141. Aftur í Lyon og nú siglandi.

800px-LyonFeteDeLumiere  Litbrigði ljósahátíðar í Lyon.

Það var ekki laust við að við værum dösuð eftir komuna til Lyon enda búinn að vera langur og við burðarríkur dagur. Ekki vildum við þó láta kvöldið fara framhjá okkur án þess að kíkja í bæinn og fá okkur kvöldverð, auk þess sem við þurftum að finna kjörbúð til að versla inn. Var því drifið í að snyrta sig svolítið og hafa fataskipti eftir siglinguna og ráðist til landgöngu. Þannig háttar til við Quai Rambaud að þar eru gömul skrifstofu- og iðnaðarhús sem verið er að rífa og er mikil uppbygging á nýtísku ál- og glerhöllum í gangi á svæðinu sem samkvæmt myndum og teikningum gerir þetta að mikilvægu viðskiptahverfi, gangi villtir draumar fjárfesta eftir. Vegna framkvæmdanna fórum við villur vega til að byrja með á leið okkar í bæinn en fundum að lokum stystu leiðina og var þá fljótt komið í nálæga kjörbúð þar sem við byrjuðum á að versla inn og draga svo aðföngin um borð.

Þá var ráðist til uppgöngu aftur og enn lá leiðin upp með nýbyggingarsvæðinu eftir götu sem heitir Rue Bichat og upp á aðalgötuna Cours Charlemagne sem liggur upp að annari af aðaljárnbrautarstöðvunum í Lyon, sem er sunnarlega í miðborginni. Á gatnamótum Rue Bichat og Cours Charlemagne eru umferðarljós auk stoppistöðvar fyrir strætó og þó nokkur umferð. Þegar við komum þarna núna var orðin sú breyting frá fyrri ferð að á hornið voru komnar stríðsmálaðar konur á minipilsum og í netsokkum, sem skimuðu fránum augum inn í bílana, sem stoppuðu á rauðu ljósi og á þá karlmenn sem gengu hjá. Það var nefnilega komið kvöld og greiðastúlkurnar mættar til þjónustu við streituhlaðna skrifsofu- og businesskarla sem ýmist áttu leið um eða gerðu sér leið um af ásettu ráði. Í raun líta stúlkurnar fyrir að vera þrælklárar í markaðssetningu og viðskiptum. Þær auglýsa með klæðnaði sem sýnir og felur í réttum hlutföllum, kynna vöruna fyrir væntanlegum viðskiptavini án orða, en með látbragði augna, vara, tungu og handa og ganga síðan til samninga lágum nótum og í trúnaði, þar sem gengið er frá kröfum um magn og gæði þeirrar vöru sem í boði er og gjald sem greiða á fyrir.

Þar sem undirritaður var umvafinn tveim konum, frú Lilju og Huldu systir, þegar við gengum þarna var ég ekki virtur viðlits á þessu markaðstorgi blíðunnar. Bauð ég því frúnum, ef þær vildu kynna sér þetta viðskiptamodel frekar að ég skyldi ganga um 100 m. á undan þeim þegar við færum aftur um borð og kynna mér frekar vöruframboðið og það verð sem sett er upp af seljanda, en það var alls ekki þegið.

Þrátt fyrir að farið væri að kólna aðeins með kvöldinu og að gengi á með skúrum gengum við upp alla Cours Charlemanne og í gegnum járnbrautarstöðina, en þá er komið að nokkuð stóru torgi. Síðan fundum við okkur góðan veitingastað nærri járnbrautarstöðinni og snæddum þar ágætis kvöldverð áður en við tókum okkur leigubíl um borð og tókum á okkur náðir.

Hann var fallegur þriðjudagsmorguninn 22. apríl þegar við bjuggumst til að fara í land í Lyon og skoða okkur um. Sólin skein og vorhiti var í lofti. Við fórum í land um 10 leytið og gengum sem leið liggur upp Cours Charlemagne og í gegnum Perrache járnbrautarstöðin. Þaðan héldum við áfran upp Rue Henry IV og inn á Ampére Victor Huge torgið, þar sem hægt er að taka opna útsýnisvagna til skoðunarferða og fórum í næsta vagn. Skoðunarferðinni er ég búinn að lýsa í pistli 131, frá því að við vorum þar s.l. haust, en nú fórum við út og skoðuðum sérstaklega Notre-Dam de Fourveire sem var byggð fyrir einkafjármagn á árunum 1872 til 1896 og í raun ekki kláruð endanlega að innan fyrr en 1964. Mikið og fallegt mannvirki með tveim capellum, kirkjuskipið sjálft og svo sérstök capella undir kirkjuskipinu. Eftir skoðun á dómkirkjunni fórum við aftur í næsta vagn og héldum með honum niður á ráðhústorgið "Hotel de Ville" og gengum síðan niður allt breiðstrætið Rue du President Edouard Henriot sem er aðalverslunargata Lyon. Auðvitað var kíkt í búðir, snæddur hádegisverður og fengið sér hressingu á leiðinni, enda héldum við svo göngunni áfram alla leið um borð og komum þangað undir kvöld en ánægð eftir góðan dag.

Lyon er merkilegri borg en margur heldur því auk þess að vera sérstaklega falleg borg þá hýsir hún höfuðstöðvar kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi og Interpol, þekkt fyrir að vera en mikilvægasta tískuborg heimsins og fræg fyrir sinn silkivefnað.

Í Lyon er haldin ljósahátið 8. desember ár hvert og hefur verið gert frá 1643 þegar borgarráðið hét á Maríu Mey að ef hún verndaði borgina fyrir svartadauða myndu ljós verða tendruð henni til dýrðar. Borgin slapp, svartidauði heimsótti hana ekki og því kveikja borgarbúar ljós og raða í alla glugga 8. desember, auk þess sem nú til dags er beitt nýtísku ljósatækni til að mynda hin fegurstu ljósfyrirbrigði á þessari hátíð.


140. Í lögreglufylgd til Lyon, eftir misskilning og uppákomu slökkviliðs.

Lyon, Saone Þar sem Saone streymir um Lyon.

Það var fallegur mánudagsmorgun sem við vöknuðum til í Macon og bjuggumst til að halda ferð okkar áfram. Áður en við fórum þurfti ég að ná tali af Hafna en hann var á fullu við að sjósetja bát í slippnum. Vildum við ekki trufla hann við það og tókum því lífinu með ró á meðan. Því slepptum við ekki landfestum fyrr en kl. 1045 og héldum þá áfram niður fljótið til stórborgarinnar Lyon. Hæg gola var af suðri, léttskýjað og 17°C hiti. Allt gekk fyrir sig tíðindalaust og við fórum gegnum slússuna Draché kl. 1215 og kl. 1430 komum við að slússu de Couzon þar sem fyrsta skrefið í stórkostlegum farsa misskilnings byrjaði sem entist út daginn.

Áður en við fengum að yfirgefa slússuna kom slússustjórinn niður til okkur (við vorum eini báturinn sem var að fara í gegn) og rétti mér blað á ensku með eftirfarandi skýringum sem hann lét fylgja munnlega: "Vegna flóða í ánni er einstefna undir brýnnar í Lyon og skip sem eru á suðurleið í gegnum borgina mega ekki fara undir Mazaryck brúnna, sem er neðan við Barbe eynna, fyrr en kl. 1645. Þannig að þið verðið að bíða þar til þá". Benti hann mér á tímatöflu sem skrifuð var á blaðið um hvenær mætti fara upp ánna í gegnum borgina og hvenær niður. Á blaðinu kom fram að síðast máttu bátar fara niður kl. 1445, sem við vorum búin að missa af, og því yrðum við að bíða til kl. 1645.

Héldum við nú af stað niður fljótið. Eftir á að hyggja hefði kannski verið viturlegra að leggjast við biðsvæðið við slússuna og bíða þar eftir að tíminn kæmi, ekki er það þó víst. Þegar við komum niður með Barbe eynni vorum við komin inn í úthverfi Lyon og við blasti Mazarick brúin um 3 km. framundan. Þar sem fljótið er ágætlega breitt þarna var ekki annað að gera en að bíða þessar tvær klst. sem voru þar til við máttum halda áfram, en það sem vakti athygli mína var að engin ljós loguðu á ljósatöflu sem er við brúnna, samkvæmt leiðsögubókinni og á að segja til um umferðarstýringu ef einhver er í gangi. Þannig háttar til þarna við fljótið að á vesturbakkanum er borgarhverfi og meðfram fljótsbakkanum er hlaðinn steinveggur með mikilli umferðargötu fyrir ofan. Út úr steinveggnum koma á einum stað steintröppur niður að fljótsyfirborðinu með litlum stéttum eða steinbryggjum sitt hvoru megin við tröppurnar. Á hinum bakkanum var lítil skemmtibátahöfn, troðfull af smábátum og engin smuga að leggjast þar til að bíða, en á ytri kanti hafnarinnar voru stór skilti með yfirstrikuðu "P" "það er bannað að leggja". Því var ekki annað að gera í stöðunni en að láta bara reka þarna sunnan við eynna og kippa svo uppeftir fljótinu eftir því sem straumurinn bar okkur niður að Mazaryck brúnni.

Voru nú skrúfur stoppaðar og bátinn rak hægt frá eynni í átt að brúnni. Á vesturbakkanum, við steintröppurnar sem áður eru nefndar, var tækjabíll frá slökkviliði borgarinnar og hópur slökkviliðsmanna við einhverjar æfingar, sennilega köfun. Ekki fylgdumst við neitt sérstaklega með þeim. Þegar svolítið var liðið á tímann ákváðum við að nota biðina og skoða Ile Barbe svolítið betur og sigla um hverfis hana. Setti ég á mjög hæga ferð og sigldum við þannig upp með vesturhlið eyjarinnar, sem er með nokkrum húsum um miðbikið, sem eru umgirt háum steypujárnsgirðingum. Nyrst er svo lítið kastalavirki sem stendur alveg fram á bakkann. Við dóluðum á hægustu ferð upp með vesturhluta eyjarinnar og skoðuðum hótel og veitingastaði sem þar raðast með bakkanum. Þegar við komum norður fyrir létum við reka niður með eynni að austanverðu. Tíminn silaðist áfram en loks var kl. orðin 1600 og farið að koma að því að við mættum halda áfram undir Mazaryck brúnna og í gegnum borgina, en víða meðfram steinhlöðnum fljótsveggjum borgarinnar eru lágir steinkanntar með festingarpollum og var meiningin að leggjast við einhvern þeirra og dvelja a.m.k. 2 nætur í Lyon.

Skyndilega varð nú allt vitlaust á vesturbakkanum. Sírenuvæl heyrðist frá slökkvi- og lögreglubílum sem komu akandi að steintröppunum þar sem félagar þeirra voru enn við sína iðju, hver sem hún var. Kom hópur af slökkviliðsmönnum úr bílunum, allir hinir vígalegustu. Við vorum í fyrstu ekkert uppnæm yfir þessu, sírenuvæl og slökkviliðsbílar eru jú algeng sjón í stórborgum. En þá brá svo við að þeir komu niður steintröppurnar að vatnsyfirborðinu og byrjuðu að hrópa og kalla til okkar um leið og þeir böðuðu út höndunum og bentu okkur á að koma. Löggurnar stóðu hins vegar uppi á götunni og fylgdust með. Það var alveg ljóst að þessi sírenuvælandi hópur með bláum blikkandi ljósum ætti eitthvað erindi við okkur svo ég tók stefnuna að steintröppunum og fór á hægustu ferð enda örstutt að fara til þeirra. Þegar ég ætlaði að leggjast að byrjuðu þeir að banda mér aftur frá og kom í ljós að stórir steinar voru undir vatnsyfirborðinu þar sem ég ætlaði fyrst að koma að. Bentu þeir mér á hvar óhætt var að leggjast að og skipti engum togum, þegar við lögðumst að, að margar hendur slökkviliðsmanna tóku við LILJU BEN og héldu fastri við kantinn. Frú Lilja og frú Hulda stóðu á afturdekkinu og heilsuðu slökkviliðsmönnunum brosandi, sem virtust mjög áhyggjufullir á svipinn. Þeir töluðu allir frönsku í fyrstu og þegar ég kom út á dekkið til að vita hvað væri í gangi mætti mér mikill orðaflaumur sem við skildum ekki neitt í svo ég spurði hvort einhver talaði ekki ensku í hópnum. Jú einn gaf sig fram sem gat talað einhverja ensku og spurði sá strax hvað væri að hjá okkur. "Að sagði ég "það er ekkert að, við vorum bara að bíða eftir að mega fara suður undir brúnna". Ekki vildi hann kaupa þetta og bætti við "ertu alveg viss, ekkert að vél, stjórntækjum, stýri eða neinu". "Nei" sagði ég, "hér er allt í lagi með allt og ef þú vilt koma um borð get ég sýnt þér það". Ekki vildi hann það en ég fór nú að skýra fyrir honum hvað okkur var sagt í slússunni og sýndi honum blaðið sem ég fékk þar með tímamörkunum. Hann varð alveg steinhissa og skildi ekkert í þessari vitleysu hjá slússustjórninni. Þessi flokkur slökkviliðsmanna var mættur þarna með öllum þessum látum til að bjarga biluðum bát í neyð, sem var svo í besta lagi. Kvöddumst við því með bros á vör, slepptu þeir bátnum og við fórum frá og settum stefnuna niður fljótið og undir Mazaryck því tíminn var kominn, kl. orðin 1645.

En nú byrjaði næsta ball. Upp fljótið, á móti okkur, kom brunandi bátur og varð mér strax að orði "sér sé nú hver andsk.... einstefnan þessi að koma upp fljótið þegar búið er að opna fyrir umferð niður". Þegar báturinn kom nær sáum við hins vegar að á yfirbyggingunni voru blá blikkljós, sem voru reyndar ekki í gangi og að um borð var flokkur lögreglumanna. Skipti engum togum að þegar við fórum framhjá honum snéru þeir við  og komu brunandi upp að stjórnborðshliðinni á okkur. Sló ég strax af ferðinni og bað frú Lilju að taka við stýrinu og halda sig á miðju fljótinu meðan ég fór út að kanna málið. Lögreglumennirnir gáfu mér bendingu um að þeir vildu setja fast á síðuna hjá okkur og var nú tekið við enda hjá þeim. Gerðist nú allt mjög hratt. Lögreglubáturinn var búinn að binda sig á síðuna á örskammri stund og lögreglumennirnir búnir að biðja leyfis til uppgöngu sem var samþykkt (þeir hefðu hvort eð er stormað bátinn samt) og þrír þeirra stormuðu um borð með skambyssur við beltið. Einn þeirra talaði ensku og þegar við vorum búin að heilsa þeim með handabandi vatt hann sér strax að erindinu og spurði hvað væri að?  "Að" sagði ég nú aftur "það er allt í lagi og ekkert að eins og þið getið séð, hér virkar allt rétt". Enn komu mótbárur svo ég fór nú að endurtaka skýringar mínar sem ég gaf slökkviliðsmönnunum skömmu áður og sýndi þeim blaðið frá slússustjórninni. Þegar mér tókst loksins að fullvissa þá um að allt væri í lagi upplýstu þeir okkur að það hefði verið hringt í neyðarlínuna og tilkynnt um bilaðan bát á reki ofan við Mazarick brúnna og því hefði þessi viðbúnaður allur farið í gang.

Spurðu lögreglumennirnir nú hvert ferðinni væri heitið og sagði ég þeim að við ætluðum að finna legu í Lyon þar sem við gætum legið í tvær nætur, meðan við skoðuðum okkur um í borginni. Upphófst þá mikil umræða þeirra á milli og síðan vatt sá enskumælandi sér að mér og spurði "sagði slússustjórnin þér ekki að vegna flóðanna væru steinkantarnir sem skemmtibátar geta legið við í Lyon flestir á kafi".  " Nei" sagði ég "hann talaði bara um einstefnuna". Þetta gerði þá mjög hissa og svo spurði sá enskumælandi hvort hann mætti skoða kortið mitt af Lyon og rétti ég honum það. Byrjuðu löggurnar svo að skoða og benda á ýmsa legustaði og allt í einu sagði sá enskumælandi "follow us" og með það sama fóru þeir út og klifruðu yfir í löggubátinn. Var nú löggubáturinn losaður og brunaði hann af stað og við á eftir. Þegar komið var skammt suður fyrir aðaljárnbrautarstöðina í Lyon, skömmu áður en Saone fljótið og Rhon renna saman, á stað sem kallast Quai Rambud, beygði lögreglubáturinn skyndilega að flotbryggju sem var laus, enda með stóru skilti sem á stóð að bannað væri að leggjast að henni "privatbryggja" og bentu þeir mér að leggjast þarna að.  Þegar því var lokið komu þeir að hlið okkar aftur og um borð skælbrosandi og glaðir og sögðu að hér mættum við liggja og ef einhver kæmi að amast við okkur þá ættum við að segjast vera í leyfi lögreglunnar í Lyon og létu mig fá símanúmer til að fá það staðfest ef á þyrfti. Því lauk þessum farsa í komu okkar til Lyon með frábærri þjónustu lögreglunnar í  Lyon og kunnum við velvild þeirra og viðmót bestu þakkir. Má svo sannlega segja að þetta var búinn að vera viðburðarríkur dagur þegar við lögðumst þarna kl. um 1745. Sögðu lögreglumennirnir að lokum, áður en þeir kvöddu, að hér gætum við verið örugg, sem reyndist rétt og áttum við góða stund við Quai Rambud og í Lyon.


139. Sunnudagssigling til Macon

Macon Frá litlu höfninni í Macon 

Við fórum frá Chalon Sur Saone kl. 0855 um morguninn 20. apríl á afmælisdegi Gunna bróður.  Þótt vindu væri aðeins 3 vindstig af SV og 19°C hiti fanst okkur vera frekar kuldalegt í lofti, enda gekk hann á með skúrum. Við settum stefnuna áfram niður Saone fljótið, eftir fría legu í Chalon, enda tókst okkur aldrei að ná neinu sambandi við hafnarvörð. Leiðin liggur fyrir eynna De La Benne La Faux, sem stór hluti borgarinnar stendur á og nú tóku við sveitahéruðin á bæði borð, með einstaka smáþorpum inn á milli. Þegar hér var komið sögu var orðið gisnara má milli slússa vegna lítils hallamunar í landinu, enda breiðir fljótið nokkuð úr sér þarna. En þegar við komum að fyrstu slússunni kom svolítið sérstakt upp á teninginn, sem við höfðum ekki lent í áður. Ég var búinn að sjá í leiðsögubókinni að þar stendur með rauðu letri og í svörtum ramma að "þegar mikil flóð eru í ánni er slússan lokuð og bátum ætlað að fara yfir flóðgáttirnar", en þær stjórna vatnshæðinni í ánum ásamt slússunum. Þegar við komum nú að slússu D´Ormes var ástandið þannig að slússan var lokuð og bátaumferð beint yfir flóðgáttina. Í fyrsta lagi ætlaði ég ekki að trúa því að svona mikið flóð væri í ánni, enda þekktum við hana ekki í eðlilegri stöðu og í öðru lagi var ég hálf nervös við að beina bátnum á flóðgáttina til að fara yfir hana því þetta var svo óvenjulegt. En í raun var þetta ekkert mál og ferðinni haldið áfram. Skömmu síðar fórum við framhjá borginni Tournus og síðan ármótum La Seille þar sem hún rennur inn í Saone. Kl. 1220 komum við svo að yachthöfninni í Macon, sem er um 2 km. norðan við miðbæinn, grafinn inn í vesturbakka fljótsins. Fikruðum við okkur inn í höfnina framhjá nokkrum kanoum í róðraræfingum og fundum bráðlega góða bryggju þar sem við lögðumst svo að. Ekki er hægt að segja að veðrið væri spennandi þennan sunnudag, sunnanátt með skúrum og ekki nema 17°C hiti.

Eftir að vera búin að ganga frá landfestum náði ég sambandi við Hafna og fékk aðgang að snyrtingum og sturtum sem var ákveðið að nota þegar við kæmum úr gönguferð í bæinn.

Við gengum niður með vesturbakka fljótsins þess 2. km. leið inn í miðbæ Macon, en leiðin liggur í gegnum fallegan garð þar sem cyprustré voru farin að skarta sínum fagurlitu blómum. Fáir voru að ferli vegna kalsans í veðrinu, en þegar við komum í miðbæinn fundum við þokkalegann veitingastað þar sem við settumst við árbakkann og fengum okkur hressingu. Síðan var gengið um bæinn en lítið var um að vera þennan sunnudag, í raun varla kjaft að sjá í göngugötunum þannig að við létum okkur hafa það að rölta aftur um borð og slappa af um kvöldið.


Hvernig er öryggi háttað gegn hryðjuverkaógn á Keflavíkurflugvelli.

Að tveir menn hlaupi út á flugbraut á Keflavíkurflugvelli segir aðeins eitt "öryggiskerfi flugvallarins er ónýtt". Ríkislögreglustjóri er ný búinn að gefa út greiningarskýrslu þar sem segir að hryðjuverkaógn sé hverfandi sem stendur á Íslandi. Það er eins gott að hryðjuverkamenn frétti ekki af því að á Íslandi sé ekkert mál að valsa út á flugbrautir eina alþjóðaflugvallarins. 

Mér skilst af fréttum að mennirnir hafi verið að mótmæla því að hælisleitandi og réttargæslumaður hans væru ekki virtir svars af Íslenskum yfirvöldum, sem málið varðar. Erfitt að sætta sig við út af fyrir sig, en lýsir þeirri "ákvarðanafælni" sem er orðin algeng í stjórnkerfi okkar. Ég er ekki að taka afstöðu með eða á móti hælisbeiðninni en gagnrýni að kjark vanti til að taka málefnalega afstöðu, standa við hana og rökstyðja ef þurfa þykir.


mbl.is Hlupu út á flugbrautina á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

138. Lagt af stað niður Saone afram til Rhon

Vor 2008 023 Við bryggju í Chalon Sur Saone 

Strax kl. 0900, morguninn 19. apríl, mætti ég á skrifstofu hafnarinnar til að gera upp við þá fyrir þá þjónustu og búnað sem ég hafði pantað, en þeir voru búnir að segja mér að þar yrði opið þrátt fyrir laugardag, vegna sölusýningarinnar. Allt tók þetta skamma stund og okkur því ekkert að vanbúnaði að sigla, en eitthvað þótti mér fólkið á skrifstofunni vera brosmilt meðan ég var að ganga frá mínum málum við það. Þegar ég kom hins vegar aftur um borð skildi ég hvernig í málinu lá þegar konurnar bentu mér á hvernig ég fór í land, búinn til fótanna. Ég hafði gengið á fund hafnaryfirvalda með sandala á öðrum fæti en strigaskó á hinum svo ekki var furða að fólk sem sá mig væri kindarlegt á svipinn.

Ekki þýddi að gera sér rellu út af fótabúnaðinum, sem ég flýtti mér reyndar að leiðrétta, svo vélar voru settar í gang, kveikt á öllum tækjum og sannreynt að allt virkaði rétt og landfestar leystar kl. 0955. LILJA BEN seig nú út úr höfninni í Saint Jean De Losne, þar sem hún hafði legið í sjö mánuði og setti stefnið niður Saône fljótið. Frú Lilja leiðbeindi nýja áhafnarmeðlimnum frú Huldu í gegnum verklag við landfestar, fendara og sjóbúning meðan undirritaður stýrði af stað niður fljótið.

Eftir um 7 km. siglingu tók við De Seurre skurðurinn sem liggur eins og beint strik um 30 km. vegalengd eða til samnefndrar slússu við samnefndan bæ. Nú voru allar sjálfvirkar slússur að baki svo nú voru þær allar mannaðar, þannig að fá þurfti heimild í gegnum talstöðina til að fara inn. Gætti ég þess því vandlega að fara að ráðleggingunum frá deginum áður og leggjast sem fjærst stjórnturnunum, með bakborðsíðuna að þeim og að allir væru í björgunarvestum. Við Seurre sameinaðist svo skurðurinn fljótinu aftur, reyndar aðeins um 11 km. leið þar til næsti skurður tók við með sinni slússu "Eculles", en skurðirnir eru liður í því að "þrepa skipin niður" eftir ánum, mislangir þó. Slússan var að baki kl. 1215 og nú bugðaðist fljótið aftur framundan um sveitahéruðin þar til komið var að bænum Verdum Sur Le Doubs, þar sem Doubs fljótið sameinast Saôn. Nú skiptust á bæir og sveitahéruð sem siglt var framhjá, en aðgæslu var þörf á leiðinni því að mikið er af grynningum þarna í fljótinu á stórum köflum. Næsti áfangastaður Chalon Sur Saone kom svo í ljós um kl. 1340 og var nú siglt framhjá eynni St. Laurent á bakborða og beygt inn með henni í yachthöfnina sem liggur í sundi milli eyjarinnar og meginlandsins, en þeim megin eru bryggjurnar innan við fallega brú sem tengir eynna við land. Fundum við strax mjög aðgengilega bryggju sem við bundum nú við og var kl. þá orðin 1410.

Það leyndi sér ekki þegar við vorum lögst við bryggju að þarna höfðu flóðin í ánni orðið þess valdandi að sprek, hálmur og annar gróður þakti ströndina og göngubrýrnar sem tengja flotbryggurnar við land og átti há vatnsstaða í fljótunum vegna þessara flóða, sem enn voru að skila sér niður úr hálendi Frakklands og Sviss, að koma við okkur seinna. Ekki tókst að ná neinu sambandi við hafnaryfirvöld á þessum laugardagseftirmiðdegi, þrátt fyrir góðar tilraunir svo að við ákváðum að fá okkur gönguferð upp í eyjuna St. Laurent, sem er þéttbýl mjög, enda sól og gott veður, eftir skúrir sem verið höfðu þegar við lögðum í hann um morguninn. St. Lauren eyjan er í raun hluti af Chalon Sur Saone, sem er nokkuð stór bær með um 60.000 íbúa. Eflaust hefði verið hægt að eyða meiri tíma í að skoða þennan merkilega bæ því saga hans liggur 3000 ár aftur í tímann. Þarna fæddust eða bjuggu frægir menn eins og Nicépore Niepce, faðir ljósmyndavélarinnar og Vivant Denon, listamaðurinn sem stofnaði Louvre safnið í París á Napoleontímanum. Í Chalon er feikna stórt ljósmyndasafn með um 2 milljónum ljósmynda og fyrsta ljósmyndavélin er þar meðal sýningagripa. Við ætluðum hins vegar að stoppa stutt, eða aðeins eina nótt og því var ekki lagt í langar skoðunarferðir um bæinn.


137. Gert klárt í Saint Jean De Losne

Vor 2008 021  Frú Lilja og Hulda systir skoða sig um á sýningunni sem talað er um. 

Það var orðið áliðið þegar við vorum búin að koma okkur fyrir um borð þann  17. apríl og því farið tiltölulega snemma að sofa, enda þetta búinn að vera langur ferðadagur. Voru frú Lilja og Hulda búnar að koma öllu fyrir og versla inn þegar ég kom frá að skila bílnum, svo ekki var annað eftir en að fara yfir bátinn og tæknibúnað hans daginn eftir. Góður kvöldverður og hæfilegt rauðvín til að trappa sig niður eftir ferðina gerði gæfumuninn svo allir sváfu vel þessa fyrstu nótt um borð.

Þegar við fórum á fætur daginn eftir leyndi það sér ekki að mikið stóð til á svæðinu, enda vorum við búin að heyra, og reyndar að sjá um kvöldið, að framundan væri stór sölusýning á bátum og bátahlutum, vélum, búnaði og siglingatækjum og var búið að slá upp sölu- og samkomutjöldum á stórum grasbala með öllum vesturhluta hafnarinnar. Fyrsta verkið var hins vegar að sækja þann búnað sem búið var að panta fyrir LILJU BEN, en það var grind fyrir björgunarbátinn með löglegum festingum og sleppibúnaði, neyðarrakettur og blys, því nú var að koma að því að fljót og skurðir Evrópu yrðu kvaddir og Miðjarðarhafið tæki við og vildi ég hafa allann öryggisbúnað eins og lög og reglur kveða á um og í topp standi. Allt var það klárt eins og um hafði verið samið í mars þegar ég heimsótti staðinn.

Þótt ýmisleg þyrfti að gera við að undirbúa brottför daginn eftir ákváðum við að fara á sýninguna og skoða hvað þar væri í boði og fórum við síðan í göngu um þorpið og fengum okkur hádegisverð í rólegheitunum. Þó nokkur mannfjöldi var mættur á sýninguna og var nokkursskonar hátíðarstemming yfir svæðinu auk þess sem fólk var á ferli um allar bryggjur að skoða báta sem voru til sölu, en þeir voru margir. Sólin skein í heiði þennan föstudag með 17°C hita, en það verður að játast að nokkuð fannst okkur samt svalt í forsælunni. Eftir hádegisverðinn ætlaði ég svo að greiða fyrir vikunotkunn á fljóta og slússukerfi Frakklands, því leyfið sem ég greiddi fyrir haustið áður var auðvitað útrunnið. Skrifstofa "vatnastjórnarinnar" var hins vegar lokuð þegar ég ætlaði að ganga frá mínum málum við þá svo að nú voru góð ráð dýr, helgi framundan og við ætluðum að leggja í hann daginn eftir. Kom ég því við hjá Hafna á leiðinni um borð og sagði honum frá þessum vanda okkar og hvað við gætum gert. Hann var nú ekki með miklar ahyggjur af því og sagði að við skyldum bara sigla. "Gættu þín bara á því" sagði hann, "að snúa alltaf bakborðshliðinni að slússustjórnturnunum og að þið séuð alltaf í björgunarverstum þegar þið farið í gegnum slússurnar og gera ekkert sem getur vakið athygli á ykkur. Þá sjá þeir ekki að það vanti rétt ártal á skírteininu á bátnum og þið getið sloppið frítt til sjávar". Alltaf gott að fá góð ráð, líka til að svindla pínulítið.

Um kvöldið vorum við svo búin að gera allt klárt til brottfarar daginn eftir og því var lífinu tekið með ró í Saint Jean De Losne.


Flott

Það er gaman að lesa og sjá þann samhug sem þarna birtist. Nú er bara að vona að allt fari vel fram og að frábær stemming myndist sem geti verið öllum til sóma. Engin skrílslæti og fyllerí
mbl.is 30 þúsund manns á tónleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

136. Lagt upp í vorsiglingu

 

Vor 2008 090 Með Monaco á bakborða. 

136. Lagt upp í vorsiglinguna á LILJU BEN.

Við fórum með flugi Icelandair til Parísar, ásamt Huldu Petersen, systur, 16. apríl s.l. til áframhaldandi siglingar LILJU BEN á leið til Miðjarðarhafsins. Hulda systir var ákveðin í að prófa, þótt með blendnum hug væri. Ég var búinn að fá upplýsingar um að búið væri að sjósetja LILJU BEN, þrífa hana og bóna, útvega frekari öryggisbúnað samkvæmt íslenskum kröfum og dytta að hlutum sem ég hafði óskað eftir að gert yrði í vetrarlegunni. Allt gekk flugið samkvæmt áætlun og lentum við á CDG flugvelli um kl. 1300, þar sem bílaleigubíll frá Hertz beið okkar, en við vorum ákveðin í að gista eina nótt í París, endurnýja aðeins okkar kynni við borgina, en sýna Huldu helstu staði því hún hafði ekki komið þar áður. Síðan að keyra suður til Saint Jean De Losne morguninn eftir og fara um borð.

"Never lost" GPS tæki sem Hulda fékk að láni gerði okkur kleyft að keyra rakleitt að Hótelinu sem við áttum pantað, steinsnar frá Effelturninum, og var drifið í að skrá sig inn, koma bílnum í bílageymslu Hótelsins og fara síðan í skoðunarferð um borgina. Varð dagurinn því dæmigerður "túristadagur" í skoðunartúr með opnum strætó við ráp og gláp. Ekki lögðum við í að fara upp í Effelturninn þótt við byggjum svo til við hliðina á honum, því að biðröðin hefði tekið lungann af þeim tíma sem við höfðum til að skoða okkur um.

Morguninn eftir, fimmtudaginn 17. fórum við svo af stað keyrandi til Saint Jean De Losne. Þegar ég kom niður í bílageymsluna undir Hótelinu var búið að setja stórann skammarmiða undir rúðuþurrkuna, á frönsku, og skildist mér á miðanum að bílageymslan væri fyrir fleiri hús en Hótelið og að ég hafði lagt í stæði sem einhver annar átti. Ekki var mér sagt það í móttökunni þegar mér var bent að fara niður með bílinn og vona ég að eigandi stæðisins fyrirgefi mér mistökin.

Ferðin suður til Saint Jean De Losne gekk eins og í sögu, í glampandi sól mestan hlutann, en ekki var miklum hlýindum fyrir að fara einungis um 15° C. Þegar um klst. keyrsla var eftir ákváðum við að stoppa og rétta aðeins úr okkur á útiveitingastað (vorum reyndar búin að gera það nokkrum sinnum), en nú var ákveðið að tími væri kominn fyrir dömurnar að fá sér rauðvínsglas á lokaleggnum og ætlaði ég að kaupa sitthvora 33 CL flöskuna handa þeim að dreypa á á leiðinni. Það var hins vegar algjörlega bannað að fara með þær út úr veitingastaðnum og urðu þær því að vera "þurrbrjósta" í blávatninu eins og bílstjórinn.

Þegar við fórum að nálgast Saint Jean De Losne fann ég að "Never lostið" vildi leiða okkur aðra leið en ég þekkti, en þar sem ég þekkti orðið umhverfið var ég ekkert að gera mér rellu út af því og lét það ráða. Hins vegar leiddi tækið okkur í næsta smáþorp austan við Saon fljótið, en eftir að hafa fengið smá leiðbeiningar vorum við fljót að finna rétta staðinn, enda við bæjardyrnar, og komum við að höfninni um kl. 1630.

Þarna lá nú LILJA BEN, hvít og nýbónuð við gestabryggjuna í Saint Jean De Losne og beið eftir okkur. Ekki var samt til setunnar boðið og farangrinum hent um borð og dömunum falið að ganga frá, því ég þurfti að koma bílnum í skil upp að aðaljárnbrautarstöðinni í Dijon fyrir kl. 1800. Þegar við komum um borð kom í ljós að nýju teppin sem við vorum búin að panta á LILJU BEN voru ekki komin svo ég hringdi og kvartaði. Lofuðu þeir að koma með þau daginn eftir.

Næst var að finna adressu aðaljárnbrautarstöðvarinnar í Dijon til að setja í "Never Lostinn" og ákvað ég að fara á skrifstofuna til Hafna, láta hann vita af komu okkar og biðja hann að fletta upp adressunni fyrir mig. Ekki veit ég hvor var ánægðari að sjá hinn, en þó held ég að Hafni hafi verið sérlega ánægður að sjá að allar okkar áætlanir stóðust. Ekki stóð á því að Hafni vildi finna adressuna fyrir mig, en viti menn, þótt hann fletti upp í símaskránni og á netinu var ómögulegt að finna adressu aðaljárnbrautastöðvarinnar og vorum við sammála um að þær þyki svo sjálfsagðar að slíkir smámunir eins og adressa á þeim séu alls ekki skráðar. Endað þett með því að hann fann út hjá einhverjum á skrifstofunni adressu rétt hjá stöðinni, sem ég gat sett inn í "Neverlostið" og brenndi af stað enda að falla á tíma. Allt endað þetta með því að ég gat skilað bílnum á réttan stað eftir smá hringsól við járnbrautarstöðina við að finna rétta aðkomu að geymslusvæði Hertz. Var svo tekinn leigubíll um borð og stóð á endum að þegar þangað var komið voru teppin komin á og höfðu Lilja og Hulda stjórn á því öllu.

 


135. Áætlun vorsiglingar 2008

Groninchem 127 Legið í blíðu í Rín, 2007 

Þá er verið að leggja í vorsiglinguna 2008. Erum við bókuð með Icelandair til Prísar miðvikudaginn 16. apríl og ætlum að gista eina nótt þar og halda svo til móts við LILJU BEN í Saint Jean De Losne þann 17. Með okkur frú Lilju fer systir mín Hulda Petersen og áætlar hún hálfsmánaðardvöl um borð. Í Saint Jean De Losne munum við búa LILJU BEN undir siglingu á sjó, samkvæmt íslenskum reglum m.a. með því að setja nýjar festingar fyrir björgunarbátinn og byrgja okkur upp af neyðarrakettum og blysum. Samkvæmt ósk okkar á að vera búið að leggja ný teppi innandekks og gera við skemmd á einni skrúfunni sem við gátum beygt lítillega síðastliðið haust.

Við áætlum að leggja af stað frá Saint Jean De Losne laugardaginn 19. apríl, áfram niður Saon fljótið í rúmlega 5 tíma siglingu suður til Macon. Í aðalatriðum er áætlunin að sigla þaðan og skoða okkur um í Lyon, Arles og Marseille í Frakklandi, síðan í Monoco og svo í Genova á Ítalíu. Inn á milli er stoppað næturlangt í ýmsum minni bæjum á leiðinni, en meðalsigligatími þá daga sem siglt verður er áætlaður um 4 tímar. Í Genova ráðgerir frú Hulda að yfirgefa skipið og halda heim.

Við áætlum svo að sigla áfram suður með strönd Ítalíu með viðkomu í bæjunum La Spezia, Livorno, Porto Azzuro á Elbu, Civitarécchia og til Rómar. Ráðgera dóttir okkar Ragnhildur og hennar maður Hjálmar að koma til móts við okkur við Elbu, 11. til 12. maí og sigla með okkur áfram í einhverja daga, vonandi sem lengst, því þeim veitir ekkert af fríi. Frá Róm ætlum við svo að sigla suður til Napoli með viðkomu á nokkrum stöðum til næturlegu og vonumst við að ná í þessum áfanga til bæjarins Sapri sunnan við Napoli og leggja LILJU BEN þar yfir sumarið. Á þessum siglingalegg áætlum við að sigla að meðaltali einungis í 3 tíma á dag, þegar yfir höfuð er siglt, en auðvitað verða legudagar notaðir til skoðunarferða. Við erum að áætla að vera í Sapri 24. til 28. maí og að halda þaðan heim um Napoli í kjölfarið.

Auðvitað er hér um áætlun að ræða sem getur tekið allavega breytingum því eins og áður er margsagt er enginn að flýta sér neitt og stoppað lengur eða skemur allt eftir því hvernig manni líkar hverju sinni.


Óðinn

_DSC0476 Úr myndasafni á heimasíðu Landhelgisgæslunnar, með þökk.

Ég hef ekki skrifað lengi á þessa síðu, enda farinn að skipta mér af svo mörgu að ég hef ímyndað mér að ég hafi ekki haft tíma. Sennilega sjálfslygi.

Nú, það er ekki miklu við að bæta frá ferð minni til Azoreyja 1997, þar sem ég hef greint ykkur frá vinnu minni þar við gagnasöfnun vegna endurskoðunar á neyðaráætlun þeirra.

Hins vegar er varðskipið Óðinn kominn til Sjóminjasafnsins í Víkinni (Reykjavík) og erum við nokkrir fyrrverandi skipverjar farnir að vinna með safninu við að koma honum í horf sem "sýningargrip". Þeir sem helst hafa verið með mér um borð í því brasi eru Pálmi Hlöðversson fyrrv. stýrimaður og skipherra, Sæmundur Ingólfsson fyrrv. yfirvélstjóri og Tryggvi Bjarnason, fyrrv. bátsmaður og stýrimaður. Höfum við Pálmi tekið brú, kortaklefa og fallbyssu í fóstur, Sæmundur hefur verið að vinna vélakerfinu til góða og Tryggvi verið iðinn við að berjast við ryð á afturdekkinu. Rétt er að geta þess að stofnuð voru "Hollvinasamtök Óðins", sem í eru margt fólk sem leggur hönd á plóg þótt ekki sé það talið upp hér.

Ástæðan fyrir því að ég blogga um þetta sérstaklega er sú að þetta lýsir einni af þeim dellum sem ég fæ og hef gaman af. Ég átti þess kost að sigla á þessu góða skipi mörgum sinnum á 7. áratugnum, á fyrstu árum þess í þjónustu Landhelgisgæslunnar, sem 3., 2. og yfirstýrimaður. Því þykir mér vænt um skipið og finst gaman af að fá að gera því það litla til góða sem ég get. Við Pálmi erum búnir að rífa skotbúnað fallbyssunnar í spað til að hreinsa hann upp, ryðhreinsa hana og grunnmála og vonast ég til við verðum búnir að fullmála hana áður en við frú Lilja förum út að sigla á okkar skipi. Einnig höfum við Pálmi verið að leita að siglingatækjum frá fyrri tíð sem stuðst var við, við siglingar þess tíma sem Óðinn kom nýr, og einnig tæki sem sýna þá þrónarsögu siglingatækninnar sem orðið hefur á þessum tíma. Er hugmyndin að koma þeim fyrir í brú skipsins og kortaklefa. Það er gott að hafa skemmtilegar dellur þegar komið er á eftirlaun, enda er stutt í taugina í mér til siglinga og sjómensku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband