106. Tapað í Thionville

Slússan við Schengen Í slússunni við Schengen 

 Þá var komið að því að skipta um menningarheim með siglingu inn í Frakkland.  Við vorum á þessum þrem siglingatímabilum 2006 og 2007 búin að kynnast háttum og venjum siglingalífsins í Danmörku, Hollandi, Belgíu en lengst þó í Þýskalandi og áttum nú að fara inn í Frakkland sem ég var búinn að lesa mér til að heimamenn væru smásmungulegir og leiðinlegir í viðskiptum við útlent bátafólk. Í fyrsta lagi neiti þeir öllum samskiptum nema á frönsku, sem við kunnum ekki baun í, í öðru lagi rukki þeir grimmt fyrir hvert viðvik, í þriðja lagi geri þeir miklar kröfur til báta hvað varðar búnað og gæði (sem er allt í lagi), í þriðja lagi séu þeir með sínar sérreglur um réttindi þeirra sem sigli um fljót og skipaskurði sína og að lokum séu þeir með ýmsar og strangari sérreglur um hvernig siglingum um þá sé háttað.

Eftir ýtarlegan lestur í siglingahandbókinni og nákvæma siglingaáætlun æfði ég mig því í huganum aftur og aftur hvernig ég myndi segja " slússa (þetta eða hitt), þetta er skemmtibáturinn LILJA BEN með ósk um að koma í slússu (þetta eða hitt) á leið" upp eða niður eftir atvikum. Sem betur fer sagðist vinur minn Örn Egilsson, sem með var í ferðinni, kunna eitthvað í frönsku án þess að gera mikið úr því, svo að ég hugsaði gott til glóðarinnar að njóta hans við fyrsta kastið meðan ég væri að venjast Frökkunum.

Við leystum landfestar í Schwebsange mánudaginn 13. ágúst kl. 0910 og settum stefnuna áfram upp Mosel á næsta áfangastað Thionville í Frakklandi. Eftir skamma stund var komið að síðasta þorpinu í Luxemburg, Schengen, sem flestir kannast við vegna Schengen samkomulagsins. Við Schengen taka svo við Frönsku landamærin og handan þeirra slússa, frönsku megin landamæranna. Tók ég mig nú á og vandaði mig sérstaklega við að böggla út úr mér á einhverju samblandi af frönsku og ensku í talstöðina "Écluse Apach this is bateau de plaisance LILJA BEN arrivé de ecluse from North, can I enter"? Svarið sem ég fékk um hæl var stutt og laggott "vi". "Nú var þetta þá svona auðvelt" hugsaði ég meðan við sigum inn í slússuna fyrir aftan flutningalegtu og komum okkur fyrir við kantinn. Allt gekk sinn vana gang, slússan lokaðist, upp fórum við og svo var opnað fyrir framan og við sigldum út. Allt eins og áður, engin breyting frá Þýskalandi. Enginn lögreglubátur á landamærunum, ekkert tékk á bát eða réttindum.

Var nú haldið áfram og alveg sama í næstu slússu engin breyting frá venjunni. Hvað var eiginlega verið að kvarta yfir Frökkunum? Kl. um 1400 komum við til borgarinnar Thionville og byrjuðum við á að sigla framhjá "bæjarbryggjunum" þar sem einn skemmtibátur lá, virkilega flottar og vandaðar bryggjur í fögru umhverfi við hjarta bæjarins. Ég stefndi hins vegar á höfn Montonautique bátaklúbbsins Franska þar sem í boði er rafmagn og önnur þjónusta, sem ekki er við bæjarbryggjurnar. Höfnin er á mótum þrengsla í Moselle og skipaskurðar sem liggur framhjá og segir í handbókinni að varast beri straum í höfninni sem ég taldi ekki verða vandamál fyrr en við kynntumst þegar til kom. Þegar við komum að höfninni, sem er við vinstri bakka fljótsins, kom í ljós að sigla þurfti upp með steingarði á hægri hönd og inn að bryggjunum sem stóðu út á vinstri hönd og reyndist straumurinn mun harðari en mig hafði órað fyrir. Þurfti að beita nokkru vélarafli til að hafa á móti honum og áttum við bágt með að skilja hvernig bátarnir sem þarna lágu við bruggjur héngu við þær því frekar þótti okkur þær hrörlegar. Áfram héldum við og stefndum á eina bryggjuna og var ljóst að ekki var nokkur möguleiki annað en að láta vélarnar vinna á móti straumnum þar til búið yrði að binda traustlega og var því allt gert klárt að koma öllum spottum upp sem fyrst. Þegar að bryggjunni kom var djöflagangurinn svo mikill í straumnum og bryggjan svo lítil að ég ákvað að flytja mig að næstu bryggju ofar sem var líka laus og virtist ívið stærri og traustari. Í flutningnum var mikill djöflagangur í straumnum og tók frú Lilja það til ráðs að reya að halda afturenda bátsins við seinni bryggjuna með krókstjaka meðan endum yrði komið upp en straumurinn var svo sterkur að hann reif stjakann úr höndunum á henni og tapaðist hann í ánna, en straumurinn hreif hann strax og bar hann í burtu. Stjakinn sem var úr plasti flaut. Þó tókst okkur að binda um síðir en ljóst varð fljótlega að þarna var ekki verandi því straumurinn var svo mikill að þótt báturinn væri orðinn fastur við bryggju var engu líkara en hann væri á góðri ferð, svo mikið streymdi við stefnið. Höfnin og allt umhverfi hennar var mjög hrörlegt og fannst mér útilokað að liggja þarna yfir nótt við þessar aðstæður og lagði til við samferðarfólkið að við færum aftur út og niður að bæjarbryggjunum. Er því ekki að neita að samferðafólkinu þótti uppástungan ekkert sniðug og maldaði frú Lilja helst í móinn. Búin að fá nóg af bardaganum við strauminn og tapið á krókstjakanum. En skipstjórinn ræður alltaf svo aftur var sett í gang og leystar landfestar.

Áhöfn í Thionville Áhöfnin slappar af í Thionville, Lonnie tók myndina. 

Áður en byrjað var að leysa setti ég skrúfurnar á það afl sem þurfti til að yfirvinna strauminn og síðan var sleppt. Með því að sveifla framendanum strax í stb. með bógskrúfunni og keyra jafnframt kröftuglega upp í strauminn varð báturinn ekki þvert í hann fyrr en við vorum komin vel frí af bryggjum og bátum fyrir aftan okkur. Sem betur fer er ekki mjög þröngt á milli steingarðsins sem siglt var upp með og bryggjanna þannig að engu skipti þótt straumurinn hrifi okkur á flugferð niður fljótið og tókst vonum framar að snúa undan honum og fá fullkomið vald á stefnunni þrátt fyrir að allt gengi mjög hratt fyrir sig. Vorum við þeirri stund fegnust þegar komið var út úr þessu straumkasti og var nú siglt í rólegheitunum til baka og að bæjarbryggjunum við fljótsbakkann. Í stuttu máli má segja að það hefði verið meiriháttar "slys" ef við hefðum farið að þráast við og liggja í hinni höfninni. Þessi lega var mjög glæsileg og notaleg, aðeins 200 m. gangur upp í miðbæ Thionville sem er iðandi af lífi og virkilega fallegur bær að heimsækja. Þess verður þó að geta að það fyrsta sem frú Lilja taldi mikilvægast að gera var að gá hvort krókstjakinn sem við töpuðum hefði náð að reka niður á þessar bryggjur og festast þar, og var það látið eftir þótt líkurnar væri hverfandi. Auðvitað fanst hann aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband