Prince Philip tekinn

Odinn2Varðskipið Óðinn er nú almenningi til sýnis hjá Sjóminjasafninu Víkinni í Reykjavík, enda orðinn hluti af því 

Þessi atburður fjallar um ósköp hversdagslega togaratöku á Íslandsmiðum milli þorskastríða og fyrir tíma Loran C tækni og GPS, enda má lesa í dagblaðinu Vísi, sama dag og atburðurinn gerðist, "Fyrsti rafheilinn kominn, vinnur verk hundraða skrifstofumanna". Var það frétt um fyrstu tölvuna sem kom til Íslands og er þessi pistill skrifaður á nýrri gerð af því sem þeir kölluðu "rafheila". Næsti pistill um þetta efni fjallar svo um átökin í réttarsalnum sem óvænt voru rofin með leitar- og björgunarleiðangri þar sem varðskipsmenn voru vaktaðir af saksóknara og verjanda, og siglingatækin innsigluð vegna réttarhagsmuna.

Við fórum frá Reykjavík kl. 14:00 og settum stefnuna beint fyrir Jökul og svo áfram fyrir Bjargtanga. Framundan var gæsla við Vestfirði. Þetta var í októberbyrjun 1964 og ég var III stýrimaður um borð í varðskipinu Óðni. Ég var að fara síðasti túrinn í bili því svo átti ég að fara beint í "Lordinn", en svo er viðbótarnám skipstjóraefna á varðskipum ríkisins kallað.

Ég var á vakt fyrstu tvo tímana eftir brottför, aftur milli 18:00 og 18:30 og nú átti ég að fara að leysa af yfirstýrimanninn kl. 23:30 og taka við stjórn skipsins. Ég gerði mig því klárann fyrir vaktina og fór svo upp í messa til að fá mér kaffi og snarl, grunlaus um hvað biði framundan næstu klukkustundir og daga. Líf á varðskipi er nefnilega allgjör óvissa og það eina sem er víst er að maður þarf að vera tilbúinn í hvað sem er, hvenær sem er og næstum hvar sem er. Ég hafði t.d. ekki hugmynd um að yfirstýrimaðurinn var á þessari stundu búinn að taka eftir endurvarpi á radarinn, sem var innan við 12 sml. mörkin út af Barða. Þegar ég kom upp í messann var hann að taka næstu staðarákvörðun á endurvarpinu og einnig öðru endurvarpi til, sem hann var búinn að uppgötva rétt hjá. Hann var búinn að hringja í skipherrann sem var kominn upp í brú til að fara yfir stöðuna. Þriðja staðarákvörðunin var tekin kl. 23:21, eða um sama leiti og ég, og hásetarnir tveir sem voru á leið með mér á vaktina, vorum að gæða okkur á smurðu brauði í messanum. Það var komin ró yfir skipið, flestir gengnir til náða, gott veður og lítil hreyfing eins og ætíð á þeim 11 sml. hraða sem var oftast notaður á eftirlitsferðum.

Þegar við vorum að ganga frá eftir okkur í messanum heyrðist að vélarnar juku skyndilega snúnigshraðann, síðan skókst skipið stafna á milli þegar snúningshraðinn fór yfir "hristipunktinn", rétt undir hámarkshraða. Samtímis glumdi við skerandi hávaði frá útkallsbjöllnum um allt skip, feiknaleg hark og gelt heyrðist þegar skipstíkin Freyja "fór á límingunum" í herbergi bátsmansins, en þar var hennar bæli (Freyja brjálaðist alltaf við útkallsbjöllurnar). Einnig heyrðist að hurðum var svift upp í klefum þeirra áhafnarmanna sem enn voru vakandi. Hásetarnir, sem voru á leið með mér á vaktina, voru horfnir áður en ég vissi af, því þeim voru ætluð önnur skyldustörf við útkallið "klárt skip", en ég tók hins vegar sprettinn upp stigana og inn í brú. Þótt fimm metra langur gangurinn fyrir aftan brúnna væri alltaf hafður myrkvaður til að aðlaga sjónina fyrir myrkrið í brúnni kom ég svo til blindur inn vegna flýtisins. "Gott kvöld" sagði ég um leið og ég snaraðist beint inn í kortaklefann bakvið brúnna og heyrði á bak mér hása rödd skipherrans þegar hann svaraði "kvöldið". "Honnör" var ekki gefinn núna því enginn hefði hvort sem er séð það.

Um leið og ég kom inn í kortaklefann, þar sem yfirstýrimaðurinn stóð við radarinn, sagði hann hvasst, "taktu kjaftabókina, komdu að radarnum, staðfestu og skráðu". Ég horfði á hann stilla miðunarlínu radarsins á eitt af nokkrum endurvörpum sem lýstu á radarskjánum, færa svo fjarlægðarhringinn þar til hann fór yfir endurvarpið og svo las hann upp hátt og skýrt "skip II r.v. 342,5°, fjarl. 10.85". Síðan lét hann fjarlægðarhringinn eldsnöggt  snerta Fjallaskaga  og las af fjarlægðarmælinum 11.11 og svo snerta Kóp sem mældist í 5.25 sml. Með því að framkvæma mælinguna í þessari röð verður hreyfing varskipsins í þær sekundur sem mælingin tekur, meintum landhelgisbrjót í hag. Um leið og ég leit á klukkuna yfir kortaborðinu og skráði tímann 23:28 heyrði ég hann segja "þú staðfestir rétt mælt"?. "Já" svara ég, "settu svo út" segir hann. "Skip II" hugsaði ég um leið og ég fór að kortaborðinu til að setja stað okkar og skipsins sem við vorum að mæla, út í sjókortið. Sá ég að búið var að setja út 3 staðsetningar á skipi sem kallað var nr. I og að þetta var þriðja staðsetningin á skipi II sem ég var nú að setja út í kortið. Þessi mæling á skipi II yrði sú fyrsta sem stæðist fyrir rétti, því við vorum tveir við hana. Þegar ég hófst handa við að setja út í kortið snaraðist 2. stýrim. inn úr dyrunum á kortaklefanum og kom beint að kortinu til að fylgjast með útsetningunni. Hann hafði verið í fastasvefni þegar bjöllurnar gullu. Nú var fullskipað lið í brúnni samkvæmt því skipulagi sem unnið var eftir í aðför að skipum.

Í aðför að meintum landhelgisbrjótum var oft miðað við að hafa  6 mín. þ.e. 1/10 úr klst. milli staðarákvarðana til þæginda við hraðaútreikning. Yfirstýrimaður mældi, II stýrim. fylgdist með og staðfesti að rétt væri mælt, en III. stýrim. skráði tímann og mælingarnar niður og setti út í kortið. Skipherrann var þá tekinn við stjórn skipsins og fylgdist jafnframt með í kortinu eftir því sem staðsetningarnar birtust hver af annarri. Á milli mælinga fóru svo stýrimennirnir fram í brú til að reyna að sjá skipið sem fyrst því mjög áríðandi var að sjá hvort það snéri með skut, stefni, til stb. eða bb. frá varðskipinu séð, hvort það hefði uppi ljós- eða dagbendingar sem segðu til um hvað það væri að gera og hvort veiðarfæri sæust í sjó. Allt var þetta skráð og tímasett um leið og tveir eða fleiri gátu staðfest að þeir sæju það sama. Á sama tíma og allt þetta gekk fyrir sig í brúnni voru tveir hásetar að paufast í myrkrinu fram á fallbyssupallinum þar sem þeir voru að taka yfirbreiðsluna af byssunni og koma fyrir kassa af skotfærum. Aftur á bátadekki voru aðrir hásetar að gera Zodiacbát klárann til að fara á yfir í togarann þegar þar að kæmi og í talkerfinu heyrðist í hásetum sem voru að gera klára bauju til að setja út í kjölfar togarans, þegar komið yrði að honum, þannig að mæla mætti staðinn upp betur ef þörf krefði. Loftskeytamaðurinn var kominn að sínum tækjum tilbúinn að hafa samband við togarann, stjórnstöð eða herskip eftir atvikum, en þau voru enn á vakt við Íslandsstrendur þótt 12 sml. þorskastíðinu væri lokið. Yfirvélstjóri var tekinn við yfirumsjón með vélstjórninni. 2. vélstjóri gerði sig klárann til að fara yfir í togarann ásamt smyrjara til að keyra vélar ef togaramenn myndu stræka og brytinn var kominn í eldhúsið til að taka til nesti fyrir þá sem myndu fara yfir í togarann og sigla honum í land. Varðskipsmenn máttu ekki þiggja veitingar af torgaramönnum eftir handtöku vegna hættu á að þeim væri byrluð ólyfjan. Þeir urðu að vera sjálfum sér nógir með allt.

Þetta kvöld gekk allt fyrir sig samkvæmt venju, mælingarna voru gerðar reglulega hver af annarri og fljótlega sáust ljósin á skipunum sem voru að veiðum út af Barðanum, sem er á milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar. Kl. 23:41 mældist enn einn togari, sem fékk mælingarnúmerið IV í r.v. 359° og 10 sml. fjarlægð og samtímis var fjarlægðin í Fjallaskaga mæld 10.55 sml. og í Kóp 9.2 sml. Var hann afgerandi lengst innan við 12 mílna mörkin og var aðförinni nú beint að honum einum. Dómsreynsla var komin fyrir því að hæpið var að taka fleiri en einn togara, þótt fleiri væru fyrir innan línu, því dómarar litu svo á að í hvert sinn sem athyglin beindist frá einu skipi yfir á annað, þá rofni eftirförin, en það mátti hún alls ekki gera. Frá því að skip uppgötvast innan landhelginnar og þar til búið er að "taka það höndum" má eftirförin aldrei rofna.

Kl. 23:44 þegar um 9 sml. voru í skip IV var byrjað að morsa á það með ljóskastara stafinn "K" sem þýðir "stöðvið tafarlaust". Haldið var áfram að mæla stað skipanna kl. 23:47, 23:53, 00:06 og 00:12, auk þess sem á milli mælinga var sent "K" merkið viðstöðulaust á skipið. Kl. 23:54 sást að togarinn var með logandi rauða togljósið og voru þá 7 sml. í togarann. Þessi atriði, ljósmorsið og hvenær við sáum togljósið á togaranum, áttu eftir að setja mark sitt á réttarhöldin sem framundan voru, en þau urðu bæði löng og erfið þar sem mörgum álitamálum var velt upp. Kl. 00:14 stöðvaði skipherrann á Óðni varðskipið við hlið togarans sem reyndist bera nafn eiginmans hennar hátignar Elisabetar drottningar, "Prince Philip FD 400". Var þessi nafni drottningarmannsins að toga með stb. vörpu í sjó og kominn rétt út fyrir 12 sml. mörkin þegar við komum að. Hann þráaðist við í byrjun með að stöðva og hélt áfram að toga til kl. 00:21 en þá var slegið úr blökkinni og byrjað að hífa inn trollið.

Þegar hér var komið sögu var Zodiacbáturinn kominn á flot við bb. síðuna á Óðni og sagði skipherra mér nú að fara niður og gera mig klárann að fara yfir í togarann með tveim hásetum og sækja skipstjórann, en koma við uppi í brú áður. Snaraðist ég með það sama niður í káetu og vippaði mér í föðurlandsbrækur sem ég hafði tröllatrú á ef ég dytti í sjóínn, þykka peysu og tók með mér góða úlpu og fór svo upp í brú. Þegar þangað var komið rétti skipherrann mér 38 Cal. Colt skambyssuna (eina af þeim sem hann geymdi sjálfur) ásamt tilheyrandi belti og pakka af skotum. Byrjaði ég á því að gyrða mig beltinu, tók síðan skambyssuna, sem er með sex skota tromlu og stakk 5 skotum í hana en skildi fyrsta gatið sem kæmi í skotstöðu viljandi eftir tómt, en það var öryggisráðstöfun sem við gerðum þannig að engin hætta væri á að maður skyti úr byssunni nema að mjög yfirveguðu ráði. Með þessu var tryggt að ef haninn yrði spenntur færi tóma gatið fyrst í skotstöðu, en ef skjóta ætti með því að taka bara í gikkinn varð að gera það tvisvar í fyrsta skiptið. Það sem var e.t.v. merkilegast við þennan vopnaburð var að það voru yfirleitt III stýrimenn sem voru látnir fara vopnaðir yfir í togara án nokkurrar þjálfunar í meðhöndlun skambyssu, sú þjálfun var ekki veitt fyrr en í "Lordinum". Eldri stýrimenn "með Lordinn" voru reyndar búnir að leiðbeina manni stuttlega hvernig ætti að meðhöndla hana, maður vissi að byssuna ætti aðeins að nota í nauðvörn og þá til að skjóta beint á þann sem ógnar lífi mans. En nú var ég klár til að fara yfir og fór því rakleitt niður í Zodiacinn.

Við vorum fjórir sem fórum yfir í togarann, sem var enn að hífa vörpuna. Um leið og Zodiacinn sveigði frá varðskipinu fann maður þessa einsemdartilfinningu sem sækir að á svona litlu horni út í ballarhafi með stefnuna beint til skips þar sem maður veit fyrirfram að maður er óvelkominn. Við fórum aftur fyrir togarann, vel laust af honum til að vera örygglega fríir af togvírunum og renndum svo fram með bb. síðunni á honum. Enginn var til að taka á móti þannig að nú varð að komast hjálparlaust um borð. Listin fólst í því að renna að síðu togarans á öldu þannig að maður næði stökki inn fyrir borðstokkin með fangalínu bátsins í kjaftinum. Þá var eftirleikurinn léttur og gekk þetta eins og í sögu, enda veður ágætt. Við vorum þrír komnir um borði í togarann áður en hendi væri veifað og tókum strikið upp í brú þar sem rannsóknar var ekki þörf á dekki en varpan var að koma úr sjó. Enginn togarasjómaður var sýnilegur, allir að sinna trollinu.

Þegar í brúnna kom sá ég strax hvar skipstjórinn stóð við stb. brúargluggann og fylgdist með störfum sinna manna á dekkinu. Byrjaði ég á að heilsa og kynna mig sem og strákana sem voru með mér og tók annar þeirra sér stöðu bb. megin í brúnni en hinn miðsvæðis. Tjáði ég skipstjóranum að hann væri "handtekinn" grunaður um að hafa verið að veiðum innan 12. sml. mörkin og sagðist ég vera kominn til að bjóða honum að koma yfir í Óðinn til að fara yfir okkar athuganir. Í fyrstu virtist hann ekki ætla að virða mig viðlits en þegar ég sagði honum að hann yrði hvort eð er að fylgja varðskipinu til hafnar varð hann allt í einu samvinnuþýður og samþykkti að koma með okkur yfir í Óðinn. Tók hann til skipspappírana, fól stýrimanni sínum stjórnina um borð og kom í Zodiacinn, sem enn dólaði við hlið togarans. Skildi ég hásetana tvo eftir um borð í togaranum. Þegar við komum um borð í Óðinn var skipstjóranum sýndar allar athuganir sem við gerðum á skipi hans og farið yfir tímasetningar á öðrum atburðum aðfararinnar. Fékk hann tækifæri til að koma með athugasemdir ef einhverjar væru sem hann gerði ekki. Var honum nú sagt að farið yrði með hann til Ísafjarðar þar sem mál hans yrði tekið fyrir og var mér sagt að fara aftur með skipstjórann um borð í skip sitt og fara síðan með togaranum inn til Ísafjarðar. Eftir að búið var að búlka veiðarfæri togarans og búið að taka Zodiacinn um borð í Óðinn var svo haldið af stað inn til Ísafjarðar. Var það tíðindalaus sigling og komið snemma um morguninn til Ísafjarðar þar sem togaranum var lagt utaná varðskipið við hafskipabryggjuna úti á Tanganum.

Framundan voru löng og ströng réttarhöld, skyndilegur björgunarleiðangur með innsigluð siglingatæki, verjanda og saksóknara um borð, allt vegna réttarhagsmuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband