12.10.2008 | 23:02
149. Á tærum sjó í stað mórauðrar drullu fljóta og skurða.
Það varð mikil breyting þegar við fórum frá St. Louis, þriðjudagsmorguninn 29. apríl. Sól skein í heiði, hlýtt og notalegt í lofti en mesta breytingin var að við vorum loksins komin út á sjó. Því var ekki laust við að spenna væri í lofti þegar við leystum landfestar í St. Louis og hófum för okkar út 3. sjóm. langann Canal St. Louis, út í Fos flóann. Á leiðinni út skurðinn voru olíutankar á bæði borð, dreifðir um sléttlendi óshólmanna og þegar landinu sleppti varð í fyrstu að fylgja þröngri rennu sem var vel baujuð en síðan tók flóinn við. Þegar síðari baujunni sleppti setti ég stefnu í fyrsta skipti í tvö ár samkvæmt kompásnum 080°. Hvílík bylting opið haf, stór og smá skip á ferðinni inn og út flóann fallegur fjallahringur framundan með austurströnd flóans og það sem var mest um vert tær, blár sjór með mjallhvítri kjölrák, bylting frá mórauðum drullulit þeirra fljóta og skurða sem við vorum búin að sigla um.
Fos flóinn sem siglt var nú yfir er nokkuð stór og gengur inn í Miðjarðarhafsströnd Frakklands milli ósa Rhone að vestan og Couronne höfða (Cap Couronne) að austan. Í botni flóans eru stærstu olíuhreinsunarstöðvar Frakklands en þær sáum við ekki nákvæmlega úr þeirri fjarlægð sem við sigldum heldur eingöngu reykháfana. Sérstök djúprenna er grafin inn flóann til að sigla stærstu olíuskipum inn að legubaujum sem eru út um allann flóa. Í þær liggja svo neðansjávarleiðslur til að dæla farminum í land eða út í skip eftir atvikum. Í logni getur mengunarskýið frá olíuhreinsunarstöðvunum takmarkað skyggnið verulega á flóanum, en það var ekki vandamálið nú í hægum sunnan andvara sem blés reykjarsvæluna inn yfir land.
Þegar við komum austur fyrir grynningar sem ganga langt út í flóann vestanverðan breytti ég stefnunni á Couronne höfðann og fór nú að birtast æ betur það klettótta landslag sem einkennir Rivieruna þótt hún byrji ekki formlega fyrr en austan við Marseille. Þessi strandlengja sem er mjög falleg er kölluð La Côte Bleue. Með allri ströndinni, allt til Marseilles, sem við stefndum nú til, eru brattir klettar, sundurskornir af giljum og litlum dölum sem enda í víkum eða litlum fjörðum þar sem standa vinaleg smáþorp, einstök hótel eða glæsivillur auðkýfinga. Þessi strönd er eins og fortjald að þeirri ægifögru strönd sem við áttum eftir að fara meðfram á milli Marseille og La Ciotat. Allstaðar mátti sjá skemmtibáta, skútur og kafarabáta þar sem fólk var að njóta fegurðarinnar ofansjávar sem neðan. Áður en komið er að Couronne höfðanum er farið framhjá grynningum undan þorpinu Carro, sem eru vel merktar með s.k. Cardinálum. Austan höfðans líða svo framhjá þorpin Verdon, Tamaris, Susset-les-Pins, Carry-le-Rouet, La Redonne, Méjéan og Niolon en þá blasti við stórborgin Marseille.
Þegar við settum stefnuna á Vieux Port hafnarmynnið í Marseille, frá Cardinálanum SV af Niolon var byrjað að hvessa og hvíta í báru. Vorum við fegin að farið var að styttast í áfangastaðinn framundan, elsta og mest sjarmerandi hluta Marseille. Á stjórnborða voru Frioul eyjarnar sem við þekktum úr sögunni um Greifann af Monte Christie. Á bakborða voru hafnargarðarnir þar sem risa skemmtiferðaskipin lágu, síðan tók við svæði flutningaskipanna en að lokum var komið að Vieux Portinu sem við stefndum inn í eftir að tvær ferjur voru búnar að bruna út. Dómkirkjan í Marseille er notuð sem fyrsta viðmiðum til að stefna á þegar höfnin er tekin og síðan er stefnan sett með innsiglingavita á norðurgarði flutningaskipahafnarinnar, Farið er inn með honum , síðan inn með grjóthleðslu með suðurströnd hafnarinnar þar til vik kemur til stjórnborða meðfram St. Jean virkinu sem er ekki hægt að villast á. Þar er beygt inn og þá er komið inn í skemmtibátahöfnina sem teygir sig inni í miðborgina og er glæsileg í alla staði. Vieux höfnin er með 1000 legupláss fyrir snekkjur allt að 100 m. langar. Þarna fengum við þetta líka fína legupláss, beint fyrir neðan aðalskrifstofu hafnarinnar öndvert við St. Jean virkið. Það eina sem mátti segja neikvætt um plássið var að það var svolítil órólegt að liggja þar vegna umferðar skipa framhjá, sem var veruleg. Við vorum búin að binda kl. 13:45 eftir tæplega 5 klst. siglingu frá St. Louis.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.