Povoacao og Fial da Terra

 

Povoacao Bærinn Povoacao í dalbotninum. Smellið á myndina til að sjá hana betur. 

Ég ætla að halda áfram að segja ykkur frá ferðinni til Azoreyja, sem ég hef verið að skrifa um undanfarið, með hléum og innskotum um annað efni.

Ég var búinn að fjalla um Ribera Quente og hörmungarnar þar en nú, daginn eftir, fórum við til Povoacao, sem er fjórði stærsti bær Sao Miguel, og áfram til þorps sem heitir Fial da Terra. Báðir þessir staðir eru á SA hluta eyjarinnar, A við Ribera Quente. Við lögðum af stað kl. 09:00 um morguninn og fórum nú með S-störndinni í gegnum Vila Franco da Combo og sem leið liggur upp í Furnas eldstöðina, en eins og ég sagði frá í fyrra pistli liggja allar leiðir til SA hluta eyjarinnar þar í gegn. Þegar farið er upp úr Furnas eldstöðinni að A-verðu er farið upp á fjallarima eftir snarbröttum sneiðingum í gegnum skógi vaxið landsvæði. Sem betur fer er sumstaðar rof í gróðurinn þannig að hægt er að njóta útsýnisins yfir landið fyrir neðan sem er stórkostlegt. Nú var veðrið betra en daginn áður, sólskin og heiðríkja. Þegar komið er yfir fjallarimann liggur vegurinn aftur niður eftir fjallinu í kröppum sneiðingum, sem byggðin teygir sig eftir svo til upp á fjallstoppinn. Fyrir neðan dreifir sér svo aðalbyggðin í Povoacao um dalbotninn en hann er mjög fallegur bær. Ekki höfðu skriður fallið í Povoacao en víða í kring, en þar sem þetta er höfuðstaður héraðsins vildi ég skoða aðstæður þar og ræða við heimamenn um stjórn neyðaraðgerðanna 31. október.

Við snæddum hádegisverð í sólskininu á götuveitingahúsi og nutum þess að láta sólina baka okkur á meðan. Því næst var slökkvilið bæjarins heimsótt, en það sér um björgunarþjónustu svæðisins. Þaðan var svo haldið í sjúkrahúsið og það skoðað og rætt við fólk.

Björgunarliðið í Povoacao hafði aldrei komist til Ribera Quente þegar skriðurnar féllu, þar sem allt vegasamband rofnaði á milli. Þess vegna hafði aðstoðin mætt á björgunarliðinu frá Vila Franco do Combo eins og áður sagði. Af sömu ástæðu hafði lítið mætt á sjúkrahúsinu í Povoacao, en af þeim kynnum sem ég hef haft af skúkrahúsþjónustunni á Azoreyjum almennt, eru þau skipulagslega mjög illa undir það búin að taka við fjöldaslysum. Þótt hlutverk mitt í skipulagferðum til Azoreyja hafi snúist um viðbúnaðar- og viðbragðsskipulag gegn náttúruhamförum og öðrum áföllum var eins og yfirvöld teldu tenginguna við heilbrigðisyfirvöld vera afgangsstærð og mætti ég lítils skilnings þegar ég leitaði á þau mið. Minnist ég einnar heimsóknar minnar til aðalsjúkrahússins í Ponta Delgata, sem er stærsta sjúkrahúsið á eyjunni. Þegar ég spurðist fyrir um hvernig þeir hugsuðu sé að standa að greiningu og forgangsröðun slasaðra í fjöldaslysum var því svarað að þeir gengju fyrir sem hæst létu og mest sæist af blóði á. Svarið var andstætt þeirri kenningu að oft heyrist minnst í þeim sem verst eru farnir og að innvortis áverkar án sýnilegs blóðs geta verið alvarlegastir. Er það tilfinning mín að læknum þar, sem svo víða annarsstaðar, hafi tekist að "múra sig inni í þeim fílabeinsturni sérhæfni", sem leiðir til þeirrar þröngsýni sem oft hamlar allri skipulagslegri framþróun. Sú þröngsýni þekktist mjög vel á Íslandi, ekki aðeins innan læknastéttarinnar, þegar heildstætt skipulagsferli neyðarviðbragða hófst á vegum Almannavarna á áttunda áratugnum.

Eftir að við vorum búin að ræða við fólk í Povoacao héldum við áfram A til þorpsins Fial da Terra en þar hafði grjótskriða fallið á hús. Skoðuðum við vegsummerki þar og hitti ég húsráðanda við rústir heimilis síns, en eiginkona hans hafði slasast og var á spítalanum í Ponta Delgata. Maðurinn var í góðu jafnvægi, þótt hugtakið "áfallahjálp" væri óðekkt þarna og sagði okkur skilmerkilega frá hvernig upplifunin hefði verið þegar og eftir að skriðan féll.

Um kvöldið héldum við svo til baka til Ponta Delgata, en daginn eftir átti ég fund með yfirvöldum á Sao Miguel þar sem ég gerði grein fyrir athugunum mínum og ábendingum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband