21.7.2008 | 23:24
143. Áfram niður til Valence.
Það var gott veður, sólskin og heitt þegar við lögðum af stað frá LES ROCHES DE CONDRIEU áleiðis til VALENCE kl. 0900 hinn 24. apríl s.l. Um leið og við komum út á fljótið var farið undir CONDRIEU brúnna en á hægri hönd leið framhjá fögur húsamynd bæjarins með frægum veitingastað sem heitir BEAU RIVAGE. Hæðirnar að baki bænum eru þaktar vínviði svo langt sem augað eygir.
Eftir að CONDRIEU sleppir breiðir fljótið verulega úr sér og verður að sama skapi lyngt svo að lítið þarf að hafa fyrir siglingunni um tíma. Á vinstri hönd komu í ljós RHONE POULENC efnaverksmiðjurnar, sem ekki er hægt að segja að gleðji augað, vegna ljótleika síns, en fljótlega eftir það er farið framhjá sjarmerandi sveitaþorpi sem heitir SAINT-ALBAN-du RHONE. Skammt fyrir ofan bæinn CHAVANAY eru svo háir steinstöplar, tveir hvoru megin fljótsins, skammt út í því, og virka þeir eins og varðmenn þar sem þeir standa þarna teinréttir, en þetta eru aflagðir brúarstólpar sem ákveðið var að þyrma þegar brúin var rifin, vegna mikilfengleika þeirra. Neðan CHAVANAY stendur svo SAINT-ALBAN-SAINT-MAURICE orkuverið við fljótsbakkann, sem er risa stórt, en orkuverin eru staðsett við fljótin vegna kælivatnsþarfar þeirra sem er mjög mikil.
Þegar hér er komið tekur við SABLON skipaskurðurinn sem tekur um 20 km. langa bugðu af Rhone og í enda hans kom svo SABLON slússan þar sem við fórum niður um 15.3 m.
Eftir SABLON er aftur komið í fjótið og er svolítið varasöm tengingin við fljótið því þar eru grjótgarðar undir yfirborðinu, sem eru til varnar því að framburður berist inn í skurðinn. Garðarnir eru reyndar markaðir með baujum svo að það var ekkert mál að varast þá. 6 km. neðar er svo siglt framhjá bæjunum ANDANCE og ANDANCETTE, en þeir voru mikilvægir verslunarstaðir fyrr á öldum þegar fljótin voru höfuðleiðir verslunar og viðskipta. Nokkrar þrengingar voru nú í fljótinu framhjá bænum ST. VALLIER áður en komið var í De GERVAN skipskurðinn. Um það leiti sem við vorum að koma að mótum skurðsins og fljótsins kom sjóflugvél fljúgandi lágt á móti okkur og þóttist ég þekkja eina af flugvélunum sem notaðar eru í suður Evrópu til að slökkva skógarelda, frá því að mér var kynnt sú starfsemi í Marseille fyrir mörgum árum síðan. Þegar vélin var komin skammt aftur fyrir okkur sneri hún við, lækkaði flugið niður að vatnsfletinum, renndi sér eftir honum og tók svo aftur á loft. Brunið eftir vatnsfletinum tók ekki nema nokkrar sekundur, en í bruninu fyllti hún á tankinn af vatni sem er síðan sleppt yfir skógarelda þegar þeir geysa. Var auðsynilega verið að æfa flugmennina í vatnstökunni því vélin sleppti vatninu svo strax aftur og gerði sig líklega til að endurtaka leikinn.
Eftir De GERVAN slússuna er komið að einkennilega löguðum kletti í fjótinu sem heiti TABLE-DU-ROY, en þjóðsagan segir að þar hafi Saint - Louis látið ´"bera á borð" fyrir sig hádagisverð áður en hann fór í sína krossferð.
Rétt ofan við borgina TOURNON er farið framhjá svolítið sérstöku fjalli sem er koniskt að lögun (eins og Keilir) og alþakið vínekru vínframleiðandans TAIN-I´HERMITAGE. Síðasta slússan á þessum siglingadegi var svo BURG DE VALENCE og þurftum við að bíða þar í 20 mín. eftir farþegaskipi áður en okkur var hleypt inn og var það í fyrsta skiptið frá því að við fórum af stað í vorsiglinguna að við þurftum að bíða við slússu.
Við komum til borgarinnar VALENCE um kl. 1420 og stefndum á skemmtibátahöfnina sem er 2 km. sunnan við miðbæinn. Innsiglingin er nokkuð þröng þarna og mikill straumur í fljótinu svo beita þurfti um 30° drift til að stilla sig af inn í innsiglingarennuna, en þegar inn var komið var þetta hin fallegasta höfn með snyrtilegum bryggjum, veitngastað og fínni þjónustubyggingu. Svolítið gekk okkur brösulega að leggjast í þann bás sem okkur var úthlutað, vegna hvassviðris, en allt gekk það að lokum með góðra manna hjálp úr landi. Var búið að binda kl. 1440 og viti menn, var ekki Norðmaðurinn mættur á svæðið, en honum vorum við orðin kunnug frá því í haustsiglingunni 2007, sjá pistla 109, 118, 119 og 120.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.