Eldur um borð í TF BAA

Flugvélin TF BAA

Flugvélin TF BAA

Ég man að mér var svolítið kalt í suðvestan áttinni, þó hún væri hæg, á flugvellinum á Stykkishólmi, þennan nóvembermorgun undir hádegi, árið 1969. Enda var vægt frost og við illa klæddir. Við stóðum við Piper Apache flugvélina TF BAA, sem Landhelgisgæslan var með á leigu til gæslustarfa. Skymastervélin TF SIF sem sagt var frá í fyrri pistli og sem Landhelgisgæslan átti, var of dýr í rekstri fyrir fátækann ríkissjóð, en það var kreppa og atgerfisflótti í kjölfar síldarhunsins.

Við vorum fimm. Flugstjórinn, skipherrann og þrír stýrimenn sem voru siglingafræðingar í gæsluflugum. Tilgangur flugsins var nú um margt óvenjulegur: Við vorum nefnilega að leita að skýlum gegn geislavirku úrfelli frá hugsanlegri kjarnorkuárás, fyrir almannavarnir. Við stýrimennirnir hefðum ekki þurft að vera nema einn vegna gæslustarfanna, en við þessir þrír vorum búnir að vera á sérstöku námskeiði hjá einum virtasta prófessor í kjarneðlisfræði, í að finna og reikna út skýli fyrir almenning til að nota ef geislavirkt úrfall ógnaði lífi og heilsu eftir kjarnorkuárás (því það var jú kalt stríð í algleymingi í heiminum og Ísland fór ekkert varhluta af því). Við vorum búnir að kortleggja og reikna út skýlishæft húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, miðað við gefnar forsendur í kjölfar kjarnorkuárásar. Nú vorum við þremenningarnir að skrá það húsnæði hringinn í kringum landið, sem hugsanlega mætti eyða tíma í að reikna út í þessum tilgangi. Þar sem okkur var uppálagt að villa á okkur heimildir við skýlakönnunina var hins vegar kjörið að annast í leiðinni Landhelgisgæslu með SV ströndinni og nota gæsluferðina til að lenda á Stykkishólmi, og skrá þau hús sem borgaði sig að eyða „frekara púðri í.“ Við gátum sagst vera í gæslu en þurftu ekki að minnast á skýlakönnun.

Þegar við klifruðum um borð upp hægri vænginn fór flugstjórinn fyrstur, því hann sat fremst vinstra megin, síðan var bakinu á hægra sætinu smellt fram fyrir þá sem áttu að komast aftur fyrir. Við stýrimennirnir fórum næst um borð og skipherrann, sem kom síðastur settist svo við hægri hlið flugstjórans. Vélin er lítil og þröng þannig að menn verða að fara um borð í þeirri röð sem þeir eiga að sitja og verða svo að sitja þar á sama hverjum andskotanum gengur. Taska sem við vorum með fyrir kort, mæli- og gæslugögn var á milli sætanna hjá okkur en nestistaska með kaffibrúsum, drykkjarmálum og nokkrum samlokum var höfð aftast.

Vélin hristist í startinu og upphitun á hreyflunum var látin duga um leið og keyrt var að norður enda flugbrautarinnar og snúið upp í vindinn. Síðan var hreyflunum gefið fullt afl svo flugvélin þaut af stað og í loftið þegar hún náði flugtakshraða.

Svona innarlega á nesinu var hálfskýjað norðan við Snæfellsnesfjallgarðsins þannig að snævi þakin fjöllin blöstu við framundan. Við tókum stefnuna suðvestur yfir „Vatnaleiðina,“ sem nú er kölluð, og komum strax inn í éljaklakkana þegar yfir Snæfellsnesið var komið og inn í Faxaflóann. Skipherrann hafði ákveðið að við færum beint út að 12 mílna mörkunum vestur af Garðskaga, síðan fyrir Reykjanes og svo austur undir Eyjar, til að líta eftir skipum á því svæði. Þetta þýddi um 15 til 20 mínútna flug áður en eiginleg gæsla myndi byrja, sem ekki var betur notað en til að fá nesti, kaffibolla og snarl. Bað ég því þann sem sat aftast að rétta kaffibrúsann og samlokur frameftir vélinni. Um leið og ég sleppti orðinu sáum við hvar reykur liðaðist upp með framgluggum vélarinnar, ofan við mælaborðið. Það leyndi sér ekki að það var eldur laus í vélinni. Um leið fór Þórhallur flugstjóri að slökkva á öllum rafeindatækjum sem máttu missa sig vegna flugsins og sagði stundarhátt um leið, „finnið bát.“ Sáum við samtímis bát milli éljanna, skipherrann og ég, sem sátum hægra megin, framundan og til hægri við vélina. Bennti skipherrann á bátinn og beygði flugstjórinn tafarlaust í átt að honum um leið og hann byrjaði að lækka flugið. Meiningin var að lenda vélinni á sjónum við bátinn til að eiga einhverja von um björgun, ef það næðist.

tf_baa_2.jpg

Hérna kom reykurinn upp.

Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvað þýtur í gegnum hugann á svona augnablikum, ef það er eitthvað, sem hlýtur að vera. Enginn tími var til að verða hræddur því hlutirnir gerast svo hratt undir svona kringumstæðum. Eru menn til dæmis enn að gera grín að því að út úr mér hrökk, um leið og ég fór að róta í gagnatöskunni, þar sem hún var við fæturna á mér, „leitum skipulega að eldinum strákar.“ Þetta voru fyndin viðbrögð fyrir það að það leyndi sér ekkert hvaðan reykurinn kom, það var einhversstaðar bakvið mælaborðið, en ég hafði einhvernvegin á tilfinningunni að sígarettuglóð kynni að hafa fallið í töskuna því vaninn var að fá sér sígarettu með kaffinu. Enginn hafði þó kveikt sér í sígarettu þegar hér var komið sögu.

Reykjarsvælan fór nú hægt og rólega dvínandi, þegar slökkt hafði verið á öllum rafeindatækjum sem og miðstöðinni, sem seinna kom í ljós að kviknað hafði í og eftir að ljóst var orðið að ekki var lengur bráð hætta á ferðum bað flugstjórinn um stefnuna til Reykjavíkur. Var nú báturinn, sem við vorum á þessari stundu komnir niður undir, yfirgefinn og stefnan sett heim. Ég hef forðast að hugsa þá hugsun til enda hvernig hefði verið að nauðlenda á ísköldum sjónum, þótt bátur væri nærri, ef eldurinn hefði ekki verið slökktur. Við flugum til Reykjavíkur í grafarþögn og allir vorum við sýnilega fölir á vangann það sem eftir var leiðarinnar til Reykjavíkur. Enginn minntist á nestið, en nú kólnaði snarlega um borð þar sem miðstöðin var dauð og við léttklæddir. Ekki var viðlit að bæta á sig fötum vegna þrengslanna. Einu hljóðin sem heyrðust, fyrir utan gnýinn í hreyflunum, voru talstöðvarviðskiptin við flugturninn í Reykjavík, þegar við nálguðumst flugvöllinn og lentum í Vatnsmýrinni. Þótt enginn minntist á það var alveg klárt að okkur fannst að þarna hafi „hurð skollið nærri hælum.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband