12.10.2008 | 23:02
149. Á tærum sjó í stað mórauðrar drullu fljóta og skurða.
Það varð mikil breyting þegar við fórum frá St. Louis, þriðjudagsmorguninn 29. apríl. Sól skein í heiði, hlýtt og notalegt í lofti en mesta breytingin var að við vorum loksins komin út á sjó. Því var ekki laust við að spenna væri í lofti þegar við leystum landfestar í St. Louis og hófum för okkar út 3. sjóm. langann Canal St. Louis, út í Fos flóann. Á leiðinni út skurðinn voru olíutankar á bæði borð, dreifðir um sléttlendi óshólmanna og þegar landinu sleppti varð í fyrstu að fylgja þröngri rennu sem var vel baujuð en síðan tók flóinn við. Þegar síðari baujunni sleppti setti ég stefnu í fyrsta skipti í tvö ár samkvæmt kompásnum 080°. Hvílík bylting opið haf, stór og smá skip á ferðinni inn og út flóann fallegur fjallahringur framundan með austurströnd flóans og það sem var mest um vert tær, blár sjór með mjallhvítri kjölrák, bylting frá mórauðum drullulit þeirra fljóta og skurða sem við vorum búin að sigla um.
Fos flóinn sem siglt var nú yfir er nokkuð stór og gengur inn í Miðjarðarhafsströnd Frakklands milli ósa Rhone að vestan og Couronne höfða (Cap Couronne) að austan. Í botni flóans eru stærstu olíuhreinsunarstöðvar Frakklands en þær sáum við ekki nákvæmlega úr þeirri fjarlægð sem við sigldum heldur eingöngu reykháfana. Sérstök djúprenna er grafin inn flóann til að sigla stærstu olíuskipum inn að legubaujum sem eru út um allann flóa. Í þær liggja svo neðansjávarleiðslur til að dæla farminum í land eða út í skip eftir atvikum. Í logni getur mengunarskýið frá olíuhreinsunarstöðvunum takmarkað skyggnið verulega á flóanum, en það var ekki vandamálið nú í hægum sunnan andvara sem blés reykjarsvæluna inn yfir land.
Þegar við komum austur fyrir grynningar sem ganga langt út í flóann vestanverðan breytti ég stefnunni á Couronne höfðann og fór nú að birtast æ betur það klettótta landslag sem einkennir Rivieruna þótt hún byrji ekki formlega fyrr en austan við Marseille. Þessi strandlengja sem er mjög falleg er kölluð La Côte Bleue. Með allri ströndinni, allt til Marseilles, sem við stefndum nú til, eru brattir klettar, sundurskornir af giljum og litlum dölum sem enda í víkum eða litlum fjörðum þar sem standa vinaleg smáþorp, einstök hótel eða glæsivillur auðkýfinga. Þessi strönd er eins og fortjald að þeirri ægifögru strönd sem við áttum eftir að fara meðfram á milli Marseille og La Ciotat. Allstaðar mátti sjá skemmtibáta, skútur og kafarabáta þar sem fólk var að njóta fegurðarinnar ofansjávar sem neðan. Áður en komið er að Couronne höfðanum er farið framhjá grynningum undan þorpinu Carro, sem eru vel merktar með s.k. Cardinálum. Austan höfðans líða svo framhjá þorpin Verdon, Tamaris, Susset-les-Pins, Carry-le-Rouet, La Redonne, Méjéan og Niolon en þá blasti við stórborgin Marseille.
Þegar við settum stefnuna á Vieux Port hafnarmynnið í Marseille, frá Cardinálanum SV af Niolon var byrjað að hvessa og hvíta í báru. Vorum við fegin að farið var að styttast í áfangastaðinn framundan, elsta og mest sjarmerandi hluta Marseille. Á stjórnborða voru Frioul eyjarnar sem við þekktum úr sögunni um Greifann af Monte Christie. Á bakborða voru hafnargarðarnir þar sem risa skemmtiferðaskipin lágu, síðan tók við svæði flutningaskipanna en að lokum var komið að Vieux Portinu sem við stefndum inn í eftir að tvær ferjur voru búnar að bruna út. Dómkirkjan í Marseille er notuð sem fyrsta viðmiðum til að stefna á þegar höfnin er tekin og síðan er stefnan sett með innsiglingavita á norðurgarði flutningaskipahafnarinnar, Farið er inn með honum , síðan inn með grjóthleðslu með suðurströnd hafnarinnar þar til vik kemur til stjórnborða meðfram St. Jean virkinu sem er ekki hægt að villast á. Þar er beygt inn og þá er komið inn í skemmtibátahöfnina sem teygir sig inni í miðborgina og er glæsileg í alla staði. Vieux höfnin er með 1000 legupláss fyrir snekkjur allt að 100 m. langar. Þarna fengum við þetta líka fína legupláss, beint fyrir neðan aðalskrifstofu hafnarinnar öndvert við St. Jean virkið. Það eina sem mátti segja neikvætt um plássið var að það var svolítil órólegt að liggja þar vegna umferðar skipa framhjá, sem var veruleg. Við vorum búin að binda kl. 13:45 eftir tæplega 5 klst. siglingu frá St. Louis.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2008 | 21:30
148. Loksins Miðjarðarhafinu náð.
Við lögðum í hann frá Avignon á sunnudagsmorgni 27. apríl s.l., kl. 0855, í sunnan golu, skúrum og 16°C hita. Stefnan var sett áfram niður Rhone, sem eftir skamma siglingu breikkaði svo að hún leit frekar út sem fjörður en fljót, eftir að farið var framhjá þar sem Durance fljótið rennur í hana. Kl. 1025 fórum við inn í næst síðustu slússuna á leið okkar gegnum Evrópu, Beaucaire-Vallabrégues með 15.5 m. falli niður. Þá vorum við í raun komin inn á þær sléttur suður Frakklands sem framburður fljótsins er búinn að mynda um þúsundir ára. Hitinn í lofti hækkaði eftir því sem leið á daginn en þegar við sigldum framhjá borginni Arles fór að bera á auknum vindi af SV sem ýfði yfirborð fljótsins, ský dró upp á himinn og það kólnaði nokkuð.
Nú breittist allt umhverfið því segja má að byggð hafi horfið með öllu á bæði borð, aðeins skógur og meiri skógur. Virkaði þetta umhverfi eyðilega á okkur eftir hundruðir km. siglingu þar sem alltaf höfðu skipst á engi, skógar, þorp, borgir og einstaka kastalar eða virki. Nú fór líka að hvessa verulega af suðri og þar sem vindur stóð upp fljótið var hann á móti straumnum sem er mjög vond blanda fyrir öldumyndun. Enda leið ekki á löngu fyrr en kominn var barning á móti krappri öldu sem LILJA BEN hjó í og lamdist með miklum látum. Tók ég það ráð að skáskera fljótið bakka á milli til að fá ölduna allt að 30° á borð, til að reyna að halda uppi hraðanum því að við vorum að keppast við að ná í síðustu slússuna kl. 1400, en hún er til sjávarfallajöfnunar milli fljótsins og yfirborðs Miðjarðarhafsins. Næðum við ekki í tíma átti ekki að opna hana aftur fyrr en kl. 1630, samkvæmt upplýsingunum í leiðsögubókinni. Þessi slússa er við borgina St. Louis sem er á óshólmum Rhone fljótsins og tengist Miðjarðarhafinu með skipaskurði út í botn Fos flóans (Golf de Fos). Ekki er hægt að sigla út síðustu 100 km. af óshólmunum vegna síbreytilegra grynninga og því er siglingaleiðin tekin þarna út úr fljótinu um slússuna, inn í borgina, þar sem er ágætis skemmtibátahöfn, og síðan eftir skurði þaðan út á sjó eins og áður sagði.
Eitthvað þurftum við að lækka hraðann vegna barningsins en náðum samt að slússunni fyrir kl. 1400, en þá kom í ljós að til einskis höfðum við barist við að halda hraðanum uppi því ekki átti að taka okkur inn fyrr en kl. 1630, þrátt fyrir allt. Lögðumst við því við biðkæja og hvíldum okkur eftir barninginn niður þennan síðasta áfanga fljótsins. Meðan við biðum gekk ég frá leguplássi í skemmtibátahöfninni sem var hinu megin við slússuna og gekk yfir að höfninni til að kanna aðstæður. Uppi á bakkanum þar sem við biðum voru nokkrir bátar sem var verið að dytta að og kom einn af mönnunum sem þar var að dunda við bátinn sinn og heilsaði upp á okkur. Var þar kominn Dani nánar tiltekið Jóti sem búinn var að sigla um öll heimsins höf og þar á meðal verið á síld á Íslandi á 7. áratugnum. Var hann nú sestur í helgan stein þarna í Suður Frakklandi og undi hag sínum ágætlega, með trillu sína til að stytta sér stundir við.
Þegar tíminn var kominn var okkur hleypt inn í slússuna og var það stutt viðdvöl því hæðarbreytingin var svo lítil að við urðum ekki vör við hana og vorum því á örskömmum tíma komin í gegn og á Miðjarðahafið. Búið var að ná markmiðinu sem við vorum búin að stefna að í tvö ár. Einhvernveginn gleymdum við að gera okkur grein fyrir þessum merkisáfanga því við vorum þreytt og slæpt eftir erfiða ferð niður fljótið og enn átti eftir að komast í lægi í þessu hvassviðri sem enn stóð. Þegar við komum út úr slússunni stefndi ég þvert yfir höfnina og að boxi beint á móti, þar sem við vorum búin að fá legupláss. Enn var spænurok en þó tókst að snúa og bakka undan vindinum inn í boxið og ná að stjórna bátnum meðan við sigum inn í boxið. Frú Lilja stökk upp á flotbryggjustubb á bakborða um leið og hægt var til að ná enda til að setja fast og lét Hulda systir sig vaða á eftir henni. Munaði engu að þær hrötuðu báðar í sjóinn þar sem bryggjan lét undan og ruggaði villt og galið, bæði vegna hamagangsins í þeim og öldugangsins í höfninni. Þegar búið var eftir mikið bras að binda bátinn tryggilega fórum við að huga að nágrenninu og átta okkur á hvar við vorum niðurkomin. Höfnin virtist í stærra lagi en ofan við þar sem við lágum var opið svæði en um 100 m. ofan við það var húsaröð með einhverkonar þjónustufyrirtækjum. Sjálfan bæinn var ekki að sjá vegna trjágróðurs, aðeins húsaröð meðfram hafnarbökkunum. Þó vorum við svo heppin að stórmarkaður var sjáanlegur ofan við húsaröðina sem áður er nefnd og drifum við okkur þangað til að kaupa inn nauðsynjar, en hann var opinn þrátt fyrir að það væri sunnudagur. Á bakaleiðinni sáum við að búið var að opna veitingastað í húsaröðinni fyrir ofan leguplássið okkar og var nú snarlega tekin sú ákvörðun að elda ekki um kvöldið heldur borða úti, enda dagurinn búinn að vera langur og strangur. Ekki var umhverfið meira aðlaðandi en svo, í kalsanum þarna í St. Louis, að Huldu systir varð að orði að "þetta væri eins og einhver helvítis Raufarhöfn".
Eftir að hafa "súnnað" okkur til réðumst við svo til landgöngu, í trekki og rigningu, og undum okkur inn á veitingastaðinn sem var hinn fallegasti, splunkunýr og þiljaður að innan með ljósum panel. Nú skildi sko slappað af og ekki komið nálægt eldamensku. Eftir dæmigerða tungumálaerfiðleika, túlkanir og ekki túlkanir pöntuðum við fjölbreyttann kjötrétt sem samanstóð af kjötflísum af ýmsum skepnum, þekktum og okkur óþekktum, grænmeti og ýmsu góðgæti með. Skömmu síðar fór allur ásetningur um að nú skyldi ekki eldað veg allrar veraldar. Komið var með stóra rafmagnshellu og henni skellt á borðsendann. Síðan kom maturinn ásamt kryddi og grænmeti, allt hrátt og urðum við að elda allt ofan í okkur sjálf og þar sem konurnar voru í eldunarstræk lenti það á skipstjóranum að mestu.
Í höfninni í St. Louis eru 325 legupláss fyrir skemmtibáta allt að 25 m. lengd. Bærinn er þekktur fyrir eilífan en mismikinn vindsperring sem stendur ýmist upp eða niður Rhone-dalinn. Bærinn var áður mikilvæg miðstöð sjóflutninga en sú stafsemi hefur nú flust til nýrrar stórhafnar fyrir botni Fos flóans þar sem risið hafa tröllauknar olíuhreinsunarstöðvar og efnaverksmiðjur, hin ljótustu monster með tilheyrandi mengun. Ég vil nú meina að St. Louis megi vera fegin að vera laus við þann ófögnuð.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2008 | 21:20
147. Um Miðjarðarhaf í blíðu og ólgusjó.
Ég hef ekki skrifað á þessa bloggsíðu nú um nokkurn tíma því við höfum helgað síðustu mánuði siglingum og verið í litlu sem engu netsambandi fyrir vikið. Það er t.d. mjög merkilegt að það er svo til ekkert lagt upp úr netsamböndum í skemmtibátahöfnum við Miðjarðarhafið.
Frá síðustu færslu erum við búin að sigla mikið, úr Rhone fljótinu og inn í Miðjarðarhafið, austur eftir Rivierunni, fyrst þeirri Frönsku og síðan þeirri Ítölsku og svo suður með vesturströnd Ítalíu. Enduðum við siglinguna nú í haust í Scilla, litlum bæ við mynni Messinasundsins, milli meginlands Ítalíu og Sicileyjar. Í Scilla kynntumst við frábærri konu, Ástu Sirrý Guðjónsdóttur og manni hennar sem er Ítalskur og rekur höfnina í Scilla ásamt bræðrum sínum. Einnig kynntumst við foreldrum Ástu sem voru stödd í heimsókn, þeim Guðjóni og Hildi, fótboltamanninum Emil Hallfreðssyni og kærustu hans Ásu. Ég þori ekki að skrifa nafn eiginmans Ástu af hættu á að stafsetja nafnið rangt.
Þar sem nú er að koma vetur ætti að vinnast tími til að skrifa ferða- og siglingasögu ársins, enda er MY LILJA BEN komin í vetrarlegu í geymslusvæði á landi, í Reggio, næsta bæ sunnan við Scilla, en Emil spilar í liði Reggio. Þetta er búið að vera eitt allsherjar ævintýri með óteljandi uppákomum. Við vorum að mestu leiti í yndislegu Miðjarðarhafsveðri, sumri, sól og blíðu en lentum þó í óvæntum illviðrum og sjógangi. Við áttum skemmtileg samskipti við annað bátafólk, alvarleg bilun kom upp, við vorum rænd einu sinni og lentum í litlu mafíusvindli í annað skipti. Samtals sjö gestir voru með okkur lengri eða skemmri tíma og lögðu gestir í einum siglingaleggnum meira að segja á flótta frá okkur. Framar öllu voru þó ferðirnar yndislegar um mörg af fegurstu svæðum sem augum má líta, þar sem saga og merkileg menning er við hvert "strandmál". En nánar ætlum við að segja frá því eftir því sem sögunni vindur fram og munum við byrja pistlana frá því þar sem frá var horfið í síðasta pistli, Avignon.
Lífstíll | Breytt 14.10.2008 kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2008 | 21:26
146. Avignon, perla suður Frakklands
Mikið er auðvelt að dæma það óþekkta, sérstaklega ef fyrstu kynnin verða í myrkri og full af tortryggni. Kvöldganga okkar eftir komuna til Avignon var "sjokking". Fyrir það fyrsta var NAVIGATOR argasta rónabúlla, eins og áður sagði og í annan stað leiddu tilraunir okkar, til að kíkja inn um borgarhliðin (reyndum tvö), inn í mjó og koldimm stræti sem virkuðu óaðlaðandi eftir ömurleika rónabúllunar. Óöryggi og vonbrigði voru því fyrstu kynni okkar af Avignon, þótt fegurð borgarinnar þegar við komum siglandi að henni ætti að lofa öðru. Það var því engin stemming fyrir langri dvöl þarna þegar við fórum að sofa. Þegar þessi pistill er skrifaður þakka ég hins vegar Guði fyrir að við fórum og skoðuðum borgina betur daginn eftir og sé mikið eftir að hafa ekki eytt þarna lengri tíma. Avignon er að mínum dómi perla suður Frakklands og einn af fallegustu stöðum sem ég hef komið til.
Við fórum í land snemma á sunnudagsmorguninn 27. apríl og stefndum rakleitt á eitt af borgarhliðunum sem er beint ofan við fljótsbakkann þar sem við lágum. Gatan sem við komum inn í er þröng en nú var sólskin, bjart og hlýtt, rónabúllan gleymd og sálarlífið jafn bjart og sólin. Eftir stutt labb opnaðist stórt markaðstorg þar sem fjölmenni var að gramsa á söluborðum kauphéðna og var mikill hamagangur í öskjunni. Þegar áfram var haldið kom í ljós ævintýraheimur borgar sem er full af lífi, sögu, list og fegurð. Gengum við í gegnum virkisborgina og upp á aðalgötuna sem liggur í gegnum hana, til að finna "tourist information" skrifstofu og ná í upplýsingar um skoðunarferðir. Gekk það greiðlega. Fyrir þá sem ætla að heimsækja Avignon er mælt með fjórum gönguleiðum, sem sýndar eru á öllum ferðamannakortum Avignon. Þær spanna allt það sem markverðast er að skoða í borginni, en sé farið fótgangandi veitir ekki af jafn mörgum dögum ætli maður að njóta þess sem gönguleiðirnar bjóða uppá. Við ætluðum hins vegar að eyða aðeins einum degi í borginni svo að við tókum opinn útsýnisvagn og náðum þannig að kynnast mestum hluta borgarinnar þótt það yfirlit gæfi ekki færi á að skoða nánar þá fjölmörgu merkisstaði sem þarna er að sjá.
Avignon er búin að vera á heimsminjaskrána UNESCO frá 1995 og hefur einn af fremstu arcitectum UNESCO á sviði menningarverðmæta lýst þeirri skoðun sinni að Avignon sé Acropolis Frakklands og einn fegursti staður heims. Borgin er eitt allsherjar minja-, lista- og sögusafn. Borgin státar af því að innan borgarmúranna er Höll Páfans, varðveitt frá þeim tíma þegar kaþólski páfinn hafði aðsetur í Frakklandi en allt í allt höfðu sjö páfar aðsetur í Avignon frá 1305 til 1378 eða þar til Vatikanið var stofnað í Róm. Höllin til heyrði páfastóli allar götur fram til 1791.
Í stuttum ferðapistlum eins og þessum verður borginni ekki gerð frekari skil en lesendum bent á að fara inn á slóðina www.wikipedia.org/wiki/avignon og fræðast frekar um hana þar.
Við gáfum Avignon of stuttan tíma en framundan var lokaleggurinn til Miðjarðarhafsins, sem var búið að vera markmið síðustu tveggja ára, svo það togaði meira. Þarna vorum við á fljótsyfirborðinu aðeins 10 m.y.s þannig að eftir var aðeins eins dags sigling fram eftir óshólmum Rhone fljótsins.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2008 | 00:48
145 til AVIGNON og rauðvín á rónabúllu
Við héldum áfram til Avignon laugardaginn 26. apríl kl. 0920. Þegar við fórum frá Valence var N átt, nokkuð hvasst eða 5 vindstig, sólskin og 18°C hiti. Hélst þetta góðviðri allann daginn og lygndi frekar eftir því sem leið á daginn. Lítið mál var að taka út í þessari vindátt en þó þurfti að hafa gát á þegar komið var út í rennuna þar sem straumurinn reif í og skella á góðri drift meðan farið var yfir á fjarbakkann þar sem okkar siglingaleið lá.
Leiðin niður fljótið var að mestu tíðindalaus enda skiptist leiðin reglulega á milli fljóts og skipaskurðar með slússum í öðrum endanum, til að þrepa skipin niður, í okkar tilfelli. Slússurnar sem við þurftum að fara í gegnum á þessari leið voru 6 talsins, flestar með um 9 til 12 m. falli en ein var þó afgerandi stærst "Ecluse de Bolléne þar sem við fórum 23 m. niður í einum rikk. Hún lét lítið yfir sér þar sem við sigldum inn í hana barmafulla, með lága bryggjukanta á bæði borð. Hins vegar var ekki laust við að hún virkaði ógnvekjandi 20 mínútum seinna þegar við vorum, eins og krækiber í helvíti, ofaní þessum risadammi með 23 m. háum veggjum á alla kanta. Afturundan var 23 m. hátt hliðið sem við höfðum komið inn um skömmu áður og var ekki laust við að maður hugsaði meðan beðið var eftir að hliðið fyrir framan opnaði, "hvað ef afturhliðið gæfi sig og 23. m. vatnsmassinn myndi steypast yfir mann"?
Rhone dalurinn er fallegur þarna þar sem hann liðast á milli hæðanna áður en óshólmar Miðjarðarhafsins taka við nokkru fyrir sunnan Avignon. Eins og víðast teygja sig akrar, vínekrur og beitilönd til beggja handa nema þegar þorp, kastalar, krikjur og bæir líða hjá. Farið er framhjá Marcoule kjarnorkurannsóknarstöðinni sem er sú stærsta í Frakklandi og skömmu neðar við fljótið er farið framhjá Tricastin kjarnorkuverinu sem er feikna mikið mannvirki að sjá. Það sem vekur athygli við þessi kjarnorkumannvirki er hversu allt er snyrtilegt og flott í kringum þau sem er mikil andstæða við önnur orkuver eða verksmiðjur í Evrópu þar sem ljótleikinn og draslaragangurinn fær að ráða ríkjum. Eins og kunnugt er á kjarnorkan undir högg að sækja og því má ætla að þar sé lögð áhersla á sem besta ímynd út frá snyrtimensku og fallegu umhverfi, eins og gert er við álverin og virkjanirnar á Íslandi. Það eru tvímælalaust snyrtilegustu mannvirki á Íslandi meðan almenn iðnaðar- og atvinnusvæði, þ.m.t. í matvælaiðnaði okkar eru oftar en ekki vaðandi í hirðuleysi, ljótleika og sóðaskap.
Þegar kemur niður að Avignon kvíslast fljótið þannig að stór eyja myndist milli kvíslanna og liggur siglingaleiðin eftir vestari kvíslinni. Borgin Avignon breiðir hins vegar úr sér til beggja handa, en gamla virkisborgin, sem er perla svæðisins, stendur þó öll austan við eystri kvíslina. Höfnin eða viðlegukantarnir liggja meðfram fljótsbakka eystri kvíslarinnar, við borgarmúra gömlu virkisborgarinnar. Ekki má fara inn í eystri kvíslina að ofan verðu heldur verður að fylgja vestari kvíslinni suður fyrir endann á eynni, þar sem kvíslarnar renna aftur saman. Halda verður áfram undir járnbrautarbrú sunnan við endann og fylgja nákvæmlega nokkuð óvenjulegum leiðarmerkjum áður en snúið er við og undir brúnna aftur, nú á móti straumi og inn í eystri kvíslina. Bæta þurfti verulega við vélaraflið þegar farið var inn í eystri kvíslina vegna straumþungans.
Þegar siglt er inn eystri kvíslina er skógi vaxin eyjan á bakborða með fallegum hótelum og veitingastöðum meðfram bakkanum, en á stb. hönd er virkisbærinn, gamla Avignon, sem við nánari skoðun er perla suður Frakklands. Á bakkanum Avignon megin koma fyrst lægi fyrir farþegaskipin sem ganga eftir fljótunum og er síðan siglt undir tvær umferðarbrýr sem tengja saman gömlu virkisborgina, eynna og þann hluta Avignon sem liggur vestan við vesturkvíslina. Þá er komið að Saint Bénézet brúnni, sem skagar út í hálft fljótið. Hún var byggð á 12. öld en rústuð í Albigensian krossferðunum 1226 og endurbyggð í kjölfar þess. Hins vegar varð brúin fyrir endurteknum skemmdum vegna flóða og endanlega aflögð sem slík á 18. öld. Nú er hún komin á heimsminjaskrá UNESCO eins og stór hluti gömlu virkisborgarinnar, þannig að þessum hluta sem enn stendur er haldið við í upprunalegri mynd. Þegar við komum siglandi upp fyrir Saint Bénézet áttu flotbryggjur skemmtibátahafnarinnar að koma ljós en nú brá svo við að aðeins sást ein flotbryggja sem var með húsi á og lægi fyrir ferju sem gengur frá virkisbænum og yfir í veitingastað hinu megin fljótsins á eyjunni. Varð mér í fyrstu ekki um sel því kl. var orðin 6 að kveldi, langur dagur að baki, og ekkert annað lægi að hafa nærri. Var ljóst að búið var að leggja flotbryggjurnar af og fanst mér það í sjálfu sér ekkert skrítið vegna straumþungans í ánni. En þegar komið var upp fyrir flotbryggjuna með ferjulæginu kom í ljós að leggjast mátti við fljótsbakkann, sem var með festihringjum, rafmagnskössum og vatnshönum fyrir báta, enda nokkrir bátar þar í lægi. Renndum við að og bundum þarna á þessum friðsæla og fallega stað kl. 1830 um kvöldið.
Beint upp af staðnum þar sem við lögðumst var veitingastaður með því virðulega nafni NAVIGATOR á stóru skilti og lagði ég til að þegar við værum búin að koma okkur fyrir og snæða kvöldverð skyldum við aðeins líta í bæinn og byrja á að fá okkur rauðvínsglas á þessum virðulega stað. Það var svo ekki fyrr en kl. að ganga 9 um hvöldið sem við röltum upp á NAVIGATOR sem reyndist þá vera argasta rónabúlla sem við athuguðum ekki fyrr en við vorum búin að panta rauðvínsglös og vorum við fljót að stinga úr þeim og hypja okkur út hið bráðasta. Gerðum við lítilsháttar tilraunir með að ganga inn fyrir borgarmúrana og kíkja á bæinn, en fanst allt umhverfið svo skuggalegt að ákveðið var að bíða birtu með frekari könnunarleiðangra. Voru þessi fyrstu kynni af Avignon svo nöturleg að við töldum litlar líkur á að okkur myndi líka við staðinn en annað átti eftir að koma í ljós.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2008 | 12:14
144. VALENCE
Ekki hefur verið skrifað í nokkurn tíma á síðuna, vegna bilunarinnar sem varð.
Einn þeirra manna sem aðstoðaði okkur við að leggjast í VALENCE, með því að gefa mér bendingar og taka svo við enda, var Sænskur, einn að þvælast á skútu og lá næst innan við okkur. Gengt honum aðeins innar við bryggjuna lá blár bátur með stefni að og kom í ljós að þar var kominn Norski vinur okkar frá haustinu áður, en fjallað er um hann í pistlum 109, 118, 119 og 120. Urðu nú fagnaðarfundir þegar hann kom og heilsaði upp á okkur. Sagðist hann strax hafa grunað að hér værum við á ferð, þegar hann sá íslenska fánann á LILJU BEN skríða inn í höfnina að baki bátunum sem skyggðu á. Var hann orðinn góðvinur Svíans sem lá við hliðina á okkur og var að koma til að heimsækja hann þegar hann sá okkur á dekkinu. Var það skemmtileg tilviljun að vera vísað á pláss við sömu bryggju og þeir því ósennilegt er að við hefðum hitt hann annars, vegna stærðar hafnarinnar og mikils fjölda báta í henni.
Eftir við vorum búin að heilsast var farið að spyrja frétta um hvað á dagana hafi drifið frá því að við hittumst síðast og sögðum við honum hvar við höfðum lagt LILJU BEN yfir veturinn og svo af siglingu okkar niður Saone og Rhon. Sagði hann okkur hins vegar frá því að hann hafi haldið áfram niður fljótin um haustið og siglt fram undir jól í Miðjarðarhafinu við strendur Frakklands og Ítalíu, og lét hann frekar illa af þeirri dvöl. Hann hafi verið óheppinn með veður mikið um hvassviðri og "store bölger" eins og hann orðaði það og áttum við eftir að reyna þessar "store bölger" síðar í ferðinni. Norsarinn var nú búinn að snúa við og ætlaði sér norður í gegnum Evrópu aftur og heim til Noregs. Sagði hann Svíann á sömu leið. Þegar ég var búinn að segja honum frá því að við bloggum ferðasöguna og að ég hafi birt mynd af honum á blogsíðunni þegar við fjölluðum um veru okkar í Epinal sagðist hann ætla að hringja og láta konu sína vita, sem er heima í Noregi, svo hún gæti skoðað síðuna. Kom hann síðan daginn eftir með myndbandsvél og tók upp prógramm með okkur til að eiga til minja. Eins og áður sagði voru þeir báðir á leiðinni aftur norður í gegnum Evrópu og voru þeir búnir að mæla sér mót við eiginkonur sínar í Lyon helgina eftir. Sagði ég þeim því frá flóðavandamálunum í Lyon þannig að þeir gætu undirbúið sig frekar með legupláss fyrir komuna þangað.
Við ákváðum að liggja í VALENCE í tvær nætur og skoða okkur sérstaklega um í bænum daginn eftir komu. Var því síðari hluti komudagsins notaður til að sinna ýmsu í kringum bátinn, nota snyrtiaðstöðuna sem er mjög góð þarna og slappa af. Föstudaginn 25. apríl notuðum við svo til að kynna okkur borgina sjálfa. Var ég búinn að fá leiðbeiningu á hafnarskrifstofunni um hvernig best væri að komast í bæinn með strætó þannig að það var einfalt mál, en eftir á að hyggja hefði trúlega verið einfaldara og fljótlegra að ganga til miðbæjarins eftir fljótsbakkanum (tæplega 2 km. leið) en fallegur skrúðgarður liggur með fljótinu stóran hluta leiðarinnar "Parc Jouvet". En strætó tókum við.
Einhvernvegin höfðaði VALENCE ekki til okkar á sama hátt og aðrar borgir og bæir Frakklands. Hún virkaði á okkur frekar nútímaleg og fráhrindandi þannig að það vantar þann sögulega virðuleikablæ sem sem víðast ríkir á þessum slóðum Evrópu. Nú er e.t.v. ekki sanngjarnt að dæma út frá svona stuttri heimsókn en svona virkaði hún á okkur öll þrjú. Miðborgin er mjög opin með breiðstræti sem sker hana í tvennt og ágætar göngugötur eru öðru megin við breiðstrætið og svo er þessi mikli skrúðgarður með fljótinu eins og áður sagði. Það sem vantaði þarna var hins vegar þetta afslappaða og aðlaðandi viðmót sem maður á að venjast í Frakklandi því allir virtust vera á einhverjum þönum. Annað sem líka vakti athygli okkar er að í VALENCE varð maður mun meira var við innflytjendur frá Afríku en þar sem við vorum búin að fara um. Virtist hlutfall þeirra vera hærra en annarsstaðar í Frakklandi samkvæmt þessu óvísindalega sjónmati. Þennan föstudag sem við notuðum til að skoða okkur um var mikil kröfuganga eftir aðalgötu borgarinnar sem virtist snúa að mannréttindum í Macedoniu en reyndar settum við okkur ekki inn í það. Meðan við stóðum þarna við var afbragðs gott veður sólskin og um 19°C hiti.
Eftir að um borð var komið aftur fór undirritaður að sinna reglubundnum viðhaldsþáttum en frúrnar lögðu undir sig stórmarkað í grenndinni með ítarlegri rannsóknarferð.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2008 | 17:32
Fastir liðir að venju
Eru það ekki fastir liðir að venju að byggingar og önnur mannvirki verði mun dýrari en áætlanir gera ráð fyrir? Ég minnist ekki annars og hef oft spurt mig "af hverju". Þegar rætt er við þá sem bera ábirgð á mannvirkjagerðinni og þeir eru spurðir hvað valdi eru svörin alltaf á sama veg "það eru skýringar á því". Þær skýringar sem síðan fylgja eru yfirleitt mjög léttvægar og benda til annars tveggja:
Verkfræðingar, arkitektar og aðrir hönnuðir mannvirkja séu ekki nógu klárir eða vel menntaðir í kostnaðarmati
eða
þeir sem bera ábirgð á mannvirkjagerðinni fari ekki eftir kostnaðaráætlunum, fylgist ekki með framkvæmdakostnaði, breyti út af áður gerðum áætlunum á framkvæmdatímanum og/eða bæti í framkvæmdirnar án þess að leggja fram nýjar áætlanir og fá heimild þeirra sem eiga að borga.
Nema hvort tveggja sé.
Tekið er fram að framúrkeyrsla er yfirleitt meiri en sem nemur þróun byggingarvísitölu á framkvæmdartíma.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2008 | 23:24
143. Áfram niður til Valence.
Það var gott veður, sólskin og heitt þegar við lögðum af stað frá LES ROCHES DE CONDRIEU áleiðis til VALENCE kl. 0900 hinn 24. apríl s.l. Um leið og við komum út á fljótið var farið undir CONDRIEU brúnna en á hægri hönd leið framhjá fögur húsamynd bæjarins með frægum veitingastað sem heitir BEAU RIVAGE. Hæðirnar að baki bænum eru þaktar vínviði svo langt sem augað eygir.
Eftir að CONDRIEU sleppir breiðir fljótið verulega úr sér og verður að sama skapi lyngt svo að lítið þarf að hafa fyrir siglingunni um tíma. Á vinstri hönd komu í ljós RHONE POULENC efnaverksmiðjurnar, sem ekki er hægt að segja að gleðji augað, vegna ljótleika síns, en fljótlega eftir það er farið framhjá sjarmerandi sveitaþorpi sem heitir SAINT-ALBAN-du RHONE. Skammt fyrir ofan bæinn CHAVANAY eru svo háir steinstöplar, tveir hvoru megin fljótsins, skammt út í því, og virka þeir eins og varðmenn þar sem þeir standa þarna teinréttir, en þetta eru aflagðir brúarstólpar sem ákveðið var að þyrma þegar brúin var rifin, vegna mikilfengleika þeirra. Neðan CHAVANAY stendur svo SAINT-ALBAN-SAINT-MAURICE orkuverið við fljótsbakkann, sem er risa stórt, en orkuverin eru staðsett við fljótin vegna kælivatnsþarfar þeirra sem er mjög mikil.
Þegar hér er komið tekur við SABLON skipaskurðurinn sem tekur um 20 km. langa bugðu af Rhone og í enda hans kom svo SABLON slússan þar sem við fórum niður um 15.3 m.
Eftir SABLON er aftur komið í fjótið og er svolítið varasöm tengingin við fljótið því þar eru grjótgarðar undir yfirborðinu, sem eru til varnar því að framburður berist inn í skurðinn. Garðarnir eru reyndar markaðir með baujum svo að það var ekkert mál að varast þá. 6 km. neðar er svo siglt framhjá bæjunum ANDANCE og ANDANCETTE, en þeir voru mikilvægir verslunarstaðir fyrr á öldum þegar fljótin voru höfuðleiðir verslunar og viðskipta. Nokkrar þrengingar voru nú í fljótinu framhjá bænum ST. VALLIER áður en komið var í De GERVAN skipskurðinn. Um það leiti sem við vorum að koma að mótum skurðsins og fljótsins kom sjóflugvél fljúgandi lágt á móti okkur og þóttist ég þekkja eina af flugvélunum sem notaðar eru í suður Evrópu til að slökkva skógarelda, frá því að mér var kynnt sú starfsemi í Marseille fyrir mörgum árum síðan. Þegar vélin var komin skammt aftur fyrir okkur sneri hún við, lækkaði flugið niður að vatnsfletinum, renndi sér eftir honum og tók svo aftur á loft. Brunið eftir vatnsfletinum tók ekki nema nokkrar sekundur, en í bruninu fyllti hún á tankinn af vatni sem er síðan sleppt yfir skógarelda þegar þeir geysa. Var auðsynilega verið að æfa flugmennina í vatnstökunni því vélin sleppti vatninu svo strax aftur og gerði sig líklega til að endurtaka leikinn.
Eftir De GERVAN slússuna er komið að einkennilega löguðum kletti í fjótinu sem heiti TABLE-DU-ROY, en þjóðsagan segir að þar hafi Saint - Louis látið ´"bera á borð" fyrir sig hádagisverð áður en hann fór í sína krossferð.
Rétt ofan við borgina TOURNON er farið framhjá svolítið sérstöku fjalli sem er koniskt að lögun (eins og Keilir) og alþakið vínekru vínframleiðandans TAIN-I´HERMITAGE. Síðasta slússan á þessum siglingadegi var svo BURG DE VALENCE og þurftum við að bíða þar í 20 mín. eftir farþegaskipi áður en okkur var hleypt inn og var það í fyrsta skiptið frá því að við fórum af stað í vorsiglinguna að við þurftum að bíða við slússu.
Við komum til borgarinnar VALENCE um kl. 1420 og stefndum á skemmtibátahöfnina sem er 2 km. sunnan við miðbæinn. Innsiglingin er nokkuð þröng þarna og mikill straumur í fljótinu svo beita þurfti um 30° drift til að stilla sig af inn í innsiglingarennuna, en þegar inn var komið var þetta hin fallegasta höfn með snyrtilegum bryggjum, veitngastað og fínni þjónustubyggingu. Svolítið gekk okkur brösulega að leggjast í þann bás sem okkur var úthlutað, vegna hvassviðris, en allt gekk það að lokum með góðra manna hjálp úr landi. Var búið að binda kl. 1440 og viti menn, var ekki Norðmaðurinn mættur á svæðið, en honum vorum við orðin kunnug frá því í haustsiglingunni 2007, sjá pistla 109, 118, 119 og 120.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2008 | 12:32
Áreiðanleikakönnun á greiningum!
Spá hámarks verðbólgu í ágúst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2008 | 17:57
142. Síðasta fljótið Rhon á leið til sjávar.
Það voru kaflaskil framundan þegar við lögðum í hann frá Lyon miðvikudagsmorguninn 23. apríl, eða ætti kannske að kalla það fljótaskil. Saone fljótið kvatt og Rhon næsta vatnaleið að fylgja. Við köstuðum landfestum kl. 0930 og sigldum stuttan spotta að olíubryggju sem var skammt ofar við fljótið og kl. 1000 vorum við búin að fylla af olíu og tilbúin að leggja í hann. Veðrið var ágætt þennan morgun SV 3-4 vindstig, léttskýjað og 18°C hiti. Þar sem Saone sameinast Rhon skammt sunnan við Lyon var komið að fyrstu slússunni de Pierre-Bénite þar sem við yrðum tekin 11.8 m. niður hvorki meira né minna. Við vorum svo sem búin að kynnast svona miklum hæðabreytingum á leið okkar milli Elbu og Rínar árið 2006, en síðan þá voru þrepin í slússunum vel innan við tug metra. En það var fleira sem breyttist. Þetta eru stórskipaslússur af fullkomnustu gerð þar sem festipollarnir fylgja skipunum upp eða niður veggina, eftir því á hvorri leiðinni maður er. Bátur eins og okkar er því ansi lítill í þessum gímöldum. Í hverri slússu er stór stjórnturn (control tower) og verður að kalla turninn uppi á VHF með fyrirvara og tilkynna komu og stefnu, og óska eftir heimild til að sigla að. Notar stjórnturninn síðan ljósmerki á ljósatöflu til að leiðbeina inn í slússuna. Tekið er skýrt fram að ekki megi láta sjá sig utandekks við komu í slússurnar án þess að vera í björgunarvesti og reyndum við ekki að sjá viðbrögðin ef við værum vestislaus. Allir fóru í björgunarvesti eftir að búið var að tilkynna nálgun.
Við vorum einskipa niður þessa fyrstu slússu og afgreiðslan með ólíkindum hröð. Þegar ég kallaði og tilkynnti "arriving in 5 minutes" kviknuðu strax rauð og græn ljós á töflunni sem þýða "preparing" og skömmu síðan grænt ljós, "approach". Um leið og við vorum búin að leggjast að slússubakkanum gaf ég kall í talstöðina "LILJA BEN secure" og um leið kom gult blikklós við hliðið sem við höfðum komið inn og það að lokast. Um leið og hliðið hafði lokast byrjuðum við að síga með vaxandi hraða og skyndilega var slússuveggurinn sem við höfðum lagst við orðinn 11.8 m. hærri. Þá byrjaði hliðið að opnast fyrir framan og þegar grænt ljós logaði fyrir framan var hægt að sleppa og sigla út. Allt þetta tók um 20 mín. sem má teljast ótrúlega hratt miðað við hversu mikið og margslúngin ferli er um að ræða.
Nú vorum við kominn inn í þráðbeinan skipaskurð, samhliða Rhon og var umhverfið til að byrja með forljótt verksmiðjusvæði. Fljótlega tók hins vegar við fallegt sveitaumhverfi og eftir um 9 km. siglingu komum við aftur í fljótið. Þá var siglt í gegnum forljóta olíuhreinsunarstöð í GIVORS svo í gegnum borgina VIENNE.
Ein slússa "de Vaugris" með 6.7 m. þrepi var næst og þegar við vorum að bíða eftir græna ljósinu til að fara inn truflaðist allt í einu stb. vélin og jók fyrst snúningshraðann og drap svo skyndilega á sér. Ekker var að sjá óeðlilegt í mælaborðinu. Hélt ég áfram á bb. vélinni inn í slússuna og þegar gangsett var aftur til að fara út virkaði allt eðlilega.
Við komum til skemmtibátahafnarinnar í LES ROCHES DE CONDRIEU og lögðumst þar kl. 1325. Um er að ræða smáþorp og virkilega falleg höfn þar sem ég fékk hreinsi- og þurkefni til að úða í stjórntölvur vélanna sem ég hafði grunaðar um að hafa verið að hrekkja okkur vegna rakar efir vetrarleguna. Ekki bar á sambærilegum truflunum eftir það.
Þarna versluðum við inn og hvíldumst eina nótt áður en áfram var haldið.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar