161. Hildur barnabarn og Þórhallur (Tóti) í heimsókn í Cannes

Vor 2008 078 Frú Lilja, Hildur og Þórhallur í göngugötu í Cannes. 

Það gengur mikið á í höfninni í Cannes enda er hún mikil "umferðamiðstöð" fyrir ferjur sem ganga út í de Lérins eyjaklasann og til nálægra borga s.s. St. Tropez, Nice og Monaco. Að auki er Cannes miðstöð fyrir fjöldann allan af útsýnisbátum fyrir ferðamenn þannig að stöðugur straumur er af skipum og snekkjum af mismunandi stærðum og gerðum. Frákastið af svona skipaumferð veldur oftast óróleika innan hafnanna og fórum við ekki varhluta af hreyfingu þótt við bryggju væri. Skemmtibátahöfnin í Cannes, sem tekur 750 snekkjur smáar og stórar, er í gamla hluta bæjarins, en strax og komið er inn fyrir, eða austur fyrir höfnina tekur nýrri hlutinn við. Byrjuðum við á, eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir, að fara á hafnarskrifstofuna til að spyrja til vegar í kjörbúðir og á helstu nauðsynjastaði. Var mér fengið kort af bænum og vísaði skrifstofudama mér á að beint upp af eystri hafnargarðinum skiptist borgin í tvennt. Gamli bærinn með sínum þröngu götum, göngugötum, veitingastöðum og verslunum væri t.v. í vestari hlutanum en nýrri hlutinn með glæsihótelum, breiðstrætum, merkja- og tískuverslunum, og baðströndum t.h. í eystri hlutanum. Svo bætti hún við "ef þið viljið vera normal þá mæli ég með gamla bænum en ef ykkur er hjartanlega sama hvað hlutirnir kosta og hrökkvið ekki við 100 € hvítvínsglas þá skuluð þið vera hægra megin, þ.e. í nýja bænum. Valið var auðvelt fyrir okkur, enda gamli bærinn miklu meira sjarmerandi þótt við kíktum auðvitað í nýja bæinn án þess að kaupa nokkuð nema miða í "sight seeing tour".

Eins og áður sagði var mikið um að vera í borginni við að undirbúa árlegu kvikmyndahátíðina sem átti að hefjast 15. maí. Var búið að reisa heilt þorp af kynningar- og sölutjöldum meðfram allri höfninni á opnu svæði ofan við hafnarbakkann. Afgirt svæði var við hvert tjald og hafnarmegin var verið að koma fyrir sætum, börum, hljóðkerfum, ljósakerfum og hinum frumlegustu skreytingum. Það sem líka vakti athygli var að ekki var þverfótað fyrir öryggisvörðum á svæðinu. Sáum við m.a. öryggisverði hafnarinnar koma fram bryggjurnar á kvöldin til að athuga hvort ekki væri allt í lagi.

Það var um 400 m. langur gangur fyrir okkur frá básnum þar sem við lágum, við B bryggju, og upp að þjónustumiðstöð hafnarinnar, en þar eru snyrtingar og þvottahús á neðstu hæð, en skrifstofur hafnarinnar á efri hæð. Næsta bygging fjær er svo aðal samkomuhúsið þar sem kvikmyndahátíðin fer fram. Þjónustubyggingin stendur á hafnarbakkanum en götumegin við hana er svo aðalhliðið út úr höfninni og þar voru öryggisverðir á sólahringsvakt. Þurfti að fá þá til að opna fyrir sig á snyrtingarnar t.d. þegar nota átti böðin. Á bekk hafnarmegin við þjónustumiðstöðina sátu svo rónarnir tveir, sem segir frá í síðasta pistli og virtust í fullri þökk hafnarstjórnarinnar þrátt fyrir rauða dregla og glæsisnekkjur, enda hinir vænstu kallar sem engum gerðu mein en vísuðu fólki veginn ef það virtist ráðvillt. Hvenær sem við áttum leið þarna um, þá 5 daga sem við lágum í Cannes, að degi eða síðkvðldi,  þá voru þeir þarna á vaktinni og svo vel virtust þeir liðnir að frú Lilja var vitni að því að komið var með afgangsmat til þeirra eitt kvöldið, úr einni glæsisnekkjunni innpakkað í álpappír og huggulega fram borið miðað við aðstæður. Seint um kvöldið 8. maí kom svo Hildur dótturdóttir til borgarinnar í borgarferð með vinnufélögum hennar manns Þórhalls Sverrissonar. Komu þau um borð til okkar daginn eftir og eyddum við hluta dagsins með þeim við að skoða gamla bæinn, sem við þekktum orðið nógu vel til að sýna þeim. Okkar plan var svo að sigla til móts við foreldra hennar, Ragnhildi og Hjálmar, í Genova, 18. maí.

Eftir að vera lögst við bryggju þarna í Cannes fór ég að athuga hvort einhverjar skemmdir hefðu orðið á stb. skrúfunum við að fá spottann í skrúfuna, sem rætt er um í 159 pistli og kom í ljós við þá athugun að dágóður spotti var vafinn um nöfina.  Fórum við því í að reyna að kraka hann í burtu með krókstjaka og tókst það að lokum með dyggilegri hjálp skippers á skútu sem lá stb. megin við okkur, en hann kom til hjálpar um leið og hann sá hvað við vorum að brasa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband