22.8.2013 | 14:44
Flugtími og brottfarartími.
Í fréttinni virðist vera ruglað saman "brottfarartíma" og "flugtíma". Flugtími er tímabilið sem tekur að fljúga ákveðna veglengd, í þessu tilfelli milli Keflavíkur og Krítar, en það heitir brottfarartími þegar talað er um hvenær áætlað er að leggja af stað.
Flugtími, þegar ég starfaði við þetta, var talinn frá mínútunni þegar vélin hreyfðist á flughlaðinu og þar til hún stöðvaðist aftur á áfangastað, hver sem hann annars varð. (S.k. blocktími)
Ferðaáætlun 366 farþega breyttist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2013 | 21:10
Eldur um borð í TF BAA
Flugvélin TF BAA
Ég man að mér var svolítið kalt í suðvestan áttinni, þó hún væri hæg, á flugvellinum á Stykkishólmi, þennan nóvembermorgun undir hádegi, árið 1969. Enda var vægt frost og við illa klæddir. Við stóðum við Piper Apache flugvélina TF BAA, sem Landhelgisgæslan var með á leigu til gæslustarfa. Skymastervélin TF SIF sem sagt var frá í fyrri pistli og sem Landhelgisgæslan átti, var of dýr í rekstri fyrir fátækann ríkissjóð, en það var kreppa og atgerfisflótti í kjölfar síldarhunsins.
Við vorum fimm. Flugstjórinn, skipherrann og þrír stýrimenn sem voru siglingafræðingar í gæsluflugum. Tilgangur flugsins var nú um margt óvenjulegur: Við vorum nefnilega að leita að skýlum gegn geislavirku úrfelli frá hugsanlegri kjarnorkuárás, fyrir almannavarnir. Við stýrimennirnir hefðum ekki þurft að vera nema einn vegna gæslustarfanna, en við þessir þrír vorum búnir að vera á sérstöku námskeiði hjá einum virtasta prófessor í kjarneðlisfræði, í að finna og reikna út skýli fyrir almenning til að nota ef geislavirkt úrfall ógnaði lífi og heilsu eftir kjarnorkuárás (því það var jú kalt stríð í algleymingi í heiminum og Ísland fór ekkert varhluta af því). Við vorum búnir að kortleggja og reikna út skýlishæft húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, miðað við gefnar forsendur í kjölfar kjarnorkuárásar. Nú vorum við þremenningarnir að skrá það húsnæði hringinn í kringum landið, sem hugsanlega mætti eyða tíma í að reikna út í þessum tilgangi. Þar sem okkur var uppálagt að villa á okkur heimildir við skýlakönnunina var hins vegar kjörið að annast í leiðinni Landhelgisgæslu með SV ströndinni og nota gæsluferðina til að lenda á Stykkishólmi, og skrá þau hús sem borgaði sig að eyða frekara púðri í. Við gátum sagst vera í gæslu en þurftu ekki að minnast á skýlakönnun.
Þegar við klifruðum um borð upp hægri vænginn fór flugstjórinn fyrstur, því hann sat fremst vinstra megin, síðan var bakinu á hægra sætinu smellt fram fyrir þá sem áttu að komast aftur fyrir. Við stýrimennirnir fórum næst um borð og skipherrann, sem kom síðastur settist svo við hægri hlið flugstjórans. Vélin er lítil og þröng þannig að menn verða að fara um borð í þeirri röð sem þeir eiga að sitja og verða svo að sitja þar á sama hverjum andskotanum gengur. Taska sem við vorum með fyrir kort, mæli- og gæslugögn var á milli sætanna hjá okkur en nestistaska með kaffibrúsum, drykkjarmálum og nokkrum samlokum var höfð aftast.
Vélin hristist í startinu og upphitun á hreyflunum var látin duga um leið og keyrt var að norður enda flugbrautarinnar og snúið upp í vindinn. Síðan var hreyflunum gefið fullt afl svo flugvélin þaut af stað og í loftið þegar hún náði flugtakshraða.
Svona innarlega á nesinu var hálfskýjað norðan við Snæfellsnesfjallgarðsins þannig að snævi þakin fjöllin blöstu við framundan. Við tókum stefnuna suðvestur yfir Vatnaleiðina, sem nú er kölluð, og komum strax inn í éljaklakkana þegar yfir Snæfellsnesið var komið og inn í Faxaflóann. Skipherrann hafði ákveðið að við færum beint út að 12 mílna mörkunum vestur af Garðskaga, síðan fyrir Reykjanes og svo austur undir Eyjar, til að líta eftir skipum á því svæði. Þetta þýddi um 15 til 20 mínútna flug áður en eiginleg gæsla myndi byrja, sem ekki var betur notað en til að fá nesti, kaffibolla og snarl. Bað ég því þann sem sat aftast að rétta kaffibrúsann og samlokur frameftir vélinni. Um leið og ég sleppti orðinu sáum við hvar reykur liðaðist upp með framgluggum vélarinnar, ofan við mælaborðið. Það leyndi sér ekki að það var eldur laus í vélinni. Um leið fór Þórhallur flugstjóri að slökkva á öllum rafeindatækjum sem máttu missa sig vegna flugsins og sagði stundarhátt um leið, finnið bát. Sáum við samtímis bát milli éljanna, skipherrann og ég, sem sátum hægra megin, framundan og til hægri við vélina. Bennti skipherrann á bátinn og beygði flugstjórinn tafarlaust í átt að honum um leið og hann byrjaði að lækka flugið. Meiningin var að lenda vélinni á sjónum við bátinn til að eiga einhverja von um björgun, ef það næðist.
Hérna kom reykurinn upp.
Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvað þýtur í gegnum hugann á svona augnablikum, ef það er eitthvað, sem hlýtur að vera. Enginn tími var til að verða hræddur því hlutirnir gerast svo hratt undir svona kringumstæðum. Eru menn til dæmis enn að gera grín að því að út úr mér hrökk, um leið og ég fór að róta í gagnatöskunni, þar sem hún var við fæturna á mér, leitum skipulega að eldinum strákar. Þetta voru fyndin viðbrögð fyrir það að það leyndi sér ekkert hvaðan reykurinn kom, það var einhversstaðar bakvið mælaborðið, en ég hafði einhvernvegin á tilfinningunni að sígarettuglóð kynni að hafa fallið í töskuna því vaninn var að fá sér sígarettu með kaffinu. Enginn hafði þó kveikt sér í sígarettu þegar hér var komið sögu.
Reykjarsvælan fór nú hægt og rólega dvínandi, þegar slökkt hafði verið á öllum rafeindatækjum sem og miðstöðinni, sem seinna kom í ljós að kviknað hafði í og eftir að ljóst var orðið að ekki var lengur bráð hætta á ferðum bað flugstjórinn um stefnuna til Reykjavíkur. Var nú báturinn, sem við vorum á þessari stundu komnir niður undir, yfirgefinn og stefnan sett heim. Ég hef forðast að hugsa þá hugsun til enda hvernig hefði verið að nauðlenda á ísköldum sjónum, þótt bátur væri nærri, ef eldurinn hefði ekki verið slökktur. Við flugum til Reykjavíkur í grafarþögn og allir vorum við sýnilega fölir á vangann það sem eftir var leiðarinnar til Reykjavíkur. Enginn minntist á nestið, en nú kólnaði snarlega um borð þar sem miðstöðin var dauð og við léttklæddir. Ekki var viðlit að bæta á sig fötum vegna þrengslanna. Einu hljóðin sem heyrðust, fyrir utan gnýinn í hreyflunum, voru talstöðvarviðskiptin við flugturninn í Reykjavík, þegar við nálguðumst flugvöllinn og lentum í Vatnsmýrinni. Þótt enginn minntist á það var alveg klárt að okkur fannst að þarna hafi hurð skollið nærri hælum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2013 | 23:19
Hvað er rétt?
Ég las þessa frétt í Morgunblaðinu í morgun, er nefnilega enn áskrifandi. Í sama blaði las ég viðtal við starfsmann Sorpu sem sagði að nú væri farið að henda hlutum, eins og fyrir hrun, þótt þeir væru fyllilega nýtilegir. Fólk hendir meira en kaupir minna? Hvernig getur staðið á að hagvöxtur minnkar ef sóunin eykst?
Ásgeir Jónsson sem vitnað er í um minnkandi hagvöxt hefur ekki virkað á mig sem sannfærandi álitsgjafi síðan hann kom ítrekað fram fyrir greininardeild Kaupþings fyrir hrun.
Hagkerfið í hægagangi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2013 | 21:18
Er eldur um borð?
Skymasterflugvélin TF SIF á Akureyarflugvelli.
Það er ónotalegt þegar grunur vaknar um að eldur sé um borð í flugvél, allavega þar sem hann á ekki að vera. Bruni í flugvélum á að vera einskorðaður við hreyflana því þar gerir hann sitt gagn. Í þeim rúmlega 200 ferðum sem ég fór sem siglingafræðingur eða skipherra í gæslu-, könnunar-, leitar- og/eða björgunaflug á tímabilinu 1965 til 1971 lenti ég þó tvisvar í þeirri reynslu að það kviknað í. Sennilega er það þó þokkalega sloppið, miðað við þess tíma verkfæri og öryggiskröfur, því það er ekki nema í u.þ.b. 1% ferðanna.
Í fyrra skiptið var í raun um brandara að ræða, sem við hlógum að þegar veruleikinn kom í ljós, þótt alvara væri við völd meðan ekki var betur vitað, en í síðara skiptið fúlasta alvara.
Við vorum að fara til landhelgisgæslu til að líta eftir lögsögunni frá Hvalbak út af Berufirði, vestur með suðurströndinni og vestur fyrir land. Það var á Skymasterflugvél Landhelgisgæslunnar TF SIF (fjögurra hreyfla DC 4), með sjö tíma flugþol og sex menn í áhöfn. Flugstjóri, flugmaður, flugvélstjóri, skipherra, loftskeytamaður og undirritaður sem var siglingafræðingur. Komið var fram í maí 1967 og vorið búið að vera afspyrnu kalt og hafísinn farinn að sækja að norðurlandi. Var sérstaklega tekið fram að fært væri minni bílum fyrir Hvalfjörð, Borgarfjörð og um Snæfellsnes, en bara fært um Dalsmynni milli Akureyrar og Húsavíkur. Þegar við fórum í loftið frá Vatnsmýrinni hinn 17. maí var stíf norðanátt og var klifrað á IFR flugleið R1 sem leiðir austur á Ingolfshöfða og fengum við úthlutað 10.000 feta fluglagi. Flugið austur yfir landið var tíðindalaust og fallegt í bjartviðrinu sunnan hálendisins, en skýjabreiðan sem sást norður af hálendinu sagði allt sem segja þurfti um fýluna norðan heiða.
Þegar radiovitinn á Skarðsfjöru var þvert á stjórnborða fengum við heimild flugstjórnar til að lækka flugið í átt að Ingólfshöfða og eftir það að beygja til suð-austurs niður í sjónflugshæð yfir sjónum suð-austur af landinu. Við gerðum ráð fyrir að mikil ókyrrð yrði sunnan við Öræfajökul og því flutti skipherran sig, sem venjulega sat aftan við flugstjórann, í eitt farþegasætið aftan við sprengjumiðarann, sem var enn í vélinni þó seinni heimstyrjöldinni væri löngu lokið, og batt sig þar niður. Skildi hann hljóðnema og heyrnartólin fyrir innanvélartalfærin (intercominn) eftir við sæti sitt og var þar með sambandslaus við okkur hina. Við sátum hins vegar kyrrir í vinnusætunum niður njörvaðir, með intercomminn á okkur og snerum baki í skipherrann sem lét fara vel um sig í farþegasætinu.
Vélin skókst nú til með miklum látum meðan við fórum í gegnum ókyrrðarbeltið sunnan við Jökulinn og allt í einu gaus upp megn brunalykt eins og þegar bruni verður í rafmagnstækjum og samtímis fór af stað hröð atburðarás. Loftskeytamaðurinn öskraði í intercomminn það er kviknað í og flugstjórinn, sem fann brunalyktina um leið, svaraði um hæl slökkvið tafarlaust á öllum rafeindatækjum sem við megum missa. Var nú mikið takkafjör þegar slökkt var á hverju rafeindatækinu á fætur öðru. Þegar ég var búinn að slökkva á öllu sem ég náði til leysti ég sætisólina til að standa upp og sækja slökkvitæki sem var rétt aftan við sætið mitt. En um leið og ég leit á skipherrann, þar sem hann sat hinn rólegasti í farþegasætinu, sá ég eldsvoðann. Skipherrann, sem var sambandslaus eins og áður sagði, var í mestu makindum að bræða munnstykkið á pípunni sinni með loganum frá Zippó kveikjara, þannig að frá því lagði bláa reykjarslæðu sem barst um alla vél með tilheyrandi brunasvækju. Hann var að horfa út um gluggann um leið og hann var að bræða munnstykkið og hafði ekki hugmynd um hamaganginn sem hann var búinn að setja af stað með bræðsluvinnunni. Þegar sannleikurinn var öllum ljós slaknaði fljótt á allri spennu og var hlegið að öllu.
Framhaldið var svo venjubundin gæsla og lent aftur 5 klst. síðar.
Ég ætla að segja frá næsta eldsvoða í næsta pistli.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2013 | 20:59
Sóun.
Velferðin grundvallast á hagvexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2013 | 14:42
Ásahverfi?
Hafði aldrei öðlast ökuréttindi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.5.2013 | 10:02
Röng myndbirting
Lýsa megnustu andúð á uppsögnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2013 | 10:21
Hver borgar vaxtabæturnar.
Ég sá greinina hans Hrafns þegar ég var á hlaupum í leikfimi. Hann vill efla vaxtabætur í stað afnáms verðtrygginga. Hverjir greiða vaxtabæturnar, ríkissjóður er það ekki og þá við skattborgararnir? Er ekki vbaxtabótakerfið bótakerfi fyrir banka, lífeyrissjóði og aðra lánveitendur ef svo er?
Fyrst eru lántakendur vaxta og verðbótapíndir svo kemur ríkissjóður og endurgreiðir þeim píndu vaxtaokur lánveitenda.
Er ég nokkuð að misskilja. Hvernig væri að lánastofnanir fengju að keppa í friði um vaxtakjörin á lánamarkaði?
Verjum sparnað landsmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.3.2013 | 20:45
Óðinn, björgun og barátta í 50 ár.
Myndin er af varðskipinu Þór við bryggju á Seyðisfirði eftir að hafa þjónað Seyðfirðingum með vistir á 7. áratug síðustu aldar.
Á bls. 61 til 62 í bókinni Óðinn björgun og barátta í 50 ár er eftirfarandi klausa:
25. til 27. janúar (1966) var Óðinn sendur með forseta Íslands, ráðherra og listamenn til Ísafjarðar. Var snarvitlaust veður allan tímann og lenti skipið í vandræðum vegna ísingar en kláraði sig auðvitað af verkefninu. Eftir þá ferð slitnaði Óðinn frá Ingólfsgarði í Reykjavík í ofsaveðri, og 31. janúar var siglt í aftakaveðri suður fyrir land og á Norðfjörð til að flytja lækni í vitjanir til fólks á Austfjörðum. 2. febrúar voru lestaðir 10 símastaurar á Djúpavogi til að gera við símalínuna til Borgarfjarðar eystri, sem hafði gefið sig í veðurofsa. 5. febrúar var Óðinn sendur inn á Mjóafjörð til að athuga með íbúa fjarðarins, en ekkert samband hafði verið við Mjóafjörð í heila viku og því talið brýnt að athuga með íbúa þar. Þegar ljóst var að allt var í lagi með íbúana og fólk hafði verið aðstoðað við að koma brýnum boðum frá þeim og til um talstöð skipsins, var stefnan sett á Loðmundarfjörð til að athuga með fólk þar líka. Skipið var nú við ýmis störf við Austur- og Suðurland, flutti m.a. mjólk til Seyðisfjarðar, sem var einangraður vegna snjóa, aðstoðaði breskan togara með læknisaðstoð frá Norðfirði og tók fjóra togbáta að ólöglegum veiðum út af Suðausturlandi.
Þetta var þegar fátæk þjóð gat gert út varðskip.
Íbúar Seyðisfjarðar enn innlyksa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2013 | 16:35
Hvar eru varðskipin?
Sú var tíðin þegar ég starfaði hjá Landhelgisgæslunni að varðskip fluttu oft vistir á einangraða staði ef veður hamlaði öðrum flutningum. Hvar eru varðskipin nú og hvar voru varðskipin þegar rafstöðvar voru að verða olíulausar á Vestfjörðum og heilu byggðarlögin að verða sambandslaus. Varðskip eiga að geta bjargað öllum þessum málum til bráðabirgða og gerðu t.d. á hafísárunum og oft í illviðrum.
Höfum við ekki efni á að gera út skip sem geta brugðist við vanda.
Dagvörur að klárast í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar