164. San Remo.

200px-Sanremo007 San Remo séð frá sjó. 

Þegar við fórum yfir lögsögumörkin milli Frakklands og Ítalíu vöknuðu með okkur spurningar eins og "verður einhver breyting", "hvernig taka Ítalir við siglingagestum", verða þeir með eitthvað vesen", verður gott að sækja Ítali heim o.s.frv"? Ekki þar fyrir að við spurðum okkur sömu spurninga þegar við sigldum inn í Frakkland fyrir ári síðan, í Þýskaland þar áður og Niðurlöndin á sínum tíma. Það sem við vitum fyrir víst er að það er þó nokkur munur á fasi og lífsstíl fólks í þessum löndum sem þó liggja saman með sín ósýnileg landamæri. Umhverfi fólks tekur sýnilegum breytingum, ekki endilega þau náttúrulegu heldur það sem fólkið skapar sjálft í sínu nærumhverfi.

Leiðsögubækur sem maður notar við svona siglingar (í þessu tilfelli "Italian Water Pilot") gefa að hluta til tóninn með hvers má vænta og eru með ítarlegar upplýsingar um tæknileg atriði sem nauðsynlegt er að hafa á hreinu auk þess sem í "Italian Water Pilot" er sérstaklega tekið fram að maður skuli ekki vera hissa þótt maður verði stoppaður af "Guardia Costiera" (sem er Landhelgisgæsla Ítala) og bátur og réttindi skipstjóra rannsökuð. Ítalir eiga nefnilega í miklum vandræðum vegna smygls á fólki og eiturlyfjum sjóleiðina frá Afríku til Evrópu. Þetta vandamál er sagt að fari vaxandi eftir því sem sunnar kemur á Ítalíu, en við höfum þó ekki enn verið stoppuð af Gæslunni þótt við séum nú komin alla leið til Sicileyjar.

En við vorum nú að koma til fyrstu hafnarinnar í Ítalíu, San Remo, kl. 14:30 hinn 14. maí 2008, eftir 5 tima og 20 mín. siglingu frá Cannes í Frakklandi. San Remo býður uppá tvær hafnir "Porto Communale" (bæjarhöfnina), sem er til vinstri þegar komið er inn um hafnarmynnið, og "Marina Porto Sole" (snekkjuhöfnina) til hægri. Til að byrja með reyndum við fyrir okkur í bæjarhöfninni að venju því þar er miklu ódýrara að liggja en í snekkjuhöfnunum, sem eru einkareknar. Snekkjuhafnirnar eru auðvitað miklu fínni og aðstaða í þeim yfirleitt glæsileg. Borgin San Remo teygir sig meðfram ströndinni og upp í hæðirnar upp af henni og er mjög vinaleg af hafi séð. Við sigldum inn um hafnarmynnið milli vita sem merktir eru í kortið LFl.R.5s.11m.8M og LFl.G.5s.11m.4M, sem er eins og dulmálsletur fyrir þá sem ekki þekkja. LFl þýðir "langt ljósleiftur", R að liturinn á ljósinu sé rautt, 5s að það leiftri með 5 sekundna millibili, 11m. að ljósið á vitanum er í 11 m. hæð og að lokum 8M þýðir að ljósið sjáist í 8 sjóm. fjarlægð skyggi ekkert á. Einfalt ekki satt.

Þegar við komum inn fyrir hafnarmynnið var nokkuð stór snekkja innan við það að hífa upp akkeri og varð að fara með varúð meðfram henni. Beint á móti hafnarmynninu er baðströnd sem er á milli snekkju- og bæjarhafnarinnar og þar er röð af veitingatjöldum. Þegar inn var komið sveigðum við inn á bæjarhöfnina en þar voru ferjur, fiskiskip, túristabátar og skemmtibátar við bryggjur. Gerðum við nokkrar tilraunir til að þoka okkur inn í laus pláss en var alltaf vísað frá af einhverjum mönnum sem staddir voru á bryggjunum. Var hér kominn forsmekkur að því sem við áttum eftir að reyna meira af á Ítalíu, en það er að hinir og þessir þykjast geta sett sig í stellingar hafnarvarðar og farið að ráðskast með hvar maður leggur bát eða ekki. Nokkrum sinum reyndum við að kalla upp hafnarskrifstofuna í talstöðinni en án árangurs. Þegar ljóst varð að ekki var legupláss að hafa í bæjarhöfninni renndum við upp að "controlturni" snekkjuhafnarinnar og leituðum eftir leguheimild í tvær nætur, sem var auðsótt mál. Var okkur vísað á aðra bryggju frá turninum talið en bryggjurnar eru 9 talsins og legupláss fyrir um 900 báta. Sigldum við þangað og fundum strax básinn sem okkur var úthlutað og var einn af "Ormeggiatori" gæjunum mættur þar til að taka við spottum og þjónusta okkur við að binda. Þetta eru menn sem hafa atvinnu að því að þjónusta bátana við hvað sem er í rauninni og var að sjá þó nokkur umsvif á því sviði þarna. Var ekki annað að sjá en að margir notuðu sér að láta þá gera bátana hreina og dytta að t.d. við að bóna eða jafnvel að lakka tréverk. Þessir menn eiga eftir að koma meira við sögu og eins og við höfum kallað hafnarverðina í þessum pistlum "Hafna" þá mun ég kalla þessa menn í pistlum framtíðat Orma.

Þarna lágum við samskipa Sænskri skútu og voru eftirlaunahjón á henni eins og við og náðum við að kynnast þeim lítilsháttar. Áttum við eftir að hitta þau aftur í Genoa en þau voru á sömu leið og við, austur eftir Miðjarðarhafi. Maðurinn hafði starfað sem rannsóknarlögreglumaður en frúin er sálfræðingur og starfaði við lýðheilsu í Svíðjóð og er þekkt fyrir baráttu sína gegn tóbaksreykingum. Kynnast má henni nánar á heimasíðu hennar sem er http://www.barbroivarsson.se/ . Í næsta pistli ætla ég svo að fjalla aðeins um veru okkar í San Remo.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband