Maurarnir á Niue

maurinn.jpg1.      Hluti: Maurinn og molinn.

Það var liðið á dag og vinnunni lokið þegar ég settist aftur við skrifborðið. Ég var sveittur og þreyttur eftir vinnudaginn sem var búinn að vera óskaplega heitur og rakur, enda meðalhiti ársins á þessari S-Kyrrahafseyju um 37ᴼ C og rakinn oft yfir 70%. Í gegnum hugann streymdu minningar sem ég ætlaði að vernda frá veru minni með Polynesum, eftir nærri tveggja mánaða dvöl á Niue, lítilli eyju, nokkurnveginn í miðju þríhyrnings sem draga má milli Tonga-, Samoa- og Cook eyja.  Ég var staddur þarna á vegum UNDRO (United Disaster Relief Organisation) til að fara yfir öruggismál þessa litla nýfrjálsa eyríkis og veita eyjaskeggjum ráð við uppbyggingu almannavarna í víðustu merkingu þess orðs. Þar sem ég sat nú verklaus við skrifborðið, nýbúinn að fara með handritið af skýrslu minni til vélritunar hjá einkaritara lögreglustjórans á Niue, veitti ég maurnum skyndilega athygli. Hann var á stærð við nöglina á litlafingri, þar sem hann rogaðist eftir skrifborðinu mínu með brauðmola á milli fálmaranna, beint fyrir framan andlitið á mér. Molinn var svo stór að ég skildi ekki hvernig maurinn komst hjá því að steypast fram yfir sig, þar sem hann hélt á honum fyrir ofan hausinn á sér. Brauðmolinn hafði hrotið af samlokunni sem ég keypti í hádegismat, í „supermarkaðnum“ hinumegin við aðalgötuna, þar sem stjórnaráðsbyggingin í höfuðstaðnum Alofi stendur, en þar hafði ég skrifstofu við verkefnið sem nú var að ljúka. Ég horfði spenntur á maurinn, sem átti um 90 cm. ófarna að hægra borðshorninu mín megin, því ég vissi að framundan var óyfirstíganleg þraut. Hann þurfti að komast fram af borðbrúninni með molann og niður 70 cm. háa borðlöppina til síns heima. Myndi kvikindið leysa þann vanda og þá hvernig? Heimkynnin þekkti ég, en þau voru í sprungu í horni skrifstofunnar, niður við gólf á bakvið stólinn minn. Voru maurarnir í sprungunni orðnir hluti af mínum litskrúðuga og fjölbreytta „kunningjahópi“, en þeir voru á stöðugum þönum inn og út úr sprungunni, allan liðlangan daginn, oftast með eitthvað sýnilegt milli fálmaranna á innleið en „tómhentir“ á útleið.

niue.jpgAllt í einu sá ég að maurinn minn snarstansaði með byrði sína í fanginu þegar hann átti um 30 cm. ófarna að borðbrúninni. Hann var algjörlega ráðvilltur og augsýnilega búinn að týna slóðinni. Maurar skilja nefnilega eftir sig lyktarslóð til að rata eftir á heimleiðinni. Skyndilega laust í huga mér hvað olli rugli maursins. Það hafði verið blað hægra megin á borðinu fyrir nokkrum mínútum síðan, sem maurinn hefur átt leið yfir þegar hann kom. Blaðið tók ég síðan, þar sem það var hluti af handriti í lokaskýrslunni. Þar með tók ég óvart um 20 cm. stubb úr lyktarslóð maursins, sem nú snerist um sjálfan sig á endalausri víðáttu borðplötunnar, með risa brauðmola í fanginu. Það var orðið spennandi að fylgjast með atferlinu þannig að ég neitaði mér um að dusta kvikindið af borðinu og niður á gólfið, eins og ég hafði gert við félaga hans og kannske hann sjálfan oft áður. Varð mér því á að líta þess í stað niður á gólfið þar sem maurabúið var og þar gaf heldur betur á að líta. Það var bein lína af tugum, ef ekki hundruðum maura, á þönum milli sprungunnar í horni herbergisins og í ruslafötuna, sem stóð um 3 m. frá sprungunni. Þeir voru allir að flytja matarleifar, brauðmola og áleggsleifar frá ruslafötunni í búið. Framhald.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband