11.1.2008 | 17:52
126. Gray, stjórnlaus hryllingur á hættulegum stað.
Áhöfnin seilist í spottann að setja fast.
Eins og sagði í síðasta pistli þá lögðumst við að í Gray kl. 16:30, fimmtudaginn 30. ágúst s.l. Ákváðum við að leggjast í Port Connoisseur sem tilheyrir bátaleigu með sama nafni því þar er öll þjónusta t.d. böð sem við höfðum ekki komist í síðustu tvo daga. Þarna er bátum þétt lagt, með skut að bryggju og stefni út í fljótið og var okkur ekki skotaskuld úr því að koma okkur þannig fyrir, enda flestu orðin vön. Hins vegar kom babb í bátinn þegar við sögðumst vilja liggja þarna fram á sunnudag því að daginn eftir, á föstudeginum, þá er skila- og útleigudagur á bátum hjá bátaleigunni þannig að þá eru þeir allir í höfn og ekkert pláss fyrir gestabáta. Við yrðum því að rýma plássið strax næsta morgun. Létum við okkur hafa það þar sem skammt fyrir neðan er almenningslegukantur við miðbæinn svo við yrðum ekkert ver sett þar, nema að óvissa var um rafmagn.
Eftir að búið var að koma sér fyrir, ganga frá formlegum hlutum og fara í sturtu og súnna sig vel var farið í bæjargöngu, en Gray er frekar lítil en vinaleg borg með ágætis miðbæjarkjarna. Hluti bæjarins stendur á hárri hæð og létum við Sigurður okkur hafa það að klifra upp 100+ tröppur í gegnum húsasund til að heimsækja kirkju staðarins sem trónir við torg á toppi hæðarinnar þar sem jafnframt er ráðhús bæjarins og nýtískulegt dvalarheimili fyrir aldraða að sjá mjög vandað og huggulegt. Fúrnar slepptu þessu klifri og kíktu í búðir staðarins í staðinn. Það var orðið vel liðið á dag þegar við vorum búin að skreppa um borð svo við ákváðum að finna einhvern veitingastað til að snæða kvöldverð, en við vorum búin að sjá einn eða tvo við aðalgötuna sem okkur leist þokkalega á. Var nú land lagt undir fót og þeir heimsóttir en sá fyrri var mannlaus og ekki aðlaðandi að okkur fannst og næsti, sem er kínverskur, opnaði ekki fyrr en seinna um kvöldið svo ekki var um auðugan garð að gresja. Eftir að vera búin að þramma aðalgötuna á enda komum við að litlum bar þar sem sest var og pantaður bjór. Spurðum við vertinn hvort ekki væri hægt að finna veitingastað í nágrenninu, annað en skyndibitastað sem öllu tröllríður allstaðar, og benti hann okkur á stað sem stendur í almenningsgarði um 1.5 km. ofar með fljótinu. Eftir bjórglasið var því steðjað af stað og komið um tuttugu mínútum síðar að þessum fallega veitingastað í stórum opnum garði, við fljótsbakkann, þar sem kvöldsólin var að hníga í skógivaxnar hlíðarnar á hinum bakka fljótsins. Við vorum fegin að setjast til borðs enda orðin göngumóð eftir daginn.
Nú kom að því að panta matinn og kom matseðillinn eingöngu á Frönsku svo að nú var leitað upplýsinga um hina margháttuðu rétti hjá þjóninum, sem hann var allur að vilja til að útskýra. Mælti hann sérstaklega með fiski úr Saône fljótinu sem rann þarna utan við gluggann en var fljótur að setja upp afsakandi bros þegar hann sá viðbrögðin hjá frú Lilju Ben sem hryllti sig, enda búin að sigla fljótið endilangt og sjá hvað það hefur að geyma auk þess sem hún veit hvað við vorum búin að setja í vatnið og efalaust annað bátafólk. Annars er Saône fljótið vinsælt til veiða og fiskurinn snæddur um allt Frakkland við góðan orðstír. Ekki man ég hvað hvert okkar borðaði á þessum ágæta veitingastað en maturinn var góður og áhöfnin fór mett og sæl til skips.
Morguninn eftir var komið að því að færa að legukanti bæjarins, sem er rétt neðar í fljótinu, en fara þurfti í gegnum eina slússu sem er við gagnstæðan bakka við viðlegurnar. Frá bakkanum þar sem við lágum liggur svo stífla þvert yfir fljótið, að slússumannvirkinu, en fljótið er látið renna yfir þessa stíflu, yfir 3 m. hátt yfirfall, sem jafngildir þrepinu sem fara þarf niður í slússunni. Voru nú vélar og bógskrúfa ræstar og litið á stýrisvísinn til að sannreyna að hann væri miðskips og mannskapnum sagt að sleppa landfestum. Þegar taugarnar voru komnar inn var vélunum gefið rólega áfram og skipti þá engum togum að báturinn byrjaði að snúast í stjór svo að stýrinu var snúið hratt í bakb. auk þess sem ég gaf púst á bógskrúfunni á bakb. líka til að rétta hann af. Um leið sá ég að stýrisvísirinn var kominn miðskips svo ég hætti að snúa stýrinu, en þá uppgötva ég mér til hrellingar að stýrisvísirinn æðir strax í stjórnb. aftur. Nú voru góð ráð dýr, við komin út á fljótið á stjórnlausum bátnum þar sem straumurinn bar okkur hægt og bítandi í átt að stíflunni fyrir neðan. Varð mér nú að orði að við værum stjórnlaus, stýrið bilað, og er því ekki að neita að frúnum brá illilega en ekkert getur raskað ró Sigurðar, hann var búinn að koma sér fyrir til að setja enda upp í slússunni og lét sér fátt um finnast.
Þegar svona kemur fyrir fljúga allir möguleikar í stöðunni í gegnum hugann, þeir metnir í skyndi og ákvörðun tekin strax. Heyrði ég út undan mér, meðan ég var að yfirfara möguleikana, að sagt er fyrir aftan mig "hvað ætlar hann að gera" og svarað samstundis "ég veit það ekki" en svo var ákvörðunin tekin og ég sagði "við höldum áfam í slússuna, Margrét verði klár á súluna". Ég var búinn að finna út að ég kæmist yfir fljótið og að slússunni með því að snúa stýrinu stöðugt til bakb. og létta undir með bóskrúfunni með því að gefa gott púst öðru hverju. Alla vega gæti ég ef allt um þryti forðast stífluna, þótt við rækjum í átt að henni, með því að skrönglast að bakkanum ofan við slússuna og koma enda þar upp en í algjörri neyð með því að varpa akkeri, en það er hægt að gera við stjórnvölinn ef í haðbakkann slær. Tókst mér að þoka bátnum með skrykkjóttri stefnu að súlunni og svo áfram að slússunni, sem betur fer var opin. En rétt í þann mund sem búið var að "laina" bátinn upp til að fara inn í slússuna hrökk stýrið í lag og allt virkaði nú eðlilega. Endaði þetta því allt vel og þegar búið var að hleypa okkur niður og opna slússuna aftur lögðum við að legukanti bæjarins. Þess ber að geta að engin bilun hefur fundist í stýrisbúnaðinum, sem er glussadrifinn og höllumst við helst að því að aðskotahlutir hafi farið í drifin og snúið stýrinu þaðan því mjög mikið rek var búið að vera í fljótinu af gróðri og drasli.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.