Færsluflokkur: Lífstíll

158. Rænd í St. Raphaél

Vor 2008 054 Bær að baki eftir ljúfa heimsókn. 

Að venju, þegar við erum búin að koma okkur fyrir, fórum við í landgöngu í blíðunni og tókum innkaupakerruna með. Á bekk uppi á garðinum þar sem við lágum sáum við róna sem virtist vera sæll með sitt auk þess sem hópur skólaunglinga var að væflast á garðinum að stelast til að reykja og kjá hvort í annað með flissi og þeim bjánagang sem fylgir gjelgju. Stangveiðimenn voru að venju framan á hafnarhausnum að veiða. Var byrjað á að taka vatn en síðan drógum við gluggatjöld fyrir alla glugga til að varna því að sólin skíni óhindrað inn, en geri hún það verður hitinn óbærilegur inni í bátnum. Rifa var skilin eftir á hliðargluggum, til að lofta hitanum út og svo var öllu læst áður en ráðist var til uppgöngu.

Eins og sjá má á myndinni sem fylgir síðasta pistli (157) er hafnargarðurinn langur og því ágætur spotti upp í bæinn en þegar þangað var komið gleymdum við okkur við ráp, gláp og innkaup enda vorum við ekkert að flýta okkur, gáfum okkur góðan tíma á götuveitingahúsi og létum okkur líða vel í blíðunni. Þegar sól var byrjuð að lækka í vestri stefndum við til skips, til að fara að undirbúa kvöldmatinn og fá okkur hressingu fyrir matinn. Þegar við nálguðumst LILJU BEN sáum við tvo lögregluþjóna á bakkanum við bátinn og hjá þeim stóð Hafni og urðu þeir fegnir að sjá okkur koma. Sögðu þeir að þeir hefðu sterkan grun um að búið væri að ræna einhverju frá okkur þótt ekki væri að sjá nein merki um innbrot. Höfðu lögreglumennirnir verið á eftirlitsferð á hjólunum sínum fram á garðinn (lögreglan í St. Raphaél fer um á reiðhjólum, sem og víðar í Frakklandi) og þá hafi þeir veitt því athygli að rafmagnssnúra sem tengd er hleðslutæki lafði út um gluggann sem snéri að bryggjunni. Höfðu þeir því hringt í Hafna sem hafði komið og voru þeir að fara að athuga málið frekar þegar við komum. Báðu þeir okkur að opna bátinn og fara í gegnum hann og athuga sérstaklega með öll laus verðmæti og tæki svo sem GPS o.þ.h., hvort þau væru öll til staðar. Var það nú gert og fórum við í gegnum allar vistaverur bátsins, skápa og hirslur til að athuga hvort einhverju hafi verið stolið en gátum ómögulega séð að eitthvað vantaði.

Fór ég að því búnu upp á bryggju til að segja þeim að við gætum ekki séð neitt óvenjulegt og að allt væri á sínum stað en þeir voru samt tortryggnir. Að lokum sáu þeir að okkur var ómögulegt að benda á að nokkuð vantaði og ákváðu því að láta þar við sitja og kvöddu eftir að ég hafði þakkað þeim hugulsemina, og hjóluðu þeir upp bryggjuna. Hafni fór í bílinn sem hann hafði komið á. Þeir voru komnir upp að aðalgötunni efst við bryggjuna þegar frú Lilja segir allt í einu "GSM síminn minn, honum hefur verið stolið". Símann hafði frú LILJA skilið eftir ofan á baki sófa í efri káetunni þar sem hann var tengdur við hleðslutæki og hefur blasað við innan við gluggann sem sneri að bryggjunni og var með rifu á til að lofta út hitanum. Ég skammaðist mín svo mikið fyrir að við skyldum ekki hafa séð þetta að ég hafði ekki geð í mér til að kalla á eftir löggunum, eða hringja í Hafna til að láta þá vita, enda litlar líkur á að endurheimta símann. Trúlega hefur einhver séð símann innan við gluggann og ekki þurft annað en að teygja hendina inn og hrifsa hann til sín þannig að það var snúran frá hleðslutækinu sem þeir sáu lafa út um gluggann.

Þegar svona var komið reyndum við að hringja í símann en þegar ekki var svarað var tafarlaust hringt heim til Íslands og númerinu lokað.


Hvar er Framsókn?

Var Framsókn ekki taglhnýtingur Sjálfstæðisflokksins þegar einkavæðingar- og útrásarævintýrið var sem villtast?
mbl.is Þjóðin í gíslingu Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

157. Yfir St. Tropez flóa og til St. Raphaél

Raphael2 Vieux höfnin í St. Raphaél. Lögðumst við garðinn næst á myndinni, þar sem brúni flekinn er.  Mynd úr Google Earth.

Þegar komið er austur yfir Cavalaire flóa er komið að 146 m. háum höfða sem heitir Lardier, þar sem stefnan er sett í NA yfir de Briande flóa og fyrir Taillat höfða en þar er varasamt vegna kletta og skerja utan við, svo ekki er farið nær en 0.5 sjóm. Grunn eru líka ASA við Lardier höfðann sem þarf að varast. Eftir Taillat höfðann er Bon Porte flói sem er skerjóttur að innanverðu svo maður fer ekki inn í hann að óþörfu auk þess sem skerjadrasl austur af næsta höfða Camarat sér til þess að ekki er farið nær honum en 1 sjóm.

Eftir Camarat höfðann kemur svo stór flói sem heitir Pampelonne og eru 20 hnúta hraðatakmörk við siglingu yfir hann vegna þess að þetta er mjög vinsæll seglbátastaður og frægar baðstrendur teygja sig eftir endilöngum Pampelonne flóanum. Við notum yfirleitt 16 - 18 hnúta hraða svo það breytti okkur engu. En baðstrendurnar heita flestar seiðandi hitabeltisnöfnum eins og Tropezina, Tahiti-Plage, Bora-Bora, Moorea, La Voile Rouge, Lagoon Bleu, Sun 77, Le Liberty og Tropicana svo einhverjar séu nefndar og er sagt að á Tahiti - Plage ströndinni, sem er þekktust, megi sjá fegurstu stúlkur Frakklands að veiðum, enda snobstaðurinn St. Tropez steinsnar frá.

Þegar við komum fyrir Teste de Can skerin sem liggja austur af St. Tropez höfða var stefnan sett í norður, beint yfir St. Tropez flóann og á St. Raphaél sem sjá mátti undir fjöllunum í fjarska. Alla leiðina frá Lardier höfða vorum við búin að hafa nóg að gera því á þessu svæði er mýgrútur af bátum á ferð, sæköttum, stórum og litlum snekkjum, skútum af öllum gerðum og seglbrettum en þetta krefst sérstakrar athygli.

Við renndum inn í St. Raphaél Vieux Port kl. 1205 þann 7. maí. eftir að hafa siglt í 2 tíma 46 mín, eða 38.6 sjóm vegalengd. Við lögðumst að olíutökubryggju sem er beint neðan við hafnarskrifstofuna og þar sem við komum í hádeginu var okkur sagt af mönnum sem voru að dytta að bátum á bakkanum, að skrifstofan hans Hafna myndi ekki opna fyrr en kl. 14:00. Fékk ég mér því göngutúr meðfram hafnarsvæðinu til að skoða aðstæður til að leggjast, meðan frú Lilja var að taka til hádegismat fyrir okkur, og komst að því að við vorum of stór í innsta hluta hafnarinnar en að ytri hlutinn væri að mestu fullur. Þótti mér tvísýnt um legupláss en ákvað að bíða samt eftir Hafna.

Hafni kom á slaginu kl. tvö og var hann allur af vilja gerður til að taka við okkur en sagði að allir básar væru fullir og þótt einhverjir básar virtust tómir væri það vegna þess að fiskibátarnir væru ókomnir að landi. Hins vegar sagði hann að okkur væri velkomið að vera við ytri hluta syðri hafnargarðsins, sem er með legukant fyrir ferjur, skoðunarskip og önnur farþegaskip, ef við lofuðum að vera farin fyrir hádegið daginn eftir, því þá kæmi farþegaskip sem búið væri að lofa plássinu. Gengumst við fúslega undir það því við vorum ákveðin að ná til Cannes daginn eftir. Fluttum við okkur nú yfir og bundum LILJU BEN við farþegaskipabryggjuna við aðal hafnargarðinn.

Það er í raun merkilegt að það skuli ekki vera meira pláss í Vieux höfninni í St. Raphaél því hún er í hjarta bæjarins. Sjálf snekkjuhöfnin, sem er stór með 1600 leguplássum, er hins vegar utan við bæinn. Í sjálfu sér er ekki mjög merkilega staði að skoða en þetta er líflegur bær með spennandi kaffihúsum og veitingastöðum sem raðað er meðfram aðalgötunni sem liggur auðvitað meðfram höfninni að venju. Reyndar er dómkirkjan staður til að heimsækja og Fornminjasafnið fyrir neðansjávarmuni sem er fullt af munum sem fundist hafa á sjávarbotni og eru allar götur frá 5. öld fyrir krist.

Úr MEDITERRANEAN FRANCE & CORSICA PILOT eftir Rod Heikell:

"St. Raphaél er framlenging á gamalli borg frá Rómartímanum sem hét Fréus, sem var á ströndinni þá, en framburður R. Garonne árinnar hefur flutt ströndina fram þannig að leyfarnar af gömlu Rómversku höfninni, sem rúmaði 100 galeiður eru 1 mílu inni í landi. Það var Julius Caesar sem stofnaði borgina og á tímum Augustus keisara var íbúatalan komin upp í 25.000.

Á 19. öld sló sér niður í bænum sérvitringur að nafni Alphonse Kart, gagnrýnandi, dálkahöfundur og um tíma ritstjóri Le Figaro. Eftir að hann fluttist til St. Raphaél skrifaði hann vinum sínum og hvatti þá til að flytja á svæðið. "Yfirgefið París og plantið göngustaf ykkar í garðinn minn og daginn eftir er hann orðinn að rósum" skrifaði Kart. Þeir sem meðal annars fóru að ráðum Kart og byggðu sér hús þarna eru rithöfundarnir Alexandres Dumas og Guy de Maupassant auk þess sem tónskáldið Hector Berlioz byggði villu þarna.

Eins og áður sagði var Alphonse Karr álitinn sérvitringur en vinir hans töldu að hann væri orðinn snargalinn þegar honum datt í hug að opna blómabúð og fara að senda blóm með járnbrautalestum um alla Evrópu. En það fór þó svo að þjóðhöfðingjar og mikilmenni um alla Evrópu urðu viðskiptavinir hans og gerði það að verkum að nú er blómarækt og sala mikilvægasti atvinnuvegur St. Raphaél".


156. Azur strandlengjan, djásn listamanna og efnafólks

Vor 2008 067 Höfðarnir með Azur ströndinni. 

Þótt ég nefni Azur strandlengjuna "djásn listamanna og efnafólks" verðum við frú Lilja Ben ekki flokkuð með þeim, þótt við höfum siglt þar um, ekki frekar en að það megi flokka okkur með Mafíunni ef við heimsækjum Siciley að ári, sem við áætlum.

Frá Ciotat hefur leið okkar legið um Azur ströndina sem er sá hluti Rivierunnar sem liggur milli Ciotat og austur undir Nice. Azur strandlengjan varð í raun ekki að því frægðarsvæði sem það er nú fyrr en á 19. öld og er það þakkað skáldinu Stephen Liégard sem dásamaði hið sérstaka samspil ljóss, himins og sjávar sem þar leikur listir fyrir auga og anda. Þetta skáld er núna flestum gleymt en samt heldur Azur ströndin visældum sínum sem verustaður rithöfunda, listmálara og efnafólks, vegna þess að lýsing skáldsins gleymda er rétt og stendur því sjálfstætt fyrir sínu. Það þurfti bara skáldið til að vekja athygli á fegurð svæðisins. Er nú svo komið að vegna þess hversu Azur ströndin hefur verið auglýst upp í ferðabæklingum þá hefur eldra heitið, "franska Rivieran" fallið í skuggan og er jafnvel farið að tala um Azur strönd allt austur að landamærum Italíu þannig að margir óttast að Rivierunafnið þurrkist endanlega út.

Veðráttan á þessu svæði, fyrir siglingar með suður Frakklandi, er þannig að fram undir hádegi er yfirleitt lygnt en um og upp úr hádeginu byrjar að vinda af SA-A og er algengt að það fari í 3-4 vindstig. Þessi síðdegisvindur dalar svo síðla dags og yfirleitt er orðið logn aftur að kvöldi. Þó gerir stundum vond veður við Miðjarðarhafið og eru þau yfirleitt af tvennum toga. Annars vegar er s.k. Mistral vindur sem stendur af landi, oftast af NV og getur verið "spænu hvass", sérstaklega undan hinum óteljandi fjallaskörðum og gljúfrum sem eru með allri strandlengjunni. Þar sem þetta er að mestu aflandsvindur er hægt að forðast stórsjó með því að sigla grunnt með landi þegar svo ber undir, en gegnumsneitt er mjög hreint með ströndinni þ.e. lítið um boða og sker. Hins vegar er s.k. Marine veður sem eru þá stormar af S-SV og það eru á þessu svæði óþverraveður. Þau verða helst á vetrum og geta ýft upp mikinn og erfiðan sjó, auk þess sem ströndin er svo sæbrött að við það að aldan skellur á klettabeltunum myndast endurkastsalda sem gerir sjólagið hundleiðinlegt að sigla í. Þótt við værum að sigla að vori og hausti áttum við eftir að lenda í báðum tegundunum af illviðrum sem sagt verður frá þegar þar að kemur.

Við yfirgáfum Miramar miðvikudagsmorguninn 7. maí kl. 0855, eftir að hafa reynt að taka olíu án árangurs. Olíudælan var biluð, en það var ekki vandamál því við vorum með nóg eldsneyti. Eftir að við vorum búin að þræða út innsiglingarennuna settum við stefnuna yfir smáflóann sem Miramar stendur við og fyrir Blanc og Bénet höfðana sem skaga út í um 3. sjóm. fjarlægð. Áætlunin var að sigla alla leið til St. Raphaél, gullfallegs bæjar norðan við St. Tropez flóann, sem stóðst.

Í upphafi, þegar við fórum að heiman, vorum við ákveðin að í stoppa í St. Tropez en hættum snarlega við það þegar einn bátamaður sem við kynntumst lítillega sagði okkur hversu dýrt væri að liggja þar. Sagði hann að St. Tropez væri höfn auðkýfinga þar sem "Benz" bílar væru aðeins fyrir "verkalýðinn". Þeir sem eru ánægðir með sinn Hyundai bíl og Tresfjord 343 snekkju eiga ekkert erindi á svoleiðis staði.

Eftir því sem komið er austar í flóann og nær höfðunum hækkar landið og há fjöll fara að bera við himinn. Blanc höfðinn er úr ljósleitum klettum og efst trónir hvítur viti og við hlið hans s.k. "signalstation" sem er arfur frá fyrri tíð þegar sýnileg merki voru notuð til að koma viðvörunum eða leiðbeiningum til sjófarenda. Út af Bénat höfða þarf að gæta sín á litlum kletti utan við ströndina. Eftir þetta kemur var stefnan sett fyrir Négre höfðann og svo Cavaliaire höfðann.

Áfram í næsta pistli.


155. Port Miramar, frú Lilja til læknis og skipt um oliu og síur.

Vor 2008 064 Komið með kostinn um borð í Miramar, í innkaupakerrunni. 

Þegar við vissum að hafnarskrifstofan myndi ekki opna fyrr en daginn eftir, mánudaginn 5. maí, fórum við í land til að kynna okkur þá fjölmörgu veitingastaði og verslanir sem eru í röðum meðfram hafnarsvæðinu. Baðstrendur eru svo sitt hvoru megin hafnarinnar sem reyndar voru ekki komnar almennilega í gang svona snemma vors. Bærinn er lítill og heimilslegur, með rólegheit yfir öllu, en þó er mikið líf á börum, veitingstöðum og götu hafnarinnar. Þegar komið er upp hafargarðinn þar sem við lágum, en með honum er viðlegukanntur með fjölda báta, er slippur vinstra megin, en hægra megin við kantinn er fljótsmynni eða ós sem er bátsgengur fyrir smærri báta og var bátum lagt upp með báðum bökkum fljótsins eins langt og við sáum þennan fyrsta dag. Um kvöldið snæddum við svo kvöldverð á einum af veitingastöðunum á hafnarbakkanum.

Morguninn eftir var hafnarskrifstofan opnuð. Fór ég strax og opnað var og bað um legu í tvær nætur sem var auðsótt og fengum við pláss við A bryggju "bás" nr. 38. Fluttum við nú LILJU BEN þangað og komum okkur fyrir.

Þegar hér var komið sögu var ljóst að við urðum að leysa vandamál sem var komið upp. Frú Lilja var búin að vera með þrálátan hósta í um tvær vikur og því ákváðum við að leita læknis og fengum á hafnarskrifstofunni upplýsingar um læknastofu og nafn læknis skammt frá höfninni og leiðbeiningu um hvernig við gætum rambað á stofuna. Fórum við því strax upp í bæinn og fundum læknastofuna eftir smá leit og var slatti af fólki komið á biðstofuna. Eftir að við vorum búin að sitja smá stund fór ég að hafa á tilfinninguna að trúlega þyrfti að hringja í lækninn og panta tíma því okkur var farið að renna grun í að það hefði fólkið á biðstofunni gert. Fór ég því út fyrir og hringdi í lækninn úr gemsanum og svaraði hann fljótt. Pantaði ég tíma fyrir frú Lilju og fengum tíma kl. 12 á hádegi (en nú var kl. um 10). Það sem ég hafði gaman af var að annar maður, sem hafði komið inn með konu sinni rétt á eftir okkur, snaraðist út á eftir mér til að hringja líka til að panta tíma, en það fékk ég staðfest þegar við komum á tilsettum tíma aftur því þau voru þá mætt og voru á eftir okkur. Þessi hjón eða ferðafélagar voru auðsynilega bátafólk líka.

Læknirinn og aðstaða hans, sem er í litlu húsi við íbúðagötu í bænum, var til fyrirmyndar og vel útbúin og tók hann frú Lilju í rækilega skoðun sem leiddi til þess að vandamálið var ekki alvarlegra en slæmur "bronkitis" sem ráða þurfti bug á. Skrifaði hann upp á lyfjakúr og gaf sínar leiðbeiningar um meðferð auk þess sem hann skrifaði skilagreinar til Tryggingastofnunar vegna endurgreiðslu, sem allt gekk eftir bæði á hans aðstoð og lyfjakostnað.

Daginn eftir var svo búið að panta vélvirkja til að skipta um oliu á vélum og smurolíu- og eldsneytissíur enda ekki verið gert síðan í Duisburg í Þýskalandi fyrir um ári síðan.

Vor 2008 061 Frú Lilja fylgist með eldriborgurum í Bocchia.

Þarna í Port Miramar var mjög gott að vera, höfnin topp fín og öll aðstaða til fyrirmyndar. Bærinn er nokkurskonar frístundabyggð og er t.d. stórt íbúðahverfi sunnan við höfnina sem virðist vera í eigu ellilífeyrisþega eða leigðar út til frístundadvalar. Það er t.d. merkilegt að ef slegið er inn nafnið "Miramar, France" á Google þá koma upp eingöngu síður með auglýsingum um hotel, gististaði eða frístundaíbúðir en lítið sem ekkert um bæinn sjálfan. Kynntumst við því svæði aðeins því þangað var styst að fara í stórmarkað. Því leið okkur vel þarna og hefðum hugsanlega legið lengur ef ekki var að styttast í að Hildur dótturdóttir væri að koma til Cannes, þar sem við stefndum á að hitta hana.


154. Frávísun sem varð til góðs

Vor 2008 060 Lögst í Miramar, undir stjórnturninn. Fengum svo betra pláss daginn eftir. 

Þegar við fórum frá La Ciotat, sunnudaginn 4. maí var ferðinni heitið til Hyers-Plage, en þar sem höfnin var full vorum við rekin burt og enduðum í Miramar, sem betur fer, því þar leið okkur svo vel að við fórum ekki þaðan fyrr en miðvikudaginn 7. maí.

Við slepptum landfestum í La Ciotat kl. 0925 og settum stefnuna fyrir utan eyjuna de Bendor sem er utan við höfnina í Bandol, sem er feikna mikil snekkjuhöfn með 1600 leguplássum.

Bendor eyja er í einkaeign Hr. Poul Ricard, en nafn hans má sjá á "pastis" flöskum um allt Frakkland. Eyjan er opin fyrir gesti og hefur hann komið á fót þar safni sem segir sögu hinna frægu aniseed fordrykki. Pastis drykkina Frönsku má líkja við Tyrkneska drykkinn raki, Gríska drykkinn ouzo og Ítalska drykkinn sambucca. Fram að byrjun 20. aldar var Absinthe heimsþekktur aniseed drykkur í Frakklandi og svo vinsæll að yfirvöld töldu að hann væri að rústa þjóðfélginu í einn allsherjar alcoholisma þannig að framleiðsla Absinthe var bönnuð árið 1915. Það var því ekki fyrr en 1932 sem aftur var leyft að framleiða drykki með aniseed bragðefnum og þar kom við sögu þessi Poul Ricard. Hann var hamingjusamur listmálari í Marseille, en þegar hann var 23. ára taldi faðir hans að það væri engin framtíð í listinni og hvatti hann til að leita sér að arðbærari framtíð. Fór strákur þá að blanda pastis drykkina sem slóu í gegn og urðu vinsælustu fordrykkir í Frakklandi og eru enn. Í raun er meira um þennan milla að segja því hann er mikill sveitamaður og á fleiri eyjar við ströndina sem og jarðir á Rivierunni, og ræktar sérstaka nautategund fyrir nautaat á Spáni.

Við sigldum framhjá Bendor í SSA 4 vindstigum, sólskini og hlýindum. Frá Bendor settum við stefnuna í gegnum þröngt sund á milli Grand Rouveau eyjar og Des Embies eyjar, en þarna þurfti að gæta mikillar nákvæmni því stefnan þarf að vera nákvæmlega 200° frá cardinála sem er N við Des Embiez. Ekki má fara fjær hólma sem heitir La Cauvelle en 100 m.

Þegar komið var í gegnum sundið var stefnan sett fyrir Sicié höfða og þaðan beint yfir flóann sem stórborgin Toulon stendur við og svo út fyrir Pte. de Carqueiranne. Þótt eflaust væri gaman að heimsækja Toulon var haldið áfram yfir flóann, því það er með þetta eins og annað, það verður að velja og hafna. Í Toulon er aðal herskipahöfn Frakka á Miðjarðarhafsströndinni svo það fældi líka frá. Austan við Toulon er De Giens flói og austan hans mikið nes, mjög láglent, sem er með stórum saltsöfnunartjörnum. Á enda nessins eru hins vegar hálendir höfðar sem er siglt fyrir. Sem dæmi má nefna að árið 1811 skolaðist láglendið í burtu í miklum stormi þannig að höfðarnir urðu í raun að eyjum í nokkur ár, áður en sandrifin byggðust upp aftur sem tengja höfðana við meginlandið. Þegar komið er austur fyrir þetta nes og nokkrar eyjar sem eru suður af því, sem kallast d´Hyéres eyjar, má taka stefnuna beint í norður á höfnina Hyéres Plage. Þessar eyjar eru fjórar talsins og voru eins og fleiri staðir undir Grikkjum og svo Rómverjum f.k. og fyrst e.k. Á öldum áður voru þær í raun látnar afskiptalausar og þeir sem reyndu búsetu þarna áttu mjög bága æfi, ef nokkra, vegna stöðugra sjórána og árása ræningja. Svo erfitt reyndist á tímabili að fá fólk til að setjast að á þeim að stjórnvöld gripu til þess ráðs að gefa glæpamönnum upp sakir svo lengi sem þeir fengjust til að búa á þeim. Nú eru þær mjög vinsælar til útivistar og siglinga enda mikið af friðlýstum svæðum umhverfis þær og náttúrufegurð mikil.

Við skriðum inn í höfnina í Hyéres Plage kl. 12:00 sunnudaginn 4. maí eftir tæplega þriggja stunda siglingu. Auðratað var að "tilkynningarbryggjunni" beint niður undan glæsilegum "controltower" þessarar 1350 leguplássa hafnar, en þar sem nú var hádegi á sunnudegi var allt lokað og ekki annað að gera en að bíða þess að tveggja tíma hádegisverðarhléi ljúki. Meðan við biðum rölti ég um hafnarsvæðið og verð að segja að það var eins og að koma á 5 stjörnu hótel, allt stílhreint, þrifalegt með afbrigðum og glæsilegt. Kl. 1400 fór ég svo upp í "controlturninn" og tilkynnti komu okkar og bað um legupláss. En nú varð mér brugðið þegar Hafni svaraði "sorry we are full, no berth available". Þetta hafði ekki gerst áður, að okkur væri vísað frá og kom það mér í opna skjöldu. Ég hafði skoðað aðkomu að öllum höfnum á þeirri leið sem við sigldum frá La Ciotat, ef eitthvað kæmi uppá svo við þyrftum að leita inn í þær, en ég hafði ekkert spáð í hefnir lengra framundan.

Við yfirgáfum Hyéres Plage kl. 1415 í svolitlu sjokki. Hvert áttum við að fara? Ekki vildi ég snúa við á einhverja höfnina sem við vorum búin að fara framhjá svo við héldum áfram norður með ströndinni. Fyrst ætlaði ég að athuga með pláss í lítilli höfn sem heitir L´Ayguade Ceinturon en hætti snarlega við eftir að ég hafði lesið s.k. approach lýsingu  fyrir hana. Næst reyndi ég fyrir okkur í Port Pothau, mjög lítilli höfn skammt norðar og var innsiglingin þar virkilega vandasöm, grunn og þröng en ekkert pláss var þar að finna enda ætluð eingöngu fiskibátum og gæslubátum. Frá var horfið þaðan og stefnan sett á skemmtibátahöfnina í strandbænum Miramar. Vegna grynninga í innsiglingunni var ekki laust við að spenna væri í manni meðan skriðið var eftir rennunni en inn komumst við, í þessa líku fínu höfn og lögðumst við tilkynningarbryggjuna við stjórnturninn um kl. 1500. Allt var reyndar lokað í stjórnturninum og var svo allan daginn, enda sunnudagur. Við hrósuðum hins vegar happi að finna legu þar sem við gátum tengt okkur við rafmagn og legið allavega um nóttina. Eins og sagði í upphafi varð höfnunin í Hyéres Plage til góðs því þarna átti okkur eftir að líða virkilega vel.


153. La Ciotat

Vor 2008 052 Sjúkrabíllinn í La Ciotat, búnir að opna hliðið 

Eins og ég skrifaði í næst síðasta pistli þá byrjar maður á að sigla framhjá slippum og skipasmíðastöðvum þegar komið er inn í höfnina í La Ciotat. Bærinn var hér áður fyrr að gera sig gildan á flutningaskipamarkaði en sú framtíðarsýn breyttist í raun á einni nóttu þegar Monaco Marine skipasmíðastöðin, sem er staðsett þarna var fengin til að byggja og útbúa árið 1995 nýhannaða 80 feta skútu fyrir Grand Mistral siglingakeppnina unhverfis jörðina. Þar með var ný framtíð ráðin í atvinnulífi bæjarins, byggingar, viðhald og viðgerðir á snekkjum af öllum stærðum þ.m.t. "Super Yachts".

Bærinn, sem á svipaða þróunarsögu og Marseilla þótt ekki hafi hann vaxið eins, er byggður í brattri hlíð umhverfis vík sem myndar höfnina og liggur hann svo norður yfir hæð nokkra og svo meðfram ströndinni til norðurs. Íbúar eru 32.000. Þarna var komið það landslag sem einkennt hefur þá bæi og borgir sem við höfum heimsótt í Frakklandi og Ítalíu eftir þetta, þ.e.a.s. brattar götur og þröngar víðast og sumstaðar breytast göturnar í tröppur vegna brattans.

Laugardaginn 3 maí fórum við snemma af stað með fulla "hjólatík" af þvotti og örkuðum sem leið lá upp í þvottahús og fór megnið af morgninum í stórþvottinn. Eftir að við vorum búin að ganga frá honum um borð, skipta á rúmum og raða í hillur var komið að því að fá sér meiri göngur um La Ciotat og skoða bæinn betur. Eyddum við deginum við slíkt ráp og urðum vitni að skondnu atviki. Við vorum sest við útiveitingahús efst við aðal göngugötu verslunarhverfisins, en rétt ofan við okkur var grindverk yfir götuna sem lokaði henni fyrir bílaumferð. Hlið er á grindverkinu til að koma öryygisbifreiðum s.s slökkviliði inn í götuna. Þar sem við sitjum nú þarna upphefst sírenuvæl mikið sem nálgast óðfluga og svo sést sjúkrabíll koma upp götuna handan við hliðið með bláum blikkandi ljósum. Þegar bíllinn kemur að hliðinu var stoppað og út kemur "paramedicinn" og nær í verkfæratösku sem var í hólf á hlið bílsins. Gekk hann síðan að hliðinu og fór að losa tvo eða þrjá bolta sem héldu því lokuðu og tók það drjúgan tíma. Varð mér að orði við frú Lilju að sjúklingurinn gæti verið löngu dauður áður en þeir næðu til hans með þessu vafstri. Þegar sjúkrabíllinn komst loks í gegn hélt hann för sinni áfram niður göngugötuna og virtist eitthvað hafa komið fyrir þar því nokkur mannsöfnuður safnaðist þar saman að fyljgast með. Annars vakti þessi atburður athygli mina á að á stórum svæðum í þessum gömlu bæjum eru göturnar svo þröngar að þar fer enginn bíll um þannig að öryggismál vegna slysa og eldsvoða hljóta vera all flókin þarna, en eftir því sem maður hefur kynnst er þessi mál almennt í mjög góðu lagi hjá þessum þjóðum.


152. Stórþvottur, stigið í betlibauk og leitað að landgang, allt í Ciotat.

la_ciotat_h2Ciotat bæjarhöfnin. 

Við lágum í Ciotat fram á sunnudag 4. maí, en þá fórum við til Miramar eftir að hafa verið vísað á braut í annari höfn á Rivierunni. Í Ciotat var frú Lilja Ben hins vegar orðin grimm og krafðist að þveginn yrði stórþvottur.  Þegar frú Lilja er grimm þá hlýðir maður. Við höfðum ekki komist í þvottavélar frá því að við lögðum í hann 18. apríl svo farið var að þrengjast um föt til skiptanna og það líður frú Lilja Ben ekki. Varð því að vinda bráðan bug að því að finna "Lavamatic" þ.e. almenningsþvottahús þar sem hægt er að komast í þvottavélar og þurrkara.

Við byrjuðum daginn á kynnsferð um bæinn, en það er undantekningalaust fyrsta skrefið hjá siglurum. Það verður að ná áttum í byggð sem á sjó. Því var rölt umhverfis höfnina og skoðaður allur sá fjölda veitingastaða sem er meðfram öllum hafnarbakkanum, þar sem borðin bókstaflega flæða út á gangstéttirnar. Eftir það rölt og hádegishressingu á einu veitingahúsanna fórum við um borð og síðan upp á skrifstofu og spurðum um tvennt, stórmarkað og þvottahús og var mér sagt hvar mætti finna það. Ákváðum við í kjölfarið að fara í annan könnunarleiðangur og finna "supermarkaðinn" og versla inn í matinn og finna þvottahúsið til að nota daginn eftir, laugardag, sem er jú gamli þvottadagur fjölsyldna frá því að við vorum að alast upp. Okkur var bent á að labba inn með höfninni u.þ.b. að miðju og fara þar upp brekku sem liggur í sveig upp í aðal verslunargötur bæjarins og þá myndum við finna markaði fyrir matvörur sem nánar var útlistað fyrir okkur hvar væru. Einnig var okkur sagt að við myndum finna þvottahús í hliðargötu frá aðal verslunargötunni. Var nú lagt af stað til að finna hvorutveggja en það verður að segjast að ef undirritaður Guðjón Petersen á að finna eitthvað í borgum þá hverfa augun frá því sem er fæti næst og hvarfla um húsveggi, skilti, garða, styttur, fólk og allt það sem getur gefið vísbendingu um hvort hann sé kaldur, volgur eða heitur gagnvart því sem leitað er að. Þannig varð okkar gönguferð nú og eftir að við vorum búin að finna matarmarkað og kaupa inn áræddi frú Lilja loksins að segja við mig "Guðjón þú gláptir svo mikið upp um allar trissur að þú gekkst ofan í betliskál hjá betlaranum sem var hér neðar í götunni og peningarnir hans fóru út um allt". Ég verð að segja að þetta þótti mér leitt og ákvað að þegar við kæmum niður brekkuna aftur ætlaði ég að lát hann sjá að ég iðraðist og gefa honum svolítið rausnarlega í baukinn. En fyrst varð að að finna þvottahúsið og tókst það með því að skima upp um alla veggi og inn í þrengstu götur. Ákváðum við að daginn eftir skyldi haldinn stórþvottadagur og var staðið við það. Það eina sem skyggði á ánægju eftir góðan dag var að þegar við gengum til baka var betlarinn farinn þannig að ég gat ekki bætt fyrir ónotin í sálinni eftir að hafa aukið betlaranum vesöld sína.

Miðjarðarhafið kom með annað vandamál sem taka þurfti á. Þegar lagst er við morringar við bryggjur sem eru fastar, ekki flotbryggjur, er nokkuð hátt frá dekki og upp á bryggjur. Því kom sú skoðun upp hjá okkur að gera eitthvað í málinu t.d. að fá okkur landgang eða stiga til að auðvelda ferilgang að bátnum. Fórum við því í göngu út að hinum tveim skemmtibátahöfnunum sem voru norður með bænum eins og talað var um í síðasta pistli til að athuga með svoleiðs græjur en komumst að því að landgangur eða stigi sem gengi væri svo dýr að við værum ekki tilbúin í það strax. Rétt er þó að geta að landgangur er nú kominn en það er önnur saga.

Næsti pistill verður líka um La Ciotat því þessi bær á það skilið að fjallað sé meira um hann.


151. La Calanque til La Ciotat

Vor 2008 049 Arnarhöfði við Calanque strönd, handan hans er La Ciotat 

Við komum Huldu systir í flug 1. maí og tókum svo flugvallarútuna í bæinn og fórum úr henni við aðaljárnbrautarstöðina. Síðan gengum við niður í miðbæinn eftir Boulevard d´ Athénes og skyldum ekkert í hverskonar læti voru orðin í bænum, götum lokað vegna kröfugangna, mótmælaspjöld út um allt, gjallarhorn og hávaði. Við mundum ekkert eftir 1. maí, enda aftengd veruleikanum því að í svona lífsstíl er aðallega lifað í núinu og ekki hlustað á fjölmiðla. Um leið og við mundum að nú var 1. maí skýrðist málið. Ekki blönduðum við okkur í hátíðarhöld dagsins en létum göngurnar framhjá okkur fara áður en við fengum okkur borð á útiveitingahúsi við Cours Honoré-d´Estieune-d´Orves, vinsælustu göngugötuna við gömlu höfnina þar sem við borðuðum hádegisverð. Gatan liggur í skeifu umhverfis mestan hluta gömlu hafnarinnar og er miðstöð ferðamannaþjónustu Marseille. Þarna leggjast allir skoðunarbátarnir að, þarna taka útsýnisrúturnar farþega sína, þarna er opinn fiskmarkaður á bakkanum og flest götuveitingahúsin.

Daginn eftir 2. maí ákváðum við hins vegar að nú skyldi haldið áfram.

Var ferðinni heitið til La Ciotat nokkura klst. sigling meðfram Calanques ströndinni sem er fræg fyrir sínar fögru víkur og firði sem skerast inn í kalksteinakletta strandlengjunnar. Við byrjuðum á að fara þvert yfir höfnina að eldsneytisbryggju sem þar er og fylla upp um 600 l. af olíu. Síðan var lagt í hann og stefnan tekin fyrir Croisette höfða sem er um 6 sjóm. suður af Marseille. Fórum við um sundið milli Frioul eyjanna og Auffes hverfisins í Marseille, með If eynna á stb., þar sem Greifin af Monte Cristo var fangi samkvæmt sögunni. Síðar í ferðinni áttum við eftir að heimsækja Elbu, þar sem greifinn var fenginn til að taka skilaboðin frá Napoleon, sem urðu til þess að hann var fangelsaður á If. Reyndar er búið að vera þarna fangelsi um aldir og eru klefarnir núna til sýnis þeim sem vilja. "Villimenn" glæpamenn og heiðingjar voru á öldum áður geymdir þarna þar til not var fyrir þá sem galeiðuþræla og Mirabeau var fangi á If vegna vanskila á skuldum sínum. Frægastur er þó söguhetja Alexandre Dumas (þess sama og skrifaði Camelífrúna, sem óperan La Traviata er grundvölluð á) greifinn af Monte Cristo, en hún er byggð á æfi raunverulegs fanga sem fyrst var í haldi á Ste-Marguerite eynni undan Cannes og svo fluttur á If.

Þegar  farið er fyrir Croisette höfðann er stefnan sett austur með Calanques ströndinni og er siglt með 10 eyjum sem eru á dreif til suðurs og suð-austurs frá höfðanum. Er farið utan við tvær þær fyrstu vegna grynninga milli lands og þeirrar innstu en síðan innan við hinar átta. Gullfalleg leið þar sem krökkt var af siglingafólki í blíðunni enda að koma helgi.

Þótt orðið Calanques sé notað almennt um svona vogskornar strendur þar sem undirlendi er lítið þá hefur þessi strönd öðlast nafnið sem sérheiti vegna þess hversu Calanques landslagið er ýkt á þessu svæði. Firðirnir og víkurnar eru einstaklega þröngar og strendur þeirra brattar svo undirlendi er svo til ekkert.

Við brunuðum austur með þessari fallegu strönd í sólskini og logni og stefndum á sundið milli Bec de L´Aigle (Arnarhöfða) og eyjarinnar Verte. Sundið á milli eyjarinnar og lands er ekki nema km. á breidd og í því miðju er grunn sem varast þarf, en það er vel merkt með cardinála svo ekki var það vandasamt. Þegar við komum fyrir höfðann blasti La Ciotat við á bakborða. Ciotat hafnirnar eru þrjár. Fyrst er það bæjarhöfnin sem er blanda af fiskibátahöfn og snekkjuhöfn og er hún í miðbænum. Tvær stórar snekkjuhafnir eru svo með norður hluta bæjarins og völdum við að reyna fyrir okkur fyrst í bæjarhöfninni til að vera í miðbænum.

Bæjarhöfnin er með 700 leguplássum fyrir skip allt að 80 m. löng og þegar sigl er inn um hafnarmynnið taka við slippar fyrir stórar og smáar snekkjur á vinstri hönd sem farið er framhjá þar til komið er inn í höfnina sjálfa sem liggur í skeifumyndaðri vík sem miðbærinn stendur umhverfis. Á vinstri hönd, þegar komið er inn í þennan innri hluta hafnarinnar er farið framhjá mýgrút af bátum sem liggja við flotbryggjur með "mooringum" sem eru þannig að legið er með skut eða stefni að bryggjunni en úr þeim enda bátsins sem snýr frá bryggjunni er strekkt lína út í akkeri sem er úti í höfninni og kallast "mooring". Ekki höfðum við hundsvit á hvernig átti að ná í þessar mooringar þannig að við renndum bara langsum að bryggju fyrir framan eina stórsnekkju sem lá við þá bryggju sem ætlast er hvort eð er til að maður leggist að til að tilkynna sig og vorum við búin að binda þar kl. 11:25, alltaf snemma á ferðinni. Þar sem plássið framan við stórsnekkjuna var lítið þurfti ég að troða stefninu hjá okkur undir landfestina að framan hjá henni og sá ég að skipstjórinn á henni var ekki allskostar ánægður og spurði hann mig hvort við ætluðum að liggja þarna lengi. Sagði ég honum að hann gæti verið alveg rólegur, við myndur færa strax og ég væri búinn að fá pláss.

Fyrir ofan bryggjuna þar sem við lágum var glæsilegur veitingastaður á efri hæð en skrifstofur hafnarinnar á þeirri neðri, ásamt böðum og snyrtingum. Fór ég nú á skrifstofuna og fengum við úthlutað plássi við sömu bryggju, aðeins innar og kom nú að því að færa og skipaði hafnarvörðurinn sem tók á móti okkur að ég skyldi bakka inn á milli tveggja báta, sem lágu við þessar mooringar, sem við kunnum ekkert á. Gekk eins og í sögu að bakka inn á milli bátanna og gaf frú Lilja enda upp til hafna og um leið og hann var búinn að setja fast tók hann í línu sem hékk niður með bryggjunni og rétti fram bugt á henni og sagði "take the moore". Flýtti ég mér nú að taka við línunni og kveikti strax á hvernig ætti að bera sig að, en það er að rekja sig eftir línunni með því að draga hana upp úr sjónum og fram með bátnum. Þegar þangað er komið er línan dregin áfram upp þar til þykkur kaðall kemur úr sjó og er hann svo strekktur eins og hægt er, en hann liggur í akkerið sem er neðansjávar úti í höfninni. Einfalt og sniðugt og áttum við eftir að gera þetta í svo til öllum höfnum eftir þetta.


150. Marseille, villt borg og fögur.

Vor 2008 037 LILJA BEN við bryggju í Marseille með St. Jean virkið í baksýn. Ef vel er gáð sést að við erum að taka vatn á vatnstankinn og fyrir aftan okkur er skúta sem er nýlent.

Marseille er fjörug, villt og falleg segir í leiðsögubókinni fyrir skemmtibátaskipstjóra, eftir Rod Heikell. Ég var búinn að koma í mýflugumynd í höfuðstöðvar "Almannavarna" í Marseille fyrir rúmlega 12 árum en fékk ekki tækifæri til að kynnast borginni þá því aðeins var staldrað við um dagpart. Frá barnaæsku hefur nafn borgarinnar virkað á mig spennandi og heillandi án þess að ég geri mér grein fyrir hvers vegna. Þó getur það verið vegna kafla sem ég las þegar ég var 10 ára um dvöl sjómans í borginni frá því um 1914. Var það ævintýraleg lýsing svo ekki sé meira sagt. Borgin er heillandi þótt umferðin á þröngum götum gamla borgarhlutans sé nánast "kaotisk" og sama má segja um gömlu Vieux höfnina þar sem við lágum, þar er svo mikil bátamergð að við máttum teljast heppin að hafa fengið pláss yfir höfuð og ekki síst á svona fínum stað.

Saga Marseille er skráð allt aftur til 600 fyrir krist þegar Grikkir gerðu röð af strandhéruðum við Miðjarðarhaf og á Corsiku að nýlendum sínum. Þá fór að myndast borgríki þarna sem fékk nafnið Massalia og varð fljótt auðugt vegna góðrar hafnaraðstöðu frá náttúrunnar hendi. En s.k. Liguarians ásæltust Massaliu mjög og voru stöðugt til vandræða sem endaði með því að Massaliabúar leituðu verndar hjá Rómverska keisaraveldinu og varð því sjálfstjórnarhérað innan þess frá 122 f.k. Allt gekk nú Massalíu í haginn þar til hún tók afstöðu með íbúum Pompey gegn Cesari keisara. Cesar vann átökin við Pompey og Massalíu og gekk þannig frá málum að Massalía var rúin öllum auði og efnahagslega hruninn. Hélst sú niðurlæging allar götur til 11. aldar þegar veldi borgarinnar fór að eflast aftur vegna viðskipta á sviði mann- og vöruflutninga í kringum krossferðirnar, milli Frakklands og Landsins Helga. Hagur Marseille óx nú hröðum skrefum allt til þess að íbúarnir snerust gegn frönsku byltingunni og gerðu gagnbyltingu. Hún var kæfð í hryllilegu blóðbaði, sem endaði með því að borgin var þurrkuð út úr samfélagi Frakka og kölluð "borgin nafnlausa".

Endurreisn borgarinnar hófst að nýju á 19. öld þegar hún komst í járnbrautarsamband við aðra hluta Frakklands og Suez skurðurinn var opnaður. Vöruflutningar og viðskipti uxu þá hröðum skrefum og fljótlega varð Vieux höfnin, þar sem við nú lágum, allt of lítil fyrir þessi miklu umsvif svo hafist var handa við byggingu stórskipahafnarinnar sem nú teygir sig norður með allri Marseille.

Í síðari heimsstyrjöldinni varð svæðið í kringum nýju höfnina mjög hart úti. Sprengjum rigndi yfir borgina á undan innrás Bandamanna og það sem þeir jöfnuðu ekki við jörðu sprengdu Nasistar í tætlur áður en þeir yfirgáfu hana. En Marseille reis fljótt úr rústunum og er nú næst stærsta hafnarborg Frakklands.

Íbúar Marseille eru þekktir fyrir að vera afslappaðir og grínagtugir ef það kemur þeim vel. Til marks um það er saga sem segir að 1650 bjó þar hertogi að nafni De Joyeuse, sem var mjög óvinsæll meðal borgarbúa. Tóku borgarbúar sig saman um að flæma hann frá borginni og lugu því að honum að svartidauði væri farinn að grassera í henni. Til þess að gera söguna trúverðuga komu íbúarnir sér saman um að allar líkfylgdir sem fram færu skyldu fara framhjá bústað hertogans og var hann fljótur að hypja sig á brott þegar hann sá "mannfallið" í borginni, sem var sviðsett.

Í hugum margra er Marseille aðsetur Frönsku Mafíunnar og þar er álitin miðstöð eiturlyfjasmygls og mansals um Miðjarðarhafsströndina, enda var myndin "The French Connection" látin gerast þar. Mafían í Frakklandi er enn til í Marseille þót mjög hafi dragið úr umsvifum og áhrifum. Almennir ferðamenn verða hins vegar ekkert varir við hana. Mjög hart hefur verið gengið fram í að hreinsa borgina af allskonar glæpastarfsemi þannig að hún er nú talin ein af öruggustu borgum Evrópu þótt ekki sé beint ráðlagt að flækjast um rauða hverfið að næturlagi.

Við nutum þess að heimsækja þessa fallegu og skemmtilegu borg. Það sem þó skyggði á er að nú var Hulda systir að kveðja því héðan var ferð hennar heitið heim. Hún eyddi þó nokkrum tíma með okkur í Marseille áður en við skiluðum henni í flugið heim og fórum við í skipulagðar og óskipulagðar skoðunarferðir um borgina auk þess sem við reyndum að nota okkur þær lystisemdir hennar sem við höfðum áhuga á.

Vor 2008 038 Frú Lilja Ben ræðst til landgöngu í Marseille.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband