14.7.2008 | 17:57
142. Síðasta fljótið Rhon á leið til sjávar.
Það voru kaflaskil framundan þegar við lögðum í hann frá Lyon miðvikudagsmorguninn 23. apríl, eða ætti kannske að kalla það fljótaskil. Saone fljótið kvatt og Rhon næsta vatnaleið að fylgja. Við köstuðum landfestum kl. 0930 og sigldum stuttan spotta að olíubryggju sem var skammt ofar við fljótið og kl. 1000 vorum við búin að fylla af olíu og tilbúin að leggja í hann. Veðrið var ágætt þennan morgun SV 3-4 vindstig, léttskýjað og 18°C hiti. Þar sem Saone sameinast Rhon skammt sunnan við Lyon var komið að fyrstu slússunni de Pierre-Bénite þar sem við yrðum tekin 11.8 m. niður hvorki meira né minna. Við vorum svo sem búin að kynnast svona miklum hæðabreytingum á leið okkar milli Elbu og Rínar árið 2006, en síðan þá voru þrepin í slússunum vel innan við tug metra. En það var fleira sem breyttist. Þetta eru stórskipaslússur af fullkomnustu gerð þar sem festipollarnir fylgja skipunum upp eða niður veggina, eftir því á hvorri leiðinni maður er. Bátur eins og okkar er því ansi lítill í þessum gímöldum. Í hverri slússu er stór stjórnturn (control tower) og verður að kalla turninn uppi á VHF með fyrirvara og tilkynna komu og stefnu, og óska eftir heimild til að sigla að. Notar stjórnturninn síðan ljósmerki á ljósatöflu til að leiðbeina inn í slússuna. Tekið er skýrt fram að ekki megi láta sjá sig utandekks við komu í slússurnar án þess að vera í björgunarvesti og reyndum við ekki að sjá viðbrögðin ef við værum vestislaus. Allir fóru í björgunarvesti eftir að búið var að tilkynna nálgun.
Við vorum einskipa niður þessa fyrstu slússu og afgreiðslan með ólíkindum hröð. Þegar ég kallaði og tilkynnti "arriving in 5 minutes" kviknuðu strax rauð og græn ljós á töflunni sem þýða "preparing" og skömmu síðan grænt ljós, "approach". Um leið og við vorum búin að leggjast að slússubakkanum gaf ég kall í talstöðina "LILJA BEN secure" og um leið kom gult blikklós við hliðið sem við höfðum komið inn og það að lokast. Um leið og hliðið hafði lokast byrjuðum við að síga með vaxandi hraða og skyndilega var slússuveggurinn sem við höfðum lagst við orðinn 11.8 m. hærri. Þá byrjaði hliðið að opnast fyrir framan og þegar grænt ljós logaði fyrir framan var hægt að sleppa og sigla út. Allt þetta tók um 20 mín. sem má teljast ótrúlega hratt miðað við hversu mikið og margslúngin ferli er um að ræða.
Nú vorum við kominn inn í þráðbeinan skipaskurð, samhliða Rhon og var umhverfið til að byrja með forljótt verksmiðjusvæði. Fljótlega tók hins vegar við fallegt sveitaumhverfi og eftir um 9 km. siglingu komum við aftur í fljótið. Þá var siglt í gegnum forljóta olíuhreinsunarstöð í GIVORS svo í gegnum borgina VIENNE.
Ein slússa "de Vaugris" með 6.7 m. þrepi var næst og þegar við vorum að bíða eftir græna ljósinu til að fara inn truflaðist allt í einu stb. vélin og jók fyrst snúningshraðann og drap svo skyndilega á sér. Ekker var að sjá óeðlilegt í mælaborðinu. Hélt ég áfram á bb. vélinni inn í slússuna og þegar gangsett var aftur til að fara út virkaði allt eðlilega.
Við komum til skemmtibátahafnarinnar í LES ROCHES DE CONDRIEU og lögðumst þar kl. 1325. Um er að ræða smáþorp og virkilega falleg höfn þar sem ég fékk hreinsi- og þurkefni til að úða í stjórntölvur vélanna sem ég hafði grunaðar um að hafa verið að hrekkja okkur vegna rakar efir vetrarleguna. Ekki bar á sambærilegum truflunum eftir það.
Þarna versluðum við inn og hvíldumst eina nótt áður en áfram var haldið.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.