Færsluflokkur: Lífstíll

Baráttan fyrir lífinu

_DSC0476 

 "Klukkan mun hafa verið um hálf þrjú síðdegis á laugardag þegar Mummi fékk á sig mikið brot. Skipstjórinn var í brú, tveir menn voru á framþilfari við spilið og einn í ganginum undir stýrishúsinu stb. megin. Hinir tveir voru niðri í lúkar. Skyndilega kom brot á bátinn og hann lagðist á hliðina. Enginn tími gafst til að losa gúmmíbát eða ná í björgunarvesti. Allir skipverjar að matsveininum undanskyldum komust upp á hlið stýrishússin þar sem báturinn maraði í hálfu kafi. Þrem mínútum eftir að brotið kom á bátinn var hann sokkinn og mennirnir svamlandi í sjónum. Þeir voru fimm en einn hvarf strax og þeir voru komnir í sjóinn og annar skömmu síðar beint fyrir augunum á þeim þrem sem eftir voru. Þeir voru búnir að svamla 10 til 15 mín. í sjónum þegar bjarghring skýtur skyndilega upp og þeir ná honum en þá aðeins tveir eftir og orðið óskaplega kalt. Skyndilega sáu þeir kistu sem skotið hafði upp en nú magnaðist spenna því að um tvær gat verið að ræða kistu utanum björgunarbátinn eða matarkistu. Létti þeirra verður ekki með orðum lýst þegar þeir komust að því að þetta var kistan með björgunarbátnum. Þeir voru orðnir mjög þrekaðir þegar þeir náðu til bátsins. Erfitt reyndist að draga línuna út og næstum ógjörningur að kippa það fast í að báturinn blési upp. En það tókst og fyrir ofurmannlegt harðfylgi tókst þeim að brölta upp í bátinn í stormi og stórsjó hálf dauðir úr vosbúð eftir hálftíma volk í sjónum. Á næstu 29 tímum sem þeir voru að hrekjast um sjóinn, suður með Vestfjörðum og á haf út undan Breiðafirði telst þeim til að bátnum hafi hvolft undir þeim 5 til 6 sinnum og alltaf tókst þeim að rétta hann við aftur. Þeir voru búnir að sjá flugvélina tvisvar fara framhjá og skjóta blysum án þess að áhöfnin sæi þau, en í þriðja sinn sem vélin sást koma sá áhöfnin neyðarblysin frá björgunarbátnum.


Lífbátur af Mumma finnst.

SymasterinnSama gerð og TF SIF 1964 

Þegar ég tók við vaktinni kl. 12:30 var komið skaplegt veður og vorum við í reglulegu sambandi við flugvélina sem komin var nokkuð suður af okkur þótt hún væri að sikk sakka eftir 20 sml. löngum fluglínum sem alltaf lengdust. Ákveðið var að hún myndi leita fram í myrkur, þannig að þarna var kapphlaup við tímann því litlar líkur voru taldar að eftirlifendur ef einhverjir fyndust myndu lifa af aðra nótt. Vaktin leið og II. stýrimaður tók við. Þegar ég leysti hann af í kvöldmat milli kl. 18:00 og 18:30 hafði ekkert fundist og farið að styttast í að leit flugvélarinnar yrði hætt vegna myrkurs. Var hún komin suður fyrir miðjan Breiðafjörð og sóttist hægt því hver fluglína var orðin um 11 mín. löng. Töldum við orðið útilokað að gúmmíbát hefði getað rekið svona langt á rúmum sólahring svo að frekar var litið svo á að leit fram í myrkur væri réttlæting fyrir samviskuna.

Kl. 18:22 kom skyndilega kall í talstöðina sem gjörbreytti öllu. ""Varðskip, Sigurður Ingi Friðrik, við höfum séð neyðarblys og gúmmíbát á reki 22 sml. í 241° frá Bjargtöngum og munum hringsóla yfir honum þar til hjálp berst frá sjó". Kallaði SIF síðan í nærstödd skip og fékk svar frá breska togaranum Loch Milford, sem sagðist hífa strax og halda á staðinn. Áætlaði hann að vera þar eftir u.þ.b. 2 klst.

Það eru ekki bara eldklárir fagmenn heldur líka afburða listamenn sem halda stöðugri sýn á agnarsmáum gúmmíbát á kolsvörtu hafi þegar náttmyrkur er skollið á, á sama tíma og þeir þeytast sjálfir á 120 hnúta hraða í um 200 feta hæð, hring eftir hring í tvær klukkustundir samfleytt. Þrátt fyrir að varpað sé út ljósbaujum og reykbombum er þetta hámark einbeitingarhæfninnar. Vélin hoppar og skekst til í ókyrrðinni yfir haffletinum, stundum getur vængurinn farið fyrir útsýnið að gúmmíbátnum, passa þarf flughæðina, hraðann, stefnurnar og að allar græjur vinni rétt, og radarinn er ónothæfur því vélin er aldrei bein í loftinu. Loran C eða GPS þar sem læsa má inn stað sem "waypoint" og ýta svo á takka sem segir "go to" var ekki til.

Þegar SIF tilkynnti fundinn á gúmmíbátnum var sett á fulla ferð á Óðni og stefnt beint á staðinn. En eftir að í ljós kom að Loch Milford yrði á fyrri til kom okkur saman um að Loch Milford innbyrti mennina og kæmi svo undir Látrabjarg þar sem við tækjum við þeim. Loch Milford kom svo að gúmmíbátnum kl. 20:08 og innbyrti tvo menn. Þá var ljóst að fjórir höfðu farist. Hittum við svo Loch Milford undir Látrarbjargi og kl. um 23:30 fór ég á gúmmíbát að sækja skipbrotsmennina og lífbát þeirra sem togarinn hafði innbyrt líka.

Þegar við komum til Flateyrar með skipbrotsmennina, gúmmíbátinn og brakið úr Mumma, aðfararnótt mánudagsins 12. október, voru tilfinningar blendnar milli fagnaðar og sorgar. Þótt það yljaði að sjá fögnuð þeirra sem tóku á móti skipbrotsmönnunum sem heimtir voru úr helju þá fylltist maður samkennd með þeim sem horfðu hnípnir á brakið sem sett hafði verið á bryggjuna og áttu ekki von í endurkomu sinna. Að auki var ekki heldur vitað um afdrif fjögurra manna áhafnar Snæfellsins sem einnig var frá Flateyri.

Þetta slys varð svo til þess að lagst var í ýtarlegar rannsóknir á reki gúmmíbáta því þarna sást að bátinn með mennina tvo hafði rekið 64 sml. á þeim 29 tímum sem liðu frá slysinu og þar til þeir fundust, eða með rúml. 2 sml. hraða á klst. Þótti þetta með ólíkindum löng vegalengd.

Við komum aftur til Ísafjarðar mánudaginn 12. okt. og voru sérfræðingarnir þá komnir að sunnan og réttarhöldum yfir Prince Philip haldið áfram Úrskurðuðu sérfræðingarnir að tæki Óðins væru rétt innan þeirra skekkjumarka sem framleiðandi gefur upp. Féll dómur yfir skipstjóranum seinna þann dag. Lögfræðingarnir tveir sem fóru með í leitina lifðu af volkið og sjóuðust nokkuð. Í ferðinni lærðu þeir á eigin skinni vinnubrögð varðskipsmanna í óvæntum uppákomum. Störfuðu þeir báðir um árabil sem sækjandi annars vegar og verjandi hins vegar í fjölmörgum togaratökum eftir þetta.

Var haldið beint til Reykjavíkur eftir að réttarhöldunum lauk á Ísafirði, en varðskipið Ægir var komið að leitinni að Snæfelli ásamt TF SIF og mörgum bátum. Daginn eftir, 13. október settist ég svo á skólabekk í Lordinum.

Með Mumma fórust fjórir menn og fjórir með Snæfellinu.


Mummi kemur ekki fram

Odinn1Framhald frá í gær: 

Laugardagurinn 10. okt. leið með snarvitlausu veðri frá hádegi og fram eftir kvöldi og kl. 03:00 aðfararnótt sunnudagsins 11. okt. fengum við skeyti um að m/b Mummi frá Flateyri væri týndur, en síðast heyrðist frá bátnum kl. 12:30 á laugardeginum og var hann þá að draga línuna um 9 sml. NV af Barða. Reyndar fréttist líka að Snæfellið frá Flateyri væri einnig týnt, en það var á leið frá Akureyri til Flateyrar og hafði síðast heyrst til þess í Húnaflóa. En okkur var ekki til setunar boðið, út skyldi haldið til leitar og það strax. Var boðum um það komið til dómara og lögmanna ásamt því að við myndum gefa "frat" í allar takmarkanir á notkun siglingatækja. Þegar verjandi fékk boðin, ný vaknaður og um hánótt, ætlaði hann í fyrstu að malda í móinn en þegar hann hafði áttað sig á alvarleika málsins hrökk út úr honum "ég fer með". Fulltrúi saksóknara fékk svo sömu boð og að verjandi hafi ákveðið að fara með skipinu í leitina, til að fylgjast með að við færum ekki að "gramsa" eitthvað í tækjunum og tók samstundis ákvörðun um að fara líka með. Því voru óvænt tveir lögfræðingar um borð þegar landfestum var sleppt kl. 03:50, sem trúlega höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru að fara útí, því ferð um borð í varðskipinu Óðni á fullu í haugasjó út á leitarsvæði var eitthvað sem "farþegum" var ekki að jafnaði boðið uppá. Óðnn var kröftugt skip en einnig mjög stífur, þannig að í stað þess að velta sér á báru, eins og skip eiga að gera þegar þeim er beitt af alúð góðrar sjómennsku, þá rótaðist hann í hverja báru "bölvandi og ragnandi, eins og naut í flagi", þegar hraustlega þurfti að keyra, eins og nú var gert.

Strax á Prestabót var skipið sett á fulla ferð. Þétt snjómugga sá til þess að ljósin í Ísafjarðarbæ hurfu svo til samstundis í sortann afturundan. Farið var út með Hnífsdal, Óshlíð, Bolungarvík og Stigahlíð, sem voru ósýnileg með öllu nema sem græn og gul glóð á radarskermum stjórpallsins. Þegar farið var fyrir Bolafjall var byrjað að mæta úthafsöldunni sem leiddi inn með Stigahlíðinni. Veðrið var að ganga niður en sjórinn þurfti lengri tíma til að jafna sig. Þegar hér var komið var ég steinsofnaður niðri í káetu III. stýrimans, við þungan nið vélanna og snögga kippi skipsskrokksins þegar aldan var að klappa Óðni um kinnung.

Ég glaðvaknaði þegar slegið var af vélunum um átta leytið um morguninn. Við vorum komnir á þann stað sem síðast var vitað um Mumma og leitin hafin suður á bóginn. Ákvað ég að klæða mig og fara í morgunmat í messanum þótt aðeins þriggja tíma svefn væri að baki. Að fá bacon og egg, sem aðeins var á sunnudagsmorgnum, var munaður sem ég vildi ekki sleppa. Ekkert hafði sést til lögfræðinganna, sem hurfu til koju skömmu eftir að við fórum frá Ísafirði, en fréttir hermdu að verjandinn væri illa haldinn af sjóveiki en saksóknari bæri sig skömminni betur. Veður var orðið ágætt og hreyfing lítil á rólegu lensi suður með fjörðunum. Kl. 10:30 var siglt fram á brak sem við nánari skoðun var, svo ekki var um villst, úr m/b Mumma. Var staður þess 11.7 sml. frá Kópanesi og 8.3 sml. frá Blakk. Var það talsvert sunnar en sá staður sem Mummi hafði verið þegar hann hafði samband kl. 12:30 daginn áður. Ljóst var nú að hér hafði orðið harmleikur og eina vonin til að menn fyndust á lífi að þeir hefðu komist í lífbát. Var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynnt um fundinn og skömmu síðar fór gæsluflugvélin TF SIF í loftið til leitar. Leitinni var hagað þannig að dregin var lína frá þeim stað sem brakið fannst, undan NA vindstefnu sem ríkt hafði frá skipstapanum þ.e.a.s. til SV. Síðan voru flognar línur 90° á hana fram og aftur, með upphafslínu um fundarstað braksins. Voru hafðar 2 sml. milli lína og þær lengdar visst eftir því sem fjær dró upphafslínunni, þannig að leitarsvæðið varð "trapisulagað" með toppinn í upphafslínu leitarinnar. Eftir að við höfðum innbyrt brakið, sem tók svolítinn tíma, sigldum við svo á hægri ferð eftir miðlínu trapisunnar.


Geturðu ekki logið vélina niður?

Franhald frá í gær. 

odinnDaginn eftir, 7. október, var réttarhöldum framhaldið og stefndi allt í að þeim lyki þann dag, en þá setti verjandi allt úr skorðum. Hann krafðist þess að dómkvaddir sérfræðingar yrðu tilnefndir til að kanna áreiðanleika fjarlægðarmælinga á Sperry radar Óðins sem og miðunarnákvæmni Sperry gyróáttavitans. Þessa menn varð að fá frá Reykjavík og gerði verjandi nú þá kröfu að radar og gyróáttaviti skipsins væru ekki snertir af okkur og innsiglaðir svo tryggt væri að við gætum ekki "hringlað í tækjunum" til að laga skekkjur ef einhverjar væru. Í sjálfu sér hefði þetta verið í lagi á flestum öðrum stöðum á landinu, en nú var hann lagstur í snjókomu með NA átt á Ísafirði svo allt flug lá niðri (gárungarnir segja reyndar að NA áttin sé viðloðandi í 300 daga á ári á Vestfjörðum).

Það liðu miðvikudagur, fimmtudagur, föstudagur og laugardagur 10. október rann upp og ekkert flogið. Það er svo sem ekki í kot vísað fyrir varðskipsmenn að liggja á Ísafirði, en svona löng reiðaleysisbið var farin að taka á taugarnar. Til að mynda var flugradiomaðurinn á Ísafjarðarflugvelli ný hættur í starfi sem loftskeytamaður hjá Landhelgisgæslunni og því litinn sem "einn af okkur". Við leyfðum okkur því að gantast  við hann, hvort hann væri ekki til í að "ljúga næstu vél niður" með SAS liðið (en það voru "sérfræðingar að sunnan" kallaðir) þótt skyggnið væri eitthvað minna en leyfilegt var fyrir aðflug. Þannig var að úti í Hnífsdal var flugmálastjórn með radar sem flugradíomaðurinn sat við þegar flugvélar voru að koma í slæmu skyggni, til að leiðbeina þeim niður í Djúpið eftir að þær höfðu flogið yfir radiovitann í Ögri í ákveðinni lágmarkshæð. En um leið og hann var búinn að leiðbeina þeim í sjónflug niðri í Djúpinu, sem einnig varð að gerast í ákveðinni lágmarkshæð, hentist hann út í bíl og keyrði eins og andskotinn væri á hælunum á honum inn í flugturninn á Ísafirði og "kjaftaði" svo vélina áfram í aðflug og lendingu á vellinum. Tekið skal fram að flugradíómaðurinn lét ekki freistast.


Tækin sögð skökk.

Þessi pistill er framhald pistilsins sem ég skrifaði 3. maí s.l. og heitir Prince Philip tekinn.

VS Odinn

Í  pistlinum "Prince Philip tekinn" lofaði ég að segja frá áframhaldi þess máls, enda um ýmislegt sérstakt. Á þessum tíma var stafræna (digital) tæknin að gægjast upp á yfirborðið, þökk sé m.a. brjáluðu geimferðarkapphlaupi stórveldanna sem byggðist á að leiðsögu- og stýritæki væru hraðvirk, lauflétt og tækju "ekkert pláss". Kennedy Banadaríkjaforseti hafði sett það markmið að senda menn til tunglsins fyrir lok áratugarins en þrem dögum eftir að við tókum Prince Philip (1964)  skutu Rússar 3 mönnum á braut um jörðu. Fengu "kanarnir hland fyrir hjartað" af ótta við að vera að tapa því kapphlaupi. Þróun rafeindatækninnnar í leiðsögu- og stýritækni skipa og flugvéla, var einnig mjög hröð þótt sú bylting sem stafræna tæknin hefur leitt til nú væri ekki komin fram. Ástæðan fyrir því að ég get þessa í formála er að með útfærslu landhelginnar í 12 sjóm. varð radarinn eitt mikilvægasta staðsetningartækið við togaratökur þess tíma þar sem "átakasvæðið" var komið fjær landi, auk þess sem radarinn gaf möguleika á að staðsetja skip í náttmyrkri og slæmu skyggni. Sextantinn, mið og miðanir í björtu og góðu skyggni voru að missa gildi sitt þar sem bunga jarðar skyggði á sýn til þekktra mælipunkta í landi, vegna aukinnar fjarlægðar. Stutt var í að Loran C kæmi á almennan markað og þótt við hefðum Loran A var hann ekki talinn nógu nákvæmur. Þessi togarataka markaði því þau sérstöku spor að í réttarhöldunum sem fylgdu var vörnin byggð á að véfengja annars vegar mögulega sjónarlengd og hins vegar næmni og áreiðanleika radars og gyrokompáss, sem staðsetningarnar byggðust á.

Við lögðum Prince Philip utan á Óðinn þar sem hann var lagstur við hafskipabryggjuna á Ísafirði um kl. 05:00, morguninn 6. október 1964. Það var logn inni á Skutulsfirðinum þennan morgun, þótt hann væri orðinn hvass úti á Djúpinu, og ljósin í bænum spegluðust í haffletinum inni á Pollinum. Lögreglumaður kom um borð í Prince Philip og tók við varðstöðu um borð,  en við fórum yfir í Óðinn þar sem mín beið vinna í lokafrágangi skýrslunnar með félögum mínum. Að því loknu kom kærkomin hvíld fram að hádegi.

Skipherra Óðins lagði kæruna fram í sakadómi Ísafjarðar upp úr hádegi þennan dag og gaf við það tækifæri skýrslu fyrir dómnum. Frá Reykjavík voru mættir verjandi togaraskipstjórans og fulltrúi ríkissaksóknara, en þetta var í fyrsta skiptið sem ríkissaksóknari sendi fulltrúa sinn til að sækja mál gegn breskum togaraskipstjóra. Dómur sem féll nokkrum dögum áður í hæstarétti (30. sept. 1964), vegna togaratöku fyrr á árinu, gaf tóninn um auknar kröfur um sönnunarbyrði og "protokolla" í framkvæmd mælinga og aðfara að meintum lögbrjótum á mörkum alþjóðlegs hafssvæðis og lögsögu strandríkja.

Verjandinn krafðist strax frávísunar á eftirfarandi forsendum: Í fyrsta lagi að skipstjórinn, William Rawcliffe, hafi ekki átt möguleika á að sjá stöðvunarmerkið frá okkur, í öðru lagi að skekkja í fjarlægðarmælingu radarsins hafi getað verið meiri en 5% skekkjumörkin sem framleiðandi gefur upp, þar sem fjarlægðarnákvæmnin hafi ekki verið athuguð fyrir hverja mælingu (fjarlægðarmælirinn var athugaður fyrr um kvöldið og reyndist réttur) og í þriðja lagi að Sperry gýróáttavitinn hafi getað verið með meiri skekkju en sú 1.5° sem framleiðandi gefur upp sem eðlileg skekkjumörk.

Einnig véfengdi verjandi að við hefðum getað séð togljós á togaranum þegar 7 sml. voru milli skipanna. Til þess að sannreyna að stöðvunarmerkið gæti hafa sést um borð í Prince Philip mældum við, frá yfirborði sjávar, annars vegar augahæð manns með morslampa um borð í Óðni og hins vegar augahæð skipstjórans Williams Rawcliffe um borð í togara sínum. Einnig mældum við hæð efra mastursljóss Óðins og hæðina á togljósi togarans. Hæð morslampans var 7.6 m. sem gefur hafsbrúnina í 5.9 sml. fjarlægð og augahæð skipstjóra Prince Philip var 5.3 m. sem gefur hafsbrún hans í 4.8 sml fjarlægð. Því átti skipstjóri Prince Philip fræðilega að geta séð stöðvunarmerkið í 10.7 sml., en við höfðum byrjað að gefa stöðvunarmerkið í 8.5 sml. fjarlægð frá togaranum. Einnig kom í ljós að hæð togljóssins á togaranum var 14 m. sem gefur hafsbrúnarfjarlægð 7.9 sml og augahæð okkar í Óðni 7.6 m. með hafsbrúnarfjarlægð 5.9 sml. þannig að togljósið gátum við fræðilega séð í 13.9 sml., en samkvæmt skýrslunni sáum við það þegar 7 sml. voru í togarann. Fræðilega stóðust því þessir þættir fyllilega og rúmlega það.

Daginn eftir, 7. október, var réttarhöldum framhaldið og stefndi allt í að þeim lyki þann dag, en þá setti verjandi allt úr skorðum. Hann krafðist þess að dómkvaddir sérfræðingar yrðu tilnefndir til að kanna áreiðanleika fjarlægðarmælinga á Sperry radar Óðins sem og miðunarnákvæmni Sperry gyróáttavitans. Þessa menn varð að fá frá Reykjavík og gerði verjandi nú þá kröfu að radar og gyróáttaviti skipsins væru ekki snertir af okkur og innsiglaðir svo tryggt væri að við gætum ekki "hringlað í tækjunum" til að laga skekkjur ef einhverjar væru. Í sjálfu sér hefði þetta verið í lagi á flestum öðrum stöðum á landinu, en nú var hann lagstur í snjókomu með NA átt á Ísafirði svo allt flug lá niðri (gárungarnir segja reyndar að NA áttin sé viðloðandi í 300 daga á ári á Vestfjörðum).

Framhald:


Gullmoli dagsins

 

Gullmoli dagsins um ICESAVE málið hraut af vörum lítillar stúlku sem stödd var á samstöðufundinum á Austurvelli þegar hún sagði í sjónvarpi að hún væri þarna "því hún vildi ekki skulda fyrir þá sem borða sjálfir gull og svoleiðis". Það væri gaman að sjá þann pólitíska kjaftask sem gæti komist svona skynsamlega að orði.


Sjáendur spá og spekúlera

 

Í kjölfar Vestmannaeyjagossins fjölgaði mikið "spádómum sjáenda" um yfirvofandi eldgos, jarðskjálfta og ofsaveður. Ekki aðeins að "sjáendur" töldu sig geta spáð, heldur komu upp fjölmargar frumlegar hugmyndir og ábendingar frá fólki um hvernig sjá megi náttúruhamfarir fyrir. Einn kom með mjög flókið kort af landinu þar sem hann leitaðist við að sanna að með mælingum á fjarlægð milli samheitaörnefna á Íslandi, mætti staðsetja næstu eldos nákvæmlega fram í tímann.

En ein stórkostleg aðferð til að sjá fyrir um eldgos kom frá vel kynntum manni, sem var sannfærður um að næsta eldgos yrði í Reykjavík. Var hann svo ákveðinn að eitt sinn kom hann með látum á skrifstofu mína og tilkynnti að gos væri að brjótast út á flötinni framan við Austurbæjarskólann. Krafðist hann að fólki væri þegar gert að rýma nærliggjandi hverfi (þ.m.t. Landsspítala og Heilsuverndarstöðina í Reykjavík). Þegar hann var spurðu að því af hverju hann merkti að gos væri að brjótast út þarna sagði hann að "snjólaus rönd" lægi yfir flötina sem sýndi að jarðhitinn væri að brjótast þar upp. Tók þó nokkurn tíma að gera manninum ljóst að þarna væri snjór bráðnaður ofan við hitaveituleiðslu vegna varmans frá henni.

Enn þessi heiðursmaður var ekki af baki dottinn, enda þokkalega tæknimenntaður á þess tíma mælikvarða. Hann kom með þá kenningu að það ætti að bora net af borholum um landið, fylla þær af vatni, og hlusta svo jörðina í gegnum borholurnar því þá myndu menn heyra í kvikunni og geta þannig varað við í tæka tíð ef gos væri að brjótast út. Sagðst hann vera búinn að gera tilraunir með aðferðina heima hjá sér og hún gefist vel þótt eitt kasettutæki hefði eyðilagst við hana. Hann sagðist hafa fyllt elhúsvaskinn hjá sér af vatni til að athuga hvort hann með því að hlusta ofan í vatninu myndi heyra í íbúunum á neðri hæðum hússin. Byrjaði hann á því að taka kasettutæki sem hann átti, setja það á upptöku og stinga því ofan í vatnið, til að taka upp þau hljóð sem bárust úr húsinu. Eðli málsins samkvæmt "brann tækið yfir" og eyðilagðist gjörsamlega. Sagðist hann þá hafa brugðið á það ráð að reka höfuðið á kaf ofan í vatnið í vaskinn og viti menn þá heyrði hann samtal fólksins á næstu hæð fyrir neðan. Skilaði hann teikningum af þessari uppgötvun sinni og á hún að vera til í gögnum Almannavarna.

Því verður að játast að nokkrum erfiðleikum var bundið að hlýða á þessa lýsingu á tilraunastarfsemi uppfindningarmannsins, með þeim alvörusvip sem tilefninu hæfði, því óneianlega sá maður fyrir sér manninn við sínar tilraunir, enda frásagnarmaður ágætur, en trúlega nokkuð á undan sinni samtíð því vel á minst, mælingar í borholum eru nú notaðar til margháttaðra rannsókna til að reyna að sjá fyrir eldgos og jarðskjálfta og má þar nefna sem dæmi gas-, leiðni-, þennslu- vatnshæðar- og hitamælingar.


Munið símaskránna

Í fréttum um skjálftavirknina NA af Grindavík hefur fólk verið hvatt til að kynna sér leiðbeiningar á vef Almannavarna, sem er hið besta mál. Það sem vekur athygli mína er að enginn hefur minnst á leiðbeiningar Almannavarna í símaskránni, sem er sú bók sem er trúlega til á hverju heimili. Fjölmiðlar virðast gefa sér þá algildu að allir séu nettengdir og tölvulæsir. Eldri borgarar sem ekki hafa haft aðstöðu eða áhuga á að kynna sér tölvutækni eiga a.m.k. flestir símaskránna.
mbl.is Grindvíkingar geri ráðstafanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil vísa um litla stjórn

Nýja stjórnin er sest að völdum,

sú fyrsta til vistri á liðnum öldum.

Hún verður að duga ellegar drepast á þessu ári

Hún ætlar að hamast í hundrað daga,

í helstu málum sem brýnt er að laga,

svo að linni í landinu efnahags fári.


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband