14.10.2008 | 20:56
150. Marseille, villt borg og fögur.
Marseille er fjörug, villt og falleg segir í leiðsögubókinni fyrir skemmtibátaskipstjóra, eftir Rod Heikell. Ég var búinn að koma í mýflugumynd í höfuðstöðvar "Almannavarna" í Marseille fyrir rúmlega 12 árum en fékk ekki tækifæri til að kynnast borginni þá því aðeins var staldrað við um dagpart. Frá barnaæsku hefur nafn borgarinnar virkað á mig spennandi og heillandi án þess að ég geri mér grein fyrir hvers vegna. Þó getur það verið vegna kafla sem ég las þegar ég var 10 ára um dvöl sjómans í borginni frá því um 1914. Var það ævintýraleg lýsing svo ekki sé meira sagt. Borgin er heillandi þótt umferðin á þröngum götum gamla borgarhlutans sé nánast "kaotisk" og sama má segja um gömlu Vieux höfnina þar sem við lágum, þar er svo mikil bátamergð að við máttum teljast heppin að hafa fengið pláss yfir höfuð og ekki síst á svona fínum stað.
Saga Marseille er skráð allt aftur til 600 fyrir krist þegar Grikkir gerðu röð af strandhéruðum við Miðjarðarhaf og á Corsiku að nýlendum sínum. Þá fór að myndast borgríki þarna sem fékk nafnið Massalia og varð fljótt auðugt vegna góðrar hafnaraðstöðu frá náttúrunnar hendi. En s.k. Liguarians ásæltust Massaliu mjög og voru stöðugt til vandræða sem endaði með því að Massaliabúar leituðu verndar hjá Rómverska keisaraveldinu og varð því sjálfstjórnarhérað innan þess frá 122 f.k. Allt gekk nú Massalíu í haginn þar til hún tók afstöðu með íbúum Pompey gegn Cesari keisara. Cesar vann átökin við Pompey og Massalíu og gekk þannig frá málum að Massalía var rúin öllum auði og efnahagslega hruninn. Hélst sú niðurlæging allar götur til 11. aldar þegar veldi borgarinnar fór að eflast aftur vegna viðskipta á sviði mann- og vöruflutninga í kringum krossferðirnar, milli Frakklands og Landsins Helga. Hagur Marseille óx nú hröðum skrefum allt til þess að íbúarnir snerust gegn frönsku byltingunni og gerðu gagnbyltingu. Hún var kæfð í hryllilegu blóðbaði, sem endaði með því að borgin var þurrkuð út úr samfélagi Frakka og kölluð "borgin nafnlausa".
Endurreisn borgarinnar hófst að nýju á 19. öld þegar hún komst í járnbrautarsamband við aðra hluta Frakklands og Suez skurðurinn var opnaður. Vöruflutningar og viðskipti uxu þá hröðum skrefum og fljótlega varð Vieux höfnin, þar sem við nú lágum, allt of lítil fyrir þessi miklu umsvif svo hafist var handa við byggingu stórskipahafnarinnar sem nú teygir sig norður með allri Marseille.
Í síðari heimsstyrjöldinni varð svæðið í kringum nýju höfnina mjög hart úti. Sprengjum rigndi yfir borgina á undan innrás Bandamanna og það sem þeir jöfnuðu ekki við jörðu sprengdu Nasistar í tætlur áður en þeir yfirgáfu hana. En Marseille reis fljótt úr rústunum og er nú næst stærsta hafnarborg Frakklands.
Íbúar Marseille eru þekktir fyrir að vera afslappaðir og grínagtugir ef það kemur þeim vel. Til marks um það er saga sem segir að 1650 bjó þar hertogi að nafni De Joyeuse, sem var mjög óvinsæll meðal borgarbúa. Tóku borgarbúar sig saman um að flæma hann frá borginni og lugu því að honum að svartidauði væri farinn að grassera í henni. Til þess að gera söguna trúverðuga komu íbúarnir sér saman um að allar líkfylgdir sem fram færu skyldu fara framhjá bústað hertogans og var hann fljótur að hypja sig á brott þegar hann sá "mannfallið" í borginni, sem var sviðsett.
Í hugum margra er Marseille aðsetur Frönsku Mafíunnar og þar er álitin miðstöð eiturlyfjasmygls og mansals um Miðjarðarhafsströndina, enda var myndin "The French Connection" látin gerast þar. Mafían í Frakklandi er enn til í Marseille þót mjög hafi dragið úr umsvifum og áhrifum. Almennir ferðamenn verða hins vegar ekkert varir við hana. Mjög hart hefur verið gengið fram í að hreinsa borgina af allskonar glæpastarfsemi þannig að hún er nú talin ein af öruggustu borgum Evrópu þótt ekki sé beint ráðlagt að flækjast um rauða hverfið að næturlagi.
Við nutum þess að heimsækja þessa fallegu og skemmtilegu borg. Það sem þó skyggði á er að nú var Hulda systir að kveðja því héðan var ferð hennar heitið heim. Hún eyddi þó nokkrum tíma með okkur í Marseille áður en við skiluðum henni í flugið heim og fórum við í skipulagðar og óskipulagðar skoðunarferðir um borgina auk þess sem við reyndum að nota okkur þær lystisemdir hennar sem við höfðum áhuga á.
Frú Lilja Ben ræðst til landgöngu í Marseille.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.