11.10.2008 | 21:30
148. Loksins Miðjarðarhafinu náð.
Við lögðum í hann frá Avignon á sunnudagsmorgni 27. apríl s.l., kl. 0855, í sunnan golu, skúrum og 16°C hita. Stefnan var sett áfram niður Rhone, sem eftir skamma siglingu breikkaði svo að hún leit frekar út sem fjörður en fljót, eftir að farið var framhjá þar sem Durance fljótið rennur í hana. Kl. 1025 fórum við inn í næst síðustu slússuna á leið okkar gegnum Evrópu, Beaucaire-Vallabrégues með 15.5 m. falli niður. Þá vorum við í raun komin inn á þær sléttur suður Frakklands sem framburður fljótsins er búinn að mynda um þúsundir ára. Hitinn í lofti hækkaði eftir því sem leið á daginn en þegar við sigldum framhjá borginni Arles fór að bera á auknum vindi af SV sem ýfði yfirborð fljótsins, ský dró upp á himinn og það kólnaði nokkuð.
Nú breittist allt umhverfið því segja má að byggð hafi horfið með öllu á bæði borð, aðeins skógur og meiri skógur. Virkaði þetta umhverfi eyðilega á okkur eftir hundruðir km. siglingu þar sem alltaf höfðu skipst á engi, skógar, þorp, borgir og einstaka kastalar eða virki. Nú fór líka að hvessa verulega af suðri og þar sem vindur stóð upp fljótið var hann á móti straumnum sem er mjög vond blanda fyrir öldumyndun. Enda leið ekki á löngu fyrr en kominn var barning á móti krappri öldu sem LILJA BEN hjó í og lamdist með miklum látum. Tók ég það ráð að skáskera fljótið bakka á milli til að fá ölduna allt að 30° á borð, til að reyna að halda uppi hraðanum því að við vorum að keppast við að ná í síðustu slússuna kl. 1400, en hún er til sjávarfallajöfnunar milli fljótsins og yfirborðs Miðjarðarhafsins. Næðum við ekki í tíma átti ekki að opna hana aftur fyrr en kl. 1630, samkvæmt upplýsingunum í leiðsögubókinni. Þessi slússa er við borgina St. Louis sem er á óshólmum Rhone fljótsins og tengist Miðjarðarhafinu með skipaskurði út í botn Fos flóans (Golf de Fos). Ekki er hægt að sigla út síðustu 100 km. af óshólmunum vegna síbreytilegra grynninga og því er siglingaleiðin tekin þarna út úr fljótinu um slússuna, inn í borgina, þar sem er ágætis skemmtibátahöfn, og síðan eftir skurði þaðan út á sjó eins og áður sagði.
Eitthvað þurftum við að lækka hraðann vegna barningsins en náðum samt að slússunni fyrir kl. 1400, en þá kom í ljós að til einskis höfðum við barist við að halda hraðanum uppi því ekki átti að taka okkur inn fyrr en kl. 1630, þrátt fyrir allt. Lögðumst við því við biðkæja og hvíldum okkur eftir barninginn niður þennan síðasta áfanga fljótsins. Meðan við biðum gekk ég frá leguplássi í skemmtibátahöfninni sem var hinu megin við slússuna og gekk yfir að höfninni til að kanna aðstæður. Uppi á bakkanum þar sem við biðum voru nokkrir bátar sem var verið að dytta að og kom einn af mönnunum sem þar var að dunda við bátinn sinn og heilsaði upp á okkur. Var þar kominn Dani nánar tiltekið Jóti sem búinn var að sigla um öll heimsins höf og þar á meðal verið á síld á Íslandi á 7. áratugnum. Var hann nú sestur í helgan stein þarna í Suður Frakklandi og undi hag sínum ágætlega, með trillu sína til að stytta sér stundir við.
Þegar tíminn var kominn var okkur hleypt inn í slússuna og var það stutt viðdvöl því hæðarbreytingin var svo lítil að við urðum ekki vör við hana og vorum því á örskömmum tíma komin í gegn og á Miðjarðahafið. Búið var að ná markmiðinu sem við vorum búin að stefna að í tvö ár. Einhvernveginn gleymdum við að gera okkur grein fyrir þessum merkisáfanga því við vorum þreytt og slæpt eftir erfiða ferð niður fljótið og enn átti eftir að komast í lægi í þessu hvassviðri sem enn stóð. Þegar við komum út úr slússunni stefndi ég þvert yfir höfnina og að boxi beint á móti, þar sem við vorum búin að fá legupláss. Enn var spænurok en þó tókst að snúa og bakka undan vindinum inn í boxið og ná að stjórna bátnum meðan við sigum inn í boxið. Frú Lilja stökk upp á flotbryggjustubb á bakborða um leið og hægt var til að ná enda til að setja fast og lét Hulda systir sig vaða á eftir henni. Munaði engu að þær hrötuðu báðar í sjóinn þar sem bryggjan lét undan og ruggaði villt og galið, bæði vegna hamagangsins í þeim og öldugangsins í höfninni. Þegar búið var eftir mikið bras að binda bátinn tryggilega fórum við að huga að nágrenninu og átta okkur á hvar við vorum niðurkomin. Höfnin virtist í stærra lagi en ofan við þar sem við lágum var opið svæði en um 100 m. ofan við það var húsaröð með einhverkonar þjónustufyrirtækjum. Sjálfan bæinn var ekki að sjá vegna trjágróðurs, aðeins húsaröð meðfram hafnarbökkunum. Þó vorum við svo heppin að stórmarkaður var sjáanlegur ofan við húsaröðina sem áður er nefnd og drifum við okkur þangað til að kaupa inn nauðsynjar, en hann var opinn þrátt fyrir að það væri sunnudagur. Á bakaleiðinni sáum við að búið var að opna veitingastað í húsaröðinni fyrir ofan leguplássið okkar og var nú snarlega tekin sú ákvörðun að elda ekki um kvöldið heldur borða úti, enda dagurinn búinn að vera langur og strangur. Ekki var umhverfið meira aðlaðandi en svo, í kalsanum þarna í St. Louis, að Huldu systir varð að orði að "þetta væri eins og einhver helvítis Raufarhöfn".
Eftir að hafa "súnnað" okkur til réðumst við svo til landgöngu, í trekki og rigningu, og undum okkur inn á veitingastaðinn sem var hinn fallegasti, splunkunýr og þiljaður að innan með ljósum panel. Nú skildi sko slappað af og ekki komið nálægt eldamensku. Eftir dæmigerða tungumálaerfiðleika, túlkanir og ekki túlkanir pöntuðum við fjölbreyttann kjötrétt sem samanstóð af kjötflísum af ýmsum skepnum, þekktum og okkur óþekktum, grænmeti og ýmsu góðgæti með. Skömmu síðar fór allur ásetningur um að nú skyldi ekki eldað veg allrar veraldar. Komið var með stóra rafmagnshellu og henni skellt á borðsendann. Síðan kom maturinn ásamt kryddi og grænmeti, allt hrátt og urðum við að elda allt ofan í okkur sjálf og þar sem konurnar voru í eldunarstræk lenti það á skipstjóranum að mestu.
Í höfninni í St. Louis eru 325 legupláss fyrir skemmtibáta allt að 25 m. lengd. Bærinn er þekktur fyrir eilífan en mismikinn vindsperring sem stendur ýmist upp eða niður Rhone-dalinn. Bærinn var áður mikilvæg miðstöð sjóflutninga en sú stafsemi hefur nú flust til nýrrar stórhafnar fyrir botni Fos flóans þar sem risið hafa tröllauknar olíuhreinsunarstöðvar og efnaverksmiðjur, hin ljótustu monster með tilheyrandi mengun. Ég vil nú meina að St. Louis megi vera fegin að vera laus við þann ófögnuð.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.