151. La Calanque til La Ciotat

Vor 2008 049 Arnarhöfði við Calanque strönd, handan hans er La Ciotat 

Við komum Huldu systir í flug 1. maí og tókum svo flugvallarútuna í bæinn og fórum úr henni við aðaljárnbrautarstöðina. Síðan gengum við niður í miðbæinn eftir Boulevard d´ Athénes og skyldum ekkert í hverskonar læti voru orðin í bænum, götum lokað vegna kröfugangna, mótmælaspjöld út um allt, gjallarhorn og hávaði. Við mundum ekkert eftir 1. maí, enda aftengd veruleikanum því að í svona lífsstíl er aðallega lifað í núinu og ekki hlustað á fjölmiðla. Um leið og við mundum að nú var 1. maí skýrðist málið. Ekki blönduðum við okkur í hátíðarhöld dagsins en létum göngurnar framhjá okkur fara áður en við fengum okkur borð á útiveitingahúsi við Cours Honoré-d´Estieune-d´Orves, vinsælustu göngugötuna við gömlu höfnina þar sem við borðuðum hádegisverð. Gatan liggur í skeifu umhverfis mestan hluta gömlu hafnarinnar og er miðstöð ferðamannaþjónustu Marseille. Þarna leggjast allir skoðunarbátarnir að, þarna taka útsýnisrúturnar farþega sína, þarna er opinn fiskmarkaður á bakkanum og flest götuveitingahúsin.

Daginn eftir 2. maí ákváðum við hins vegar að nú skyldi haldið áfram.

Var ferðinni heitið til La Ciotat nokkura klst. sigling meðfram Calanques ströndinni sem er fræg fyrir sínar fögru víkur og firði sem skerast inn í kalksteinakletta strandlengjunnar. Við byrjuðum á að fara þvert yfir höfnina að eldsneytisbryggju sem þar er og fylla upp um 600 l. af olíu. Síðan var lagt í hann og stefnan tekin fyrir Croisette höfða sem er um 6 sjóm. suður af Marseille. Fórum við um sundið milli Frioul eyjanna og Auffes hverfisins í Marseille, með If eynna á stb., þar sem Greifin af Monte Cristo var fangi samkvæmt sögunni. Síðar í ferðinni áttum við eftir að heimsækja Elbu, þar sem greifinn var fenginn til að taka skilaboðin frá Napoleon, sem urðu til þess að hann var fangelsaður á If. Reyndar er búið að vera þarna fangelsi um aldir og eru klefarnir núna til sýnis þeim sem vilja. "Villimenn" glæpamenn og heiðingjar voru á öldum áður geymdir þarna þar til not var fyrir þá sem galeiðuþræla og Mirabeau var fangi á If vegna vanskila á skuldum sínum. Frægastur er þó söguhetja Alexandre Dumas (þess sama og skrifaði Camelífrúna, sem óperan La Traviata er grundvölluð á) greifinn af Monte Cristo, en hún er byggð á æfi raunverulegs fanga sem fyrst var í haldi á Ste-Marguerite eynni undan Cannes og svo fluttur á If.

Þegar  farið er fyrir Croisette höfðann er stefnan sett austur með Calanques ströndinni og er siglt með 10 eyjum sem eru á dreif til suðurs og suð-austurs frá höfðanum. Er farið utan við tvær þær fyrstu vegna grynninga milli lands og þeirrar innstu en síðan innan við hinar átta. Gullfalleg leið þar sem krökkt var af siglingafólki í blíðunni enda að koma helgi.

Þótt orðið Calanques sé notað almennt um svona vogskornar strendur þar sem undirlendi er lítið þá hefur þessi strönd öðlast nafnið sem sérheiti vegna þess hversu Calanques landslagið er ýkt á þessu svæði. Firðirnir og víkurnar eru einstaklega þröngar og strendur þeirra brattar svo undirlendi er svo til ekkert.

Við brunuðum austur með þessari fallegu strönd í sólskini og logni og stefndum á sundið milli Bec de L´Aigle (Arnarhöfða) og eyjarinnar Verte. Sundið á milli eyjarinnar og lands er ekki nema km. á breidd og í því miðju er grunn sem varast þarf, en það er vel merkt með cardinála svo ekki var það vandasamt. Þegar við komum fyrir höfðann blasti La Ciotat við á bakborða. Ciotat hafnirnar eru þrjár. Fyrst er það bæjarhöfnin sem er blanda af fiskibátahöfn og snekkjuhöfn og er hún í miðbænum. Tvær stórar snekkjuhafnir eru svo með norður hluta bæjarins og völdum við að reyna fyrir okkur fyrst í bæjarhöfninni til að vera í miðbænum.

Bæjarhöfnin er með 700 leguplássum fyrir skip allt að 80 m. löng og þegar sigl er inn um hafnarmynnið taka við slippar fyrir stórar og smáar snekkjur á vinstri hönd sem farið er framhjá þar til komið er inn í höfnina sjálfa sem liggur í skeifumyndaðri vík sem miðbærinn stendur umhverfis. Á vinstri hönd, þegar komið er inn í þennan innri hluta hafnarinnar er farið framhjá mýgrút af bátum sem liggja við flotbryggjur með "mooringum" sem eru þannig að legið er með skut eða stefni að bryggjunni en úr þeim enda bátsins sem snýr frá bryggjunni er strekkt lína út í akkeri sem er úti í höfninni og kallast "mooring". Ekki höfðum við hundsvit á hvernig átti að ná í þessar mooringar þannig að við renndum bara langsum að bryggju fyrir framan eina stórsnekkju sem lá við þá bryggju sem ætlast er hvort eð er til að maður leggist að til að tilkynna sig og vorum við búin að binda þar kl. 11:25, alltaf snemma á ferðinni. Þar sem plássið framan við stórsnekkjuna var lítið þurfti ég að troða stefninu hjá okkur undir landfestina að framan hjá henni og sá ég að skipstjórinn á henni var ekki allskostar ánægður og spurði hann mig hvort við ætluðum að liggja þarna lengi. Sagði ég honum að hann gæti verið alveg rólegur, við myndur færa strax og ég væri búinn að fá pláss.

Fyrir ofan bryggjuna þar sem við lágum var glæsilegur veitingastaður á efri hæð en skrifstofur hafnarinnar á þeirri neðri, ásamt böðum og snyrtingum. Fór ég nú á skrifstofuna og fengum við úthlutað plássi við sömu bryggju, aðeins innar og kom nú að því að færa og skipaði hafnarvörðurinn sem tók á móti okkur að ég skyldi bakka inn á milli tveggja báta, sem lágu við þessar mooringar, sem við kunnum ekkert á. Gekk eins og í sögu að bakka inn á milli bátanna og gaf frú Lilja enda upp til hafna og um leið og hann var búinn að setja fast tók hann í línu sem hékk niður með bryggjunni og rétti fram bugt á henni og sagði "take the moore". Flýtti ég mér nú að taka við línunni og kveikti strax á hvernig ætti að bera sig að, en það er að rekja sig eftir línunni með því að draga hana upp úr sjónum og fram með bátnum. Þegar þangað er komið er línan dregin áfram upp þar til þykkur kaðall kemur úr sjó og er hann svo strekktur eins og hægt er, en hann liggur í akkerið sem er neðansjávar úti í höfninni. Einfalt og sniðugt og áttum við eftir að gera þetta í svo til öllum höfnum eftir þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband