Gætum við þetta nú?

01_tf-sif_i_flugtaki.jpgBrandur GY 111 strýkur og er eltur uppi.

Myndin er af TF SIF, sem var DC4 flugvél Landhelgisgæslunnar á 7. áratugnum.

 Samvinna á milli tækja Landhelgisgæslunnar var og er algeng. Flugvélar geta ekki „tekið“ landhelgisbrjóta, bara staðið þá að broti. Hlýði brotaþolinn ekki tilmælum frá flugvél verður varðskip að fara og taka hann. Flugvél, að undanskyldum þyrlum, bjargar engum úr hafsnauð, en hafa margfalt víðara leitarsvið en skip og geta því fyrr fundið skip, bát og menn í hafsnauð. Þyrlu eða skip þarf svo til að bjarga. Sagan af Brand GY 111 er gott dæmi um fjölþætta samvinnu á þessu sviði, samvinnu tveggja flugvéla, tveggja varðskipa þ.m.t. Óðins og fiskiskipa á hafinu.

TF SIF, Skymasterflugvál Landhelgisgæslunnar var á eftirlitsflugi suðvestur af landinu 24. apríl 1967 og kom þá að hópi togara við fiskveiðilögsöguna suðvestur af Eldey. Var kl. um 1530 og gæsluflugið búið að standa í tæpa 5 klst. Því var farið að ganga á eldsneytið, enda ekki farið í loftið með fulla tanka. Tveir togaranna mældust innan markanna, Dorinda FD 22 og Brandur GY 111, og var Brandur innar en Dorinda, eða 3.5 sml. innan fiskveiðimarkanna. Var Brandi nú gefið stöðvunarmerki og skipað að halda til Reykjavíkur til að standa fyrir máli sínu, sem hann sinnti engu. Var því kallað í næsta varðskip sem var Þór, til að koma á vettvang og handtaka skipstjórann og færa til hafnar. Var strax ljóst að hann yrði ekki kominn á staðinn fyrr en kl. 2200 og að eldsneyti TF SIF yrði ekki nóg til að bíða svo lengi. Var því kölluð til önnur flugvél, sem var leigð og fór skipherra frá Landhelgisgæslunni með sem fulltrúi Landhelgisgæslunnar. TF SIF hringsólaði því yfir togaranum þar til TF AID leysti af við eftirförina kl. 1749. Kom Þór síðan að Brandi kl. 2200 og tóku varskipsmenn yfir stjórn togarans og sigldu honum til Reykjavíkur. Kom Þór með togarann til Reykjavíkur kl. 0600 að morgni 25. apríl. Þegar hér var komið sögu höfðu tvær flugvélar og eitt varðskip komið að málinu og ekki annað að sjá en að það væri komið í eðlilegan farveg sem sakamál fyrir dómstólum.

En aðfararnótt 29. apríl varð heldur betur breyting. Skipstjóri Brands lokkaði lögreglumennina tvo sem voru á verði um borð í togaranum, inn í skipstjóraíbúðina og læsti þá inni. Voru síðan landfestar leystar og stungið af úr höfninni með lögreglumennina. Þá var kl. 0100 og sigldi Brandur óáreittur út úr höfninni, framhjá varðskýli Landhelgisgæslunnar á Ingólfsgarði og hraðbát frá Landhelgisgæslunni sem var við æfingar um nóttina í hafnarkjaftinum. Töldu Gæslumenn að réttarhöldum væri lokið og togaranum frjálst að fara gegn tryggingu sem var alvanalegt.

Það var ekki fyrr en 5 tímum seinna, eða kl. 0600 um morguninn sem flóttinn var uppgötvaður þegar lögreglumenn komu niður á hafnarbakkann til að leysa félaga sína af. Og þá fór allt á annan endan. Landhelgisgæslan var látin vita og kallaði stjórnstöð hennar strax í Óðinn sem var þá staddur 13 sjóm. vestur af Stafnesi. Þegar Óðinn fékk skilaboðin fóru skipherra og stýrimenn strax að velta því fyrir sér hvert hann myndi líklegast hafa stefnt. Var nú kallað í skip og báta í Faxaflóa og þeir beðnir að upplýsa hvort orðið hafi vart við skipaferðir upp úr miðnætti frá Reykjavík. Barst svar frá tveim bátum. Annar þeirra, sem var á sunnanverðum flóanum sagðist ekki hafa orðið var við neinar skipaferðir, en hinn var með upplýsingar sem þóttu geta leitt Óðinn á slóðina. Sögðu bátsverjar frá því að þeir hafi verið staddir skammt vestur af Akranesi upp úr kl. 0200 um nóttina þegar þeir sáu á radar að skip kom, sem var ljóslaust og stefndi framhjá þeim í norðvestlæga stefnu. Ályktuðu Óðinsmenn, að fengnum þessum upplýsingum, að skipstjóri Brands hafi talið of áhættusamt að fara venjulega siglingaleið fyrir Garðskaga og Reykjanes, þótt farin yrði djúpleið og því ákveðið að stefna vestur í haf til að byrja með og síðan mjög djúpt af landinu suður í haf, eða norður fyrir með ísröndinni, þar til hægt væri að setja stefnuna á Bretland. Alla vega vildi hann auðsýnilega komast sem allra fyrst út úr 12 sjóm. lögsögunni.

Brandur var með 5 klst. forskot miðað við þessar upplýsingar, sem þýddi 50 til 60 sjóm. radius frá þeim stað sem hann sást síðast. Reyndu Óðinsmenn nú að reikna út vænlega stefnu út frá þessum mjög svo ótraustu upplýsingum og var svo sett á fulla ferð í norðvestlægar stefnur.

TF SIF fór í loftið kl. 0715, til leitar að Brandi líka og var henni beint djúpt suður á Selvogsbanka og látin svo leita vestur og svo norður með, djúpt undan landi. Tafðist flugvélin nokkuð við að fara að hverjum togara fyrir sig út af Eldey, til að athuga hvort Brandur leyndist meðal þeirra, en án árangurs.

Kl. um 1100 sást endurvarp á radar Óðins af óþekktu skipi sem viðist vera um 30 sjóm. suðvestur af Malarrifiog var þá tafarlaust reiknuð út „interception“ stefna á endurvarpið og henni síðan fylgt. Kallaði loftskeytamaður Óðins í TF SIF og lét vita af endurvarpinu og flaug flugvélin nú í átt að því og kom hún yfir Brand kl 1128. Var þá búið að mála yfir einkennisstafi og nafn togarans til að dulbúast, en áhöfn flugvélarinnar gat staðfest við Óðinn að hér væri Brandur kominn. Var hann þá staddur um 40 sjóm. suðvestur af Snæfellsnesi (Malarrifi). Kl. 1148 var Brandur orðinn sýnilegur frá Óðni. Var þá byrjað að gefa honum stöðvunarmerki með ljósmorsi og stöðvaði Brandur litlu síðar enda leikurinn tapaður. Kom Óðinn síðan að togaranum kl. 1210 og setti þrjá menn um borð, mótspyrnulaust. Var skipstjóri Brands og yfirvélstjóri teknir um borð í Óðinn og fengu ekki að fara um borð í Brand aftur.Var Brandi GY 111 því næst siglt til Reykjavíkur undir stjórn II. stýrimans Óðins og tveggja háseta og komu Brandur og Óðinn til Reykjavíkur kl. 2100 um kvöldið eftir æsilegan eltingarleik. Skipstjóri Brands kom úr þessari tilraun til flótta með fleiri kærur en hann var að flýja, við bættust kærur um mannrán og brot á alþjóða siglingalögum, með því að hylja nafn og númer skips.

Geta má þess í lokin að 2. apríl kviknaði svo í lifrargeymslu Brands, þar sem hann lá við Faxagarð, og varð mikill eldur af sem slökkviliði Reykjavíkur tókst að slökkva eftir þó nokkra baráttu.


mbl.is Óvíst að Landhelgisgæslan geti leigt þriðju þyrluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Áhugaverð saga. Í færslu þ. 18.ágúst (http://rlingr.blog.is/blog/rlingr/entry/1086215/) velti ég upp þeirri hugmynd að nota aðra flugrekendur en Landhelgisgæsluna til einfaldari sjúkrafluga, þar sem ekki er krafist hífingarvinnu. Sérstaklega þegar um áhafnaskort er að ræða. Sé ekki hag LHG batna nokkuð á næstu árum, því miður, þannig að ég held að menn ættu að skoða þetta ef það hefur ekki þegar verið gert.

Erlingur Alfreð Jónsson, 12.10.2010 kl. 10:50

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Fróðleg frásögn nafni.

Mig minnir að hafi reynt á fyrir dómi í þessu máli hvort um samfellda eftirför hefði verið að ræða. Þegar lögregla, þ. á m. starfsmenn Landhelgisgæslu standa einhvern að lögbroti þá þarf eftirförin að vera án þess að hún rofni uns viðkomandi brotamaður er handtekinn. Þarna komu tvær flugvélar við sögu í eftirförinni og mig minnir að Hæstiréttur hafi talið það vera fullnægjandi.

Gömul sakamál eru bráðskemmtileg lestrar, kannski öllu fremur fróðleg. Í þessu tiltekna dæmi hefði lögbrotum í dag ekki verið eins létt að stinga af með tvo lögreglumenn um borð. Tæknin er orðin gríðarlega breytt.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 13.10.2010 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 53469

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband