Færsluflokkur: Lífstíll

Hásetinn og yfirstýrimaðurinn

hulli.jpg

Húllið við Reykjanes.

Farþegaskipið öslaði á sínum 16 hnúta hraða rétt Norðan við “Húllið” á leið sinni til Leith og svo áfram til Kaupmannahafnar, þegar hásetinn kom upp í brú til að mæta á 4 – 8 vaktina, ásmt félaga sínum. Fyrir í brúnni voru þeir tveir hásetar sem átti að leysa af, annar við stýrið, því enn var handstýrt, vegna tíðra stefnubreytinga, en hinn við kögun. Samtímis kom yfirstýrimaðurinn upp til að leysa 3. stýrimann af.

Hásetinn heilsaði og renndi augum sínum yfir stjórnpallinn og sá að skipstjórinn var kominn til að vera með stjórnina meðan siglt var í gegnum “Húllið”. Hásetinn horfði einnig yfir hafflötinn og upp á dökka Reykjanesklettana og fór síðan rakleiðis að stýrinu til að leysa manninn af sem þar hafði staðið síðasta klukkutímann. Eftir að hafa tekið við upplýsingum um stýrða stefnu, sýnileg skip og báta í nágrenninu tók hásetinn við stýrinu en félagi hans gekk að kögunarmanninum sem benti honum með nákvæmni á það sem markvert var að sjá umhverfis og framundan skipinu áður en hann fór og kvaddi. Stýrimennirnir ræddust við um stöðu siglingarinnar, sjóbúninginn sem lokið var fyrir stundu og annað þarflegt sem fylgir vaktaskiptum. Það voru öguð vinnubrögð á þessu skipi þótt þau væru blönduð þeim léttleika sem fylgir farþegaskipum þar sem hundruðir nýrra einstaklinga deila fari með áhöfninni í hverri ferð.

“Aðeins í bak” sagði skipstjórinn. Hásetinn endurtók skipunina og snéri stýrinu til bakborða þar til stýrisvísirinn var kominn vel innan rauða skalanns. Hann sá hvernig landið hætti að fæarast aftur með skipinu bakborðsmegin um leið og skipið fór að snúast og síðan kom rödd skipstjórans inn í myndina “þetta beint” . Hásetinn endurtók sem fyrr og leit á áttavitann til að meðtaka stefnuna um leið og hann sneri stýrinu yfir á stjórnborða til að taka snúningsskriðinn af skipinu og rétti það svo af á stefnunni. Reykjanestáin var á bakborða og nálgaðist hratt, það átti að fara grunnt af núna eins og svo oft áður á góðviðrisdögum, til að farþegarnir gætu sem best notið útsýnisins. Það mátti telja steinana í fjörunni þegar farið var fyrir nesið og skipið fékk lítilsháttar slagsíðu til bakborða þegar fjöldi farþega nýttu sér sjónarspilið fóru út í bakborðssíðuna til að horfa á. Þegar Reykjanesvitinn var kominn vel aftan við þvert kom skipunin 110° og hásetinn beygði ákveðið til bakborða og rétti síðan skipið af á hinni nýju stefnu. Yfirstýrimaðurinn setti  upp tölurnar 1-1-0 í stefnugluggann fyrir framann hásetann, til ekkert færi á milli mála með stefnuna, leit á umhverfið og sagði síðan “sjálfstýringu á”. Hásetinn kúplaði glussastýrinu frá, tengdi “rafmagnsstýrið, stillti skipið á stefnuna 110° og setti síðan handfangið á “auto” þegar skipið lá nákvæmlega rétt. Hann stóð drjúga stund áfram við sjálfstýringuna til að fullvissa sig um að hún svaraði hverri hreyfingu skipsins og rétti það jafnóðum af á stefnunni, en fór að því loknu að brúarglugganum.

Hásetarnir stóðu sitt hvoru meginn í brúnni og fylgdust með umhverfinu fram undan skipinu. Klukkan var vel gengin í fimm og sólin skáhallt afturundan þannig að útsýnið var eins gott og hugsast gat. Bakborðshallinn var farin af skipinu sem þýtti að farþegarnir voru aftur búnir að dreifa sér um ganga, klefa og sali skipsins, enda búið að opna barina og gleðskapur laugardagskvöldsins að fara í hönd. Einstaka fólk var að ráfa um fordekkið og fram í stafnið og hásetinn minntist með brosandi huga þeirra hrekkjabragða sem stundum voru viðhöfð á 12 – 4 vaktinni við farþega sem leituðu þangað til ástarleikja í rökkva sumarnætur, óvitandi um vökul augu mannanna sem fylgdust með úr brúnni. Þótt oft væri gaman á 12 – 4 vaktinni með 3. stýrimanni, sem var yngstur stýrimanna um borð og því frekar til í galskap, var hásetinn ánægður með að vera kominn á 4 – 8 vaktina og vera þannig laus við að þurfa stundum að sansa drukkna farþega á næturvaktinni, sem ollu ófriði fyrir aðra með uppivöðulsemi og hávaða.

Hásetinn sá að yfirstýrimaðurinn horfði óvenjumikið til hans með óræðu glotti en bæði skipstjórinn og 3. stýrimaður voru farnir af stjórnpalli þannig að þeir voru bara þrír eftir. Hásetinn fann á sér að eitthvað bjó undir. Skyndilega sagði stýrimaðurinn “farðu með hana Kristínu Doktors niður og sæktu mér kaffi”. Hásetanum létti við að orðunum var beint til félaga hans, en „Kristín Doktors“ var kaffikrús yfirstýrimannsins og fræg fyrir það að stranglega var bannað að þvo hana eða hreinsa á annan hátt. Hún var því orðin þykkbörkuð af langri þjónustu við húsbónda sinn undir kaffi, te, eða sem öskubakki. Hann horfði á eftir félaga sínum þar sem hann gekk að „Kristínu Doktors,“ en hún hékk á nagla bakborðsmegin í brúnni og snaraðist með hana út í gegnum kortaklefann, aftan við brúna. Hann vissi að félagi hans myndi vefja „Kristínu Doktors“ í servíettu, vasaklútinn sinn eða eitthvað það sem hendi væri næst, áður en hann færi með hana niður stigaganga I. farrýmis. Hásetarnir skömmuðust sín fyrir að láta farþegana sjá barkaða könnuna.

Þeir voru tveir eftir í brúnni hásetinn og yfirstýrimaðurinn. Það var  þögn nema daufur ómur barst frá taktföstum átökum vélarinnar og smellirnir í gíróáttavitanum heyrðurst greininlega eftir því sem skipið “svansaði” á stefnunni. Skyndilega kom það. Yfirstýrmaðurinn hallaði undir flatt með mesta móti um leið og hann hálf öskraði á hásetann “hvern djöfulan ertu búinn að gera helvítis ódámurinn þinn”?. Hásetinn hrökk í kút og eldsnöggt flugu í gegnum huga hans atburðir dagsins þegar hann reyndi að finna út hvað í ósköpunum hann hefði getað gert af sér.

gullfoss.jpg

Tekið á móti farþegum.

Hann hafði mætt á réttum tíma til skips um morguninn og unnið með hinum hásetunum þau hefðbundnu störf sem alltaf voru unnin til að undirbúa brottförina á hádegi. Kl. 1000 var honum skipað að fara í hreinan galla og taka sér stöðu við landganginn til að taka á móti farþegunum sem voru að byrja að streyma um borð. Kærasta hans hafði staðið á bryggjunni, komin sex mánuði á leið af fyrsta barni þeirra. Þegar merki var gefið um að taka landganginn og hann ætlaði að stökkva um borð hljóp hann fyrst að kaðlinum, sem hélt fjölda fólks frá, sem komið var til að kveðja ættingja og vini áður en lagt var úr höfn. Hann hafði tekið utanum kærustuna og kysst hana bless áður en hann hljóp upp landganginn, sem samstundis var hífður frá. “Gæti karl kvikindið ætla að skamma hann fyrir það”? Hann vissi að strangt til tekið var bannað að fara undir kaðalinn til að kveðja. Strax og búið var að leysa landfestar fór hásetinn í að skipta fánanum eins og skylda var og síðan í mat um leið og búið var að sleppa dráttarbátnum og skipið skreið út á milli hafnargarðanna. Eftir hádegismatinn tók við sjóbúning með hinum hásetunum fram að vaktinni sem nú var hafin.

Hásetinn starði á yfirstýrimanninn og fann hvergi hjá sér sök. En áframhaldið lét ekki á sér standa. “Þú ert búinn að barna stelpuna bölvaður asninn þinn”. “Var ég ekki búinn að margsegja þér, þegar þú tókst hana með í desember síðastliðnum, að þú mættir ekki barna hana fyrr en þú værir búinn með skólann”? “Hvernig í ósköpunum heldur þú að þú getir klárað skólann með konu og krakka á framfæri og átt ekki bót fyrir rassinn á þér”? Vá, það var þá þetta sem hékk á spýtunni, hin óhagganlega umhyggja yfirstýrimannsins fyrir framtíð og frama hásetans sem hann hafði ávallt borið fyrir brjósti. Auðvitað var þetta rétt hjá stýrimanninum, enda engin námslán komin þá. Hásetinn var búinn að ská sig í Stýrimannaskólann frá 1. september og var þetta næst síðasta ferðin áður en hann byrjaði námið. Hásetinn játaði stamandi fyrir yfirstýrimanninum að þetta yrði þungur róður en góðir að í fjölskyldu hans og hennar myndu veita þann stuðning sem þyrfti til að ná settu marki. Í kjölfarið reyndi hann svo af veikum mætti að verjast með þessum venjubundnu afsökunum, “þetta hefði bara gerst, átti ekki að gerast, gættum ekki að okkur” og fleira í þeim dúr. Hann sá um leið brosið í augum stýrimannsins sem merkti að það hlakkaði í honum við að hafa komið hásetanum í opna skjöldu og sett hann úr jafnvægi. Hann heyrði líka að alvaran í orðum yfirstýrimannsins leyndi sér þó ekki. og að hann var hræddur um að hásetinn myndi heykjast á náminu með ómegðina í pokanum. Talið féll þó jafn skjótt niður því í því kom félaginn aftur upp í brú með “Kristínu Doktors” fleytifulla af kaffi fyrir stýrimannin sem tók við henni og dreypti á.

Hásetinn minntist ferðarinnar frá því í desember árið áður, sem yfirstýrimaðurinn hafði talaði um. Hann hafði verið búinn að hvetja hásetann í mörg ár til að fara í stýrimannaskólann og sagst myndi styðja hann til þess með ráðum og dáð sem hann stóð fyllilega við. Hásetinn hafði boðið kærustunni með í þessa síðustu ferð fyrir jól, sem var farin til Akureyrar með jólaávextina og annan jólavarning eins og hefð var fyrir. Hann var þá einnig á 4 – 8 vaktinni með yfirstýrimanninum. Á kvöldvaktinni kom kærastan upp í brú til að halda þeim félagsskap og fylgjast með störfum í brúnni. Hásetinn kynnti hana fyrir yfirstýrimanninum sem tók henni af sinni alkunnu alúð og manngæsku og tíminn á vaktinni leið fljótt við leiftrandi fróðleik yfirstýrimannsins um þjóðtrú, drauga og aðrar forynjur á Vestfjörðum, þar sem skipið var á siglingu undan fjörðunum í skammdegismyrkrinu. Skyndilega og án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, eins og yfirstýrimannsins var oftast vani, bunar hann út úr sér og hallar undir flatt. “Hvað er hún þung vænan þín” segir hann og beinir orðum sínum til hásetans. Bæði hásetanum og kærustu hans bregður nokkuð við þetta óvænta inngrip og hún svarar að fyrra bragði og segist ekki muna það. “Skjóstu inn í herbergið mitt” segir hann þá við hásetann “og sæktu þangað málbandið mitt”. Þegar hásetinn kemur til baka segir stýrimaðurinn við kærustuna. “Stilltu þér upp hérna við dyrastafinn að kortaklefanum og stattu teinrétt”  Við hásetann segir hann “farðu inn í kortaklefann og taktu blað og blýant og skrifaðu niður”. Síðan kallar yfirstýrimaðurinn; “hæð þetta, brjóstamál þetta, mittismál þetta, mjaðmamál þetta og legðu nú allt saman og deildu með fjórum, þá færðu út þyngdina”. Á dyrastaf kortaklefans hafði yfirstýrimaðurinn kjörnað hæð kærustunnar með vasahníf sínum.

1_gir_ii_a_siglingu_1240383.jpg

Varðskipið Ægir.

Það er um kvöld á bænadögum aðvífandi páskahelgar, tólf árum síðar, þegar nýjasta varðskip Íslendinga, Ægir, siglir inn í höfnina á Ísafirði. Yfirstýrimaður varðskipsins er á stjórnpalli ásamt skipstjóra þegar varðskipið sígur að bakborðssíðu Gullfoss þar sem hann liggur bundinn við bryggju, en hann hafði verið fenginn til að flytja skíðafólk til Ísafjarðar. Fyrra hlutverki Gullfoss er lokið því fólk er að mestu hætt að ferðast milli landa og byrjað að fljúga. Það er eins og depurð ríki yfir þessu fyrrum flaggskipi Íslansku þjóðarinnar þar sem það liggur upplýst en líflaust við bryggju Ísafjarðarbæjar. Þegar búið er að binda varðskipið utan á Gullfoss ákveður yfirstýrimaðurinn að fara um borð og skoða sig um í þessu skipi sem hann hafði starfað á í næstum sjö ár fyrst sem messagutti, síðar sem viðvaningur og svo háseti. Yfirstýrimanni varðskipsins verður reikað um farþegaskipið.

ofnaemi_006_1240384.jpg

Gestir við skipstjóraborðið á Gullfossi.

Hann gengur fram hjá borðsal I farrýmis og sér á anda veisluklætt fólkið sitja við háborð skipstjórans fremst í salnum og langborðin tvö, borð yfirvélstjórans og yfirstýrimannsins. Í minningunni er hvert sæti skipað og veislustemming yfir samkomunni. Áfram gengur hann upp víðáttumikið anddyri skipsins upp að barnum þar sem oft mátti sjá helstu fyrirmenni þjóðarinnan, skáld og aðra listamenn sitja og fá sér einn léttann fyrir kvöldverðinn. Í reyksalnum, sem var þar framundan, sátu svo þeir sömu farþegar fram eftir kvöldi og drukku sitt koniak eða líkjör með kvöldkaffinu áður en að longdrink kom. Ósjálfrátt er stefnan tekin á brúnna sem er opin. Enginn er á ferli. Þegar yfirstýrimaður varðskipsins kemur þar inn verða minningarnar ljóslifandi frá þeim tíma þegar hann stóð á þessum stjórnpalli, sem ungur háseti. Yfirstýrimaðurinn stóð góða stund við brúarglugga farþegaskipsins, gekk um og snerti hin ýmsu tæki brúarinnar. Þegar hann snérist hann á hæli til að ganga út stöðvaðist hann skyndilega. Á vinstra dyrastaf kortakelfans mátti enn sjá djúpt hnífsmarkið sem táknaði hæð eiginkonu hans og honum varð hugsað heim. Hann gekk niður landgang farþegaskipsins og rakleiðis upp á símstöð bæjarins. Þar hringdi hann til eiginkonunnar til að heyra í henni og börnum þeirra. Eldra barnið, telpa hafði margt spennandi að segja föður sínum en hana hafði konan borið undir belti þegar hann kvaddi hana á bryggjunni við Gullfoss tólf árum áður. Að auki var yngra barn komið í fjölskylduna, drengurinn sem líka þurfti að láta ljós sitt skína, en hann hafði fæðst þegar stýrimaðurinn var í sinni fyrstu togaratöku á varskipi.

 

Guðjón Petersen


DAGUR Í AUSTRI

GullfossMinning sem er að verða 56 ára gömul gefur heimild til örlítils skáldaleyfis þótt hún sé að öðru leiti sannleikanum samkvæmt.

Þetta var einn fallegasti vormorgun sem minningarnar geyma svo lengi sem æfin endist. Spegilsléttur sjór, umgirtur fjallahring Faxaflóans sem blasti við fagurblár í morgunsólinni, þó með hvítum bryddingum á Jöklinum og í giljum hæstu flallatoppa. Það var kyrrð yfir skipinu, eins og þessum fallega morgni, þótt það væri fullt af farþegum, flestir enn í fasta svefni. Ég var á handstýrinu á MS Gullfossi, flaggskipi íslensku þjóðarinnar, á fjögur/átta vaktinni, enda tíðar stefnubreytingar, þegar við „rúnnuðum“ Garðskagann af í tveggja sjómína fjarlægð, þar til komið var á stefnu á sjöbaujuna í Faxaflóa, en hún er lokaviðmiðun fyrir innsiglinguna til Reykjavíkur. Þá hafði ég ekki grun um að átta árum síðar ætti ég eftir að fara um borð í strandaðan bát, Reyni BA 44 á Garðskagaflösinni, til að koma taug í hann og bjarga honum úr strandinu, sem tókst. Þá var ég orðinn annar stýrimaður á varðskipinu Óðni.

Núna sýndi snúnigsmælirinn fyrir skipsskrúfuna í brúni á Gullfossi ekki nema 120 RPM, því við vorum á aðeins hálfri ferð, enda óþarflega snemma á ferðinni, þennan fimmtudagsmorgun í júní árið 1958. Leiðið hafði verið frábært þessa vordaga á ferðinni frá Leith og nú var þessum túr að ljúka í Reykjavík. Við áttum að vera á ytri höfninni í Reykjavík kl. 07:30. Það stóð á endum að þegar við vorum komin á rétta stefnu á sjöbaujuna sagði yfirstýrimaðurinn, mér að stilla á sjálfstýringu, sem og ég gerði.

SkipstjóraborðiðYfirstýrimaðurinn, Birgir Thorodsen, var einn vinsælasti maðurinn um borð, enda ljón vel gefinn og víðlesinn og stundum nefndur „lexi“ manna á meðal. Þá var verið að vitna í „leksikona,“ sem voru vinsælar alfræðiorðabækur fyrir tíma internetsins og „Google,“ því hægt væri að fletta upp í Bigga Thor, ef vitneskju vantaði, eins og hann var kallaður, þegar hann heyrði ekki til. Sú saga gekk líka manna á milli að farþegar sem allajafna voru merkilegir með sig pöntuðu frekar að sitja við borð yfirstýrimannsins, á fyrsta farrými, þvi þar væru svo skemmtilegar umræður. Sátu skipstjóri, yfirstýrimaður og yfirvélstjóri, hver í sínu öndvegi, hver við sitt langborð í matsal fyrsta farrýmis og þótti það mesti heiðurinn að sitja við skipstjóraborðið. Birgir var gjarn á að halla undir flatt þegar hann talaði og því meira sem honum var meira niðrifyrir. Nú horfði hann til mín og hallaði undir flatt með meira móti. Ég fann á mér nú var mikils von, enda var stutt í næstu fyrirmæli hjá yfirstýrimanninum.

Yfirstýrimaðurinn á Gullfossi var með herbergi aftast stjórnborðsmegin á A-dekki sem var sama dekk og brúin var á. Nú var hann með eiginkonuna með, en hún var í fstasvefni aftur í herberginu. Allt í einu sagði hann við mig og hallaði mikið undir flatt. „Farðu aftur í herbergið mitt og vektu hana Hrefnu.“ Að venju endurtók ég fyrirskipunina orðrétt og lagði af stað til að framfylgja skipuninni eins og venja var. En þá heyrðist yfirstýrimaðurinn kalla „bíddu, bíddu, bíddu. Þú átt að banka á dyrnar og snrast síðan inn, taka þér stöðu við rúmgaflinn og segja „dagur í austri, ári minn kári er kominn í ró, rósin mín fríða og dilli dó.“ Þetta var tiltölulega auðvelt að læra utanað og svara honum orðrétt svoleiðis að þegar það var búið ætlaði ég að snarast í gegnum kortaklefann aftur í herbergi yfirstýrimannsin þegar hann sagði skyndilega; „Guðjón bíddu, bíddu, bíddu, þú mátt ekki vera skemu en þrjár mínútur í ferðinni því þá veit ég að þú hefur farið með„ rulluna,“ en þú mátt ekki vera lengur en fimm mínútur í ferðinni því þá grunar mig að þú sért byrjaður að gera annað.“

Eins og ævinlega endurtók ég fyrirmælin orð fyrir orð „ ekki skemur en þrjár mínútur, þá hef ég farið með „rulluna“ og ekki lengur en fimm mínútur, því þá er ég farinn að gera eitthvað annað,“ auk þess sem ég skaut að honum um leið og ég snaraðist út úr brúni „ætli hún Hrefna gefi þér ekki nákvæma skákvæma skýrslu um hvernig ég hafi staðið mig með „rulluna“ þegar hún kemur á fætur.“

Enginn má taka þessa endursögn mína, af skemmtilegu mannlífi um borð í Gullfossi, að með því kasti ég rýrð á þau heiðurshjón sem hér eru nafngreind, því annað eins heiðursfólk hef ég sjaldan hitt fyrir á lífsleiðinni.

 

Guðjón Petersen fryrrv. háseti á Gullfossi 1955 ti 1961.


Slit viðræðna.

Ég vil meina að ákvörðunin um að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka, í upphafi umræðu um skýrslu HÍ, hafi verið afleit stjórnviska, eða frábær stjórnviska, eftir því hver tilgangur hennar var.

1.    Framlagning þingsályktunartillögunnar á þessum tímapunkti, var afleit stjórnviska ef tilgangur hennar var að slíta viðræðunum, vegna þess hversu málið var augljóslega til þess fallið að brigsla um kosningasvik, skapa farveg til  mótmæla og gangnrýna um asa, áður en umbeðin skýrsla HÍ hafi fengið þinglega meðferð.

2.    Framlagning þingsályktunartillögunnar, á þessum tímapunkti, var hins vegar frábær stjórnviska, ef tilgangur þess var að skapa úlfuð á þingi og langvarandi málþóf, og tefja þannig málefni vegna skuldleiðréttingar, afnám verðtrygginga, ný nátturuverdarlög og endurskoðun laga um veiðigjöld, sem ég hef grun um að muni innihalda meiri "hasarmál" en nokkru sinni þessi. Með tímahraki má fresta umræðum  um þessi mál fram yfir sveitarstjórnarkosningar og jafnvel kenna stjórnarandstöðunni um það „tímahrak.“


mbl.is Tillaga utanríkisráðherra tekin fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðufréttin

Pistillinn um furðufréttina hér að neðan átti að fylgja þessari frétt á mbl.is. En einhver mistök urðu í tengingunni.
mbl.is Ungt fólk vill búa miðsvæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðufrétt.

Þegar haft er í huga að austurborgin er margfalt veðursælli en vestur- og miðborgin, sem er mesta rokbæli Reykjavíkur. Ég hlustaði fyrir mörgum árum á garðyrkjustjóra Reykjavíkur benda á að gróðursælasta svæði Reykjavíkur væri Gerðin og Breiðholtið.

Fuglarnir

FuglagerÉg hef alltaf haft gaman af fuglum. Því tek ég alltaf eftir þeim, breytingum í fuglalífi og dáist af hegðun þeirra.

Þegar ég bjó í Bryggjuhverfinu, sem stundum er kennt við Grafarvog, þótt það hafi allt annað póstnúmer, fékk ég mér göngutúr umhverfis Grafarvoginn svo til daglega. Sunnan verðu í vognum eru grjóthleðslur sem Marierlur gerðu sér hreiður í og ólu upp unga sína. En eitt vorið voru þær horfnar og hafa ekki komið aftur. Það vakti furðu mína þangað til það rann upp fyrir mér ljós. Á vorin ganga hundruðir katta laus í Grafarvogshverfum og sjá má tugi af þeim í veiðihug umhverfis Grafarvoginn, þegar vorar og ungar eru að komast á legg. Enda eru ungar í uppeldi á Grafarvogi, liðin tíð. Eitthvað er um að kenna máfum, en ekki síst kattafárinu. Fólk heldur í barnaskap sínum að málið sé leyst með því að hengja bjöllu um hálsinn á "veiðidýrinu," sem er mesti misskilningur, ófleygir ungar geta enga björg sér veitt, þó þeir heyri bjölluhljóm, hins vegar er líklegast að það verði það síðasta sem þeir heyri á stuttri æfi. Fuglarnir eru horfnir en kettir teknir við.

GæsirÞar sem ég bý er fuglum gefið að éta þegar jarðbönn eru á veturna. Þegar við förum í hádegismat í Mörkinni, þjónustuíbúðunum, má sjá mikinn fjölda af fuglum að gæða sér á korni, smjöri eða eplum, svo etthvað sé tiltekið. Á Nýársdag mætti enginn fugl í veisluborðið, þeir voru allir farnir. Við þurftum líka að fara upp í Grafarholtá Nýársdag og við sáum engan fugl á leið okkar, sem oftast er krökkt af ef litið er eftir. En fuglarnir eru að koma aftur, allavega mættu þeir í "hádegisverð" í dag, gæsirnar og þrestirnir. Æti settum við svo út fyrir hrafninn á opna svæðið við Suðurlandsbraut, austan Markarinnar.

hrafn.jpgÉg vil meina að skothríðin á gamlárskvöld fæli fuglana frá borginni.


Sporin geta hrætt.

Það var einusinni sem varðskipið Óðinn lá í höfn á Ísafirði að einn af yngri hásetunum fór á kvennafar og svaf hjá stelpu uppi í bænum. Þegar hann var að fara aftur um borð um nóttina þá lá eitt reiðhjól vel við gripdeild á leið hans, svo hann tók það traustataki og hjólaði á því um borð.

Þegar þangað var komið sá hann að hann hafði skilið eftir sig með hjólinu greinileg för í nýfallinn snjóinn svo auðvelt var að rekja förin til varðskipsins. Það gekk ekki og því tók hann það ráð, að fá sér strákúst og hjóla með hann, eftir förunum, alla leið til baka þar sem hann tók hjólið. Síðan gekk hann aftuábak alla leið um um borð og sópaði förunum í burtu með strákústinum. Ekki fylgir sögunni hvað þeir héldu, sem sáu sópförin í snjónum frá hjólinu, sem var komið á sinn stað, alla leið að skipshlið Óðins.


mbl.is Röktu sporin í snjónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svart?

Fólkið hefur varla fengið löglegar kvittanir fyrir greiðslu á húsaleigunni.
mbl.is Féfletti fólk um margra mánaða skeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggur valdið?

Þessi veruleiki hlýtur að vekja upp spurningu um valdsvið þeirra stjórnmálamanna sem við kjósum til að fara með löggjafarvaldið hverju sinni. Á núverandi lögum eru þessar afskriftir víst ekki mögulegar. Ég er hræddur um að kjörnir fulltrúar okkar muni ekki þora í átök við fjármálageirann og að hann, þ.e. fjármálageirinn muni stjórna þessu málum eins og hingað til. Hversu virkt er lýðræðið í raun þegar ókjörgeng öfl hafa í raun völdin?

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að fjármálageirinn mun beita öllum meðulum til að hámarka endurheimtur, jafnvel eru hugsanlegar efnahagslegar hefndaraðgerðir.

 


mbl.is Afskriftir ekki í þágu þrotabúanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningar

Þetta eru fréttir sem höggva nærri minningum mínum. Þegar ég var í Bandaríkjunum 1978, að kynna mér Almannavarnir þar og önnur innri öryggismál, fékk ég skrifstofu í Pentagonbyggingunni. Þótti mér mikið til koma að vera í þeirri byggingu því hún var í raun borg í borginni Washington DC.

En í raun hef ég enga trú á byggingunni verði lokað.


mbl.is Pentagon undirbýr hugsanlega lokun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband