Færsluflokkur: Lífstíll
14.1.2009 | 10:35
Frábær byrjun?
Metafgangur af vöruskiptum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2009 | 23:05
166. Titanic átti ekki heldur að geta sokkið.
Við sigldum frá San Remo eldsnemma að morgni 16. maí s.l. með stefnuna austur með ströndinn og inn í Genoa flóann. Hægur andvari var á sunnan, loft frekar þungbúið og hlýtt, en verðurspá góð fyrir daginn, en þó átti veður að versna seinnipartinn. En við áætluðum að vera í Genoa um kl. 14:30, svo við töldum okkur vera vel fyrir veður. Á leiðinni eru líka hafnir með innan við 10 sjóm. millibili sem hægt væri að flýja inn í ef eitthvað kæmi uppá.
Eftir um kl. tíma siglingu fór ölduhæð að vaxa og þegar við fórum framhjá San Lorenzo var farið að gefa á þannig að aðeins þurfti að draga úr ferðinni en við héldum þó 15 hnúta hraða. Frú Lilja fór nú í að skorða hluti betur en hún gerir venjulega við brottför.
Þegar við nálguðumst Mele höfðann, skammt vestan við Andora, fór sjólag að verða mjög óreglulegt auk þess sem farið var að hvessa af suðri og himininn orðinn blýgrár. Tók frú Lilja það ráð að skorða sig af við enda káetuborðsins og koma sér eins vel fyrir og aðstæður leyfa. Sagði ég henni að ég teldi að sjólagið myndi lagast þegar við kæmum fyrir höfðann, sem stóðst að litlu leiti í skamma stund, en eftir því sem við komum lengra austur með ströndinni jókst óreglan í sjólaginu og ölduhæð varð meiri. Meginaldan af hafi kom á stb. hlið hjá okkur auk þess sem mikil frákastsalda kom frá ströndinni þar sem hún er klettótt, en með ströndinni skiptast á klettar og sendnar baðstrendur sem nú voru mannlausar að mestu. Það var orðið mikilvægt að hafa allan huga við stjórnina á bátnum og þurfti ítrekað að taka með lagni ölduhnúta, þar sem haföldunni og frákastöldunni laust saman, til að vel færi um bát og fólk. Við Noli höfðann og allar götur austur að borginni Vado gekk þó nokkuð á og varð ég var við á leiðinni að ekkert heyrðist í frú Lilju, en eins og áður hefur verið sagt frá, er eitthvað alvarlegt á seyði ef hún þegir lengi. Varð mér litið augnablik til hennar þar sem hún sat aftan við káetuborðið og hélt sér traustataki þar. Sá ég að henni var alls ekki sama svo ég segi án þess að hugsa "þetta er allt í lagi elskan, báturinn er ekkert á leiðinni að sökkva, þetta er bara leiðinda læti sem verða fljótt búin". Það stóð ekki á svarinu þegar frú Lilja sagði hvasst á móti "TITANIC ÁTTI EKKI HELDUR AÐ SÖKKVA". Ég verð að játa að ég varð um stundarsakir kjaftstopp en síðan fylltist ég óverðskulduðu stolti þegar ég hugsaði "hún jafnaði bátnum okkar við Titanic, það munar nú um minna".
Það verður að játa að við vorum orðinn ansi þreytt á látunum þegar hér var komið sögu og þegar við komum að borginni Savona stakk ég uppá við frú Lilju að við renndum þangað inn og tækjum eina nótt þar. En akkúrat þegar ég hafði sleppt orðinu birti aðeins upp til austurs og sáum við hvar Genoaborg breiddi úr sér við sjóndeildarhringinn framundan. Ég var fegin að það var frú Lilja sem sagði þá "nei við skulum halda áfram og ljúka þessum legg af, illu er best aflokið". Samsinnti ég því glaður.
Þegar komið er að Genoaborg úr VNV er komið fyrst að hafnargörðum flutninga- og olískipahafnarinnar þar sem risa gámaskip og olíuskip eru algeng sjón og voru nokkur á leið út og inn þegar við komum að. Skemmtibátum og snekkjum er bannað að fara þeim megin inn, nema þeir ætli að fara beint í litla skemmtibátahöfn sem er inn af olíuskipahöfninni. Tókum við stefnuna austur með þessum hafargörðum og var nú veðrið orðið verulega slæmt fyrir okkar 11 m. bát auk þess sem utan við garðana voru legubaujur fyrir olíuskip sem ekki komast inn í höfnina og mikið frákast var frá hafnargarðinum. Næst tók við 4 sjóm. garður sem liggur meðfram alþjóðaflugvellinum í Genoa, en flugbrautin liggur eftir höfninni endilangri að utanverðu og var þessi sigling þar til komið var að hafnarmynninu sem við máttum far inn í allt í allt um 6 sjóm. löng. Veðrið var nú orðið virkilega vont svo við urðum að draga verulega úr ferð og ekki var undan því vikist að frú Lilja tæki við stjórninni smástund á þessum erfiða kafla til að helypa undirrituðum á klósettið. Tók siglingin meðfram höfninni og flugvellinum heilar 45 mín. því við vorum komin niður á 9 hnúta hraða vegna veðursins.
Framundan var svo loksins að taka Genoahöfn, um austasta hafnarmynnið, þar sem risa skemmtiferðaskip eru á ferðinni út og inn margsinnis á dag, auk fjölda annara skemmti- og þjónustuskipa. Frá því verður sagt í næsta pistli.
Loftmynd af Genoahöfn. Við þurftum að fara inn um hafnarmynnið lengst til hægri. Flugbrautin er fyrir miðri mynd.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2009 | 22:33
165. Portosole, San Remo
Portosole í San Remo er með glæsilegri höfnum sem komið er í þannig að sá draslaragangur og óreiða sem er dæmigerð fyrir Ítalíu sést ekki innan hafnarinnar, en blasir við um leið og komið er útfyrir hana. Með allri höfninni, innan girðingar, eru raðir af þjónustufyrirtækjum s.s. veitingastöðum, verslunum, þvottahúsum, böðum og viðgerðarverkstæðum. Allt er stílhreint og þrifalegt, hvergi hrukku eða kusk að sjá. Meðfram bryggjunum er kanntur þar sem liggja stígar og með þeim óaðfinnanlega klippt trjáhekk með litlum "básum" inn í þar sem ruslagámar standa í felum bakvið trjáhekkið. Út frá þessum kannti koma svo bryggjurnar sem eru tandurhreinar og á þeim tengikassar fyrir vatn og rafmagn, í þráðbeinum röðum. Í tengikössunum lýsa svo þægileg "footlight" sem skína á bryggjudekkið og trufla ekki augun.
Við vorum búin að ákveða tveggja nátta stopp þarna og notuðum tímann m.a. til að skoða bæinn að venju, þvo þvotta og njóta blíðunnar sem var hvern dag. Sænsku hjónin sem við kynntumst á komudeginum voru hins vegar aðeins eina nótt og ætluðu strax áfram til Genoa í næsta áfanga, eins og reyndar við ráðgerðum, en einum degi seinna.
Við urðum strax vör við muninn á Ítalíu og Frakklandi þegar við fórum í fyrstu gönguna í bæinn. Á Ítalíu virkar allt spennuþrungnara, ruglingslegra og subbulegra en við áttum að venjast og þótt ég hefði komið til Ítalíu áður kom munurinn mér á óvart. Sá ég fljótt að frú Lilju Ben leist lítið á bæinn. Það var um km. spotti frá legunni okkar í Portosole í miðbæinn, svo þetta var ekki löng ganga. En um leið og við komum út af hafnarsvæðinu vorum við komin í Ítalska umferðarkaos. Fyrst gengum við ofan við baðströndina sem skilur að snekkjuhöfnina og bæjarhöfnina og þar sem við gengum aftan og ofan við veitingahúsin sem eru með baðströndinni horfðum við niður á "óæðri enda" þeirra þ.e. bakhliðina og ofan á þakið og það var ekki fögur sjón. Kolryðgað þakjárn, sorp í pokum um allt og almennur sóðaskapur. Á hina höndina er opinn almenningsgarður sem einhvernveginn nær ekki að kallast aðlaðandi vegna lélegrar hirðu. Næst var komið að bæjarhöfninni og ofan við hana er ein af aðalgötum borgrinnar með mikilli umferð og þar fundum við stórmarkað til að versla í, sem er eitt af brýnustu málunum í heimsóknum á nýja staði. Í þessari fyrstu gönguferð í San Remo létum við því nægja að byrgja upp og draga kostinn um borð, og slappa svo af.
Daginn eftir var svo bærinn skoðaður nánar auk þess sem við tókum til handi við ýmis verk s.s. þvotta og viðhald. Við vorum ákveðin í að halda áfram daginn eftir til Genoa enda veðurspá góð. Gæði veðurspárinnar kemur í ljós í næsta pistli.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.12.2008 | 15:25
164. San Remo.
Þegar við fórum yfir lögsögumörkin milli Frakklands og Ítalíu vöknuðu með okkur spurningar eins og "verður einhver breyting", "hvernig taka Ítalir við siglingagestum", verða þeir með eitthvað vesen", verður gott að sækja Ítali heim o.s.frv"? Ekki þar fyrir að við spurðum okkur sömu spurninga þegar við sigldum inn í Frakkland fyrir ári síðan, í Þýskaland þar áður og Niðurlöndin á sínum tíma. Það sem við vitum fyrir víst er að það er þó nokkur munur á fasi og lífsstíl fólks í þessum löndum sem þó liggja saman með sín ósýnileg landamæri. Umhverfi fólks tekur sýnilegum breytingum, ekki endilega þau náttúrulegu heldur það sem fólkið skapar sjálft í sínu nærumhverfi.
Leiðsögubækur sem maður notar við svona siglingar (í þessu tilfelli "Italian Water Pilot") gefa að hluta til tóninn með hvers má vænta og eru með ítarlegar upplýsingar um tæknileg atriði sem nauðsynlegt er að hafa á hreinu auk þess sem í "Italian Water Pilot" er sérstaklega tekið fram að maður skuli ekki vera hissa þótt maður verði stoppaður af "Guardia Costiera" (sem er Landhelgisgæsla Ítala) og bátur og réttindi skipstjóra rannsökuð. Ítalir eiga nefnilega í miklum vandræðum vegna smygls á fólki og eiturlyfjum sjóleiðina frá Afríku til Evrópu. Þetta vandamál er sagt að fari vaxandi eftir því sem sunnar kemur á Ítalíu, en við höfum þó ekki enn verið stoppuð af Gæslunni þótt við séum nú komin alla leið til Sicileyjar.
En við vorum nú að koma til fyrstu hafnarinnar í Ítalíu, San Remo, kl. 14:30 hinn 14. maí 2008, eftir 5 tima og 20 mín. siglingu frá Cannes í Frakklandi. San Remo býður uppá tvær hafnir "Porto Communale" (bæjarhöfnina), sem er til vinstri þegar komið er inn um hafnarmynnið, og "Marina Porto Sole" (snekkjuhöfnina) til hægri. Til að byrja með reyndum við fyrir okkur í bæjarhöfninni að venju því þar er miklu ódýrara að liggja en í snekkjuhöfnunum, sem eru einkareknar. Snekkjuhafnirnar eru auðvitað miklu fínni og aðstaða í þeim yfirleitt glæsileg. Borgin San Remo teygir sig meðfram ströndinni og upp í hæðirnar upp af henni og er mjög vinaleg af hafi séð. Við sigldum inn um hafnarmynnið milli vita sem merktir eru í kortið LFl.R.5s.11m.8M og LFl.G.5s.11m.4M, sem er eins og dulmálsletur fyrir þá sem ekki þekkja. LFl þýðir "langt ljósleiftur", R að liturinn á ljósinu sé rautt, 5s að það leiftri með 5 sekundna millibili, 11m. að ljósið á vitanum er í 11 m. hæð og að lokum 8M þýðir að ljósið sjáist í 8 sjóm. fjarlægð skyggi ekkert á. Einfalt ekki satt.
Þegar við komum inn fyrir hafnarmynnið var nokkuð stór snekkja innan við það að hífa upp akkeri og varð að fara með varúð meðfram henni. Beint á móti hafnarmynninu er baðströnd sem er á milli snekkju- og bæjarhafnarinnar og þar er röð af veitingatjöldum. Þegar inn var komið sveigðum við inn á bæjarhöfnina en þar voru ferjur, fiskiskip, túristabátar og skemmtibátar við bryggjur. Gerðum við nokkrar tilraunir til að þoka okkur inn í laus pláss en var alltaf vísað frá af einhverjum mönnum sem staddir voru á bryggjunum. Var hér kominn forsmekkur að því sem við áttum eftir að reyna meira af á Ítalíu, en það er að hinir og þessir þykjast geta sett sig í stellingar hafnarvarðar og farið að ráðskast með hvar maður leggur bát eða ekki. Nokkrum sinum reyndum við að kalla upp hafnarskrifstofuna í talstöðinni en án árangurs. Þegar ljóst varð að ekki var legupláss að hafa í bæjarhöfninni renndum við upp að "controlturni" snekkjuhafnarinnar og leituðum eftir leguheimild í tvær nætur, sem var auðsótt mál. Var okkur vísað á aðra bryggju frá turninum talið en bryggjurnar eru 9 talsins og legupláss fyrir um 900 báta. Sigldum við þangað og fundum strax básinn sem okkur var úthlutað og var einn af "Ormeggiatori" gæjunum mættur þar til að taka við spottum og þjónusta okkur við að binda. Þetta eru menn sem hafa atvinnu að því að þjónusta bátana við hvað sem er í rauninni og var að sjá þó nokkur umsvif á því sviði þarna. Var ekki annað að sjá en að margir notuðu sér að láta þá gera bátana hreina og dytta að t.d. við að bóna eða jafnvel að lakka tréverk. Þessir menn eiga eftir að koma meira við sögu og eins og við höfum kallað hafnarverðina í þessum pistlum "Hafna" þá mun ég kalla þessa menn í pistlum framtíðat Orma.
Þarna lágum við samskipa Sænskri skútu og voru eftirlaunahjón á henni eins og við og náðum við að kynnast þeim lítilsháttar. Áttum við eftir að hitta þau aftur í Genoa en þau voru á sömu leið og við, austur eftir Miðjarðarhafi. Maðurinn hafði starfað sem rannsóknarlögreglumaður en frúin er sálfræðingur og starfaði við lýðheilsu í Svíðjóð og er þekkt fyrir baráttu sína gegn tóbaksreykingum. Kynnast má henni nánar á heimasíðu hennar sem er http://www.barbroivarsson.se/ . Í næsta pistli ætla ég svo að fjalla aðeins um veru okkar í San Remo.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 20:59
163. Meðfram hinni einu sönnu Rivieru
Eins og sagði í síðasta pistli fórum við framhjá d´ Antibes höfðanum kl. 0930, eftir að við fórum framhjá Lérins eyjunum sunnan við Cannes. Megin eyjarnar eru tvær Ste-Marguérite og St-Honorat, hvor fyrir sig mjög frægar fyrir sína sögu þótt hún verði ekki tíunduð hér. Fórum við yfir lítinn flóa sem heitir Juan og er ekki farið inn í hann nema maður eigi erindi í aðra hvora af þeim tveim höfnum sem þar eru því flóinn er mjög óhreinn og því varasamur til siglinga. Antibes höfðinn er sunnan við samnefnda borg sem er talin ein sú elsta á Rivierunni, en Pablo Picasso dvaldist þar fyrst eftir stríð. Yfir stríðsárin dvalist hann í Paris, en strax og stríðinu lauk var hann ólmur í að komast aftur til Miðharðarhafsstrandar Frakklands þar sem hann undi sér best. En í kjölfar stríðsins var hörgull á öllu í Frakklandi s.s. húsnæði og efnivið til listsköpunar. Vegna þessarar vesaldar Picassos bauð forstjóri Antibes safnsins, sem er í Grimaldi Kastala, Picasso vinnuaðstöðu í Kastalanum, ásamt því að styrkja hann til efniskaupa. Þarna blómstraði Picasso í list sinni sem og í ástarlífi því 65 ára bjó hann með 20 ára fyrirsætu Fracoise að nafni. Hún yfirgaf hann reyndar 1953 með þeim nöturlegu orðum að hún vildi ekki vera gift "sögulegu minnismerki" (historical monument). Þegar Picasso loks flutti frá Antibes til Vallauris varð mikill hluti þeirra listaverka sem hann skapaði þar eftir í Antibes og eru þau til sýnis í safninu. En við stoppuðum ekki þarna heldur var stefnunni haldið meðfram Rivierunni, Nice, Monaco og til San Remo á Ítalíu. Við stefndum á að vera komin til Genoa ekki seinna en 18. maí, til að taka við Ragnhildi og Hjálmari, auk þess sem legugjöld eru í hæstu hæðum á þessum stöðum.
Það var margt um glæsilega staði að sjá á þessari siglingaleið enda ein frægasta strandlengja í heimi. Miðja vegu milli Cannes og Monaco fórum við framhjá ármynni Var, sem ég minnist á í síðasta pistli, og þar tekur hin eiginlega Rivera við. Nafnið Franska Rivieran hefur svo mikinn frægðarljóma yfir sér að segja má að það sé misnotkunn að kalla alla strandlengjuna milli Marseille og La Spezia á Ítalíu, eins og nú vill bregða við. Hið eiginlega nafn Riviera merkir "ströndin í skjóli Alpafjalla, og byrjar ekki að vestan fyrr en sunnan við Alpana í Frakklandi og nær austur að Menton í Ítalíu þar sem Alparnir skýla ströndinni fyrir norðan næðingi. Ferðaskrifstofur eru hins vegar farnar að nota orðið Riviera ótæpilega í auglýsingum og kalla aðrar strandlengjur t.d. í Bretlandi "the British Riviera", sem er auðvitað tóm tjara. Maðurinn sem gerði Rivieruna að því aðdráttarafli sem hún nú er, hét Tobias Smallet og kom hann Rivierunni og því milda loftslagi sem þar er allt árið um kring, á framfæri sem ferðamannastað árið 1763. Hefur strandlengjan haldið frægð sinni allar götur síðan.
Landamæri Italíu voru, eins og sagt er frá í síðasta pistli, vestur við ánna Var sem rennur rétt vestan við Nice alveg fram til seinni hluta 19. aldar. Var Monaco t.d. álitin meira Ítölsk en Frönsk og þar var Ítalska Líran gjaldgeng til jafns við Franska Frankann allar götur fram að því að Evran tók við. Sumir segja að svæðið milli Nice og Menton sé í raun blendingur af Frakklandi og Ítalíu.
Eins og með Côte d´Azur ströndina er allstaðar hægt að stoppa meðfram Rivierunni því skemmtibátahafnir eru mjög þétt með allri ströndinni, en þær eru dýrar eins og áður sagði. Á sumrin eru meginvindar yfirleitt af austri til suðausturs og getur farið yfir hádeginn í 4-5 vindstig. En yfirleitt dettur allur vindur niður seinnipart dags og er lygnt fram til hádegis.
Það var glæsilegt að sigla framhjá Monaco um hádegið 14 maí s.l. og vorum við sérlega heppin með veður, skafheiður himinn, hlýtt og blæjalogn. Þegar við fórum framhjá Menton fórum við yfir lögsögumörkin milli Frakklands og Ítalíu og framundan var fyrsta höfn í nýju landi San Remo, sem sagt verður frá í næsta pistli.
Ítalski kurteisisfáninn kominn við hún þegar farið er yfir lögsögumörkin.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2008 | 22:17
162. Cannes og áleiðis til Ítalíu
Hildur Hjálmars og afi hennar, höfundur á bryggjunni í Cannes.
Uppi í hæðunum fyrir ofan Cannes er lítil borg sem heitir Grasse og er heimsfræg fyrir ilmvatnsframleiðslu en megnið af þeim "mimosum" sem notaðar eru í ilmvötnin eru tíndar í hæðunum umhverfis Grasse. En auðvitað eru ilmvötnin líka framleidd úr blöndu af öðrum jurtum víða að úr heiminum eins og frá Tibet, Indlandi og úr Suður-Kyrrahafi. Blöndunin á þeim fjölbreytilegu ilmefnum á sér svo stað þarna í Grasse undir strangri leynd svo unnt sé að halda verðinu uppi.
Frægð Grasse hófst á 16. öld en ekki fyrir ilmvötn í upphafi heldur framleiðslu á leðurhönskum sem þóttu mjög sérstakir, ekki síst þegar Grasse búar fóru að setja í þá góð ilmefni sem komust í tísku, enda handarbakskyssingar í hávegum hjá fína fólkinu. Leiddi það síðan til þess að hanskaframleiðslan varð að aukaatriði en ilmefnaframleiðsla og síðan imvatnsframleiðsla að aðalatvinnuvegi bæjarbúa sem hlaut sína frægð strax á 18. og 19. öld, sem enn stendur.
Cannes, eins og aðrir staðir á Rivierunni, var dæmigerður bær sem var um tíma undir Ligurians, Rómverjum og Riddurum St. Johns. Síðan gerðst það að 1834 var breskur lávarður, Brougham að nafni, ráðherra í ríkisstjórn Bretlands, á leiðinni austur eftir Rivierunni á leið til Ítalska hluta hennar, með veika dóttur sína til heilsubótar. Var feðginunum snúið við við ánna Var vegna Kólerufaraldurs í Frakklandi en Ítalir vildu með því að stöðva alla umferð yfir landamærin, reyna að varna því að faraldurinn bærist til Ítalíu. Brougham lávarður var með því þvingaður til að bíða af sér ferðabannið í litlu gistihúsi í Cannes sem þá var lítið og óþekkt fiskiþorp. Fegurð þessa litla fiskibæjar heillað lávarðinn hins vegar svo að hann ákvað að fara hvergi og ílengdist því þarna og byggði hann sér glæsivillu í Cannes, sem ber heitið Villa Eleonore Louise, en það var til minningar um dótturina sem hét sama nafni, en dó því miður áður en villan var fullbúin. Ekki nóg með það heldur var lávarðurinn óþreytandi við að hvetja vini sína til að koma til Cannes og byggja sér hús þar og þegar hann dó 1868 hafði íbúatala Cannes vaxið úr 3000 frá því þegar hann kom, í 10.000 manns.
Lord Brougham vað vel til vina við Louis-Philippe konung og fékk hann í lið með sér við að byggja upp hafnaraðstöðu fyrir snekkjur í Cannes sem leiddi til þess að 1904 var komin þarna góð snekkjuhöfn sem varð vinsæl meðal skemmtibátafólks og jók mjög við ferðamannastrauminn til Cannes.
Cannes komst svo í tísku meðal ríkra Bandaríkjamanna í fjórða áratug síðustu aldar og höfðu þeir frumkvæði að því að stofna til alþjóðlegra kvikmyndahátíða í borginni og átti sú fyrsta að vera um haustið 1939. Snarlega var hætt við vegna seinni heimstyrjaldarinnar sem þá braust út, en menn gleymdu ekki hugsjóninni og var kvikmyndahátíðin haldin árið 1946 í fyrsta sinn og hefur verið árviss atburður allar götur síðan.
Við fórum ekki frá Cannes fyrr en miðvikudaginn 14. maí, daginn fyrir kvikmyndahátíðina 2008 og fengum því að upplifa smjörþefinn af þeim glæsileika sem svona hátíð ber með sér auk þess að sjá brot af þeirri fyrringu og vitleysu sem einkennir fólk sem í örvæntingu reynir að koma sér á framfæri í þessum harða heimi athyglissýkinnar.
Við leystum landfestar eftir frábæra dvöl í Cannes, kl. 0830 14. maí og fórum að eldsneytisbryggjunni til að taka olíu og létum svo úr höfn kl. 0855. Veður var eins og best var á kosið, logn, sólskin og hiti í lofti. Þegar komið er út um hafnarkjaftinn er stefnan sett á vestur enda eyjarinnar Ste-Marguérite í Lérins eyjaklasanum, þar til hið fræga Royal virki á eynni miðast í 120°, þá er stefnan sett á það. Þegar 0.5 sjóm. eru í virkið er beygt í r.v. austur í gegnum sundið milli lands og eyjar, til að vera öruggur af skerjum sem eru suður undan höfðanum Pte de la Croisette. Þegar komið er í gegn er svo stefna sett fyrir Cap d´ Antibes, en fyrir þann höfða fórum við kl. 0935.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2008 | 13:59
161. Hildur barnabarn og Þórhallur (Tóti) í heimsókn í Cannes
Það gengur mikið á í höfninni í Cannes enda er hún mikil "umferðamiðstöð" fyrir ferjur sem ganga út í de Lérins eyjaklasann og til nálægra borga s.s. St. Tropez, Nice og Monaco. Að auki er Cannes miðstöð fyrir fjöldann allan af útsýnisbátum fyrir ferðamenn þannig að stöðugur straumur er af skipum og snekkjum af mismunandi stærðum og gerðum. Frákastið af svona skipaumferð veldur oftast óróleika innan hafnanna og fórum við ekki varhluta af hreyfingu þótt við bryggju væri. Skemmtibátahöfnin í Cannes, sem tekur 750 snekkjur smáar og stórar, er í gamla hluta bæjarins, en strax og komið er inn fyrir, eða austur fyrir höfnina tekur nýrri hlutinn við. Byrjuðum við á, eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir, að fara á hafnarskrifstofuna til að spyrja til vegar í kjörbúðir og á helstu nauðsynjastaði. Var mér fengið kort af bænum og vísaði skrifstofudama mér á að beint upp af eystri hafnargarðinum skiptist borgin í tvennt. Gamli bærinn með sínum þröngu götum, göngugötum, veitingastöðum og verslunum væri t.v. í vestari hlutanum en nýrri hlutinn með glæsihótelum, breiðstrætum, merkja- og tískuverslunum, og baðströndum t.h. í eystri hlutanum. Svo bætti hún við "ef þið viljið vera normal þá mæli ég með gamla bænum en ef ykkur er hjartanlega sama hvað hlutirnir kosta og hrökkvið ekki við 100 hvítvínsglas þá skuluð þið vera hægra megin, þ.e. í nýja bænum. Valið var auðvelt fyrir okkur, enda gamli bærinn miklu meira sjarmerandi þótt við kíktum auðvitað í nýja bæinn án þess að kaupa nokkuð nema miða í "sight seeing tour".
Eins og áður sagði var mikið um að vera í borginni við að undirbúa árlegu kvikmyndahátíðina sem átti að hefjast 15. maí. Var búið að reisa heilt þorp af kynningar- og sölutjöldum meðfram allri höfninni á opnu svæði ofan við hafnarbakkann. Afgirt svæði var við hvert tjald og hafnarmegin var verið að koma fyrir sætum, börum, hljóðkerfum, ljósakerfum og hinum frumlegustu skreytingum. Það sem líka vakti athygli var að ekki var þverfótað fyrir öryggisvörðum á svæðinu. Sáum við m.a. öryggisverði hafnarinnar koma fram bryggjurnar á kvöldin til að athuga hvort ekki væri allt í lagi.
Það var um 400 m. langur gangur fyrir okkur frá básnum þar sem við lágum, við B bryggju, og upp að þjónustumiðstöð hafnarinnar, en þar eru snyrtingar og þvottahús á neðstu hæð, en skrifstofur hafnarinnar á efri hæð. Næsta bygging fjær er svo aðal samkomuhúsið þar sem kvikmyndahátíðin fer fram. Þjónustubyggingin stendur á hafnarbakkanum en götumegin við hana er svo aðalhliðið út úr höfninni og þar voru öryggisverðir á sólahringsvakt. Þurfti að fá þá til að opna fyrir sig á snyrtingarnar t.d. þegar nota átti böðin. Á bekk hafnarmegin við þjónustumiðstöðina sátu svo rónarnir tveir, sem segir frá í síðasta pistli og virtust í fullri þökk hafnarstjórnarinnar þrátt fyrir rauða dregla og glæsisnekkjur, enda hinir vænstu kallar sem engum gerðu mein en vísuðu fólki veginn ef það virtist ráðvillt. Hvenær sem við áttum leið þarna um, þá 5 daga sem við lágum í Cannes, að degi eða síðkvðldi, þá voru þeir þarna á vaktinni og svo vel virtust þeir liðnir að frú Lilja var vitni að því að komið var með afgangsmat til þeirra eitt kvöldið, úr einni glæsisnekkjunni innpakkað í álpappír og huggulega fram borið miðað við aðstæður. Seint um kvöldið 8. maí kom svo Hildur dótturdóttir til borgarinnar í borgarferð með vinnufélögum hennar manns Þórhalls Sverrissonar. Komu þau um borð til okkar daginn eftir og eyddum við hluta dagsins með þeim við að skoða gamla bæinn, sem við þekktum orðið nógu vel til að sýna þeim. Okkar plan var svo að sigla til móts við foreldra hennar, Ragnhildi og Hjálmar, í Genova, 18. maí.
Eftir að vera lögst við bryggju þarna í Cannes fór ég að athuga hvort einhverjar skemmdir hefðu orðið á stb. skrúfunum við að fá spottann í skrúfuna, sem rætt er um í 159 pistli og kom í ljós við þá athugun að dágóður spotti var vafinn um nöfina. Fórum við því í að reyna að kraka hann í burtu með krókstjaka og tókst það að lokum með dyggilegri hjálp skippers á skútu sem lá stb. megin við okkur, en hann kom til hjálpar um leið og hann sá hvað við vorum að brasa.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2008 | 00:05
160. Spotti í skrúfuna, supersnekkjur og slæptir rónar.
Eins og sagði í síðasta pistli leist mér ekki vel á tilkynningarbryggjuna í Cannes þegar við vorum lögst. Þetta var flotbryggja sem var fest utan á steinbryggju og dekkið var víða brotið og því varasamt yfirferðar. Þegar betur var að gáð var flotbryggjan líka girt frá öðrum hlutum bryggjunnar. Þar sem flotbryggjan var alveg við innsiglinguna í höfnina var mjög órólegt við hana út frá þeim öldugangi sem myndaðist frá skipaumferðinni inn og út úr höfninni. Ekki leist mér of vel á Cannes höfn við þessi fyrstu kynni og enn áttu áttu þau eftir að versna verulega þar til þau bötnuðu svo að óvíða hefur okkur liðið betur. Þegar ég kallaði í höfnina til að fá innsiglingaleyfi tók ég svarið þannig að Hafni myndi koma og vísa okkur á úthlutaða legu og ákvað því að bíða rólegur. Ítrekað komu menn fram á bryggjuna, sem voru líklegir til að vera hafnarverðir, en alltaf voru það menn í öðrum erindagerðum.
Ég tók eftir því að við hina hlið bryggjunnar voru fáeinir bátar sem lágu við mooringar og að þeim megin var miklu rólegra enda í meira vari fyrir skipaumferðinni. Ákvað ég því að flytja okkur, líka vegna þess að ég var farinn að líta svo á að við lægjum við eitthvað "bryggjuflak" sem hefði verið sett þarna til bráðabirgða. Var því sett í gang og leyst og siglt inn fyrir garðinn. Fann ég brátt legupláss sem mér leist á og bakkaði í rólegheitunum inn. Nú var hins vegar vindur að aukast og kom smá snúningur á LB í bakkinu. Heyrði ég frú Lilju Ben kalla upp og benda á að afturendinn nálgaðist allt of mikið mooring línu sem lá niður og út frá bryggjunni á stb., en venjan er að morringlínurnar liggja lóðrétt niður í botn frá bryggjunum. Af hverju þessi lína lá skáhallt út frá bryggjunni veit ég ekki en þegar frú Lilja varaði mig við tók ég áfram til að forða okkur frá, en þá fylgdi línan með, við vorum búin að flækja okkur í hana. Rétt eftir að við vorum komin af stað frá bryggjunni stöðvaðist stb. vélin og viðvörunarljós kviknuðu í stjórnborðinu. Við vorum komin með moorlínuna í skrúfuna og reyndar búin að slíta hana frá bryggjunni. Nú voru góð ráð dýr, á einni vél með línu í hinni skrúfunni, sem var fest við moorinn í botni, og feikna skipatraffik í hafnarkjaftinum. Ákvað ég strax að reyna að komast beint að þar sem við lágum við flotbryggjuræfilinn og leggjast þar en aðgengi að henni var mjög greitt og krafðist ekki mikillar stjórnhæfni skips. Eina hættan var að við værum föst við moorin en sem betur fer tókst okkur að slíta okkur laus og leggjast við flotbryggjuna.
Eftir að við vorum búin að binda tryggilega ákvað ég að starta vélinni með skrúfuna í neutral stillingu og flaug hún í gang. Ekki var hægt að finna að neitt væri að henni svo ég prófaði að setja á minnsta áframtak og stöðvaðist vélin með það sama. Aftur startaði ég í neutral en prófaði nú að setja á hægasta afturábaktak og viti menn það gekk og snerist skrúfan afturábak. Með hálfum huga og svita í lófum prófaði ég nú að skipta yfir á áframtak og nú gekk það líka. Ætla ég ekki að lýsa feginleikanum sem gagntók okkur eftir að vera búin að losa línuna úr skrúfunni, að við héldum.
Nú var orðið fullreynt að einhver kæmi til að leiðbeina okkur í legu svo ég ákvað að finna hafnarskrifstofuna og fá pláss. Rétt er að geta þess að til þess þurfti ég að ganga upp hafnargarðinn sem við lágum framan við en meðfram öllum garðinum eru 60 til 70 legupláss fyrir s.k. "superyachtir" (supersnekkjur) allt að 100 m. langar og lá fjöldinn allur af þeim þarna við garðinn, enda kvikmyndahátíðin í aðsigi eftir 5 daga. Því er ekki að neita að skemmtibátakafteini ofan af Íslandi, á sínum 11 m. bát þótti æði mikið til koma þegar hann gekk meðfram þessum glæsisnekkjum sem eflaust voru í eigu billjónera, enda allar skráðar í skattaparadísum Ermasundseyja. Landfylling er utan við garðinn og þar var verið að koma fyrir sölu- og kynningarbásum í tjöldum sem og með allri höfninni að innan verðri og áttum við eftir að verða vitni að undirbúningnum að kvikmyndahátíðinni. Efst á þessari landfyllingu eru svo glæsilegir sýningasalir fyrir kvikmyndahátíðina og gekk líka mikið á þar. Þegar ég var kominn langleiðina að skrifstofubyggingu hafnarinnar, sem er innst upp með garðinum til vinstri tók við rauður dregill svo aðkoman var glæsileg.
Þegar ég kom að skrifstofubyggingunni sáust eingöngu dyr að snyrtingum og böðum á neðstu hæðinni en umhverfis efri hæðina eru svalir sem ég sá ekki strax hvar gengið er uppá. Fyrir framan húsið, milli dyranna að snyrtingum kvenna annars vegar og karla hins vegar var bekkur og á þessum bekk sátu tveir rónar með pytlurnar sínar, trúlega eigur í slitinni ferðatösku sem hallaðist að bekknum og nokkra plastpoka. Þeir voru sólbrúnir eins og róna er siður, rámir niður í rasgat og virtist liggja vel á þeim. Þegar þeir sáu að ég var að leita að uppgöngu á skrifstofuhæðina sneri annar þeirra athyglinni að mér og sagði í spurnartón á ágætis ensku "office?" og játti ég því. "Go to the left around the corner and you vill see the stairs to the office floor". Þakkaði ég fyrir og hélt upp á skrifstofu samkvæmt þeirra leiðbeiningu, en ekki var laust við að mér fyndist þeir stinga í stúf við glæsisnekkjurnar, rauða dregilinn og bygginguna sem var líka glæsileg, en þessum heiðursmönnum áttum við eftir að kynnast betur. Hafnarskrifstofan í Cannes er glæsileg eins og allt annað og fékk ég hinar hlýlegustu móttökur og legupláss vandræðalaust. Þegar ég sagði þeim frá óförum mínum með línuna í skrúfuna var mér srax boðin aðstoð kafara sem ég afþakkaði þar sem skrúfan virkaði. Vatt ég mér síðan aftur um borð og fluttum við bátinn í leguna sem við hofðum fengið úthlutað B bryggja bás 31.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2008 | 17:25
Því miður, ekkert traust eftir.
Þær rannsóknir sem hér er fjallað um geta ekki orðið trausts verðar ef litið er til þess sem í ljós hefur komið undanfarna daga.
Ef vinna á traust til rannsókna á því sem hér um ræðir er eina ráðið að fara að ráðum Boga Nílssonar frv. ríkissaksóknara, sem er eini maðurinn sem komið hefur með réttlátar og málefnalegar tillögur, enda maðurinn vandaður.
Óháðir sérfræðingar rannsaka hvort lög hafi verið brotin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2008 | 13:19
159. Esterel fjöllin og innsigling til Cannes
Við vorum búin að lofa honum Hafna í St. Raphaél að vera farin fyrir hádegið og stóðum við það því við leystum landfestar fyrir kl. 10:00, fimmtudaginn 8. maí. Eins og sjá má á myndinni með næst síðasta pistli, var stutt út úr höfninni, enda legið við hafnarkjaftinn. Settum við stefnuna svo austur með ströndinni þegar komið var vel klárt af hafnargarðinum.
Eins og ég minntist á, líka í næst síðasta pistli, þá byrjuðum við á að fara framhjá aðal snekkjuhöfninni í St. Raphaél litlu austar, og austan við hana sigldum við svo á milli "Lion" eyjanna, sem eru tvær, Ilot Lion de Mer sem er utar og Le Lion de Terre, sem er alveg upp við landið (eins og nöfnin bera með sér), en í kring þær eru einnig margar smáeyjar og sker sem ekki eru merkt í kortin með sérstökum nöfnum. Þegar komið er austur fyrir þessar eyjar er siglt meðfram Esterel fjöllunum, sem eru ekki há (um 200 m.) en mjög merkileg fyrir það að í þeim er elsta berg Frakklands sem er sérkennilegt fyrir sinn rauðleita blæ. Esterel bergmassinn reis upp og myndaði há fjöll þarna á undan bergmassanum sem myndar núverandi Alpa sem eru austar en Esterel fjallgarðurinn hefur á milljónum ára náð að veðrast svona mikið niður auk þess sem þau eru sundurskorin af gljúfrum. Það sem gerir þessa strönd sérkennilega fallega er þó samspil litanna á ryðrauðum klettum í snertingu við fagurblátt hafið.
Fram til 1964 var Esterel fjallgarðurinn þakinn furuskógi og eik en sá skógur þurrkaðist út í skógareldum það ár. Reynt hefur verið að rækta upp samskonar skóg aftur en verið erfiðleikum bundið vegna gróðursjúkdóma sem virðast herja á það sem plantað er þarna.
Þegar komið er 3 sjóm. með Esterel klettunum er farið framhjá lítilli eyju sem heitir d´Or og er skammt SV við höfða sem heitir Drammont. Nokkuð er um sker þarna sem er eins gott að varast með því að sigla vel utan við eynna. Þá er farið fyrir fjörð sem heitir Rade D´Agay með samnefnt þorp fyrir botni, en við héldum út fyrir "cardinála" á La Chrétienne skerjum og settum þaðan stefnuna fyrir cardinála á La Vaquette skerjum sem leiðir síðan inn í de la Napoule flóann, en austan í þeim flóa er næsti áfangastaður okkar sem er Cannes. Golfe de la Napoule liggur milli Esterel fjallanna og eyja sem bera samheitið de Lérins eyjar, en meðal þeirra er eyjan Ste-Marguerite sem ég minnist á í 151. pistli. Strandlengja flóans er þéttbyggð með glæsihótelum sem bera við himinn alveg frá Esterel fjöllunum í SV og að skógivöxnum de Lérins eyjunnum, sem eru óbyggðar að undanskyldum smáhýsum með ströndinni. Þegar siglt er inn flóann blasir við mikil umferð af bátum, snekkjum, farþegaskipum og ferjum hver á sinni leið, sem virðist vera algjör "kaos" auk þess sem í bland við byggingarnar á ströndinni má sjá skóg af siglutrjám sem rísa upp úr fimm skemmtibátahöfnum sem eru við flóann með yfir 6000 legupláss fyrir snekkjur og skútur af öllum gerðum. Við stefndum ekki á garðinn þar sem hann var lægstur heldur beint á aðalhöfnina í Cannes, kvikmyndaborgina frægu.
Eins og áður sagði er Cannes höfn í NA horni flóans og þegar komið er úr SV eins og við gerðum eru eyjarnar í de Lérins klasanum SA af höfninni mjög áberandi. Til þess að átta sig vel á insiglingunni er ráðlagt að nota stjórnuathugunarturninn í Cannes, sem trónir á hæð ofan við bæinn, til að stefna á, þar til maður sér innsiglingarvitana á ytri-hafnargarðinum, en sá á endanum er 8 m. hár hvítur turn með rauðu ljóskeri efst og skammt innan við hann á garðinum er gamali hafnarvitinn sem sker sig vel úr. Mjög mikinn vara þarf að hafa á umferðinni um hafnarmynnið því að ferjurnar og turistabátarnir sem þarna æða fram og aftur virða alls ekki 3 hnúta hraðatakmörkin á hafnarsvæðinu og í raun ekki árekstrarreglur heldur gagnvart venjulegum skemmtibátum.
Það er skylt að tilkynna sig á rás 12 á VHF áður en komið er til hafnar og að fá innsiglingarleyfi sem var auðsótt og var okkur sagt að fara að bryggju sem er yst í Norðurhöfninni og tilkynna okkur þar. Nokkuð var stressandi að taka höfnina því umferðin inn og út var feikna mikil og til að komast að bryggjunni sem okkur var sagt að leggja að þurfti að fara að hluta þvert á siglingastefnuna en allt gekk þetta og við lögðumst að tilkynningarbryggjunni kl 12:40.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar