21.8.2008 | 21:26
146. Avignon, perla suður Frakklands
Mikið er auðvelt að dæma það óþekkta, sérstaklega ef fyrstu kynnin verða í myrkri og full af tortryggni. Kvöldganga okkar eftir komuna til Avignon var "sjokking". Fyrir það fyrsta var NAVIGATOR argasta rónabúlla, eins og áður sagði og í annan stað leiddu tilraunir okkar, til að kíkja inn um borgarhliðin (reyndum tvö), inn í mjó og koldimm stræti sem virkuðu óaðlaðandi eftir ömurleika rónabúllunar. Óöryggi og vonbrigði voru því fyrstu kynni okkar af Avignon, þótt fegurð borgarinnar þegar við komum siglandi að henni ætti að lofa öðru. Það var því engin stemming fyrir langri dvöl þarna þegar við fórum að sofa. Þegar þessi pistill er skrifaður þakka ég hins vegar Guði fyrir að við fórum og skoðuðum borgina betur daginn eftir og sé mikið eftir að hafa ekki eytt þarna lengri tíma. Avignon er að mínum dómi perla suður Frakklands og einn af fallegustu stöðum sem ég hef komið til.
Við fórum í land snemma á sunnudagsmorguninn 27. apríl og stefndum rakleitt á eitt af borgarhliðunum sem er beint ofan við fljótsbakkann þar sem við lágum. Gatan sem við komum inn í er þröng en nú var sólskin, bjart og hlýtt, rónabúllan gleymd og sálarlífið jafn bjart og sólin. Eftir stutt labb opnaðist stórt markaðstorg þar sem fjölmenni var að gramsa á söluborðum kauphéðna og var mikill hamagangur í öskjunni. Þegar áfram var haldið kom í ljós ævintýraheimur borgar sem er full af lífi, sögu, list og fegurð. Gengum við í gegnum virkisborgina og upp á aðalgötuna sem liggur í gegnum hana, til að finna "tourist information" skrifstofu og ná í upplýsingar um skoðunarferðir. Gekk það greiðlega. Fyrir þá sem ætla að heimsækja Avignon er mælt með fjórum gönguleiðum, sem sýndar eru á öllum ferðamannakortum Avignon. Þær spanna allt það sem markverðast er að skoða í borginni, en sé farið fótgangandi veitir ekki af jafn mörgum dögum ætli maður að njóta þess sem gönguleiðirnar bjóða uppá. Við ætluðum hins vegar að eyða aðeins einum degi í borginni svo að við tókum opinn útsýnisvagn og náðum þannig að kynnast mestum hluta borgarinnar þótt það yfirlit gæfi ekki færi á að skoða nánar þá fjölmörgu merkisstaði sem þarna er að sjá.
Avignon er búin að vera á heimsminjaskrána UNESCO frá 1995 og hefur einn af fremstu arcitectum UNESCO á sviði menningarverðmæta lýst þeirri skoðun sinni að Avignon sé Acropolis Frakklands og einn fegursti staður heims. Borgin er eitt allsherjar minja-, lista- og sögusafn. Borgin státar af því að innan borgarmúranna er Höll Páfans, varðveitt frá þeim tíma þegar kaþólski páfinn hafði aðsetur í Frakklandi en allt í allt höfðu sjö páfar aðsetur í Avignon frá 1305 til 1378 eða þar til Vatikanið var stofnað í Róm. Höllin til heyrði páfastóli allar götur fram til 1791.
Í stuttum ferðapistlum eins og þessum verður borginni ekki gerð frekari skil en lesendum bent á að fara inn á slóðina www.wikipedia.org/wiki/avignon og fræðast frekar um hana þar.
Við gáfum Avignon of stuttan tíma en framundan var lokaleggurinn til Miðjarðarhafsins, sem var búið að vera markmið síðustu tveggja ára, svo það togaði meira. Þarna vorum við á fljótsyfirborðinu aðeins 10 m.y.s þannig að eftir var aðeins eins dags sigling fram eftir óshólmum Rhone fljótsins.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.