30.10.2008 | 21:33
158. Rænd í St. Raphaél
Að venju, þegar við erum búin að koma okkur fyrir, fórum við í landgöngu í blíðunni og tókum innkaupakerruna með. Á bekk uppi á garðinum þar sem við lágum sáum við róna sem virtist vera sæll með sitt auk þess sem hópur skólaunglinga var að væflast á garðinum að stelast til að reykja og kjá hvort í annað með flissi og þeim bjánagang sem fylgir gjelgju. Stangveiðimenn voru að venju framan á hafnarhausnum að veiða. Var byrjað á að taka vatn en síðan drógum við gluggatjöld fyrir alla glugga til að varna því að sólin skíni óhindrað inn, en geri hún það verður hitinn óbærilegur inni í bátnum. Rifa var skilin eftir á hliðargluggum, til að lofta hitanum út og svo var öllu læst áður en ráðist var til uppgöngu.
Eins og sjá má á myndinni sem fylgir síðasta pistli (157) er hafnargarðurinn langur og því ágætur spotti upp í bæinn en þegar þangað var komið gleymdum við okkur við ráp, gláp og innkaup enda vorum við ekkert að flýta okkur, gáfum okkur góðan tíma á götuveitingahúsi og létum okkur líða vel í blíðunni. Þegar sól var byrjuð að lækka í vestri stefndum við til skips, til að fara að undirbúa kvöldmatinn og fá okkur hressingu fyrir matinn. Þegar við nálguðumst LILJU BEN sáum við tvo lögregluþjóna á bakkanum við bátinn og hjá þeim stóð Hafni og urðu þeir fegnir að sjá okkur koma. Sögðu þeir að þeir hefðu sterkan grun um að búið væri að ræna einhverju frá okkur þótt ekki væri að sjá nein merki um innbrot. Höfðu lögreglumennirnir verið á eftirlitsferð á hjólunum sínum fram á garðinn (lögreglan í St. Raphaél fer um á reiðhjólum, sem og víðar í Frakklandi) og þá hafi þeir veitt því athygli að rafmagnssnúra sem tengd er hleðslutæki lafði út um gluggann sem snéri að bryggjunni. Höfðu þeir því hringt í Hafna sem hafði komið og voru þeir að fara að athuga málið frekar þegar við komum. Báðu þeir okkur að opna bátinn og fara í gegnum hann og athuga sérstaklega með öll laus verðmæti og tæki svo sem GPS o.þ.h., hvort þau væru öll til staðar. Var það nú gert og fórum við í gegnum allar vistaverur bátsins, skápa og hirslur til að athuga hvort einhverju hafi verið stolið en gátum ómögulega séð að eitthvað vantaði.
Fór ég að því búnu upp á bryggju til að segja þeim að við gætum ekki séð neitt óvenjulegt og að allt væri á sínum stað en þeir voru samt tortryggnir. Að lokum sáu þeir að okkur var ómögulegt að benda á að nokkuð vantaði og ákváðu því að láta þar við sitja og kvöddu eftir að ég hafði þakkað þeim hugulsemina, og hjóluðu þeir upp bryggjuna. Hafni fór í bílinn sem hann hafði komið á. Þeir voru komnir upp að aðalgötunni efst við bryggjuna þegar frú Lilja segir allt í einu "GSM síminn minn, honum hefur verið stolið". Símann hafði frú LILJA skilið eftir ofan á baki sófa í efri káetunni þar sem hann var tengdur við hleðslutæki og hefur blasað við innan við gluggann sem sneri að bryggjunni og var með rifu á til að lofta út hitanum. Ég skammaðist mín svo mikið fyrir að við skyldum ekki hafa séð þetta að ég hafði ekki geð í mér til að kalla á eftir löggunum, eða hringja í Hafna til að láta þá vita, enda litlar líkur á að endurheimta símann. Trúlega hefur einhver séð símann innan við gluggann og ekki þurft annað en að teygja hendina inn og hrifsa hann til sín þannig að það var snúran frá hleðslutækinu sem þeir sáu lafa út um gluggann.
Þegar svona var komið reyndum við að hringja í símann en þegar ekki var svarað var tafarlaust hringt heim til Íslands og númerinu lokað.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl veriði. flott saga sem hefði getað endað ver en gott að það vara bara gemsi þó það sé líka skaði aðallega er það orðið adresbókin sem er dýrmætust í þessum símum.Gott að allt fór vel gaman að fylgjast með.Óskir til ykkar um góða og skemmtilega daga.
Guðjón H Finnbogason, 31.10.2008 kl. 11:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.