka fulla og hjólastellið úti héldist hún ekki uppi á einum hreyfli eftir flugtak svo annað hvort varð að gera, henda "bensínbombunum" niður í bæinn eða dúndra vélinni með öllu t.d. í Tjörnina eða höfnina ef flugtak var til norðurs. Braut 310 kom ekki til greina, hún var einfaldlega of stutt til að þessi klunnalegi og vélvana sleði kæmist fulllestaður í loftið. Ráðið til að komast framhjá þessu var því að fara til Keflavíkur á hálf tómri vél, fylla þar af eldsneyti og fara þaðan í gæzlu. Þetta hefði verið í lagi ef það hefði ekki ítrekað gerst í lendingu á Keflavíkurflugvelli að bremsurnar lágu útí á hjólunum svo það kviknaði í hjóladraslinu með tilheyrandi neistaflugi og slökkvilið flugvallarins æðandi á eftir okkur, með bununa á logandi hjólið. Það var orðin vinnuregla hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar að koma á fullri ferð á bílunum samhliða okkur í lendingarbruninu, hvert sinn sem við lentum. Eftir að þetta var búið að gerast nokkru sinnum höfðum við með okkur "borgaralega" jakka til að geta farið úr einkennisjökkunum, áður en við færum inn í flugstöðina. Þá gátum við gengið flautandi frá vélinni og þóst ekki þekkja þetta skrapatól sem við vorum á.
Þær fengu fljótlega eftir komu viðurnefnið "Trosarnir" þannig að maður fór alltaf á Trosanum þetta eða hitt. Að breyta Albatrosanum í Trosa var réttnefni því aðbúnaður okkar um borð var jafn lítilfjörlegur og ómerkilegur og tros á diski. Þegar komið var inn um aðaldyrnar, sem voru aftarlega bakborðsmegin, tók við tómur belgurinn með þunnri vatteinangrun í hliðum. Örlitlar gluggaborur voru á hliðunum. Fremst stjórnborðsmegin í þessum belg var stóll og borð siglingafræðingsins með mælaborði fyrir framan, radarskjá og Loran A. Þar fyrir framan tók svo flugstjórnarklefinn við og var fellistóll fyrir miðju sem skipherrann sat í, aftan við og á milli flugmannanna. Hægra megin við dyrnar, aftur í rassi, var salernið með kamarfötu innst en svo var trekt í smellu á veggnum til að pissa í. Var trektin áföst gúmmislöngu sem lá beint út úr hliðinni á vélinni, fyrir pissið að renna út. Við byrjuðum að fljúga á þessu síðla vetrar þegar frost náði oft niður að jörðu. Eftir lendingu var því oft með ólíkindum að skoða hvernig hraðfrystir, hlandgulir taumarnir ásamt dreifðum dropaperlum gátu teiknað hinar fjölbreytilegustu kynjamyndir á bakborðssíðu flugvélarinnar. Þá var synd að fá þýðu. Beint undir vængjunum sitt hvoru megin voru svo tvö lítil göt á belgnum með leðurpjötlu fyrir sem þjónuðu mjög merkilegu hlutverki. Þar sem þetta er sjóflugvél líka var að sjálfsögðu krókstjaki um borð og var hann festur í smellum á annari hlið belgsins. Var það hlutverk mitt sem siglingafræðings að fylgjast með í lendingu hvort hjólastellið læstist ekki, en hjólastellið er margbrotið járn- og álvirki sem bögglast með miklum tilþrifum út úr skrokknum þegar hjólin eru látin út og niður. Ef svo myndi vilja til að hjólastellið læstist ekki í rétta stöðu var það hlutverk mitt að taka krókstjakann, reka hann út um gatið á hliðinni, pota í vissan stað á hjólastellinu og ýta svo hraustlega á. Þá áttu hjólin að læsast. Enfalt og öruggt?
Það var á fjórða degi útilegu okkar sem þessi tilfinning kom yfir mig þar sem ég horfði til hennar á flughlaðinu á Egilstöðum. Við vorum búnir að vera á gæslu fyrir Norður- og Austurlandi með aðsetur fyrstu tvær næturnar á Egilstöðum og nú síðustu nóttina á Akureyri. Eftir fyrstu nóttina á Egilstöðum fórum við í loftið kl. sex um morguninn og þegar við komum til baka um kvöldið vorum við hundskammaðir fyrir að hafa vakið alla bæjarbúa fyrir allar aldir með ærandi hávaða. Var fullyrt að mikil viðkoma myndi verða hjá Egistaðabúum níu mánuðum seinna, vegna þessarar ótímabæru ræsingar mannfólksins. Réttast yrði því að krefja Landhelgisgæsluna um meðlag með þeim börnum sem vitað væri að komu undir þennan morgun. Slysaðist þá út úr mér að það væri bara eðlileg krafa, við hefðum jú komist yfir þær allar í einu.
Þennan síðasta gæsludag Trosans fórum við í loftið frá Akureyri kl. sex að venju og átti nú að hrella breska togara sem "stigu línudans" á og innan við landhelgislínuna fyrir NA- og SA landi. Nú myndu þeir ekki sleppa, við vissum að þeir stunduðu að tilkynna milli togarahópanna þegar þeir sá okkur þannig að þeir gætu forðað sér útfyrir. Það var nístingskalt að koma um borð á Akureyri þennan síðasta gæsludag á Trosanum. Búið var að fylla alla eldsneytistanka svo að ekki myndi veita af allri brautinni til að ná flugtakshraða. Kuldinn var frekar til bóta þar sem loftið var þá ívið þéttara en ef hiti væri í lofti, en því miður var logn svo ekki var von á að vindur myndi hjálpa til við flugtakið. Í logninu var ákveðið að "taka af til norðurs", enda minnstur skaðinn ef henda yrði tönkunum í Pollinn á Akureyri, eða skrallast út í sjó við norðurendann, ef flugi yrði ekki náð þegar brautinni sleppti.
Flugmennirnir keyrðu nú út á bláenda flugbrautarinnar og komu sér fyrir til flugtaksins, því ekki mátti einn meter af braut fara til spillis. Þegar þangað var komið var eldsneytigjöfunum ýtt alveg fram eins og þær komust, þrýst vel á eftir og fullur skurður settur á skrúfurnar með hjólabremsunar læstar. Þegar búið var að fá fullan kný á hreyflana var bremsunum fyrst sleppt. Í raun gerðist ósköp lítið í fyrstu. Hægt og rólega silaðist klunninn af stað og jók löturhægt hraðann. Mér fannst tíminn standa í stað meðan hver meterinn af brautinni rann undir án þess að alvöru hraða væri náð. Þegar vélin loks fór framhjá flugstöðinni fannst mér hraðinn vera orðinn ámóta mikill og í sunnudagsbíltúr í þéttbýli, en trúlega var hann orðinn eitthvað meiri. Brautarendinn nálgaðist óðfluga og þegar brautin var á enda varð vélin að fljúga hvort sem henni líkaði betur eða verr og einhvervegin druslaðist beyglan í loftið. Er ég viss um að hún var á lægsta mögulega hraða til að lyftast svona þung, en hún hafði það. Það leið því feginsandvarp frá brjósti þegar hjólin losnuðu frá brautarendanum, en svo var andanum haldið aftur í þær fimmtán sekundur sem tók að ná hjólfyrirbrigðinu inn, fyrr var ekki hægt að fara að anda eðlilega.
Þegar við vorum komnir út fyrir Oddeyrina, við voguðum okkur ekki að fara yfir hana, var farið að sinna venjubundnum störfum við gæsluflug. Farið var út Eyjafjörðinn og stefnan sett djúpt út af Melrakkasléttu og fyrir Langanes. Þetta var gullfallegur morgunn, lygn og bjartur. Þó vorum við búnir að frétta að þoka lægi með ströndinni frá Gerpi og suður undir Hvalsnes við Eystra Horn. Þegar við komum yfir Langanesið sást stór hópur breskra togara að skarka á og aðeins innan línunnar á Digranesflakinu en ekki nógu langt fyrir innan til að hefjast handa við töku. Þegar við flugum yfir voru þeir allir komnir á stefnu út fyrir eða frá línunni og héldum við því áfran suður með Austfjörðum til að skoða hóp Breta sem við vissum að voru að veiðum út af Stokksnesi við Hornafjörð. Var flogið "on top", þ.e. yfir þokunni, suður með fjörðunum og sáum við að hún náði eins og augað eygði til hafs séð úr þessari hæð en þegar Eystra Hornið kom í ljós var þokan aðeins á 4 til 6 sjóm. belti meðfram ströndinni og lá hún þétt upp að fjöllum, inn á víkur og firði.
Fyrir Lóni var engan togara að sjá en út af Stokksnesi var hópur að veiðum, allir skammt utan við línu auðvitað, enda togarahópurinn á Digranesflakinu örugglega búinn að tilkynna um ferðir okkar. Var nú flogið smá stund yfir togarahópnum með sannfærandi líkindalátum eins og við værum að mæla þá og stefnan síðan sett á Ingólfshöfða. Nú skyldu bansettir Bretarnir plataðir því við vissum að þeir myndu tilkynna hópnum á Digranesflaki hvert við stefndum. Þegar komið var vestur undir Hrollaugseyjar og úr sjónmáli togaranna var snarlega beygt inn yfir landið og flogið alveg upp að jökulröndinni, síðan austur með fjallshlíðum Suðursveitar og inn í Hornarfjörð þar sem við gátum horfið inn í þokuna og smeygt okkur svo inni í henni fyrir Stokksnesið. Grófar mælingar sem ég gerði á radar þegar við fórum fyrir Stokksnesið sýndu að enn voru Bretarnir ekki búnir að freistast til að fara innfyrir. Var nú ákveðið að skríða inni í þokunni norður með Austfjörðunum, sem næst landi, og koma Bretunum á Digranesflakinu að óvörum úr suðri. Þetta tókst og þegar við komum "skrúfuskellandi" yfir hópinn voru nokkrir komnir inn fyrir línuna og einn afgerandi innst. Það varð augsynilega allt vitlaust í togarahópnum. Allir tóku þeir stefnuna stystu leið út fyrir línuna og keyrðu með vörpurnar í rassgatinu sem mest þeir máttu. Herbragðið hafði heppnast. Sumir fóru strax að hífa þ.á.m. togarinn sem var innstur og var hann nú mældur ítrekað, staðarákvörðun sett út i kortið og togarinn kallaður upp til að tilkynna honum að hann hafi verið að ólöglegum veiðum og gefa honum fyrirmæli um að halda til hafnar. Samhliða kölluðum við í varðskipið Þór sem var við gæslu skammt frá Hvalsbaknum og báðum hann að koma okkur til fulltingis. Togaraskipstjórinn sinnti fyrirmælum okkar lítið sem ekkert en kláraði að taka vörpuna inn og færði sig svo útfyrir línuna. Nú voru góð ráð dýr, við vissum að við vorum komnir í bölvaða klípu.
Samkvæmt reglunum er skylt, ef skip er staðið að ólöglegum veiðum, að sá sem stendur viðkomandi skip að slíku, missi aldrei sjónar af því þar til það kemst í gæslu réttbærra yfirvalda í landi. Er það kallað "óslitin eftirför". Heimilt er að yfirvald skipti eftirförinni með sér, rofni hún ekki, svo ekki má hverfa frá eftirförinni fyrr en sá sem tekur hana yfir er kominn á staðinn og búinn að staðfesta að hann sjái viðkomandi skip og sé tekinn við eftirförinni. Klípan sem við vorum komnir í var að flugþolið var orðið takmarkað, rúmlega tveir tímar eftir, og því óvíst að við stæðum á tökunni. Þótt togarinn héldi beint til næstu hafnar, Seyðisfjarðar var a.m.k. 4 - 5 stunda sigling þangað, Þór gat ekki tekið við fyrr en í fyrsta lagi eftir 5 - 6 stundir og við vorum eins langt frá Reykjavík og hugsanlegt var til að fá aðra flugvél þaðan með gæslumann um borð. Ákveðið var að láta slag standa og kalla eftir aðstoð úr lofti frá Reykjavík. Nokkru síðar kom tilkynning um að Björn heitinn Pálsson sjúkraflugmaður vær tilbúinn með "Dúfuna" fulla af eldsneyti á Reykjavíkurflugvelli, sem hann ætlaði að fljúga til Þórshafnar með einhvern farm sem ég man ekki að nefna nú, og að stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, sem starfaði á skrifstofunni, væri að leggja af stað út á flugvöll til að fara með honum. Ekkert var fyrir okkur að gera úr þessu nema að fara í "holding" og hanga í hringflugi yfir togaranum þar til við yrðum leystir af, ef það tækist þá í tíma. Stilltu flugmennirnir vélina á hagkvæmasta hraða í biðfluginu og svo tók spennandi biðtími við. Við þurftum a.m.k. 20 mínútur til að klára okkur til Egilstaða eftir að við yrðum leystir af.
Eldsneytismælarnir fönguðu athygli okkar meir og meir eftir því sem tíminn leið. Dúfan var komin í loftið og þrumaði nú áfram beint yfir landið með stefnu til okkar. Það versta var að hún var hægfleyg og stóð því ekki undir nafni systra hinna, bréfdúfanna. Þegar eldsneytismælarnir voru komnir á rautt kom upp annað vandamál. Olíuþrýstingur á vinstra mótor var farinn að minnka ískyggilega. En nokkru síðar kom kall frá Dúfunni um að hún sæi okkur og rétt á eftir birtist hún fram með okkur hægra megin. Eftir að þeir voru búnir að staðfesta að þeir væru búnir að sjá togarann og taka við eftirförinni var stefnan sett beint á Egilsstaði. Ég held að mér sé óhætt að segja að við vorum ekkert of vissir um að ná til Egilsstaða því endsneytismælarnir voru farnir að vísa í brúnina á "E" sem þýðir víst "empty". Miðað við almennt ástand Trosans var spurning hversu réttir þeir væru. Hvað varðaði fallandi olíuþrýsting á vinstra mótor var hann ekki stórt áhyggjuefni, Trosinn myndi hanga uppi á öðrum hreyfli galtómur.
Aðflugið var gert úr norðri, engir aukahringir teknir, enda logn sem betur fer. Ég fylgdist með þegar hjólastellið böglaðist út úr skrokknum og féll í lás. Næst tók við snertingin við flugbrautina, reykur frá dekkjunum og hjóllastellið kipptist við. Eitthvað var snertingin vinstra megi dularfull með ókennilegu skraphljóði og titringi. Vélin hægði hratt á sér í lendingarbruninu en eitthvað var óvenjulegt við stöðuna. Hún hallaði undir flatt til vinstri. Demparinn á vinstra hjólinu hafði lekið vökvanum út svo að engin dempun varð í lendingunni. Hún hallaði svona því að hjólastellið vinstra megin var orðið styttra en hægra megin.
Ég fór síðastur frá borði því ég þurfti að taka saman og ganga frá siglinga- og skráningargögnum við togaratökuna. Það var grafarþögn í flugvélarbelgnum þannig að fótatak mitt á álplötum gólfsins, þegar ég gekk út, bermálaði í eyrum. Áður en ég sneri frá henni út á flughlaðinu, eftir að hafa snúið mér við til að horfa á hana, flaug í gegnum brjóst mér einhver reiðitilfinning sem hvarf þó jafnharðan. Það var ekki réttlátt að bölva henni upphátt, ég átti eftir að fljúga í henni heim.
Blessuð sé minning flugmannana sem voru við stjórnvölin í þessari ferð, þeirra Björns Jónssonar og Þórhalls Karlssonar, sem báðir fórust með TF-RÁN þyrlu Landhelgisgæslunnar í Jökulfjörðum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2007 | 21:49
107 Betlikerling í Thionville
Þótt vel væri liðið á dag fórum við upp í bæinn í Thionville til að skoða okkur um og njóta góða veðursins. Bæði var það að við vildum teygja úr okkur og líta á mannlífið, og einnig þurftum við að komast í verslun til að kaupa inn fyrir "heimilið" eins og sagt er þótt bátur sé. Eins og segir í fyrri pistli lágum við í miðbænum þannig að stutt var í verslunargötur og á hin rómuðu frönsku götukaffihús. Byrjuðum við landgönguna á að setjast á eitt slíkt og sötra bjór eða kaffi eftir smekk hvers og eins áður en leitað var að Supermarkaði til að versla inn. Nú er það svo að samferðarfólk mitt skilur oft á tíðum ekki hversu naskur ég er að finna miðbæi eða Supermarkaði í borgum sem ég er að koma til í fyrsta skipti, algjörlega ókunnugur og án korts. En það er þumalputtaregla sem nota má í borgum Evrópu. Ef finna á miðbæinn á að taka stefnuna á Dómkirkju borgarinnar eða hæsta og glæsilegasta kirkjuturninn sem sést oftast skaga upp úr. Það má ganga út frá því vísu að miðbærinn sé einhversstaðar í næsta nágrenni. Ef ekki finnst Supermarkaður innan miðbæjarkjarnans, sem er frekar sjaldgæft, er tekin stefna út í þann jaðar miðbæjarins sem snýr að næstu íbúðarblokkum sem sjáanlegar eru, en alls ekki stefna á iðnaðar- eða skrifstofubyggingar. Eigi hins vegar að finna sollinn, búllur, næturklúbba og mellustaði þá er járnbrautarstöðin leiðarvísir að nágrenni slíkra staða, en umferðarmiðstöðvar eru yfirleitt segull fyrir þá hópa sem stunda drykkju, eiturlyfjaneyslu og vændi sbr. t.d. Hlemmur í Reykjavík.
Aðal verslunargötur og torg Thionville voru strax sýnilegar þegar við gengum upp frá bryggjunni við Moselle svo ekki þurfti að nota "kirkjutæknina" til að finna miðbæinn í því tilfelli. Höfuðkirkja bæjarins er þó við miðbæinn þannig að kenningin stenst. En eftir að við vorum búin að fá okkur hressinguna á útikaffihúsinu var komið að því að finna Supermarkaðinn. Nú er aðstaðan þannig í Thionville að Moselle er á eina hönd, austan megin við bæinn. Við vorum búin að sjá, þegar við komum upp fljótið, að stór og fallegur garður teygði sig á aðra hönd, norður frá miðbænum og að lokum vorum við einnig búin að sjá að á þriðju hönd, lengra upp með fljótinu, þ.e. til suðurs, var atvinnu- og iðnaðarhverfi í framhaldi af miðbænum. Því voru þrír af fjórum möguleikum á að hitta á Supermarkað það ólíklegir að stefnan var tekin beint á fjórða möguleikann í átt frá fljótinu. Fljótlega voru íbúðablokkir framundan og auðvitað þessi myndarlegi Supermarkaður. Þegar við komum að honum nenntum við Örn ekki að fara inn og ákváðum að bíða fyrir utan meðan frúrnar færu inn að draga í búið. Undir vegg, til hliðar við innganginn, sat flötum beinum á gangstéttinni betlikerling og bað beina með því að halda boxi að vegfarendum og tuldra. Nú verð ég að viðurkenna að ég er persónulega orðinn svo ónæmur fyrir betli að ég er löngu hættur að rétta ölmusu þótt oft á tíðum renni mannir til rifja vesöldin sem mætir manni á götum í borgum heimsins. En nú kom í ljós að Örn ferðafélagi okkar er góðhjartaður maður. Skyndilega segir hann. "Ég ætla að skreppa inn í búðina aðeins". Taldi ég víst að hann ætlaði að taka þátt í innkaupunum með konunum og játti því bara. Skömmu seinna kom hann út úr Supermarkaðnum með innkaupapoka sem í var vatn, áxaxtasafi, brauð og nokkrir ávextir og gekk að betlikerlingunni og lagði pokann hjá henni. Ekki heyrði ég blessunar og þakkarorðin sem hún vék að Erni, þegar hann gekk frá henni, en einhvern vegin fanst mér hún ekkert voða sæl á svipinn eftir ölmusuna, en kanske var það vitleysa í mér.
Þegar konurnar komu út með innkaupapokana vorum við auðvitað nógu herralegir til að taka að okkur burðinn um borð, en í leiðinni var kíkt frekar á miðbæjarlífið og viðbótarhressing þegin á einu götukaffihúsinu. Kvöldverður var svo snæddur um borð að venju.
Um kvöldið fóruum við svo í góða gönguferð niður með bökkum Moselle og þessum fallega skrúðgarði sem áður er minst á. Að gönguferðinni lokinni var svo kominn tími til að koma áhöfninni í ró eftir bardagann við strauminn og tapaðann krókstjaka sem var hábölvað því að samkvæmt Frönskum reglum er skyld að hafa hann í slússum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 17:01
106. Tapað í Thionville
Þá var komið að því að skipta um menningarheim með siglingu inn í Frakkland. Við vorum á þessum þrem siglingatímabilum 2006 og 2007 búin að kynnast háttum og venjum siglingalífsins í Danmörku, Hollandi, Belgíu en lengst þó í Þýskalandi og áttum nú að fara inn í Frakkland sem ég var búinn að lesa mér til að heimamenn væru smásmungulegir og leiðinlegir í viðskiptum við útlent bátafólk. Í fyrsta lagi neiti þeir öllum samskiptum nema á frönsku, sem við kunnum ekki baun í, í öðru lagi rukki þeir grimmt fyrir hvert viðvik, í þriðja lagi geri þeir miklar kröfur til báta hvað varðar búnað og gæði (sem er allt í lagi), í þriðja lagi séu þeir með sínar sérreglur um réttindi þeirra sem sigli um fljót og skipaskurði sína og að lokum séu þeir með ýmsar og strangari sérreglur um hvernig siglingum um þá sé háttað.
Eftir ýtarlegan lestur í siglingahandbókinni og nákvæma siglingaáætlun æfði ég mig því í huganum aftur og aftur hvernig ég myndi segja " slússa (þetta eða hitt), þetta er skemmtibáturinn LILJA BEN með ósk um að koma í slússu (þetta eða hitt) á leið" upp eða niður eftir atvikum. Sem betur fer sagðist vinur minn Örn Egilsson, sem með var í ferðinni, kunna eitthvað í frönsku án þess að gera mikið úr því, svo að ég hugsaði gott til glóðarinnar að njóta hans við fyrsta kastið meðan ég væri að venjast Frökkunum.
Við leystum landfestar í Schwebsange mánudaginn 13. ágúst kl. 0910 og settum stefnuna áfram upp Mosel á næsta áfangastað Thionville í Frakklandi. Eftir skamma stund var komið að síðasta þorpinu í Luxemburg, Schengen, sem flestir kannast við vegna Schengen samkomulagsins. Við Schengen taka svo við Frönsku landamærin og handan þeirra slússa, frönsku megin landamæranna. Tók ég mig nú á og vandaði mig sérstaklega við að böggla út úr mér á einhverju samblandi af frönsku og ensku í talstöðina "Écluse Apach this is bateau de plaisance LILJA BEN arrivé de ecluse from North, can I enter"? Svarið sem ég fékk um hæl var stutt og laggott "vi". "Nú var þetta þá svona auðvelt" hugsaði ég meðan við sigum inn í slússuna fyrir aftan flutningalegtu og komum okkur fyrir við kantinn. Allt gekk sinn vana gang, slússan lokaðist, upp fórum við og svo var opnað fyrir framan og við sigldum út. Allt eins og áður, engin breyting frá Þýskalandi. Enginn lögreglubátur á landamærunum, ekkert tékk á bát eða réttindum.
Var nú haldið áfram og alveg sama í næstu slússu engin breyting frá venjunni. Hvað var eiginlega verið að kvarta yfir Frökkunum? Kl. um 1400 komum við til borgarinnar Thionville og byrjuðum við á að sigla framhjá "bæjarbryggjunum" þar sem einn skemmtibátur lá, virkilega flottar og vandaðar bryggjur í fögru umhverfi við hjarta bæjarins. Ég stefndi hins vegar á höfn Montonautique bátaklúbbsins Franska þar sem í boði er rafmagn og önnur þjónusta, sem ekki er við bæjarbryggjurnar. Höfnin er á mótum þrengsla í Moselle og skipaskurðar sem liggur framhjá og segir í handbókinni að varast beri straum í höfninni sem ég taldi ekki verða vandamál fyrr en við kynntumst þegar til kom. Þegar við komum að höfninni, sem er við vinstri bakka fljótsins, kom í ljós að sigla þurfti upp með steingarði á hægri hönd og inn að bryggjunum sem stóðu út á vinstri hönd og reyndist straumurinn mun harðari en mig hafði órað fyrir. Þurfti að beita nokkru vélarafli til að hafa á móti honum og áttum við bágt með að skilja hvernig bátarnir sem þarna lágu við bruggjur héngu við þær því frekar þótti okkur þær hrörlegar. Áfram héldum við og stefndum á eina bryggjuna og var ljóst að ekki var nokkur möguleiki annað en að láta vélarnar vinna á móti straumnum þar til búið yrði að binda traustlega og var því allt gert klárt að koma öllum spottum upp sem fyrst. Þegar að bryggjunni kom var djöflagangurinn svo mikill í straumnum og bryggjan svo lítil að ég ákvað að flytja mig að næstu bryggju ofar sem var líka laus og virtist ívið stærri og traustari. Í flutningnum var mikill djöflagangur í straumnum og tók frú Lilja það til ráðs að reya að halda afturenda bátsins við seinni bryggjuna með krókstjaka meðan endum yrði komið upp en straumurinn var svo sterkur að hann reif stjakann úr höndunum á henni og tapaðist hann í ánna, en straumurinn hreif hann strax og bar hann í burtu. Stjakinn sem var úr plasti flaut. Þó tókst okkur að binda um síðir en ljóst varð fljótlega að þarna var ekki verandi því straumurinn var svo mikill að þótt báturinn væri orðinn fastur við bryggju var engu líkara en hann væri á góðri ferð, svo mikið streymdi við stefnið. Höfnin og allt umhverfi hennar var mjög hrörlegt og fannst mér útilokað að liggja þarna yfir nótt við þessar aðstæður og lagði til við samferðarfólkið að við færum aftur út og niður að bæjarbryggjunum. Er því ekki að neita að samferðafólkinu þótti uppástungan ekkert sniðug og maldaði frú Lilja helst í móinn. Búin að fá nóg af bardaganum við strauminn og tapið á krókstjakanum. En skipstjórinn ræður alltaf svo aftur var sett í gang og leystar landfestar.
Áhöfnin slappar af í Thionville, Lonnie tók myndina.
Áður en byrjað var að leysa setti ég skrúfurnar á það afl sem þurfti til að yfirvinna strauminn og síðan var sleppt. Með því að sveifla framendanum strax í stb. með bógskrúfunni og keyra jafnframt kröftuglega upp í strauminn varð báturinn ekki þvert í hann fyrr en við vorum komin vel frí af bryggjum og bátum fyrir aftan okkur. Sem betur fer er ekki mjög þröngt á milli steingarðsins sem siglt var upp með og bryggjanna þannig að engu skipti þótt straumurinn hrifi okkur á flugferð niður fljótið og tókst vonum framar að snúa undan honum og fá fullkomið vald á stefnunni þrátt fyrir að allt gengi mjög hratt fyrir sig. Vorum við þeirri stund fegnust þegar komið var út úr þessu straumkasti og var nú siglt í rólegheitunum til baka og að bæjarbryggjunum við fljótsbakkann. Í stuttu máli má segja að það hefði verið meiriháttar "slys" ef við hefðum farið að þráast við og liggja í hinni höfninni. Þessi lega var mjög glæsileg og notaleg, aðeins 200 m. gangur upp í miðbæ Thionville sem er iðandi af lífi og virkilega fallegur bær að heimsækja. Þess verður þó að geta að það fyrsta sem frú Lilja taldi mikilvægast að gera var að gá hvort krókstjakinn sem við töpuðum hefði náð að reka niður á þessar bryggjur og festast þar, og var það látið eftir þótt líkurnar væri hverfandi. Auðvitað fanst hann aldrei.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2007 | 18:24
Tapað fundið í Schwebsange
Við ákváðum að liggja um kyrrt í Schwebsange yfir helgina 11. og 12. ágúst og sigla ekki áfram fyrr en á mánudeginum. Höfnin,aðstaðan og veðrið yndislegt og félagskapur góður. Við leyfðum okkur einnig þann munað að borða úti bæði kvöldin, laugardagskvöldið að venju og sunnudagskvöldið þreytt eftir ferð og göngur um Luxemburg. Í bæði skiptin snæddum við í veitingastað hafnarinnar með frábært útsýni yfir bátana en ekkert til að hrópa húrra yfir matseðli eða þjónustu, en OK samt.
Laugardeginum eyddum við um borð og við höfnina enda ýmislegt að sýsla. Tekið var vatn, þveginn þvottur og rápað um á svæðinu við skoðanir, spjall og kvöldgöngu í Irish Coffi á hafnarknæpunni.
Á sunnudeginum var ákveðið að leggja land undir fót og fara til Luxemburg. Byrjað var á að taka saman yfirhafnir, myndavélar, GSM síma o.þ.h. og setja í lérefspoka til að halda á enda gott að vera viðbúinn því að kólni þegar líða tæki á daginn, en sól skein í heiði þegar við lögðum í hann. Eftir að við höfðum spurt til vegar í þjónustumiðstöð hafnarinnar örkuðum við upp í Schwebsange þorpið til að taka strætó til bæjarins Remich og þaðan annan til Luxemburg. Stoppistöðin er beint á móti þorpskirkjunni, framan við ráðhús bæjarins, en í næsta húsi við ráðhúsið var eini veitingastaðurinn í þorpinu og blómabeð á milli með um 30 cm. vegg um kring. Strætóinn átti að koma innan 15 mín. eftir að við komum þangað en það gekk ekki eftir svo eitthvað voru upplýsingarnar sem við fengum í þjónustumiðstöðinni ruglaðar. Á meðan við biðum þarna var prúðbúið fólk að koma að veitingahúsinu, miðaldra og eldra og var auðsynt að í uppsiglingu var einhver veisla þar inni. Eftir að við vorum búin að bíða þarna í klukkustund var þolinmæðin á þrotum og ákváðum við að taka leigubíl til borgarinnar. Fór frú Lonnie því inn í veitingastaðinn og bað um að hringja á leigubíl fyrir okkur sem var auðfengið og kom hann um 20 mín. seinna, enda sóttur til Remich, og var nú lagt í hann.
Þegar við vorum u.þ.b. hálfnuð til Luxemburgar segi ég af rælni við frú Lilju "ert þú ekki með léreftspokann"? "Nei" segir frú Lilja "þú lagðir hann frá þér við blómabeðið og ég var viss um að þú tækir hann". Nú var illt í efni pokinn með öllu dótinu liggjandi úti á gangstétt í Schwebsange. Einhver lagði til að við myndum snúa við en ég þvertók fyrir það, kostnaðurinn við það og tíminn sem það tæki væri það mikill á móti verðmætum þess sem væri í pokanum að það myndi ekki borga sig, sérstaklega þar sem líkurnar á að ekki væri búið að hirða pokann væru líka litlar. Var því haldið áfram. En nú fór Örn Egilsson í gang með björgunaraðgerðir pokans ef mögulegt væri. Bað hann nú leigubílstjórann að hafa upp á símanúmeri veitingastaðarins sem hringdi fyir okkur á og náði hann því í gegnum leigubílastöðina, sem gat rakið það. Þegar númerið var fengið hringdi frú Lonnie í veitingastaðinn og bað stúlku sem þar svaraði að fara út að blómabeðinu og taka pokann til handargagns. Kom hún til baka með þær upplýsingar að enginn poki væri sjáanlegur þar, á gangstéttinni eða í strætóskýlinu. Varð nú að afskrifa pokann með öllu sem í honum var, sem olli fúllyndu skapi í mér næsta klukkutímann, enda minn aulaskapur að öllu leyti.
Jæja til Luxemburgar var komið og fórum við nú að skoða bæinn en mikill mannfjöldi var á götum og torgum Luxemburgar þennan fagra sunnudag. Reyndum við að komast yfir sem mest af miðbænum og fórum m.a. að Furstahöllinni og niður í gilið til að skoða hellahvelfingarnar með tilheyrandi göngum sem gerð voru í gilveggina af Rómverjum í varnarskyni. Með merkilegri mannvirkjum sem maður skoðar. Það er bratt niður í gilið en þess virði að klífa upp og niður, en mikið fanst mér Luxemburg hafa breyst á þeim yfir 20 árum sem liðin voru frá því ég kom þar síðast. Þegar líða tók að kvöldi vorum við búin að fá nóg af göngum og leituðum nú að leigubíl til að koma okkur heim. Allan daginn var Örn búinn að reyna af og til að hringja í símann minn, ef einhver hefði tekið pokann til handargagns, heiðarlegur nokk til að vilja skila honum, en án árangurs.
Leigubíl fundum við eftir smá leiðbeiningar og var nú ekið niður að Schwebsange. Þegar þangað var komið fanst mér ég endilega verða að renna að staðnum inni í þorpinu þar sem ég hafði gleymt pokanum, til að fullvissa mig um að hann væri ekki þar, þótt mér finndist það borin von að finna hann eftir allan þennan tíma. En viti menn, ekki var neinn poki á gangstéttinni og ekki við blómabeðið, en þegar mér verður litið upp á ráðhúsið, hékk þá ekki pokinn á hurðarhúni hússins. Því segi ég það, það er til fullt af heiðarlegu fólki í Luxemburg. Varð því að vonum gleði yfir góðum degi í Luxemburg og haldið upp á það með góðum kvöldverði við höfnuna í Schwebsange.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar