2.7.2008 | 21:48
138. Lagt af stað niður Saone afram til Rhon
Strax kl. 0900, morguninn 19. apríl, mætti ég á skrifstofu hafnarinnar til að gera upp við þá fyrir þá þjónustu og búnað sem ég hafði pantað, en þeir voru búnir að segja mér að þar yrði opið þrátt fyrir laugardag, vegna sölusýningarinnar. Allt tók þetta skamma stund og okkur því ekkert að vanbúnaði að sigla, en eitthvað þótti mér fólkið á skrifstofunni vera brosmilt meðan ég var að ganga frá mínum málum við það. Þegar ég kom hins vegar aftur um borð skildi ég hvernig í málinu lá þegar konurnar bentu mér á hvernig ég fór í land, búinn til fótanna. Ég hafði gengið á fund hafnaryfirvalda með sandala á öðrum fæti en strigaskó á hinum svo ekki var furða að fólk sem sá mig væri kindarlegt á svipinn.
Ekki þýddi að gera sér rellu út af fótabúnaðinum, sem ég flýtti mér reyndar að leiðrétta, svo vélar voru settar í gang, kveikt á öllum tækjum og sannreynt að allt virkaði rétt og landfestar leystar kl. 0955. LILJA BEN seig nú út úr höfninni í Saint Jean De Losne, þar sem hún hafði legið í sjö mánuði og setti stefnið niður Saône fljótið. Frú Lilja leiðbeindi nýja áhafnarmeðlimnum frú Huldu í gegnum verklag við landfestar, fendara og sjóbúning meðan undirritaður stýrði af stað niður fljótið.
Eftir um 7 km. siglingu tók við De Seurre skurðurinn sem liggur eins og beint strik um 30 km. vegalengd eða til samnefndrar slússu við samnefndan bæ. Nú voru allar sjálfvirkar slússur að baki svo nú voru þær allar mannaðar, þannig að fá þurfti heimild í gegnum talstöðina til að fara inn. Gætti ég þess því vandlega að fara að ráðleggingunum frá deginum áður og leggjast sem fjærst stjórnturnunum, með bakborðsíðuna að þeim og að allir væru í björgunarvestum. Við Seurre sameinaðist svo skurðurinn fljótinu aftur, reyndar aðeins um 11 km. leið þar til næsti skurður tók við með sinni slússu "Eculles", en skurðirnir eru liður í því að "þrepa skipin niður" eftir ánum, mislangir þó. Slússan var að baki kl. 1215 og nú bugðaðist fljótið aftur framundan um sveitahéruðin þar til komið var að bænum Verdum Sur Le Doubs, þar sem Doubs fljótið sameinast Saôn. Nú skiptust á bæir og sveitahéruð sem siglt var framhjá, en aðgæslu var þörf á leiðinni því að mikið er af grynningum þarna í fljótinu á stórum köflum. Næsti áfangastaður Chalon Sur Saone kom svo í ljós um kl. 1340 og var nú siglt framhjá eynni St. Laurent á bakborða og beygt inn með henni í yachthöfnina sem liggur í sundi milli eyjarinnar og meginlandsins, en þeim megin eru bryggjurnar innan við fallega brú sem tengir eynna við land. Fundum við strax mjög aðgengilega bryggju sem við bundum nú við og var kl. þá orðin 1410.
Það leyndi sér ekki þegar við vorum lögst við bryggju að þarna höfðu flóðin í ánni orðið þess valdandi að sprek, hálmur og annar gróður þakti ströndina og göngubrýrnar sem tengja flotbryggurnar við land og átti há vatnsstaða í fljótunum vegna þessara flóða, sem enn voru að skila sér niður úr hálendi Frakklands og Sviss, að koma við okkur seinna. Ekki tókst að ná neinu sambandi við hafnaryfirvöld á þessum laugardagseftirmiðdegi, þrátt fyrir góðar tilraunir svo að við ákváðum að fá okkur gönguferð upp í eyjuna St. Laurent, sem er þéttbýl mjög, enda sól og gott veður, eftir skúrir sem verið höfðu þegar við lögðum í hann um morguninn. St. Lauren eyjan er í raun hluti af Chalon Sur Saone, sem er nokkuð stór bær með um 60.000 íbúa. Eflaust hefði verið hægt að eyða meiri tíma í að skoða þennan merkilega bæ því saga hans liggur 3000 ár aftur í tímann. Þarna fæddust eða bjuggu frægir menn eins og Nicépore Niepce, faðir ljósmyndavélarinnar og Vivant Denon, listamaðurinn sem stofnaði Louvre safnið í París á Napoleontímanum. Í Chalon er feikna stórt ljósmyndasafn með um 2 milljónum ljósmynda og fyrsta ljósmyndavélin er þar meðal sýningagripa. Við ætluðum hins vegar að stoppa stutt, eða aðeins eina nótt og því var ekki lagt í langar skoðunarferðir um bæinn.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.