159. Esterel fjöllin og innsigling til Cannes

Vor 2008 072 Esterel fjöllin, rauðleit mót marinbláum sjó. 

Við vorum búin að lofa honum Hafna í St. Raphaél að vera farin fyrir hádegið og stóðum við það því við leystum landfestar fyrir kl. 10:00, fimmtudaginn 8. maí. Eins og sjá má á myndinni með næst síðasta pistli, var stutt út úr höfninni, enda legið við hafnarkjaftinn. Settum við stefnuna svo austur með ströndinni þegar komið var vel klárt af hafnargarðinum.

Eins og ég minntist á, líka í næst síðasta pistli, þá byrjuðum við á að fara framhjá aðal snekkjuhöfninni í St. Raphaél litlu austar, og austan við hana sigldum við svo á milli "Lion" eyjanna, sem eru tvær, Ilot Lion de Mer sem er utar og Le Lion de Terre, sem er alveg upp við landið (eins og nöfnin bera með sér), en í kring þær eru einnig margar smáeyjar og sker sem ekki eru merkt í kortin með sérstökum nöfnum. Þegar komið er austur fyrir þessar eyjar er siglt meðfram Esterel fjöllunum, sem eru ekki há (um 200 m.) en mjög merkileg fyrir það að í þeim er elsta berg Frakklands sem er sérkennilegt fyrir sinn rauðleita blæ. Esterel bergmassinn reis upp og myndaði há fjöll þarna á undan bergmassanum sem myndar núverandi Alpa sem eru austar en Esterel fjallgarðurinn hefur á milljónum ára náð að veðrast svona mikið niður auk þess sem þau eru sundurskorin af gljúfrum. Það sem gerir þessa strönd sérkennilega fallega er þó samspil litanna á ryðrauðum klettum í snertingu við fagurblátt hafið.

Fram til 1964 var Esterel fjallgarðurinn þakinn furuskógi og eik en sá skógur þurrkaðist út í skógareldum það ár. Reynt hefur verið að rækta upp samskonar skóg aftur en verið erfiðleikum bundið vegna gróðursjúkdóma sem virðast herja á það sem plantað er þarna.

Þegar komið er 3 sjóm. með Esterel klettunum er farið framhjá lítilli eyju sem heitir d´Or og er skammt SV við höfða sem heitir Drammont. Nokkuð er um sker þarna sem er eins gott að varast með því að sigla vel utan við eynna. Þá er farið fyrir fjörð sem heitir Rade D´Agay með samnefnt þorp fyrir botni, en við héldum út fyrir "cardinála" á La Chrétienne skerjum og settum þaðan stefnuna fyrir cardinála á La Vaquette skerjum sem leiðir síðan inn í de la Napoule flóann, en austan í þeim flóa er næsti áfangastaður okkar sem er Cannes. Golfe de la Napoule liggur milli Esterel fjallanna og eyja sem bera samheitið de Lérins eyjar, en meðal þeirra er eyjan Ste-Marguerite sem ég minnist á í 151. pistli. Strandlengja flóans er þéttbyggð með glæsihótelum sem bera við himinn alveg frá Esterel fjöllunum í SV og að skógivöxnum de Lérins eyjunnum, sem eru óbyggðar að undanskyldum smáhýsum með ströndinni. Þegar siglt er inn flóann blasir við mikil umferð af bátum, snekkjum, farþegaskipum og ferjum hver á sinni leið, sem virðist vera algjör "kaos" auk þess sem í bland við byggingarnar á ströndinni má sjá skóg af siglutrjám sem rísa upp úr fimm skemmtibátahöfnum sem eru við flóann með yfir 6000 legupláss fyrir snekkjur og skútur af öllum gerðum. Við stefndum ekki á garðinn þar sem hann var lægstur heldur beint á aðalhöfnina í Cannes, kvikmyndaborgina frægu.

Eins og áður sagði er Cannes höfn í NA horni flóans og þegar komið er úr SV eins og við gerðum eru eyjarnar í de Lérins klasanum SA af höfninni mjög áberandi. Til þess að átta sig vel á insiglingunni er ráðlagt að nota stjórnuathugunarturninn í Cannes, sem trónir á hæð ofan við bæinn, til að stefna á, þar til maður sér innsiglingarvitana á ytri-hafnargarðinum, en sá á endanum er 8 m. hár hvítur turn með rauðu ljóskeri efst og skammt innan við hann á garðinum er gamali hafnarvitinn sem sker sig vel úr. Mjög mikinn vara þarf að hafa á umferðinni um hafnarmynnið því að ferjurnar og turistabátarnir sem þarna æða fram og aftur virða alls ekki 3 hnúta hraðatakmörkin á hafnarsvæðinu og í raun ekki árekstrarreglur heldur gagnvart venjulegum skemmtibátum.

Það er skylt að tilkynna sig á rás 12 á VHF áður en komið er til hafnar og að fá innsiglingarleyfi sem var auðsótt og var okkur sagt að fara að bryggju sem er yst í Norðurhöfninni og tilkynna okkur þar. Nokkuð var stressandi að taka höfnina því umferðin inn og út var feikna mikil og til að komast að bryggjunni sem okkur var sagt að leggja að þurfti að fara að hluta þvert á siglingastefnuna en allt gekk þetta og við lögðumst að tilkynningarbryggjunni kl 12:40.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 53453

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband