Lífbátur af Mumma finnst.

SymasterinnSama gerð og TF SIF 1964 

Þegar ég tók við vaktinni kl. 12:30 var komið skaplegt veður og vorum við í reglulegu sambandi við flugvélina sem komin var nokkuð suður af okkur þótt hún væri að sikk sakka eftir 20 sml. löngum fluglínum sem alltaf lengdust. Ákveðið var að hún myndi leita fram í myrkur, þannig að þarna var kapphlaup við tímann því litlar líkur voru taldar að eftirlifendur ef einhverjir fyndust myndu lifa af aðra nótt. Vaktin leið og II. stýrimaður tók við. Þegar ég leysti hann af í kvöldmat milli kl. 18:00 og 18:30 hafði ekkert fundist og farið að styttast í að leit flugvélarinnar yrði hætt vegna myrkurs. Var hún komin suður fyrir miðjan Breiðafjörð og sóttist hægt því hver fluglína var orðin um 11 mín. löng. Töldum við orðið útilokað að gúmmíbát hefði getað rekið svona langt á rúmum sólahring svo að frekar var litið svo á að leit fram í myrkur væri réttlæting fyrir samviskuna.

Kl. 18:22 kom skyndilega kall í talstöðina sem gjörbreytti öllu. ""Varðskip, Sigurður Ingi Friðrik, við höfum séð neyðarblys og gúmmíbát á reki 22 sml. í 241° frá Bjargtöngum og munum hringsóla yfir honum þar til hjálp berst frá sjó". Kallaði SIF síðan í nærstödd skip og fékk svar frá breska togaranum Loch Milford, sem sagðist hífa strax og halda á staðinn. Áætlaði hann að vera þar eftir u.þ.b. 2 klst.

Það eru ekki bara eldklárir fagmenn heldur líka afburða listamenn sem halda stöðugri sýn á agnarsmáum gúmmíbát á kolsvörtu hafi þegar náttmyrkur er skollið á, á sama tíma og þeir þeytast sjálfir á 120 hnúta hraða í um 200 feta hæð, hring eftir hring í tvær klukkustundir samfleytt. Þrátt fyrir að varpað sé út ljósbaujum og reykbombum er þetta hámark einbeitingarhæfninnar. Vélin hoppar og skekst til í ókyrrðinni yfir haffletinum, stundum getur vængurinn farið fyrir útsýnið að gúmmíbátnum, passa þarf flughæðina, hraðann, stefnurnar og að allar græjur vinni rétt, og radarinn er ónothæfur því vélin er aldrei bein í loftinu. Loran C eða GPS þar sem læsa má inn stað sem "waypoint" og ýta svo á takka sem segir "go to" var ekki til.

Þegar SIF tilkynnti fundinn á gúmmíbátnum var sett á fulla ferð á Óðni og stefnt beint á staðinn. En eftir að í ljós kom að Loch Milford yrði á fyrri til kom okkur saman um að Loch Milford innbyrti mennina og kæmi svo undir Látrabjarg þar sem við tækjum við þeim. Loch Milford kom svo að gúmmíbátnum kl. 20:08 og innbyrti tvo menn. Þá var ljóst að fjórir höfðu farist. Hittum við svo Loch Milford undir Látrarbjargi og kl. um 23:30 fór ég á gúmmíbát að sækja skipbrotsmennina og lífbát þeirra sem togarinn hafði innbyrt líka.

Þegar við komum til Flateyrar með skipbrotsmennina, gúmmíbátinn og brakið úr Mumma, aðfararnótt mánudagsins 12. október, voru tilfinningar blendnar milli fagnaðar og sorgar. Þótt það yljaði að sjá fögnuð þeirra sem tóku á móti skipbrotsmönnunum sem heimtir voru úr helju þá fylltist maður samkennd með þeim sem horfðu hnípnir á brakið sem sett hafði verið á bryggjuna og áttu ekki von í endurkomu sinna. Að auki var ekki heldur vitað um afdrif fjögurra manna áhafnar Snæfellsins sem einnig var frá Flateyri.

Þetta slys varð svo til þess að lagst var í ýtarlegar rannsóknir á reki gúmmíbáta því þarna sást að bátinn með mennina tvo hafði rekið 64 sml. á þeim 29 tímum sem liðu frá slysinu og þar til þeir fundust, eða með rúml. 2 sml. hraða á klst. Þótti þetta með ólíkindum löng vegalengd.

Við komum aftur til Ísafjarðar mánudaginn 12. okt. og voru sérfræðingarnir þá komnir að sunnan og réttarhöldum yfir Prince Philip haldið áfram Úrskurðuðu sérfræðingarnir að tæki Óðins væru rétt innan þeirra skekkjumarka sem framleiðandi gefur upp. Féll dómur yfir skipstjóranum seinna þann dag. Lögfræðingarnir tveir sem fóru með í leitina lifðu af volkið og sjóuðust nokkuð. Í ferðinni lærðu þeir á eigin skinni vinnubrögð varðskipsmanna í óvæntum uppákomum. Störfuðu þeir báðir um árabil sem sækjandi annars vegar og verjandi hins vegar í fjölmörgum togaratökum eftir þetta.

Var haldið beint til Reykjavíkur eftir að réttarhöldunum lauk á Ísafirði, en varðskipið Ægir var komið að leitinni að Snæfelli ásamt TF SIF og mörgum bátum. Daginn eftir, 13. október settist ég svo á skólabekk í Lordinum.

Með Mumma fórust fjórir menn og fjórir með Snæfellinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 53518

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband