Menntun mannauðs

Þær bólur sem oflátungsgangur og agaleysi græðginnar blésu út springa nú framan í þjóðina hver af annarri. Fyrst sprakk bankabólan, í kjölfarið brjálæðisleg byggingabóla ásamt hégómlegri bílabólu og nú er “menntabóla” við það að springa með tilheyrandi ósköpum. Þjóð sem telur rúmlega 300 þús. manns í 103.000 km² landi rekur 7 háskóla vítt og breytt um eyjuna. Þessir oflátungar sem hér hafa búið hafa aldrei litið til gæða heldur magns í öllu sem þeir gera.

Orðtæki segir að mennt sé máttur. Þeim mætti er oft misbeitt með hrikalegum afleiðingum. Það gleymist líka að með mikilli menntun fólks kemur ekki endilega “vel” menntað fólk, menntakerfi getur allt eins framleitt “illa” menntað fólk. Því eru það gæði menntunar sem nota á við flokkun fólks eftir menntunarstigi. Í hinum lítið menntaða getur búið mikil viska sem er virkjanleg til góðs ef heiðarleiki og mannkærleikur fylgir. Heimska getur á sama hátt tröllriðið huga þess mikið menntaða. “Efnahagsundrið” á Íslandi var leitt að mestu af mikið menntuðum heimskingjum sem voru þjáðir af viskuskorti. Það voru ekki hinir vísu sem leiddu þjóðina til glötunar heldur hinir heimsku. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr menntun heldur til að minna á að menntaður heimskingi er hættulegri en ómenntaður en þeim síðarnefnda má frekar fyrirgefa. Vitur menntamaður er hverri þjóð gulls í gildi, sem vegna visku sinnar léti sér aldrei detta í hug að éta gull þótt ríkur væri, líkt og mikið menntuðum en hégómafullum heimskingjum fannst sæma.

 

Nú er tíðrætt um þann mannauð sem leiða á Ísland til þeirrar endurreisnar sem þjóðin þráir og því má spyrja spurninga um menntun þess mannauðs? Getum við treyst þessum mannauð? Er menntakefið kannski búið að þrengja fróðleiksmiðlunina inn á svo mjótt einstigi sjálfhverfu og hroka að þau sem það einstigi feta telji sig ekki þurfa að líta upp á vegferð sinni til að skynja og taka tillit til samferðamanna sinna og þess umhverfis sem þau fara um. Alla vega er ljóst að það er sjálfhverfa, fals, hroki og þröngsýni þess mannauðs sem á sviði stjórnmála, embætta, atvinnulífs, verkalýðsbaráttu og fjölmiðla sem leiddi þjóðina fram af hengiflugi. Til eru undantekningar sem eru beðnar að afsaka orðbragðið.

 

Klisjur fljúga um fjölmiðla sem fyrr, falskenningum er haldið óbreyttum á lofti og líkönin sem eiga að leiðbeina til farsællar niðurstöðu hafa enn ekki verið endursmíðuð. Ekkert hefur í raun lærst. Hið mjóa einstigi “Hólmsteins-heilkennisins”, þ.e. “að græða á daginn en grilla á kvöldin”, situr enn í hjörtum hinna sanntrúuðu. Og enn leiðir örvænting hins getulausa inn á annað einstigi þar sem þeir sem það vilja feta sjá aðeins eitt hjálpræði við hinn enda stígsins, bláann fána með gylltum stjörnuhring. Við fetum nú einstigi hins uppgefna og bugaða sem misst hefur allt sjálfstraust og lætur kúga sig til hlýðni. Mannauðsins sem laug svo hrikalega að sjálfum sér og þjóð sinni að hætt er við að hún verði fórnarlamb þeirrar örvæntingar sem rústar samfélagsmynd hennar innanfrá. Mannauðsins sem trúði að framleiðsla á væntingum í stað verðmætasköpunar væri vegurinn til velsældar. Mannauðsins sem í hroka sínum sagðist vita öðrum betur og þorði svo ekki að horfast í augu við sannleikann og takast á við hann af reisn, þegar vísir menn vöruðu við. Mannauðsins sem telur bestu leiðsögnina inn í framtíðina vera að setja ESB gulrótina á stöng fyrir framan augun á asnanum svo hann gleymi hve þungt eykið er sem hann dregur.


mbl.is Keilir gagnrýnir skýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Ágúst 2010
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 53421

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband