Trausti er týndur, 2. pistill

12_tf-sif_dc4.jpg

Mynd: TF SIF (gamla) á Akureyrarflugvelli.

 

Við vorum komnir á endann á braut 02 (sem er núna orðin braut 01 vegna hreyfingar segulnorðurpólsins frá Kanada til Síberíu) og klárir í flugtak. Flugvélstjórinn gaf hreyflunum fullt afl svo vélin skókst öll til áður en flugstjórinn sleppti bremsunum og vélin mjakaðist af stað. Hún var þyngslaleg í fyrstu, enda með mikið eldsneyti, en jók nú hraðann hægt og bítandi. Við vorum komnir framhjá flugturninum þegar ég heyrði flugmannin segja „V one“ sem þýddi að klára þurfti flugtak hvað sem gerðist því hraðinn væri orðinn það mikill að brautin myndi ekki nægja til að bremsa niður. Örskömmu síðar kom svo „V two“ og þá lyftu flugmennirnir vélinni af brautinni. Ég horfði á Hljómskálagarðinn, tjörnina, miðbæjarkvosina, höfnina, þar sem tvö varðskip lágu við Ingólfsgarð og olíutankana í Örfirisey koma hvert af öðru undan hægri vængnum og gaf síðan flugstjóranum upp fyrstu stefnuna sem fljúga skyldi fyrir Jökul. Hvort þeir færu eftir því eða ekki lét ég mér í léttu rúmi liggja því ég vissi að í bjartviðrinu sæju þeir Jökulinn greinilega framundan. Vélin beygði nú rólega til vinstri og var rétt af á stefnunni sem ég gaf upp. Það var ekki af því að spyrja. Nafni minn Jónsson, var einn mesti nákvæmnismaður sem ég hef þekkt fyrr og síðar og því mátti ég vita að hann myndi setja á þá stefnu sem siglingarfræðingurinn gaf upp, þótt skyggnið gæfi möguleika á að stýra eftir auganu.

Við vorum með sjónflugsheimild á leitarsvæðið og framundan var rúml klst. flug þar til við gætum byrjað leit í NW punktinum. Því var klifrað í 3000´ og sú hæð látin duga. Þótt NA áttin væri tiltölulega stíf í „Flóanum“ sluppum við utan við þekktu ókyrrðarsvæðin undan Esju, Akrafjalli og Hafnarfjalli því við stefndum svo vestarlega, en vissum að búast mátti við ókyrrð meðan við færum framhjá Snæfellsjókli. Það stóðst fullkomlega, hressilegur skagstur var S og SW við Jökulinn meðan við fórum fyrir. Kl. var 0953 þegar ég gaf flugstjóranum upp stefnuna á upphafspunkt leitarsvæðisins, 66ᴼ 18´N og 24ᴼ 58´W., en þá vorum við komnir út af Jökli. Nýja stefnan lá beint yfir Bjargtanga, sem sáust nú greinilega framundan og voru nú um 38 mín. þar til beygt yrði í fyrstu leitarlínuna sem okkur var úthlutað. Ljóst var að það tæki okkur ekki undir 6 klst. að fljúga allar leitarlínurnar og að á þeim tíma stæði siglingafræðingurinn varla upp frá kortaborði vélarinnar ef hann ætlaði að sjá til þess að vélin fylgdi einstigi blýantsstrikanna sem mörkuðu leitarlínurnar í kortið. Því var eins gott að nota þennan hálftíma til að fá sér hressingu, kaffibolla og fara á klósettið í tíma.

Þetta var á tískutíma reykinga, flestir reyktu og var áhöfnin á TF SIF engin undantekning. Flugstjórinn, flugvélstjórinn og undirritaður, siglingafræðingur, vorum liðtækir við sígaretturnar, flugmaðurinn og skipherrann reyktu pípur svo mökkurinn stóð í loft upp, en loftskeytamaðurinn þurfti að láta sig hafa það að þola óbeinar reykingar. Því var það oftar en ekki að blá reykjarslæða liðaðist um vélina meðan flogið var til og frá vinnusvæðum, hvort sem það voru leitar-, könnunar- eða eftirlitssvæði. Þegar Bjargtangar komu undir vélina fékk ég staðfestingu á áreiðanleika þeirrar stefnu sem ég hafði gefið flugmönnunum og þeim hraða yfir jörð sem ég hafði reiknað með miðað við flughraða og vind.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur, Guðjón!

Aðalsteinn Agnarsson, 21.2.2011 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband