154. Frávísun sem varð til góðs

Vor 2008 060 Lögst í Miramar, undir stjórnturninn. Fengum svo betra pláss daginn eftir. 

Þegar við fórum frá La Ciotat, sunnudaginn 4. maí var ferðinni heitið til Hyers-Plage, en þar sem höfnin var full vorum við rekin burt og enduðum í Miramar, sem betur fer, því þar leið okkur svo vel að við fórum ekki þaðan fyrr en miðvikudaginn 7. maí.

Við slepptum landfestum í La Ciotat kl. 0925 og settum stefnuna fyrir utan eyjuna de Bendor sem er utan við höfnina í Bandol, sem er feikna mikil snekkjuhöfn með 1600 leguplássum.

Bendor eyja er í einkaeign Hr. Poul Ricard, en nafn hans má sjá á "pastis" flöskum um allt Frakkland. Eyjan er opin fyrir gesti og hefur hann komið á fót þar safni sem segir sögu hinna frægu aniseed fordrykki. Pastis drykkina Frönsku má líkja við Tyrkneska drykkinn raki, Gríska drykkinn ouzo og Ítalska drykkinn sambucca. Fram að byrjun 20. aldar var Absinthe heimsþekktur aniseed drykkur í Frakklandi og svo vinsæll að yfirvöld töldu að hann væri að rústa þjóðfélginu í einn allsherjar alcoholisma þannig að framleiðsla Absinthe var bönnuð árið 1915. Það var því ekki fyrr en 1932 sem aftur var leyft að framleiða drykki með aniseed bragðefnum og þar kom við sögu þessi Poul Ricard. Hann var hamingjusamur listmálari í Marseille, en þegar hann var 23. ára taldi faðir hans að það væri engin framtíð í listinni og hvatti hann til að leita sér að arðbærari framtíð. Fór strákur þá að blanda pastis drykkina sem slóu í gegn og urðu vinsælustu fordrykkir í Frakklandi og eru enn. Í raun er meira um þennan milla að segja því hann er mikill sveitamaður og á fleiri eyjar við ströndina sem og jarðir á Rivierunni, og ræktar sérstaka nautategund fyrir nautaat á Spáni.

Við sigldum framhjá Bendor í SSA 4 vindstigum, sólskini og hlýindum. Frá Bendor settum við stefnuna í gegnum þröngt sund á milli Grand Rouveau eyjar og Des Embies eyjar, en þarna þurfti að gæta mikillar nákvæmni því stefnan þarf að vera nákvæmlega 200° frá cardinála sem er N við Des Embiez. Ekki má fara fjær hólma sem heitir La Cauvelle en 100 m.

Þegar komið var í gegnum sundið var stefnan sett fyrir Sicié höfða og þaðan beint yfir flóann sem stórborgin Toulon stendur við og svo út fyrir Pte. de Carqueiranne. Þótt eflaust væri gaman að heimsækja Toulon var haldið áfram yfir flóann, því það er með þetta eins og annað, það verður að velja og hafna. Í Toulon er aðal herskipahöfn Frakka á Miðjarðarhafsströndinni svo það fældi líka frá. Austan við Toulon er De Giens flói og austan hans mikið nes, mjög láglent, sem er með stórum saltsöfnunartjörnum. Á enda nessins eru hins vegar hálendir höfðar sem er siglt fyrir. Sem dæmi má nefna að árið 1811 skolaðist láglendið í burtu í miklum stormi þannig að höfðarnir urðu í raun að eyjum í nokkur ár, áður en sandrifin byggðust upp aftur sem tengja höfðana við meginlandið. Þegar komið er austur fyrir þetta nes og nokkrar eyjar sem eru suður af því, sem kallast d´Hyéres eyjar, má taka stefnuna beint í norður á höfnina Hyéres Plage. Þessar eyjar eru fjórar talsins og voru eins og fleiri staðir undir Grikkjum og svo Rómverjum f.k. og fyrst e.k. Á öldum áður voru þær í raun látnar afskiptalausar og þeir sem reyndu búsetu þarna áttu mjög bága æfi, ef nokkra, vegna stöðugra sjórána og árása ræningja. Svo erfitt reyndist á tímabili að fá fólk til að setjast að á þeim að stjórnvöld gripu til þess ráðs að gefa glæpamönnum upp sakir svo lengi sem þeir fengjust til að búa á þeim. Nú eru þær mjög vinsælar til útivistar og siglinga enda mikið af friðlýstum svæðum umhverfis þær og náttúrufegurð mikil.

Við skriðum inn í höfnina í Hyéres Plage kl. 12:00 sunnudaginn 4. maí eftir tæplega þriggja stunda siglingu. Auðratað var að "tilkynningarbryggjunni" beint niður undan glæsilegum "controltower" þessarar 1350 leguplássa hafnar, en þar sem nú var hádegi á sunnudegi var allt lokað og ekki annað að gera en að bíða þess að tveggja tíma hádegisverðarhléi ljúki. Meðan við biðum rölti ég um hafnarsvæðið og verð að segja að það var eins og að koma á 5 stjörnu hótel, allt stílhreint, þrifalegt með afbrigðum og glæsilegt. Kl. 1400 fór ég svo upp í "controlturninn" og tilkynnti komu okkar og bað um legupláss. En nú varð mér brugðið þegar Hafni svaraði "sorry we are full, no berth available". Þetta hafði ekki gerst áður, að okkur væri vísað frá og kom það mér í opna skjöldu. Ég hafði skoðað aðkomu að öllum höfnum á þeirri leið sem við sigldum frá La Ciotat, ef eitthvað kæmi uppá svo við þyrftum að leita inn í þær, en ég hafði ekkert spáð í hefnir lengra framundan.

Við yfirgáfum Hyéres Plage kl. 1415 í svolitlu sjokki. Hvert áttum við að fara? Ekki vildi ég snúa við á einhverja höfnina sem við vorum búin að fara framhjá svo við héldum áfram norður með ströndinni. Fyrst ætlaði ég að athuga með pláss í lítilli höfn sem heitir L´Ayguade Ceinturon en hætti snarlega við eftir að ég hafði lesið s.k. approach lýsingu  fyrir hana. Næst reyndi ég fyrir okkur í Port Pothau, mjög lítilli höfn skammt norðar og var innsiglingin þar virkilega vandasöm, grunn og þröng en ekkert pláss var þar að finna enda ætluð eingöngu fiskibátum og gæslubátum. Frá var horfið þaðan og stefnan sett á skemmtibátahöfnina í strandbænum Miramar. Vegna grynninga í innsiglingunni var ekki laust við að spenna væri í manni meðan skriðið var eftir rennunni en inn komumst við, í þessa líku fínu höfn og lögðumst við tilkynningarbryggjuna við stjórnturninn um kl. 1500. Allt var reyndar lokað í stjórnturninum og var svo allan daginn, enda sunnudagur. Við hrósuðum hins vegar happi að finna legu þar sem við gátum tengt okkur við rafmagn og legið allavega um nóttina. Eins og sagði í upphafi varð höfnunin í Hyéres Plage til góðs því þarna átti okkur eftir að líða virkilega vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband