Mummi kemur ekki fram

Odinn1Framhald frá í gær: 

Laugardagurinn 10. okt. leið með snarvitlausu veðri frá hádegi og fram eftir kvöldi og kl. 03:00 aðfararnótt sunnudagsins 11. okt. fengum við skeyti um að m/b Mummi frá Flateyri væri týndur, en síðast heyrðist frá bátnum kl. 12:30 á laugardeginum og var hann þá að draga línuna um 9 sml. NV af Barða. Reyndar fréttist líka að Snæfellið frá Flateyri væri einnig týnt, en það var á leið frá Akureyri til Flateyrar og hafði síðast heyrst til þess í Húnaflóa. En okkur var ekki til setunar boðið, út skyldi haldið til leitar og það strax. Var boðum um það komið til dómara og lögmanna ásamt því að við myndum gefa "frat" í allar takmarkanir á notkun siglingatækja. Þegar verjandi fékk boðin, ný vaknaður og um hánótt, ætlaði hann í fyrstu að malda í móinn en þegar hann hafði áttað sig á alvarleika málsins hrökk út úr honum "ég fer með". Fulltrúi saksóknara fékk svo sömu boð og að verjandi hafi ákveðið að fara með skipinu í leitina, til að fylgjast með að við færum ekki að "gramsa" eitthvað í tækjunum og tók samstundis ákvörðun um að fara líka með. Því voru óvænt tveir lögfræðingar um borð þegar landfestum var sleppt kl. 03:50, sem trúlega höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru að fara útí, því ferð um borð í varðskipinu Óðni á fullu í haugasjó út á leitarsvæði var eitthvað sem "farþegum" var ekki að jafnaði boðið uppá. Óðnn var kröftugt skip en einnig mjög stífur, þannig að í stað þess að velta sér á báru, eins og skip eiga að gera þegar þeim er beitt af alúð góðrar sjómennsku, þá rótaðist hann í hverja báru "bölvandi og ragnandi, eins og naut í flagi", þegar hraustlega þurfti að keyra, eins og nú var gert.

Strax á Prestabót var skipið sett á fulla ferð. Þétt snjómugga sá til þess að ljósin í Ísafjarðarbæ hurfu svo til samstundis í sortann afturundan. Farið var út með Hnífsdal, Óshlíð, Bolungarvík og Stigahlíð, sem voru ósýnileg með öllu nema sem græn og gul glóð á radarskermum stjórpallsins. Þegar farið var fyrir Bolafjall var byrjað að mæta úthafsöldunni sem leiddi inn með Stigahlíðinni. Veðrið var að ganga niður en sjórinn þurfti lengri tíma til að jafna sig. Þegar hér var komið var ég steinsofnaður niðri í káetu III. stýrimans, við þungan nið vélanna og snögga kippi skipsskrokksins þegar aldan var að klappa Óðni um kinnung.

Ég glaðvaknaði þegar slegið var af vélunum um átta leytið um morguninn. Við vorum komnir á þann stað sem síðast var vitað um Mumma og leitin hafin suður á bóginn. Ákvað ég að klæða mig og fara í morgunmat í messanum þótt aðeins þriggja tíma svefn væri að baki. Að fá bacon og egg, sem aðeins var á sunnudagsmorgnum, var munaður sem ég vildi ekki sleppa. Ekkert hafði sést til lögfræðinganna, sem hurfu til koju skömmu eftir að við fórum frá Ísafirði, en fréttir hermdu að verjandinn væri illa haldinn af sjóveiki en saksóknari bæri sig skömminni betur. Veður var orðið ágætt og hreyfing lítil á rólegu lensi suður með fjörðunum. Kl. 10:30 var siglt fram á brak sem við nánari skoðun var, svo ekki var um villst, úr m/b Mumma. Var staður þess 11.7 sml. frá Kópanesi og 8.3 sml. frá Blakk. Var það talsvert sunnar en sá staður sem Mummi hafði verið þegar hann hafði samband kl. 12:30 daginn áður. Ljóst var nú að hér hafði orðið harmleikur og eina vonin til að menn fyndust á lífi að þeir hefðu komist í lífbát. Var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynnt um fundinn og skömmu síðar fór gæsluflugvélin TF SIF í loftið til leitar. Leitinni var hagað þannig að dregin var lína frá þeim stað sem brakið fannst, undan NA vindstefnu sem ríkt hafði frá skipstapanum þ.e.a.s. til SV. Síðan voru flognar línur 90° á hana fram og aftur, með upphafslínu um fundarstað braksins. Voru hafðar 2 sml. milli lína og þær lengdar visst eftir því sem fjær dró upphafslínunni, þannig að leitarsvæðið varð "trapisulagað" með toppinn í upphafslínu leitarinnar. Eftir að við höfðum innbyrt brakið, sem tók svolítinn tíma, sigldum við svo á hægri ferð eftir miðlínu trapisunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband