22.9.2009 | 22:55
Morgunblaðið frá Austurstræti í Hádegismóa

Rétt fyrir miðja síðustu öld gerðist ég bísnessmaður með "nætursölu" á Morgunblaðinu sem "viðskiptasnilld". Þá var Morgunblaðið til húsa í timburhúsum við Austurstræti 8, ásamt Ísafoldarprentsmiðju. Snilldin fólst í því að ég gat, í gegnum klíku, gengið að nýprentuðum og ferskum Morgunblöðum kl. sex á morgnana, áður en aðrir blaðasalar fengu afgreitt, og gengið upp Laugaveg á móti straumi þeirra daglaunamanna sem áttu að vera mættir kl. sjö á morgnana og selt þeim Moggann í lausasölu. Daglaunamenn áttu þá ekki bíl almennt og gengu því til vinnu mjög margir. Mig minnir að ég hafi aldrei komist nema upp að Barónsstíg þegar öll blöðin voru farin. Þegar þetta var, var Morgunblaðið merkilegasta blað landsins, fanst mér, með miklu og fjölbreyttu lesefni og Lesbókinni á helgum sem meira að segja polli eins og ég las spjalda á milli, enda var hún þá fjölfræðilegt rit, nokkurs konar "Lifandi Vísindi" þess tíma. Við Styrmir Gunnarsson vorum reyndar skólafélagar í Laugarnesskólanum þegar þetta var.
Svo flutti Morgunblaðið í ljótasta hallarskrípi Reykjavíkur og var ég þá löngu hættur að reyna að vera bísnessmaður. Ekki varð ég var við að Morgunblaðið elfdist eða batnaði við það að ryðja brautina fyrir eyðileggingu Kvosarinnar, þótt í "höll" væri komið. Lesbókin var enn í líkingu Lifandi Vísinda og tæpti stundum á þjóðlegum fróðleik sem nú er löngu liðin tíð. Þá var ekki búið að eyðileggja Útvegsbankahúsið sem nú hýsir héraðsdóm Reykjavíkur. En viti menn, fyrir um 40 árum átti ég erindi í "Höllina" í leit að "kjarnorkubyrgjum" fyrir Reykvíkinga. Kom í ljós að "pappírskjallarinn" í Morgunblaðshöllinni var með hæsta s.k." Protection Factor" sem fundist hafði í Reykjavík eða um 240.000. Ekki á ég von á að þáverandi eða núverandi starfsmenn blaðsins haf haft hugmynd um það.
Enn flutti Morgunblaðið og nú í nýbyggingu í Kringlunni. Enn gat ég ekki séð að Morgunblaðið tæki neina stökkbreytingu í gæðum nema ef vera skyldi að um svipað leiti fór það að verða opnara fyrir fjölbreytilegri straumum en strangtrúnaður í pólitík varð að sama skapi víkjandi. Hins vegar yfirgaf Lesbókin fjölfæðileikann og varð að einsleitu riti "menningar" og lista með allri þeirri hátimbruðu sjálhverfu sem þar ríkir. Undantekning er nöldurdálkar á 2. síðu og krossgátan aftast, sem öllu heilli lifði breytinguna af.
Einu erindi mín í Kingluhúsið voru með barnabarni á síðkvöldum, þegar ég var að passa, til að sækja blöð í afgreiðslu prentsmiðjunnar, en ungi maðurinn stundaði blaðburð af kappi til að hafa vasapening.
Morgunblaðið þurfti enn stærra og glæsilegra hús og nú var ekki um annað að gera en að flytja út í móa, Hádegismóa. Þar með fór blaðið á hausinn. Mogginn er ekki orðin svipur hjá sjón. Skelþunnur eftir fasteignafyllerí og þjáður af ESB ofvirkni og athyglisbresti. Ég hef einu sinni átt leið í "Móahöllina" og hafði á tilfinningunni að þar kæmi ég í tómasta hús í heimi. Ég sá stóra sali og mörg skrifborð en ekkert af fólki.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.