19.2.2008 | 21:41
Azores (Asoreyjar)
Kvöldmynd frá Ponta Delgata á Sao Miguel eynni.
Þar sem nú er ekki meira að skrifa í bili um siglingu á LILJU BEN, ætla ég að segja ykkur lesendur góðir frá ýmsu úr fjölbreyttum minningasjóði.
Ég kom fyrst til Azoreyja fyrir 33 árum, árið 1975, þá á vegum jarðvísindadeildar UNESCO, til að fjalla um eldgos og varnir gegn þeim. Varð sú ferð upphaf að fekara starfi þar um nokkurt árabil fyrir, yfirvöld þar, Háskólann á Azoreyjum og Háskólann í Cambridge. Vegna þessara starfa átti ég kost á að heimsækja eyjarnar átta sinnum með mismunandi löngum dvölum.
Azoreyjar eru um 760 sjóm. (1.400 km.) vestur af Portugal og heyra undir það með þó nokkra sjálfstjórn. Eyjarnar eru níu og er samanlagt flatarmál þeirra um 2.334 km2, en Ísland er eins og við vitum um 130.000 km2. Hins vegar er heildaríbúatala Azoreyja sú sama og á Íslandi og samt virka þær strjálbýlar. Sao Miguel er stæsta eyjan, 759 km2. og er jafnframt austast. Hún er 65 km. löng og 12 km. breið þar sem hún er breiðust. Hún er því jafn stór og svipuð að lögun og t.d. Snæfellsnes, en á eynni búa um 120.000 manns í þrem stórum bæjum með 20 - 50 þús. íbúa hver. Að auki er svo fjöldi smáþorpa á eynni að svipaðri stærð og dæmigerð fiskiþorp á Íslandi. Því nefni ég Sao Miguel sérstaklega, að þar hef ég dvalist mest þótt ég hafi komið á allar eyjarnar.
Eyjarnar eru fallegar og byggðar upp af miklum eldfjöllum, eða háreistum eldstöðvum og því víðast sæbrattar. Eldgos eru þarna sjaldnar en á Íslandi, en oftast öflug og mjög hættuleg mönnum og skepnum. Er landslagið mótað af hrikalegum ösku- og vikurskriðum (Pyroclastic flow) frá stórgosum fortíðar. Eyjarnar eru mjög grænar og víða skógi vaxnar upp á efstu fjallatoppa, nema þar sem land hefur verið rutt til nytja, aðallega beitar. Þarna grær flest sem gróið getur, þó ekki Íslenska birkið vegna of "hagstæðra" skilyrða. Það var prófað af Bandarískum kennara og ræðismanni á Asoreyjum, Thomas Hickling (1745 - 1834), sem bjó í Furnas eldstöðinni frá 1795 og stofnaði þar skrúðgarðinn Terra Nostra, með plöntum sem hann safnaði hvaðanæva úr heiminum. Terra Nostra garðurinn er í botni eldstöðvarinnar Furnas, og er samnefnt hótel við garðinn, en ég mun geta meir um Furnas í framhaldspistlum mínum um þessar eyjar. Veðrið er á Asoreyjum er mjög óstöðugt eins og á Íslandi, enda úthafseyjar. Þetta er úrkomu- og vindarassgat en meðalhiti vetrar er um 16° C en sumars um 21° C.
Fólkið sem er Portugalskt að uppruna myndi teljast fátækt en þó er velmegun þokkaleg í stæstu bæjunum. En það sem mestu skiptir er að þetta er vingjarnlegt fólk og elskulegt í viðmóti þótt það sé feimið og hefur mér óvíða liðið betur í ókunnum löndum.
Vegakerfið er þokkalegt á okkar mælikvarða, allar leiðir malbikaðar en malarvegir aðeins á afskekktustu fjallaslóðum. Hins vegar eru götur almennt steinlagðar þegar komið er inn í bæina og mjög þröngar með mjóum gangstéttum, ef gangstéttir eru yfir höfuð. Því þarf mikla aðgát, bæði akandi og gangandi. Samgöngur á milli eyjanna eru svo til eingöngu með flugi og flugsamgöngur, bæði til Evrópu og til Ameríku, eru tíðar og góðar.
Það var miðvikudaginn 5. nóvember 1997 sem ég fékk boð frá stjórnvöldum á Azoreyjum með fyrirspurn um hvort ég gæti komið sem allra fyrst til Sao Miguel til að yfirfara störf þeirra í nýliðnum náttúruhamförum sem urðu vegna gífulegra rigninga, óveðurs og skriðufalla, sem deytt höfðu 30 manns og eyðilagt mikið af mannvirkjum og vegakerfi eyjarinnar. Ég hafði frá 1990 unnið að því að gera viðbúnaðar- og neyðaráætlun "Itegratet Disaster Management Plan" fyrir Sao Miguel og skilað af mér árið 1995. Þeir studdust við þessa áætlun þegar ósköpin dundu yfir. Vildu þeir nú að ég færi yfir hvernig þeim tókst að vinna úr málum og gæfi frekari ráð um framtíðarskipulag þessara mála. Einnig óskuðu þeir eftir áliti um landnýtingaráætlanir á hamfarasvæðinu, vegna byggingar á nýrri fiskihöfn þar sem mesta tjónið varð. Með mér voru kallaðir til tveir jarðvísindamenn þeir Eysteinn Tryggvason jarðfræðingur og John Guest, breskur jarðvísindamaður, sem er vel þekktur á Íslandi vegna rannsókna sinna hér, en allir þekktumst við vel frá fyrri störfum á Azoreyjum og víðar.
Næst ferðina til Azores og afleiðingar hamfaranna.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2008 | 22:36
Frúin hélt sér í staurinn
Alls ekki að vera á ferðinni að nauðsynjalausu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2008 | 22:22
133. Vetrarlega notuð til viðhalds
Þeir í geymsluhöfninni í Saint Jean De Losne ákváðu að taka MY LILJU BEN upp til að gera hana örugglega frostfría. Ástæðan er að þarna er ferskt vatn sem drifin liggja í þannig að kælivatnið í þeim getur frosið, en höfnina leggur á vetrum, nú síðast í desember með 5 cm. þykkum ís. Stendur LB því á búkkum uppi á túni hjá höfninni.
Best er að nota vetrarlegurnar til að sinna ýmsu eftirliti og fyrirbyggjandi viðhaldi. Bað ég því verkstæðið í H2O að gera við rispur sem við fengum á bakb. hliðina í einni slússunni, yfirfara lensidælur, en dælan í vélarúminu var hálf losaraleg. Einnig bað ég þá að athuga olíu á gírum vélanna og drifum, og bæta á ef vantar. Þá er meiningin að loka einu sjóinntaki sem er í botninum og er hugsað fyrir spúlun, en við notum það ekkert. Auk þess ætlum við að skipta um dekkefni (gólfefni) inni í bátnum, en nú eru teppi á þeim. Ætlum við að fá þá til að leggja plastparket á gólfin, sem bjóða má meira hnjask en venjulegu parketi. Að lokum ætlum við svo að setja nýjar festingar fyrir björgunarbátinn á efra sólpalli (aftan við "Fly Bridge").
Þeir sendu mér myndir af skrúfunum þegar báturinn var kominn upp sem sýna að eitt blað á einni skrúfunni er bogið (þær eru fjórar, tvær á hvoru drifi og snúast í sitt hvora áttina) svo að skipta þarf um hana ef ekki verður hægt að rétta hana að skaðlausu, en við eigum um borð fjórar varaskrúfur.
Við erum búin að gera áætlun fyrir vorsiglinguna 2008. Samkvæmt henni erum við bókuð út til Parísar 16. apríl n.k. og ráðgerum að leggja af stað frá Saint Jean De Losne hinn 19. apríl. Áætlunin gerir ráð fyrir að ná ósum Rhon, vestan við Marseilles, 26. apríl og halda svo áfram austur með Frönsku og Ítölsku Riverunni með viðkomu í Marseille, Saint Tropez, Monaco og Genova. Þaðan er svo áætlunin að sigla suður með Ítalíu til La Spezia, Livorno, Elbu (þar sem Napoleon dó úr botlangabólgu?), Civiarécchia, Róm, Terracina, Napólí og Salerno þar sem við áætlum að vera 23. maí. Lengra nær áætlunin ekki í bili og verður skoðað betur hvar lagt verður yfir há-sumarið, þegar það fer að nálgast. Þrátt fyrir svona áætlanir fram í tímann eru þær gerðar með fyrirvörum um að allt gangi eðilega fyrir sig og með það megin sjónarmið að við erum ekki í áætlunarsiglingum. Þess vegna getum við sjálf fundið hvöt hjá okkur að breyta, t.d. að stoppa lengur, eða skemur, á einhverjum stöðum, eða taka útúrdúra allt eftir áhuga hverju sinni. Sardina og/eða Corsica gætu skyndilega orðið spennandi og þá dottið í okkur að heimsækja þær sem dæmi.
Búið er að panta siglingu með okkur frá Saint Jean De Losne til Genova og vinahjón eru að velta fyrir sér siglingu frá Genova og eitthvað suður með Ítalíu ströndum. Þar sem við höfum gaman af góðum gestum eru vinir og vandamenn alltaf velkomnir um borð ef áhugi er fyrir hendi og pláss leyfir.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2008 | 22:58
132. Uppgjör ássiglingarinnar 2007
Árssiglingin 2007 var tekin í tveim áföngum í apríl og maí, og í ágúst og september. Heimsóttar voru 30 borgir og bæir.
Í Belgíu Brussel og Antwerpen.
Í Hollandi Willemstad, Gorinchem og Thiel.
Í Þýskalandi Emmerrich, Duisburg, Dusseldorf, Köln, Bad Honef, Koblenz, Brodenbach, Senheim, Trarbach, Neumagen og Trier (Konz).
Í Luxemburg Schwebsange.
Í Frakklandi Thionville, Metz, Pompey, Toul, Richardmenil, Charmes, Epinal, Forges D´Uzerman, Fonteau Le Chateau, Corres, Scey, Gray, Pont Allier og Saint Jean De Losne, þar sem árssiglingunni var hætt.
Vatnaleiðirnar sem við sigldum voru Brussel Schelde Canall, Willembroek Canall, Rupel fljót, Boven Zeechelde, Antwerpen höfn, Schelde Rínverbinding, Zuid Vlije vatn, Volkerek vatn, Hollandcshe Diep, Nieuwe Merwede, Bowen Merwede, Waal fljót, Bovernrín, Rín, Mosel, Canal Des Vosges og Saône fljót.
Vegalengdin sem við sigldum á árinu var 1200.4 km. eða 684 sjóm.
Siglingatíminn var 151 klst. og 30 mín. eða 6 sólahringar og 8 klst.
Slússur (skipastigaþrep) sem farið var í gegnum voru samtals 232.
Jarðgöng sem siglt var í gegnum voru tvö.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2008 | 21:56
131. Lyon og áfram heim.
Leigubíllinn var mættur á bryggjunni stundvíslega kl. 08:00 til að keyra okkur í veg fyrir lestina í Dijon. Við vöknuðum kl. 06:00 og borðuðum morgunverð, gengum frá síðustu hlutum í tösku, lokuðum fyrir gas og rafmagn, og læstum bátnum. Ferðin heim var hafin. Um klukkustund síðar vorum við komin á járnbrautarstöðina í Dijon þar sem lestin var tekin til Lyon og vorum við komin þangað fyrir hádegi. Það voru óneitanlega viðbrigði að koma til Lyon þennan fallega sólskinsdag. Mannmergðin og stórborgarbragurinn í þessari þriðju stærstu borg Frakklands, með 1.8 milljón íbúa olli smá "culturesjokki" hjá okkur eftir alla sveitamenskuna síðustu vikur. Við tókum okkur leigubíl á glæsihótelið sem við vorum bókuð á í miðborginni, á bakka Rhon fljótsins sem liðast um borgina, beint framan við herbergisgluggann okkar. Eftir að hafa komið okkur fyrir fórum við í göngu um miðborgina, snæddum léttann hádegisverð og ákváðum að komast betur yfir hana daginn eftir með því að taka okkur Sight Seeing Tour. Deginum eyddum við hins vegar á strætum miðborgarinnar og við góðan kvöldverð í notalegu umhverfi við aðal veitingahúsagötu Lyon.
Strax morguninn eftir fórum við svo í skoðunarferðina um borgina og var hún hreint frábær. Lyon er ein af fallegustu og mest sjarmerandi borgum sem við höfum heimsótt og höfum við heimsótt þær margar í nokkrum heimsálfum og mörgum löndum. Hún teygir sig um hæðir og ása, fljótin Rhon og Saône renna sitt hvoru megin við miðkjarnann og minnir landfræðilega á Mannhattann þótt skýjakljúfana vanti enda myndu þeir ekki passa við sjarma borgarinnar. Renna fljótin saman í eitt sunnan við miðborgina.
Borgin er full af stórkostlegum byggingum, sögu Rómartímans, listsköpun og iðandi mannlífi hvar sem komið er. Er það meirháttar tilhlökkun að eiga eftir að sigla þar í gegn í vorsiglingunni sem framundan er og verður örugglega stoppað þar í einhvern tíma og reynt að njóta lystisemda og fegurðar hennar betur. Við vorum dösuð eftir langan dag þegar við gengum til náða þetta kvöld, og ekki veitti af hvíld fyrir daginn framundan, því upp þurftum við að fara kl. 05:00 til að ná vélinni til Kaupmannahafnar og áfram heim.
Til Keflavíkur komum við svo um eftirmiðdaginn daginn eftir, eftir þægilegt flug með SAS og Iceland Express.
Þótt hér ljúki ferðapistlum siglinganna 2007 mun ég halda áfram að blogga ýmsa pistla sem tengjast einstökum atriðum þessa lífsstíls eldri borgara, sem með svona ævintýrum ganga aftur í barndóm.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2008 | 13:13
Svik og undirferli sjálfsagður hlutur?
Ég horfi á mynd af nýja borgarstjórnarmeirihluta Ólafs F. Magnússonar, þar sem hann er að svíkja þann meirihluta sem hann hreykti sér af því að mynda fyrir 103 dögum. Í bakgrunn sjást borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins með klígjusvip, þeir sömu og sviku Vilhjálm Þ. í upphafi hausts. Við hlið Ólafs stendur Vilhjálmur Þ. sem svíkur Sjálfstæðismenn í borginni með því að leggjast í duftið fyrir hraðsoðnum loforðalista Ólafs F. Ég horfði á mynd af Birni Inga Hrafnssyni sem sveik Vilhjálm Þ. í "fjarstjórn" frá Kína. Á sunnudag horfði ég á Guðjón Ólaf Jónsson svíkja Björn Inga og fleiri Framsóknarmenn í beinni útsendingu í Silfri Egils. Í gærkvöld sá ég sóknarprest í Flóanum sem kaþólski presturinn í Reykjavík sveik með því að trúa honum ekki fyrir því að Bobby Ficher óskaði eftir að vera jaðsettur þar. Eru svik og undirferli virkilega orðin svona sjálfsögð.
Ósammála um nýtt samstarf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2008 | 12:57
Gegn einstefnu í Ítalíu,
Fyrir mörgum árum var ég fenginn til að halda erindi í Napólí um viðbrögð og varnir gegn eldgosum í Vesuvius. Fyrirlesturinn var kl. 14:00 í ráðstefnusal inni í borginni en ég lenti á Napólíflugvelli um hádegið. Þegar ég náði í leigubíl og sagði bílstjóranum hvert ætti að aka og hvenær ég þyrfti að vera kominn svaraði hann "no problem" og bauð síðan upp á brjálaðan akstur inn í borgina og tvisvar stytti hann sér leið gegn umferð í einstefnuakstursgötum. Aðferðin einkenndist af því að spítta í, flauta, senda öðrum ökumönnum tóninn eða putta ótæpilega. Hann var hróðugur þegar hann skilaði mér á réttum stað í tíma.
Ók 120 kílómetra á móti umferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2008 | 20:32
130. LILJA BEN undirbúin fyrir vetrarlegu
Báðar svefnkáetur fullar svo unglingurinn Ólafur Ágúst Petersen sefur í efri káetu.
Siglingu þessa árs er lokið og búið að koma MY LILJU BEN í geymslu svo dagarnir sem eftir lifðu í Saint Jean De Losne fóru í að ganga frá og undirbúa ferðina heim. Við byrjuðum á að fara á ferðaskrifstofu Saint Jean De Losne til að panta leigubíl til að sækja okkur snemma á sunnudagsmorgni til að flytja okkur til Dijon og ganga frá járnbrutarfari þaðan til Lyon, þar sem við ákváðum að gista á hóteli í tvær nætur og skoða okkur um í borginni. Þessir þættir gengu eðlilega fyrir sig en þegar kom að því að fá skrifstofuna til að finna fyrir okkur hótel í miðborginni vandaðist málið. Aðeins fann ferðaskrifstofan þrjú hótel og þá í miðlungs- eða lélegum gæðaflokki en samt í hæsta verðflokki svo ég afþakkaði frekari aðstoð við það og ákvað að nota netið sjálfur til að leysa málið. Þegar um borð var komið fann ég strax á netinu lúxus hótel í miðri Lyon á mjög sanngjörnu verði og gekk frá pöntun þar í gegnum tölvuna mína. Undirstrikar það þá skoðun mína að ekki borgar sig að leita eftir þjónustu ferðaskrifstofa á ferðalögum ef maður ætlar að finna góðar ferðir, gistingu eða aðra þjónustu, á góðu verði, því ferðaskrifstofurnar byrja alltaf á að leita dýrustu kosta til að hámarka þóknun sína og reyna síðan að standa á þeirri lausn fram í "rauðan dauðann". Þá á ég ekki við að maður leiti að minnstu gæðum í þjónustu heldur að maður gerir sínar eigin kröfur bæði til verðs og gæða. Því er best að annast þetta sjálfur í gegnum netið ef nokkur kostur er en nota ferðaskrifstofur í algjörri neyð.
Þegar gengið er frá LILJU BEN til vetrargeymslu er að mörgu að hyggja auk þess að pakka niður fyrir heimferðina. Ganga verður frá öllu taui, fatnaði, rúmfötum o.þ.h. hreinu, afþýða ísskápa og taka úr þeim alla matvöru sem getur skemmst. Sumt má taka með sér heim, annað gefa nágrönnum í öðrum bátum sem enn eru í gangi og að lokum henda í neyð því sem ekki er hægt að borða eða koma í not. Taka þarf það inn sem venjulega er utandyra og skaði gæti verið að missa. Breytt er yfir útibrú (Fly Bridge) og glugga þannig að ekki mæði veður á. Farið er yfir landfestar og fendara og athugað að þar sé allt tryggilega fast eins og góðri sjómennsku sæmir. Tæma þarf vatns- og klósettank, loka fyrir inntakskrana sem eru í botni bátsins, athuga að ekkert vatn sé við kjöl, slökkva á öllum sjáfvirkum dælum, loka fyrir gaskúta og slökkva á höfuðrofum fyrir rafmagn í bátinn. Áður er búið að ganga frá við hafnarskrifstofuna svo að HAFNI hafi lykla að bátnum og ræsilykla að vélum ásamt helstu leiðbeiningum um hvernig gangsett er og hvar hvað er. Einnig er skilið eftir hjá þeim afrit af tryggingarskírteini bátsins, sem og nafn, heimilsfang, símanúmer og netfang eiganda. Að lokum er skilinn eftir listi yfir þá þjónustu sem óskað er eftir að höfnin veiti, bæði í upphafi legunnar og lok hennar. Óskuðum við t.d. eftir s.k. Winterising" sem felst í því að gera vélar og annan útbúnað frostfrían og að fyrir komu okkar næsta vor verði búið að þrífa allann bátinn að utan og bóna. Alla pappíra bátsins tökum við með okkur heim s.s. afsal, skráningar- og tryggingaskírteini, kvittanir fyrir gjöldum og þjónustu, réttindaskírteini og tæknileiðbeiningar um bátinn sjálfann. Tækja "manualar" eru skildir eftir.
Meðan við vorum að vinna að þessu, föstudaginn 7. og laugardaginn 8. sept. kynntumst við lauslega hjónum sem voru á bát utan við okkur. Kom í ljós að þau eru Svissnesk en báturinn þeirra Ítalskur. Þegar við spurðum hvar þau væru búsett sögðust þau búa bara í bátnum en þegar kólnaði á þeim slóðum þar sem þau eru stödd hverju sinni fari þau til heitari svæða t.d. Suður Ítalíu og bíði veturinn af sér þar. Þetta eru miðaldra hjón sem virtust halda að mestu til í bátnum en fara síðan í skoðunarferðir um nærliggjandi héruð, sem þau gerðu á laugardeginum og létu vel að. Sögðust þau vera búin að sigla víða um Evrópu þ.á.m. til Norðurlanda um Eystrasaltið.
Sunnudaginn 9. september kom leigubíllinn og sótti okkur til að keyra til Lyon.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2008 | 17:11
129. C13, frábært land Ísland, en óheyrilega dýrt
MY LILJA BEN komin í vetrarlægi í Saint Jean De Losne, fyrir miðri mynd, með rauðu yfirbreiðsluna.
Hr. Jean Poul Fortin, HAFNI, var kominn á skrifstofuna kl. tvö og fór ég nú til hans með krosslagða putta "fáum við pláss eða fáum við ekki pláss"?. Þegar ég kom á skrifstofuna var HAFNI íbygginn á svipinn og sagði "færðu bátinn í bás C13, við geymum hann í vetur. Talaðu svo við Hr. Bond og gakktu frá peningamálum við hann. Ég vissi að hann myndi aldrei úthýsa Íslendingi svo þú getur verið ánægður". Ég sá að Jean Poul var ósköp ánægður líka með að málið leystist farsællega. Spurði ég nú HAFNA hvort ekki væri nóg að við myndum flytja morguninn eftir og var það í lagi, ekkert lægi á. Tók ég mér nú göngu út að bryggju C og skoðaði aðstæður við C13 og athugaði jafnframt bestu leiðina að fara. C13 var eina lausa plássið við bryggjuna, annað frá enda, milli tveggja báta. Var auðsýnilega búið í ytri bátnum auk þess sem verið var í flestum hinna, enda að koma helgi.
Þegar ég kom til Hr. Bond, sem er annar framkvæmdastjóra hafnarinnar og fyrirtækja hennar, tók hann á móti mér með virktum. Kom í ljós þegar við fórum að tala saman að hjá þeim hafi unnið íslensk stúlka í nokkur ár og að þannig væri íslenska síðan á heimasíðu þeirra tilkomin. Sagðist hann hafa heimsótt Ísland í fyrra (2006) með bíl sinn og keyrt hringinn. Talaði hann sérstaklega um hvað landið væri fallegt og fólkið dásamlegt en bætti svo við að verðlagið í þessu landi okkar væri svakalegt, hreint og beint ræningja okur. Gat ég ekki annað en samsinnt því.
Þar sem nú var kominn botn í það að við fengjum að geyma MY LILJU BEN þarna um veturinn byrjuðum við að ganga frá því sem hægt var þótt við myndum búa um borð næstu tvo daga (þrjár nætur) en við vorum búin að ákveða að fara til Lyon á sunnudaginn 9. sept. og skoða okkur um í borginni áður en við flygjum heim þann 11.
Vð gestabryggjuna þar sem við lágum var krökt af bátum sem voru til sölu, en þarna er mikil bátasala eins og sagði í síðasta pistli. Skáhallt á móti okkur var einn á sölunni, breskur bátur, og var fólkið þar að ganga frá honum til sölu og tína úr honum persónulegar eigur. Þetta var að sjá fullorðið fólk og spurði ég þau, þegar við vorum orðin málkunnug, hvort þau væru að hætta siglingum. Þau héldu nú ekki, þau væru að fá sér nýjan bát stærri, sem væri verið að ljúka smíði á í Hollandi og þess vegna væri þessi kominn á sölu. Báturinn þeirra "My Fair Lady" er jafn stór okkar en rúmbetri vegna byggingarlagsins sem er með háa yfirbyggingu og yfirtjaldað útisvæði aftaná. Hann er byggður 1997 og aðeins með eina vél Volvo Penta 110hp. þannig að ganghraði er ekki yfir 10 hnúta. Því segi ég þetta að frú Lilja Ben varð svolítið skotin í My Fair Lady og ýjaði að því að hún væri til í að skipta. Er ég að vona að mér hafi tekist að telja henni hughvarft á þeim forsendum að byggingarlag LILJU BEN er gert fyrir siglingar í ósléttum sjó auk þess sem hún er tvisvar sinnum gangmeiri og með tvær 200hp. Volvo vélar. My Fair Lady er meiri innvatnabátur. Frú Lilja er samt skotin í My Fair Lady svo óvíst er hvað verður.
Við fluttum LILJU BEN í vetrarplássið C13 snemma næsta morgunn hinn 7. sept. og héldum svo áfram að undirbúa hana fyrir geymsluna í vetur, en að mörgu er að hyggja fyrir langlegu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2008 | 00:09
128. Síðasti leggur í síðsumarssiglingunni, Saint Jean De Losne
Jæja það er að koma að því að finna vetrarlægi fyrir LILJU BEN fyrir heimferðina eftir síðsumarssiglinguna í ár. Samkvæmt leiðsögubókinni er boðið upp á vetrargeymslu í Saint Jean De Losne og var því stefnan sett þangað. Við fórum því af stað frá Pont Ailler kl. 08:55 miðvikudaginn 5. september og héldum áfram niður Saone fljótið. Aðeins var um tvær slússur að fara, báðar sjálvirkar og var þar með lokið siglingu um sjálfvirku slússurnar, framundan í Saone eru eingöngu stóskipaslússur á leiðinni til hafs. Það var fegursta veður alla leiðina og komum við til Saint Jean De Losne og bundum þar kl. 12:40.
Höfnin í Saint Jean De Losne er stór og mikið þar um að vera. Þegar komið er að bænum, sem stendur með fljótsbakanum á báðar hendur, með fallegri brú yfir, er beygt inn í þröngt sund til hægri og kvíslast leiðin þannig að á hægri hönd í sundinu er innsiglingin í höfnina en á vinstri hönd er farið að slússu inn í Canal de Bourgogne. Höfnin er mjög þröng og eru gestabryggjur strax þegar inn er komið, með básafyrirkomulagi sem þarf að bakka inní og á móti gestabásunum liggur flak af gamalli legtu sem þrengir mikið að öllum stjórntökum þarna. En liðlega gekk að leggjast í auðan bás, beint niður undan þjónustumiðstöðinni sem er mikið fyrirtæki að nafni HO2 France. Þar er rekin stór yachtbúð, bátasala og bátaleiga sem heitir Blue Crown Line. Það sem er e.t.v. merkilegast fyrir okkur er að ef farið er inn á slóðina http://www.barginginfrance.com/ og rennt niður síðuna er komið á tengil þar sem stendur "islensk sida" og er þar kynningarsíða á Íslensku. Prófið að skoða hana, en þetta vissum við ekki fyrir, en saga er að segja frá því sem kemur seinna.
Þegar við vorum lagst á þessum yndislega stað kom í ljós hvað þetta er stór höfn með hundruðum leguplássa. Mikil viðgerða- og viðhaldsstöð fylgir fyrirtækinu sem rekur hana og er hún staðsett í suður enda hafnarinnar með margar bryggjur og hægt að fara að henni bæði í höfninni sjálfri og frá Canal de Bourgogne. Fyrsti km. af canalnum er líka með leguplássum fyrir viðhaldsstöðina. Í norður enda hafnarinnar er svo Blue Crown Bátaleigan með margar bryggjur.
Ég byrjaði á að panta tveggja nætur legu og greiða þegar við komum því við vorum ekki búin að gera endanlega upp við okkur hvort við myndum reyna að fara lengra og finna vetrarlægi nær Lyon, en þaðan var meiningin að fljúga heim. Að venju notuðum við það sem eftir var af komudeginum til að ganga frá um borð, dytta að, þrífa og snurfusa, ásamt því að kynnast fólkinu í kring og taka út bæinn með smá skoðunarferð. Okkur leist strax vel á staðinn, aðstöðuna og hafnarstjórann sem er hinn vænsti maður þótt hann geti stundum verið hranalegur og ákveðinn, sem reyndist frekar vera í nösunum á honum. Ákváðum við því að ég færi strax morguninn eftir til HAFNA og falaðist eftir vetrarlægi fyrir LILJU BEN. Þar sem hafnarskrifstofan er opin frá kl. 10:00 til 12:00 og svo aftur frá 14:00 til 18:00 var ég mættur kl. 10 morguninn eftir til að panta vetrarlægið. Á undan mér var kominn Englendingur sem var að falast eftir tveggja mánaða legu fyrir bátinn sinn þar sem hann þyrfti að skreppa heim til Englands vegna brýnna erinda. Fór nú að fara um mig þegar ég heyrði hvaða viðtökur hann fékk. "Nei" sagði HAFNI, "þið segið þetta allir og svo komið þið ekki og við sitjum uppi með bátana ykkar lon og don og stundum til eilífðarnóns. Hvað heldur þú að það séu margir yfirgefnir bátar hér?" Hér komu fram eiginleikar HAFNA en eftir að Bretinn var búinn að nauða í honum nokkra stund og fullvissa hann um að hann kæmi örugglega aftur lét HAFNI undan og Bretinn fékk tveggja mánaða legu. Nú var komið að mér að biðja um legupláss fyrir veturinn, fram í apríl 2008. Ég vissi ekki hvert HAFNI ætlaði að komast þegar ég bar uppi erindið. "Nei og aftur nei" sagði hann "hér er allt orðið stútfullt fyrir veturinn og ekkert pláss laust". Var honum ekki þokað frá þessu svo ekki var annað að gera en að kveðja við svo búið og var nú farið með það um borð. Prófaði ég nú að hringja í næstu höfn fyrir sunnan og þar var sama svarið, allt orðið fullt. Fór mér ekki að verða um sel, hvergi vetrarlegu að fá fyrir LILJU BEN. Skömmu síðar var ég eitthvað að sýsla inni í bátnum en frú Lilja Ben var úti á afturdekki við sömu iðju þegar hún kallar í mig og segir að HAFNI sé kominn og sé að stika út breiddina á bátnum. Snaraðist ég þá út og segi við HAFNA að báturinn sé 3.65 m. breiður. Lítur þá HAFNI á mig þungbrýnn og segir "ég ætla að tala við Bossinn í hádeginu og trúlega verður hann vitlaus ef hann veit að ég hef úthýst Íslendingi, hann elskar Ísland. En ég lofa engu og eitt skaltu vita að það verður bara út af þjóðerninu sem þið fáið pláss, ef þið fáið það því það er allt fullt eins og ég sagði". "Ég læt þig vita eftir kl tvö". Áframhaldið kemur á morgun.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar