166. Titanic átti ekki heldur að geta sokkið.

Vor 2008 104 Myndir er tekin í brælunni, eins og sjá má er sjókortið komið í sófann ásamt útsetningargræjunum, hluti skorðaðir ofan við sófann og hvítt löður ágjafarinnar sést út um gluggann. 

Við sigldum frá San Remo eldsnemma að morgni 16. maí s.l. með stefnuna austur með ströndinn og inn í Genoa flóann. Hægur andvari var á sunnan, loft frekar þungbúið og hlýtt, en verðurspá góð fyrir daginn, en þó átti veður að versna seinnipartinn. En við áætluðum að vera í Genoa um kl. 14:30, svo við töldum okkur vera vel fyrir veður. Á leiðinni eru líka hafnir með innan við 10 sjóm. millibili sem hægt væri að flýja inn í ef eitthvað kæmi uppá.

Eftir um kl. tíma siglingu fór ölduhæð að vaxa og þegar við fórum framhjá San Lorenzo var farið að gefa á þannig að aðeins þurfti að draga úr ferðinni en við héldum þó 15 hnúta hraða. Frú Lilja fór nú í að skorða hluti betur en hún gerir venjulega við brottför.

Þegar við nálguðumst Mele höfðann, skammt vestan við Andora, fór sjólag að verða mjög óreglulegt auk þess sem farið var að hvessa af suðri og himininn orðinn blýgrár. Tók frú Lilja það ráð að skorða sig af við enda káetuborðsins og koma sér eins vel fyrir og aðstæður leyfa. Sagði ég henni að ég teldi að sjólagið myndi lagast þegar við kæmum fyrir höfðann, sem stóðst að litlu leiti í skamma stund, en eftir því sem við komum lengra austur með ströndinni jókst óreglan í sjólaginu og ölduhæð varð meiri. Meginaldan af hafi kom á stb. hlið hjá okkur auk þess sem mikil frákastsalda kom frá ströndinni þar sem hún er klettótt, en með ströndinni skiptast á klettar og sendnar baðstrendur sem nú voru mannlausar að mestu. Það var orðið mikilvægt að hafa allan huga við stjórnina á bátnum og þurfti ítrekað að taka með lagni ölduhnúta, þar sem haföldunni og frákastöldunni laust saman, til að vel færi um bát og fólk. Við Noli höfðann og allar götur austur að borginni Vado gekk þó nokkuð á og varð ég var við á leiðinni að ekkert heyrðist í frú Lilju, en eins og áður hefur verið sagt frá, er eitthvað alvarlegt á seyði ef hún þegir lengi. Varð mér litið augnablik til hennar þar sem hún sat aftan við káetuborðið og hélt sér traustataki þar. Sá ég að henni var alls ekki sama svo ég segi án þess að hugsa "þetta er allt í lagi elskan, báturinn er ekkert á leiðinni að sökkva, þetta er bara leiðinda læti sem verða fljótt búin". Það stóð ekki á svarinu þegar frú Lilja sagði hvasst á móti "TITANIC ÁTTI EKKI HELDUR AÐ SÖKKVA". Ég verð að játa að ég varð um stundarsakir kjaftstopp en síðan fylltist ég óverðskulduðu stolti þegar ég hugsaði "hún jafnaði bátnum okkar við Titanic, það munar nú um minna".

Það verður að játa að við vorum orðinn ansi þreytt á látunum þegar hér var komið sögu og þegar við komum að borginni Savona stakk ég uppá við frú Lilju að við renndum þangað inn og tækjum eina nótt þar. En akkúrat þegar ég hafði sleppt orðinu birti aðeins upp til austurs og sáum við hvar Genoaborg breiddi úr sér við sjóndeildarhringinn framundan. Ég var fegin að það var frú Lilja sem sagði þá "nei við skulum halda áfram og ljúka þessum legg af, illu er best aflokið". Samsinnti ég því glaður.

Þegar komið er að Genoaborg úr VNV er komið fyrst að hafnargörðum flutninga- og olískipahafnarinnar þar sem risa gámaskip og olíuskip eru algeng sjón og voru nokkur á leið út og inn þegar við komum að. Skemmtibátum og snekkjum er bannað að fara þeim megin inn, nema þeir ætli að fara beint í litla skemmtibátahöfn sem er inn af olíuskipahöfninni. Tókum við stefnuna austur með þessum hafargörðum og var nú veðrið orðið verulega slæmt fyrir okkar 11 m. bát auk þess sem utan við garðana voru legubaujur fyrir olíuskip sem ekki komast inn í höfnina og mikið frákast var frá hafnargarðinum. Næst tók við 4 sjóm. garður sem liggur meðfram alþjóðaflugvellinum í Genoa, en flugbrautin liggur eftir höfninni endilangri að utanverðu og var þessi sigling þar til komið var að hafnarmynninu sem við máttum far inn í allt í allt um 6 sjóm. löng. Veðrið var nú orðið virkilega vont svo við urðum að draga verulega úr ferð og ekki var undan því vikist að frú Lilja tæki við stjórninni smástund á þessum erfiða kafla til að helypa undirrituðum á klósettið. Tók siglingin meðfram höfninni og flugvellinum heilar 45 mín. því við vorum komin niður á 9 hnúta hraða vegna veðursins.

Framundan var svo loksins að taka Genoahöfn, um austasta hafnarmynnið, þar sem risa skemmtiferðaskip eru á ferðinni út og inn margsinnis á dag, auk fjölda annara skemmti- og þjónustuskipa. Frá því verður sagt í næsta pistli.

GenoaLoftmynd af Genoahöfn. Við þurftum að fara inn um hafnarmynnið lengst til hægri. Flugbrautin er fyrir miðri mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 53598

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband