124. Nýtt umhverfi, Saône með meiri hraða á köflum.

 Súlumærin Margrét Súlumærin Margrét grípur í súluna og setur í gang.

Gleðilegt ár kæru lesendur og þakka ykkur fyrir samfylgdina hér "UM SJÓ OG SUND MEÐ LILJU BEN".

Þótt komið sé nýtt ár er ég enn að fjalla um siglingu síðasta árs (123 pistlar komnir um áramót), með einstaka innskotum úr minningasjóði fortíðar, sem rifjast upp af gefnum tilefnum, sem og athugasemdum vegna umræðu sem fram fer á stundum.

Við fórum frá Corre kl. 08:50, miðvikudaginn 29. ágúst áleiðis til bæjarins Scey. Þótt við nú yfirgæfum Canal Des Vosges og hæfum siglinguna niður Saône fljótið þá er það svo bugðótt og grunnt á þessari leið að stundum er siglt inn í skurði sem leiða framhjá aðalfljótinu, í einstök slússuþrep, þar sem fljótið er heft með yfirfallsstíflum til vatnsmiðlunar og reksturs lítilla rennslisvirkjana. Því varð að passa upp á hraðann sem er leyfður 8 sjóm./klst. (15 km/klst.) á fljótinu sjálfu en 3.5 sjóm./klst. (6 km/klst.) á skurðunum, eins og í Canal Des Vosges. Við byrjuðum í Saône og var tilbreyting að fá að keyra þetta helmingi hraðar en búið var að gera dögum saman.

Ég gleymdi að segja frá því að í síðustu slússunni í Canal Des Vosges, sem er í bænum Corre, þar sem við náttuðum, var fjarstýringin fyrir slússurnar endurheimt af okkur því nú kom að nýrri tegund af sjálfvirkum slússum. Þessi tegund virkar þannig að í u.þ.b. 300 m. fjarlægð frá slússunni er siglt undir streng sem liggur yfir fljótið, eða skurðinn eftir atvikum og hangir niður úr honum, yfir miðju, mjúk stöng, nokkurskonar slanga, sem er siglt að, gripið í og snúið uppá, um leið og hún kemur afturmeð,. Fer þá í gang sama ferli og áður er lýst. Fékk nú súlumær áhafnarinnar aukið hlutverk, að grípa um súluna og snúa uppá auk þess að kippa bláu súlunni inni í slússunni upp.

Á þessum stutta siglingalegg, 50 km., bætast 13 þverár inn í Saône fljótið svo það stækkar stöðugt, breikkar og dýpkar, þannig að fljótið sjálft verður stöðugt meiri hluti siglingarinnar en skurðirnir minni, sem er til mikilla bóta. Það verður að játast hér að í eitt skiptið, þegar við vorum á fljótinu sjálfu, engin umferð annara báta í sjónmáli og við í dreifbýli, inni í þéttum trjágróðri, þá stóðst ég ekki mátið að sýna Margréti súlumær og systur, svo og manni hennar, hvernig er að vera með MY LILJU BEN "á plani" og gaf vélunum hressilega inn, við lítla ánægju nöfnu hennar frú Lilju Ben. Sigldum við nú skamma stund á 20 hnúta hraða og var tækifærið notað og vélarnar hlustaðar, titringur metinn, kjölrákin og kælivatnsflæðið skoðað og reyndist allt vera með eðlilegum hætti eftir lagnvarandi lull síðustu vikna. Því var fljótlega dregið af aftur niður á löglegan hraða og þar við látið sitja. Reyndar fukum við upp á plan daginn eftir en af allt öðrum ástæðum. Ástæðan fyrir óánægju frú Lilju Ben með svona spíttaragang er að skömmu áður en báturinn kemst á plan er álagið á vélunum mest og vill þá sóta úr púströrunum, sem kostar extra þrif á bátnum á eftir. Sé maður nógu fljótur yfir þennan álagskafla verður ekki svo mikið sót.

Ferði niður til Scey stóð til kl. 14:05 þegar við bundum þar við bryggju, eftir að hafa leitað fyrir okkur um stund að góðri bryggju. Höfnin, sem er einkarekin, er stór, í viki sem er útgrafið og stendur á eyju, Ile De Haut, sem er mynduð með skipaskurði á Suðurhönd en Saône fljótinu, sem bugðast um hana, á hinar þrjár hendur. Áður en komið er að höfninni, sem við lögðumst í, er siglt á Saône fljótinu sem síðan sveigir til hægri, umhverfis eyna, en við sigldum áfram í skurðinn, sem leiðir Sunnan eyjarinnar að höfninni. Reyndar hefðum við getað farið inn farveg fljótsins upp að miðbæ Scey, alveg að stórri stíflu sem þar er, því þar eru almenningsbryggjur fyrir gestabáta, sem við sáum og virtust mjög fínar og vel í sveit settar. Ástæða þess að ég valdi frekar einkahöfnina er að þar er rafmagntenging og sturtur, sem maður sækist sennilega of oft eftir. Alla vega voru það mistök að láta það ráða þegar upp var staðið. Eins og vant er við komu fór ég, eftir að við vorum búin að binda og tengja rafmagnið upp að hafnaskrifstofunni, sem er í viðbyggingu við sórt skýli í bátaviðgerðastöð sem þarna er. Þegar þangað kom var allt lokað þótt þar væri skilti sem segði að skrifstofan væri opin frá kl. 14:00 til 18:30. Einn mann sá ég á vakki fyrir utan skýlið sem ég veitti ekki frekari athygli en snéri frá. Að venju taldi ég víst að Hafni myndi koma og hafa samband þegar hann sæi nýjan bát í höfninni, svo við bjuggumst til landgöngu til að kaupa inn og skoða bæinn. Nokkur spotti er frá höfninni í bæinn og er gengið í gegnum stórt opið svæði á eynni, með bóndabýli á vinstri hönd. Þegar komið er að bænum er farið yfir fljótið á stórri brú með stíflunni á Saône á hægri hönd þar sem fjöldi svana spókaði sig á lóninu ofan hennar, en við brúarsporðinn er rennslisvirkjun sem nýtir rennslið í fljótinu. Þá var komið í bæinn og hann skoðaður. Þar sem nú var farið að líða að því að Margrét systir og Sigurður færu að kveðja var tækifærið notað og farið inn á ferðaskrifstofu sem við fundum opna og leitað ráða um lestarferðir frá Grey, þar sem stoppa átti næst, suður til Lyon, laugardaginn 1. september því frá Lyon áttu þau að fljúga sunnudaginn 2. Ekki vantaði að stúlkan á ferðaskrifstofunni leysti greiðlega úr möguleikunum á að komast með lest, en síðar kom í ljós að frá Grey ganga engar lestir, hvorki eitt eða annað. Segir þetta allt um ferðaskrifstofur smábæja í Frakklandi, ekki síst þar sem við fengum sjálf að reyna svipaða sögu síðar.

Til að kóróna þessa næturheimsókn okkar til Scey kom svo í ljós að þegar við komum um borð, var búið að aftengja rafmagnið til okkar og þrátt fyrir að enn ætti hafnaskrifstofan að vera opin fann ég ekki nokkurn kjaft til að ganga frá okkar málum, svo við lágum þarna frítt um nóttina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband