Við gefumst upp

537670a.jpg

Mynd af Tý, fengin af mbl.is.

Það er til góð saga um Mogens Glistrup, sem stofnaði Framfaraflokkinn í Danmörku, um stefnu hans í varnar- og öryggismálum. Almennt var þó gert grín að pólitískri sýn hans á framtíðina, en nýjustu fréttir sem berast vekja spurningar um hvort hann hafi e.t.v verið á undan sinni samtíð. Þegar hann var beðinn að gera grein fyrir stefnu sinni í varnar- og öryggismálum sagðist hann vilja spara með því að leggja herinn niður, loka varnarmálaráðuneytinu og stilla símanúmer þess í símaklefa á Strikinu þar sem fyrir væri komið símsvara. Ef hringt yrði í númer ráðuneytisins yrði svarað, "varnarmálaráðuneytið góðan dag. Við gefumst upp, vinsamlegast hafið samband við NATO ef frekari upplýsinga er óskað". Rökstuddi hann þessa skoðun sína með því að herinn gæti hvort sem er ekki neitt og að valtað yrði yfir hann á fyrstu mínútum stríðs.

 Nú hefur það gerst hér á landi að ríkisstjórnin í umboði alþingis hefur tekið upp uppgjafastefnu Glistrups með því að hætta órofinni landhelgisgæslu við landið. Ástæðan er að sú þjóð sem á fátæktarárum sínum hafði þann metnað til að bera að verja lögsögu sína í landhelginni hefur ekki efni á að verja hana á mestu velmegtardögum sínum. Alþingi hefur boðað að við eigum að gefast upp. Reyndar verður alþingi að njóta þess sannmælis að það ætlar ekki að stíga skrefið til fulls. Enn verður svarað í síma Landhelgisgæslunnar og skrifstofurekstrinum haldið með fullum dampi. Uppgjöfin nær eingöngu til landhelgisgæslu.

 

Pistlahöfundur varð þeirrar gæfu njótandi að starfa um 10 ára skeið við Landhelgisgæsluna, þegar hún var virk í vörn lögsögunnar og einn mikilvægasti hlekkurinn í öryggisgæslu á hafinu kringum landið og við strandbyggðir þess. Þá var nýbúið að ná áfangasigri í útfæslu landhelginnar í 12 mílur og mikil áhersla lögð á að  verja þann sigur.  Við stjórnsýsluna í landi starfaði forstjórinn, einn ritari, einn skipstjóri eða stýrimaður eftir atvikum, tveir loftskeytamenn, eftrilitsmaður og birgðaðvörður, samtals 7 menn. Til að verja landhelgiuna voru þá rekin 7 skip og tvær flugvélar, með fullum áhöfnum til að mæta fríum og öðrun frátöfum.

Sú þurrð sem nú er orðin í íslenskri landhelgisgæslu hefur víðtæk áhrif á sjálfstæði þjóðarinnar. Hún hefur nú þegar lamað möguleika okkar til að verja þá auðlind sem við börðumt fyrir í endurtekinum þorskastríðum. Íslendingar eru því  smám saman að tapa yfirráðum yfir landhelginni vegna skorts á skipum og flugvélum til að hafa eftirlit með henni og verja. Við erum sem sagt að missa þau tök á verndun landhelginnar sem við náðum úr höndum dana fyrir um 85 árum. Því vek ég athygli á þessu að við erum byrjuð á að biðja Dani að taka við aftur? E.t.v. væri það happadrýgst fyrir veslinga sem geta ekki séð um sig sjálf.


mbl.is Eitt varðskip við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sannleikur hættulegur þjóðaröryggi?

Skjölin sem birt eru á Wikileaks, eru talin ógna öryggi Bandaríkjanna og jafnvel annarra NATO ríkja, að mati Bandarísra embættismanna sem fjalla um málið. Ef skjölin birta sannleika og ógna með því þjóðaröryggi, byggir það sama þjóðaröryggi á skipulagðri og vísvitandi lygi. Er það virkilega svo?
mbl.is Bandaríkin fordæma birtingu leyniskjala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott mál eða hvað?

Mér skilst á ummælum hagfræðinga að verðbólga sé vandamál sem vinna verður á, en svo þegar verðhjöðnun verður, þá er það ekki minna mál. Það er vandlifað í heimi hagfræðinnar.
mbl.is Matvörur hafa lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dvergurinn í kassanum.

GullfossSaga sem sögð er úr fortíð er sambland af þeim sannleik og skáldskap sem minningar vefa.

"Hundavaktin", frá miðnætti til 0400 á síðnóttu, var oftast rólegt um borð í MS. Gullfossi. "Brandvaktarmaðurinn", sem var í raun öryggisvörður um borð, var þriðji hásetinn á vaktinni, við hinir tveir stóðum vaktina á stjórnpalli ásamt 3. stýrimanni. Hlutverk brandvaktarmannsins var að fara í reglulegar eftirlitsferðir um vistarverur skipsins og gæta að öryggi farþega og áhafnar sem og að taka sig af þeim sem voru á ónæðissömu fylleríi á göngum eða í klefum eftir lokun á börunum. Því vorum við sem stóðum vaktina á stjórnpalli blessunarlega lausir við að annast, það sem nú kallast áfallahjálp, fyrir þá sem töldu sig drekkja sorgum svikinna ásta eða þagga niður í söngþörf ölvaðra hetjutenóra. Það sem þó gat truflað hug okkar, sem vorum á vakt í brúni, frá skyldustörfum við stjórn skipsins, var ef við sáum par paufast eftir myrkvuðu fordekkinu til ástarleikja. Slíkir leikir voru stundum iðkaðir milli bíla sem voru keðjaðir fastir á tvölúgunni framan við brúnna. Þar var myrkur og fólk gerði sér ekki grein fyrir að menn voru á bak við myrkvaða glugga brúarinnar, sem voru búnir að venjast myrkrinu og sáu allt sem fram fór. Ef fólk valdi sér staði þar sem það var í hvarfi frá brúnni séð, sem var sjaldnast, urðum við að ímynda okkur framgang leiksins eftir tímalengd viðdvalarinnar. Ímyndun jafnast þó hvergi á við raunverulega sýningu í þessum efnum. Fólk sem hafði ekki aðstöðu í eigin klefa varð að láta fara nógu notalega um sig á lestarlúgu á Gullfossi til að losa út þann losta sem kallaði, enda ekki alltaf mulið undir þegar girndin tekur völd á heitum sumarnóttum. Stundum gerðist það, að drukknir farþegar slöngruðu upp á fordekkið meðan ástarleikur var í algleymi, og var þá skellt örstuttum geisla frá morsekastaranum á parið með tilheyrandi flemtri, buxum upp og pilsi niður. Töldum við það mannúðlegra en að láta samfarþega standa þau að verki með tilheyrandi niðurlægingu og vandræðum það sem eftir lifði ferðarinnar, sérstaklega ef leikurinn skyldi vera í meinum.

Við vorum á leið frá Leith til Kaupmannahafnar eina aðfararnótt miðvikudags eins og svo oft áður. Gullfoss rásaði lítilsháttar með hægum hliðarveltum sem kölluðu ekki á sjóveiki hjá farþegum. Þetta var hlý ágústnótt, skýjað svo tungl óð í skýjum og stjörnur blikuðu á milli svo skíma var af. Það var búið að vera mikið fjör um kvöldið og spilað á píanóið í "musiksalnum", enda hluti farþeganna ný stignn á skipsfjöl, Bretar á leið til Danmerkur í frí eða Danir á leið heim eftir frí. Íslensku farþegarnir voru hins vegar á fjórða degi ferðarinnar og því orðnir heimavanir um borð. Það var búið að loka fyrir veitingar svo farþegarnir voru flestir komnir í ró og kyrrð komin á í farrýmum og vistarverum áhafnar. Þögull erill var eingöngu hjá þeim sem stóðu sínar vaktir.

Klukkan var rétt að ganga tvö þegar hásetinn sem var með mér á vaktinni sagði allt í einu lágum rómi. "Það er par að koma upp á fordekkið". Var nú eitthvað spennandi í aðsigi? Við fylgstum með parinu þar sem það gekk nokkuð óhikað fram eftir fordekkinu, enda skíma frá tungli eins og áður sagði. Námu þau ekki staðar fyrr en fremst í stafni og stóðu þar kyrr arm í arm og horfðu fram á sjóinn. Það var ljóst að þarna var á ferðinni hrífandi rómantík, í ætt við þá "senu" sem sló í gegn í myndinni Titanic, undir laginu "My heart will go on". Fólk fyllist nefnilega rómantískri frelsistilfinningu þegar það stendur í stafni skips og horfir út á hafið og finnur hvernig skipið klýfur það á ferð sinni. Í stafninu er yfirleitt kyrrð nema sá niður sem heyrist frá frussinu sem myndast þegar stefnið klýfur ölduna. Aðrir hlutar skipsins, véladynurinn, fólkið og erillinn er oftast fyrir aftan og áreitir ekki hugann.

Þannig háttaði til í blástefni Gullfoss að fremst var þríhyrningslaga pallur eða sylla ofan á lunningunum þar sem þær mættust. Upp úr pallinum, í blástafninu, var lítil flaggstöng og freistuðust sumir til að klifra upp á sylluna og halda sér í flaggstöngina, en við vorum fljótir að bægja því niður ef svo var. Undir þessari syllu var svo lítill stálskápur lokaður með tessum, sem hýsti taltækið, þ.e. hátalara og hljóðnema, til sambands við mennina sem voru frammá við komu og brottför úr höfn.

En nú hljóp púki í 3. stýrimann, enda annálaður hrekkjalómur. Sáum við hvar hann gekk að taltækinu og kveikti á því. Því næst gekk hann með hljónemann fram að brúarglugga og gerði röddina mjóróma þegar hann sagði á ensku "halló er einhver þarna?". Það leyndi sér ekki að fólkinu krossbrá. Þau hörfuðu afturábak, litu hvort á annað og áttu einhver orðaskipti, en virtust svo ætla að leiða þetta hjá sér og hölluðu sér hvort að öðru. Þau ætluðu sér auðsjáanlega ekki að láta einhverja ímyndun um torkennilegar raddir trufla rómantík augnabliksins. En stýrimaður var ekki af baki dottinn, heldur færðist allur í aukana og hóf upp sömu mjóróma röddina. "Ég heyri í ykkur, ég er nefnilega lítill dvergur og ég var lokaður inni í skápnum fyrir framan ykkur". Getið þið hleypt mér út"? Viðbrögðin voru ævintýraleg. Fyrst hrukku þau afturábak, litu flemtruð hvort á annað og svo hljóp konan aftur fyrir akkerisspilið. Maðurinn virtist nú átta sig á hvaðan hljóðið kom og starði á skápinn undir syllunni, ekki nema í mesta lagi 50X50 cm. Ekki sáum við svipinn því bæði var hann of langt frá og svo snéri hann baki í okkur. "Gerðu það", bætti stýrimaður við og nú gerði hann röddina líka örvæntingarfulla. Maðurinn starði á kassann en konan hrópaði á hann að koma strax í burtu frá þessum óskapnaði. Þau voru orðin svo hávær að við gátum heyrt í þeim úr taltækinu þótt það væri lokað inní skápnum. "Ég verð að komast út", bætti stýrimaður við, "því mér er svo mál að pissa". Maðurinn, þótt ráðvilltur væri og rómantíkin rokin út í veður og vind, tók nú rögg á sig og gekk að skápnum, undir hrópum konunnar, "í Guðanna bænum komdu og snertu ekki neitt". Þegar maðurinn kom að skápnum losaði hann um tessana og svipti skápnum upp. Við honum blasti tækið, sambyggður hátalari og hljóðnemi, og úr hátalaranum hljómaði skellihlátur stýrimannsins.

Við vorum búnir að opna þá brúarglugga sem við vorum við þegar maðurinn snéri sér sótbölvandi við og starði upp til okkar, steytandi hnefann. Hlátur konunnar hljómaði undir því henni varð um leið grínið ljóst og sljákkaði því fljótt reiðin úr manninum svo hlátur leysti reiði af. Stýrimaðurinn sem var jafn góðlyndur og hann var hrekkjóttur talaði nú til fólksins í gegnum taltækið, þar sem það virtist enn í uppnámi og bað það margfaldrar afsökunar á hrekknum og bauð þeim með það sama að koma upp í brú, en þangað var farþegum að jafnaði ekki boðið að koma. Skömmu seinna komu svo hjónin (sem við fréttum þá að voru) á stjórnpall og undu vel við þá sárabót að kynnast tækjum og siglingu skipsins.

Líkan af Gullfossi má sjá í Sjóminjasafninu Víkinni við Grandagarð.

Guðjón Petersen frv. háseti á MS: Gullfossi.


Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Júlí 2010
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 53476

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband