29.10.2008 | 17:51
157. Yfir St. Tropez flóa og til St. Raphaél
Þegar komið er austur yfir Cavalaire flóa er komið að 146 m. háum höfða sem heitir Lardier, þar sem stefnan er sett í NA yfir de Briande flóa og fyrir Taillat höfða en þar er varasamt vegna kletta og skerja utan við, svo ekki er farið nær en 0.5 sjóm. Grunn eru líka ASA við Lardier höfðann sem þarf að varast. Eftir Taillat höfðann er Bon Porte flói sem er skerjóttur að innanverðu svo maður fer ekki inn í hann að óþörfu auk þess sem skerjadrasl austur af næsta höfða Camarat sér til þess að ekki er farið nær honum en 1 sjóm.
Eftir Camarat höfðann kemur svo stór flói sem heitir Pampelonne og eru 20 hnúta hraðatakmörk við siglingu yfir hann vegna þess að þetta er mjög vinsæll seglbátastaður og frægar baðstrendur teygja sig eftir endilöngum Pampelonne flóanum. Við notum yfirleitt 16 - 18 hnúta hraða svo það breytti okkur engu. En baðstrendurnar heita flestar seiðandi hitabeltisnöfnum eins og Tropezina, Tahiti-Plage, Bora-Bora, Moorea, La Voile Rouge, Lagoon Bleu, Sun 77, Le Liberty og Tropicana svo einhverjar séu nefndar og er sagt að á Tahiti - Plage ströndinni, sem er þekktust, megi sjá fegurstu stúlkur Frakklands að veiðum, enda snobstaðurinn St. Tropez steinsnar frá.
Þegar við komum fyrir Teste de Can skerin sem liggja austur af St. Tropez höfða var stefnan sett í norður, beint yfir St. Tropez flóann og á St. Raphaél sem sjá mátti undir fjöllunum í fjarska. Alla leiðina frá Lardier höfða vorum við búin að hafa nóg að gera því á þessu svæði er mýgrútur af bátum á ferð, sæköttum, stórum og litlum snekkjum, skútum af öllum gerðum og seglbrettum en þetta krefst sérstakrar athygli.
Við renndum inn í St. Raphaél Vieux Port kl. 1205 þann 7. maí. eftir að hafa siglt í 2 tíma 46 mín, eða 38.6 sjóm vegalengd. Við lögðumst að olíutökubryggju sem er beint neðan við hafnarskrifstofuna og þar sem við komum í hádeginu var okkur sagt af mönnum sem voru að dytta að bátum á bakkanum, að skrifstofan hans Hafna myndi ekki opna fyrr en kl. 14:00. Fékk ég mér því göngutúr meðfram hafnarsvæðinu til að skoða aðstæður til að leggjast, meðan frú Lilja var að taka til hádegismat fyrir okkur, og komst að því að við vorum of stór í innsta hluta hafnarinnar en að ytri hlutinn væri að mestu fullur. Þótti mér tvísýnt um legupláss en ákvað að bíða samt eftir Hafna.
Hafni kom á slaginu kl. tvö og var hann allur af vilja gerður til að taka við okkur en sagði að allir básar væru fullir og þótt einhverjir básar virtust tómir væri það vegna þess að fiskibátarnir væru ókomnir að landi. Hins vegar sagði hann að okkur væri velkomið að vera við ytri hluta syðri hafnargarðsins, sem er með legukant fyrir ferjur, skoðunarskip og önnur farþegaskip, ef við lofuðum að vera farin fyrir hádegið daginn eftir, því þá kæmi farþegaskip sem búið væri að lofa plássinu. Gengumst við fúslega undir það því við vorum ákveðin að ná til Cannes daginn eftir. Fluttum við okkur nú yfir og bundum LILJU BEN við farþegaskipabryggjuna við aðal hafnargarðinn.
Það er í raun merkilegt að það skuli ekki vera meira pláss í Vieux höfninni í St. Raphaél því hún er í hjarta bæjarins. Sjálf snekkjuhöfnin, sem er stór með 1600 leguplássum, er hins vegar utan við bæinn. Í sjálfu sér er ekki mjög merkilega staði að skoða en þetta er líflegur bær með spennandi kaffihúsum og veitingastöðum sem raðað er meðfram aðalgötunni sem liggur auðvitað meðfram höfninni að venju. Reyndar er dómkirkjan staður til að heimsækja og Fornminjasafnið fyrir neðansjávarmuni sem er fullt af munum sem fundist hafa á sjávarbotni og eru allar götur frá 5. öld fyrir krist.
Úr MEDITERRANEAN FRANCE & CORSICA PILOT eftir Rod Heikell:
"St. Raphaél er framlenging á gamalli borg frá Rómartímanum sem hét Fréus, sem var á ströndinni þá, en framburður R. Garonne árinnar hefur flutt ströndina fram þannig að leyfarnar af gömlu Rómversku höfninni, sem rúmaði 100 galeiður eru 1 mílu inni í landi. Það var Julius Caesar sem stofnaði borgina og á tímum Augustus keisara var íbúatalan komin upp í 25.000.
Á 19. öld sló sér niður í bænum sérvitringur að nafni Alphonse Kart, gagnrýnandi, dálkahöfundur og um tíma ritstjóri Le Figaro. Eftir að hann fluttist til St. Raphaél skrifaði hann vinum sínum og hvatti þá til að flytja á svæðið. "Yfirgefið París og plantið göngustaf ykkar í garðinn minn og daginn eftir er hann orðinn að rósum" skrifaði Kart. Þeir sem meðal annars fóru að ráðum Kart og byggðu sér hús þarna eru rithöfundarnir Alexandres Dumas og Guy de Maupassant auk þess sem tónskáldið Hector Berlioz byggði villu þarna.
Eins og áður sagði var Alphonse Karr álitinn sérvitringur en vinir hans töldu að hann væri orðinn snargalinn þegar honum datt í hug að opna blómabúð og fara að senda blóm með járnbrautalestum um alla Evrópu. En það fór þó svo að þjóðhöfðingjar og mikilmenni um alla Evrópu urðu viðskiptavinir hans og gerði það að verkum að nú er blómarækt og sala mikilvægasti atvinnuvegur St. Raphaél".
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.