Hamfarasvæðin skoðuð

Furnas Furnas askjan, gígvatnið og t.v. sést í skarðið niður til Ribera Quente. Athugið að myndin er tekin af fjallakraganum NV við öskjuna. 

Við Eysteinn fórum frá Íslandi með Flugleiðavél til London kl. 08:00 miðvikudaginn 12. nóvember og héldum áfram þaðan með vél frá Portugalska flugfélaginu TAP, eftir rúml. klst. bið til Lisbon. Þaðan var svo haldið áfram með sama flugfélagi til Ponta Delgada sem er stærsti bær á Sao Miguel. Hrakfarir þær og vandræðagangur sem maður lendir í þegar maður flýgur með TAP er liður í sérstakan pistil, en í stuttu máli þá komumst við til Ponta Delgada kl. 23:00 um kvöldið sama dag, eftir óvenju litlar seinkanir hjá TAP. Heimferðin varð mun skrautlegri, en þá var ég einn því jarðfræðingarnir fóru á undan mér til síns heima. Það tók mig þrjá daga að komast til Íslands aftur með milligistingum í Lisbon og Amsterdam vegna seinkana bæði fyrst hjá TAP og svo hjá KLM. (Af reynslu minni af fjölmörgum flugum með TAP vil ég meina að skammstöfunin eigi að standa fyrir "Take Another Plain").

Í býtið morguninn eftir að við komum, á afmælisdegi Ragnhildar dóttur minnar, gengum við upp í Háskóla Azoreyja, þar sem við höfðum bækistöð, en aðeins kortérs gangur er þangað frá Hótel Canadian þar sem við gistum. Eftir að hafa heilsað fyrrum félögum og samstarfsmönnum sem þar voru samankomnir vorum við fræddir um náttúruhamfarirnar sem höfðu gengið yfir, fyrst í september og síðan 31. október s.l., bæði í máli og myndum og fór morguninn í það. Miklar aurskriður höfðu falli víða um eynna og valdið miklu tjóni á mannslífum þar sem þær féllu í byggð auk þess sem vegir höfðu víða farið í sundur og stór gróðursvæði sópast í sjó fram. Eftir hádegisverð var svo farið út á flugvöll til að fara í flug með Super Puma þyrlu Portugalska flughersins, yfir hamfarasvæðið til að skoða vegsummerkin úr lofti. Þar sem við komum í myrkri kvöldið áður höfðum við ekki séð neitt óvenjulegt í bænum en nú í dagsbirtunni sáum við fyrstu ummerki hamfaranna. Í grýttri fjörunni meðfram Strandgötu Ponta Delgata lágu flök af sjö flutningaskipum stórum og smáum, sem öll höfðu slitnað frá bryggju eða af legunni og rekið upp í fjöru í ofsaveðrunum sem skriðuföllunum ollu. Þar sem skammt var um liðið frá því að flutningaskipið Vikartindur strandaði á sandinum við Þjórsárósa, með tilheyrandi taugaveiklun um mengunarhættu af skipsskrokknum, var merkilegt að sjá þessi flök þarna sem enginn virtist fara á límingunum yfir. Sé farmur, olía og önnur mengandi efni fjarlægð úr skipsskrokkum eru þeir sem slíkir engir mengunarvaldar. Þarna virkuðu flökin á mig sem þögulir minnisvarðar um baráttu mannsins við þær höfuðskepnur sem ráða á höfunum.

Veðrið var yndislegt þegar við fórum í loftið og flugmennirnir í léttu skapi þar sem við flugum austur með suðurströnd eyjarinnar. Trúlega voru þeir búnir að fá hádegisskammtinn af rauðvíni eins og ég hafði upplifað nokkrum árum áður þegar ég flaug með Portúgalska flughernum að skoða eldfjallið Pico á samnefndri eyju og gosstöðvar frá 1954, vestast á eynni Fial í Azoreyjaklasanum. Þá snæddu flugmennirnir með okkur hádegisverð áður en lagt var í hann og drukku sitt rauðvín með. Þegar við ræddum það við leiðsögumenn okkar frá Háskólanum á Azoreyjum, að okkur þætti þetta skrítð sögðu þeir. "Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af rauðvíni í flugmönnunum okkar, við hefðum hins vegar haft verulegar áhyggjur hefðu þeir afþakkað það með matnum".

Þrátt fyrir fallegt veður voru ský á efstu fjallatoppum. Eftir nokkurra mínútna flug var komið austur fyrir Vila Franca do Cambo, sem er þriðji stærsti bær eyjarinnar og þá fór eyðileggingin af völdum skriðufallanna að blasa við í alvöru. Heilu fjallshlíðarnar voru naktar þar sem jarðvegurinn hafði skriðið niður í sjó og flutt með sér gífurlegt magn af jarðvegi, grjóti og trjábolum en þeir þöktu allar fjörur á nokkurra km. svæði en nokkrir flutu enn á sjónum. Í upphafi höfðu þessir trábolir hins vegar flotið um allt í sjónum og orðið þess valdandi að ekki var hægt að koma við hjálp frá sjó, til þeirra þorpa sem skriðurnar féllu á, eins og Ribeira Quente, en þar varð mann- og eignartjón mest. Ribera Quente er mjög afskekkt þótt við ströndina sé, en eina landleiðin er um langt á þröngt fjallaskarð ofan úr Furnas eldgígnum, sem er stór askja sem sagt verður frekar frá. Reynt var að senda hjálp frá herskipi sem var við eyjarnar þegar ósköpin dundu yfir, og með bátum, en trjábolirnir veltust um í tugþúsunda tali í öldurótinu, með ströndinni og ógnuðu hverju fljótandi fleyi sem hætti sér inn í það "kraðak".

Eftir að hafa flogið yfir Ribeira Quente þorpið var stefnan tekin upp í Furnas Öskjuna, sem girt er allt um kring með háum fjallavegg, en samnefndur 1300 manna bær "Furnas" liggur á botni öskjunnar við skammt frá stóru gígvatni. Er þetta stórmerkilegur staður sem var búinn að vera viðfangsefni mitt áður og gæti verið efni í sérstaka sögu. Frá gígvatninu rennur áin Ribeira Quente í gegnum mjög þröngt og langt skarð, sem áður er nefnt, niður að ströndinni og kemur í sjó fram við samnefnt þorp sem áður er getið. Fylgdum við nú ánni aftur niður í gegnum skarðið til þorpsins Ribeira Quente sem er um 1000 manna þorp. Ein skriðan hafði farið í gegnum mitt þorpið og deytt 30 manns. Önnur skriða hafði farið á útjaðar þess og eyðilagt nokkur hús og lent á nýjum hafnargarði sem var í byggingu, en enginn fórst í henni. Að þessu loknu var svo flogið austur að bæ sem heitir Povoacao og skriðusvæði skoðuð víða þar og svo yfir Fial da Terra, þorps í gullfallegum dal, þar sem grjótskriða með björgum upp á hundruðir tonna hafði komið niður á aðalgötuna án þess að nokkur færist. Gömul hjón sluppu þar lítt slösuð með einskærum hætti, þegar húsið þeirra sópaðist á brott. Hitti ég gamla mannin síðar í ferðinni þegar við fórum til þorpsins í vettvangskönnun. Skoðunarfluginu lauk svo með því að flogið var meðfram fjallakraganum sem umkringir Furnas öskjuna, en fjöldinn allur af skriðum hafði falli úr fjöllunum þar.

Með þessari flugferð fengum við góða yfirsýn yfir skriðusvæðin og afleiðingar þeirra og auðveldaði það mikið frekara skipulag á vettvangsskoðun á landi.

Næstu þrjá daga áttum við svo eftir að skoða hamfarasvæðin með því að heimsækja þau, jarðvísindamennirnir að mæla skriðurnar og rannsaka en ég að heimsækja þorpin, yfirvöld og þá sem stýra hjálparstrfi og ræða við þá. Voru fyrsti og þriðji dagurinn í þessum heimsóknarferðum mjög erfiðir þar sem við lentum í vitlausum veðrum með slíkum rigningum að engu líkara var en allar flóðgáttir himinsins ættu einungis stefnumót við eystri hluta Sao Miguel þessa daga. Miðdagurinn var hins vegar fallegur sólardagur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband