22.1.2008 | 21:56
131. Lyon og áfram heim.
Leigubíllinn var mættur á bryggjunni stundvíslega kl. 08:00 til að keyra okkur í veg fyrir lestina í Dijon. Við vöknuðum kl. 06:00 og borðuðum morgunverð, gengum frá síðustu hlutum í tösku, lokuðum fyrir gas og rafmagn, og læstum bátnum. Ferðin heim var hafin. Um klukkustund síðar vorum við komin á járnbrautarstöðina í Dijon þar sem lestin var tekin til Lyon og vorum við komin þangað fyrir hádegi. Það voru óneitanlega viðbrigði að koma til Lyon þennan fallega sólskinsdag. Mannmergðin og stórborgarbragurinn í þessari þriðju stærstu borg Frakklands, með 1.8 milljón íbúa olli smá "culturesjokki" hjá okkur eftir alla sveitamenskuna síðustu vikur. Við tókum okkur leigubíl á glæsihótelið sem við vorum bókuð á í miðborginni, á bakka Rhon fljótsins sem liðast um borgina, beint framan við herbergisgluggann okkar. Eftir að hafa komið okkur fyrir fórum við í göngu um miðborgina, snæddum léttann hádegisverð og ákváðum að komast betur yfir hana daginn eftir með því að taka okkur Sight Seeing Tour. Deginum eyddum við hins vegar á strætum miðborgarinnar og við góðan kvöldverð í notalegu umhverfi við aðal veitingahúsagötu Lyon.
Strax morguninn eftir fórum við svo í skoðunarferðina um borgina og var hún hreint frábær. Lyon er ein af fallegustu og mest sjarmerandi borgum sem við höfum heimsótt og höfum við heimsótt þær margar í nokkrum heimsálfum og mörgum löndum. Hún teygir sig um hæðir og ása, fljótin Rhon og Saône renna sitt hvoru megin við miðkjarnann og minnir landfræðilega á Mannhattann þótt skýjakljúfana vanti enda myndu þeir ekki passa við sjarma borgarinnar. Renna fljótin saman í eitt sunnan við miðborgina.
Borgin er full af stórkostlegum byggingum, sögu Rómartímans, listsköpun og iðandi mannlífi hvar sem komið er. Er það meirháttar tilhlökkun að eiga eftir að sigla þar í gegn í vorsiglingunni sem framundan er og verður örugglega stoppað þar í einhvern tíma og reynt að njóta lystisemda og fegurðar hennar betur. Við vorum dösuð eftir langan dag þegar við gengum til náða þetta kvöld, og ekki veitti af hvíld fyrir daginn framundan, því upp þurftum við að fara kl. 05:00 til að ná vélinni til Kaupmannahafnar og áfram heim.
Til Keflavíkur komum við svo um eftirmiðdaginn daginn eftir, eftir þægilegt flug með SAS og Iceland Express.
Þótt hér ljúki ferðapistlum siglinganna 2007 mun ég halda áfram að blogga ýmsa pistla sem tengjast einstökum atriðum þessa lífsstíls eldri borgara, sem með svona ævintýrum ganga aftur í barndóm.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.