120. Epinal, "ný áhöfn um borð"

 

Áhöfnin mætt Margrét systir komin um borð, Sigurður tók myndina.

Eitthvað tókst mér að rugla með dagsetninguna í síðasta pistli en ég skrifaði 22. ágúst í stað 23. ágúst.

Hvað með það því föstudaginn 24. ágúst byrjuðum við á að fara með þvott í sjálfvirka þvottahúsið sem við vorum búin að fá upplýsingar um. Þetta var þó nokkur spotti að fara, um hálftíma gangur hvora leið með taupokana. Það var gestkvæmt á köflum í þvottahúsinu og þar var eigandinn, maður frá einhverju arabalandi, sem virtist eiga hvert bein í fólki sem kom þarna til að láta í vél eða láta hann þvo fyrir sig, en hann tók það líka að sér. Elskulegur og hjálpsamur karl. Við þurftum að bíða meðan vélarnar þvoðu, taka svo út og flytja í þurrkarana og bíða eftir þeim. Góða stund sátum við inni í þvottahúsinu og fylgdumst með mannfólkinu sem var í sömu erindagjörðum. Við hlið mér sat eitt sinni kona með lítinn telpuhnokka sem varð mjög forvitin þegar hún heyrði okkur tala saman, sem endaði með því að hún hallaði sér að mömmu sinni og hvíslaði einhverju að henni. Leit konan síðan til okkar og spurði á ensku hvaðan við værum og sögðum við henni það "from Iceland". Skömmu síðar vatt sú litla sér að okkur og sagði til nafns á ensku og spurði hvað við hétum. Þegar við höfðum sagt henni það sagði móðirin að sú litla talaði eingöngu arabísku og ensku og vildi augsynilega þjálfa sig í enskunni, því hún vildi tala aðeins meira við okkur, sem var sjálfsagt.

Einnig skruppum við út og gengum um nágrennið meðan vélarnar voru að vinna sitt verk en um hádegisbilið var þvottastandinu lokið og fórum við nú af stað með tauið til baka. Mig hafði lengi vantað að kaupa lengri vatnsslöngu en þá sem við höfðum, til að taka drykkjarvatn á bátinn, en ekki er alltaf gefið að maður fái legupláss það nærri vatnskrana að slangan mín næði, enda stutt. Ákvað ég því að fara í byggingavöruverslun, sem ég var búinn að fá upplýsingar um og ná í lengri vatnsslöngu, og í leiðinni að koma við í stórmarkaði til að kaupa inn, meðan frú Lilja væri að ganga frá þvotti og hreinu á rúmin.

Frá byggingavöruversluninni gekk ég hróðugur með mína nýju slöngu, niður í stórmarkað, náði mér í kerru og setti fyrst slöngina í og svo vörur. Þegar að kassanum kom til að borga var þar Norski vinur okkar á undan mér í röðinni og þegar að mér kom vildi kassadaman ólm fá slönguhönkina upp á færibandið til að "skanna" hana inn, en ég neitaði og sagðist hafa keypt hana annarsstaðar. Bágt áttum við með að skilja hvort annað, hún með frönsku en ég með ensku, og reyndi ég að gera henni skiljanlegt að þau seldu ekki einu sinni slöngur í þessari verslun, en hún gaf sig ekki. Norðmaðurinn stóð hjá og brosti að uppákomunni. Loks tóks mér að grafa upp kassakvittunina frá byggingavöruversluninni og sýna kassadömunni og þá gaf hún sig, en með miklum tortryggnissvip, sem hún mátti hafa fyrir sjálfa sig. Röltum við Norsarinn svo saman niður í bátana, ég með mín slöngu, matvæli, bjór og hvítvín en hann sagðist vera í góðum málum búinn að ná í vín og vodka.

Margrét systir og Sigurður hringdu í okkur undir hádegi daginn eftir og voru þá lent í Basel. Sögðust þau ætla að taka leigubíl til okkar og báðu um adressu hafnarinnar til að geta sagt leigubílstjóranum. Sögðust þau koma eftir 1 til 2 klukkutíma sem stóðst. Urðu því fagnaðarfundir þegar þau komu til Epinal skömmu eftir kl. 2, 25. ágúst og eftir að þau voru búin að koma sér fyrir um borð var sest með smá vínlögg og ostabakka áður en land var lagt undir fót og þeim sýndur bærinn, eins og kostur var á þessum stutta tíma sem eftir lifði dags. Um kvöldið var svo farið á Le Capitainere og snæddur kvöldverður, en þar var á efri hæð mikil veisla og skemmti söngvari gestum á bryggjunni með söng og hljóðfæraslætti á skemmtara. Ekki þótti okkur mikið til koma en þarna var enginn stórlistamaður á ferð.

Daginn eftir var lagt í hann frá Epinal.


119. Epinal, "þetta eru ekki gestir, þetta er áhöfn" sagði Norsarinn.

 

Haust 2007 206 Legan í Epinal. Í baksýn sundið sem við komum inn. 

Eftir að hafa snætt morgunverð 22. ágúst fór ég út á dekk til að dreypa á morgunkaffinu og var þá Norski félagi okkar kominn á stjá með kaffibollann sinn, að teygja morgunloftið í Epinal. Eftir "góðan dag" ávarpið sagði ég honum frá því að nú væru gestir okkar Örn og Lonnie að fara heim, en á laugardag fengjum við nýja gesti, systir mína og hennar mann. "Gæster" sagði þá Norðmaðurinn stór hneikslaður, "dette er ikke gæster dette er besætning" og leyndi sér ekki hvað hann meinti "það væri sko ekki mikið mál að sigla með fullt af fólki til að taka til hendinni". Gat ég ekki annað en samsinnt þessu, það létti óneitanlega mikið "róðurinn" að hafa fleira fólk á svona siglingu.

Nú lögðu Örn og Lonnie síðustu hönd á að pakka og var svolítið bras að ganga frá víravirkinu sem hún keypti daginn áður. Komið var að kveðjustund. Fylgdum við þeim að leigubílnum sem sótti þau og horfðum á eftir þeim í átt að járnbrautarstöðinni. Ákveðið var að komast í þvottavélar daginn eftir, til þvotta á rúmfötum og öðru sem óhreint var orðið auk þess sem við undirbjuggum komu næstu "áhafnar". Á meðan frú Lilja var að sinna þessu tók ég mig til og trillaði 100 l. af eldsneyti á bátinn, meira sem sáluhjálp en nauðsyn, en það tók nokkurn tíma samt. Gengum við síðan í bæinn og notuðum stóran hluta af eftirmiðdeginum til að bæta við þekkingu okkar á Epinal auk þess sem ég leyfði mér þann munað að kaupa mér vandaðann bakpoka, sem er sniðinn fyrir tölvuna mína og með sérleg hólf fyrir hvaðeina sem góða skjalatösku má prýða, en pokinn á að létta mér að fara með tölvuna í land þegar nauðsyn krefur. Áður en við fórum í land var ég búinn að veita athygli fullorðnum manni sem sat á bekk skáhallt upp af okkur, sem var að teikna á teikniblokk. Út frá því hvernig hann horfði þegar hann leit upp, sýnilega til að horfa á motivið, var ég viss um að hann var að teikna MY LILJU BEN. Hann var hins vegar horfinn þegar við komum aftur úr bænum svo ég varð aldrei neitt frekar vísari um myndina. Hins vegar fór ekki milli mála að MY LILJA BEN vakti athygli fólks sem yfir höfuð skoðar báta og voru t.d. hjón búin að stoppa einu sinni og skoða bátinn vel þar til þau kváðu upp úr með "this is a very beutiful boat". Sennilega er það vegna þess að þarna innst í fljótum og skurðum Evrópu sjást varla svona bátar, sem gerðir eru fyrir mun meiri hraða en þeir sem algengir eru þarna. LILJA BEN er gerð fyrir siglingu á sjó og 20 til 30 hnúta hraða enda rennileg að sjá fyrir vikið. Algengir bátar þarna eru hins vegar hægfara, fyrir u.þ.b. 10 hnúta hraða þegar vel lætur og ekki fyrir úthafssiglingar.

Umhverfi hafnarinnar þarna er allt mjög þrifalegt og vinsælt útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Í hádeginu fylltist Capitainere af matargestum hvern dag auk þess sem fólk kom í stríðum straumum með hádegisnestið sitt eða aðrar veitingar til að njóta á bekkjum og grasflötum sem nóg var af. Þarna var fólk að hleypa börnum að leik, gamalt fólk á röltinu, ungir í tilhugalífi eða ráðsett hjón í heilsubótargöngum. Sumir stunduðu stangveiðar á bökkunum og snemma einn morgun voru háværir unglingar í útjaðri garðsins sem höfðu verið á fylleríi um nóttina og virtust vera að slangra úr sér vímuna, ekki alveg orðnir edrú enn. Var þetta það eina sem minnti á Ísland meðan við lágum þarna.


118. Epinal þar sem draugur Napoleons gengur ljósum logum.

 

Norski einfarinn Á spjalli við Norska einfarann í Epinal.  

Við bundum í glæsihöfninni í Epinal kl. 17:15 þriðjudaginn 21. ágúst eftir annasama og spennandi ferð. Það var eins og að koma í vel þráða vin, glæsileg hafnaraðstaða með fjölda lystibáta af öllum stærðum og gerðum, fallegum veitingastað á bakkanum "La Capitainere", vinsæll og ávalt setinn daga og kvöld. Í sama húsi var öll hreinlætisaðstaða fyrir bátafólk og voru lyklar afhentir á barnum. Meðfram höfninni var vinsælt útivistarsvæði með görðum sem fólkið í borginni sótti mikið og var stöðugur straumur fólks með legukantinum að spóka sig daglangt og fram eftir kvöldi. Eins og svo víða á þessu svæði Evrópu eru þarna Rómverskar rústir með gömlum virkisveggjum og segir sagan að draugur Napoleons birtist þar á hverju ári hinn 9. september, kl. 05:00 að morgni og endurtaki, án þess að orðin heyrist, ræðu sína, sem hann flutti þarna, á þeim degi og sama tíma árið 1811, og fjallaði um mikilvægi framrásar Frakka inn í N-Evrópu.

Moselle fljótið liðast í gegnum borgina, nokkuð straumþungt og grunnt á þessu svæði og er renna tekin úr því til að fæða skipacanalinn með vatni, sem rennur inn í Canalinn innan hafnarinnar. Það var stutt í bæinn frá því þar sem við lágum en ekki var farið í neinar göngur til skoðunar fyrr en dagin eftir komu. Fannst okkur gott að koma okkur fyrir eftir strangann dag og litast um nærumhverfið svo notuð séu tískuorð nútímans. Gestir okkar Örn og Lonnie ætluðu að fara til Basel fimmtudaginn 23. svo við ákváðum að byrja morgundaginn á að finna járnbrautarstöðina og ganga frá fari þeirra til Basel. Alltaf var straumur af bátum að koma og fara meðan við lágum þarna svo að tilbreyting var að nýjum og nýjum nágrönnum. Fyri framan okkur var Svissnesk skúta sem á voru ung hjón með litla stelpu og var frábært að fylgjast með "heimilislífinu" þarna um borð og útsjónarseminni sem þarf að viðhafa við daglega umsýslu bús og barna.

Epinal er fræg fyrir grafik listaverk sem sýna aðallega myndir sem lýsa hernaði og þá sérstaklega frá Napoleon tímanum. Eru enn framleidd í borginni myndþrykk gerð með sömu handverkstækni og tíðkaðist á 19. öld. Að auki byggir borgin afkomu sína að miklu leyti á vefnaðarframleiðslu sem víðkunn er.

Mér fannst Epinal sjarmerandi borg með sína 40.000 íbúa, en hún stendur í fallegu umhverfi sem er hæðótt og með fjöllum í kring og ekki spillti að Moselle liðast þarna í gegn. Veðrið átti líka sinn þátt í að okkur leið vel þarna, sólskin og hiti upp á hvern dag, en léttar kvöldskúrir stundum seint að kvöldi eftir að maður var hvort eð er kominn í ró.

Daginn eftir að við komum til Epinal, 22. ágúst fórum við öll í land til að finna járnbrautastöðina, sem gekk vel og gengu Örn og Lonnie frá ferð sinni til Basel, svo nú var þeim ekkert að vanbúnaði. Var deginum síðan framhaldið við dæmigerða túristaskoðun sem varð til þess að frú Lonnie keypti forláta víravirkisskúlptúr í þeim stærðarflokki að ljóst var að sérstakar ráðstafanir yrði að gera til að koma honum heim. Þegar við svo komum um niður að höfninni fannst okkur við kannast við nýkominn bát sem var lagstur aftan við okkur og viti menn, þarna var þá kominn Norski vinur okkar sem við hittum í Metz (pistill 109), kominn einn síns lið hingað. Um kvöldið buðu Örn og Lonnie okkur svo til kveðjukvöldverðar á Capitainere og var  notalegt að sitja þar í kvöldhúminu með útsýni yfir líflega skemmtibátahöfnina.


117. Til Epinal með Finna í slagtogi

 

Í slússunni Það er ekki rúmt í slússunum í Canal Des Vosges. Sigurður Eyjólfsson hangir í spottanum. 

Þá var komið að síðasta siglingaleggnum með Erni og Lonnie Egilsson, en þau munu kveðja í Epinal og halda heimleiðis frá Basel í Sviss, sem var næsti flugvöllur með beint flug heim. Sama dag og þau fara frá Basel, kemur nýja áhöfnin, systir mín Margrét Petersen og hennar eiginmaður Sigurður Eyjólfsson, sem ætla að sigla með okkur næstu daga. Reyndar vorum við vel á undan áætlun svo að Örn og frú myndu ekki fara frá borði fyrr en föstudaginn 24. ágúst og Margrét og Sigurður kæmu svo laugardaginn 25.

Við lögðum frá viðlegukantinum í Charmes kl. 09:10, þriðjudaginn 21. ágúst og renndum í fyrstu slússuna nr. 30 svo til um leið. Framundan voru aftur 16 slússur að fara í gegnum á leiðinni til borgarinnar Epinal. Gekk allt eins og í sögu þar til við komum framhjá borginni Nomexy en á spottanum milli slússu 24 og 23 sigldum við fram á finnska skútu sem var kyrrstæð og þegar við nálguðumst veifuðu bátsmenn okkur að halda áfram og bentu okkur á að þeir væru strandaðir, sem var ekki undrunarefni því Canallinn er grunnur en skútur með djúpan kjöl og rista því mikið. Um borð var fjögurra manna áhöfn. Héldum við því áfram, framhjá þeim, og skömmu síðar sáum við að þeir losnuðu svo að þeir urðu samskipa okkur í næstu slússu. Næstu 3 slússur eltu þeir okkur en augsynilega voru þeir ítrekað að taka niðri svo þeir þurftu að "jugga" henni til annað veifið og náðu alltaf að losa sig. Fór þetta að verða forvitnilegt ferðalag því samkvæmt öllu eðlilegu átti svona djúpsigld skúta alls ekki að komast þetta. Þetta varð til þess að forvitni okkar var vakin og spurðum við Finnana nánar út í ferðalgið. Kom í ljós að þeir voru búnir að bögglast þetta sömu leið og við, þrátt fyrir að allar leiðbeiningar tali um minnsta dýpi á þessari leið 1.8 m. en skútan var með 2 m. kjöl. Voru þau á leið í Miðjarðarhafið eins og við og var ekki annað hægt en að furða sig á þessari bíræfni Finnanna. Virtust þeir ekki hafa neinar áhyggjur af því að þurfa hugsanlega að snúa við og fara aftur Norður fyrir Evrópu, þeir ætluðu samt að reyna að komast eins langt og mögulegt væri þessa leið.

Þegar við komum að slússu nr. 20 kom hins vegar til vandræða. Skútan hafði elt okkur mjög nærri og þegar við komum að slússu nr. 20 logaði ljós sem merkti að hún væri í undirbúningsferli. Það var hins vegar óvenjulegt að inni í slússunni var farþegalegta að koma niður, svo stór að hún fyllti algjörlega út í hana, en okkur skildist að slík skip ættu ekki að vera þarna á ferð. Slússan er 39.5 m. löng og 5.2 m. á breidd og var ekki að sjá að koma mætti skóhorni með hliðum hennar, þegar slússan opnaði. Nú kom þetta ferlíki sígandi út úr slússunni og sá ég að þar sem við vorum nærri slússuendanum þyrfti ég að skapa meira svigrúm til að mæta henni með því að bakka aðeins frá á stað þar sem Canallinn var víðari, en þá var skútuskrattinn komin mjög nálægt og lokaði víða partinum fyrir okkur þó bæði kæmumst fyrir. Gáfu Finnarnir ekkert eftir til að við kæmumst þar líka, þrátt fyrir að Örn kallaði yfir til þeirra og bandaði þeim að bakka. Hafði ég því enga möguleika á að forða mér þangað svo ekki var um annað að ræða en að mæta farþegalegtunni þarna í þrengslunum. Að sjá, þar sem legtan nálgaðist, virtist hún fylla alveg út í Canalinn og fór ég nú að þoka okkur eins nærri vestur bakkanum og mögulegt væri. Örlítil beygja var á Canalnum þarna svo að hún þurfti að beygja á okkur þegar hún kom út svo aðstaðan varð enn glannalegri fyrir bragðið og vorum við komin alveg upp að bakkanum hægra megin þegar hún var að koma meðfram okkur. Var ég búinn að lyfta skrúfunum eins og ég þorði þar sem bakkinn var við stb. afturhornið hjá okkur og þegar legtan kom að okkur kom yfirþrýstingurinn frá stefninu svo ekki var um annað að ræða en að taka áfram frá bakkanum með stefnið í átt að afturenda legtunnar sem nálgaðist óðfluga. Sennilega var það sálræn tilfinning frekar en alvara en það nísti í gegn að mér fannst skrúfan hræra í drullunni við bakann þegar ég tók áfram til að yfirvinna þrýstinginn frá legtunni, en hliðin á henni rann nú aftur með okkur í u.þ.b. meters fjarlægð og svo kom sogið frá skutnum sem krafðist snarræðis til að rekast ekki utan í hana og kom þá bógskrúfan að góðum notum við að þrýsta stefninu frá. Ég var orðinn kaldsveittur í lófunum þegar legtan fór framhjá án þess að skaði skeði og fylgdist með þegar hún fór framhjá skútunni þar sem plássið var gott betra. Var nú komið að okkur að fara inn í slússuna og bað ég Örn að veifa skútunni að fara fram fyrir því ég ætlaði ekki að verða aftur ofurseldur óbilgirni áhafnarinnar á henni ef slíkt myndi endurtaka sig, sem og gerðist í næstu slússu. Þar kom önnur eins legta, en þar sem þar var tiltölulega vítt og gott pláss gekk það vandræðalaust.

Þegar við loksins komum að síðustu slússunni af þeim 16 sem við fórum í gegnum þennan dag var farið að síga á seinnihluta dagsins. Skútan var enn á undan (fyrir framan í slússunni) og nú opnaðist hliðið og hún skreið út og við á eftir. Um leið og opnaðist kom næsta slússuhlið í ljós fyrir framan og heyrðist nú örvæntingahróp frá áhöfninni "ein enn, við héldum að þetta væri búið í dag. Varstu að ljúga að okkur kafteinn í morgunn þegar þú sagðir að þær ættu að vera 16 í dag"? Gat ég ekki annað en hlegið um leið og ég benti þeim á mjóa rennu sem hvarf til vinstri inn í skógarþykknið og sagði "við förum ekki í þessa slússu heldur hér til vinstri inn til Epinal". Ég ætla ekki að lýsa feginsandvarpinu sem kom, en nú kom annað upp, skútan var strönduð eina ferðina enn og veifuðu Finnarnir til okkar að fara ekki lengra. Ekki datt mér í hug að láta þá þvælast fyrir okkur lengur og smokraði okkur framhjá henni og inn í sundið til Epinal. Ég vissi að þeir kæmust aldrei þangað inn því það var of grunnt fyrir þá. Það síðasta sem við sáum, áður en við fórum í hvarf fyrir bugðu var að þeir voru búnir að losa sig og lýkur þar með sögunni um Finnana.

Inn til Epinal var um 45 mín sigling eftir þessu þrönga sundi, með skógi vöxnum bökkum á bæði borð og sáum við á einum stað þar sem tjöld voru við bakkann þar sem druslugangur, sorp og annar úrgangur benti til að væri bæli flækinga sem helst koma sér fyrir við borgir þar sem eftir einhverju er að slægjast með þjófnaði og öðrum mannmergðar möguleikum.

Skömmu eftir að við komum inn í sundið sigldum við yfir Moselle ánna á brú og er það í fyrsta skiptið sem siglt var eftir brú í ferðinni. Var það merkilegt að sigla eftir Canalnum þvert yfir fljótið og sjá það steyma fyrir neðan okkur. Loks blasti borgin við framundan og eftir smá athugun fundum við þetta fína legupláss í Port d´Epinal, sem reyndist hin fegursta höfn og merkisborg, sem sagt verður frá í næsta pistli.


116. Trjástofn í Canal og áfram til Charmes

Haust 2007 199 Við bugðuna afturundan má sjá trjákrónuna sem getið er standa upp úr vatninu. Canallinn er ekki breiður. 

Við sigldum áfram milli trjánna og eftir um 700 m. vegalengd sáum við tvo menn á vinstri bakkanum sem veifuðu til okkar og bentu okkur á að stórt tré hafði fallið yfir Canalinn og var það reyndar á kafi. Rótin var á vinstra bakkanum en smá hluti krónunnar sást standa uppúr við hægri bakkann. Var stax stoppað og aðstæður kannaðar og var ekki annað séð en að bolurinn lægi djúpt undir yfirborðinu næst krónunni. Tók ég því það ráð að lyfta skrúfunum upp fyrir kjöl og að renna okkur yfir bolinn þannig og tókst það án þess að kjölurinn snerti.

Stutt var í næstu slússu og komu þær nú hver af annari þannig að siglt var smá spotti, fjarstýringunni beitt, beðið eftir ljósum, siglt inn, bundið og bláu súlunni lyft 15 sinnum yfir daginn. Allt gekk þetta eins og í lygasögu og kl. 15:15 lögðumst við að myundarlegum viðlegukanti við vesturbakka Canalsins í borginni Charmes, eftir aðeins 7 tíma og 40 mínútna siglingu. Við vorum aðeins dösuð eftir þessa törn en andinn var góður og allir glaðir. Örn Egilsson fór í að ganga frá málefnum varðandi snyrtingar en undirritaður gekk á land til að skoða aðstæður í bænum, sem lofuðu góðu. Eftir skoðunina þurfti að færa bátinn lítilsháttar til að rýma pláss fyrir aðvífandi bát, en þarna var þó nokkur umferð skemmtibáta og fjöldi báta við legukantinn.

Rétt er að geta þess í framhjáhlaupi að þegar við komum inn í Fakkland þurftum við að tilkynna okkur hjá "Voles Navigables de France" sem ég skýri bara stjórn vatnaleiða Frakklands og fá heimildarpassa fyrir siglingu um canalana sem kostaði 90 € fyrir ótakmarkaða notkunn canala og slússa í heilan mánuð. Með passanum fylgdu allar reglur og leiðbeiningar varðandi siglingar, umhverfisvernd og vatnastýringu í canölunum sem og fyrirmæli um tilkynningaskyldu og samskipti við stjórn vatnaleiðanna. Þar á meðal var skylda að kalla upp stjórnstöðina fyrir kl. 15:00 daginn áður en fara átti í gegnum fyrstu slússu á hverjum leiðarlegg og gerðum við það nú eins og reglur gerðu ráð fyrir og tilkynntum að við ætluðum að byrja í slússu nr. 30 kl. 09:00 daginn eftir. Skemmst er frá því að segja að þeir komu af fjöllum og vildu ekkert með svona tilkynningar hafa og var þetta því í fyrsta og síðasta skiptið sem við gerðum það.

Þegar búið var að fá sér kaffisopa og allt var orðið klárt var ráðist til landgöngu og að finna stórmarkað til að versla inn í matinn. Til að fara upp í bæinn var gengið upp bratta götu og var innan tíðar komið á aðaltorg bæjarins. Þar sem við stóðum þar á götuhorni til að finna leið að stórmarkaði, og biðum eftir grænu ljósi, staðnæmdist fullorðinn maður hjá okkur í sama skyni. Var hann nú spurður um matvælamarkað og benti hann okkur upp götu sem var beint framundan, en hann var á sömu leið svo við fylgdumst að. Á leiðinni leiddu samskipti við hann til þess að hann fékk að vita að við værum Íslendingar og fanst honum nokkuð merkiegt að hitta á fólk þaðan á göngu sinni. Eftir skamma stund komum við svo að krossgötum og benti hann okkur áfram að markaðnum, en sagðist sjálfur fara í hús sitt sem stóð þarna á horninu, en bað okkur endilega að doka við meðan hann skytist inn. Kom nú ú ljós að karlinn var formaður ferðamálaráðs Lorraine héraðsins sem Charmes er innan. Sallaði hann á okkur ógrynnin öll af ferðabæklingum um svæðið áður en hann kvaddi okkur með virktum og óskaði okkur ánægjulegrar ferðar um Frakkland.

Var nú verslað í markaðnum og síðan farið með innkaupin um borð með viðkomu til að bergja eitt bjórglas á leiðinni. Kvöldinu eyddum við svo á veitingastað í bænum, við franskan matseðil, með misjafnri ánægju hvernig til tókst, en gaman samt. Skilst mér að aðalréttur minn væri nýru af einhverri skógarskepnu og hef ég látið mér detta í hug kanina eða héri.


115. Farið um 93 slússur í Canal Des Vosges

 

Slússan fyllt Sjálfvirk slússa að fyllast. Á vinstri hönd er blá súla "sulumærinnar" of ef myndin er stækkuð og granskoðuð má sjá til næstu slússu framundan og að græna jlósið lýsir þar svo hún er tilbúin fyrir okkur að sigla beint inn. 

Þá var komið að hasarnum, í næsta áfanga var ákveðið að sigla 30 km. leið til Charmes og á þeim spotta að fara í gegnum 16 slússur eða með innan við 2. km. millibili. Vorum við algjörlega að renna blint í sjóinn með þennan fyrsta hluta Canal Des Vosges og vorum klár á að varla myndi dagurinn endast til að komast í gegnum þetta allt, enda hámarkshraði í þessum þrönga canal aðeins 6 km./klst. Í heildina er Canal Des Vosges um 112 km. langur og í honum einum eru 93 slússur, fyrst upp frá Moselle að norðan verðu og svo niður í Saone fljótið að sunnan verðu. Hver slússa er með um 3 m. "þrepi" svo hæðarbreytingin í það heila er því 279 m. á þessari leið. Svo merkilegt sem það er þá liggur kanallinn þrisvar á brú yfir Moselle ánna, þar sem hún er ekki lengur skipgeng og tvisvar siglir maður í gegnum löng jarðgöng. Mestur hluti slússanna er sjálfvirkur og fá bátaskipstjórar fjarstýringu í hendur til að gangsetja ferlið í þeim. Reyndar eru sjálfvirku kerfin tvennskonar og verður hinu lýst þegar að því kemur. Þetta sjálfvirka kerfi virkar þannig að í 300 m. fjarlægð frá slússunni er box á staur á bakkanum og þegar maður kemur að því á maður að sjá ljósatöflu sem er við þann slússuenda sem er framundan. Nú beinir maður fjarstýringunni að boxinu og þrýstir á hnapp og þá blikkar gult ljós á því til merkis um að boðin séu móttekin. Á ljósatöflunni við slússuendann, sem að manni snýr eru þrjú ljósker á jafnarma þríhyrningsfleti. Lóðrétt eru tvö rauð ljósker en lárétt út frá neðra rauða ljóskerinu er grænt ljósker. Ef tvö rauð ljós loga samtímis er slússan biluð, ef eitt rautt logar er aðsigling bönnuð á meðan það logar. Logi eitt rautt og eitt grænt ljós samtímis þýðir það að slússan sé í vinnslu til að taka á móti manni. Græna ljósið eitt og sér er svo aðgangsljós um að sigla megi inn. Þegar inn í slússuna er komið eru svo tvær lóðréttar stangir eða súlur inni í rás í slússubakkanum, til að þær skagi ekki út úr honum og taki þannig pláss í slússunni. Önnur stöngin er blá en hin er rauð. Eftir að búið er að binda er tekið í bláu stöngina og henni ýtt upp og kemur þá bjölluhljómur og gul ljós fara að blikka fyrir ofan stöngina og á slússuhliðunum sem þýðir að ferlið er farið í gang. Þá lokast hliðið sem inn var komið og vatn byrjar að steyma inn ef maður er á uppleið en úr henni ef maður er á niðurleið. Þetta endar svo með því að slússuhliðin fyrir framan opnast, grænt ljós kviknar framundan og maður siglir út. Komi eitthvað fyrir er rauðu stönginni ýtt upp og sendir það neyðarmerki til slússustjórnarinnar. Að auki er svo beintengdur sími við slússuna til að ná sambandi við slússustjórnina, en sama stjórnstöðin er fyrir fjölda slússa. Það kom ávalt í hlut kvenpeningsins um borð að kippa súlunni upp og fengu þær því nafnið "súlumærin" sem það hlutverk höfðu með höndum.

Eins og að framan sagði vissum við auðvitað ekki fyrir út í hvað við værum að fara, hvort tíminn sem tæki að fara í gegnum hverja slússu mældist í klst. eða mín., en reynslan varð sú að þetta gekk svo hratt fyrir sig að meðaltíminn á slússu var um 15 mín.

Við leystum landfestar í Richardmenil snemma þennan morgun 20. ágúst, eða kl. 07:25 til að hafa daginn fyrir okkur. Byrjað var á að snúa bátnum og taka svo stefnuna suður canalinn sem teygði sig í smá bugðu inn í skógarþykkni sem lá alveg niður í bakkana beggja megin. Eftir tæpan km. kom fyrsta slússan (nr. 45) í ljós og þegar við vorum búin að binda til að láta lyfta okkur upp kom slússustrákurinn og rétti mér umrædda fjarstýringu (þeir telja slússurnar niður frá hæsta punkti þannig að þar sem við vorum á uppleið lækkuðu númerin). Nú vorum við sem sagt á eigin vegum með fjarstýringuna í höndunum. Við vorum einskipa enda snemma á ferð og framundan teygði sig canallinn, álíka breiður og þriggja akreina gata, þar til hann hvarf inn í þéttann trjágróðurinn. Þetta var þungbúinn dagur og rigningalegur í loftið, en það létti síðan til þegar á daginn leið. Það sem er svolítið einkennilegt er að þrátt fyrir að vélrnar urruðu í hægagangi niður í bátnum fann maður vel kyrrðina sem ríkti í þessu skógi vaxna sveitahéraði Frakklands. Skömmu síðar fór ég svo að keyra bara aðra vélina þar sem svo hægt varð að fara og naut maður þá enn betur sveitarinnar


Richardmenil, bær brattans

 

Richardmenil bæ í bratta  Richardmenil bær í bratta, sjáið kirkjuna efst 

Richardmenil er lítið sveitaþorp sem byggt er í mklum bratta í fjallshlíð og trónir þorpskirkjan hæst. Um 200 m. gangur er frá legukantinum að neðstu byggingum þorpsins, eftir göngustíg sem liggur yfir garsflöt og meðfram háreistum trjám á hægri hönd. Þennan sunnudag 19. ágúst þegar við komum þarna var frekar orðið kalt í veðri og himininn benti til þess að búst mætti við hressilegri rigningu innan tíðar. Þarna er ekki um höfn að ræða í þeim skilningi heldur er legukantur fyrir skemmtibáta meðfram Austur - bakka canalsins og með honum rafmagnstengi, vatnshanar, nestisbekkir og borð. Í sjálfu sér ósköp einfalt og snyrtilegt. Þegar við komum þarna ákvað ég að snúa bátnum og leggjast með stjórnborðs hliðina að þannig að við snérum í öndverða stefnu við það sem við vorum að fara. Ástæðan er sú að það er greiðara að fara frá borði og um borð frá stjórnborðshliðinni og þeim megin er líka tengingin fyrir landrafmagnið.

Fyrir framan okkur lá Hollenskur bátur og voru tvenn hjón á honum en skömmu eftir að við lögðumst kom annar bátur og lagðist aftan við okkur. Fór fólkið á honum að spyrja okkur hvernig hefði verið að fara í gegnum allar slússurnar, en af því að við snerum svona héldu þau að við værum á Norðurleið og værum því að koma úr þessum mikla slússukafla, sem við leiðréttum fljótlega.

Þegar búið er að sigla er eitt af því besta sem maður gerir að hreyfa sig. Því var ákveðið að ráðast til landgöngu þótt tilsýndar væri ekki mikið að skoða í þessum bæ og rigning væri í aðsigi. Þegar við komum upp að byggðinni komum við að "aðalgötu" og við hana á vinstri hönd var veitingastaður, harðlokaður og skilti þar í glugga sem sagði, samkvæmt okkar besta frönskuskilningi, að eigendur væru í fríi til 1. september. Það með fauk vonin í hvítvínsglas eða bjór og var því lagt á brattann og stefnt á kirkjuna. Allar götur voru mannlausar og enga hreyfingu að sjá. Eftir góða göngu upp snarbratta götu komum við loks að kirkjunni sem stóð frekar einmanalega yfir byggðinni á mótum himnaríkis og hins jarðneska þar sem allt líf virtist liggja í sunnudagsdvala. Einn ungur maður var að bjástra í garði við hlið kirkjunnar og spurðum við hann hvort ekki væri veitingahús opið á svæðinu. Hann hélt nú það og bennti okkur niður aðra götu en við vorum búin að klöngrast upp og sagði okkur að ganga niður hana, beygja síðan til hægri og ganga ca. 300 m. þá leið þá kæmum við að veitingahúsinu sem örugglaga væri opið. Þótt illur grunur legðist í mig þökkuðum manninum fyrir og lögðu af stað niður, frá kirkjunni lágu nefnilega allar leiðir í þorpinu niður, og vorum nú komin á umferðaræð sem var með örfáum búðum en öllum lokuðum. Þessi umferðaræð lá á milli borgarinnar Nancy og eitthvað annað, niður með suðurhlið þorpsins, en við höfðum klifrað það upp norðanvert. Þegar á jafnsléttu var komið, kom skilti sem vísaði á veitingatað til hægri inn "aðalgötuna" og var nú grunur minn ýskyggilega farinn að rætast, end komum við skömmu síðar að veitingastaðnum þar sem allir gestgjafar voru fríi. Við vorum búin að skvera þorpið upp og niður snarbrattar brekkurna, að leita að lokuðum veitingastað og vorum bara ánægð með gönguna þótt rigningin lægi í loftinu en nú steyptist hún niður að var því snarlega haldið um borð í skjól og því tekið rólega innanskips þennan eftirmiðdag og kvöld. Nýtt umhverfi og nýir staðir allt er það með sínum brag, en ákveðið var að fara snemma af stað næsta morgun.

Léttir ef réttur maður er fundinn

Það er sjúk sál sem skilur barn eftir í blóði sínu án þess að bjarga ef kostur er. Landsmenn, biðjum fyrir barninu og vonum að einlæg iðrun gerandans veiti honum þá fyrirgefningu sem hugsanlega geti læknað sálu hans.
mbl.is Maður í haldi, bíll í rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

113 Moselle yfirgefin og inn í Canal des Vosges.

 

Haust 2007 202 Strákur að loka hliði á slússu eftir að við fórum gegn. 

Fyrir ofan Toul var komið að endastöð siglingar upp fljótin úr norður hluta Evrópu. Sigling á Moselle að verða að baki en framundan Canal des Vosges, þröngur með óteljandi slússuþrepum, óþekktum hindrunum og um sveitir Frakklands sem við vorum þó búin að sjá forsmekkinn af. Í Toul vorum við komin í 200 m. y.s. og nú áttum við eftir að sigla á tiltölulega stuttum kafla upp í 360 m. hæð, yfir "hálendi" Frakklands og svo aftur álíka niður inn í Saône fljótið. Hámarkshraði er leyfður 6 km/klst. á þessari leið svo eins gott að gefa sér tíma. Eftir mótstraum í siglingum ársins 2006 og 7 var loksins að koma að því að fara í straumleysi og svo meðstraum aftur til sjávar. Í brjósti bærðist tilhlökkun og kvíði. Hvernig gengi "að troða sér í gegnum"hálendi Vosges? Hvernig skyldu þessar þröngu slússur fyrir skemmtibáta vera og virka, hver ofaní annari á köflum og flestar sjálvirkar? Allt kæmi það í ljós, en flestir sem við höfðum spjallað við sögðu þetta vera yndislega leið og afslappandi, en aðrir, sem betur fer fæstir, sögðu að þetta væri bölvað bras. Eitt var alveg víst. Kæmumst við ekki voru aðeins tveir kostir í stöðunni. Sigla alla leið til baka og til sjávar við Ermasund og svo sjóleiðina fyrir Pyreneaskaga og inn í gegnum Gibraltarsund, eða niður Mosel afur, smá spotta upp Rín, inn í Main fljótið, þaðan tengikanal í Dóná og eftir henni alla leið í Svartahaf. Þá yrðum við að gefa skít í mafíuna og bjóða henni byrginn.

Við leystum landfestar í Toul kl. 0810, sunnudaginn 19. ágúst og fikruðum okkur út um Alter Canal de l´Est. Þegar við komum að göngubrúnni sem nefnd er í pistli 112 sýndist mér hún enn lægri en daginn áður en undir fórum við með ýtrustu gætni. Ekkert hafði hækkað í sem betur fer og vorum við nú aftur komin út í Moselle.

Eftir 21 km. siglingu og eina slússu var komið að stáliðnaðarborginni Neuves - Maisons og ekki skartar hún fögru með sín stáliðjuver á fljótsbakkanum. Hérna var komið að síðustu slússunni fyrir alvöru flutningalegtur og fórum við í hana og var nú lyft um 7 m. Héldum við svo áfram í gegnum hafnarsvæði Neuves - Maisons með sínum miklu fjöllum af brotajárni sem beið eftir að fara í bræðsluofnana og skömmu síðar tók við svæði þar sem endurunnu stáli var staflað í miklar stæður. Samkvæmt leiðsögubókinni er sagt að þarna sé ævintýraheimur að liggja næturlangt því að sjá megi óteljandi strauma af glóandi stáli renna úr bræðsluofnunum til hinna ýmsu vinnslustiga. Við vorum hins vegar í björtu og sáum ekkert annað en ljótleika bræðslunnar og enn furðuðum við okkur á að það skuli vera ófrávíkjandi regla að verksmiðjur í Evrópu (og reyndar víðast) skuli vera forljótar og hrörlegar. Ómáluð hús, skítug, það sem er úr málmi undantekningalaust kolryðgað og flestir gluggar, ef ekki brotnir, þá svo grútskítugir að þeir þjóna engum tilgangi nema sem loftop, sem ekki þarf gler í.

Þegar komið var í gegnum höfnina var komið að slússu nr. 47 sem er við norður enda Canal des Vosges svo nú var ævintýrið að byrja og fengu við strax að finna fyrir breytingunni. Við vorum komin að fyrstu bátaslússunni með 3.5 m. hindrun. Nú varð að fella mastrið ef halda átti áfram. Sigldum við aðeins til baka þar sem ég kom bátnum fyrir á sem næst miðjum Canalnum og tók frú Lilja Ben við stjórninni og var lítið ánægð. Frú Lonnie var sagt að vera henni til fulltingis inni, alls ekki úti ef eithvað færi úrskeiðis. Var frú Lilju sagt að halda sig á miðjunni en við Örn vopnuðumst verkfærunum og réðumst til atlögu við rekkverkið og mastrið. Meðan við vorum að fella mastrið var ég með augun ekki aðeins á því sem við vorum að gera heldur líka með stöðu bátsins og gaf leiðbeiningar til frú Lilju af og til um að snúa stýrinu þetta eða hitt og gefa "púst" áfram eða afturábak með skrúfunum eftir því sem passaði.

Allt gekk þetta ljómandi vel og sýndi frú Lilja af sér mikla skipstjórahæfileika svo nú var haldið í slússuna.

Hér var allt með öðrum hætti en við áttum að venjast. Þegar við komum að slússunni, sem virkaði eins og lítill skápur miðað við þær sem við vorum búin að fara í gegnum, var rautt ljós logandi. Út úr litlum kofa kom unglingur og um leið kviknaði grænt ljós við hlið þess rauða sem þýðir "að undirbúa". Byrjaði hann síðan að snúa sveif til að opna annan helminginn af hliðinu á slússunni. Þegar hann var búinn að því gekk hann eftir henni endilangri, yfir innra hliðið sem er fjær og út með slússunni aftur að hinum helmingi hliðsins sem að okkur snéri og byrjaði að snúa sveifinni þar til að opna þann helming. Þegar því var lokið var slökkt á rauða ljósinu en græna ljósið logaði áfram og við máttum sigla inn.

Þegar inn var komið voru veggir slússunnar hærri en báturinn enda átti að lyfta okkur um 3 m. og engir pollar í slússuveggjunum eins og er í stóru slússunum. Þar sem slússustrákurinn til staðar varð þetta auðvelt því hann tók við spottanum og eftir að við vorum búin að binda fór hann að sveifinni til að loka þeim helming hliðsins sem var að baki. Gekk hann síðan eins og áður fyrir endann og aftur með hinu megin til að loka. Næst gekk hann aftur að hliðinu fyrir framan okkur og nú að enn annarri sveif sem hann notaði til að opna lokur til að hleypa vatni inn í slússuna svo við færum að lyftast. Þegar báturinn var svo kominn í rétta hæð miðað við vatnsborðið fyrir framan byrjaði svo gangur gæjans fram og aftur til að opna hliðin fyrir framan einn helming í einu. Þetta átti eftir að endurtaka sig mörgum sinnum í túrnum sem framundan var.

Nú vorum við komin í Canal des Vosges og skriðum framhjá bænum Messein og svo kom næsta slússa nr. 46, eftir aðeins 2 km. siglingu. Leikurinn var nú endurtekinn, en nú með tveim unglingsstúlkum sem sáu um sveifar og fyllingu. Þegar hún var að baki fórum við framhjá Canalnum til Nancy, sem við hefðum komið eftir hefðum við valið þá leið og svo kom legugarðurinn í Richardmenil þar sem við vorum búin að ákveða að liggja um nóttina. Bundum við þar kl. 13:10 eftir nýja reynslu sem lofaði ekki slæmu.


112. Áfram til virkisborgarinnar Toul

 

Borgarvirkið í Toul Borgarvirkið í Toul 

Við vorum svolítið löt laugadagsmorguninn 18. ágúst og fórum ekki frá Pompey fyrr en kl. 09:30 áleiðis til virkisbogarinnar Toul. Byrjuðum við daginn á að fara beint í fyrstu slússuna af fjórum sem fara þurfti í gegnum, en hún var rétt innan við bryggjuna, við sundlaugina sem nefnd var í síðasta pistli. Ég var búinn að ákveða að fara ekki í gengum Nancy, til að spara mér að fella mastrið og var að gæla við þann draum að losna alveg við það, sem voru að sjálfsögðu bjartsýnisórar. Enn breiddi Moselle úr sér og komu nú bæirnir hver af öðrum Liverdun, Aingeray og Villey - St. - Etienne sem helst ber að nefna áður en komið var inn í Moselle Canalisée og vorum við nú farin að sigla minna og minna eftir fljótinu og meira eftir Canölunum sem liggja samhliða því. Fljótið var að hætta að verða skipgengt vegna grynninga. Þegar við nálguðumst Toul komu eldsneytismálin enn upp í hugann þar sem hægt var að komast í eldsneyti í Port de France, skemmtibátahöfn Toul. En til að komast þangað þurfti að fara í gegnum sérstaka slússu þar sem fella þurfti mastrið svo að við héldum áfram og beint í aðalslússuna í Toul, sem er líka fyrir stærri skip. Fengum við strax "far upp um 4.4 m." í gengum hana. Fór ég nú til slússustjórnandans meðan verið var að lyfta okkur og spurðist fyrir um olíu til að taka á brúsum um borð. Sagði hann mér að sigla áfram u.þ.b. 2 km. og þá skyldi ég beygja til hægri upp í Alter Canal de l ´Est en þar væri olíustöð ekki fjarri sem ég gæti keypt olíu á bátinn. Þegar slússan opnaði fylgdum við leiðbeiningunum og sigldum upp að kanalmótunum, og beygðum þá inn í Alter Canal de l´Est. Fyrst kom umferðarbrú yfir canalinn en innan við hana kom svo göngubrú sem mér leist ekkert á að komast undir. Var farið á hægustu ferð og fólkið haft úti til að fylgjast vel með hvort við rækjum okkur uppundir. Rétt sluppum við undir og voru ekki nema fáeinir sentimetrar á milli. Nú þrengdist kanallinn verulega og voru litlir bátar bundnir við bakkann vinstra megin en hægra megin náði trjágróðurinn niður á bakkann. Loks sáum við olíustöðina birtast á vinstri hönd en þá bar svo við að hvergi var hægt að leggjast og var bakkinn girtur af með ókleyfri girðingu þar sem hraðbraut var beint upp af bakkanum. Áfram héldum við og leið ekki á löngu áður en slússan sem við fórum í gegnum skömmu áður birtist framundan og við hlið hennar bátaslússa. Þar sem þarna var garður sem hægt var að leggjast við ákváðum við að stoppa þarna og binda kl. 13:35. Var ákveðið að halda ekki lengra að sinni og taka þarna næturstað í Toul og gefa frat í alla olíutöku, enda ekki orðin neitt tæp. Vildi ég bara fylla vegna óvissunnar framundan og má geta þess að ekki tókst að taka olíu fyrr en 11 dögum síðar.

Daginn notuðum við svo til að skoða okkur um í borginni og versla inn. Þetta reyndist vera frekar dauf borg, eitt aðaltorg með lítilsháttar götulífi en lítið fyrir utan það. Að venju römbuðum við á helstu byggingar til að skoða s.s. dómkirkjuna sem var skelfilega hrörleg og angandi af fúkkalygt svo ekki var stansað legi þar. Þar við hliðina var ráðhús bæjarins og vildi svo til að brúðkaup var í gangi þegar við komum þar að og var verið að mynda brúðarparið og gesti framan við ráðhúsið þegar við stóðum þar við. Var bæjarferðinni svo lokið í stórmarkaði til að versla inn fyrir helgina sem var framundan, en við ákváðum að fara áfram daginn eftir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband