Sýniþörf?

Sýniþörf?

Þessi herramaður er e.t.v. haldinn hóflegri sýniþörf.

Ég hef löngu furðað mig á að ekki hafi lögreglan gert fleiri athugasemdir við háttarlag í þáttunum. Ég minnist ekki að hafa séð nokkurn af þáttum þessa Sveppa án þess að hann leysi niðurum sig. Skemmtigildi þess getur virkað e.t.v. einu sinni, en spurning er hvenær þetta er orðið að sýniþörf?

Því læt ég þessa sögu fylgja.

Fyrir um 60 árum fór óhugnanleg hryllingssaga eins og eldur í sinu um Reykjavík, “beri maðurinn”. Þessi maður huldi andlit sitt og læddist á dimmum kvöldum um garða að húsabaki, helst í Hlíðunum, og leitaði uppi glugga á jarðhæð eða í kjöllurum þar sem konur voru sjáanlegar innandyra. Fletti hann sig klæðum eftir að hann hafði vakið athygli þeirra á sér. Sagt var að konur hrylltu sig óskaplega þegar “beri maðurinn” barst í tal, án þess að getið væri hvort hrollurinn væri af skelfingu, spenningi eða sælu. Flestar höfðu konur landsins þá lifað við ógnir stríðsátaka og hernáms og því forhertar við sögur sem slíkar. Sögurnar um “bera manninn” blossuðu upp veturinn 1947 og 48, en lognuðust útaf þegar sumarnætur urðu bjartar. Þegar aftur dimmdi fór “beri maðurinn” að færa sig aftur upp á skaftið haustið 1949, með því að “flassa” frammi fyrir konum á stoppistöðvum Strætó, inni í Laugarnesi. Þá eins og nú þurfti þessi hegðun “bera mannsins” að fá fræðilegt heiti í dagblöðum þess tíma og var hann af fræðimönnum sagður vera “exhibitionisti”.

Eins og gefur að skilja voru allar sögur sem sagðar voru um “bera manninn”, sannar sem lognar, ofboðslega spennandi fyrir okkur pollana sem þá voru að alast upp í Reykjavík. Töldum við okkur sjálfskipaða til að fletta ofan af kauða og lögðumst út til njósna á kvöldin í húsagörðum og nærri stoppistöðvum Strætó og lá hver einasti maður milli sextán og níræðs, sem ekki var pabbi einhvers okkar, undir sterkum grun um að vera “beri maðurinn”. En ekki var nóg að gruna, það varð að standa “bera manninn” að verki (en okkur fannst það heiti miklu flottara en “exhibitionisti). Reyndum við því að fela okkur í runnum eða bakvið drasl í nánd við glugga þar sem sjá mátti konur eða stúlkur innifyrir því þar myndi berun þess seka helst eiga sér stað. Það eina sem hafðist upp úr þessu kvöldnjósnum var kvef eftir kalsöm kvöld undir runnum í bakgörðum eða hrufl, mar og rifin föt eftir æðislegan flótta undan húsbændum sem heyrðu þruskið í okkur pottormunum, við glugga heimasætnanna, og töldu að þar væri “bera mannðurinn” sjálfur á ferð. Því miður endaði þessi spennutími æskunnar með því að löggan náði “bera manninum” við iðju sína á stoppistöð Kleppsvagnsins, við kúa- og hænsnabúið Kirkjuból, sem var öndvert við Laugarnesveg 38, þar sem ég átti þá heima. Aldrei kom fram hvort þessi exhibitionisti væri með reista súlu í sýningum sínum eða ekki. Tíu árum síðar beraði svo breskur togarasjómaður bossann framan í varðskipsmenn í þorskastríði og þótti það svo mikil hneisa að fretað var lausu skoti á togarann úr fallbyssu varðskipsins til þess að gaurinn hysjaði upp um sig.

Því rifja ég þessar sögur upp núna?

Jú, 1947 til 49 var exhibitionismi talinn særa blygðunarsemi fólks og þótti í raun argasti dónaskapur. Því var “beri maðurinn” hundeltur fyrir 60 árum af löggum og spennuþyrstum pottormum þar til hann náðist. Ennþá er það svo að nektarsýniþörf er talin til “óeðlis” og því á m.a. að banna kvenkyns exhibitionistunum hans Geira á Goldfinger að dansa við reista súlu,  þótt þær geri það á upplýstu sviði innandyra án þess að troða nekt sínni uppá þá sem ekki vilja. Sögurnar um “bera manninn” ganga þó sérstaklega í endurnýjaða lífdaga eftir að “Strákar” fóru að nýta sér ítrekað exhibitionisma sinn til að skemmta landsmönnum með því að senda nekt sína inn í stofur þeirra með ónefndri sjónvarpsstöð. Hefur því hagur þeirra sem vilja sýna sig bera vænkast verulega, frá því að beri maðurinn þurfti að paufast í sínum pervertisma um garða í myrkri og trekk, með því að geta nú fengið þörf sinni fullnægt í upphituðu studio.

 

 


mbl.is Ekið á móti umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki betra að beru mennirnir fái útrás fyrir kenndir sínar þar sem allir sem vilja geta annað hvort fylgst með þeim eða ekki, frekar en að þeir séu að paufast í görðum landsmanna og ræna fólk heimilisfriðnum, öllum til óþurftar?

Hólímólí (IP-tala skráð) 13.10.2010 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 53469

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband