Færsluflokkur: Lífstíll
28.5.2006 | 22:58
Lagst í Kaupmannahöfn
Hvaða þjónusta er í höfnum sem komið er í? Hægt er að tengja bátinn við landrafmagn. Síðan fylgir lykill að böðum, salernum og þvottavélum. Yfirleitt eru skemmtibátahafnirnar lokaðar þannig að maður fær jafnframt lykil að þeim gegn tryggingargjaldi sem er endurgreitt þegar farið er. Sólahringurinn í Yachthöfnunum kostar frá 10 til 13 Evrum með rafmagni.
Það var virkilega notaleg tilfinning að sigla inn höfnina í Kaupmannahöfn þennan fallega þriðjudagsmorgun 4. apríl. Búið var að úthluta okkur legu nr. 42 í Christjánsborgarkanal og sigum við inn höfnina á 5 sjóm. hraða sem er leyfilegur innan hafnarinnar. Þegar komið var inn úr Lynettuhlaupinu var beygt inn og á bakborða leið Refhalseyjan framhjá með herskipalæginu en á stjórnborða Langalína með Litlu Hafmeyjuna fyrir innri endanum. Amalíuborg kom næst og Íslandsbryggja á bakborða. Þegar Asiaska Plads nálgaðist kom yfir mig heimkomutilfinning þótt liðin væru meira en 40 ár síðan ég átti ótaldar ferðir á þennan stað með Gullfossi, farþegaskipi Íslendinga. Þegar Nýhöfnin opnaðist á stjórnborða áttum við samkvæmt leiðarkortinu af Kaupmannahöfn að beygja inn í Cristjánsborgarkanal til vinstri og nú opnaðist kanallinn og við beygðum inn í hann. Vinstra megin í kanalnum lágu nokkrar skútur langs með kantinum þrátt fyrir að leguplássin væru það sem við kölluðum okkar á milli skápa. Skáparnir eru þannig að í um 15 m. fjarlægð frá bryggjukantinum eru staurar upp úr sjónum. Verður að fara inn á milli þeirra og setja landfestar á þá og slaka bátnum síðan fram þar til stefnið er skammt frá bryggjukantinum. Þá þarf að setja tvær landfestar þar upp þannig að stefnið haldist rétt við kantinn. Við sáum alls ekki hvernig við gátum tvö klárað okkur af þessu því annað yrði að vera við stjórnvölinn þar til búið væri að binda svo báturinn snerist ekki og rækist í. Fram að þessu höfðum við alltaf getað lagst upp að bryggju og var okkur bölvanlega við þessa skápa og kviðum fyrir ef við þyrftum að fara í þá. En nú kom annað vandamál í ljós. Við áttum legupláss nr. 42 en þarna voru leguplássin nr. 70 og hærra en númerin fóru þó lækkandi inneftir. Vandamálið var að framundan var brú yfir kanalinn sem við slyppum enganveginn undir. Var nú lagst uppað kantinum hægra megin, sem var auður, og fór ég í land til að kanna aðstæður. Hringdi ég síðan í hafnarskrifstofuna og sagðist vera lenntur við legu 72 en kæmist ekki lengra vegna brúarinnar. Ha sagði kallinn þá, þú ert kominn alltof langt, þú verður að far út aftur og út undir Nýhöfn og beygja þar beint á móti inn í Trangraven og síðan að þverbeygja inn í Cristjánsborgarkanal þeim meginn frá og sigla inn hann allt að þessum kanal sem þú ert núna í. Overgaden heden Vandet inn við Wilder Plads er gatan sem þú átt að liggja við, en það var að koma skúta sem lagðist í legu 42 svo þú ferð í legu 41. OK svaraði ég karli og nennti ekki að fara að þrasa við hann um merkinguna í hafnarkortinu sem ég hafði farið eftir. Nú voru vélarnar aftur gangsettar og þegar við vorum að byrja að leysa landfestar heyrðist hvellt blístur ofan af brúnni sem var framundan. Stóð þar hafnarvörðurinn og baðaði öngum sínum í þá átt sem ég átti að fara og vinkaði ég honum til samþykkis um að ég skildi hann.
Var nú bátnum snúið og siglt rólega út að Trangraven og þverbeygt inn í hann til stjórnborða. Nú fór að fara um okkur, leiðin þrengdist og allt fullt af skútum og öðrum bátum, allir í skápum. Þegar Cristjánsborgarkanall opnaðist á stjórnborða var þverbeygt inn í hann og farið með hægustu ferð. Enn þrengdist leiðin og húsbátar, snekkjur og skútur beggja vegna, vinstra megin langs með kantinum en hægra megin allar í skápum með skutinn út í kanalinn og það þétt. Hvergi var smugu að sjá. Nú kom kanallinn í ljós sem við höfðum farið inn í og um leið sáum við skápinn sem við áttum að smeygja okkur í. Í skápnum vinstra megin var nýkomna skútan með 4 manna áhöfn að klára að binda en á hægri hönd gamall húsbátur. Á skútunni blakti Sænski fánninn við hún. Lá nú við að okkur féllust hendur við þessa sjón en ómögulegt var annað en að sýna kjark og fara inn í smuguna. Meðan ég var að snúa bátnum kom okkar saman um að frú Lilja myndi fyrst einbeita sér að því að húkka á staurinn stjórnborðsmegin þegar hann kæmi aftur með síðunni og svo á staurinn bakborðsmegin en ég reyndi að halda bátnum kyrrum á meðan. Síðan ætti hún að slaka rólega meðan ég léti síga innar. Þegar stefnið væri við það að snerta kantinn myndi ég stöðva bátinn, aftengja skrúfurnar og hendast frmmá til að koma upp enda þar. Sem betur fer var mjög hægur vindur og straumlaust í kanalnum svo ekki truflaði drift þegar við stilltum bátinn í stefnu inn skápinn. Nú var látið síga inn og þegar svíarnir á skútunni sáu að um borð voru bara tvær sálir gerðu þeir klára fendara sín megin ef við myndum rekast utan í þá. Einnig gerðu þeir sig klára að aðstoða við festingar á staurinn svo það létti mikið. Nú var sigið innar í skápinn og stóðu nokkrir menn á kantinum að fylgjast með. Þegar stefnið var því sem næst að snerta kanntinn stöðvaði ég bátinn með stuttu bakki, aftengdi skrúfurnar og hentist út til að setja upp endann að framan, en frú Lilja hafði nóg með báða stauraendana. Þá gerðist það að einn þeirra sem staðið höfðu á bryggjunni hentist fram á kantinn og náði taki á rekkverki stefnisins og hélt hann bátnum kyrrum þar til ég kom og setti upp enda. Hafði hann séð að við vorum í vanda stödd aðeins tvö, þótt svíarnir hjálpuðu mikið einnig. Nú var allt í góðu, báturinn bundinn og vélar stöðvaðar, en það verður að játast að við dæstum bæði eftir þessa raun. Komið var að hádegi og hafði heill tími farið í að sigla inn í höfnina, finna leguna og koma sér fyrir.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2006 | 15:27
Hundested til Kaupmannahafnar
Er lífið um borð frábrugðið venjulegu heimilislífi? Já og nei. Dags daglega gengur lífið fyrir sig um borð eins og á venjulegu heimili. Það er sofið og matast samkvæmt öllum venjum, íverum haldið hreinum, skúrað, ryksugað og bónað. Aðalviðbótin er eins og áður sagði eftirlit með öryggis- og tæknibúnaði auk þess sem ytra byrði bátsins er haldið hreinu og bónuðu líkt og bíl. Í okkar tilviki er hver siglingaleggur hafður stuttur svona 3 til 4 tímar auk þess sem mikið er legið í höfn. Þá er mikið gert af því að ganga um og skoða nýja staði og bæi. Fyrir siglingu er útbúið nesti s.s. samlokur o.þ.h. þannig að ekki þurfi að standa í matseld á siglingunni. Oftast líkur siglingu snemma eftirmiðdags þannig að kvöldverður er snæddur í ró og næði.
Kl. 0800 þriðjudaginn 4. apríl voru landfestar leystar og lagt af stað til Kaupmannahafnar. Var hið besta veður svo við ákváðum að fara geyst og keyrðum á 20 hnúta hraða. Eftir því sem ferðinni miðaði áfram komu mörg kennileiti og staðir í ljós sem vöktu upp gamlar minningar frá liðnum tíma. Endurlifði ég t.d. í anda heræfingu sem ég tók þátt í fyrir um 15 árum á s.k. Fleks skipi, í boði danska sjóhersins fyrir norðurstönd Sjálands. Vitinn á Kullen sem kom í ljós á bakborða og síðan Krónborgarkastali á stjórnborða minnti svo aftur á sjómennskutímann um borð í Gullfossi á árunum 1954 til 1961. Þegar farið var um Eyrarsundið milli Helsingör og Helsingborgar var mikil umferð um sundið að venju, skip á leið Norður eða Suður og ferjur á leið þvert yfir svo aðgæslu var þörf. Þegar við vorum að koma að Helsingör sáum við skyndilega hvar Zodiac gúmituðra kom á fleygiferð á milli skipanna og stefndi fyrir okkur á bakborða og áfram til Helsingör. Varð okkur að orði að þarna væri trúlega íbúi í Helsingborg á leið í vinnuna í Helsingör. Góður samgöngumáti þar. Skammt suður af Krónborgarkastalanum kom svo í ljós á ströndinni Tækniskóli Almannavarna (Civilforsvarets Tekniske Skole) í Snekkersten sem aftur kallaði fram ljúfar minningar frá mörgum dvalarstundum þar og var ekki laust við að löngun kæmi upp að renna að smábátahöfninni í Snekkersten og endurnýja gömul kynni. Falið í trjánum á bakvið Snekkersten var svo Gurrehus þar sem undirritaður sótti á sínum tíma Politiska Sikkerhedskursusa á vegum danska hersins, merkileg námskeið og holl öllum sem hafa með öryggishagsmuni að gera. En framundan var farið að móta fyrir Kaupmannahöfn svo nauðsynlegt var að ýta gömlum minningum úr huganum og fara að huga að landtöku, en skemmtibátum er óheimilt að taka höfnina um aðal hafnarmynnið. Þeim er skylt að fara um Lynettelöbet sem er þröngt sund milli Refshaleöen og Trekroner virkisins. Vorum við búin að fá úthlutað leguplássi í Christjánsborgarkanal rétt við Strandgade 25 þar sem Gullfoss lá forðum daga. En nú kom upp vandamál sem ekki hafði verið séð fyrir. Þar sem ekki var sjókort um borð í hæfilegum mælikvarða til að taka innsiglinguna var notast við rafrænt kort á PC tölvu, en nú braust sólin fram og skein skáhallt inn í bátinn sem er með glugga allann hringinn þannig að ómögulegt var að sjá á skjáinn. Var prófað að draga fyrir glugga og snúa tölvunni á alla kanta en allt kom fyrir ekki frá stjórntækjum bátsins sást alls ekki á skjáinn. Tók því frú Lilja Ben við stjórntækjum nöfnu sinnar meðan undirritaður sat með tölvuna á hnjánum og leiðbeindi þannig að mynni Lynettelöbsins en þegar komið var í mynni þess var korta ekki lengur þörf enda leiðin vörðuð mjög góðum innsiglingamerkjaum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2006 | 20:01
Brasið í Hundested
4. færsla. Nú spyrja margir er þetta hættulegt? Nei ekki hættulegra en að fara í bílinn sinn og keyra um götur Reykavíkur. En öryggi þarf að vera meðvitaður þáttur. Öllum sem er með þarf að kenna hvar björgunarvesti eru og hvernig þau eru sett á og notuð. Þau þaurfa að kunna að sjósetja björgunarbátinn og blása út. Neyðarnúmerið 112 gildir innan farsímasviðsins sem svona sigling er að mestu innan. Síðan er öryggisrásin á VHF 16, sem gildir að allir kunni að kalla út á. GPS tækin sýna alltaf staðinn sem þarf að gefa upp ef hjálpar er þörf. Þetta þurfa allir að kunna örugglega.
Eftir rólega helgardvöl í Hundested fengum við viðgerðarmann á mánudeginum til að líta á vélarnar og var hann fljótur að sjá hvað olli. Eldsneytið sem við fengum í Ebeltoft var svo fullt af ryðflyksum að óhreinindin höfðu stíflað að mestu leyti eldsneytissíurnar. Eftir að skipt var um þær gengu vélarar eins og ánægðir kettir. Ákváðum að taka olíu og leggja í næsta áfanga til Kaupmannahafnar en þá kom upp atburðarrás sem undirstrikaði þann sérstaka samhug og hjálpsemi sem einkennir þetta skemmtibátalíf, en þar hjálpa allir öllum. Í höfninni var bryggja með kortasjálfsala fyrir olíutöku á báta og var rennt að henni til að taka olíu. Þegar kortinu var rennt í sjálfsalann kom höfnun. Voru nú öll greiðslukort reynd en alltaf var sama sagan, kortunum var hafnað. Var þá hringt í hafnarskrifstofuna og sagt frá þessum vandræðum. Skömmu síðar kom hafnarstarfsmaður brunandi á lyftara sem var eina samgöngutækið sem hann hafði til umráða. Fyrst fylgdist hann með mér reyna mín kort en þegar það gekk ekki spurði hann hvort ég væri ekki bara skítblankur. Eftir að ég neitaði því reyndi hann greiðslukort hafnarinnar en sagan endurtók sig, höfnin fékk líka höfnun. Var farið að þykkna í hafnarstarfsmanninum og hringdi hann í STADOIL sem á tankinn og fékk samband við tæknimann sem sagði að engin þjónusta yrði veitt við tankinn fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir. Sá sem þjónustað hefði tankinn fram að þessu væri hættur störfum og enginn væri til að hlaupa núna strax í skarðið. Hafnarstarfsmaðurinn brjálaðist svo að niðurstaðan varð sú að tæknimaðurinn reyndi að leiðbeina honum í gegnum símann við að fá sjálfsalann til að taka kortin. Endaði það með því að hafnarstarfsmaðurinn auk undirritaðs voru búnir að rífa sjálfsalann í tætlur og setja hann saman nokkrum sinnum, undir leiðsögn tæknimannsins en án árangurs. Hafnarstarfsmaðurinn var þó ekki á því að gefast upp við svo búið. Olíu skyldum við fá. Fór hann því næst í að hringja í bensínstöðvar í Hundested og fann eina stöð sem var með tank og dælubúnað á kerru til að keyra út húshitunarolíu. Nú vantaði bíl með dráttarkrók og náði hann í kunningja sinn sem átti bíl með krók og var tilbúinn að lána hann til verksins. Brenndi starfsmaðurinn síðan á lyftaranum í bæinn, sótti bílinn og kom síðan og sótti mig til að ná í tankinn og kaupa olíu á hann og dæla síðan á bátinn. Eftir allt þetta bras hafði dagurinn liðið að kvöldi svo ákveðið var að fara snemma næsta morguns til Kaupmannahafnar til móts við gesti okkar sem koma áttu um eftirmiðdaginn. Þótt ekki væri nema 3 klst. sigling til Kaupmannahafnar vorum við sammála um að skynsamlegra væri að leggja af stað óðreytt að morgni en skapill, pirruð og þreytt undir kvöld. Ég held að það fari ekki milli mála að við fundum bæði hvernig félagsandi okkar efldist við allt það bras sem við þurftum að ganga í gegnum og að samstilling okkar við verkefni siglingarinnar jóks með hverju skrefi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2006 | 12:02
Ebeltoft til Hundested
Í síðustu færslum sagði ég frá upphafi og frumraun hins nýja lífsstíls. Nú er spurt er þetta erfitt? Ekki erfiðara en að eiga og reka sumarhús. Öllu þarf að halda við þrífa og pússa. Við bætist tæknibúnaður sem maður þarf að setja sig inní og sinna. Ef gætt er að því að hafa reglubundið eftirlit og viðhald á vélum, tækjum og sjálfum bátnum er þetta létt verk fyrir hvern sem nennir og hefur gaman af.
Eftir góða máltíð á veitingastað við hafnarbakkann var sest niður og gerð siglingaáætlun fyrir ferðina frá Ebeltoft til Kaupmannahafnar með mælingu á waypoints, stefnum og vegalengdum, sem átti eftir að fara í vaskinn.
Laugardaginn 1. apríl var svo lagt af stað til Kaupmannahafnar og keyrt á um 20 hnútum í góðviðri og sléttum sjó. Þegar komið var suður úr Ebeltoftvík var stefnan sett á siglingarennu í gegnum Sjællands Rev sem gengur NV úr Sjællands Odde. Þessi leið sem er full af grunnum og öðrum hindrunum er mjög vel vörðuð með baujum og sjómerkjum auk þess sem siglingatölvurnar sáu um waypointin sem búið var að setja inn. Hins vegar sker leiðin stórskipabrautina milli Norðursjávar og Eystrasalts þannig að nokkur umferð var af stærri skipum auk þess sem leiðin er að miklu leiti samhliða ferjuleiðunum milli Jótlands og Sjálands. Á svona snekkju er reglan sú að víkja fyrir þessum skipum og ferjum óháð rétti samkvæmt siglingareglum þar sem þau eru þung og silaleg í vöfum. Var því nokkuð um stefnubreytingar meðan við vorum að siksaka í gegnum stórskipaleiðina. En skömmu síðar kom babb í bátinn. Þegar u.þ.b. 5 sjóm voru eftir í Sjællands Rev féll snúningshraðinn á stb. vél skyndilega úr 2800 snúningum í 2000 án nokurrar sýnilegrar ástæðu og um leið dökknaði pústið sem stóð aftur úr bátnum verulega. Rétt á eftir féll snúnigshraði bb vélar niður í 2500 snúninga og enn dökknaði pústið. Þrátt fyrir hraðaminkunina sem fylgdi hélt báturinn plani og þar sem frú Lilja Ben varð ekki vör við vandann sem kominn var ákvað ég að steinhalda kjafti að sinni.
Þegar komið var í gegnum Sjællands Rev var farið að kula af SA svo var sett grunnt A með ströndinni. Það var alveg orðið ljóst að ekki yrði náð til Kaupmannahafnar í þessum áfanga svo að eftir að hafa skoðað kort og leiðsögugögn ákvað ég að fara inn í Hundested til að athuga aflleysi vélanna. Sagði ég frú Lilju frá þeim vanda sem kominn var þegar við vorum fyrir mynni Isefjord og ekki nema 15 mínutur eftir til hafnar. Skömmu síðar renndum við inn í yachthöfnina í Hundested. Þegar inn var komið kom fljótlega í ljós skilti gestabryggja og lögðumst við þar á milli tveggja seglskúta. Lágum við beint undir glæsilegum veitingastað á bryggjukanntinum og þegar búið var að binda fórum við upp til að panta borð um kvöldið. Sagði vertinn að allt væri fullpantað en þegar við sögðum honum að við værum á LILJU BEN sem lægi beint fyrir framan dyrnar hjá honum varð hann svo glaður við að hann sagðist bara koma og kalla í okkur þegar pláss losnaði. Þetta viðmót er annað en maður á að venjast á annatíma veitingahúsa og kom okkur því skemmtilega á óvart en varð í raun einkenni þeirrar sérstöku gestrisni sem fylgir heimsóknum í yachthafnir. En reynsla dagsins að öðru leiti varð sú að næsta regla var sett.
Jafnhliða siglingaáætlun á að meta allar hafnir á leiðinni sem geta þjónað sem varahafnir komi eitthvað uppá.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 13:51
Frumraun til Ebeltoft
Í síðustu færslu sagði ég ykkur frá kaupum okkar á skemmtibátnum LILJU BEN og fyrstu skrefum við að undirbúa hana fyrir þann nýja lifstíl sem við tókum okkur. Nú kemur áframhald sem ég kalla frumraun til Ebeltoft. Rétt er að taka það fram að svona lífstíll krefst skipstjórnarréttinda a.m.k. 30 tonna og er auðvelt að afla sér þeirra t.d. hjá Fjöltækniskóla Íslands. Ég er hinsvegar það heppinn að hafa ótakmörkuð réttindi. Eftir því sem ferðasöguni vindur fram mun ég ræða meira um ýmsa þætti þessa nýja ífsstíls.
Þriðjudaginn 28. mars yfirgáfum við svo bústaðinn og fluttum um borð í hreinan og hlýjann bátinn og fannst okkur strax við vera komin heim. Um sama leiti þiðnaði ísinn í höfninni svo við ákváðum að leggja í fyrsta áfanga ferðarinnar frá Ebeltoft til Kaupmannahafnar þar sem vinahjón okkar slóust í för fyrstu vikurnar. En nú kom upp vandamál enga brennsluolíu að fá, olíutankurinn í höfninni tómur og verður ekki fylltur fyrr en í maí. Eftir nokkra eftirgrennslan komst ég að því að einhver slatti var til á olíutanki í Ebeltofthöfn sem ég tryggði mér aðgang svo Ebeltoft varð fyrsti áfangi ferðarinnar. Þetta vandamál átti eftir að endurtaka sig oftar svo næst var eftirfarandi regla sett.
Fylltu alltaf af olíu þegar hana er að fá, þótt lítið þurfi, því engu er að treysta um aðgang að olíu þótt hún eigi að fást.
Öer-Havn við Ebeltoft er lokuð skemmtibátahöfn sem ekki er hægt að komast inn í eða út nema í gegnum s.k. slússu, sem skýra má sem þrep í skipastiga. Höfnin er mjög rúmgóð innan slússunnar og fékk ég heimild hafnarstjórans til að sigla um höfnina og æfa mig í stjórntökum bátsins áður en lagt var í hann. Tilkynti ég honum að brottför yrði föstudaginn 31. mars kl. 1000 og bað um að vera hleypt út um slússuna þá, sem var auðsótt. 31. mars kl. 1000 var svo lagt af stað og sigið í átt að slússunni sem búið var að opna. Þetta var kaldur morgun með SA brælu sem ekki lofaði góðu fyrir jómfrúartúrinn en miklar grynningar eru í kringum Ebeltoft og innsiglingarennur þröngar og varasamar. Slússuhjónin Merete og Flemming stóðu á bakkanum og tóku við festum þegar við lögðumst að. Fyllt var á ferksvatnstankinn meðan beðið var eftir að vatnsborðið í slússunni lækkaði niður í sjávarhæðina fyrir utan og síðan lagt í hann út þrönga rennuna með lítilsháttar svita í lófum og hjartslætti um 90. Þegar rennan var að baki fékk ég fyrsta tækifærið til að gefa vélunum inn og byrjaði á 2000 rpm. sem gáfu 11 hnúta, síðan var farið í 2500 sem gáfu 15 og við 3000 rpm. var komið í 21 hnút sem var látið duga þótt nokkuð væri eftir því hámarkshraði bátsins er 33 hnútar. Á leiðinni voru nú reyndar ýmsar stefnur m.t.t. vind- og öldustefnu til að kynnast viðbrögðum bátsins og kom í ljós að hann var eins og flest skip erfiðastur með ölduna skáhallt undir skutinn. Þá veltur hann mest og rásar illilega. Þetta má þó forðast með því að velja hentuga stefnu ef svigrúm leyfir. Þótt leiðin lengist þá vinnst oftast tími með betri hraða og minna rási. Einnig fann má komast fram úr ölduhraðanum með auknum hraða og breyta þannig áfallshorninu úr skáhallt aftanundir í skáhallt framanundir. Við þessar tilraunir varð frú Lilju Ben ekki um sel því hún sat þögul og hélt sé fast en löng þögn er ekki hennar aðalsmerki. Ég var nýlega búinn að útnefna hana sem 2. vélstjóra eftir að hún hafði fengið nokkra stirða mæla í mælaborðinu til að sýna rétt með því að berja þá til hlýðni. Þegar komið var í landvar innan við nesið sem afmarkar Árósflóann að NA voru gerðar frekari athuganir sem sýndu að báturinn planaði á 12 hnúta hraða. Síðar kom í ljós að hann planar á 15 hnútum fullur af olíu og vatni en heldur planinu fulllestaður niður í 12 hnúta eftir að því er náð. Z drifið á skrúfunum er notað til að trimma stafnhallann eftir að plani er náð en hægt er að stilla skrúfurnar þannig að þær þrýsti sjónum frá 5° niður fyrir lárétt allt að 30° upp fyrir láréttann flöt. Best er að keyra bátinn upp á plan með því að hafa skrúfurnar um 10° ofan við lárétt en setja þær síðan í 5° undir lárétt þegar planhraða er náð. Með flöpsunum er stafnhallann síðan fínstilltur og nýtast þeir einnig vel við að rétta af hliðarhalla frá vindi og sjó eða ójafnri þungadreifingu.
Eftir um 40 mínútna siglingu var komið að því að taka fyrstu höfnina, Ebeltoft, en þar eins og við Öer-Höfn er mikið af grynningum og innsiglingarenna löng. Varð það nú hlutverk frú Lilju, eins og eftirleiðis, að sjá um fendara og enda til að setja fast við landtöku, enda eini hásetinn um borð. Reyndar náðum við svo góðri þjálfun í þessu eftir því sem leið á ferðina að undirritaður náði að renn að, aftengja skrúfurnar og hendast upp á bryggju til að taka við endum þegar enginn var í landi til þess. En nú var lagst að bryggju undir olíutanknum í Ebeltoft þar sem hafnarstjórinn tók á móti okkur. Var fyllt af olíu og ákveðið að liggja til næsta dags áður en haldið yrði til Kaupmannahafnar. Eftir að hafa farið yfir þessa fyrstu siglingareynslu á LILJU BEN vorum við sammála um að hættulegt var að fara um dekkið fram eftir bátnum vegna lélegs halds og var því næsta regla sett.
Það er stranglega bannað að fara um þilför bátsins á siglingu nema í björgunarvesti.
Lífstíll | Breytt 26.5.2006 kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2006 | 22:56
Um sjó og sund með Lilju Ben
UM SJÓ OG SUND
með Lilju Ben.Eftir Guðjón Petersen
Verður gamall maður tvisvar barn? Því ekki, með eftirlaunaaldrinum gefst manni loks tækifæri til að láta æskudrauma verða að veruleika, hafi maður heilsu og afkomu til. Þegar ég var lítill, og allt fram á unglingsár, dreymdi mig dagdrauma um siglingar á eigin bát um ókunnar slóðir. Nú er tækifærið og það gripið, auðvitað með samstöðu við frú Lilju Ben. Við seldum sumarbústaðinn sem við byggðum 1990 og keyptum bát, TRESFJORD 345 í Randers í Danmörku. Stærð 11 m. langur, 3.78 m. breiður, djúprista 1.8 m. og hæð yfir vatnslínu 4 m. Tvær Volvo Penta vélar 200 hp. hvor og Z drif. Siglingatæki eru auk kompáss og hraðamælis, ap navigator GPS, tvær siglingatölvur Shipmate og Decca, GMP sjálfstýring, Furuno radar og dýptamælir samtengt. Tvær svefnkáetur eru í bátnum, eldhús og bað neðanþilja, og setukáeta á efra dekki, samtengd stjórnklefa. Fly bridge með auka stjórntæki utandyra og þægilegur setkrókur á afturdekki. Það skal játað að annað var í myndinni s.s. kaup á íbúð í heitari löndum til vetursetu en báturinn hefur það fram yfir að hægt er að flytja sig á nýja staði og vera eins lengi og maður vill líði manni vel.
Bátnum var komið fyrir í veturgeymslu í Öer-Havn við Ebeltoft á Jótlandi og þangað fórum við 20. mars s.l. að gera klárt fyrir siglingu til móts við sól og sumaryl við Miðjarðarhafið. Ætlunin var reyndar að heimsækja Ísland á bátnum áður en farið yrði aftur út í Miðjarðarhafið en hætt var við það því þá yrði ég féflettur rækilega. Mikilvægi heimsóknar til Íslands var ekki þess virði að greiða toll, vörugjald og vask af kaupverði bátsins, enda aldrei meiningin að hafa hann þar. Því var ákveðið að fara til Lubeck í Þýskalandi og þaðan á fljótum og könulum Evrópu til Marseille í Frakklandi.
Þegar komið var til Ebeltoft var höfnin frosin og báturinn fastur í ís. Var tíminn notaður til að kaupa inn alla lausamuni til viðurværis um borð, skoða og kynna sér innviði og tæknibúnað bátsins og dytta að smáhlutum sem betur máttu fara. Búið var í frístundahúsi sem við leigðum, röku, köldu og illa lyktandi af fúkka en frostið fór niður í 15° þegar kaldast var. Laugardaginn 25. mars gáfum við bátnum nýtt nafn LILJA BEN og skáluðum fyrir nýjum áfanga í tilverunni sem var að hefjast. Í gleðivímu yfir nýja nafninu (eða var það rauðvínið?) var fyrsta regla hins nýja lífsstíls sett og áttu fleiri eftir að fylgja eftir því sem reynslan bauð svipað og Þórbergur Þórðarson var iðinn við í sínu lífshlaupi.
Bátinn má aldrei gangsetja til siglinga fyrr en 12 tímum eftir að þeir sem sigla neyttu síðast áfengis.
Lífstíll | Breytt 26.5.2006 kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar